Sumarsængin göldrótta, Liverpool-spenna og 94 dagar ...

EllýPáskahátíðin hélt áfram í gær, já, ég veit, þegar systir mín bauð í algjöran sparimat. Tilefnið var svo sem fyrsti í sumri en svona veisla kallaði fram páska- og jólamatarminningar.

 

Hún kom í stutta heimsókn hingað í skýjahöllina áður en hún rændi mér í Kópavoginn svo ég þarf að framkvæma hardcore-leit ... sakleysið svo mikið að ég hafði steingleymt því að hún keypti heilt karton af litlum rúsínupökkum og fram að þessu hafa bara örfáir fundist.

Rúsínustríðið náði í raun hámarki um páskana eftir að hún gerði sennilega (að öllum líkindum, eiginlega pottþétt) samning við alla sælgætisframleiðendur landsins um vissar rúsínuhrellingar í páskaeggjum landsmanna. Þetta er komið í rannsókn og visst ferli hafið. 

 

MYND 1: Elskan hún Ellý var hinn matargesturinn í gær, long time no seen, alltaf jafnskemmtileg.

 

Já, og gleðilegt sumar, elsku bloggvinir! Ég er þegar búin að skipta yfir í svölu sumarsængina og tek þar með á mig alla ábyrgð á þeim kuldaköstum, næturfrosti og hraglanda sem gæti hellst yfir okkur á næstu mánuðum ... munið bara að slíkt fækkar geitungum! Þegar ég keypti mína fyrstu sumarsæng, eitt vorið á Skaganum fagra, skall á svo hroðalegt (að sumra mati) sumar að það eyðilagði næstum Írska daga. Mér var boðið í götugrill á leikskólalóð nokkurri á föstudeginum og það var varla stætt úti, sjá mátti kótilettur, jafnvel lærisneiðar fjúka um grundir. En stinguflugurnar fuku líka í aðra sýslu, minnir mig. Sumarsængin var allt of svöl svo ég skalf allt sumarið og það var ekki fyrr en í lok ágúst að þetta var allt mér að kenna. Almættið, eða alla vega íslenska sum-mættið, virti mig fyrir sér þarna í Jysk, áður Rúmfatalagernum, og ákvað að taka til sinna ráða. Heldur hún virkilega að hún geti átt svalari og betri nætur með því að kaupa þunna sæng ... látum oss sjá ... þessi ósvífna en samt guðdómlega fagra bjartsýnismær þarf að læra sína lexíu. Svo var bara galdrað og ég þurfti að vera með þykkt teppi ofan á sænginni allt sumarið. Ykkar vegna, til að geðheilsa mín haldist ósködduð og sleppi við væl og skæl á samfélagsmiðlum (farið bara til Tene), vil ég nú samt að það komi alla vega tíu sjúklega "góðir" sólskinsdagar svo sumarið 2025 verði gott í manna minnum og mér verði ekki kennt um neitt. Mæli svo um og legg á.

 

Gleðilegt sumar ... bless, hálkaÞessa mynd tók ég út um einn norðurglugga himnaríkis fyrir mörgum árum, og hún er það eina sem fær mig til að sættast við óbærilegan sumarhita (allt yfir 12 gráður) sem nú skellur brátt á - annað slagið.

Ég var mjög lengi (korter? Lagði mjög snemma af stað) að feta mig út á stoppistöð á meðan þessi færð ríkti, hélt mér í hús, grindverk, ljósastaura til að fótbrotna ekki og þar sem Vegagerðin ætlar að fjarlægja stoppistöðina við Garðabraut hefði ég sennilega flutt, ef ég væri ekki búin að því, eða keypt mér bíl og farið að nota loks bleika ökuskírteinið sem ekki nokkur einasti lögreglumaður hefur augum litið. Ég endurnýjaði það græna á sínum tíma, fékk bleikt og hef hossast með það í veskinu mínu í strætó um langa hríð.

 

Eitthvað af fjölskyldumeðlimum er á leið til Liverpool í dag, í skipulagða ferð á spennandi leik sem verður á sunnudaginn. Það þarf bara eitt stig (jafntefli) til að tryggja Liverpool sigur í deildinni ... Visst afmælisbarn fékk þetta sem fertugsafmælisgjöf og fylgifiskurinn sem fer með, honum til halds og trausts, ætlar að kaupa fyrir mig Nero-kaffibaunir, ef sá frábæri kaffistaður er ekki bara með kaffi í vökvaformi, heldur líka baunir. Gleymdi að athuga það þegar ég var á ferðinni bæði í Liverpool um árið og svo seinna í Glasgow.

 

 

Ásgeir SigurvinssonFyrir stuttu sagði ég vissum manneskjum frá því þegar ég fékk fótboltann í merg og bein. Var í blaðamannaferð (upp úr aldamótum) í frábæra Þýskalandi og við fórum auðvitað á leik í Stuttgart. Að sjálfsögðu snæddum við mat í klúbbnum og eldri maður sem sat við næsta borð spurði okkur hvaðan við værum. Frá Íslandi, sögðum við og maðurinn táraðist. „Ohhhh, Sigurvinsson,“ sagði hann klökkur og þurrkaði tárin. Það voru komin allmörg ár frá því Ásgeir Sigurvinsson hætti að spila með Stuttgart en hann var sannarlega ekki gleymdur. Fyrir leik, til að magna upp stemninguna, hljómaði lagið It´s raining men, hallelúja, og sýnd voru glæsileg tilþrif leikmanna ... meðal annars verulega glæsileg hjólhestaspyrna Ásgeirs! Ég sagði frá þessu en sá einhvern furðusvip á andlitum þeirra. „Vitið þið hvað hjólhestaspyrna er?“ spurði ég greindarlega. Viðkomandi manneskjur svöruðu neitandi og ég þurfti að leika hjólhestaspyrnu þar sem ég sat í stól við kaffiborð ... ekki auðvelt en ég held að það hafi tekist. Ég sleppti þeim þó við að sýna stoðsendingar og rangstöðu, það bíður næstu heimsókna. Alltaf svo ótrúlega skemmtilegt og fróðlegt að koma í kaffi til mín. Stundum tala ég í póstnúmerum til að gleðja. Örlítið dæmi: „Ohh, þetta bragðgóða kaffi kemur frá 350 Grundarfirði!“ eða; „Já, ég vinn í Skeifunni, 108 Reykjavík ...“ Á þann máta kem ég inn mikilvægum fróðleik, alla vega til þeirra sem enn senda jólakort. Hverjum finnst ekki gaman að tala um tölur? Já, og Ásgeir var númer 10 hjá Stuttgart.

 

Fyrirspurn á útlenskri Facebook-síðu:

Nú eru komnir 94 dagar. Hvernig líst ykkur á það sem komið er?

 

- 94 dagar? Ekki meira? Finnst það vera 94 ár!

- Bara vel, svona eins og hjá Titanic eftir að það sigldi á ísjaka.

- Hver nýr dagur býður upp á ferskan hrylling.

- Bara 94? Frekar eins og 940!

- Það verður enn meira fjör þegar ég þarf að flýja úr landi til að sleppa við að vera send í fæðingarbúðir.

- Ég finn svo ofboðslega til með Bandaríkjamönnum.

- Því er enginn ælutakki til að ýta á?

- Það mun taka tíu ár að byggja upp það sem hefur eyðilagst þessa 100 daga.

- Ég er að reyna að horfa fram hjá þessu. Er þetta yfirstaðið? En núna?

- Við munum aldrei afbera fjögur ár.

- Nú er búið að bjóða fólki 5.000 dollara fyrir að eignast barn. Ef einhver íhugar það, ætti viðkomandi ekki að eignast börn.

- Ég er bæði reiður og dauðhræddur.

- Stundum langar mig bara til að sofna og vakna þegar þetta er afstaðið.

- Þetta fór úr slæmu í verra.

- Hissa á að við séum enn á lífi!

- Þetta verður bara verra ...   


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og fjórum?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 106
  • Sl. sólarhring: 136
  • Sl. viku: 744
  • Frá upphafi: 1525637

Annað

  • Innlit í dag: 95
  • Innlit sl. viku: 664
  • Gestir í dag: 92
  • IP-tölur í dag: 91

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Ásgeir Sigurvinsson
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband