Óvænt ferð á Skagann, lófalestur og örlagakvittun

Írskir dagar 2025Helgarplanið var niðurneglt, seta við tölvuna og lesa yfir texta sem lá þó ekki lífið á að klára. Þá kom vinkona með góða hugmynd; að skreppa upp á Skaga eftir hádegi í dag - og það gerðum við. Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem til elsku Akraness síðan ég flutti þaðan í október á síðasta ári. Hratt-líður-stund og ýmsar annir hafa valdið því. Stráksi hefur verið duglegur að koma í heimsókn til mín en varð nú ansi glaður að fá okkur Guðrúnu og slóst í för með okkur um tíma í dag.

Á samansettu myndunum má sjá elsku Báru Jóseps sem var með lítinn markað í innkeyrslunni hjá sér á Suðurgötuni. Ég rakst líka á greipjokes (algjört selebrittí á Instagram) sem var að fara á antíkmarkaðinn við Heiðarbraut með Magnúsi syni sínum, ég hitti frábæru, dásamlegu Fatimu ásamt sonunum Ali og Alex á Garðabraut, þegar ég var nýkomin á Skagann. Hún er konan sem færði mér oft gómsætan mat. Síðasta myndin er af Ástu í galleríinu og stráksa. Þegar ég var með bókaþáttinn í útvarpi sundfélagsins fyrir ein jólin var Ásta einmitt ein af Ástunum sem kom í viðtal - sem bókaormur. Ásta í bókabúðinni og Ásta í bókasafninu komu líka. Þátturinn hét einmitt: Þarf alltaf að vera Ásta? (Svarið var já)

 

 

Verð að viðurkenna að það hefði verið skrambi gaman að fara á fyrsta lopapeysuball lífsins í kvöld þar sem Oasis ætluðu að koma saman eftir langa pásu og spila, ég meinti Quarashi ... er einmitt með lagið Stun Gun á spilunarlistanum Ýmis lög á YouTube-veitunni þar sem einnig má finna: Neil Young, Fugees, BG og Ingibjörgu, Dimmu, Smashing Pumpkins, Muse, Nas, Bach, Tatara, King Crimson, Ricky Martin, Eminem, Goran Bregovic, Wu-Tang Clan, The Who, Travis, Dr. Hook, Pink Floyd, Christopher Tin, Björk ...

 

Jana Napoli frá New OrleansÉg fór til lófalestrarkonu fyrir nokkrum vikum. Varð hluti af rannsókn sem þessi kona er að gera - og hitti hana í Borgarbókasafninu í Grófinni þar sem lófalesturinn fór fram. Hún heitir Jana Napoli og er frá New Orleans, hún er sem sagt að skoða hvernig hendur og lófar Íslendinga hafa þróast í gegnum breytta lifnaðarhætti, allt aftur til 17. aldar. Engin spá eða neitt slíkt, bara opinberun á hæfileikum og snilld lófalínuberanna (mínum). Það sem mér þótti einna merkilegast af því sem hún sagði var að tónlist væri ekki bara tónlist fyrir mér, heldur svo miklu, miklu meira - væri mér jafnmikilvæg og súrefni - sem gæti ekki verið réttara. Ég kom til hennar undir þeim formerkjum að ég skrifaði, svo fyrsta val hjá henni hefði sennilega átt að vera gisk á að bækur væru súrefnið mitt ... sem þær eru sko líka og myndlist, ég gæti ekki hugsað mér tilveruna án listar. Húrra fyrir listamannalaunum!

 

 

„Fórstu nokkuð í aðgerð?“ spurði ein Skagakonan í dag því henni fannst ég orðin nokkuð þynnri á vangann en áður. Klukkutíma seinna orðaði önnur kona þetta sama og ég neyddist til að viðurkenna að hlaup á eftir strætó, stöku labbitúr í vinnuna, hopp og skopp í skemmtilegu kennslunni og svo auðvitað að spennuvaldandi og gaslýsandi heilsu- og skrefatalningaappið í símanum hefðu þessar sorglegu afleiðingar (jebb, of lítið af Gurrí) ... nema fjarlægðin geri fjöllin grennri? Held nú samt að ég hafi nú aðallega losnað við hætti-að-reykja kílóin sem bættust við þarna um árið (eftir apríl 2020) en orðin nógu létt á fæti til að nenna að ganga - og ég líka verð að gera það til að geta mætt í vinnu. Svo eru fleiri aðferðir til að safna skrefum en að hlaupa á eftir strætóum og skoppa við kennsluna, eins og þvælingur í búðir eða skrepp á Skagann ...

 

Fór til dæmis með systur minni á nokkra staði á fimmtudaginn, meðal annars í Costco og Ikea. Keypti kattasand í Costco og kleinur í Ikea, og almennilegt skóhorn, loksins. Uppskar rúmlega 5.000 skref þann dag sem er ansi hreint miklu betra en á venjulegum fimmtudegi. Ég hrapa nefnilega niður um helgar og á frídögum; mánudögum og fimmtudögum ... en gönguferðir í dag á Skaganum gáfu mér líka rúm 5.000 skref.

Veit að ýmsir tíuþúsundskrefarar hlæja hæðnislega að þessu skrefamonti í mér - en þetta er samt mikið afrek hjá fyrrum (well) sófakartöflu sem fór varla upp fyrir 500 skref í 300 himnaríki, enda vinnustaðurinn aðallega tölvan og ég þurfti bara fram í eldhús til að ná í kaffi svona þrisvar á dag.

 

Alltaf númer eitt ...Stráksi kom til mín um síðustu helgi og gisti eina nótt. Seinni dagurinn, sunnudagurinn, var algjör letidagur og okkur fannst snilld síðar þann dag að taka strætóinn í Mjóddina frekar snemma og fara út að borða þar, kíkja líka aðeins í Nettó (karlmenn elska búðir). Strætó átti að fara frá Mjódd kl. 20 en við vorum komin rétt upp úr kl. 18 og ætluðum aldeilis að gera okkur glaðan dag í mat og drykk. Í ljós kom að ekki einn einasti veitingastaður er starfandi í Mjódd. Sara kebab og Dominos höfðu ekki verið opnir um tíma sem var algjört áfall að komast að því við vorum bara tímanlega miðað við að borða á þessu frímerki þarna í 109 Rvík. Allt í einu lifnaði yfir mér. Hvernig gat ég gleymt því að bensínstöðvar væru ekki aðeins orðnar að sjoppum nútímans, heldur líka veitingastöðum (skyndibita-)? Nú myndi Olís hinum megin við götuna bjarga öllu. Það hlytu að vera til Hlöllabátar, Lemondót eða eitthvað slíkt til að seðja og gleðja stráksa. Í ljós kom að það voru bara til hamborgarar þarna. Stráksi fékk sér eitthvað hefðbundið sem hann var sáttur við en ég þurfti endilega að prófa hamborgaranýjung sem var ekkert spes en allt í lagi. Við urðum að kaupa franskar kartöflur með til að fá hamborgara og gos á tilboðsverði, það hefði verið talsvert dýrara að sleppa þeim!!! Fuglar í grennd svoleiðis stórgræddu á því nokkru seinna sama dag.

 

Svo fyrirgaf ég allt, ekki bara af því að afgreiðslan var svo ljúf og góð, heldur af því að miðinn/kvittunin sem ég fékk gerði svo mikið fyrir mig andlega (sjá mynd) þegar ég skoðaði hann betur. Hann efldi sjálfstraust mitt til muna og fékk mig til að finnast ég nóg ... ekki bara það, heldur líka besta útgáfan af sjálfri mér! 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og fjórum?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.7.): 251
  • Sl. sólarhring: 269
  • Sl. viku: 392
  • Frá upphafi: 1529309

Annað

  • Innlit í dag: 215
  • Innlit sl. viku: 339
  • Gestir í dag: 211
  • IP-tölur í dag: 208

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband