Raunir þeirra þriflegu og sjónvarpsþættir satans

MenningarnóttSumarleyfi stendur enn yfir í einni vinnunni minni og vinnualkinn kvelst örlítið yfir því. Vissulega var farið í búðarferð í dag sem var svo mikil innspýting inn í hagkerfið að vextir lækka sennilega strax í fyrramálið.

 

Varð margs vísari á menningarnótt, eða hvert hún teygir sig, alveg strax um morguninn þegar mikil öskur heyrðust inn um gluggann hjá mér. Ég gladdist nú fljótt þegar ég sá að Reykjavíkurmaraþonið var nánast á hlaðinu hjá mér og öskrin voru ekki vegna skelfingar, heldur til hvatningar. Ég ákvað að blunda ögn lengur og svaf óvart alveg til eitt, sem hefur ekki gerst síðan ég var unglingur. Hafði ætlað mér að vera stödd á Hlemmi kl. 13 og kíkja á sérsveitina, vini mína síðan í desember þegar þeir kíktu hingað, sællar minningar. Það var einhvern veginn úr mér allur vindur, mér fannst dagurinn búinn, steingleymdi því auðvitað að hann var nótt, og ákvað að gera ekki neitt. Þótt ég telji mig vera intróvert á margan hátt, einrænan snilling í að muna póstnúmer, svo fátt eitt sé talið, fannst mér asnalegt að fara ein niður í bæ.

Ég náttúrlega bjó á Akranesi í næstum 20 ár og á meðan þurftu vinir mínir og vandamenn að venjast breyttu landslagi. Ég prófaði reyndar að hringja í einn ættingja ... „Ha nei, sérsveitin kl. 13? Ég er að fara að hitta vinkonur mínar þá!“ Og þarna uppgötvaði ég að ýmislegt (allt) hafði breyst í fjarveru minni - vinirnir orðnir að ömmum og öfum, sumir (flestir) búnir að missa áhugann á djammi (miðborgarrölt á menningarnótt) og ýmsar fyrningar átt sér stað. Að ári mun ég sennilega vera búin að finna einhvern (fyrirvari er svo vanmetinn) sem nennir með mér að skoða aðstöðu sérsveitar Ríkislögreglustjóra, ganga niður Laugaveginn, kíkja jafnvel í vöfflukaffi einhvers staðar og taka svo strætó heim. Ég var að vinna nánast allan daginn (nóttina, afsakið), og lét vekjarann í gemsanum hringja kl. 22. Var spennt að vita hvort ég sæi flugeldasýninguna ... og já, ég gerði það, út um gluggann á dyngju minni. Þvílík heppni að hafa keypt íbúð á þessum stað. Óttaðist mest að stóra blokkin rétt hjá byrgði mér sýn, en ég slapp við að upphugsa ráð til að losa mig við hana, hún kemur reyndar í veg fyrir að ég sjái upp á Skaga. Akrafjallið er ágætis sárabót en það er þó fallegra frá Akranesi séð, alveg eins og Esjan er fallegri frá mér séð en frá Skaganum, finnst mér. Svo held ég reyndar að sérsveitin sé með aðstöðu einhvers staðar í Sundahöfn, sem er nánast hér á hlaðinu, það væri eftir öllu. Það koma grunsamlega oft dularfullir svartir jeppar á fullri ferð og með lögguljós þaðan og upp á Sæbraut, stundum nokkrir í einu og þá veit ég að einhver hefur stolið hraðbanka.

 

Samsetta myndin hér að ofan sýnir að báðir stórviðburðir menningarnætur sjást héðan. Ég horfi bara á verðið á íbúðinni minni hækka! 

 

Ég hangi stundum á Instagram fyrir svefninn og í sumum tilfellum er það nokkuð svæfandi, róandi og notalegt. Ekki þó alltaf. Ein sem ég fylgist með þar mælti með heilsueflandi Insta-reikningi, höfuð, herðar, toppur, tær, eitthvað slíkt heitir það. Mér leist aldeilis vel á, enda áhugakona um góða heilsu, og gerðist fylgjandi. Gott væri að sjá hvaða olíur væru heilsuspillandi og annað slíkt. Mikil urðu vonbrigði mín og svekkelsið algjört þegar ég sá að stjórnendur þar telja að covid-bóluefni séu hættulegur þáttur í meintri versnandi heilsu okkar. Það væri sannað! Nefndu aukna tíðni banvænna krabbameina. Að við þekktum eflaust öll einhvern á besta aldri sem hefði dáið skyndilega úr því meini. Ég veit reyndar um þrjá sem hafa farið á síðustu misserum, EN tvö þeirra létu ekki bólusetja sig og töluðu gegn covid-bólusetningum á samfélagsmiðlum. Það pirraði mig líka að sjá þarna að covid hafi verið frekar ómerkileg sótt, nánast bara kvef, og það hafi verið sannað (sá engar sannanir fyrir þessu) að bara þau sem voru veik fyrir hafi dáið úr covid. Ég, vissulega margbólusett og samt enn á lífi, afvinaði þessa síðu og taldi upp á fimmtíu og tvær milljónir áður en pirringurinn loksins hvarf.

 

flugfarþegarHeimur versnandi fer, ekki einu sinni þéttvaxnir flugfarþegar fá að vera í friði! ;) Nú ætlar visst flugfélag að neyða þriflegt fólk til að kaupa tvö sæti. Sem væri í lagi ef flugfélögin væru ekki þekkt fyrir að svíkja fólk sem keypti sér sæti hlið við hlið, t.d. foreldri og barn saman eða hjón saman, borgaði sér fyrir það en fengi svo ekki.

Hvað ef þéttvaxin manneskja myndi borga fyrir tvö sæti en lenti svo í því að annað væri 14B og hitt 33F?

 

Við systur skruppum í IKEA í dag. Ef ég kemst til læknis til að fá vottorð um heilbrigði, gæti fjölgað um einn á heimilinu. Læknirinn aflýsti tímanum sem ég hef beðið eftir í tvo mánuði svo ég þarf nýjan. Panta á morgun, þarf vonandi ekki að bíða í aðra tvo mánuði. Ég fjárfesti í ýmsu svefnherbergisvænu ... skoðaði kommóður og rúm - svona ef ég finn ekki notað. Fæ lánað rúm til að byrja með, 90 x 200, og langar að leita í Góða hirðinum að notaðri kommóðu sem lítið fer fyrir en með ágætt geymslupláss samt. Ég tók með mér tommustokk og mældi sitt af hverju ... ekkert að marka þessar mælingar hjá þessu Ikea-fólki (djók). „Þarna fer nú aldeilis kona með konum,“ hvíslaði mannfjöldinn þegar ég mældi.

Þarf að hrósa IKEA fyrir góðan prófarkalestur á skiltum og miðum.

 

lærlingurinnLangt síðan ég hef kíkt á kannanir á fb ... hér er ein:

Sjónvarpsþáttur sem þú ert neydd/ur til að horfa á í helvíti!

Það komu mörg, mörg, mörgþúsund svör en langsamlega flestir völdu efstu tvo þættina ... ég fór ekki yfir allt svo sem og ég sá bara Star Trek nefnt einu sinni ... en það er auðvitað nóg til að komast á listann.

 

Lærlingurinn (The Apprentice)

The Kardashians

Dr. Phil Show

Friends

Love Island

Star Trek

The Nanny

Real Housewives

How I meeet your Mother

The Walking Dead

Homeland

Jerry Springer 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og nítján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.8.): 17
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 314
  • Frá upphafi: 1532300

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 265
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • lærlingurinn
  • flugfarþegar
  • Menningarnótt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband