Hressandi jarðskjálftaspjall okkar Ástu í morgunsárið

Kaffi Himnaríki er betra en StarbucksÞað er ekkert galið að sofna fyrir miðnætti. Ég fattaði það í morgun þegar ég glaðvaknaði klukkan sex við SMS frá Ástu: "Viltu kíkja á vindhviðurnar á Kjalarnesi!" Ég rauk morgunhress inn í vinnuherbergi og sá að þær voru bara um 25 m/sek. Skreið upp í aftur og dormaði til 6.30, enda er skipulagningin svo hrikalega góð að ég þarf bara 20 mín til að klæða, snyrta og gera latte áður en Ásta rennur í hlað á drossíunni. Við spjölluðum saman á leiðinni að vanda:

JarðskjálftiÁsta: "Ég keypti völvublaðið, hún er nú svolítið myrk í máli núna, völvan!" Gurrí: "Ekkert svo rosalega, það eykur t.d. bara straum ferðamanna hingað að fá gott eldgos og svo ef stjórnin fellur þá er það væntanlega bara spælandi fyrir Samfylkingu og Sjálfstæðis, spennandi fyrir alla aðra ..." Ásta (spámannslega): "Það kemur eldgos, ekki spurning, og það verður hér í grennd við höfuðborgina, kannski nálægt Hveragerði og Selfossi ..."

Svo allt í einu vorum við farnar að tala um stóra skjálftann árið 2000. Mig langar að skrifa bók (ja, eða bloggfærslu) um það hvað fólk var að gera þegar skjálftinn reið yfir. Ásta: „Á þessum tíma leigði ég íbúð í blokkinni bak við Garðabraut 45 og það eru rosalega stórir gluggar á stigaganginum. Við vinkona mín vorum að fara niður í bæ (á Akranesi) með börnin og hún var lögð af stað niður þegar ég fann fyrir höggbylgjunni á undan skjálftanum. Ég argaði á hana að drífa sig upp aftur, ég var svo hrædd um að rúðan myndi springa. Svo sá ég jörðina (bílastæðið) ganga í bylgjum, það var hrikalegt.“ Gurrí: „Vá, hvað þú ert næm að fatta hvað þessi fyrirvarahvinur táknar.“ Ásta: „Já. “ Gurrí: Þegar eftirskjálftinn kom þarna 2000, þessi seinni, þá fann ég líka fyrir höggbylgju af því að ég bjóst við jarðskjálfta, beið vakandi uppi í rúmi og hugsaði: Er hann að koma núna, er hann að koma núna, er hann að koma núna?“ Ásta starði á mig með samúðarglampa í augum, sem er sjaldgæft hjá þessu hörkutóli, og sagði: „Rosalega rífur í bílinn, það hlýtur að vera meiri vindur en 25 m/sek.“ Þarna steingleymdi ég um hvað við höfðum verið að tala og náði því ekki að segja henni allar hrikalegu lífsreynslusögurnar sem ég hafði heyrt um 17. júní 2000. Jú, reyndar, um feginleika okkar Hildu systur vegna mömmu að hún skyldi ekki hafa verið heima á efstu hæð í Asparfellinu svona líka jarðskjálftahrædd ... „Já, Hilda, hvar er annars sumarbústaðurinn sem mamma er í?“Díana prinsessa „Í Grafningi,“ svaraði Hilda umhugsunarlaust. Svo föttuðum við báðar í einu hvað hún hafði sagt. Ekkert spurðist til mömmu í viku en hún reyndist alveg heil á húfi, ofsaglöð að hafa lent í þessu ævintýri. Jú, og um unga manninn sem sat á klósettinu heima hjá tengdó í sinni fyrstu heimsókn og hún lá á hurðinni: "Opnaðu, það verður að opna allar dyr í jarðskjálfta, opnaðu, segi ég!" Jamm, mér finnst samt best þegar ég heyrði af þýska eða svissneska jarðfræðingnum sem var á ferðalagi á Íslandi og upplifði þetta ævintýri ... hann hafði lært um jarðskjálfta, kennt um þá en aldrei lent í slíkum. Nú fékk hann þetta beint í æð.

Vona að þetta jarðskjálftamálæði mitt viti ekki á stóran skjálfta. Einu sinni helgaði ég Díönu prinsessu næstum heilan útvarpsþátt á Aðalstöðinni og innan við sólarhring síðar lést hún í bílslysi með Dodi sínum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunna-Polly

spurning um hver þessi hann var sem þú varst að bíða eftir þarna alein upp í rúmi en best  að hafa  allar hurðir opnar næsta sólahringinn

Gunna-Polly, 4.1.2008 kl. 08:53

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Úff bjó á Laugaveginum í "herrskapslejligheden" og stofan varð hornskökk, ég segi það satt.

Knús á þig inn í daginn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 4.1.2008 kl. 09:27

3 identicon

Við bíðum enþá eftir 3 skjálftanum út Suðurlansskjálfta pakkanum ....kanski keumur hann fljótlega ...Hef ekki áhyggjur af gosi nærri Selfossi þar sem enginn virk eldfjöll eru þar nærri. En mig hefur dreymt gos í Henglinum fyrir ofan Hveragerði í mörg ár og það er skerí.....

Kanski verður þetta spennandi náttúruhamfara ár !!!

Magga (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 09:53

4 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Úff ég hljóð út í garð eins ég ætti að lífið að leysa og var með kaffibolla með mér og hnífapör og hvers vegna það veit ég ekki.

Kristín Katla Árnadóttir, 4.1.2008 kl. 10:26

5 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

ÚFF OG ÉG ÞOLI EKKI JARÐSKJÁLFTA!

Ætli ég verði ekki bara að flytja norður aftur, þar skelfur jörðin örugglega ekki hehehehehe 

Guðrún Jóhannesdóttir, 4.1.2008 kl. 12:01

6 Smámynd: Turetta Stefanía Tuborg

Ég var í 12 hæða blokk í Sólheimunum þegar seinni skjálftinn reið yfir ( á ekki að orða þetta svona? ) Strákurinn minn var í sveit í Villingaholtshreppnum og hann hljóp út á hlað á nærbuxunum einum fata.

Hmmm... það er alla vega ekki hætta á "Suðurlandsskjálfta" fyrir norðan. En hvað með Dalvíkurskjálftann 1934. það er hægt að lesa sér til um hann á www.julli.is og svo man ég eftir jarðskjálftum í Kelduhverfinu sjötíu og eitthvað....Ég er ekkert að reyna að hræða neinn sei,sei,nei..

Turetta Stefanía Tuborg, 4.1.2008 kl. 13:03

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Turetta, var það ekki 1975? allavegana hljóp ég út á inniskóknum og það var mikill snjór fyrir norðan.  Elsku besta Gurrý, ekki skrifa um þann stóra, það er ótrúlega ónotalegt að skjálfa upp á 4 hæð á Selfossi.  Von að það verði farið að lægja á heimleið.  Knús í latté   Earthquake 

Ásdís Sigurðardóttir, 4.1.2008 kl. 13:34

8 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

TAKK fyrir þessa ÁGÆTU upplýsingar Turetta Stefanía, nú get ég HVERGI átt heima

Guðrún Jóhannesdóttir, 4.1.2008 kl. 13:53

9 Smámynd: Þröstur Unnar

Hva, það er nú bara hressandi að hristast.

Þröstur Unnar, 4.1.2008 kl. 15:08

10 Smámynd: Turetta Stefanía Tuborg

Ekkert að þakka Guðrún mín.Bara að virða það

Ásdís, þetta var sennilega '75-'76. 

Turetta Stefanía Tuborg, 4.1.2008 kl. 15:24

11 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Mér finnst tengdamóðirin sem hékk á klósetthurðinni best

Þetta með Díönu er frekar skrýtin tilviljun

Jóna Á. Gísladóttir, 4.1.2008 kl. 15:57

12 Smámynd: Turetta Stefanía Tuborg

Ég heyrði eina góða sögu frá 17.júní skjálftanum.

Nokkrar vinkonur sátu og voru að fylgjast með hátíðarhöldunum þegar ein æpir upp "Hvað var þetta...jarðskjálfti!!!" Vinkona hennar svarar hin rólegasta "Nei,nei.Þetta var bara hún Ella að labba fram hjá.hún er svo svakalega ólétt!"

Turetta Stefanía Tuborg, 4.1.2008 kl. 16:58

13 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Ég tók ekkert eftir jarðskjálftanum, var á gangi frá Hljómskálagarðinum heim til mín á Njálsgötuna. Svo fór að koma fólk út í dyr, við skildum ekki neitt í neinu. Reyndar hafði einn úr hópnum fundið dyninn.

Heima gerðist ekkert, nema páfagaukurinn nefbrotnaði...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 4.1.2008 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 222
  • Sl. viku: 640
  • Frá upphafi: 1505931

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 515
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband