Jamms, glórulaus hríð

Útsýnið frá himnaríki í morgunVeðrið á Skaganum var ansi gott í morgun milli sjö og átta en þegar ég tölti út á stoppistöð tók ég eftir að snjóað hafði um ansi marga millimetra síðan í gær. Gummi bílstjóri ók Innnesveginn út úr bænum og sagði að Tommi og aukabíllinn hefðu farið aðalleiðina (sem strætó gerir aldrei) þarna klukkutímanum áður og verið kannski eitthvað seinni fyrir bragðið. Gummi kvartaði í talstöðinni yfir skafskorti á leiðinni að göngum en í göngunum var dásamlegt veður. Á Kjalarnesi var vel skafið ... en þar var kolvitlaust veður. Eiginlega bara rosaspennandi að keyra þessa leið í blindbyl. Rétt áður en við komum í Kollafjörðinn lentum við í langri röð bíla. Fremsti bíll hafði stoppað og það var ekki fyrr en þessi fyrir aftan þorði að fara fram úr sem allt fór að mjakast aftur. Farþegarnir misstu af leið 15 í Mosó en við vorum svo seint á ferð að aðeins fimm mínútur voru í næsta vagn ... og ég er að tala um marga klukkutíma á milli ferða, alla vega korter eða hálftíma.

Svona var ástandið á bílastæðinuErla heilsaði mér með virktum á útleið í Mosó, ég hafði ekki séð hana fyrir öðrum farþegum. „Eigum við að leggja í hann?“ spurði hún og benti á bílinn sinn. Hann var á sama bílastæði og á dögunum þegar okkur tókst ekki að bifa honum. Ég var ögn bjartsýnni en Erla. Ég hefði átt að muna eftir því að ungar stelpur eru ekki jafnmikið fyrir að fara út að leika sér í snjónum á bílnum sínum og strákar. Ég mæli hér með innilega með því að stelpur geri slíkt hið sama, bara upp á æfinguna. Nú, ég ýtti og svo kom yndisleg útlensk kona sem var líka á smábíl nema henni tókst auðveldlega að aka þarna í sköflunum á planinu. Henni tókst þó ekki að bifa bíl Erlu og það var ekki fyrr en myndarlegur karlmaður kom þarna að sem eitthvað fór að ganga. Hann notaði bara sjarmann og kynþokkann á bílinn sem ákvað að drífa sig upp úr snjónum fyrir hann. Við Erla urðum ástfangnar af honum á staðnum og spurðum: „Bæjarstjóradótturina eða blaðamanninn?“ Hann horfði á okkur til skiptis og tók á rás, þaut með örskotshraða yfir skafla og hindranir. Við höldum að það hafi verið þegar hann komst að því að við vorum frá óvinasveitarfélaginu Akranesi! Erla er reyndar rétt rúmlega tvítug (24) og ég rétt rúmlega fertug (49). Líklega hefur maðurinn bara verið rétt rúmlega þrítugur (37) og upplifað valkvíða. „Ung kona eða enn yngri kona?“ hefur hann eflaust tautað fyrir munni sér áður en hann flúði af hólmi, enda sennilega að verða of seinn til vinnu, blessaður engillinn.

Meiri snjórErla ætlar að tjöruhreinsa dekkin á bílnum, jafnvel fá sér betri dekk, þetta eiga að heita nagladekk ... og svo ætlar hún á bílnum alla leið á Skagann í kvöld og ég get fengið far með henni í fyrramálið, efast um að strætó gangi miðað við veðurspána.

Ég viðurkenni alveg að ég hlakka til vorsins, við Erla töluðum um að það mætti alveg fara að rigna bráðum ... en samt er gaman að hafa svona algjöran vetur. Ég hef raulað jólalög fyrir munni mér í morgun, enda algjör jólasnjór, ja, páskasnjór eða jafnvel bolludagssnjór! Sú þriggja daga hátíð fór eiginlega fram hjá mér þetta árið. Missti mig ekkert í bollum, saltkjöti eða ösku. Tek bara páskana grand að þessu sinni.

Á sunnudaginn á himnaríki tveggja ára afmæli! Þá verða komin tvö ár síðan ég flutti úr Vesturbænum og alla leið á Skagann. Hef ekki séð eftir þeirri ákvörðun. Sakna að vísu vinanna, samskiptin hafa eðlilega minnkað ögn, og svo sakna ég miðbæjarins mjög mikið. Sérstök sælutilfinning kemur yfir mig þegar ég skrepp niður á Laugaveg/Bankastræti ... sem ég fann sjaldan fyrir þegar ég bjó í bænum. Skaginn tók rosalega vel á móti mér, íbúðin er yndisleg og fólkið alveg frábært. Einarsbúð jafnast á við Kjötborg, er reyndar stærri en þjónustan er jafnpersónuleg og yndisleg. Jamms, ég er að missa mig hérna, best að fara að vinna, það er meira en nóg að gera.


mbl.is Ófærð víða um land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl mín kæra, já nú er mikill snjór hér á landi, maður er alveg að gefast upp á þessum hryllingi, sem margir fagna en ekki ég. Var að enda við að moka einhverrum óskup af snjó af svölunum hjá mér, best að gera það þar er að mínar svalir eru þakið á íbúðinni fyrir neðan mig, ekki vil ég að það leki af mínum völdum niður á góða nágranna. Annars er allt gott af mér að frétta, komin frá því að vera í mánuð á NLF'I í Hveragerði, mikið er það dásamlegur staður að vera á, slappa af, borða góðan mat og fá nudd og fara í leir. Fer örugglega aftur einhverntíma á næsta ári, ef ég lifi svo lengi hér í snjónum.

 bestu kv til góðrar vinkonu sem flutt er af Hringb

siggi

siggi (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 12:22

2 Smámynd: Hdora

Þetta er með ólíkindum, allur þessi njór....!!!

Hdora, 7.2.2008 kl. 12:24

3 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Þú verður bara að koma oftar í heimsókn ef þig vantar miðbæjarfíling.

Nanna Rögnvaldardóttir, 7.2.2008 kl. 12:34

4 Smámynd: Linda Lea Bogadóttir

Já hann er sko makalaus þessi blessaði snjór. Hamlar mér í að komast norður á þorrablót og á skíði.
Hafðu það gott á Skaganum

Linda Lea Bogadóttir, 7.2.2008 kl. 18:19

5 Smámynd: Tiger

Ok, svo þú ert ekki skagamær af húð og hári - bara aðfluttur Ands****...

Einarsbúð er væntanlega ennþá við Skagabrautina og ef ég man rétt þá er satt hjá þér að þjónustan þar var frábær. Tengingar á skagann eru einhvers staðar í minninu  en þokkalega góðar eru þær. Gangi þér vel að laga þig að nýjum heimahögum og kvitt og kveðjur til skagamanna..

Tiger, 7.2.2008 kl. 19:04

6 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

kvitt kvitt og kveðjur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 7.2.2008 kl. 20:11

7 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

Ég sem hélt að ég hefði heilsað þér með virktum og sagt; Sæl. Ég heiti Mikael Torfason!

erlahlyns.blogspot.com, 7.2.2008 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 41
  • Sl. sólarhring: 94
  • Sl. viku: 679
  • Frá upphafi: 1505970

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 546
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband