Gleði, tilhlökkun og ... nöldur

PáskaeggBúið er að festa kaup á páskaeggjum himnaríkis og nú mega páskarnir bara koma. Mig langar rosalega mikið til að fela egg erfðaprinsins og að biðja hann um að fela mitt. Síðan gætum við búið til leyndardómsfull fjársjóðskort sem leiða okkur að enn dularfyllri vísbendingum. Svo verðum við á endanum mjög pirruð eftir þrot- og árangurslausa leit kl. sjö á páskadagsmorgni og ráðumst á eggin sem við földum sjálf. Annars finnst mér svolítið pirrandi að hafa svikið það loforð sem ég gaf sjálfri mér þegar ég var lítil. Ég ákvað að þegar ég yrði fullorðin og ætti þar með fullt af peningum ætlaði ég alltaf að kaupa stærsta páskaegg sem framleitt væri, jafnvel fleiri en eitt, og einnig ætlaði ég alltaf að eiga fullar skúffur af sælgæti! Eins og þetta var í raun snjöll hugmynd þá hef ég svikið sjálfa mig þarna (ljótt að svíkja börn) og keypti bara aum páskaegg númer fimm frá Nóa Síríus handa okkur erfðaprinsi. Það hefði reyndar verið snjallt að lesa fyrst páskaeggjadóminn sem er í DV í dag þar sem Nanna Rögnvaldar og fleiri smökkuðu páskaegg og sögðu mjólkurlausa eggið frá Freyju vera það besta. Svo gleymdi ég reyndar að gera ráð fyrir því að mamma gefur mér páskaegg á hverju ári og er þegar búin að kaupa handa mér eitt ... þótt ég sé orðin 49 ára. Í gamla daga dugði eitt vænt páskaegg til hádegis en nú tekur átið marga, marga daga og stundum fer restin í ruslið nema komi gestir sem hjálpa til við átið.

FermingarveislusúkkulaðitertaFyrir mjög stuttu var engin fermingarveisla fram undan. Síðan hafa dottið inn þrjú boðskort, þar af innihalda tvö þeirra boð annan í páskum, annað þeirra í 170 Seltjarnarnes og hitt í 101 Reykjavík. Svo sá ég á vef RÚV að þann 28. mars nk. á Skagaliðið að keppa við Kópavog í Útsvari. Fyrst ég er komin á kaf í dagsetningar þá erum við erfðaprins að alvarlega að pæla í því að skreppa til Londres á fótboltaleik 26. apríl nk. og sjá West Ham keppa við Newcastle!

FormúlanJæja, nú er það Gettu betur, Taggart og Bruce Willis ... og svo er Formúluhelgi sem minnir mig á að ritstjórar Gestgjafans fengu VIP-boðskort á Formúluhátíðina sem haldin var í Perlunni í gær. Ritstjórinn minn fékk þannig líka. Þessar konur hafa engan áhuga á Formúlunni, held ég. Sem virðulegur aðstoðarritstjóri og án efa mesti Formúluaðdáandi innan Birtíngs verð ég að lýsa yfir móðgun minni yfir þessari höfnun. Annar ritstjóri Gestgjafans "komst" ekki og gaf mér VIP-kortið sitt og ég hefði mætt undir hennar nafni (kortin voru með nöfnum á, vantaði ekki fokkins flottheitin) hefði ég ekki þurft að ná síðasta síðdegisstrætó heim eftir langan vinnudag.

Leiðakerfi strætóAnnað, fyrst ég er farin að nöldra. Ég fékk upphringingu frá Míu systur í dag. Hún þurfti að vita hvenær fyrsti strætó eftir hádegis-síestu bílstjóranna færi frá Akranesi. Það er ekki séns fyrir hana að geta lesið leiðakerfið á Netinu þar sem það er enn bara á PDF-skjali. Eins gott að ég var í vinnunni og gat kíkt á þetta fyrir hana, heima frýs tölvan mín alltaf ef ég reyni að skoða leiðakerfi strætó og ég hef bara leyft því að gerast tvisvar. Hvers vegna getur þetta ekki bara verið til skoðunar á Netinu? Svona er þetta bara hugsað fyrir fólk sem vill prenta út. Þetta er bara ofan á þær fúlu breytingar á leiðakerfi strætó, svona almennt, þar sem m.a. danskur gaur var fenginn til að skipuleggja kerfið, gaur sem sá til þess að enginn vagn stoppaði t.d. fyrir utan Elliheimilið Grund og fleiri nauðsynlega staði (gleymdist ekki Blindraheimilið við Hamrahlíð líka?) og ég þurfti að taka þrjá vagna úr Vesturbænum í stað eins til að komast í vinnuna. Af hverju var ekki talað við mig eða strætóbílstjóra? Jamm, þetta er greinilega sannkölluð gleði- og nöldurfærsla. En nú er Gettu betur byrjað! Erfðaprinsinn veðjaði við mig upp á 50 kall að MR ynni, ég tók veðmálinu og held því með MA!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og bestu óskir um góða helgi

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 14.3.2008 kl. 23:23

2 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

Góða helgi dúllan mín og dreymi þig fallega drauma í nótt

Guðrún Jóhannesdóttir, 14.3.2008 kl. 23:49

3 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

verstur fjárinn að þú skyldir ekki vinna. Grrr!

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 15.3.2008 kl. 01:27

4 identicon

Hrikalega skemmtileg Gettu betur keppni. Stelpan mín kom heim um hálf fjögur í nótt (var í stuðningsliði MA) Hún var bara kát þrátt fyrir úrslitin og sagði að allir hefðu bara verið himinlifandi með gengið MA liðsins og MR hefði verið flottur mótherji. Svona á að taka tapi  Hafðu það gott um helgina dúllan

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 09:38

5 Smámynd: Brynja skordal

Hafðu ljúfa helgi mín kæra

Brynja skordal, 15.3.2008 kl. 10:23

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Njóttu eggs og helgarinnar.  En ekki smakka fyrr en á sunnudaginn.  Hm...

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.3.2008 kl. 14:13

7 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Það borgar sig ekkert að kaupa risaegg. Pabbi keypti einu sinni risaegg handa okkur mömmu áður en hann fór á sjóinn fyrir páska. Við mæðgur stilltum því upp á sjónvarpið og horfðum á það ástaraugum þangað til það hrundi skyndilega. Hitinn frá sjónvarpinu hafði brætt fótinn.

Helga Magnúsdóttir, 16.3.2008 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 20
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 654
  • Frá upphafi: 1506007

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 529
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband