30.10.2023 | 17:38
Margfalt persónulegt met í óviljandi göngu í Glasgow
Glasgow-ferðin var skrambi góð. Við systur og fylgifiskar vorum ekkert í því að sprengja okkur í einu eða neinu. Það var búið að benda okkur á veitingastaði í grennd en við létum bara ráðast hverju sinni hvar, snæddum t.d. tvisvar á hótelinu, einu sinni á ítalska staðnum hinum megin við götuna og tvisvar á Fridays. Allt alveg prýðilega gott.
Við náðum að kynnast miðborginni nokkuð og það sem var óhugnanlega langt labb fyrst var pís of keik nokkrum dögum seinna. Talandi um labb ... eða að ganga, kannski aðallega skref. Ég setti margfalt persónulegt met í óviljandi göngu, og ef það er keppnisgrein er ég gullverðlaunahafi. Sjá afskaplega átakanlega sönnun úr símanum mínum. Ég kíkti áðan á meðaltalsgengna kílómetra nýliðins lífs míns og þar á meðal var dagurinn FYRIR brottför til Glasgow, og þetta voru samt 4,3 km á dag ... ókei, eins og iðulega í útlandinu og bara eðlilegt!
Það sem ég kvarta helst yfir er "evilmap" systur minnar, sem reiknaði út fjarlægðir og hversu langan tíma tæki að fara þær. Við erum alveg að verða komin, hljómaði mjög reglulega eftir að hún hafði kíkt í gemsann sinn. Vissulega bað hún mig að kíkja á slíkt kort í mínum eigin síma á leið frá Höfn í Hornafirði í vor og þar fann ég út að það tæki okkur 17 klst. og 14 mín. að komast á næstu bensínstöð (ég hef aldrei gert þetta áður, enda biðja strætóbílstjórar mig aldrei um neitt slíkt).
Eftir að hlátursöskrum systur minnar linnti var farþegi aftur í beðinn um að finna út úr þessu, og í ljós kom að mitt kort var stillt á gönguhraða. Við sem búum á Íslandi vitum öll að það eru bara örfáir kílómetrar á milli bensínstöðva hér, svo það var óhætt að hlæja. En ég hló ekki þarna úti í Glasgow, frekar grét innra með mér þegar ég áttaði mig á því að evilmap systur minnar var með stillingu fyrir akstur. Þegar hún sagði að það væru bara 12 mínútur á hótelið voru það örugglega 120 mínútur fyrir gangandi. Mig svimaði of mikið af örmögnun til að geta litið á klukkuna, tók bara eitt sársaukafullt skref í einu, upp brekkur, tröppur og alls kyns ófærur í einhverjum útjaðri borgarinnar, fannst mér. Í dag hef ég gengið 1.627 skef en reyndar miklu meira því ég er ekki með gemsann á mér þegar ég þýt frá skrifborði að töflu, eða á milli nemenda og legg lymskulegar spurningar fyrir þá. Hvað heitir þú. Hvaðan ertu? Hvaða tungumál talar þú? Og ji minn góður, hvað þetta fólk mitt talar mörg tungumál, þýska, franska, ítalska, spænska, og þá er ég ekki að tala um móðurmál þess. Nú skal ég flýta mér að troða sem mestri íslensku í þau svo við fáum þessa dýrmætu og fjölhæfu starfskrafta inn í atvinnulífið.
Ég get samt ekki kvartað yfir skrefapyntingum systur minnar, það sem ég gerði, einnig óvart, var ekki mikið skárra. Mér var falið að sjá um veðurspána sem var fáránlega "vond", að mínu mati, eða hátt í 20°C, algjör ógeðssumarhiti (sjá mynd). Var ekki Glasgow svo norðarlega og nánast svipað veðurfar og hér, ögn hlýrra kannski? Hilda gladdist mjög yfir þessari óvæntu hitabylgju; skildi hlýju úlpuna og ullarsokkana eftir heima og stakk sólvörn ofan í tösku ásamt bikiníi.
Það var ekki norska veðursíðan sem klikkaði, heldur ykkar einlæg sem tók hitann í litlum bæ í Bandaríkjunum, bæ sem heitir Glasgow. Svo svekkelsið jafnaðist algjörlega út. Við ætlum aftur og þá miklu sjálfsöruggari. Okkur langaði að skreppa til Edinborgar, líka að kíkja á Nessie en það hefði tekið megnið af deginum, rútuferð til Loch Ness tekur þrjá og hálfan tíma aðra leiðina og annar fylgifiskurinn okkar er of bílveikur fyrir slík ævintýri.
Við tókum ástfóstri við Nero-kaffihúsið okkar (sjá mynd) sem var bara í örfárra mínútna fjarlægð frá hótelinu (Holiday Inn). Fínasta kaffi og góð stemning. Þarna sátum við á milli atriða, heimsóttum auðvitað einhverjar búðir og það voru frekar strákarnir sem voru með í för sem vildu fara í þessa búð og hina búðina. Bláa peysan sem stráksi er í passar ótrúlega vel við einkennisliti Nero en svona smekkleg erum við. Ég þurfti líka að kaupa eitthvað dásamlegt handa kisupössurunum okkar, fann þennan fína trefil (sá mýksti í búðinni) handa Svitlönu og auðvitað gott te, og handa Rostyk fann ég sælgæti og fyndna drykkjarkrús. Ég missi í alvöru lífsviljann í búðum en tókst samt að finna æðislegar (ódýrar) buxur sem ég nennti ekki einu sinni að máta, greip þær bara. Ég gef núorðið fáar jólagjafir og kaupi oftar en ekki bækur - svo það var engin einbeitt kaupskylda í gangi ytra, ég held að slíkar ferðir heyri sögunni til að mestu. Ég þekki nokkra sem fara reglulega til Glasgow en ekki í innkaupaferð, heldur til að njóta. Glasgow er æðisleg borg. Við náðum í skottið á friðsamlegri mótmælagöngu, Free Palestine, og þarna ríkti mikill samhugur.
Bílstjórinn sem ók okkur frá flugvellinum að hótelinu sagði okkur frá íslenskum mæðgun sem færu alltaf til Glasgow á þriggja mánaða fresti, bara til að njóta. Sama hótel, sama herbergi, sami bílstjórinn. Hann sagði okkur líka frá því þegar hann benti á fínustu styttu að hún væri í boði Íslendinga sem hefðu verið svo duglegir að koma í innkaupaferðir. Borgin var víst miklu ódýrari í gamla daga, ef ég skil það rétt.
Kom heim í hádeginu, um kl. 12.10, eftir fyrsta skóladaginn og náði einhvern veginn að missa af stærsta jarðskjálftanum í þessari hrinu, 4,5, kl. 12.19. Ég var einmitt að segja fólkinu sem ég fræði um hið dásamlega tungumál íslenskuna, að búa sig undir jarðskjálfta og eldgos, sýndi því vedur.is og lét fylgja með að við Skagamenn fyndum yfirleitt ekki fyrir neinu nema skjálftinn færi upp í fjóra.
Fyrstu tölur sýndu 3,9 en samt sögðu ýmsir Skagamenn á Facebook að þeir hefðu fundið skjálftann. Vona bara að Svartsengi verði ekki fyrir tjóni, eða ferðafólk í Bláa lóninu eigi fótum fjör að launa ef fer að gjósa þar nálægt. Ég væri alveg til í 800 ára hvíld aftur. Þá væri alveg nægur tími til að flytja höfuðborgina upp á Akranes, til vara á Austfirði, það er ansi mikið gamalt hraun á höfuðborgarsvæðinu ... og ég sem læt mig dreyma um að koma jafnvel aftur í bæinn. Það er pláss hér fyrir alþjóðaflugvöll og allt, held ég, og gleymum ekki Einarsbúð sem nú er á leiðinni til mín með nauðsynjar. Þá neyðumst við stráksi ekki til að borða skyr í morgunmat, eins og í morgun. Súrmjólk með kornfleksi og púðursykri hjá mér - stráksi vanur All bran-i með mjólk út á. Þetta var mikil reynsla fyrir allar aldir í morgun.
EN ... ÞAÐ BESTA: Leið 2 á Akranesi (innanbæjarstrætó) stoppar rétt við Bónushúsið. Ég næ vagninum rétt fyrir kl. átta á Garðabraut (hinum megin við götuna) á leið hans niður í bæ, smáhringur og svo er ég komin á góðum tíma í vinnuna. Þarf síður að óttast beinbrot í komandi hálkutíð fyrst gönguleiðin er þetta miklu styttri. Þetta er allt of illa auglýst!
Stráksi kom með mér í þennan strætó (annars vanur að taka leið 1) til að sýna mér stuðning í fyrstu ferð minni með ókunnugum vagni, leið 1 fer ekki að Bónushúsinu fyrr en eftir morgunhvíldina (síestuna) en ég næ honum alltaf heim. Stráksi var grautfúll yfir því að koma allt of snemma í skólann, alveg korteri ... Hann hafði sem betur fer tekið gleði sína aftur þegar hann kom heim eftir hádegi.
Ath. Myndin sem sýnir ljósastaur, haf og eldgos er ekki ný ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2023 | 23:05
Besti árgangur allra tíma og mismæli á Tene
Dagurinn fyrir brottför frá Akranesi fór aðallega í að hugsa um hverju skyldi pakkað með til Glasgow og lesa smávegis. Ég kíkti í Miðilinn eftir Sólveigu Pálsdóttur og mér sýnist ég eiginlega vera að verða búin með hana. Með húsverkjum hef ég vanið mig á að hlusta á sögu og í dag voru það allt of spennandi Napóleónsskjölin. Hún eldist fáránlega vel, þrátt fyrir Reiknistofu bankanna-eitthvað, og er ferlega skemmtileg. Líf mitt er nú meiri spennan.
Stráki kom ofsaglaður frá Möttu sinni, eftir enn eina dekurhelgina. Hann sá mjög skemmtilega mynd í bíó, Creator, heitir hún. Svo skemmtileg er hún að hann sendi mér SMS í miðjum klíðum og sagði að ég YRÐI að sjá hana. Helgin hans endaði í sundi í dag. Er búin að finna föt á hann fyrir ferðina og pakka en ferðatöskurnar fóru reyndar tómar í bæinn í gær með hjálparhellunni, til að við stráksi slyppum við að rogast með þær í strætó á morgun. Þarf að þvo eins og eina þvottavél í kvöld, íbúðin að verða nógu fín fyrir úkraínsku kattahvíslarana sem verða hér meira og minna (í alvöru sko). Sjónvarpið mitt er stærra ...
Þrátt fyrir letidag fann ég millistykkið fyrir Ísland að Englandi, sem ég keypti fyrir Liverpool-ferðina, gott að hlaða símana, er það ekki? Ég fann töskuvigt líka og hálsmen* stráksa (*myndir af sólblómum á því) sem kemur okkur í gegnum alla flugvelli hraðar og betur en fyrirfólki. Ferðin til Liverpool um páskana var hrein dásemd út af því, reyndar slapp Hilda við vopnaleit af því að haldið var að hann væri með henni ... hrmpf ... eða ég talin glæpónalegri.
Facebook-óvinir, eða vonda fólkið sem hefur yfirtekið reikninga marga fb-vina minna voru sérdeilis afkastamiklir í gær og ég fékk reyndar bara beiðni frá tveimur þeirra, en með hálfrar mínútu millibili, beiðni um að fá símanúmerið mitt. Ég hef þá reglu að klippa strax á vinskapinn við viðkomandi og ekki einu sinni reyna að svara í gríni, gefa upp númer lögreglunnar eða eitthvað. En samt langar mig að vita: Geta þrjótarnir yfirtekið hvaða fb-reikning sem er eða þarf maður að ýta á tengil, svona gildru, fyrst? Veit það einhver?
Fleira af Facebook:
Á Tenerife: Mismæli kvöldsins við sólbrenndan eiginmann: Þú verður að bera á þig aftereight ...
Kettlingur, nýfluttur á framtíðarheimili sitt, komst út um pínulitla rifu á glugga en náðist af því að nýi eigandinn spilaði á símann sinn kall læðu á kettling sinn (allt til á YouTube) í leitinni. Hann kom svo hlaupandi.
Galito farið að auglýsa jólahlaðborð ... ég misskildi fyrst og hélt að ég þyrfti að taka 39 nánustu vini mína með ef ég ætlaði þangað, en það er bara þegar veislan er haldin úti í bæ og kokkur kemur með kræsingunum, þá er lágmarksfjöldi 40 manns.
Hvað skyldu mæta margir á árgangshittinginn minn sem átti að vera fyrir ári? Hann verður haldinn eftir miðjan nóvember. Ég var eitthvað óviss um að mæta, miklaði fyrir mér ískulda og hálku og þurfa að ganga upp í safnasvæði en Stúkuhúsið mun hýsa okkur þar sem ég átti ófáar ánægjustundir í æsku þar sem ég hét því að hvorki reykja né drekka. Ég er hætt að reykja, og drekk eiginlega aldrei, svo samviskan er hrein. Sú sem hringdi sagði að ég ætti nú heima svo nálægt ... Mér finnst 15-20 mínútna ganga að kvöldi til í sparifötunum í hálku eða byl, ekki vera nálægt. En hún féll fyrir vælinu í mér og ég fæ að vera samferða báðar leiðir. Þetta er allt of skemmtilegt og fallegt fólk til að ég tími að sitja heima. Þessi árgangur er í raun stórkostlegur sama hvert litið er; Madonna úti í heimi, Michael Jacson í svokölluðu sumarlandi, ég í Himnaríki ... Helgi fokking Bjöss ... Allt tónlistarfólk, EN ... ég minni á að ég söng með Kór Langholtskirkju í nokkur ár, Söngsveitinni Fílhamoníu (Krýningarmessan, Mozart) og Mótettukórnum (Eliah eftir Mendelsohn), hástöfum við tölvuna og fasteignaverðið í hverfinu hefur örugglega hækkað þar sem ég hækka sífellt tíðnina með söng mínum, ekki bara með Skálmöld, heldur fleirum. Jafnvel Scarlatti ... Exultate Deo eftir hann ... ég söng altröddina í því nokkrum sínnum á níunda áratug síðustu aldar, kann enn næstum hvern einasta tón og líka textann ... Ekki bara póstnúmer hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2023 | 20:41
Eldum rétt-áfall og spennandi karlaverkfall
Dásemdarkona kom í heimsókn í dag og við óðum í að taka í gegn fataskápana. Eitthvað var nú minna um drasl en ég hafði haldið en þrír svartir ruslapokar fóru þó með í bæinn til Rauða krossins. Unga dásemdin og hjálparhellan fékk hvíta jólatréð mitt að gjöf, nýtt síðan í fyrra en ég fíla það ekki, svo ég kaupi bara nýtt grænt í desember og held mig við það út ævina. Þyngingarsængin öðlaðist trylltar vinsældir eftir síðasta blogg, alveg ein manneskja úr Kópavogi, af góðum ættum, vildi endilega fá hana. Sængin er á leiðinni til hennar. Það besta var kannski að ég sendi hjálparhelluna einnig með nokkra geisladiska sem eiga að enda í bifreið systur minnar, svo ég og allir aðrir farþegar þurfi ekki að hlusta á Heyr mína bæn enn einu sinni, við fórum til Hafnar í Hornafirði í vor og til baka og það lag hljómaði c.a. 35 sinnum á meðan). Ekki af trúarhita einum saman, heldur vegna skorts á diskum í bílnum. Litlasystir fær m.a. 100 bestu sjómannalögin ... eða 50 bestu, eigum við 100 sjómannalög? Jóladiskur með KK og Ellen, 100 bestu lög lýðveldisins (sjá mynd) og fleira gæðaefni. Ég á fullan skáp af geisladiskum (mest klassík eftir) og alveg sjálfsagt að hlusta á þá og því þá ekki í bílnum sem ég er svo oft farþegi í?
Ekki möguleiki að fá litlusystur mína til að hlusta á almennilegt stöff eins og Pixies eða Skálmöld ... (ég hef reynt) ekki einu sinni Nirvana eða Megadeth komast inn fyrir brynvarnir hennar. Hún gubbar bara við tilhugsunina. Hún er sennilega með of fagra sál til að- ... nei, úps, hún drekkur kaffi sem sumir kalla djöfladjús og segja að gott fólk með fagra sál myndi ekki drekka ... Í þeim hópi er rokk talið vera einna verst af vondu.
Stráksi fór í helgargistingu í gær og ég þurfti að klára síðasta matarpakkann frá Eldum rétt áður en innihaldið rynni út. Til að nýta embætti stráksa sem ruslamálaráðherra til fullnustu fór hann með allt rusl út ... þar á meðal fór uppskrift þessa síðasta matarpakka með pappanum út í tunnu. Ekki séns að ég færi út að leita og heldur ekki séns að elda án aðstoðar svo ég prófaði bestu vinkonu mína, ungfrú gúglu! Ég komst inn í uppskriftina af því að búið var að skrásetja að ég hefði pantað hana og fengið og hefði því rétt á að sjá hana. Ég nýtti mér ekki nýjustu tækni og tók hana með á iPad, heldur skrifaði ég hana í stílabók og tók með mér. Það þarf að hlífa þessum dýru raftækjum. Jú, maturinn heppnaðist reglulega vel, sjá mynd, ég borðaði hluta í hádeginu í dag og get klárað í hádeginu á morgun. Því seinnipartinn í dag (snemmbúinn kvöldverður) var það Lemon og ég enn pakksödd eftir þrjá tíma. Mig hlýtur að vanta vítamín, ég er svo brjáluð í avókadó og bæði samlokan og djúsinn voru löðrandi í því.
Hundfúlt að geta ekki tekið þátt í kvennaverkfallinu á þriðjudaginn, það er svo mikil stemning í þjóðfélaginu að einn gaur stofnaði síðu um karlaverkfall, með, ef ég skil það rétt, kröfu um að fá sömu laun og konur. Flott hjá honum. Frekar dræm þátttaka samt svo kannski vilja það ekki allir. Karlarnir ætla alla vega að hætta að skipta um dekk og grafa skurði þar til þeir fá launalækkun.
Hver vill svo sem vera á 20% hærri launum þegar hægt er að standa með mæðrum sínum, systrum, dætrum og/eða eiginkonum/kærustum? Ég verð því miður flogin út í heim, löngu, löngu planað, nú er síðasti séns minn að finna Filippus Angantý (MacIntyre?), manninn sem mig dreymdi 12 ára að yrði minn, síðasti séns áður en ég steinhætti að nenna að eltast við menn (as if). Ég daðra og dufla í huganum sem er ekki vænlegt til árangurs og ef einhver ókunnugur dirfist að heilsa mér í gegnum Messenger verð ég brjáluð, þetta er ekki Tinder, arga ég út í loftið, samt myndi ég aldrei þora á Tinder. Skilst að þetta syndrome mitt heiti piparjúnkismi sem er kannski bara eðlilegt eftir öll mín hjónabönd í gegnum tíðina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2023 | 23:56
Kveðjustund á Galito og planaðar annir
Himnaríki var gert upp árið 2020, eins og stundum hefur komið fram hér og í leiðinni grisjaði ég svo brjálæðislega að Feng Shui-fræðingar leika á als oddi, ekki kannski mínimalistar en það var þó skemmtilega tómlegt þar sem áður hafði verið dót og drasl. Gaf stóran hluta af bókunum sem nú hafa fjölgað sér allt of hratt, ég vissi að ég hefði ekki átt að litaraða í hillurnar.
MYND: Samansett mynd af tveimur af sömu hillusamstæðu en miðjuna vantar, þar sem mávastellið er (ókei, ég á tvo bolla úr mávastellinu). Þarna sést að ég hef mikið lagt á mig við að grisja en alltaf bætist við ...
Ég gerði ráðstafanir - á erfitt með að losa mig við hluti sem bíllaus eymingi, ekki endalaust hægt að níðast á Ingu eða Davíð frænda, svo á morgun kemur ung dásemdarkona (á bíl) sem ætlar að ráðast í skápatiltekt með mér. Ég viðurkenni að þarna 2020 var ég orðin hundleið á grisjun, það gat gengið hægt að losa sig við gefins-kassana og -pokana (sjá söguna Raunverulegar raunir strætófarþega, Sérstæð sakamál, 10. tbl. 2020), vildi fara að gera fínt hjá mér - inn í skápa fór því sitt af hverju sem hefði mátt fara annað, eða að heiman. Það er til dæmis algjör óþarfi að eiga 25 handklæði ... Verst með dýra hluti eins og þyngingarsæng stráksa sem hann svaf með hálfa nótt, ef það náði þá svo löngum tíma, vildi ekki sjá hana þótt hún ætti að vera svo dásamleg fyrir einhverfa ... Það vill sennilega enginn notaða sæng þótt ekkert notuð sé - sem er frekar fúlt. Heitar konur á borð við mig sofa með örþunna silkisæng ofan á sér svo ekki get ég nýtt mér hana. Rauði krossinn mun hluta hana í sundur og hún fer sem einangrun í hús einhvers staðar í fátækum útlöndum.
Á meðan ég púla og þræla á morgun fer stráksi með Möttu sinni í bæinn og í nammideild Hagkaup af því að það verður laugardagur. Í dag fóru þau á uppáhaldsmatsölustaðinn hans, KFC, og síðan á spennandi mynd í bíó. Misskipt er manna láni.
Sómahjónin Gerry og Kamilla voru kvödd með virktum í hádeginu í dag á Galito. Þau flytja senn til Danmerkur og þar með missum við landsmenn þennan fína fæðingarlækni (Kamillu) sem hefur unnið víða um land í um eitt og hálft ár, og listamanninn (Gerry) sem hefur svo góðan tónlistarsmekk.
Þau færðu kveðjugjafir, stráksi fékk óskastein úr álfaskógi, Inga hálsmen og ég danskt jólaskraut sem minnir mig héðan í frá alltaf á þau. Annars voru lögð drög að stuttri Kaupmannahafnarferð kannski á næsta ári, þau búa ekki svo langt frá og myndu koma með okkur í Tívolí. Ég er víst eina manneskjan yfir fimmtugt á Íslandi sem hefur aldrei komið þangað.
Þjónninn okkar á Galito var svo innilega skemmtilegur að kveðjustundin varð ekki eins harmþrungin og stefndi í.
Mynd: Við Kamilla fengum okkur þorsk, ég sleppti döðluchutney-inu, Gerry rifjasteik (réttur dagsins), Inga burrito-ost (forréttur) og stráksi dásamlega góða pítsu sem hann kláraði! Tólf tommur, takk! En nú verður enginn sem platar mig í Ölver á blústónleika eða á Útgerðina í pöbbkviss ... það verður bara Tívolí næst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2023 | 15:09
Hneykslanlegur munur á veðurspám
Brjósklos herjaði á mig á þessum tíma fyrir nákvæmlega 11 árum, vill fésbókin meina. Ég hafði prófað að sofa í stól og var því bara eina og hálfa mínútu á fætur, ekki einn og hálfan tíma. Sagði fjanda frá þessu og hann kallaði mig brjósk-umkennanlega.
Friðrik Ómar flytur til Borgarness. Frétt dagsins hjá Skessuhorni. Er ég, sem Skagakona, móðguð yfir því að hann flytji ekki frekar hingað? Já, og líka því að einir jólatónleikar hans í ár verða haldnir í Borgarnesi. Við Skagamenn fáum sem sagt bara Bubba, Ásgeir Trausta, Ara Eldjárn, Jóla Hólm, Pink Floyd og Skálmöld, engan Friðrik Ómar! Það hefði nú verið gaman að rekast á hann (sem Akurnesing) í Einarsbúð og ná að skamma hann góðlátlega fyrir að halda Fiskidaginn mikla á afmælisdaginn minn í ár. Svo er það líka honum að kenna að Gleðigangan var haldin þann sama dag, svona óbeint. Ég skellti afmælinu mínu á mánudag á næsta ári sem, undarlegt en satt, þýðir miklu fleiri gesti og hefur alltaf gert. Á óbærilegum mánudegi er annar kosturinn sá að sitja heima í fýlu eftir vinnu og hinn að skreppa í stórkostlegt afmæli þar sem er ekki bara skemmtilegt fólk, heldur líka bestu kökur og besta kaffi sem unnt er að fá. Afmælið bara haldið einu sinni ári sem gerir það hæfilega sjaldgæft. Skyldi allt verða breytt og ég flutt í bæinn á næsta ári? Það er eitthvað sem togar og togar í mig þangað og annað sem heldur fast. Ég horfi kannski út á sjóinn minn og hugsa: Hvaða bull er þetta, frú Guðríður!?! Og horfi líka yfir fallega Himnaríkið mitt, þar sem hvert einasta snitti var gert upp árið 2020 og það svo vel. Nei, héðan fer ég ALDREI! Svo auglýsir Tvíhöfði jólaskemmtun í Salnum í Kópavogi, bókaforlögin útgáfuboð bóka sinna og ég bara: Hvað er svona borgardrós eins og ég að gera úti á landi? Og þá verður mér litið út um gluggann og hugsa líka um vinina hér og Einarsbúð ...
Myndin - gömul fréttamynd, eða síðan Friðrik Ómar og Margrét Friðriks (dóttir hans?) stofnuðu hárgreiðslustofu (ef ég man rétt) sem flytur þá væntanlega til Borgarness.
Þvílíkur munur á veðurspám ... eiginlega hneykslanlegur, er ekki hægt að vernda okkur gegn Norsku veðurstofunni sem er greinilega í ruglinu? Hún spáir trylltu roki og villtri úrkomu á meðan við Hilda ökum út á flugvöll á Kvennaverkfallsdaginn (enn eitt sem ýtir undir að þetta sé verst valdi dagur ársins til ferðalags). Úrkoman nánast of mikil til að hægt sé að keyra, eða 30.8 mm sem er um þrír metrar ef gamla skólastærðfræðin bregst mér ekki. Og það fyrir ofan sjávarmál.
Mér var skapi næst að hætta við ferðina ... en þá hugkvæmdist mér að kíkja á eins og eitt stykki íslenska veðurspá. Rólyndislegar hugleiðingar veðurfræðings breyttu öllu: Austlæg átt og stöku skúrir sunnantil ... sem er allt annað en rok og rigning - nema þetta sé samsæri og veðurfræðingurinn íslenski vilji okkur úr landi, einhverra hluta vegna. Sú norska spáir líka sannkölluðu hitavíti í Glasgow. Á komudegi fáum við 17°C og daginn eftir fer hitinn upp í 21°C. Hilda systir verður svo ánægð EF ég segi henni þetta. En samt leitt að þurfa svo að hryggja hana. Ef yr.no spáir svona votu hvassviðri á Íslandi og þurrum vítishita í Glasgow hlýtur að verða rigning ytra og mun svalara. Mér var kennt í æsku að ýkja ekki, hef reynt að standa við það, en sumir veðurfræðingar ættu kannski að passa sig og þá er ég eingöngu að tala um norska. Fyrrum elskhugi minn, veðurfræðingur en samt ágætur, sagði alltaf hæglætislega þegar ég öskraði upp yfir mig af gleði vegna glæsilegrar veðurspár frá þeim norsku. Nei, nei, Gurrí mín, Norðmenn spá ágætlega fyrir Noreg, mun síður fyrir Ísland, þú færð engan sv-storm á Skagann um helgina til að geta skemmt þér yfir briminu. Kannski hefði ég ekki átt að segja honum upp. Það var mjög þægilegt að fá svona inside information um komandi trampólínflugveður, fá jafnvel miklu lengri fyrirvara á stórum jarðskjálftum til að geta bjargað styttunum og vera ekki í sturtu akkúrat þá, vera komin á gosstöðvar áður en nokkur annar fékk að vita nokkuð, þá voru myndir úr vefmyndavélum settar í svona lúppu sem sýndu sífellt óbyrjað eldgos svo við fengjum að njóta í friði fyrir fólki sem vill endalaust hoppa á nýrunnu hrauninu.
Ég skrapp í stutta ferð í bæinn á mánudaginn. Muna: aldrei taka ferðina kl. 15.54 frá Akranesi, muna! Jamm, ég tók troðfullan strætó sem var að koma með fólk að norðan, frá Akureyri og öðrum norðlenskum plássum. Því miður er aldrei hægt að treysta því í þessum ferðum að hitta almennilegt fólk, t.d. úr Vestur-Húnavatnssýslu (Hvammstanga og grennd) sem hefði gert þetta svo miklu bærilegra. Við hliðina á mér, hinum megin við ganginn sátu tvær sakleysislegar eldri konur og spjölluðu saman. Ég heyrði eitt og eitt orð þótt ég væri að reyna að lesa og þær voru að tala um einhver hjón sem væru komin út í fjárkúgun! Þær sögðu þetta eins og ekkert væri eðlilegra. Ég klagaði beint í Hildu systur sem sagði að þær hefðu örugglega sagt fjárbúskap. Ég heyrði samt það sem ég heyrði. Þær geta tæplega verið úr Skagafirði, enda ekkert nema vandað fólk þaðan, sérstaklega úr Hegranesinu, og eftir veru mína í sveitinni í denn, Hólshúsum í Eyjafirði, tel ég afar ólíklegt að svona konur komi þaðan. Er þá ekki bara Austur-Húnavatnssýsla eftir, nei, Birgitta er þaðan! Eða kannski helst Borgarfjörðurinn? Sennilegast voru þetta sunnankonur sem höfðu skroppið norður yfir langa helgi - með eitthvað glæpsamlegt í huga. Sorrí, sumar konur, það þýðir ekki að prjóna og spjalla glaðlega saman, það er alltaf eitthvað sem kemur upp um ykkur.
Myndin: Vetrarfrí var hjá stráksa, mánudag og þriðjudag, þess vegna fórum við í bæinn. Hilda upphugsar alltaf einhver skemmtiatriði handa okkur og í gærmorgun beið okkar dekkað brönsborð við vakn og miklar uppáhaldsfrænkur sem við hittum allt of sjaldan, mættu í boðið. Myndinni af vettvangi var nappað úr leynimyndavél hússins. Því miður sést ekkert í kræsingarnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2023 | 13:19
Samviskubit eftir símtal ...
Risaeðlusíminn minn hoppaði reiðilega á skrifborðinu í morgun sem vissi ekki á gott. Ein af systrum mínum var í símanum, átti brýnt erindi við mig og virtist örg.
Meiri apakötturinn sem þú getur verið! hreytti hún út úr sér án þess að heilsa. Ég starði á símann, jú, þetta var kurteisa systir mín, sú sem biður rykið afsökunar um leið og hún þurrkar af. Ef ég var apaköttur í hennar huga hlaut ég að hafa gert eitthvað ófyrirgefanlegt. Áður en ég gat stunið upp: Spegill, hélt hún áfram:
Þessi maður sem þú ákvaðst af heimsku þinni í gær að væri netbófi af því að hann spurði þig kurteislega hvernig þú hefðir það, ertu með öllum mjalla? Hver gerir eiginlega slíkt?
Loks komst ég að: Já, en hann var ókunnugur og ekkert endilega íslenskur þótt hann bæri íslenskt nafn, svindlarar vinna svona - ef hann er meinlaus þá er þetta ekki rétta aðfer-
Ef þú ætlar einhvern tímann að ganga út þarftu virkilega að hugsa þig um hvernig þú ferð með karlmenn, sama hvaða aðferðum þeir beita við að næla í þig, svindli eða svínaríi. Svaraðu þessum manni og segðu honum að þú hafir það fínt, spurðu hann svo hvernig hann hafi það! Svoleiðis gerir almennilegt fólk. Systir mín var farin að öskra.
Ef hann biður um símanúmerið mitt? (Þekkt svindl)
Þá gefur þú honum það, hann vill bara heyra í þér ömurleg óhljóðin, það gefur auga leið, gargaði hún.
En ef hann er bófi og svindlari?
Örstutt þögn. Þá tekur þú því bara af kvenmennsku. Þú hefur ekki marga kosti í ástamálum, komin á þennan aldur. Ég myndi segja að þú þurfir að vera ánægð með allt karlkyns úr þessu, ef hann andar er það nógu gott fyrir þig.Þú ert ekki í aðstöðu til að gera kröfur. Býrð á landsbyggðinni, átt fullt af köttum og hatar það sem allt eðlilegt fólk elskar.
Hata ... bíddu, hvað?
Gönguferðir, sundferðir og pottferðir, fara á fyllirí í sumarbústað, fara á fyllirí, horfa á sjónvarp, borða gamaldags íslenskan mat. Nefndu það! Og svo hlustar þú á SKÁLMÖLD!!! Við systur þínar sex eða sjö höfum rætt inngrip, koma og taka þig í gegn ... ef það væri ekki svona langt upp á Skaga. Við höfum allar kynnst mönnum okkar á þorrablótum, í sundi, í heitum pottum, sumarbústaðaferðum, svo fátt eitt sé nefnt. Svo kemur huggulegur maður sem hafði fyrir því að sækja um fb-vináttu við þig og spyr þig á nútímalegan máta hvernig þú hafir það og þú nánast bítur af honum hausinn, risaeðlan þín!
Þetta er skelfilegt, veinaði ég. Ég lofa að gjörbreyta mér. Hvenær verður næsta þorrablót? Halló, halló?
Símtalið varð ekki lengra því þarna vaknaði ég og var með logandi samviskubit. Þarna var undirmeðvitundin greinilega að reyna að koma fyrir mig vitinu, skynsöm að vanda. Ég er eflaust búin að missa af þessum manni en ég er byrjuð að breyta mér, bjó til hræring í hádegismat, (úr gömlum hafragraut og súru skyri, við stráksi maulum lundabagga með kaffinu og það verður þverskorin kæst ýsa með súrsaðri hamsatólg í kvöldmatinn, eftir að ég kem heim úr sundi og heitum potti. Súrtunna er komin út á svalir og til að sýna hversu tilbúin ég er til að breytast mun ég auglýsa eftir leifum af súrmat frá þarsíðasta hausti til að slafra í mig í vetur. Góðir tímar í nánd, miklar breytingar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2023 | 16:44
Ósvífið netsvindl og enn eitt samsæri stjórnvalda
Heilmikil vandræði hafa hlotist af því að finna ekki nógu skemmtilega bók til að hlusta á og því hefur Himnaríki fyllst af drasli. Vissulega stórlega ýkt en nokkurt þvottafjall af hreinum og ósamanbrotnum fötum hafði safnast upp, í tveimur körfum ... leiðinlegasta húsverkið, eins og það er gaman að þvo.
Ég hef lesið hverja einustu bók sem hefur komið út á íslensku um Jack Reacher (eftir Lee Child) og í örvæntingu minni setti ég á söguna Ekki snúa aftur - sem voru reyndar ekki skilaboð til þvottarins sem snýr eilíflega aftur, aftur og aftur. Vel lesin (Hinrik), vel þýdd (Jón) ... nema eitt sem ég geri athugasemd við, sennilega sem merkúr í meyju (sem Fúsi frændi segir að sé það eina sem bjargi mér). Það vita ekkert allir að stærðin á Jack, 6,4 fet í bókunum sé í raun 1,95 m. Það kemur reyndar fram víða að maðurinn sé ansi hávaxinn, en er hann 2,11 m, 1,85 m eða eitthvað annað? Það á að íslenska svona stór smáatriði, finnst mér. Tæpir tveir metrar myndi líka virka. Stærðareiningar eru svolítið flóknar, ef koma fram lýsingar á stærð landsvæðis, ferkílómetrar eitthvað, segir það mér ekki neitt. Eða hektarar ... en það sem ég hef þurft að nota í lífinu, millilítrar, sentimetrar og desílítrar, það kann ég. Líka algebruna úr landsprófi.
Þegar 20 fet voru eftir ... (úr bókinni) segir mér ekkert, Google kveður það vera sex metra sem auðveldar mér að sjá umhverfið fyrir mér og hvernig Reacher bregst við, er þetta of þröngt fyrir mann sem er 1,95 á hæð? Mörg er lesandans raunin. Mögulega hefur Lee Child sagt: Þið megið þýða allt í bókinni yfir á íslensku nema nöfn fólks og staðarheitin, og já, stærðareiningar vil ég líka hafa upp á amerísku, sorrí.
Með því að hlusta á frábæra sögu af flotta hörkutólinu í símanum mínum sem fylgir mér eftir þörfum um Himnaríki, hef ég gert eldhúsið fínt, tekið úr uppþvottavél, sett það sem var í vaskinum í hana, tekið tvær kommóðuskúffur í gegn og sett fatnað poka til að gefa Rauða krossinum ... Já, og fyrsta þvottavélin af þremur mallar inni á baði. Það varð nefnilega einhver framlenging á magapestinni sem ALLIR bloggvinir mínir VISSU að væri uppgerð til að sleppa við gönguferð á álfaslóðum í fyrradag. Pestin angraði mig allan gærdaginn og það þurfti ekki nema einn og hálfan dag til að allt færi nánast í rúst. Vaknaði síðan alveg eldspræk klukkan tíu í morgun - en ekki samt dirfast að bjóða mér í gönguferð. Þvílík mildi og heppni að hafa átt frosna kjötsúpu sem hægt var að hita í gær, aðallega fyrir stráksa, kjötsúpu sem ég hef minnst á áður að tengdasonur nokkur hafi eldað í óhóflegu magni og tengdamóðirin bjargað - og fyrir mildi örlaganna endaði góður skammtur hjá mér og helmingurinn í frysti. Annar í kjötsúpu var í hádeginu í dag. Allir segja að upphituð sé hún best. Því oftar, því betra. Sennilega of þjóðlegur matur til að ég sé ofboðslega sólgin í hann. Enn brennd eftir hroðalega bernsku í matarmálum. Kjötsúpa er nú samt ágæt, aldrei þó eins góð og í gær með svangan strák sem nennti alls ekki út til að kaupa sér eitthvað gott. Það var að verða svolítið Oliver Twist-legt ástandið þar til ég gáði í frystinn. Næsta hefði verið að hringja í Galito og panta sem ég held að draumar stráksa hafi snúist svolítið um. Ekki núna, sagði ég miskunnarlaus.
Nýjasta gabbið hjá netglæpafólki er að þykjast vera island.is og biðja fólk um að staðfesta einkenni sitt með rafrænum skilríkjum. Ég er ekki nógu klár í glæpum til að vita hvernig nákvæmlega hægt er að nýta sér það, en það auðveldar ábyggilega rán á peningum. Í gamla daga þurftu ræningjar að rota fólk og stela af því veskinu. Miklu meira vesen fyrir þá og rosaleg hætta á að aðrir kæmu til hjálpar - svo gat enginn vitað hvort sá eða sú rotaða væri með peninga á sér.
Þá var nú betra að ræna bankana ... sem er hætt í dag, held ég. Þessi með fjaðrandi göngulagið og útstæðu herðablöðin (Útvegsbanki í Breiðholti, munið) er ábyggilega sestur í helgan stein. Ég held að bankarnir hafi lengi haldið uppi tölvuvísindafólki til að finna upp tækni til að ræningjar myndu frekar ráðast á viðskiptavini bankanna svo að sjálfir bankarnir slyppu við grímuklædd ófétin sem engu eirðu. Þeir sem síðan féllu fyrir vel eða illa gerðu gabbi sætu eftir með sárt ennið og bankarnir (með belti, snæri, súrefni og axlabönd) segðu bara: Við höfum varað ykkur við tölvusvikum, þið verðið bara að passa ykkur sjálf, bera ábyrgð.
Stutt er í að við kíkjum á krúttlegt kettlingamyndband í sakleysi okkar og hviss, bang, bankainnstæðan horfin. Einhver nógu snjall eða snjöll finnur upp á því fyrr en síðar. Bara hér í himnaríki er ég ekki óhult. Fyrr í dag hafði nýjasti fb-vinur minn (síðan í gær) samband á spjallinu og spurði hvað ég segði gott, hvort ég væri ekki hress. Hann hlýtur að vita að Facebook er ekki Tinder svo hann er netsvindlari. Mér finnst reyndar ekki sérlega gaman að spjalla á messenger, sérstaklega ekki í gemsanum, nema eitthvað sérstakt sé, erindi eða long time no seen-samtal og þá á eðlilegum tíma þegar ég er ekki við það að fara í háttinn og lesa spennandi bók í friði fram á nótt.
Þegar þannig stendur á verð ég eins og bankarnir og opinberar stofnanir; nenni ekki fólki. Er mögulega hægt að nota gervigreind til að svara aðdáendum sem gætu verið netglæpónar?
Ég veit varla hverju ég á að svara karlinum, ef ég svara. Segi ég Allt gott? Eða Allt vont? Sníki ég af honum fé? Set ég nýlega hrukkumynd af mér á Facebook? Ef þetta er nú bara einhver dásamlegur karl sem langar bara að spjalla við svona líka sæta konu? En hversu margir nýlegir öreigar hafa mögulega haldið slíkt um svikarana sína?
Það er vandlifað. Eða kannski ekki. Drengurinn kláraði alla kjötsúpuna í hádeginu, ég var orðin svöng, ætlaði að fara að fá mér skyrdós þegar dásamlega nágrannakonan mín hafði samband, sú sem eignaðist barnið (Alexander) nú í september, og hún er á leiðinni með mat handa mér. Sýrlenskan, sjúklega góðan (sjá mynd) sem maðurinn hennar eldaði ... en hann er góður kokkur, afar hrifinn af chili svo uppsafnaður bjúgur himnaríkis, ekki svo mikill núna en samt, gufar upp. Skrambi gott líka að geta nöldrað í stráksa með stæl, Manstu, fernur eiga að fara í pappa-bréfpokann! og síðan gæti ég blásið eldi út um munninn til að leggja sérstaka áherslu á orð mín.
Annars heyrði ég nýlega að viss hópur fólks ætli ekki að flokka ruslið sitt því flokkun væri bara enn ein leið yfirvalda til að ná fullkomnum yfirráðum yfir okkur.
Ég sé fyrir mér leynilegar skýrslur stjórnvalda: Handtökin af haugunum og heim. Ríkjum með ruslflokkun. Stjórnum í gegnum sorpið ... Ég er reyndar sjálf orðin hundleið á þessum eilífu boðum og bönnum. Það má ekki stela úr búðum, það er bannað að fara yfir á rauðu ljósi, má ekki heita Nutella, ekki pissa úti, ekki girnast náunga þinn ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2023 | 16:09
Versta sælgætið, draugaráðherra og væntanlegt gos
Bláfáninn við Langasand hefur verið fjarlægður, og það í skjóli morguns þegar allt fólk með hreina samvisku sefur. Það mætti halda að ströndin væri ekki lengur bláfánaströnd en hún er það víst enn. Ég hélt að þegar við misstum strompinn (sjá myndina til vinstri) myndi bæjarstjórnin koma á móts við okkur svo við þyrftum ekki í sífellu að reka fingur út um glugga eða kíkja á vedur.is eða yr.no - og koma með annað jafngott og stompinn, eða fána. Og akkúrat þegar þörfin er mest fyrir alvöruvindáttarstaðfestingu, sem sagt yfir vetrartímann, erum við svipt þessu góða tæki. Á ég virkilega að þurfa að kjósa Miðflokkinn til að fá fána? Djók, ég var ekki að meina íslenska fánann, eða annað þjóðlegt ... kippa af harðfiski væri samt skárra en ekkert.
Á samsettu myndinni efst virðist vera norðvestanátt sem er frekar sjaldgæf hér, yfirleitt er það suðaustanátt og ég held að hún sé ríkjandi hér. Allt vestlægt býr til flottan sjó svo ég aðhyllist hana, fyrst ég þarf ekki á Akraborginni að halda, suðvestan var langverst upp á sjóveiki sjóveikra, held ég alveg örugglega. Annars sakna ég Akraborgarinnar gömlu, ekki þeirrar sem sigldi á milli eitt sumarið fyrir nokkrum árum því hún lagði að bryggju næstum úti á Granda, ekki nálægt miðborginni eins og áður. En maður fær ekki allt sem maður vill. Nú, til dæmis, vil ég ekki að það fari að gjósa 24. október, á kvennaverkfallsdaginn. Þá verður mögulega vesen að komast til Glasgow og nánast ómögulegt að manna kvenna Veðurstofuna með eldgosafræðingum. Ég gleymi ekki blámóðunni sem allt var að drepa fyrr á þessu ári en stöðug norðanátt ætti að bjarga okkur frá því. Hver er í góðu sambandi við veðurguðina?
Ýmsar athyglisverðar umræður komu upp á Facebook bæði í gær og dag. -Hvaða nammi er versta nammi sem þið vitið um? hljóðaði ein spurningin. Ýmsir smekklegir lýstu yfir hryllingi á hlaupi og svo fengu bleiku og rauðu molarnir í Makkintossi atkvæði, ein kvað þá þó vera í uppáhaldi. Mér finnst eiginlega allt makkintoss vont, nema kannski karamellurnar, svo ég kaupi það aldrei fyrir jólin eins og tíðkaðist á bernskuheimili mínu. Einna ömurlegast þótti mér að lesa, og það á opinni færslu sem viðkvæmt fólk getur séð, um að sumum fyndust rommkúlur vondar!
Nú loksins veit ég af hverju orðið smekkleysa var fundið upp. Ekki verður öllum heilsað næst þegar ég fer í Einarsbúð! Mér finnst vínkonfekt vera vont, nema fyrrnefndar rommkúlur sem eru æðislegar, einnig flaskan í Nóakonfektinu. Þess vegna held ég að fordómar geti mögulega verið ástæðan fyrir smekkleysinu, en það er svo sem ágætt að þurfa ekki að berjast blóðugum bardaga og beita mútum til að fá sínar rommkúlur fyrir jólin.
Myndin af nýja matvælaráðherranum tengist umræðunni um vont sælgæti aðeins óbeint. Mér finnst bara flott að fá Kristján í þetta embætti. Hann hefur hvort eð er stjórnað þessum málum meira eða minna, segir fólk ...
Í jarðskjálfta- og eldgosahópnum mínum eru umræður um það merkasta sem er í gangi á landinu, að það verði mögulega stutt í næsta eldgos á Reykjanesskaga. Gos draga að ferðamenn, eins og við vitum. Það er náttúrlega gott að fylla hótelin yfir vetrartímann, en svo þarf líka að muna eftir því hversu erfitt er að smala túristum í vondum veðrum.
Ég nenni eiginlega ekki fleiri eldgosum, hvað þá jarðskjálftum, ég hristist alveg nóg í eigin nýja rúmi þegar kettirnir stökkva upp í það og mig dreymir um skjálfta, eins og hefur komið fram. Hugsa samt að þetta venjist með tímanum. Hengirúm væri svo sem sniðug hugmynd á meðan skelfur ört.
Myndin er rúmlega tveggja ára og það er virkt eldgos fyrir ofan öxlina á stráksa sem virðist þó vera sallarólegur. Hann fann varla jarðskjálftana í undanfara gossins eða var alveg sama. Glugginn er lokaður sem bendir til mengunar því hann er nánast alltaf lokaður nema þegar spáð er láréttri rigningu á hraðferð. Ég vona bara að yfirvöld verði tilbúin með vörslu á næstu gosstöðvum - í stað þess að níðast endalaust á sjálfboðaliðum björgunarsveitanna.
Mér finnst skortur á byrjandi jólaskapi hjá fólki. Jólaboðinn mikli, snjórinn, veldur fólki bara ama og einn skrifaði í snjóinn á afturrúðu á bíl og sýnt var á fb: Mig langar til Bali. Oj, veit fólk ekki að þar er hryllilegur hiti allt árið? Núna er t.d. 32°C hiti á daginn og fellur niður í ekki síður óbærilegar 22°C á nóttunni. Hvílíkur skortur á stemningu hlýtur að ríkja þar ... Ekki dettur mér í hug að kvarta yfir mínum 3°C á Akranesi, nú þegar þetta hvíta, þunna sem féll í nótt er alveg horfið. Fullt af fólki í göngutúr við Langasand í dag og enginn þarf að óttast að fótbrotna í hálku. Hljólandi fólk geislar af gleði, já, það er gott að búa á Akranesi.
Misskiljið mig samt ekki varðandi jólaskap í október, ég hlusta ekki á jólalög fyrr en í desember nema aðstæður krefjist þess, ég er viss um þau hljóma um alla Glasgow til að auka kaupgleði okkar systra eftir rúma viku. Sterkar hefðir í tengslum við jól höfða alls ekki til mín, nema ég býð Hildu og co í hangikjöt á jóladag, það er bara komið upp í vana og ég er búin að tryggja mér besta eftirrétt í heimi, rúllutertu a la Daiva ...
Hilda hefur aldrei það sama í matinn á aðfangadagskvöld, bara eitthvað gómsætt, það er kannski hefð í sjálfu sér en mjög fín hefð. Annar í jólum er yfirleitt í lausu lofti (oft lestur á náttfötunum, maulandi laufabrauð og drekka malt og appelsín, kannski rommkúlur líka).
Ég gerði þau mistök í fyrra að kaupa mér hvítt jólatré (sjá mynd) og gefa það græna sem var nokkurra ára gamlat. Hvítt passaði síðan ekki eins vel við stofuna mína og heldur ekki flottu jólakúlurnar frá Tinnu Royal, þær eru miklu flottari á grænu tré, finnst mér, en þetta er auðvitað smekksatriði. Nú er bara að athuga hvort sú sem fékk það græna vilji skipta og fá hvítt?
Biðst afsökunar á þessu undarlega og ótímabæra jólastuði ... veit ekki hvað kom yfir mig, kannski fyrsti snjórinn á Skaganum, þessi sem hvarf?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2023 | 19:26
Álfar, magi með miðilshæfileika og Tommahúmor
Yndislegu vinir okkar, Kamilla og Gerry, fóru með stráksa í bíltúr og stefnan var tekin á Álfholtsskóg þar sem Kamilla sagði að væru álfar. Álfar eru aðaláhugamál stráksa og á vordögum lofaði hún að bjóða honum með sér þangað, held að þessi staður sé við Akrafjallið norðaustanvert. Ég var komin í fjólubláan síðerma rúllukragabol og þykka sokka í stíl, þegar hálftími var í brottför, átti bara eftir, þegar nær drægi, að fara í þykka svarta peysu, þykku michelinman-úlpuna og margvefja síðan heimaheklaða marglita treflinum utan um hálsinn - þegar ég fékk illt í magann. Áhyggjusvipur stráksa jókst með hverri mínútunni, eða þar til ég sendi K+G skilaboð um magaverkina og að drengurinn væri á leið niður stigann, enda hann svo sem aðalboðsgesturinn.
Mynd: Gerry hjálpar stráksa yfir beljandi stórfljót í ævintýra-álfagöngunni. Þau komu heim með hann áður en ég gat klárað bloggið og þess vegna eru hér myndir úr ferðinni. Þáðu te og kaffi og sögðu ferðasöguna. Engir álfar sáust en það fannst fyrir þeim. Stráksi sagði hrikalega gott að ég kom ekki með, ég væri mjög heppin, þetta var víst algjör svaðilför, þau þurftu að klifra og allt. Ég hefði sennilega frosið inn að beini ef ég hefði beðið í bílnum og mögulega slasast ef ég hefði farið í gönguferðina. Honum fannst svo sem ekki leiðinlegt að fara einn með þeim. Gerry hefur haldið tvær málverkasýningar í ár og hún tekið á móti börnum á Akranesi, Ísafirði, Austfjörðum og í Reykjavík þennan tíma (ár?) sem þau hafa verið hér. Þau hafa búið og starfað víða um heim og eru nú á heimleið til Danmerkur. Ó, hvað ég mun sakna þeirra. Þau eru búin að sjá meira af Íslandi á þessum stutta tíma en ég alla mína ævi.
Ég ætlaði svo sannarlega með í þessa álfagöngu, þetta var í alvöru ekki uppgerð gönguferðahatara, upphaflega ætlunin hafði verið að ég biði í bílnum á meðan þau afplánuðu gönguna, ætlaði að taka með mér bók ... eða kannski tölta með þeim, færi eftir umhverfinu og hitastiginu, þegar maginn tók óvænt af mér völdin. Kannski vissi hann fyrir fram ... eða kannski voru þetta mótmæli hans af því að ég brá út af vananum og var ekki með Eldum rétt þessa viku, og borðaði eflaust meira snarl en vanalega. Stráksi fær virkilega hollan og góðan mat í skólanum og fannst næstum því í lagi að snarla (hann vill helst þrjár heitar máltíðir á dag) ... en maginn í mér þoldi þetta kæruleysi ekki eftir dásamlegt atlæti í bráðum tvö ár með reglulegum, hollum máltíðum.
Fimm mínútum eftir að stráksi settist ofsaglaður upp í bílinn sem þaut með hann í burtu, fann ég verkina hverfa. Þetta þýddi svo sem að ég gat hringt í Einarsbúð og pantað nokkrar afar nauðsynlegar vörur, eins og engjaþykkni með nóakroppi (fyrir stráksa, ég held mig við einn slíkan í viku, þegar vikuna ber upp á snjóþungan mánudag eða tungl er hálffullt og merkúr er í stjörnuhrapi).
Nú bíð ég bara spennt eftir sögum af álfum. Ég hef aldrei séð nokkuð yfirnáttúrulegt en þekki fimm konur sem hafa séð álfa. Ein þeirra var tíu ára en hinar fullorðnar þegar það gerðist. Tónlistarkennari, læknir, trillueigandi, skrifstofukona og spámiðill. Þverskurður af þjóðfélaginu. Stærrí heili, næmleiki eða bara ofsjónir, jafnvel drykkjuskapur? (Djók) Ég sagði stráksa að ef ég sæi nokkurn tíma álf myndi ég skrækja af skelfingu. Það fannst honum fyndið, hann myndi halda ró sinni, sagði hann.
Ég er að reyna að stjórna því að hann sjái ekki Exorcist II sem er víst algjör hryllingur - vissulega hryllingsmynd en hefur fengið verulega slæma dóma. Ef ég bið hann um að sjá hana ekki, langar hann á hana - og ef ég bið hann um að fara ekki á til dæmis Oppenheimer og hann fer, mun hann aldrei fyrirgefa mér. Öfug sálfræði getur sprungið framan í mann. Vonandi er eitthvað annað bitastætt í bíó. Hann fékk vissulega engar martraðir eftir að hafa séð IT sem ég frestaði ansi lengi að leyfa honum. Þú veist að þetta er bara tómatsósa, segi ég alltaf í aðvörunarskyni. Þú meinar gerviblóð, jú, ég veit það, svarar hann. Sennilega er ofverndun í gangi af því að ég get ekki hryllingsmyndir (lengur) og reyni að stýra honum að hollu, uppbyggjandi, fræðandi og þroskandi efni ... Merlin og öðru spennandi og skemmtilegu.
Það varð mikið uppnám hér á hlaðinu fyrr í dag þegar bílstjóri lítils bíls ákvað að leggja FYRIR stíginn sem liggur m.a. að þyrlupallinum mínum, meðfram Langasandi. Sem betur fer kom stór bíll sem mótmælti harðlega með flautunni, sá litli færði sig því bílstjórinn var enn við bílinn svo sá stóri komst leiðar sinnar. Litla var lagt fjær (sjá mynd) og þrír einstaklingar úr honum fóru í Guðlaugu. Ég er enn með hjartslátt. Myndin var tekin ögn seinna, eða þegar annað farartæki fór þessa leið sem verður að vera opin fyrir t.d. löggubíla á fótboltaleikjum.
Mikill samhugur ríkir varðandi kvennaverkfallið þann 24. okt. Byrjar dagurinn nokkuð fyrr en eftir að ég er flogin af stað til Glasgow nánast um miðja nótt? Er þetta verst valda dagsetning allra tíma, þar sem ég missi líka af Vökudögum og alls konar skemmtilegu sem verður í gangi hér á Akranesi á meðan ég mæli skosk stræti og leita uppi Filippus Angantý? Svona getur farið þegar maður pantar og borgar með rosalega löngum fyrirvara ... til að fá hagstæðasta verðið.
Fréttir af Facebook:
Fésbókin rifjaði upp níu ára gamla minningu af minni eigin síðu, sögu af elsku Tomma mínum, bílstjóra og góðum vini sem dó óvænt langt fyrir aldur fram:
Aðstoðaði Tomma bílstjóra við farþegatalningu í gær.
Tommi: Eru karlar í meirihluta?
Gurrí: Held ekki, átti ég að flokka eftir kynjum?
Tommi: Nei, alls ekki, það var bara svo mikil þögn í vagninum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2023 | 22:24
Vonandi ekki berdreymin ...
Hannyrðaklúbburinn minn hugumstóri, Hekls Angels, hélt sinn fyrsta fund í dag eftir langa mæðu, eða síðan fyrir covid ... og það var svo gaman. Lítið heklað, mikið talað og sérlega góðar vöfflur með heimagerðri, geggjaðri jarðarberjasultu snæddar með bestu lyst. Myndin tengist móttökunum sem við Bára fengum í dag en óbeint þó.
Það var ansi hamingjusöm kerla sem kom við í Einarsbúð á leiðinni heim til að kaupa engjaþykkni með nóakroppi ... fyrir stráksa sko ... og fleiri nauðsynjar, nógu léttar til að geta borið þær upp á Kirkjubraut, á strætóstoppistöðina rétt hjá spítalanum. Í strætó áttum við stráksi nefnilega stefnumót, vel tímasett, hann að koma úr matarboði og ég þurfti sárlega aðstoð hans við að bera vörurnar upp stigana. Hlaupameiðsl mín síðan á laugardag voru ekki jafnmikil og ég hafði óttast. Til öryggis gekk ég löturhægt heim til Gunnu skömmu fyrir klukkan þrjú, það er ögn lengra en í Einarsbúð, til að hlífa áverkunum eftir mögulegt næstum hásinarslit eftir óþörf hlaup laugardagsins. Ég verð orðin sallafín eftir örfáa daga.
Svo er vitlausu veðri spáð á morgun, fimmtudag, og mér finnst jaðra við happdrættisvinning að þurfa ekki að fara út fyrir hússins dyr, fer bara að brjóta saman þvott og sinna alls konar húsverkjum, vei! Eftir örfáar vikur, eða um mánaðamótin, breytist þó allt og ég fer að vakna um miðjar nætur (upp úr sjö), hætta mér út í kannski hálku og stórhríð og það í boði Símenntunar Vesturlands. Algjört HÚRRA fyrir því! Afskaplega skemmtilegt og gefandi að kenna útlendingum íslensku. Ég kem úthvíld og hress í þetta strax eftir Glasgow-ferðina.
Vonandi er ég ekki berdreymin ... eina nóttina fyrir skömmu fannst mér koma ótrúlega stór jarðskjálfti þar sem ég var stödd heima hjá mér í Himnaríki. Húsið lék á reiðiskjálfi en það brotnaði ekki ein rúða og ekkert skemmdist þrátt fyrir mikið rugg. Það var nú gott að ekkert brotnaði, sagði draumspakur ættingi minn en ég veit hreinlega ekki hvað hann (reyndar hún) myndi segja við næsta draumi, fyrir örfáum dögum, en þá datt Himnaríki alveg á hliðina í risaskjálfta en engan sakaði, það var fólk hjá mér og allir rólegir yfir þessu, rúður brotnuðu ábyggilega en allir stóðu á fótunum, ég þar með talin, á meðan húsið liðaðist í sundur og fór á hliðina. (Draumspakir vilja meina að húsið manns í draumi sé maður sjálfur, líkami okkar, og þá er ég að hruni komin núna! Undirmeðvitundin að reyna að láta mig vita að ég sé í klessu án þess að átta mig á því?)
Það sem ég held er að ég sé enn að venjast nýja RB-rúminu og áhrifum þess á daglegt (nætur)líf mitt. Nokkrum sinnum hef ég fundið hristing sem er síðan ekki jarðskjálfti, heldur köttur að hreyfa sig, sennilega stökkva upp í til mín. Eina nóttina vaknaði ég við jarðskjálfta, mjög stóran (ég finn bara þá sem eru yfir 4 að stærð, frá Reykjanesskaga) og fór beint í símann, kíkti á vedur.is, valdi jarðhræringar og beið eftir uppfærslu Veðurstofu Íslands - sem kom svo aldrei. Þetta var bara köttur ...
NEMA Veðurstofan sé farin að slaka á kröfum til starfsfólksins? Sem er ótrúlegt. En ég trúi svo sem ýmsu eftir að Broddi Broddason hætti hjá RÚV, til dæmis því að jarðskjálftar séu þaggaðir niður af því að Broddi hætti og enginn finnist sem getur róað þjóðina eins og hann ... Það skyldi þó ekki vera? Og kettirnir mínir þá sárasaklausir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.4.): 28
- Sl. sólarhring: 104
- Sl. viku: 666
- Frá upphafi: 1525559
Annað
- Innlit í dag: 24
- Innlit sl. viku: 593
- Gestir í dag: 24
- IP-tölur í dag: 23
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni