Smámunir og slaufandi langrækni

Drög að smámunasafniLeigumarkaðurinn er villtur, alveg eins og hann var á níunda áratug síðustu aldar þegar ég flutti tíu sinnum á fimm árum. Samt var ég draumaleigjandi, gekk vel um, aldrei hávær partí, leigan borguð á réttum tíma og það allt.

Ungt par, tengist ættingja mínum, ætlar að kveðja foreldrahús og fara út á þennan hryllingsmarkað. Það datt aldeilis í lukkupottinn þegar því bauðst fínasta tveggja herbergja íbúð í Ljósheimum og það á ótrúlega góðu verði. Bara verðið hringdi viðvörunarbjöllum hjá ættingja mínum sem bað parið um að fara varlega. Samt munaði minnstu að þau borguðu þriggja mánaða leigu fyrir fram sem tryggingu til að festa sér íbúðina ... og til að fá að skoða hana. Fyrst borga - svo skoða, átti samkomulagið að vera. Það tókst sem betur fer að bjarga unga parinu frá því að lenda í klóm svindlara.

 

 

Þegar ég bjó í Æsufelli 6, ágætri íbúð sem var leigð út til hálfs árs, var ég byrjuð nokkrum vikum fyrir flutninga, að auglýsa eftir annarri (vann hjá DV) og man eftir karli sem hringdi og var með ansi hreint ódýra íbúð í þessu sama risastóra átta hæða húsi sem Aspar- og Æsufell er. Annaðhvort var ég ekki nógu tilkippileg í spjalli okkar eða of saklaus til að skilja eitthvað sem karlinn sagði undir rós, að hann missti áhuga á því að leigja mér. Svo komst ég að því löngu seinna að þessi karl var til í alvörunni og átti nokkrar íbúðir. Jæks. Nei, þá var nú betra að flytja milljón sinnum en að lenda mögulega í einhverju óþægilegu rugli.

Það var ekki fyrr en í næstsíðustu leiguíbúðinni sem leigusali minn þar sagði: „Ég skil ekki af hverju þú hefur flutt svona oft, þú ert svo ljómandi fínn leigjandi.“ Hún leigði mér fyrir orð vinar míns, frænda hennar, og leist samt ekkert á í fyrstu að fá einstæða móður sem missti húsnæðið reglulega ... þá áttaði ég mig á því hversu illa þetta leit út, það voru sennilega bara leigjendur sem áttuðu sig á því hve leigumarkaðurinn var ömurlegur, aðrir ekkert endilega að pæla í því. Síðustu leiguíbúðina fékk ég svo í gegnum vinkonu en móðir hennar átti fína kjallaraíbúð við Hávallagötu og leigan þar var enn lægri, enda íbúðin minni. Þar bjó ég þar til ég gat keypt verkóíbúð á Hringbraut, íbúð sem ég seldi svo 18 árum síðar og flutti í Himnaríki þar sem ég hef verið í 17 ár. Ef ég flyt í bæinn á næsta ári er það eingöngu talnaspeki og göldrum að kenna.

 

Mynd: Drög að smámunasafni. Fræg verk, styttur, byggingar og slíkt í dúkkustærð OG á viðráðanlegu verði. Danska hafmeyjan og Notre Dame sem var í eigu mömmu. Óþekkti embættismaðurinn við Iðnó (Listasafn Reykjavíkur), hljómplata (reyndar diskamotta, fékk nokkrar í jólagjöf), Omaggio-vasi, danski Kay Bojesen-apinn og múmínbolli. Svona er nú hægt að eignast heimsfræga hönnunarhluti. Ég á meira að segja Hugsuðinn eftir Rodin en ekki í smámunastærð. Skima nú eftir góðum stað heima til að hafa smámunina á, þar sem þeir njóta sín en þangað til eru þeir á bókahillu, rétt fyrir neðan bleiku fokkjú-styttuna.      

 

Líka á FacebookFólk á Facebook deilir svolítið frétt af Snorra Mássyni, fyrrum fréttamanni á Stöð 2 og frekar sniðugum gaur, sem ætlar að verða ríkur af því að stofna fjölmiðil, segist vera að þessu fyrir peninga og leitar að ríkum og vondum bakhjörlum. Ég hef ekki kynnt mér þetta frekar, hvort þetta sé grínfrétt eða bara nýr hlaðvarpsþáttur, EN ... gleymi samt aldrei hvernig hann tók á frétt um fækkun farþega í landsbyggðastrætisvögnum. Hann skellti sér í Mjóddina og hreinlega taldi stoppistöðvarnar á milli Reykjavíkur og Akureyrar, eins og þar lægi vandinn. Allt myndi fyllast aftur ef stoppistöðvum yrði fækkað. Það yrði vissulega þægilegt fyrir bílstjórana að fækka þeimm en ekki farþegana. Strætó er nefnilega ekki rúta. Það er allt annað en fjöldi stoppistöðva sem fækkar farþegum. Eins og bara covid, hrunið 2008 þegar fólki var sagt upp í stórum stíl og þurfti ekki lengur að fara á milli Akraness og Rvíkur, hækkun fargjalda, fækkun ferða, hringl með greiðslumáta og fleira. Á meðan þess er krafist að almenningssamgöngur skili gróða er auðvitað allt gert til að auka gróða en minnkandi þjónusta fækkar farþegum. Vonum bara að strætó breytist ekki í rútu.

 

Mynd: Líka á Facebook. Langsveltir innviðir og hæstánægð stjórnvöld með að við snúumst hvert gegn öðru í stað þess að beina spjótum að þeim - í einu ríkasta landi heims sem hefur sannarlega efni á að gera miklu meira fyrir "okkar" fólk ... og sýna fólki í neyð mannúð. Það er líka vinsælt að láta sem svo að "þetta fólk" vilji bara leggjast upp á okkur.

 

HeklÉg vil ekki vera langrækin, alls ekki út í strætó eða hinn skemmtilega Snorra þótt hann hafi ráðist að lífsöryggi mínu með því að dissa of mikinn fjölda stoppistöðva, að hans mati (skýring: t.d. hálka, fótbrot á leið út á stoppistöð langt í burtu), en ég mun þó aldrei gleyma misgjörðum Krabbameinsfélagsins í garð kvenna á Akranesi þegar brjóstaskimunin var flutt í bæinn. Hef því ekki keypt Bleiku slaufuna síðan, jafnvel þótt heilsugæslan í Rvík hafi tekið við og haldið áfram að hóa í Skagakonur í stað þess að koma hingað í tvo daga á ári og stuðla þannig að peningasparandi-til- lengdar og lífsbjargandi-heilsuvernd. Björgunarsveitirnar, Kvennaathvarfið, Líf án ofbeldis, SÁÁ og Sundfélag Akraness fá minn stuðning reglulega í staðinn.

 

Eitthvað fleira til að nöldra yfir, frú Fussríður? Ja, ég get vissulega fussað yfir sjálfri mér fyrir að nota ekki fríhelgina mína til að slaka á og horfa á gera upp íbúðir-þætti á Stöð 2 plús. Lesa uppsafnaða bókabunka, bæði í raunheimum og netheimum, í stað þess að hlusta bara. Neibbs, sannarlega ekki, ég er búin að mæla fyrir hillu til að flytja úr gamla kósíhorninu og setja niður á pallinn fyrir neðan Himnaríki, koma þar fyrir skóm og kannski einhverju fallegu punti líka. Þetta er vandræðastaður sem hefur aldrei verið fínn. Mig langar að klára þetta NÚNA þótt ég sé að hvíla kvartandi bakið með því að henda í blogg. Ég er komin með svarta beltið (bakbelti úr Eirbergi) utan um mig svo ég get nú barist gegn bakverkjum og óréttlæti í heiminum - og mun líka reyna að hreyfa mig hægt, eins og þokkafullur strandvörður á Langasandi. Minnsta mál. Tek myndir fyrir og eftir. Ef þetta kemur illa út, mun ég sennilega ekki sýna neitt ... bara fussa skriflega yfir heimskulegri hugmynd. Maður á samt ekki að kaupa allt, frekar nýta það sem til er, eins og bráðum tóma bókahillu vegna grisjandi hugarfars undanfarið. Gangi mér vel. Íbúfen inni í skáp og sjúklega góð dýna til að sofa á, hitapoki, nuddtæki, ég hef enga afsökun, dríf í að gera þetta. 

 

Jú, enn eitt af Facebook. Maður að nafni Timothy (sjá mynd 3) fékk verðlaun fyrir mjög flott teppi sem hann heklaði. Uppskriftin að teppunum er eftir Tinnu okkar Þórudóttur Þorvaldar (ekki Þorvaldar Þorvalds- og Ólínusonar af Akranesi) sem hefur skrifað alla vega þrjár heklbækur. Peysan sem ég ætla að hekla í Hekls Angels, ef ég get, er einmitt eftir hana. Tinna er með afar vinsæla fb-heklsíðu, Tinna´s Crochet Club, og þar eru gríðarlega margir meðlimir. Sumir halda að ég sé snillingur að hekla en svo er alls ekki. Ég kann að fara eftir einföldustu uppskriftum og framleiddi mikið af treflum og sjölum í jólagjafir. Geta og framleiðslugeta er alls ekki það sama.     


Gjörbreytt ásýnd og fleiri einnota fyrirtæki

Morgunstund gefur gullMorgunstund gefur svo sannarlega gull í mund. Sumar litlusystur hafa stundum mögulega kannski svolítið rétt fyrir sér. Eftir að hafa dúllað mér við tiltekt eftir sturtu, frá u.þ.b. kl. 11.15-11.47, var ásýnd eldhúss Himnaríkis gjörbreytt. Það sem er ekki hægt að gera með smávegis vatni og einum eyrnapinna ... Talsverður munur, finnst mér, sjá samsetta mynd.

 

Ég bæði óttast áhrif rúmsins og gleðst yfir þeim, nýja rúmsins, harða og dásamlega, óttinn er við að ég geti ekki lengur vælt yfir bakverkjum þegar ég bið stráksa að þrífa upp af gólfinu uppköst kattanna (aðallega Krumma sem ælir af skelfingu þegar fer að minnka í dallinum, og étur síðan of mikið þegar ég fylli á sem þýðir að hann endurtekur gubbskapinn). 

Er orðin miklu skárri, finnst ég meira að segja hreyfa mig hraðar, stundum alveg hviss-bang af því að ég þarf ekki lengur að óttast að fá þursabit við eina óvarlega hreyfingu. Svona leið mér líka eftir að ég keypti gömlu dýnuna, fyrstu c.a. þrjú árin en svo bara gafst hún upp á mér og sveik loforðin. Enginn áhugi þegar ég kvartaði, svo fyrirtækið varð einnota í mínum huga, eins og Ak-tak-dæmið, sem vinur minn kallar Rændu -spændu ... Mér skilst að RB-dýnur gefist ekki svo glatt upp á eigendum sínum. Hægt að snúa þeim alls konar og þegar þær fara að linast eftir kannski 20 ár, er hægt að láta gera þær eins og nýjar.

 

Edda úr Angist með SkálmöldFrétti hjá elsku Einarsbúð áðan að það væri þjóðarskortur á eggjum. Nei, tengist ekki ketó, heldur vegna nýrrar reglugerðar um hamingjusamari hænur sem er auðvitað dásamlegt. Við eigum að fara vel með dýr. Margir eggjabændur hættu út af þessu og því er skorturinn. Svo datt mér í hug að kannski væri hægt að hafa slátrun kjúklinga mannúðlegri, eins og að skutla þær, en láta dýralækni horfa á, til að það sé ekkert sárt. Hægt að ráðgast við Kristján Loftsson ... sem Gummi bróðir hafði næstum ruglað saman við Gissur Pál Gissunarson óperusöngvara í erfidrykkju um árið, munið. Hefði ég átt að stoppa hann, eins og ég gerði? Nei.

Hversu dásamlegt hefði verið ef einhver hefði ruglað mér saman við t.d. Marilyn Monroe ... eða nei, hún dó viku fyrir fjögurra ára afmælið mitt. Ja, kannski frekar ef einhver segði ofsaspenntur við mjólkurkælinn í Einarsbúð: „Bíddu, bíddu, ert þú söngkonan Edda úr Angist?“ Þá hefði ég getað svarað: „Uhhh, takk, ég gæti verið mamma hennar, hún er vissulega í miklu uppáhaldi. Hún söng með í laginu Hel með Skálmöld og Sinfó.“ Sennilega hefði ég bara bilast úr hlátri ... en samt ... Ég leyfði úkraínskri grannkonu minni að heyra Hel og hún varð óttaslegin, fannst þetta vera djöflarokk. „But you are in Heaven,“ hefði ég auðvitað átt að segja.

 

Inga vinkona kemur í mat í kvöld, í Ljúffengt kotasælulasagna. Það uppgötvaðist villa í uppskriftinni og Eldum rétt sendi SMS upp á líf og dauða með leiðréttingu, þetta hefði orðið ansi þurrt annars, munar alveg um 60 ml (fyrir tvo) af vatni. Við verðum þrjú í mat en ég keypti efni í meira salat með, og eftirrétt líka, eða fokkings engjaþykkni með satans nóakroppi. Bara jólin? hugsið þið eflaust, já, alltaf jól í himnaríki. Og nei, ég er ekki farin að skreyta.

 

Af Facebook:

Á meðan Kristján Loftsson langar að veiða hvali, verða hvalir veiddir, skrifaði einhver mæðulega áðan.

BananarúllutertaÁ minni eigin síðu, Fb rifjar upp frá 2015: „Rakst á gamla stafsetningarvillu eftir mig á prenti: Hjartnær (hálfa öld). Er þetta ekki bara ágætt nýyrði? En yfir hvað?“

Svo eru komin níu ár síðan ég sjokkeraði (í 2 sekúndur) afgreiðslukonu hjá Bakarameistarum, ég hafði keypt bananarúllutertu (8-12 manna) til að gleðja soninn. „Viltu kassa?“ spurði hún. „Nei, takk, ég ætla að borða hana hér!“ Eftir að hafa verið um tíma á fb-síðu þar sem afgreiðslufólk kvartar yfir viðskiptavinum sem reyna að vera fyndnir, fékk ég samviskubit og er hætt þessu. Þetta var uppáhaldskaka lífs míns en mér var refsað fyrir húmörðinn, eins og stráksi orðar það (húmor og ömurð saman?), og kakan er ekki lengur í boði!!! Jói Fel gerði svipaða en hafði vínbragð í kreminu sem var ... Ja, ég viðurkenni fúslega að ég er fanatísk á móti víndropum í bananarúllutertum.


Hlegið að þrifum, furðuframburður og ómannúðlegur matur

Allt í drasliHálfkæfður hlátur hljómaði um Himnaríki. „Af hverju ertu að hlæja?“ spurði stráksi sem var á næstu grösum. Ég sprakk þá alveg og reyndi að útskýra að einhver nánast ókunnug hjúkrunarkona (sjá síðasta blogg) hefði heimsótt aðalsöguhetjuna og síðan farið að þrífa heimili hans. „Og hvað er svona fyndið við það?“ spurði þessi efnilegi fulltrúi feðraveldisins.

 

Sko, ég hélt að hjúkkan yrði bara pínulítil aukapersóna, upp á kannski eina og hálfa blaðsíðu, en eitt kvöldið, ögn aftar í bókinni, heimsótti hún söguhetjuna heim til hans til að segja honum að hún hefði séð grunsamlegu konuna sem þóttist vera blaðamaður á sjúkrahúsinu, vera að afgreiða í skartgripabúð. Hann bauð henni inn og henni ofbauð svo draslið (sjá mynd) að hún tók sig til daginn eftir, með hans leyfi, og hreingerði íbúðina. Miðaldra konur hafa svo gaman af því að taka til hjá óþægum ungum piparsveinum og vera svolítið móðurlegar við þá. Í lok bókar var hún æviráðin hjá honum og blindu, fallegu kærustu hans sem fékk sjónina aftur vegna kænsku kærastans sem einnig leysti nokkur flókin morðmál fyrir lögregluna.

 

Ég er komin á þriðju bókina í þessum bókaflokki (gamlar ástarsögur) og masókistinn í mér nýtur þess sífellt meira að hlusta. „Eldgamla“ orðið meðaumkun virðist hafa vikið fyrir orðinu samúð í íslensku máli, hjá yngri lesurum alla vega, sem virðist ekki vita hvernig eigi að bera það fram, hún segir: meða-umkun. Í alvöru! Ekkert slæmar bækur, bara börn síns tíma. Pirringur minn yfir því að söguhetjur þurfi að fara á símstöð til að hringja í lögguna hefur minnkað og ég er ákveðin í því að skemmta mér yfir þessum bókum á meðan ég bíð eftir nokkrum nýjum afar girnilegum sem eru væntanlegar. Ég flissaði mikið þegar lögreglan var næstum búin að handtaka konu af því að hún var ekki nógu yndisleg. Í alvöru.

 

Ég er alveg risaeðla á ýmsan hátt, sennilega get ég ekki kennt aldri um því vinkonur mínar og ættingjar á svipuðu róli í árafjölda (RF(rúmlega fimmtug)) eru allar/öll miklu betri í þessu en ég, ein er tölvusnillingur, ég skil til dæmis alls ekki hvað gemsinn minn er að segja mér: Exposure Notifications are off ... Your iPhone will no longer log nearby devices and you won´t be notified of possible exposures. Þarf eitthvað að gera í þessu - og hvað þá? Ef ekki, hvernig losna ég við að sjá þetta í hvert skipti sem ég virkja skjáinn, áður en ég opna símann? Ég skal tengja vídeótæki fyrir hvern þann sem veit eitthvað um þetta. Ef þetta kemur í veg fyrir að ég fái fréttir frá löggunni um hraunrennsli nálægt Akranesi vil ég endilega fá þetta lagað.  

 

HamborgarinnHamborgari var eldum rétt-aður í kvöld (allt of sjaldgæfur matur, segir stráksi) og ekki fyrr en ég fór fram til að elda, undir hálfsjö, að ég sá að ég hefði átt að taka kjötið út klukkutíma áður. Ég setti því allt í algjöran hægagang ... gerði hvert einasta handtak fyrir fram (ekki jafnóðum) áður en eldamennskan hófst, náði þannig að tefja eldun hamborgaranna sjálfra. Eina sem ég gleymdi var að pipra sósuna almennilega. Þetta var samt gott. Laukur er svo æðislegur. 

 

- - - - - -

Á Facebook:

Á íslenskunördasíðu spyr einhver Guðríður hvort eigi að segja meða-umkun eða með-aumkun - og hvort meðlimir viti almennt hvað þetta orð þýði. Viðbrögðin hafa verið nokkur: Er þetta frétt? Is this still available? Á þetta heima á þessari síðu? Prófaðu edik og natron!

 

Ein fb-vinkonan búin að reynsluaka 14 bílum frá því á föstudag. Hversu langan tíma tekur eiginlega að finna bíl í flottum lit?

 

Umræða um strætó í Mjódd, af hverju ekki gengur að hafa biðstöð stærstu skiptistöðvar landsins opna jafnlengi og strætó gengur, eða lengur en til kl. 18, og hafa salernin opin. Einhver útvistuð þrifþjónusta hætti að þrífa klósettin og þá var þeim bara lokað. Hvað ætli bensínstöðin á móti hafi grætt mikið á fólki (m.a. mér, oft) í spreng sem verður að kaupa eitthvað til að fá að pissa?

 

Uppáhaldssíðan mín, Gamaldags matur, er farin að missa marks, vill einn meðlimurinn meina, allt of margir póstar úti á túni, segir hann. Þetta er uppáhaldssíðan mín af því að ég er svo fegin að hafa sloppið lifandi frá því að hafa þurft að borða matinn á sjöunda áratug síðustu aldar. Hræringur, spagettí soðið í hálftíma, súrt slátur, sigin ýsa, kæst skata, hamsar, þverskorin ýsa, lúðusúpa ... Ég horfi með hryllingi á ljósmyndirnar á síðunni og held oft að fólk sé að blekkja þegar það segist hafa borðað með bestu lyst alls konar svona mat á meðan búðirnar eru fullar af einhverju miklu mannúðlegra.      


Hvarf heftara á ögurstundu, grisjun og gaman

StorytelEiginlega skil ég ekkert í mér að rjúka á fætur upp úr klukkan átta í morgun. Oftast lúri ég lengur eftir að stráksi er farinn í skólann. Fór bara að raða bókhaldinu og hlustaði á sögu á meðan. Eftir nokkra ofurgóða lesara er ég orðin mjög kresin (flott orð) á þá og hef þjáðst svolítið í morgun. Bæði segir lesarinn REN-AULT um bíl einnar söguhetjunnar (ekki Renó), les stirðlega (segir biðja Hann um, ekki biðj´ann um) og svo hjúkrunarkonan (gömul bók) sem talar sambland af dönsku og sænsku er nánast látin skrolla og tala afskaplega bjagað. Það risu á mér hárin af hryllingi þegar hún talaði, óvirðing við Dani og Svía og líka þá sem skrolla. Hlutverk hjúkkunnar verður því óbærilega stórt í bókinni, þótt hún sé algjör aukapersóna, bara til að sýna hvað aðalsöguhetjan er nú sniðugur gaur. Ég upplifði mig sem fórnarlamb á meðan ég raðaði Einarbúðarkvittunum fyrir janúar, í febrúar var komin varanleg gæsahúð á augnlokin ... osfrv. Aðalsöguhetjan kom fram við hana eins og þjónustustúlku á hóteli, nema af meiri frekju en eðlilegt mætti teljast („Færið mér dagblöðin“). Hann daðraði við hana, uppnefndi hana þótt hún bæði hann um að hætta því, bað hennar þótt hún gæti verið móðir hans, bara til að vera sniðugur. Ég ætti kannski ekki að hlusta á gamaldags bækur framar, hvað þá með leiklestri. Fólk var allt öðruvísi á sjötta áratugnum. Svo pirrar mig að gaur sem finnur myrta konu, skuli þurfa að húkka sér bílfar til kaupmanns í grennd til að geta hringt í lögregluna. Nútímatækni er kannski búin að eyðileggja mig. En Kapítóla er samt alltaf góð þrátt fyrir gemsaleysi. Þarf samt að endurlesa hana. 

Leikarar hafa lært þá list að lesa fyrir fólk þótt sumir fari vissulega út í talsverða persónusköpun með röddinni sem getur verið ergilegt. Við sem viljum leikrit hlustum þá bara á útvarpsleikritið á Rás eitt á fimmtudagskvöldum eða, ef við eigum bíl, förum í leikhús.  

 

Bókhaldið er komið í plastmöppur eftir mánuðum. Kvittanir í röð eftir stærð, eins og Hilda vill, hún er skattasérfræðingur Himnaríkis og hlær ofboðslega yfir fáum kvittunum mínum þegar hún útbýr gögnin fyrir mig til endurskoðandans árlega. Ég er svo fegin að hún biður ekki um í stafrófsröð. Það passaði algjörlega að skipta borðstofuborðinu í níu hluta, eða fyrir níu mánuði þessa árs, og hafa samt pláss fyrir einn kaffibolla. Verst að ég finn ekki stærri heftarann á heimilinu, bara heftin sjálf, fullan kassa, svo víða eru reikningur og kvittun í tvennu lagi sem Hilda myrðir mig fyrir. Svona er að hafa ekki ákveðinn stað fyrir alla hluti heimilisins. Ég finn kannski stað og svo gleymi ég honum og finn annan stað ... en það bjargar auðvitað öllu hvað ég gaf mikið dót þarna í hreinsuninni miklu 2020 (ekki stóra heftarann samt) þegar Himnaríki var endurnýjað frá gólfi til lofts.

Svo fer að koma tími á næstu hreinsun, næstu grisjun. Ég búin að plata unga yndisdúllu á bíl til að aðstoða mig og fara með sitt af hverju í bæinn til að gefa á nytjamarkaði þar. Á meðan Búkolla vill bara nýrri hluti verð ég að fara í bæinn með dótið því þar leynist eflaust gamalt. Ekki það vistvænasta kannski en þá þarf ég ekki að henda einhverju nýtilegu og fallegu, en  markaðirnir í bænum hafa þegið allt mitt með þökkum. Fyrst það ríkir hálfgert 2007-ástand á Akranesi, eins og þau segja hjá Búkollu, skil ég þau alveg að taka ekki við gömlu. En það þýðir samt auðvitað meiri sóun og að nýtilegu dóti sé hent. Í alvöru-2007-ástandinu fór fólk þó ekki á nytjamarkaði til að spreða, það keypti sér þyrlur og byggði milljarðasumarhús. Þekki eina sem fór í svo flottan sumarbústað í eigu bankans sem hún var yfirmaður hjá, að það voru ekki bækur þar, hönnuðurinn bannaði það, bækur voru drasl og það mátti ekki drasla í svona fínheitum. Samt voru það flatskjáir alþýðunnar sem felldu landið, magnað. Nú eru það Tene-ferðirnar sem hækka vexti og margfalda þar með óverðtryggð húsnæðislán og fleira. En sjúkk, bankarnir tapa ekki, það er nú fyrir öllu. 

 

 

Köttur í einskis bóliStráksi vill engu henda svo ég verð sennilega að bera í hann fé eða hóta því að vera  með svið í matinn til að fá að grisja smávegis - hann hefur reyndar aldrei spurt um eldgamla legódótið sem fór í „geymslu“ hjá Hildu frænku ... Virkilega nýtinn sem er auðvitað fínt líka. Skil hann svo sem, ég var svona sjálf, fannst gott að eiga hluti sem kæmu sér kannski vel síðar, efni til að sauma úr ef ég lærði að sauma, bækur sem ég myndi sennilega lesa aftur seinna ... en svo fór ég í trylltan GEFA-gír og gaf eiginlega of mikið (af bókum og ætla að halda því áfram).

Áður en allt fyllist aftur, sem gæti gerst á næstu tíu árum, myndi Himnaríki hafa mjög gott af annarri grisjun. Sem betur fer hef ég verið nokkuð dugleg að gefa hluti síðustu árin; grannkona mín átti t.d. enga pönnu, ég átti tvær svipað stórar, hún fékk aðra. Vinkona mín átti kommóðu sem hún hafði ekki pláss fyrir, mig vantaði hirslu undir dót og til að setja litla sjónvarpið á inni í vinnu- og svefnherberginu mínu, hún gaf gömlu, flottu kommóðunni öruggt framhaldslíf og ég naut góðs af. Inga fær fullt af plötulopa frá mér og Rauði krossinn rest af því sem ég ætla að gefa, synd að taka mikið skápapláss undir garn sem ég mun sennilega aldrei hekla úr, á svo allt of mikið.

 

Mynd: Ég fékk teppið bláa og fína í jólagjöf frá Birtíngi eitt árið, það er svo fínt og snobbað að ég hef ekki leyft kisunum að sofa á því. Breiddi það yfir mig í gær þegar ég lagðist á hitapoka eftir eitthvað erfiði, og kettirnir röðuðu sér á það í kringum mig. Ég skellti því svo í stólinn, ofan á annað teppi sem er meira ætlað þeim, og átti bara eftir að brjóta það saman og skella í teppakörfuna (ekki efst) í stofunni en Krummi gefur engin grið þegar kemur að almennilegum teppum. Nú tími ég ekki að raska ró hans. Einhver teppi (ekki þetta) fá að fjúka í grisjuninni fram undan. Ég á of mörg.

Ég er komin í gírinn!    


Ofurhreinskilinn áhrifavaldur

Bókin ljúfaÉg kláraði að hlusta á hljóðbók í dag. Hef lesið hana áður en langaði að hlusta, hún er eitthvað svo dásamleg. Þegar lesarinn sagði: Þú varst að hlusta á bókina xxx, eins og alltaf kemur í lokin fannst mér endirinn ekki réttur, eitthvað sem ég mundi samt ekki hvað var, vantaði. Ég kíkti á storytel-ið og sá að enn voru rúmar 13 mínútur eftir af bókinni (á hraðanum 1,2) - eiginlega mjög mikilvægur hluti, þar sem aðalpersóna nútímans (tvö tímaskeið) átti eftir að ... æ, ég tími ekki að blaðra því. Þegar búið var að segja að bókin væri búin, hélt hún samt áfram þessar 13 mínútur og til enda. Svo kom aftur Þú varst að hlusta á bókina ... nema á réttum stað.

 

Endilega, ef þið hafið lesið þessa bók, tékkið á því hvort þið eigið enn þetta mikilvæga korter eftir. Ég gekk reyndar svo langt að ég sendi útgefandanum tölvupóst og lét vita af þessu, fólk verður að fá endinn, annars er bókin auðvitað endaslepp. Þetta verður eflaust lagað, ég trúi ekki öðru, og þegar það er búið kem ég út eins og asni því ég varaði líka við þessu á Storytel-umsögn minni um bókina. Það er greinilega alveg jafnmikilvægt að prófarkahlusta bækur og að prófarkalesa þær. Stundum hef ég lent í að þurfa að hlusta á heilu kaflana tvisvar, það er frekar óþolandi.

 

„Þú nærð aldrei að verða áhrifavaldur,“ sagði litla systir spekingslega í dag þegar hún hringdi sína daglegu hringingu til að segja mér hvað ég liti vel út. Ég þarf ekki að borga henni mikið fyrir þetta sem gerir nú samt alla daga betri, nema þegar hún fer að rífa sig, eins og í dag. 

„Bíddu, bíddu, hvað er í gangi?“ spurði ég hlessa.

„Þú ert of hreinskilin, það myndi enginn þora að senda þér skyr eða snyrtivörur ... af ótta við að þú rakkaðir það niður, eins og þú gerðir við nánast allt nema Costco í blogginu í gær,“ sagði hún. Mig dauðlangaði að segja henni að ég hefði nú samt fengið sendar ókeypis snyrtivörur úr skyri en hún hefði sennilega fattað platið. Svo hefði ég nú bara gleymt því fáránlega rugli að geta ekki keypt Holly eftir Stephen King í Costco, eins og ég var viss um að geta gert. Hneyksli!

„Ég var nú bara í sjokki, gerði mér enga grein fyrir því hvað skyndimatur er ógeðslega fokdýr,“ reyndi ég að afsaka mig vegna ummæla um Aktu taktu-skyndimat fyrir fjóra á rúmlega þrettán þúsund. „Já, og hitt með kaffið þarna ... mikil sýrni er ekki sérlega góð í latte. Fer ekki ofan af því að kólumbíukaffið hefði verið betra, espressóbrennt. Manstu þegar við fórum á Snæfellsnes einu sinni, á Rjúkanda, þar var kólumbíukaffi frá Kaffibrugghúsinu og ég drakk mér til óbóta af því. Mögulega sumarið 2018, og nánast besta kaffi sem ég hef smakkað á Íslandi. Já, og auðvitað þetta í Grundarfirði, jiminn, hvað það er gott.“

„Gætir þú í eitt augnablik talað um eitthvað annað en kaffi?“ Hilda var orðin örg, enda drekkur hún neskaffi og hefur engan áhuga á sýrnibrennslu-snobbi. Við ræddum þá næstu mínútur um mögulega sigurvegara næstu kosninga til Alþingis, hvort gæti verið að sellerísafinn hennar Tobbu Marinós verði til sölu í Lemon á AKRANESI, hvort við myndum sigra í Evróvisjón einhvern tímann, við íhuguðum verndun svæðislýsingu smárása í hálfleiðurum í smástund, söknuðum þess að hafa ekki getað skroppið á flotta myndlistarsýningu sem opnaði í Borgarnesi í gær, við ræddum líka svifryk, Friðrik og Óla prik. Ég reyndi líka að koma því að endalaus, vægðarlaus jákvæðni er ekkert annað en pyntingar, ef marka má suma sálfræðinga. 

„Annars er besta kaffi í heimi í Bean around the World í Vancouver í Kanada,“ hélt ég hugsandi áfram. „Það væri ekki leiðinlegt að skreppa í kaffibolla þangað. Halló?“

Di-di-di-di-di-di-di 

 

Leikur satansMynd 2 er af leik Satans í símanum mínum. Ég hef verið í margra mánaða þrjóskukepppni við hann því appið vildi tengjast Facebook en það vildi ég ekki - og ég komst ekki inn í hann. Skil hreinlega ekki af hverju leikurinn vill tengjast, kannski sýna öllum mínum fb-vinum að ég sé fjárhættuspilari? En þetta er ekki alvöru. Hef spilað hann árum saman og er orðin ansi snjöll, á yfir 50 milljón dollara! Svo tapaði ég viljandi þrjóskukeppninni og kíkti á hann í gær eða fyrradag og finnst hann eiginlega hundleiðinlegur, það er auðvitað reynt að þvinga mann til að kaupa peninga sem ég þarf ekki, af því ég er svo snjöll ... Fjarlægðin gerði mig sem sagt fráhverfa leiknum sem segir mér að kannski þurfi ég að flytja út í Flatey á Skjálfanda til að fá fjarlægð frá súkkulaði ...  

 

Fb-fréttir:

Frekar rólegt á fb í dag, ein leitar ráða til að ná ryðblettum af steinsteypu! Einn og einn kominn í jólaskap, útlenskt fólk (sem má fara með hundana sína allt) heldur á stóru hundunum sínum í fanginu á meðan farið er í rúllustiga upp eða niður ... og fleira og fleira. 


Streð, spreð og ótrúleg tæknigeta hægri kinnar

Breytingar á MessengerBæjarferð var farin í gær í tilefni af ókeypis strætódegi, snöggri ferð í sumarbústað í dag og bara alls konar. Fleiri farþegar en vanalega voru um borð og í Mosó, áður sætukarlastoppistöðinni, kom inn indæli fyrrum lögreglumaðurinn af Dalvegi, og konan hans, hún Ingibjörg úr BG, ég legg ekki meira á ykkur. Held að elsku lögginn minn, gamli strætóvinurinn, hafi ekki þekkt mig aftur, eða ekki viljað trufla mig þar sem ég var í símanum. Eða var ég það kannski ekki?

 

Mér datt nefnilega það snjallræði í hug að hlusta á glæpasögu á Storytel á leiðinni (Svartur september) og hélt símanum upp að eyranu, eins og ég væri að tala í hann. Einhverra hluta vegna datt kinninni á mér í hug að gera einhverjar gloríur við þann sem ég hafði síðast verið að ræða við á Messenger, m.a. um sófaborð í Húsgagnahöllinni, Hildu systur.

Í kvöld ræddum við aftur saman á Messenger og allt umhverfið var orðið breytt, það sem ég skrifaði var inni í grænum ramma. Mjög flott, alla vega í tölvunni, breytt en ekki jafnflott í gegnum gemsann. Kinnin á mér er sem sagt talsvert klárari en ég í síma- og tölvumálum. Önnur breyting, eiginlega frekar asnaleg, ef mig langar að senda systur minni þumalinn til samþykkis á einhverju, fær hún mynd af pylsu með öllu. Ég vona af öllu hjarta að ég hafi ekki sent öðru fólki eitthvað bull, ógleymanlegt þegar ég sendi nýlátnum manni hálfgert daðurtákn af algjörum klaufaskap, rak mig í eitthvað og kunni ekki að fela brotið. Stundum þegar ég ætla að skippa hratt yfir story hjá t.d. snyrtivöru-gjafa-áhrifavaldi eða venjulegri manneskju hef ég ábyggilega oft sent einhver tákn alveg óvart, hjarta eða þaðan af verra. Istagram er skárra en snappið upp á þetta að gera.   

 

Mosi í gluggaFyrir nokkrum dögum setti ég mynd af Mosa á Facebook, eins og svo oft áður. Þarna var hann að gá til veðurs, sat við opnanlega fagið og heilt hyldýpi fyrir neðan hann ... hugsjúku fb-vinir mínir héldu að hann væri alveg að fara yfir í frjálst fall ... Sumir héldu að hann langaði að strjúka frá mér, mér var bannað að hnerra svo hann dytti ekki í krókódíladíkið fyrir neðan, og Hilda systir sagðist vera búin að tilkynna þetta, dýraeftirlitið á leiðinni. Hún veit kannski ekki að gamall strætóvinur og eilífðargestur í afmælisveislum mínum er lögfræðingur hjá MAST! Kæri hún bara, hann veit hversu móðursjúk ég er varðandi þessa ketti mína og þegar Mosi datt út um eldhúsgluggann um árið, eða stökk, var það ekki ég sem galopnaði hann. Opið sem kötturinn situr vanalega ofan á nær varla einum sentimetra, glugginn svo stífur að Mosi getur ekki bifað honum, þótt hann hefði vit á að ýta á hann, sem hann hefur ekki. Kötturinn situr aldrei lengi, hann andar að sér sjávarloftinu í svona þrjár mínútur, stekkur svo niður og fær sér blund. Sjá skýringarmynd (samansetning) og innan gula hringsins á þeirri til hægri sést þessi sentimetri sem kötturinn hefur til að fleygja sér ekki út um.

 

Aktu taktuStundum gengur maður út frá einhverju vísu sem er það svo ekki. Ég lenti í því fyrr í kvöld að ákveða eitthvað sem var svo innilega rangt hjá mér. Ég ákvað að bjóða systur minni, vinkonu okkar og stráksa í hamborgara hjá Aktu taktu, við fórum austur í dag og náðum á svo góðum tíma í bæinn aftur að tími gafst fyrir slíkt ábyrgðarleysi og ná samt strætó heim til Akraness kl. 19.59.

Þrír stakir borgarar, ein máltíð, laukhringir og fjórir shake. Þetta kostaði yfir 13 þúsund krónur, sem er meira en sex máltíðir hjá Eldum rétt, þrír dagar fyrir mig og stráksa í venjulegri viku, miklu hollara og betra fæði, eldað frá grunni. Þarna hélt ég ranglega að ódýr máltíð væri á lágu verði, var t.d. alveg búin að gleyma okrinu á pítsum á Íslandi. Þjónustan var upp á tíu, allt mjög hreinlegt en staðurinn tómur sem ég skil núna af hverju var. Það er hægt að verðleggja sig út úr bisness og kannski var tómur staðurinn merki um það - en bílalúgan virtist vinsæl. 

Allt hefur vissulega hækkað, til að bankarnir græði enn meira, segja sumir, stjórnvöld gleyma greinilega að halda með okkur fólkinu sem kýs þau, en það er önnur saga. Mér flugu í hug ýmis orð en það eina prenthæfa var "ósmurt" en svona okur gerir staðina bara einnota, ég ætla aldrei aftur á Aktu taktu, alveg sama þótt þjónustan sé svona góð. Lítill shake var t.d. á tæpar þúsund krónur stykkið. Ég er enn í algjöru sjokki! Gat ekki leynt því hversu dýrt mér fannst þetta vera, og fór út eftir matinn án þess að þakka fyrir, sem er ólíkt mér en ég held svo sem að indælu krakkarnir sem vinna þarna hafi verið að afgreiða lúgufólkið.

 

Anna JónaÞað var svo sem heldur ekki ódýrt að fara á veitingahúsið Önnu Jónu niðri í bæ í gær, föstudag, en ég átti frekar von á því á svona fínum og flottum stað. Virkilega notalegt, góð þjónusta og einstaklega ljúft andrúmsloft. Vel lagt í verðið á kökum, eða um 2.000 kr. sneiðin. Stráksi gat ekki klárað sína súkkulaðiköku, hún var svo þrungin súkkulaði og þar með saðsöm, ekkert krem, bara algjör bomba. Því miður gat ég ekki smakkað hana því hún var með möndlumjöli, eins og aðrar kökur þarna, nema ostakakan. Vita kökugerðarmeistarar ekki hversu algengt hnetuofnæmi er? Hilda fékk sér súrdeigsbrauð með þeyttu smjöri (mjög gott), ég fékk mér creme brúlei, sem var sennilega það besta sem ég hef smakkað. Mig minnir að það hafi verið milt eþíópíukaffi, espressóbrennt í vélina sem gerir latte og það allt og kólumbíukaffi, miðlungsbrennt í uppáhellinguna. 

 

 

Ef ég fengi að ráða myndi ég breyta tvennu þarna ... Fyrra: Að hafa kólumbíukaffið espressóbrennt fyrir kaffidrykkina (latte og það allt). Það var svo mikil sýrni í eþíópíukaffinu, þessu fína og milda og það hefði hiklaust átt að fara í uppáhellinguna. Sem sagt svissa þessu. Ég er kannski algjör plebbi þegar kemur að latte, vil hafa afgerandi bragð, ekki svona mikla sýrni en svo er kannski fagmanneskja sem er algjörlega á öndverðum meiði. Seinna: Skipta út möndlumjöli fyrir t.d. kókoshveiti. Þá gætu fleiri keypt súkkulaðikökuna, hvað þá girnilegu sítrónukökuna. En allt var vel merkt fyrir ofnæmispésa, og yndisleg orð fremst í matseðlinum frá eiganda og stofnanda um tilurð þessa dásamlega kaffihúss á Tryggvagötunni.

 

Hilda og hundarnirJá, og við fórum í Costco. Keyptum almennilegt drykkjarvatn þar, ég þurfti að hringja myndsímtal til Búdapest til að geta fundið rétta ölkelduvatnið (frá Kirkland), og við kíktum á sófasett í Húsgagnahöllinni, Hildu vantar, og ég keypti fallega blátt garn í Jysk (jusk). Hekls Angels-klúbburinn hefur starfsemi sína í nú október og peysa verður mögulega hekluð.

Þetta var svo mikið streð þetta brölt okkur um allt, að Hilda náði skrefafjölda dagsins ÁÐUR en hún fór í gönguferð með hundana.

 

Við fórum í Mathöllina Höfða í gærkvöldi þar sem ég drakk bjór með matnum sem var ákaflega góður og frekar dýr, eins og ég bjóst við. Það voru bara til stór glös á staðnum sem ég valdi, svo ég gat ómögulega klárað bjórinn nema sitja of lengi við. En ég lyktaði þó eflaust eins og brugghús þegar ég hitti tvær fyrrum samstarfskonur fyrir utan kjörbúðina hennar Hildu nokkru seinna. Önnur dásemdin vann með mér á Vikunni (2000-2022) í nokkur ár og hin á DV (1982-1989) í eldgamla daga. Það var mikið faðmast og knúsast ... Skyldu þær halda að ég hafi dottið í drykkju eftir að ég flutti upp á Skaga? Nei, elskurnar, mér finnst gott kaffi miklu, miklu betra en nokkurt áfengi. Og svo held ég að holla bætiefnaríka ölkelduvatnið úr Costco verði nýtt uppáhalds. Bara verst hvað það eru margar flöskur í kartoninu, við stráksi gátum bara rogast með helminginn heim í kvöld.

Á heimleiðinni hlustaði ég á Storytel, nýútkomnu dásemdina Gjöf hjúskaparmiðlarans, en hafði vit á því að hafa slökkt á skjánum á símanum svo mín klára kinn gæti ekki gert neitt af sér.  

 

Myndin er af Hildu og sætu frændum mínum, þeim Herkúlesi og Golíat, í örstuttu sumarbústaðaferðinni í dag. Með því að gista ekki, náðum við okkur í einn aukadag. Á morgun verður sunnudagur, ekki mánudagur. Svona fangar maður tímann. Ótrúlegt.      


Mergjað húsfélag og enginn greindur hér

SegulómunartækiNýjasti fb-hópurinn minn, Húsfélagið Skakkagerði 99, hefur fengið mig til að endurskoða líf mitt hér í Himnaríki, það er allt of rólegt hérna, finn ég, jaðrar við sálarfrið og andlegt jafnvægi, púff. Verst að ég finn Skakkagerði 99 ekki, hvorki á ja.is né með gúgli. Þarna býr afar fjölbreytileg flóra fólks og einn íbúðinn á meira að segja segulómunartæki sem hann fékk gefins. Það finnst mér merkilegt. Sjá mynd.

 

Færslan hófst á: „Góðan dag, ég fékk gefins þetta sniðuga tæki í dag og var að velta fyrir mér að taka að mér læknisfræðilegar rannsóknir í kjallaranum á 1182. Finnst ómögulegt að þessu sé hent.“

...

Nokkrum dögum seinna auglýsti annar íbúi

„Flóamarkaðurinn sem átti að vera á suð-suð-vesturgagningum á 385. hæð nk. laugardag hefur verið frestað út af geislamengun - ný dagsetning kemur síðar - minni á að það er bannað að selja heimaslátrað og súrsaðar pítsur.“

 

Varanlegur klósettrúlluhaldariÞarna ríkir greinilega líf og fjör og það virðist vera ansi margt hugvitsfólk sem býr þarna. Grófgerður (nýtt trend?) en algjörlega nothæfur haldari undir klósettpappír er bara einn af hlutunum sem fólk hefur verið að dunda sér við og deila með öðrum íbúum hússins en slíkur haldari er eitthvað sem ég þyrfti að fá mér eftir að rúlluhaldari Himnaríkis gaf sig (eftir nokkurt fikt og jugg og juð af hendi eins íbúa hér af fimm). Sá gæti aldeilis juggað og fiktað í þessum án afleiðinga (sjá mynd). Skítt með þótt sumt sé ekki nógu fínt til að komast í Hús og híbýli eða Bo bedre, það þarf að vera hægt að nota hlutina og óttast ekki að þeir verði ónothæfir eftir þriggja ára notkun.

 

Já, og svo því sé haldið til haga, húsfélagið mitt (í Himnaríki) þar sem ég gegni ábyrgðarstöðunni riddari, er ekki síðra en þetta, svona þegar ég fer að hugsa út í það, bara öðruvísi, ekki jafnmargt í gangi og greinilega miklu meiri rólegheit. Og það er alls ekki rétt að við í stjórninni förum árlega í siglingu um Karíbahafið fyrir húsgjöldin og bjóðum þess vegna upp á sterka vodka-kokteila á húsfundum til að íbúar samþykki allt. Bara alls ekki.

---

 

CovidÍ gær voru liðin þrjú ár síðan ég var send í sóttkví í nokkra daga, eins og yfir 100 Skagamenn sem höfðu farið í ræktina sama dag og covid-smitaður einstaklingur hafði lyft lóðum þar. Svo strangt var þetta að allir, líka þeir sem voru vel á undan þeim smitaða um morguninn, urðu að fara í sóttkví og sýnatöku, þótt afar ólíklegt megi teljast að þeir hefðu hitt hann. Við vorum enn svo blaut á bak við eyrun í þessu, ekki enn farið að skima hér á Akranesi svo ég varð að fara í sýnatöku í Reykjavík. Verst að ég mátti ekki taka strætó þangað eða fá einhvern til að skutla mér. Og gekk ég frá Akranesi þessa skrilljón kílómetra (45) sem tekur níu klukkutíma (ég gúglaði) að ganga, mig átján?

 

Nei. Frábæra Ólöf Halla, gömul samstarfskona, hafði samband, bauðst til að sækja mig úr Mosó, bíða eftir mér og skutla mér svo heim. Síðar sama dag þurfti hún að fara með dóttur sína í sýnatöku svo þetta var sennilega eini sénsinn til að ég kæmist nema með sjúkrabíl. Við öll (107 manns) af Skaganum reyndumst vera ósmituð svo nú hófst biðin eftir að vita afdrif dóttur Ólafar ... og möguleika á annarri sóttkví og sýnatöku ef bílferðin með Ólöfu hefði verið smitandi. Vá, hvað þetta var furðulegur tími. Á öllu Vesturlandi voru 263 í sóttkví þennan dag en aðeins fimm greindir ... enginn hér.

Dóttir Ólafar reyndist vera ósmituð svo lífið hélt áfram eins og vanalega. Einsetukerlingarlífsmáti minn (nánast), heppni og bólusetningar hafa enn haldið mér ósmitaðri. Ég sakna stundum grímanna og daðursins við mjólkurkælinn með augnaráðinu einu saman, ó, hve augun gátu dansað ... á meðan hrukkurnar voru vel faldar.    


Sorglegar bækur og kvikindislegt fótósjopp

Bollagata 2Reykjavík var næstum því svona (sjá mynd) þegar ég flutti þangað í lok ágúst 1971 og hóf nám í Austurbæjarskóla. Var svo heppin að fá Jón Marteinsson sem umsjónarkennara, strangan en réttlátan. Komst að því í gær (sá á Facebook) að hann er pabbi hennar Kristínar Jónsdóttur hjá Veðurstofunni, eldgosa- og jarðskjálftasnillings síðustu ára. Myndin minnti mig mjög á Reykjavík unglingsáranna, en það var kominn meiri gróður þarna 1971. Ég setti gulan hring utan um heimili mitt, en ég bjó í kjallaraíbúðinni Bollagötu 2. Nægur gróður í görðunum og trén á Klambratúni voru á enn á hæð við runna. Mamma hafði séð eitthvað af randaflugum eða geitungum og slíku en þagði sem betur fer um það við okkur systkinin - hún hafði gert nóg af sér í tengslum við kóngulær, eða innrætt okkur sturlaðan ótta við þær. Kötturinn Bimbó (læða) á efstu hæðinni kíkti stundum inn um gluggann hjá mér og fékk alltaf góðar móttökur. Á miðhæðinni bjó Jakob hjá Ugluútgáfu sem hefur gefið út fullt af skemmtilegum bókum sem ég hef lesið ... og hlustað á.

 

Lífsnautnin frjóaÉg er enn að lesa um Tórunni (hlusta) og allt hennar fólk frá Neshov og er komin á fimmtu bókina. Þetta eru ansi góðar bækur og viðburðaríkar en ég get eiginlega ekki mælt með þeim fyrir fólk sem hefur misst ástvini í bílslysi ... Einn kaflinn fjallar um þegar útfararstjórann, frændi Tórunnar, fer á vettvang bílslyss og því er lýst ansi nákvæmlega.

 

Smásmugulegar lýsingarnar í bókinni á hversdagslífi alls þessa fólks er nú samt einmitt það sem gerir þessar bækur svo dásamlegar. Þessa síðustu hafði ég ekki lesið og veit ekki einu sinni hvort von er á fleiri þegar þessi er búin, tími ekki að njósna ... en vonandi, vonandi samt. Tvær nýútkomnar og verulega girnilegar bíða en ég tími ekki fyrir nokkurn mun að kveðja Neshov, ekki einu sinni í bili, ef þær eru fleiri.

 

Megan og Harry ...Fréttir af Facebook:

Ég man hreinlega ekki hvar ég sá þetta:

 

Rússland teygir sig yfir 11 tímabelti, Kína aðeins eitt. Vinur Pútíns færði þetta í tal við hann og kvartaði undan óþægindunum sem fylgja svona mörgum tímabeltum og sagði:

„Ég hringi í vin minn til að óska honum til hamingju með afmælið og afmælisdagurinn hans var þá löngu liðinn.

„Ég hef lent í þessu líka,“ sagði Pútín. „Ég hringdi í ekkju Prígósíns til að votta henni samúð mína og vélin var þá ekki enn farin í loftið.“

-----

Myndin af Meghan og Harry er samsett af mér og var á Facebook ... Ég flissaði yfir þeirri vinstra megin sem ég sá fyrst (alveg búin að gleyma eigin tískumistökum (steinþvegnar gallabuxur löngu eftir að þær fóru úr tísku). Svo leit ég yfir athugasemdirnar og dauðskammaðist mín þegar ég sá þar réttu myndina, frummyndina hægra megin. Ég sem vann í tímaritabransanum í rúm tuttugu ár, sá þegar verið var að "laga lærin“ á Ungfrú Ísland eitt árið, mynd af henni sko, ég gleymi alltaf að til sé „fótósjopp“ (Jens, áttu íslenskt orð?). Ég á örugglega líka eftir að gleyma gervigreindinni og mun þá sennilega fjasa yfir ýmsum bullfréttum framvegis en þær hafa nú svo sem verið til nokkuð lengi og allt margir lagt trúnað á. Næst þegar ég sé vandræðalega mynd af Meghan sem á svo marga óvini, kannski réttilega, ég þekki þetta fólki svo lítið, mun ég ekki flissa.   


Matur er manns gaman

Sá bestiAllskonar listar hafa alltaf heillað mig, eins og listar yfir bestu bækurnar, skemmtilegustu ferðalagastaðina, bestu þetta og bestu hitt. Nýlega sá ég lista yfir bestu matargerð heims, og hann vakti sannarlega ekki lukku alls staðar. Ég bara spyr, hvar er íslenski maturinn? Númer 51 er samt allt of neðarlega!!!

 

 

Viðbrögðin voru misjöfn. 

 

„Þetta er eins og listi frá fólki sem hefur aldrei borðað mat.“

 

„Bandaríkin fyrir ofan Brasilíu og Frakkland?!? Almáttugur, þar borðar fólk bara mac n' cheese.“ 

 

„Ég er enskur og viðurkenni fúslega að það að við séum ofar á listanum en Líbanon og Taíland er bara klikkun.“

 

„Að Ísland sé ekki einu sinni á listanum er vægast sagt undarlegt. Hvar er hræringur, hvar eru svið eða súrt slátur? Harðfiskur, saltfiskur, kæst skata? Samsæri, ekkert annað!“

 

„Þessi listi missti algjörlega marks þegar hollenskur matur var settur ofar malasískum mat. Meira að segja Hollendingar gera grín að þeirra eigin leiðinlega mat.“

 

„Hvernig getur svo svipaður matur, eins og indverskur og pakistanskur eða grískur og tyrkneskur, fengið svo mismunandi mörg atkvæði?“

 

Ég man ekki alveg hvaðan listinn var sem sagði vissan rétt frá Indónesíu þann besta í heimi, mig minnir að uppskriftin hafi fylgt og ég hef, að mig minnir, birt hana hér á blogginu, fyrir nokkuð löngu. Þessi listi hér að ofan er frá Taste Atlas.

 

HeppinÉg get endalaust mært útsýnið héðan úr Himnaríki en sjaldan hefur það glatt mig eins og í dag, þegar tveir myndarlegir karlar hlupu fram hjá glugganum, meira að segja tvisvar. Fann samt að ég þarf að fá mér betri gleraugu eða hafa leikhúskíkinn uppi við.

 

Þegar ég vaknaði í morgun, vissi ég að ég yrði heppin og ekki bara með óvænt útsýnið áðan. Einarsbúð er á leiðinni með meðal annars engjaþykkni með nóakroppi, ég steingleymi alltaf að biðja þau um að segja að það sé ekki til og verði aldrei til en ég hlýt að muna eftir því einhvern tímann.

 

Svo þarf ég að skreppa í bæinn á föstudaginn og haldið þið að það verði ekki frítt í alla strætisvagna landsins þann dag?

 

Eina óheppnin, ef óheppni skyldi kalla, er að ég get ekki pantað neinn fiskrétt frá Eldum rétt fyrir næstu viku. Annar sem er í boði er reyndar sjúklega góður en með Hollandise-sósu sem mér finnst algjört vesen að þurfa að búa til, hef tvisvar gert réttinn á þessu ári og það er nóg, og hinn er morandi í hnetum (mesti ofnæmisvaldur heims). Svo við stráksi fáum bara Lúxus ribeye-borgara (að beiðni hans), ljúffengt kotasælu-lasagna (ég heimtaði það) og kjúklinga-fusilli ... allt þetta morandi í grænmeti. Ellefuþúsundkall, öll þessi hollusta, stundum er afgangur handa mér í hádeginu daginn eftir, eða nægur matur fyrir þrjá, ekki mjög gráðuga reyndar.

 

Á réttum stað á réttum tímaHvað er að Facebook-frétta?

FB-vinkona, heilbrigðismenntuð, fór á ansi hreint áhugaverða og góða ráðstefnu sem fjallaði m.a. um að mistök í heilbrigðiskerfinu yrðu viðurkennd og lært af þeim. Til landsins kom m.a. erlendur læknir sem hélt erindi, en barn sem hann tók á móti lést í fæðingu vegna mistaka hans, svo hafði vakið heimsathygli að hann hafi síðar tekið á móti tveimur börnum sömu foreldra. Hún skrifaði á síðuna sína að nokkra athygli hefði vakið þegar tvær konur mættu með truflandi hávaða og látum þrátt fyrir að ráðstefnan væri þegar hafin. Konurnar þekkti hún sem áberandi andstæðinga covid-bólusetninga og nafngreindi aðra þeirra, hún velti fyrir sér hvaða erindi þær ættu á þessa ráðstefnu.

Ráðstefnugestir voru hvattir til að senda fyrirspurnir á netinu og það var ítrekað nokkrum sinnum að ekki yrði unnt að svara spurningum sem ekki tengdust efni ráðstefnunnar. Konurnar tvær stóðu upp í lokin og kvörtuðu yfir því að fyrirspurnum þeirra hafi ekki verið svarað. Þær sögðu þetta vera ólýðræðislegt og að þessi ráðstefna væri bara skrípaleikur. Svo rigsuðu þær út með enn meiri látum en þegar þær mættu, þrykktu skóhælunum í gólfið svo glumdi í lengi, lengi eftir ganginum frammi. Fb-vinkonan sagði þetta hafa verið frekar broslega uppákomu. Hún gæfi mikið fyrir að fá að vita um hvað stöllurnar spurðu en þóttist geta giskað á það.


Daður í finnska básnum ...

Finnska LjómaÞjóðahátíð var haldin á Akranesi í gær og var afskaplega skemmtileg. Allra þjóða kvikindi nánast; Ísland, Finnland, Afganistan, Indland, Pólland, Kanada, Litháen, Ekvador, Úkraína, Kína ... og fleiri og fleiri. Flestir gáfu matarsmakk. Forseti bæjarstjórnar hrósaði indverska karríinu en kvað það ansi sterkt. Það var allt saman satt og rétt hjá honum. Mikill fjöldi gesta en fólkið í básunum hvers lands kom þó flest af höfuðborgarsvæðinu, samt ágætt. 

Kona og ungur maður sátu í finnska básnum. 

-Hissi, heilsaði ég góðlátlega. Þau störðu, samt er þetta finnskt orð. -Hissi er sko finnska orðið yfir lyftu, útskýrði ég fyrir þeim til að róa þau.

-Ég kann líka að segja Ég elska þig á finnsku, sinúa rakasta-eitthvað, bætti ég við. (Ef maður býr yfir tungumálakunnáttu á maður að nota hana!)

-Minä rakastan sinua, sagði ungi maðurinn glaðlega. 

-Takk, sömuleiðis, sagði ég á móti. Ég átti ekki átt von á daðri þennan dag en svona eru bara útlendingar.

 

StærðfræðibrandariÉg veit auðvitað ekkert hvert þetta hefði leitt ef ég hefði ekki tekið eftir einu mjög undarlegu á borðinu hjá þeim. Þarna var vissulega uppáhaldið mitt, Karelian, einhvers konar brauðmeti (rúgmjöl, hafragrautur og fleira?) sem lítur út eins og gamall sauðskinnskór en er alveg rosalega gott með eggjadæmi sem er harðsoðin, söxuð egg, eggin voru þarna en líka hálft Ljóma-smjörlíkisstykki. 

-Til hvers er þetta? spurði ég kurteislega, forvitni mín var einlæg, var finnski básinn kannski í boði Ljóma? En af hverju sást það þá ekki betur?

-Ef einhver vill smjör á karelian-ið, svaraði konan alveg jafneinlæg. Þau fengu kennslustund í muninum á smjörlíki og smjöri ofan á brauð og þeim var eiginlega skemmt. Hversu lengi ætli þau hafi talað um hversu smjörið á Íslandi væri vont ... Ljóma er fínt í bakstur og eflaust miklu betra ofan á brauð en júgursmyrsl, eins og amerísk kona keypti eitt sinn sem smjör og var ekki hrifin ... Af hverju keypti hún júgursmyrsl? Jú, af því að það var mynd af kú framan á dósinni.

 

Karelian eru kannski svipað hjá Finnum og flatkökur eru hjá okkur, og ég varð smám saman virkilega hrifin af þessum rétti þegar ég fór í kórferð til Finnlands á síðustu öld. Í lyftunni á Hótel Tampere stóð Hissi, og þá og þannig lærði ég finnska orðið mitt. Kórinn minn (Kór Langholtskirkju) fór til Finnlands og söng við vígslu tónlistarhússins flotta í Tampere. Mig minnir að Matti heitinn, finnskur vinur Önnu vinkonu, hafi búið í Tampere, ég hitti hann alla vega einhvers staðar í Finnlandi. Ég bað hann um uppskriftina að Karelian sem hann sendi mér í tölvupósti. Það var eitthvað á borð við: Þú þarft að nota hveiti, salt, vatn ... og eitthvað fleira, ekkert hve mikið af hverju, aðferð eða nokkuð. Ég þarf að finna gömlu Vikuna sem uppskriftin að karelian er í eða tala við Ritvu mína. Mig langar heilmikið að prófa sjálf að gera svona. Ekki er óhollustunni fyrir að fara þarna, sýnist mér.

 

AlvörustærðfræðiBakverkir fara mjög svo minnkandi. Rúmið nýja er þægilegasti staður heimilisins, hvort sem það er umbúið með rúmteppi sem ég ligg þá ofan á, eða tilbúið til svefns og það allt, svo ég áttaði mig á því að bakverkirnir minnkuðu ekki ef ég lá of lengi þar - sem er ekki hollt, ég fer stundum fáránlega snemma upp í til að lesa, í stað þess að liggja og glápa á sjónvarpið, eða með bók, svo ég er farin að stilla klukkuna á rúmlega 9 (9.50) og fer þá fram úr, sama hversu seint ég sofnaði. Bakverkurinn stöðugi og tryggi er nánast horfinn.

 

Glasgow-ferðin nálgast, við förum út seinnipart októbermánaðar, ég og stráksi og Hilda og hennar stráksi. Við nennum alls ekki að hanga endalaust í búðum en mögulega kaupi ég einhverjar jólagjafir þar, gott að vera búin snemma að því, en mér skilst að borgin sé virkilega skemmtileg, margt að skoða og gera. Það er ekki gaman að hafa allt svo skipulagt í tætlur að ekkert ráðrúm gefist fyrir nokkuð óvænt, svo við verðum róleg í tíðinni. Eitt sinn fór ég í fróðlega og bráðskemmtilega blaðamannaferð til Þýskalands. Móttökurnar voru dásamlegar, en hver einasta mínúta dagsins, frá morgni og fram eftir kvöldi, var skipulögð út í ystu æsar. Búðin á móti hótelinu ... ég ætlaði að kaupa búnt af sokkum á góðu verði þar, en ég var alltaf farin út áður en hún opnaði og þegar ég kom til baka var búið að loka. Ég náði að skrifa nokkrar greinar um dásemdir Þýskalands ... en þar fór ég einmitt að æsispennandi fótboltaleik á milli Stuttgart og Munchen Gladbach (rétt skrifað?). Þarna í Stuttgart mundu allir eftir Ásgeiri Sigurvinssyni og á leiknum var sýnd fræg hjólhestaspyrna hans í einhverjum leik síðan í gamla daga, eða áður en ég fékk áhuga á fótbolta fyrir alvöru.

 

Neðri myndirnar tvær sýna hversu stærðfræði er dásamleg.   


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 175
  • Sl. sólarhring: 278
  • Sl. viku: 1717
  • Frá upphafi: 1460650

Annað

  • Innlit í dag: 161
  • Innlit sl. viku: 1385
  • Gestir í dag: 158
  • IP-tölur í dag: 158

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2023
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband