Gjörbreytt ásýnd og fleiri einnota fyrirtæki

Morgunstund gefur gullMorgunstund gefur svo sannarlega gull í mund. Sumar litlusystur hafa stundum mögulega kannski svolítið rétt fyrir sér. Eftir að hafa dúllað mér við tiltekt eftir sturtu, frá u.þ.b. kl. 11.15-11.47, var ásýnd eldhúss Himnaríkis gjörbreytt. Það sem er ekki hægt að gera með smávegis vatni og einum eyrnapinna ... Talsverður munur, finnst mér, sjá samsetta mynd.

 

Ég bæði óttast áhrif rúmsins og gleðst yfir þeim, nýja rúmsins, harða og dásamlega, óttinn er við að ég geti ekki lengur vælt yfir bakverkjum þegar ég bið stráksa að þrífa upp af gólfinu uppköst kattanna (aðallega Krumma sem ælir af skelfingu þegar fer að minnka í dallinum, og étur síðan of mikið þegar ég fylli á sem þýðir að hann endurtekur gubbskapinn). 

Er orðin miklu skárri, finnst ég meira að segja hreyfa mig hraðar, stundum alveg hviss-bang af því að ég þarf ekki lengur að óttast að fá þursabit við eina óvarlega hreyfingu. Svona leið mér líka eftir að ég keypti gömlu dýnuna, fyrstu c.a. þrjú árin en svo bara gafst hún upp á mér og sveik loforðin. Enginn áhugi þegar ég kvartaði, svo fyrirtækið varð einnota í mínum huga, eins og Ak-tak-dæmið, sem vinur minn kallar Rændu -spændu ... Mér skilst að RB-dýnur gefist ekki svo glatt upp á eigendum sínum. Hægt að snúa þeim alls konar og þegar þær fara að linast eftir kannski 20 ár, er hægt að láta gera þær eins og nýjar.

 

Edda úr Angist með SkálmöldFrétti hjá elsku Einarsbúð áðan að það væri þjóðarskortur á eggjum. Nei, tengist ekki ketó, heldur vegna nýrrar reglugerðar um hamingjusamari hænur sem er auðvitað dásamlegt. Við eigum að fara vel með dýr. Margir eggjabændur hættu út af þessu og því er skorturinn. Svo datt mér í hug að kannski væri hægt að hafa slátrun kjúklinga mannúðlegri, eins og að skutla þær, en láta dýralækni horfa á, til að það sé ekkert sárt. Hægt að ráðgast við Kristján Loftsson ... sem Gummi bróðir hafði næstum ruglað saman við Gissur Pál Gissunarson óperusöngvara í erfidrykkju um árið, munið. Hefði ég átt að stoppa hann, eins og ég gerði? Nei.

Hversu dásamlegt hefði verið ef einhver hefði ruglað mér saman við t.d. Marilyn Monroe ... eða nei, hún dó viku fyrir fjögurra ára afmælið mitt. Ja, kannski frekar ef einhver segði ofsaspenntur við mjólkurkælinn í Einarsbúð: „Bíddu, bíddu, ert þú söngkonan Edda úr Angist?“ Þá hefði ég getað svarað: „Uhhh, takk, ég gæti verið mamma hennar, hún er vissulega í miklu uppáhaldi. Hún söng með í laginu Hel með Skálmöld og Sinfó.“ Sennilega hefði ég bara bilast úr hlátri ... en samt ... Ég leyfði úkraínskri grannkonu minni að heyra Hel og hún varð óttaslegin, fannst þetta vera djöflarokk. „But you are in Heaven,“ hefði ég auðvitað átt að segja.

 

Inga vinkona kemur í mat í kvöld, í Ljúffengt kotasælulasagna. Það uppgötvaðist villa í uppskriftinni og Eldum rétt sendi SMS upp á líf og dauða með leiðréttingu, þetta hefði orðið ansi þurrt annars, munar alveg um 60 ml (fyrir tvo) af vatni. Við verðum þrjú í mat en ég keypti efni í meira salat með, og eftirrétt líka, eða fokkings engjaþykkni með satans nóakroppi. Bara jólin? hugsið þið eflaust, já, alltaf jól í himnaríki. Og nei, ég er ekki farin að skreyta.

 

Af Facebook:

Á meðan Kristján Loftsson langar að veiða hvali, verða hvalir veiddir, skrifaði einhver mæðulega áðan.

BananarúllutertaÁ minni eigin síðu, Fb rifjar upp frá 2015: „Rakst á gamla stafsetningarvillu eftir mig á prenti: Hjartnær (hálfa öld). Er þetta ekki bara ágætt nýyrði? En yfir hvað?“

Svo eru komin níu ár síðan ég sjokkeraði (í 2 sekúndur) afgreiðslukonu hjá Bakarameistarum, ég hafði keypt bananarúllutertu (8-12 manna) til að gleðja soninn. „Viltu kassa?“ spurði hún. „Nei, takk, ég ætla að borða hana hér!“ Eftir að hafa verið um tíma á fb-síðu þar sem afgreiðslufólk kvartar yfir viðskiptavinum sem reyna að vera fyndnir, fékk ég samviskubit og er hætt þessu. Þetta var uppáhaldskaka lífs míns en mér var refsað fyrir húmörðinn, eins og stráksi orðar það (húmor og ömurð saman?), og kakan er ekki lengur í boði!!! Jói Fel gerði svipaða en hafði vínbragð í kreminu sem var ... Ja, ég viðurkenni fúslega að ég er fanatísk á móti víndropum í bananarúllutertum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 46
  • Sl. sólarhring: 277
  • Sl. viku: 1588
  • Frá upphafi: 1460521

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 1269
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband