Helgarsukk í komandi stormi og ögrandi vinnuaðstaða

Hata gönguferðirDagurinn fyrir storm. Hlakka ég virkilega svona til? Ég veit það eiginlega ekki, rigningin skemmir þetta svolítið, eða útsýnið. Austan- og suðaustanhvassviðri eru algengari en önnur og ég þarf eiginlega helst að skipta um hurð að litlu svölunum sem snúa í austur og þétta betur eldhúsgluggann sem snýr í sömu átt. Alltaf hreinustu gluggarnir. 

Stráksi þurfti að erindast smávegis í bankanum um þrjúleytið og bað mig að koma með, held að hann hafi séð á mér að ég þurfti á viðrun að halda. Þótt ég hati gönguferðir veit ég að þær eru nauðsyn annað slagið. Ég gekk löturhægt, reyndar að drepast í maganum, en hádegisverður samanstóð af flatköku með osti og skyri. Mögulega einhvers konar óþol fyrir mjólkurvörum sem ég tek samt ekki í mál því ég get ekki drukkið kaffi mjólkurlaust. Með því að setjast niður smástund í bankanum minnkaði pínan. Kannski var þetta bara svekkelsi sem braust svona út vegna komandi "kval"veiða.  

 

Bók eða bíóAð sjálfsögðu kíktum við í bókabúðina bestu í leiðinni og keyptum þar afmælisgjöf handa ungri vinkonu, en stráksa er boðið í afmælisveisluna hennar um helgina. Svo óstjórnlega heppilega vildi svo til að elskan hún Peta var á ferðinni þarna í einni miðju alheimsins (Krónuplanið) og heimtaði hreinlega að fá að skutla okkur stráksa heim. Þar fór svo sem viðrunin fyrir lítið, en 50% er betra en ekkert (sjúklega vel sloppið fyrir gönguhatara).

Stráksi fer í helgargistingu fram á mánudag sem táknar auðvitað ekkert nema sukk og svall í himnaríki. Ég á enn eftir aðra pínulitlu freyðivínsflöskuna sem ég fékk í afmælisgjöf og ef ég man eftir því verður henni kálað en mig grunar að það verði bara kaffi. Svona getur nú vaninn komið í veg fyrir slark og svínarí. Það var fullt af girnilegum bókum í bókabúðinni en þar sem stórt verkefni er fram undan til að lesa yfir og sem helgin fer í þorði ég ekki að horfa (slefa) mikið. Mig langar rosalega í Holly, nýjustu bókina eftir Stephen King (fæst bara í Rvík, sjúkk) þar sem Holly var ein persónan í þríleiknum um Mr. Mercedes. Ég þarf að rifja upp kynnin við þær bækur en margir eru eflaust búnir að sjá þættina, minnir að þeir hafi verið ágætir. Voru þeir ekki á Stöð 2, og núna Viaplay? Þótt ég sé almennt hrifnari af bókunum en myndunum eftir þeim er það ekkert algilt. Það var gaman að bæði horfa á myndina og lesa bókina The Shining eftir King, en það þarf svo sem alltaf að minna sig á að hvort um sig er sjálfstætt verk sem ætti helst ekki að bera saman. Ég sá myndina á undan. Það var æðislegt að horfa á Harry Potter-myndirnar, Karlar sem hata konur-þríleikinn og Hringadróttinssögu ... OG lesa bækurnar en ég vona að í vetur detti ég ofan í stemninguna við að horfa á góðar mynd annað slagið, ég er hætt að nenna að horfa á fréttir, hvað þá þætti eða myndir, þótt ég sé með flest sem í boði er, nema kannski Viaplay, (Netflix, Sjónvarp Símans premium, Stöð 2 og S2-plús, Disney plús og Amazon). Þegar ég get farið að horfa aftur á ég heilu þáttaraðirnar og myndirnar óséðar og það er ekki fúlt.

Eldhús til vinstriStráksi er frekar duglegur að horfa en kvartaði nýverið yfir því að við værum allt of löt við að horfa saman á myndir. En alltaf þegar við förum til Hildu og gistum eigum við kósíkvöld og horfum á mynd. Hún á klakavél og ég er nánast háð því að drekka heilu stóru glösin af vatni með klaka ... bestu nammikvöldin. Kannski er vatnið í Kópavogi svona gott. Ég vildi stundum að eldhúsið mitt væri stærra, þá ætti ég klakavél. Mér leiðast bekkir fullir af dóti á borð við: brauðrist, hrærivél, örbylgjuofni, kaffivél, hraðsuðukatli, matvinnsluvél ... er sjálf bara með kaffivél og örbylgjuofn uppi við - af tækjum sko.

Mér finnst vinnusvæðið vinstra megin við vaskinn best (sjá mynd) og það virðist vera ákveðin áskorun, hreinlega ögrandi að skera grænmeti og slíkt á nokkrum sentimetrum þar sem örbylgjuofninn tekur eiginlega allt plássið - en það er ekkert mál. Svæðið hægra megin er talsvert stærra, og það sem er vinstra megin við helluborðið fyrir aftan (sést ekki) er miklu stærra. Svona er nú vaninn sterkur. Og maturinn sjúklega góður þrátt fyrir að valin sé langminnsta vinnuaðstaðan á heimilinu.        

Myndin: Skrapp fram og tók mynd núna. Tók ekki til eða sjænaði, sorrí. Þarna sést örlitla vinnusvæðið mitt. Klukkan á örbylgjuofninum er ekki rétt, ég þarf bara að halda mér vakandi til kl. eitt einhverja nóttina (sem er lítið mál fyrir B-manneskju sem er hvort eð er sjaldnast sofnuð þá), taka hann úr sambandi og setja aftur í samband. Klukkan á ofninum hefst þá handa kl. 01.01 við að telja tímann og helst rétt þangað til næst. Færði nefnilega og faldi ofninn (og kaffivélina) frammi í fatahengi á afmælinu mínu og síðan eru engar klukkur réttar nema í gemsum og einu armbandsúri. Að við skulum fúnkera ... 


Otandi samfélagsmiðlar

Facebook vill að þú sjáirMiðlarnir ota að okkur alls konar efni, oft kostuðum auglýsingum en líka annars konar og skemmtilegra efni. Facebook minnir mig stundum á Bold and the Beautiful þegar kemur að því að vera með eitthvað ákveðið málefni, þema. Í gamla daga, þegar ég treysti mér til að horfa á þættina (aðallega til að geta boldað um þá) man ég eftir því að t.d. málefni heimilislausra voru til umræðu, alla vega í heila viku, og Stefanía heitin lét sig þetta varða, hvort hún vann ekki í súpueldhúsi í hátt í 2 mínútur í einum þættinum ... Alnæmi var tekið fyrir, minnir mig, einnig fordómar í garð þeldökkra sem varð til þess að einn gaurinn (Rick?) var látinn giftast þeldökkri konu til að sýna hvað þau í þáttunum væru innilega fordómalaus ...

... já, en sem sagt, Facebook er með þemu og kannski í nokkra daga, upp í viku, birtast myndbönd af einhverju tilteknu. Núna eru það ótrúlega sætir hvolpar sem koma á ný heimili þar sem fyrir býr hundur og mjög krúttlegt að sjá þá fara að leika sér eftir fimm mínútur. Þetta er svolítið eins og Stubbarnir fyrir fullorðna, og eykur vonandi kærleikann í garð dýra. Eitt sinn lenti ég í hálfgerðu orðaskaki við mann sem sagði kattaeigendur vera mestu óvini fugla, nánast gerðu út gæludýr sín til að myrða unga. Ég nenni yfirleitt ekki að munnskrifhöggvast, en gerði það þarna. Kvaðst vera hinn mesti fuglavinur. Nefndi vini mína mávana því til sönnunar, en þá voru þeir ekki réttir fuglar til að eiga að vinum, heldur bannsett óféti ... sem ég er alls ekki sammála. Stórir, flottir og klárir fuglar, það þarf enginn (sem býr við sjóinn) að setja mikið í lífrænu tunnuna ... Svanir gæða sér líka á andarungum og enginn vill losna við þá, líklega út af ævintýrinu um Dimmalimm, samt eru sumir svanir mannýgir. Jú, mér finnst þeir mjög fallegir. Munið þið ekki þegar bæði dúfur og hrafnar voru flokkuð í ömurlega flokkinn? Dúfum var miskunnarlaust útrýmt í Reykjavík, með eitri á húsþökum, en hrafninn (uppáhalds hér) var sem betur fer friðaður.

 

Í gær var svo ekki þverfótað fyrir vissri aðferð til listsköpunar (sjá efri mynd t.h.) sem fólk sýndi í myndböndum. Þá hellti viðkomandi málningu yfir striga, í rétt rúmlega dropatali, ýmsum litum sem hver var settur yfir annan, og svo var striganum snúið á alla enda og kanta þar til málningin var í alls kyns mynstrum og náði yfir allan strigann. Þetta sýnir bæði og sannar að það er engin nauðsyn á því að vera með rándýran listaháskóla!

Svo var auglýsing í gær um galdurinn við að klæða sig sexí (sjá efri mynd t.v.) til að næla sér í réttan mann ... Ég hef aldrei kunnað að veiða menn með lengdum augnhárum og veðurbörðum barmi, finnst ég líka hreinlega of ung til að binda mig enn einu sinni, en hver veit hvað veturinn ber í skauti sínu. Aldrei að segja aldrei.

 

Uppgrip

Í morgun var Mogginn áberandi á fésbókinni, eða viðtal á forsíðu við mann sem talar um að aukin vanskil landsmanna auki á gróða hans. Svona játningu sér maður ekki á hverjum degi, eða að opinbera ánægju yfir því að græða á erfiðleikum annarra. (Ég tók skjáskot af þessu hjá Fb-vini). En tímarnir hafa vissulega breyst. Reglulega birtist á fésbókinni minni kostuð auglýsing frá söfnuði sem ég hef löngum dáðst að fyrir að gera góðverk án þess að stæra sig af því. Nú les ég, ekki jafnánægð, minnst vikulega: Fylgstu með náungakærleikanum á samfélagsmiðlum XXX (xxx er nafn safnaðarins). Eitt sinn (undir aldamót) fékk ég meðlim þessa safnaðar í útvarpsviðtal til mín og m.a. hrósaði honum og þeim fyrir þeirra góða starf. Það var á viðorði flestra hversu mikið þau gerðu fyrir illa stadda, verkin auglýstu þau, ekki auglýsingar um góðmennsku þeirra. 

Það var svo sem innprentað í mig í æsku að maður hreykti sér ekki af góðverkum sínum - eða montaði sig almennt af sjálfum sér. Það þýddi auðvitað að frekar erfitt var fyrir mína kynslóð að sækja um vinnu og eiga að telja upp hæfileika okkar og getu eftir að búið var að segja svo oft við okkur, hvað heldurðu eiginlega að þú sért? Það er vissulega til millivegur og mjög fínt að krakkar í dag séu meðvitaðir um hæfileika sína og ánægðir með sig ... upp að vissu hámarki þó.

Jæja, nú ætla ég að hætta, setja handklæðin í þurrkarann, taka á móti sendingu úr Einarsbúð (áttavitar, álpokar, nesti, rafhlöður, allt til í Einarsbúð fyrir storminn) og gefa svo fátækum og svöngum fuglum eitthvað að borða, þið getið fylgst með fuglakærleika mínum á snappinu og fésbók ...   


Móðganir sem listgrein

AkrafjallYfirleitt gleymi ég hratt og vel móðgunum í minn garð, þakka það sumum frænda (fjanda) sem er með doktorsgráðu í að herða viðkvæmar sálir. Vissulega sagði stráksi við mig fyrir nokkrum árum: Var Akrafjallið til þegar þú varst lítil? Honum finnst enn alveg furðulegt að það hafi verið til flott tónlist þegar ég var unglingur. Árið 2008 bloggaði ég um hinar fullkomnu móðganir og þar sem komin eru nánast 100 ár síðan finnst mér allt í lagi að rifja þær upp núna. Misjafnar að gæðum, sumar jafnvel nánast óviðeigandi ... á mörkunum kannski.

 

Elsku frábæri Hjörtur minn Howser sem lést langt fyrir aldur fram, fyrr á þessu ári, sagði mér oft skemmtilegar sögur úr tónlistarbransanum, fyrstu tvær sögurnar eru frá honum og þessar erlendu úr bók um móðganir sem ég fékk einu sinni í afmælisgjöf.

 

Brezhnev og Brooke- Nú ert þú alltaf svo flottur í tauinu, alltaf með svo góðar græjur og kannt alla nýjustu frasana. En ert samt alltaf svo glataður. Björgvin Halldórsson við gítarleikara í fremstu röð.

 

- Carl Billich píanóleikari þótti með eindæmum kurteis maður. Eitt sinn var hann að spila á balli í Þjóðleikhúskjallaranum og drukkinn maður var þar sem frammíköll og læti. Loks missti Carl þolinmæðina, stóð upp frá píanóinu, gekk að manninum og sagði ákveðinn: Mig langar að biðja yður vinsamlegast um að halda munni og snæða óhreinindi.

 

- Og hvað með það? spurði Elvis Presley þegar honum var sagt að Bítlarnir væru komnir í heimsókn til hans á Graceland.

 

- Hvernig í ósköpunum gæti ég átt í kynferðislegu sambandi við fimmtugan steingerving? Ég á guðdómlegan kærasta sem er 28 ára gamall. Hvers vegna ætti ég að skipta honum út fyrir risaeðlu? Carla Bruni um Mick Jagger.

 

- Tónleikar hans standa yfir í fjóra og hálfan tíma. Það eru pyntingar. Hatar hann áheyrendur sína? John Lydon um Bruce Springsteen.

 

- Hvernig er mögulegt að hafa það að atvinnu sinni í 30 ár að spila á munnhörpu og sýna ekki minnstu merki um framfarir? David Sinclair, The Times, um Bob Dylan.

 

- Ef myndin mín gerir að minnsta kosti eina manneskju óhamingjusama hefur mér tekist ætlunarverk mitt. Woody Allen.

 

- Tilhugsunin um Karl prins að spjalla við grænmetið sem hann ræktar er ekki svo óhugsandi þegar maður man eftir því að hann hefur mmikla æfingu í að spjalla við ættingja sína. Jaci Stephens, The Sunday Times.

 

- Hún var svo loðin að þegar hún lyfti upp höndunum hélt ég að Tina Turner væri í armkrikunum á henni. Joan Rivers um Madonnu.

 

- Rússar elska Brooke Shields vegna þess að augabrúnirnar á henni minna þá á Leonid Brezhnev. Robin Williams. (SJÁ MYND)

 

- Ég vildi að ég hefði þekkt þig á meðan þú varst á lífi. Leonard Louis Levinson við leiðinlegan mann.

 

- Ég ætla að leggja nafn þitt á minnið og síðan fleygja höfðinu á mér. Oscar Levant.

 

- Ein hrukka í viðbót og allir halda að þú sért sveskja. Ókunnur höfundur.

 

- Þú ert svo lítill að þegar fer að rigna ertu þá sá síðasti sem fattar það. Ókunnur höfundur.

 

- Ég hef heyrt skemmtilegri samræður í stafasúpu. Ókunnur höfundur.

 

- Ólýsanlegur, hæfileikalaus og óheflaður ungur skemmtikraftur. Bing Crosby um Elvis Presley.

 

- Drengurinn inniheldur meira plast en plastpoki. Melody Maker um Michael Jackson.


Að missa stjórn í kannski áttunda ríkasta ...

Sýrlenskur maturRétt áður en ég fór í bæinn á föstudaginn gerði ég himnaríki fínt, setti í uppþvottavélina og fleira, svona eins og maður gerir til að koma heim í fínt hús. Þótt ég hefði náð að fylla vélina fannst mér óábyrgt að setja hana í gang og ég að yfirgefa heimilið yfir nótt, en fannst fúlt að hafa ekki komið öllu í vélina. Eiginlega óskiljanlegt, ég er ekki vön að safna miklu í vaskinn ... en svo áttaði ég mig á því að í fyrsta sinn á ævinni hafði ég ekki tekið hreina leirtauið út fyrst ... Vélin fór í gang við heimkomu í gær og ég gekk frá öllu í dag í skápa og skúffur. Flest var alveg sérlega hreint ...

 

MYND: Dásamlega sýrlenska fjölskyldan í næsta húsi eldaði aðeins of mikið í hádeginu í dag ... og hvað gerir fólk þá? Jú, það færir Gurrí sinni og stráksa fullan disk af mat. Ég fæ vissulega megnið því að stráksi er eigi svo hrifinn af sterku en eiginmaðurinn sem eldar iðulega elskar chili, kannski aðeins of mikið, segir konan hans. Þetta smakkaðist frábærlega og restin verður etin í kvöld. 

 

Ríkustu þjóðir heimsJæja, varúð, nú ætla ég aðeins að missa stjórn á mér ... Hvernig stendur á því að ung frænka mín greiddi núna síðast 351.000 í afborgun af húsnæðisláni sínu, þar af 31.000 kr. inn á lánið og 320.000, í vexti? Uuu, af einbýlishúsi í Garðabæ? Nei, bara íbúð í Kópavogi, sem er ekki einu sinni stór. Hver stjórnar landinu, og heldur vörð um velferð okkar borgaranna? Hvar er fólkið sem við kusum til þess? Ef fjármálaráðherra ber ekki ábyrgð á neinu, bara seðlabankinn, má þá ekki leggja starf hans niður? spyr frænka mín.

Mitt gamla og verðtryggða lán hefur ekki hækkað um nema 40 þúsund á mánuði, sjúkk. Frænka mín og maðurinn hennar völdu skynsamlegustu leiðina í lánamálum á þeim tíma. Held samt að skipti varla máli hvaða leiðir eru farnar, það er alltaf hægt að klína ábyrgðinni á almenning.

Hvað á það að þýða að bankar séu alltaf með belti og axlabönd til að tryggja sig ef eitthvað gerist? Það er sennilega kominn tími á aðra búsáhaldabyltingu. Fólki er meira en nóg boðið! Ekkert skrítið þótt sumir brottfluttir landsmenn kalli Ísland þrælaeyjuna. Myndin gefur fyllilega í skyn að við gætum gert svo miklu betur. Gert meira fyrir alla ... jafnt útigangsfólk sem húseigendur sem hælisleitendur sem öryrkja sem sjúklinga, svo dæmi séu tekin.

Jæja, þá hef ég náð sæmilegri sjálfstjórn aftur og mun halda áfram að vinna og nota tækifærið á meðan stráksi fór í sund. Bíddu, frú Gurrí, vinnur þú á sunnudegi? Játs, fyrst ég ætla til Glasgow í október þýðir ekkert hangs á borð við fullt helgarfrí. Svona er nú líf okkar venjulega fólksins, meira að segja með eitt axlarband (verðtryggt lán).

 

P.s. Ég sé ekki betur en ástsjúkir aðdáendur mínir (m.a. einn Elon Musk-inn) á Instagram læki ekki síður grettumyndina af Hildu systur, en þá með jólasveininum, þeir halda í alvöru að þetta sé ég, nema þeir séu að ýta mildilega á mig að fara í lýtaaðgerð svo ég líkist henni meira?  


Krassandi kaupgleði í kaupstaðarferð

Stefnir í þettaÉg (RF) var varla búin að sleppa síðasta orðinu í gær í blogginu, þegar ég var stigin upp í strætó og komin í bæinn, hviss, bang. Einn uppáhaldsfrændinn (34) sótti okkur stráksa (19) í Mjódd og hvert lá leiðin? Jú, auðvitað í Hamraborg, nafla alheims míns eftir að dásamlegur dýralæknir (28+) opnaði stofu þar. Ég skilaði kærri kveðju til hans frá Kela (13) sem er farinn að borða eins og almennilegur köttur aftur og leika sér - svo stuttu eftir að hann virtist vera lagstur banaleguna. Gigtarverkir, hélt dýralæknirinn, og gaf mér verkjalyf fyrir hann sem virka svona líka vel. Fjórir dropar núna þriðja til fjórða hvern dag. Sumir kettir sem finna til hætta að borða - það gerði Keli. Gaman að sjá hvað hann er orðinn sprækur aftur.

 

MYND: Svona er þetta að verða, allt í nafni „bættrar þjónustu“. Eins og Fúsi frændi í Englandi segir: „Nú er þessi tilætlunarsemi komin víða. Krafan um að kaupandi þjónustunnar vinni vinnu seljandans. Því þetta er bara það!“

 

Við vöknuðum fyrir allar aldir í morgun, ég var búin í sturtu og komin á fyrsta kaffibolla dagsins um tíuleytið sem er magnþrungið afrek hjá B-manneskju. Upp úr hádegi var ekið suður í Hafnarfjörð (115) og þar festi ég kaup á fínasta rúmi sem verður sérsmíðað fyrir mig af RB-rúmum (80). Hátt, stíft og sturlað flott. Gömul séffertík (13), ættuð af Akranesi (81) lá þarna bak við búðarborðið og dormaði og vera hennar gerði búðarferðina einhvern veginn helmingi betri. Ég tímdi ekki að fara út fyrr en ég var búin að velja mér rúm, kaupa kodda, tvö lök, yfirdýnu ... Vika í að rúmið komi og þá vonandi rétt rúmlega vika í að ég fari að svífa um Akranes, laus við bakverkina. Góð dýna er gulli betri, held ég.

 

Auðvitað skruppum við í Kost í leiðinni og ég birgði mig upp af þvottaefni og þurrkaraklútum. Sjálfsafgreiðslan þar gekk þokkalega með aðstoð Hildu, ég horfði mjög hjálpsömum augum á hana sjá um þetta. Það voru bara fjórir pakkar eftir af klútunum og ég kláraði þá, afsakið innilega, þið sem síðar mættuð. Eftir ferð í gegnum Smáralind (22) þar sem Hilda (RF) þekkti alla (hún býr í Kópavogi (68)), ég þekkti bara Gurrí með ý-i (RF)) sem bjó í Miðausturlöndum í áratugi en er flutt heim. Stúlkan sem afgreiddi okkur hjá Te og kaffi (39) talaði ansi hreint góða íslensku, ég hélt fyrst að hún væri íslensk, eða þangað til hún bað mig um að endurtaka eitthvað ... hún er frá Sýrlandi, svo ég gat notað arabískukunnáttu mína: „Sjúkran, habibti“ (takk, elskan) henni til mikillar skemmtunar. Nú þarf ég bara að fara að læra fleiri orð. Stúlkan sem þurrkaði af borðum og tók okkar í leiðinni af því að Hilda (RF) hellti niður kaffi ... er frá Grikklandi og íslenskan hennar ansi hreint góð líka. Kann því miður ekki orð í grísku. Ég veit um svo marga útlendinga sem vilja frekar að maður tali íslensku við þá í stað ensku, svo ég geri það alltaf fyrst. Vinur minn frá Líbíu kunni enga ensku þegar hann flutti hingað til lands, en vann á svo enskumælandi stöðum (veitingahúsum) að enskan varð honum miklu tamari en íslenskan lengi vel.

 

Systir mín, SinfjötlaSystir mín (sjá ljósmynd) skutlaði okkur stráksa heim á Skagann seinnipartinn, bíllinn fullur af dóti sem hefði aldrei komist í strætó; kattamat, þvottaefni og þurrkaraklútum, ásamt tveimur sokkapörum úr Hagkaup (64, eins og Barbie) og sængurgjöf (galla og smekk) til granna minna í næstu blokk. Örfáir dagar í barnið.

Auðvitað keypti ég líka gjöf handa stóra bróður (3), eða pínulítið (en hávært, held ég) rafmagnspíanó og áttaði mig ekki fyrr en á leiðinni heim að sennilega myndu foreldrar hans og hinn ófæddi litli bróðir, kála mér fyrir þetta ... svona gjöf er pottþétt verri en trommusett. Ég þarf eiginlega að lauma gjöfinni til hans og flytja svo í hvelli frá Akranesi - ef mig langar að verða eldri en rúmlega fimmtug. Samt líkar mér mjög vel við þetta fólk. Stóribróðir á eftir að verða ofsaglaður og það er fyrir öllu.

 

Við borðuðum á Galito í kvöld, gátum fengið borð um sexleytið en ögn seinna var ekkert laust. Ég tók fínustu mynd af henni systur minni (sjá ögn ofar) þar sem ég bað hana að gera sig sæta. Hún, með sinn eilífa mótþróa við stórusystur, gerði hið gagnstæða og ég fékk ljósmyndina sem ég vildi allan tímann. Hún fer beinustu leið á Instagram (13) hjá mér, og verður við hliðina á annarri mynd af henni (í fangi jólasveinsins (1.752)). Allir útlendingarnir mínir þar (flestir hjartaskurðlæknar og hershöfðingjar) sem vilja meira en vináttu en fá ekki, hafa reynt að mýkja stálhjarta mitt með því að læka MYNDINA AF HENNI í fangi jólasveins. Nú fá þeir loksins að sjá hvernig hún lítur út þegar hún gerir sig sæta. Það ætti að kenna þessum apaköttum sem halda að Instagram sé Tinder, að læka ekki myndir ... af öðrum konum!

 

P.s. Veit að sumir sakna Séðs og heyrts og vona að aldur nokkurra einstaklinga og staða og fyrirbæra í sviga fyrir aftan, sefi sárasta söknuðinn. Veit einhver hvað Hamraborg er gömul, eða Mjódd?

RF stendur auðvitað fyrir RÚMLEGA FIMMTUG.   


Helgarplön í uppnámi ...

Kaffihús í HamraborgRigning á morgun setti helgarplönin í uppnám, vér systur og fylgifiskar (fólk og hundar) ætluðum að skella okkur á Snæfellsnes á morgun og gera okkur stórglaðan dag. Þess í stað býst ég við að skreppa sjálf í bæinn og jafnvel leita mér að nýju rúmi. Bakverkirnir eru ekkert grín. Þegar ég keypti þessa dýnu og rúm fyrir fimm árum eða svo, fékk ég loforð um að dýnan myndi haldast stíf ... og hún var svo ótrúlega góð fyrstu þrjú árin. Svo er hún bara ekki eins góð, svo mögulega verður kíkt í aðra búð, eftir að ég reyndi árangurslaust að leita réttar míns í búðinni þar sem ég keypti rúmið. Það rúm var það besta sem ég hafði sofið í ... en endingartíminn styttri en hann ætti að vera miðað við verðið. 

Í leiðinni ætlar stráksi að fá sér KFC, ég ætla að kaupa (hjá dýralækninum í Kópavogi) sjúkrafæðið fyrir Kela, hinn þvagsteinaviðkvæma, sem hinir tveir njóta góðs af, enda sérlega fagrir á feldinn. Kannski förum við aftur í Kost, þetta þvottaefni sem ég keypti síðast er algjörlega brilljant og líka þurrkaraklútarnir. Svona utanbæjartúttur þurfa að birgja sig upp. Og mögulega á kaffihús ... þess vegna þessi mynd hér að ofan. 

 

Vinkona mín var ekki ýkja hrifin þegar ég sagði henni frá draumi mínum að komast í hálfgerðan miðbæjarsoll og flytja í Hamraborgina í framtíðinni þar sem auðvelt er að komast í strætó, dýralækni, blómabúð og kaffihús (hvað þarf maður meira?). Hún sagði ekki sérlega gaman að búa þar sem eilífar sprengjur og loftpressur og hamarshögg dyndu á, enda verður mikið byggt þarna fyrir aftan á næstu árum. Þetta er auðvitað háð því hvort ég tími að fara úr Himnaríki og sé orðin ónæm fyrir hristingi eftir skjálftana á Reykjanesskaga. Sumir finna stigum allt til foráttu, ekki Inga vinkona (sjúkraþjálfari, samt ágæt) sem segir þá allra meina bót, flottur rass og lipur skrokkur ... Jamm, þetta þarf að hugsa vel.   


Kaja kvödd og hætturnar utandyra

Hjá elsku Kaju okkarHádeginu var vel varið hjá Kaju sem er verslun og kaffihús og ... hætti rekstri í dag sem er sorglegt. Framleiðir áfram hollustu og dásemdir sem verða til sölu í góðum búðum. Ég væri mun hollari og mögulega orðin vegan ef væri ekki svona mikið af þess konar mat með hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum. Þetta síðasta, d og r, er mögulega matvendni en hitt tengist ofnæmi. Lífið er of stutt til að borða vondan mat svo ... jamm. Get reyndar borðað marsipan (úr möndlum) en alls ekki neitt með möndlumjöli, því miður, svo t.d. sykurlausu eftirréttirnir frá Kristu Ketó eru ekki borðanlegir af mér, botninn á ostakökunum. Þannig að ég held bara áfram að vera frekar holl með Eldum rétt.

Fór með Helgu Olivers sem ég kynntist hjá Rauða krossinum í matarklúbbnum góða, og hún þekkti bókstaflega alla á staðnum. Hún vildi sitja við borð úti. Ég er ótrúlega sveigjanleg og þrátt fyrir hroðalegan hita og fleira ógnvekjandi samþykkti ég það, vantar ekki alltaf D-vítamín í okkur landsmenn? Á 32. sekúndu byrjaði ég að svitna, enda skein sólin fast á mig án nokkurrar miskunnar og markísan hlífði ekkert. Helga sá aumur á mér og þegar inn var komið og við sestar þar, viðurkenndi ég varfærnislega fyrir henni að nú væru aldeilis uppgrip hjá geðillum geitungum, eða sá árstími. Vegna ofurhitans úti og mögulegrar árásar væri ég sérlega fegin því að vera inni. Hún hló og sagðist alltaf sitja úti sjálf og  hefði aldrei séð geitung. Hmmmm, einmitt.

Við fengum okkur ristað súrdeigsbrauð með avókadó og drukkum latte með, hálfan snúð hvor í eftirmat. Spjölluðum af kappi. Stóri gólfsíði glugginn við hlið okkar (reyndar dyr sem eru ekki í notkun) var galopinn og hinum megin við hann, sem sagt úti, sátu tvær ungar konur sem létu sólina ekki angra sig. Skyndilega upphófust skrækir og síðan kapphlaup upp á líf og dauða við ... haldið ykkur ... geitung í árásarhug. Hann hafði áhuga á vellyktandi veitingum þeirra en hefði pottþétt ekki hikað við að stinga þær í úrillsku sinni. Fyrir nokkrum árum hefði ég fært mig talsvert fjær, ég var hættulega nálægt, en nú horfði ég áhugasöm á flóttann sem heppnaðist farsællega og hugumstóra afgreiðslumanninn sem aðstoðaði við að bjarga veitingum ungu kvennanna inn. Sá grimmi varð eftir úti, hefur eflaust séð annað fórnarlamb í sólinni því hann reyndi ekki að elta konurnar. Mögulega sá hann Moggann þarna á einu borðinu og veit sennilega að upprúlluð dagblöð geta verið bráðdrepandi.

 

KajukaffiStráksi kom og hitti okkur fljótlega eftir hádegi þegar skólinn var búinn og þá drifum við okkur í besta banka í heimi, Íslandsbanka á Akranesi. Eftir að hann varð 18 ára hefur kerfið komið fram við hann eins og alla aðra fullorðna einstaklinga þar sem ekki er svigrúm fyrir neitt á borð við fötlun ... svo rafræn skilríki, væni minn, eða þú færð ekki Heilsuveru eða aðgang að einu eða neinu, þú færð lögfræðihótanir vegna reikninga sem bárust þér ekki því þeir enduðu í rafrænu svartholi. Elsku frábæri bankinn hans bretti bara upp ermar og reddaði málum, breytti stöðu hans mjög til hins betra í tilverunni, hann er alsæll. Hvernig starfsfólkið þarna kemst í peysur á morgnana fyrir vængjum, skil ég ekki. Við fórum líka í Omnis (símar, raftæki og fleira) og drengurinn gaf sjálfum sér fínustu heyrnartól í afmælis- og jólagjöf. Hann gat ekki hugsað sér að bíða til jóla og fá mig til að gefa sér í jólagjöf. Í Omnis hefur tækniblómálfurinn ég fengið mikla aðstoð þegar ég þarf (Davíð frændi harðneitar að flytja á Skagann) við hluti sem ég þarf bara að kunna á nokkurra ára fresti (eins og að skipta um síma) og fullur skilningur ríkir á því. Það er rosalega gott að búa hér á Skaganum, þótt nú sé bara eitt kaffihús eftir, Kallabakarí, sem opnar snemma og lokar snemma, eins og víða í borginni, þar sem verið er að ýta manni út í óreglu (bara barir eru opnir). En sums staðar, eins og á Kaffibarnum, alla vega í gamla daga þegar við hittumst alltaf vinkonurnar eftir vinnu á föstudögum, var hægt að fá súpergott kaffi. Best að tékka á Útgerðinni (bar á Akranesi). Það er ágætt kaffi á Galito (veitingastað) og líka á Vitakaffi hinu nýja (íþróttabar og matsölustaður, á móti Gamla Kaupfélaginu).

Hjá Kaju hittum við Bjössa Lú, Bowie-veggsmálara með svo miklu meiru, og eðlilega barst talið að kaffi. Hann kaupir súpergóðar baunir (m.a. hjá Valeria í Grundarfirði) og brennir þær sjálfur ... app kemur við sögu! Við Helga voru heillaðar. Jenna, konan hans, hefur skrifað heilmikið, var áður viðskiptablaðamaður í London eða New York áður en hún flutti hingað, og skrifaði m.a. bókina sem er fremst á mynd nr. 2, æðisleg bók fyrir erlenda ferðamenn. Frá vinstri: Karen, eða Kaja sjálf, Jenna og Bjössi.         


Hin mistökin ...

Á hvíta tímabilinuUndirbúningur afmælisins þann tólfta var bæði langur og strangur og þótt ég hafi ekki minnst á það sem fór úrskeiðis, vita bloggvinir mínir svo sem um rafræna boðsbréfið á Facebook, hópinn góða sem var ekki svo góður, fólk er enn að boða sig eða afboða. 

 

Allt var að sjálfsögðu óaðfinnanlegt varðandi veitingarnar, fínasta súperkaffi, geggjað gos og tertur, en það er ekki nóg, ég vil hafa bókstaflega allt fullkomið, allt í umhverfinu líka. Vel þurrkað af, rétta lyktin, tískulitir, markverðar bækur í hillum og borðum, ögrandi listaverk og rétta útsýnið (í fyrra sáu gestir eldgos í grennd, í ár var það sjávarútsýni). Myndin hér að ofan var tekin á hvíta tímabilinu eitt árið, þá var líka sjávarútsýni.

Já, ég var bara með allt það besta sem peningar fá keypt og gúglþekking getur fundið, eins og til dæmis mjúkan og þægilegn klósettpappír! Eftir ýmsar rannsóknir, ég hætti mér meira að segja á YouTube í fimm mínútur, tókst mér að finna tíu bestu tegundir salernispappírs sem völ er á í heiminum og hér á landi, fullkominn pappír fyrir fínu tilvonandi bossana. Ég bað þekkta smekkkonu að velja fyrir mig á milli þessara tíu, sem varð til þess, átta mánuðum síðar, að ég pantaði Lambi-pappírinn í heimsendingu, og fleiri afmælisnauðsynjar í leiðinni. Þetta kom svo allt daginn fyrir afmælið frá vissri ónefndri uppáhaldsbúð, þar sem ég hef ætíð fengið fullkomna þjónustu ... Hér fara mál nú samt að æsast.

 

Lambi-pappírAð morgni afmælisdagsins, áður en hirðsystir mín og æðsti krúttmoli, kom akandi með stóran hluta veitinganna sem ég hafði látið gullhúða í höfuðborginni (allt það besta, munið), lagði ég lokahönd á Himnaríki. Mér sást reyndar bara yfir smávegis af hreinum þvotti sem ég hreinlega gleymdi þar til kl. 14.57 sem var í fínu lagi því afmælið byrjaði ekki fyrr en kl. 16. Ég var staðin að verki af gömlum strætóvini, lögfræðingi en samt ágætum, sem hélt svo ótrúlega ranglega að afmælið hæfist kl. 15 og kom að mér berhandleggjaðri að ganga frá fatnaði í skúffur, sjá afmælisbloggið. Vissulega áfall fyrir hann og hefði svo sem verið fyrir alla aðra sem álíta mig fullkomna en undantekningin sannaði regluna í þessu tilfelli. Gleymskugaldur var það eina sem dugði á hann, ásamt gífurlegum hita sem bræddi nýlegar minningar úr heila flestra gestanna. Næstheitasti dagur ársins. Næsta verk var síðan að setja splunkunýjan rúllu af hefðarsalernispappírnum á réttan stað.

Ég handlék pakkann af virðingu, það var mynd af undurfallegu lambi framan á sem kom mér í sannkallað afmælisskap. Ég dró fyrstu rúlluna úr pakkanaum og mér til skelfingar var hún þríbreið! HVERSU FEIT HALDA ÞAU EIGINLEGA AÐ ÉG SÉ? hugsaði ég bálreið.

Korteri seinna hafði ég róast og þegar ég las á pakkann sá ég að þetta var aldeilis ekki salernispappír fyrir breiðvaxna, heldur eldhúsrúllur, mjúkar og voða góðar, þetta höfðu bara verið mistök hjá búðinni svo ég fór með pakkann fram í eldhús. Ég var orðin hipp og kúl þegar ég hringdi í búðina og talaði yfir hausamótunum á öðrum kaupmannssyninum sem grét svo mikið að ég fyrirgaf þetta í hvelli. Kveinin í honum hljómuðu undarlega, eiginlega svipað því og þegar ég emjaði nýlega af hlátri yfir bók Auðar Haralds, Baneitruðu sambandi á Njálsgötunni, sem sjokkeraði stráksa, en ég vissi þó að þetta var ekki hlátur, hann hefði aldrei vogað sér.

Ég tók upp símann aftur og hviss, bang, Hilda mætti með klósettpappír, meira að segja frá Costco, og ekkert neyðarástand myndaðist. Nú þarf ég bara að láta laga oggulítið vesen á gúmmí-sílikon?kanti í sturtuklefanum og þá verður hægt að vera með sturtuferðir fyrir gestina. Ég þarf að bjóða svo miklu betur en keppinautar mínir (fiskidagar, gleðiganga, KK, dráttarvélar og fleira) þegar afmælið ber upp á laugardegi. Þigg allar góðar hugmyndir. 


Af afmælum og megrunarkúrum sem virka

Eitt afmælið á HringbrautSíminn hringdi fyrir allar aldir í morgun, klukkan var alla vega ekki orðin hálfellefu, og símtalið tengdist verkefni, framkvæmd þess og fleira. Maðurinn í símanum hafði komið í afmælið mitt í fyrra lífi, vel fyrir aldamót, og á Hringbraut sem þá var í 107 Reykjavík en breytt í 101 um leið og ég var flutt þaðan (mynd frá afmæli á Hringbraut). Við höfðum unnið saman í smátíma og það þarf yfirleitt ekki meira en það til að fá boð í afmæli á þessu heimili. Þá, eins og nú, færðu gestir dýrar gjafir og ég man enn, aldarfjórðungi síðar, hvað hann kom með ... Þetta er voða fín olía til að gera seigt kjöt meyrt, hafði hann sagt. „Ahhh, svona baðolía,“ sagði Borghildur vinkona hjálpleg. Margir hlógu, þeim var ekki boðið aftur. Ég rifjaði þessa minningu upp í símanum.

Löng þögn. Hann ræskti sig: „Ég kalla þig minnisgóða,“ sagði hann og röddin titraði svolítið. Sennilega af hrifningu. Það var líka eitthvað afsakandi í rómi hans, eitthvað sem ég lærði að greina á yfirheyrslunámskeiði í denn. (Það sem ég lærði þar kom sér óvænt sérlega vel í þriðja og áttunda hjónabandinu).

Ég svaraði sannleikanum samkvæmt: „Mér hefur liðið eins og seigu kjöti síðan.“ Ég reyndi að láta það ekki hljóma beiskjublandið. Vissulega hef ég meyrnað með árunum en ég þagði um það. Símtalið varð ekki mikið lengra, hann þurfti að flýta sér. Svona geta nú símtöl á fastandi maga hljómað. Jamm, ég borða ekki fyrr en í hádeginu og hætti strax eftir kvöldmat. Hefur engan árangur borið, enda svo sem ekki mikil breyting frá því sem áður var.

 

MegrunVinkona mín sagðist hafa prófað þessa 16:8-föstu um nokkurt skeið. Að borða frá kl. 12 á hádegi og til kl. 20 á kvöldin, ekki þó samfleytt, bara eins og venjulega. Fasta svo í sextán tíma, eða frá 20-12. Hún sagðist hafa þyngst þótt hún hafi farið samviskusamlega eftir þessu, meira að segja fært vítamínin fram yfir hádegið. Hún er í fullri vinnu frá níu svo hún þjáist mun meira en ég sem get skriðið undir sæng þegar stráksi er farinn í skólann. Ég veit svo sem hvar ég klikka. Ég get ekki beðið til hádegis með að fá mér kaffi með kaffirjóma út í. Mér skilst að það heiti „dirty fasting“ sem hljómar svo spennandi að ég reyni ekki að þýða það. Báðar borðum við hollan mat og gerum okkar besta til að eiga ekki sælgæti í húsinu, það klárast annars hratt. Er ég þá búin með allt afmælissælgætið? Nei, reyndar ekki, enn eru til trufflur en það saxast á þær.

Ókei, ókei, ókei ... meiri hreyfing, meiri útivist? Það á að vera allra meina bót. Ég tók eitt sinn viðtal við konu sem fór á Atkins-kúrinn og grenntist hratt. Hún laug í viðtalinu að hún hefði jafnframt verið dugleg að hreyfa sig, til að vera góð fyrirmynd, en í reyndinni hafði hún verið mjög upptekin og gaf sér lítinn eða engan tíma til gönguferða ... en samt grenntist hún. Henni fannst ómögulegt að segja frá því opinberlega, eins og hún væri að mæra leti og ómennsku sem gönguferðahatur þykir vera.

AydsÞegar ég var au pair í London hvarf allt hvolpaspikið af mér nokkuð hratt því ég þurfti að ganga í þrjá tíma á dag, virku dagana. Fara með börnin í skólann hinum megin við Gunnersbury Park: Á morgnana, bæði börnin, ganga til baka heim. Fara í hádeginu og sækja yngra barnið, ganga til baka. Fara með yngra barnið með mér um þrjúleytið og sækja eldra barnið, ganga til baka ... 30 mín. sinnum 6 ferðir, samasem 3 tímar. Það var engin undankomuleið; strætó, lest eða nokkuð annað sem hefði gert þetta bærilegra. Ég lærði reyndar nokkra ensku af mömmunum sem biðu við skólann eftir krökkunum, eins og að maður segir ekki orange kitten, en Mammakisa eignaðist einn slíkan kettling, maður segir ginger. Til að flýta fyrir grennslu borðaði ég lengi vel bara soðin egg og appelsínur í morgun- og hádegisverð og svo venjulegan kvöldmat.

Ég varð ansi hreint mjó á skömmum tíma. Myndi ég nenna þessu aftur? Well. Það er enginn hálftímagöngugarður hér á Akranesi með mikilvægt erindi hinum megin við hann þrisvar á dag, svo nei. Frændi minn, þekktur fyrir illgirnishúmor en samt ágætur, stundum, ráðleggur fólki að borða kjúklinga-sushi vilji það grennast hratt. Ég held að það sé langbest og ódýrast að ganga bara (ekki bókstaflega) með dökk sólgleraugu, líka inni, banna myndatökur og fleygja speglum. Eða byrja að vinna aftur í Reykjavík og fara gangandi, alla vega aðra leiðina, gæti hlaupið í gegnum Hvalfjarðargöng til að löggan taki mig ekki. Þá myndi ég aldeilis leggja af, eins og það hét þegar til siðs var að tyggja Ayds-karamellur til að grennast.         


Fölblá eins og undanrenna

Skert þjónustaÓvænt og góð heimsókn í dag, vinkona á leið að norðan kíkti í kaffi. Ég gat borið fram snobb-veitingarnar, fína, franska brie-ostinn, sulturnar og óvenjulega kexið. Það liggur ekki lengur undir skemmdum, til að gera langa sögu stutta. Umræðuefni okkar eru iðulega fjölbreytileg og í dag töluðum við meðal annars um skerta þjónustu og ótrúlega eyðslu sums staðar hjá hinu opinbera (eins og ný ráðuneyti fjórða hvert ár sem er ógeðslega dýrt).

Það eru heilu verslanirnar sem bjóða aðeins upp á sjálfsafgreiðslu, WH-Smith á flugvellinum í Manchester og Kostur í Garðabæ, svo ég nefni eitthvað sem ég hef reynslu af sjálf. Veit að á veitingastað í 105 Rvík eru engir matseðlar nema þeir sem maður skannar í símann sinn og pantar svo matinn í gegnum símann. Tækni er æðisleg en stundum finnst mér hún gagnast betur fyrirtækjum / stofnunum en viðskiptavinunum. Ég kenni covid-ástandinu um margt, ekki allt. Sum fyrirtæki eru enn að rétta úr sér síðan þá og vonandi sjá þau sér fært að bæta þjónustuna innan tíðar. 

 

Vinkonan fór með hópi fólks til Ástralíu eitt sinn og á heimleið, á flugvellinum ytra, var enga þjónustu að fá, þau áttu að skrá sig rafrænt en tölvan fann ekki nokkra leið til Íslands sem þó hefði átt að vera í kerfinu. Alls staðar er til gott fólk samt, ekki síst í Ástralíu, og það voru tvær manneskjur sem sáu til þess að hópurinn og farangurinn færu samferða þessa þrjá leggi til að komast heim. Það var tölvuséní í hópnum en það var samt ekki mögulegt að bóka þetta rafrænt. Það er líka sérdeilis illa farið með marga á Facebook því róbótar leita að glæpsamlegum færslum en eru mataðir frekar fáránlega svo t.d. maður sem reyndi að pósta gamalli æfingu af tónleikum sem hann stjórnaði fékk skammir fyrir það og myndbandið tekið út, því æfingin var of lík tónleikunum sjálfum sem hann hafði áður birt. Það vantar sárlega fólk þegar eitthvað svona kemur upp, ekki bara hafa gervigreind eða róbóta. Áhrifavaldi, vinsælli konu, var hent út af Instagram fyrir að þykjast vera hún sjálf. Þótt hún segði: Já, en þetta er ég, var öllu hennar efni eytt ... róbótar hata mannfólkið og reyna að ná völdum, held ég. Einu sinni las ég bók eftir Dean Koontz sem fjallaði um tölvu sem elskaði konu og náði að loka hana inni í húsi og einangra hana, og þráði að eignast með henni afkvæmi. Mögulega byggð á sannsögulegu.  

 

Hótel GlymurEinu sinni vann ég á Bifröst í nokkra mánuði, skömmu áður en ég fór sem au pair til London. Nú fer þar flóttafólk í gegn, mestmegnis frá Úkraínu, held ég. Hef aldrei unnið hjá Hótel Glym í Hvalfirði en nú hefur það verið tekið á leigu undir flóttafólk. Einhverjir virðast halda að það verði dekur og lúxus í gangi (líklegt ... not) og spyrja: Hvað um okkar fólk? Ég sá eitt sinn viðtal við einhvern hjá Reykjavíkurborg sem sagði að alla vega einn og hálfur milljarður (eða 1,8) færi í þann málaflokk, eða "okkar fólk", á hverju ári. Það er ýmislegt gert, bæði hið opinbera sem og góðgerðasamtök sem gera eitthvað. Vinkonu minni var nýlega ráðlagt að kaupa ekki íbúð á vissum stað í vissu (vinsælu) hverfi því fyrir aftan fjölbýlishúsið sem hún hafði augastað á væri lítið fjölbýli þar sem byggi ógæfufólk sem verið væri að hjálpa, vesenið væri þó ekki íbúarnir þar, heldur utanaðkomandi fólk sem vildi heimsækja íbúana og það ylli svo miklu ónæði og löggan reglulegur gestur fyrir utan. Fram að því hafði hún haldið að ekkert væri gert fyrir þetta fólk. Borgin ber ein kostnaðinn því "okkar fólk", sama hvaðan það kemur af landinu, vill vera í Reykjavík.

 

ShakespeareMunið þið ekki þegar var verið að bera saman lúxuslíf fanga og hroðalegt líf gamla fólksins, ótrúlegt því aðbúnaður aldraðra (sem er vissulega misjafn) tengist aðbúnaði fanga ekki neitt og hver vill í alvöru vera lokaður inni? Og munið þið þegar öryrkjar voru vondi karlinn sem upp til hópa svindlaði á kerfinu og þess vegna var ekkert hægt að gera fyrir fátæka og aldraða ... Mamma sagði mér frá því að þegar hjúkrunarfræðingar voru í kjarabaráttu voru kjör þeirra í sífellu borin saman við aðra hópa, t.d. sjúkraliða, og öfugt, því það er svo snjallt að etja hópum saman og það dreifir athyglinni frá aðalatriðunum. Þótt við myndum fleygja þessum 15-20 flóttamönnum úr landi (nýju útlendingalögin) eftir að hafa haldið þeim uppi ansi lengi því þau fengu ekki leyfi til að vinna, er ekki nokkur möguleiki á því að "okkar fólk" græði eitthvað á því. Ég skil ekki af hverju svona margir halda það, stjórnvöld hljóta að vera rosalega sátt því það dregur athyglina frá þeim og því sem þau eiga að gera.

 

Þegar ég var lasin fyrr í sumar kom ein sýrlenska nágrannakona mín með kvöldmat handa mér (stráksi í helgarfríi frá mér) sem maðurinn hennar hafði eldað. Ein úkraínska grannkonan passar kettina mína (fyrri kisupassarinn, elsku Hildur mín, dirfðist að flytja úr húsinu) ef ég gisti lengur en eina nótt í bænum og hún býður mér iðulega bílfar í búðir, hún fékk undanþágu, eins og landar hennar, og fær að vinna, og það breytir öllu.

 

Dásemdarvinkonan sem kom í dag hvetur mig af öllu hjarta til að flytja í Kópavog, þar sé gott að búa. Það er eins og ég hafi heyrt það áður ... Við hötum báðar að fara út að ganga en sammæltumst um að ef ég fyndi góða íbúð í Kópavogi, þegar/ef ég tími að yfirgefa Himnaríki, myndum við fara daglega saman í gönguferð. Fyrst í fimm mínútur á dag og jafnvel enda í sjö mínútum eftir fyrsta árið sem væri bara stórkostlegt. Það þaggar niður í heilsusamlegum vinum okkar og ættingjum, og við hættum kannski að vera á litinn eins og undanrenna.    

 

Séð á Facebook:

"Hafið þið heyrt um lesblinda galdramanninn vestur á Ströndum sem seldi Snata sál sína?"


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 77
  • Sl. sólarhring: 221
  • Sl. viku: 2027
  • Frá upphafi: 1456780

Annað

  • Innlit í dag: 74
  • Innlit sl. viku: 1729
  • Gestir í dag: 73
  • IP-tölur í dag: 72

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Ágúst 2023
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Gardínukettir
  • Ostapítsa með sultu
  • Náttborð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband