Ef ég nenni ...

BlómakötturLetidagar eru algjör nauðsyn annað slagið, og hér fór einn slíkur fram í dag. Vifturnar fóru í gang aftur eftir næstum vikalanga hvíld, ég hélt að ég gæti farið að fagna hausti og svala en svo var nú aldeilis ekki ... Gætti þess bara að hreyfa mig ekki neitt.

Sendi auðvitað hamingjuóskir til allra þeirra sem nenntu að hreyfa sig í morgun í maraþoninu. Sá að Team Tinna sem ég styrkti í ár safnaði heilmiklu fé. Ég man eftir maraþoni þar sem hlaupið var fram hjá heimili mínu við Hringbraut (1988-2006) og ég varð ekki vör við neitt, aðeins einfalt gler á milli mín og þúsunda sem másuðu og blésu í örfárra metra fjarlægð. Segir kannski allt um mýktina á hlaupaskóm þess tíma eða hve bókin sem ég var líklega að lesa var skemmtileg.

 

Myndin er af ámátlegum Krumma sem getur ekki látið blómvendi í friði ... hann er verstur kattanna. Tveir vendir sluppu í gegn á afmælinu og ég hélt hreinlega að kettirnir hefðu ekki tekið eftir þeim, óskhyggja ... Veit ekki hvort þessar gulu freknur framan í Krumma verði þar til eilífðar. 

 

Alltaf eitthvað að gerast á samfélagsmiðlunum. Á hundasíðu á Fb skrifar manneskja um mann sem passar hunda og tekur þá með sér út í bílskúr á kvöldin og reykir þar gras. Fólk er ótrúlega rólegt yfir því og segir það allt í lagi, ekki skaðlegra hundum en skötufýla! Mjög margir eru staddir niðri í bæ og svolgra í sig menningu, einhverjir njóta þess að sitja heima, eins og ég. Miðað við skyggnið núna ætti að sjást mjög vel í flugeldasýninguna frá Akranesi kl. 23, ef ég nenni. Ein á Instagram býr í Þýskalandi og hlakkar ekki til hitans fram undan, eða yfir 30 gráður næstu daga. Svo er það vinurinn sem vil meina að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin fái alræðisvald yfir líkama okkar og haldi áfram að fremja fjöldamorð á okkur, ríkisstjórn Íslands að lauma þessu í gegn. Það eru týndir kettir og fundnir kettir, prjóna- og heklfólk að sýna afurðir sínar, fólk að deila fréttum og segja álit sitt í leiðinni. Það eru myndir frá ýmsum fallegum stöðum í heiminum, fólki á ferðalögum, fólki að borða, ég setti t.d. mynd af kexi, osti og freyðivíni (afmælisgjafir) á Snapchat hjá mér. Hugsa að allir þar haldi að ég sé algjör lúxusgella að borða svona kvöldmat, og gruni síst að ég sé bara að klára þetta áður en þetta skemmist og nenni ekki að elda fyrr en á morgun, stráksi að heiman núna. 

Jack ReacherÓtrúlega stutt síðan glugginn minn út í heim, fyrir utan bækurnar, var sjónvarpið sem ég nenni ekki kveikja á núorðið og hef varla gert í lengri tíma, kannski of mikið áreiti alls staðar. Er með Sjónvarp Símans Premium, Netflix, Amazon og Disney plús ... en stráksi hefur gaman af því að horfa stundum, annars væri ég hætt með þetta. Jú, ég myndi stökkva til og horfa ef kæmi önnur þáttaröð um Jack Reacher (Amazon), frábær leikarinn þar og greinilega um tveir metrar á hæð eins og sögupersónan á að vera (sjá mynd af honum), Tom Cruise er flottur í mörgum myndum en við sem höfum lesið bækur Lee Child eigum erfitt með að horfa á Tom sem Jack. Svo er systir mín búin að lofa að láta mig vita þegar allir þættirnir eru komnir af The Lincoln Lawyer, sá reyndar fyrri seríuna og vil geta horft á alla þættina þegar mig langar, ekki bíða. Maður er orðinn svo frekur eftir að dagskrárstjórar sjónvarpsstöðva hættu að stjórna lífi manns.

Þegar Lincoln L. kemur, eða allir þættirnir, verður sennilega poppað. Kannski mun ég sjá eftir því að hafa keypt svona lítinn örbylgjuofn (hætta á að pokinn brenni) en ég þoli ekki stærðarinnar tæki á bekkjum og borðum í eldhúsinu. Það sem ég nöldra oftast yfir við stráksa er þegar hann gleymir að ganga frá hraðsuðukatlinum inn í skáp. Drengurinn er með einhver bresk gen, held ég, er alltaf að fá sér te. Og hefur það sterkt, notar hverja einustu teögn úr tepokanum,. Jæks. Ég rétt bleyti tepokann í heita vatninu, blæs síðan á það í hálftíma til að geta mögulega drukkið það. Við erum te-plebbar hér í himnaríki, vissulega ólíkir te-plebbar en þegar ég bauð einu sinni enskumælandi konu í heimsókn sagðist ég eiga gott kaffi en vont te. Þegar hún kom sagðist hún gjarnan vilja kaffi.


Orð sem trufla, skólabyrjun og fjórði Elon Musk-inn

Stráksi með MosaStráksi byrjaði fjórða og síðasta árið í dásamlega Fjölbrautaskólanum sínum í morgun. Talsverð tímamót að hætta í vinnunni í gær og setjast svo á skólabekk í dag. Það var loks í gærmorgun sem stundaskráin kom inn á Innu eftir að við höfðum kíkt daglega um hríð án árangurs, en við stráksi þurfum alltaf svolítinn fyrirsjáanleika, mögulega meiri en flestir aðrir. Auðvitað hefði ég getað hringt og fengið að vita miklu fyrr klukkan hvað mæting var (Sigfús, ég er með Merkúr í Meyju, veit ekki með stráksa), en daginn áður nægir langsamlega flestum. Ég hringdi loks um tíuleytið í gærmorgun og þá sagði hressa konan í símanum að allt væri komið á Innu núna, og það fyrir klukkutíma. Úps, auðvitað hafði ég ekki tékkað áður en ég hringdi, skrambs. Skóladagatalið var löngu komið á síðu skólans og sérlega fínt að sjá haustfrí, vorfrí, jólafrí og ýmsa viðburði.  

Hvernig var í skólanum?“ spurði ég svo um ellefuleytið í morgun.

Það var rosa gaman. Ein konan sem kennir mér í vetur sagði: Loksins fæ ég að kenna þér!“ svaraði stráksi alsæll, búinn að gleyma því að í gær hafði hann svo miklu frekar viljað vinna áfram á besta vinnustað í heimi, Fjöliðjunni, en fara í skólann. Svona getur nú æðislegt fólk haft mikil áhrif og breytt málum til góðs. Svo á ég eftir að hringja auðmjúk í skólann og fá leyfi og biðjast afsökunar á því að hafa valið ranga daga (ekki bara haustfríið) til Glasgow-ferðar í október, sem þýðir að stráksi þarf smávegis aukafrí. Spurning um að senda drenginn reglulega með blóm og konfekt til að mýkja mannskapinn. Það var ekki við það komandi hjá honum að borða hádegismat heima, nei, hann fór aftur í skólann eftir hálftímalanga veru heima, bara til að borða þar og kom svo heim klukkan eitt, saddur og sæll. Það er ekki bara sjúklega góður maturinn í mötuneytinu þar, skilst mér, heldur vinna þar svo góðar og fallegar konur.

 

Sif og KeliSpennandi laugardagur fram undan, sjálf menningarnótt á morgun. Talsvert margt sem mig langar að sjá og upplifa, útgáfupartí, opnun nýs veitinga- eða kaffihúss í Safnahúsinu við Hverfisgötu, Sigurveig snillingur og Kári sonur hennar sem flytur tónlist ... já, bara upplifa stemninguna alls staðar í miðborginni. Samt nenni ég ekki, held ég. En sjáum til. Veðrið verður "gott" - hvorki rok né rigning, jafnvel sól. Auðvitað er það betra á svona degi. Of heitt samt fyrir minn smekk, eða 15 gráður.

 

Ég sat skemmtilegt og fræðandi netnámskeið í hádeginu í dag hjá gamla dýralækninum hans Kela, henni Sif. Keli fylgdist vandlega með fyrirlestrinum til að byrja með (sjá mynd) og lagðist svo við hliðina á lyklaborðinu, eins og til að hlusta á rödd hennar og rifja upp gömul bólusetningarmóment. Eitt sinn fyrir mörgum árum fór Sif í brúðkaup á Vesturlandi og ég passaði fallegu og góðu silki-eitthvað-tíkina hennar, þá einu sinnar tegundar, á þeim tíma alla vega, það með góðri aðstoð Kela sem elskar hunda eins og ég.

 

Grein í HeimildinniFyrr í sumar fékk ég beiðni frá Heimildinni um að skrifa um eitthvað sem ég hef lært af lífinu. Þetta er fastur liður í öftustu opnunni og er iðulega afar skemmtilegt aflestrar. Ég var mjög hugsi, lengi, lengi, en Erla sagði að ég gæti tekið mér allan þann tíma sem ég vildi og þyrfti. Þarna strax langaði mig til að skrifa um að við ættum ekki að trúa öllu eða hlýða skilyrðislaust og var með ágæt dæmi frá barnæsku, eins og t.d. hvað það gat verið hættulegt að skipa börnum að hlýða öllum fullorðnum - alltaf. Þess vegna var ég, átta eða níu ára, nánast komin upp í leigubíl með drukknum manni sem hafði séð mig ráfandi um eina á Reykjavíkurflugvelli (að koma frá Vestmannaeyjum) og sagði mér að koma með sér, hann ætlaði að redda mér heim). Rétt áður en við komum út gall við í hátalara að ég ætti að koma að afgreiðsluborðinu. Þá fyrst þorði ég, skíthrætt barnið, að rífa mig lausa og fékk að vita að mamma væri rétt ókomin að sækja mig. Ég skrifaði líka um innrætinguna, að strákar væru betri en stelpur, t.d. í stærðfræði og að keyra bíl. Ég fór að efast um þetta fyrrnefnda í landsprófi eftir að hafa fengið tíu í skyndiprófi í algebru, fékk samt svimatilfinningu af undrun því ég vissi að þetta hlyti að vera tilviljun, en fór samt að efast. Svo þegar systur mínar, frænkur og vinkonur höfðu afsannað fyrir mér þetta síðara, varðandi aksturinn, var það orðið of seint fyrir mig, og ég komin í ævilangt ástarsamband með strætó.

Svo var erfitt að halda áfram með skrifin, bæta við t.d. því sem ég fékk að heyra í kringum andlát sonar míns og í sama létta dúrnum ... svo ég söðlaði alveg um, henti út æskudæmunum og skrifaði fyrir rest bara um þrjár setningar sem dynja á mörgum syrgjendum og eru frekar ömurlegar. Það voru: Þetta á eftir að verða svo miklu verra hjá þér, Lífið heldur áfram og Þú ert í afneitun. Ég sagði frá því hvernig þetta hefði birst mér og hefði ekki gert mér neitt gott, nema síður væri. Við erum misjöfn og það sama á ekki við alla. Ég hikaði við að skrifa um þetta, því þetta er mér sannarlega ekki ofarlega í huga lengur, en frábært tækifæri að koma þessu að í Heimildinni - í þeirri von að það nýttist einhverjum, að það gerði kannski erfiðara að rugla í fólki eftir missi. Það meina örugglega allir vel en þetta hafði alls ekki góð áhrif á mig. Greinin birtist í Heimildinni (prentútgáfunni) í byrjun ágúst og í morgun deildi blaðið þessu á Facebook.

 

 

Eftir þessa lærdómsríku ævi mína (rúmlega fimmtíu ár, eins og það heitir núna og eftirleiðis, nema ég fari að vera aftur með aldurstengda, áletraða afmælistertu) finnst mér ég orðin ansi hreint gagnrýnin og ég trúi sko ekki hverju sem er. Í gær byrjaði til dæmis fjórði Elon Musk-inn að fylgja mér á Instragram ... Tveir eru í lagi, það er bara tilviljun, þrír örlítið grunsamlegri en þegar komnir eru fjórir fara að renna á mann tvær grímur.


Stuð við mjólkurkælinn ...

Aldur bara orðAfmæliskveðjurnar berast enn og sumar sá ég í dag í fyrsta sinn þótt þær hafi verið skrifaðar og sendar á laugardaginn. Facebook þó! Mikið sem kveðjurnar hlýja, gleðja, kæta, bæta og hressa. Ekki er síður hressandi að fá betra veður, eða meiri svala og vind. Rigning er alveg ágæt líka, svona í hófi. Það tók nógu langan tíma að fá stráksa til að leggja vetrarúlpunni og fara að nota jakkann, skömmu fyrir þessa ógeðsheitu daga í júlí og ágúst, en í dag greip hann úlpuna svo það fer að koma vetur, sorrí, krakkar mínir. Hann finnur þetta.

Mér skilst að veðurguðirnir ætli að hafa fínasta veður í Reykjavík á laugardaginn, þegar menningu verður almennilega fagnað. Ég nenni ekki í bæinn, stráksi fer í helgargistingu svo ég get sprangað frjálslega um Himnaríki, jafnvel berleggjuð. Kettirnir kippa sér svo sem ekki upp við smávegis nekt. Gæti orðið gaman að ráðast á ætu afmælisgjafirnar, flotta ostinn, kexið, súkkulaðið ... Líka stór spurning um að standa girnileg við mjólkurkælinn milli kl. 18 og 18.30 í Einarsbúð á morgun, það hefur gefist vel. Stundum hef ég gripið lambalæri eða -hrygg og haft í körfunni til að flýta ferlinu en ef sérlega illa veiðist (mæli ekki með júlí, ágúst og desember) get ég alltaf skilað því í kælinn og keypt mér pastaréttinn góða fyrir einn og hitað í örbylgjunni.

Hef góða tilfinningu fyrir helginni þrátt fyrir hækkandi aldur. Nú eru sumir farnir að tala um að ég líti ekkert síður út en Madonna en það gæti auðvitað verið enn ein pikkupplínan. Aldurinn hefur fært mér bæði visku og ... æ, ég man ekki hvað hitt var. 

 

Strætó fyrir tággrannaEinn íbúinn hér í Himnaríki þurfti að skreppa í blóðprufu í dag og ég verð eiginlega að minnast á dásamlegu móttökurnar sem við fengum á spítalanum hér ... á elskulegheitin, fagmennskuna og svo auðvitað verðlaunin í lokin, eða spil sem virkar spennandi. Það verður sem sagt spilað lúdó hér í kvöld. Hugsa að stráksi mali mig, hann var vanur að gera það í Ólsen.

 

Við tókum strætó, fína nýja rafmagnsstrætó, því það var rigning, ég leyfði drengnum að ráða hvort við færum með honum eða fótgangandi, og hann vildi ekki ganga (getur hatur á gönguferðum erfst frá fósturmæðrum?). Við sátum hlið við hlið en létum ganginn vera á milli okkar, til öryggis ef ég færi að syngja og hann gæti látið sem hann þekkti mig ekki. Ég hef bara hótað því, aldrei staðið við það.

Stráksi er grannur en sætið rétt passaði undir hann samt! Sjá mynd. Ég þorði ekki að horfa á auða sætið við hliðina á mér, hvort ég fyllti kannski út í það líka eins og það sem ég sat á ...

 

Kettir í stuðiLitla systir (Hilda) kom óvænt á Skagann í gær ásamt vinkonu, bauð mér út að borða, talaði smávegis um daginn og veginn yfir pítsu og kjúklingi, skutlaði mér svo heim og fór síðan til baka í Kópavog.

Skilst að hún hafi verið búin að lofa hundunum (Herkúlesi og Golíat) gönguferð á Langasandi en svo kom í ljós að það var rigning og svona fínir hundar neita að óhreinka sig, jafnvel ekki á flottustu baðströnd landsins. Þetta er alið svo snobbað upp. Ef ég fer í sturtu heima hjá Hildu er ekkert stórmál ef ég ruglast og nota óvart hundasjampó í hárið á mér, það er svo fínt merki en ég verð samt alltaf ögn ljóshærðari á eftir.

 

 

Ljósmynd af fögrum köttum: Ekki svona skökk, heldur bara illa tekin í flýtinum, litla myndin virðist skakkari en hún er.

 

Hilda hafði víst trúað því sem ég sagði henni árið 2006 þegar ég flutti hingað að hér rigndi aldrei. Ég hafði gleymt að leiðrétta það en hér rignir svo sjaldan að hún hefur aldrei upplifað það. Það er svo ofboðslega langt síðan hún var barn að hún man ekki eftir veðrinu á Akranesi í æsku, það var svo sem alltaf gott veður, minnir mig. En hún er brjáluð út í mig núna og hundarnir orðnir fyrrverandi vinir mínir. Eini sem er glaður í þessu ástandi er Krummi, sá sem liggur og malar á myndinni, og hlakkar yfir misheppnuðu gönguferð hundanna. Mosi og Keli fóru að slást af hryggð yfir að hitta ekki vini sína, sætu, hvítu voffana. Ég náði sögulegri mynd af þessu.

Heimsókn Hildu og kó gekk svo hratt fyrir sig að ég er farin að efast um að hún hafi komið, að ég hafi dottað í hádeginu í gær og vaknað pakksödd, eins og ég hafi farið út að borða í hádeginu. Ég held að Hilda hafi ekki áttað sig á rigningunni fyrr en eftir matinn, þegar átti að fara í göngutúr með hundana. Kannski var gönguferðin ekki ástæðan fyrir komu þeirra hingað, mögulega átti vinkona hennar erindi hingað en mér finnst það ekki trúlegt. Hér er fátt spennandi að gerast fyrir konur á okkar aldri á þessum árstíma, nema við mjólkurkælinn í Einarsbúð á föstudögum klukkan átján.    


Nýr vinahópur kannski ...

Hvað er að facebookNýlega bloggvældi ég yfir hópum sem Facebook reynir að troða mér í og henta flestum öðrum en mér, held ég, eins og Konur sem hlaupa með úlfunum og Tjaldstæði - umræðuhópur. Oft kemur fésbókin líka með tillögur að áhugaverðu fólki, splunkunýjum vinum sem væri kannski sniðugt, að hennar mati, að bæta í hóp elskulega fólksins sem ég er með hjá mér á feisinu.

MYND: Dæmi um tvær manneskjur sem Facebook otar að mér þessa dagana, og vill að ég sæki um fb-vinskap við. Ætti ég? Get ég verið viss um að þau samþykki vinarbeiðni mína? Munu þau auðga líf mitt, ef þau samþykkja? Þoli ég höfnunina ef þau gera það ekki?  

 

Fyrir nokkrum dögum sá ég nokkur ný andlit sem fésið hafði stungið upp á og því fannst að ég ætti að vingast við. Ég kíkti nánar á nokkra af þessum einstaklingum (með opna síðu) og einn þeirra víkkaði í hvelli út sjóndeildarhring minn og bara það að skoða örlítinn part af skrifum hans og deilingar orsakaði að ég fór að hugsa sjálfstætt ... í fyrsta sinn í rúm þrjú ár. Vissuð þið t.d. að skógareldarnir á Hawaii voru eiturefnaárás og að flóðin í Noregi voru sett á svið? Ekki ég heldur.

 

Nýju útlendingalöginÖnnur manneskja sem fésið vildi að ég vingaðist við ætlar að stofna einhvers konar fangabúðir fyrir sumt fólk, fólk sem er ekki alveg nógu rétt á litinn og þótt það vilji vinna, leigja íbúð, kaupa bíl og borga skatta hér er það samt ekki velkomið.

En það er því miður ekki það sem er að sprengja ríkisstjórnina, heldur er það víst hvalveiðibannið, ef slúðrið er rétt. 

 

Er það fjöldi sameiginlegra fb-vina sem veldur þessum uppástungum um nýja og ofsaspennandi Facebook-vini? Facebook er ólíkindatól. Ég spjalla nú ekki oft við fólk á messenger en samt gott að skella t.d. spurningu á Hildu: Vissir þú að það er bara eðlilegt að þriðja dóttirin (eins og þú) í fjölskyldu er með nánast undantekningalaust með blæti fyrir rauðhærðum iðnaðarmönnum? En feisbúkk fílaði ekki að maður talaði bara við vini og vandamenn. Fyrir mörgum mánuðum, árum, átti að reyna að fá mann til að tala við ókunnuga fb-vini, jú, þeir eru algengir. Afar óvirkir Facebook-vinir (látnir jafnvel) voru hafðir efst, til að við færum kannski að spjalla. Það var því meira vesen að finna sitt fólk og þurfti að fara í leitarglugga því þeir sáust aldrei efst á listanum. Fb virðist vera að draga í land með þetta, sem betur fer.   

 

Vifta loksinsFitun mávanna fyrir suðurflug haustsins heldur áfram og með leifum kvöldmatarins (bleikja, eða roðið) í kvöld og hálfri tertusneið frá afmælinu sem fannst í felum í einni hillunni í dag, fínasta súrdeigsbrauði (smábrauði fyrir tvo) sem ég sleppti með hádegismatnum í dag, bleyttu í aldraðri ólífuolíu, má segja að uppistaðan í súpueldhúsi okkar stráksa í dag hafi verið full af orkugefandi vítamínum. Vona að krummarnir verði jafnduglegir að halda lífrænu ruslatunnunni (sem er enn ókomin á Skagann) tómri, eins og Jónatan og co hafa verið. 

 

Þremur dögum EFTIR afmælið mitt (auðvitað) sá ég auglýsingu sem hefði getað gjörbreytt öllu á laugardaginn (afmælinu) hjá mér. Ekki næstum allir gestirnir hefðu vitað hvað þetta væri, en samt fundist það töff EF ég hefði kannski sagt að þetta væri tæki til að lesa hugsanir ... eða sérstakt heilabylgjusöfnunartæki sem aðstoðaði mig við að safna upplýsingum um gestina svo ég geti boðið upp á vegan fyrir suma og sykur- og glútenlaust fyrir aðra í næsta afmæli.

 

 

Þetta heitir Hálsvifta. Hál svifta? Gæti svo innilega verið njósnabúnaður og enn meira töff en hafa sólgleraugun sín uppi á höfðinu. Þessi verður vonandi komin í Himnaríki fyrir næsta sumar. Geri ráð fyrir að þjáningarnar séu að baki að sinni og eðlilegt hitastig ríki héðan í frá og sem allra lengst. Það er alla vega líft í Himnaríki núna. Eitthvað sem venjulegu fólki finnst notalega hlýtt finnst mér nánast óbærilegt, svo hér er sennilega svalt peysuhitastig. Alveg eins og það á að vera. Sem minnir mig á að við í Hekls Angels erum að hugsa um að hekla peysu á okkur nú í vetur. Ekki laust við talsverða tilhlökkun. 


Upplyfting, heldur betur

AmmmmiliPlötuspilari, jesss, æðislegt, hugsaði ég, svo innilega ánægð með nýju plötuna mína með Upplyftingu (og að geta spilað King Crimson-plöturnar mínar líka). Ég hafði vart náð að setja inn nýjustu bloggfærsluna á fésbókina (annars les enginn) í gær þegar ég fékk komment um að víst væri Kveðjustund inni á YouTube, því til sönnunar fékk ég hlekk á alla plötuna. Ég hafði leitað reglulega að laginu í áratugi (alla vega frá 14. febrúar 2005 þegar YouTube var fundið upp) en platan kom út 1980, og fannst furðulegt að finna það hvorki á Spotify né YouTube. Svo fór afar tónlistarlega vinveittur mér maður að norðan á stúfana og fann það í fyrstu tilraun. Ég var í sjokki, eiginlega gráti næst, þar til skynsemin tók yfir og ég athugaði hvenær þessi plata, þetta lag, var sett inn. Sjúkk, fyrir aðeins tveimur mánuðum. Sennilega tuttugu mínútum eftir að ég leitaði síðast. Ég er ekki alveg kolklikkuð svo ég leita ekki daglega ... en geri það nokkrum sinnum á ári. Ég er nánast ekkert á Spotify, heldur á tónlistarveitu YouTube og get fengið myndböndin með lögunum sem ég vel, ef ég vil, og er búin að bæta Kveðjustund við. Nú er ég með 93 lög á listanum Ýmis lög. Set alltaf á shuffle (stokka lögin eins og spil) og það kemur mér alltaf jafnskemmtilega á óvart hvað ég hef góðan tónlistarsmekk. Gömul lög, nýleg lög, klassík, væmni, þungarokk, rapp. YouTube á samt svolítið erfitt með að búa til lista handa mér, velur svo oft B-hliðar-lög sem oft eru hundleiðinleg ... fordómar hjá YouTube-veitunni. Auðvitað kíkti ég á Spotify líka og haldið að lagið sé ekki komið inn þar líka? Það er einhver í Upplyftingu sem elskar mig. (Einhver meðvirkur mér talaði við vin sinn hjá Upplyftingu fyrir nokkrum árum og án árangurs, hélt ég, það var alla vega eitthvað vesen sem nú er búið að leysa ... takk, elskan)

 

BaneitraðÉg var að ljúka við ansi skemmtilega og drepfyndna bók á Storytel. Gamla uppáhalds þótt ég hafi verið aðeins meira en unglingur þegar ég las hana. Baneitrað samband á Njálsgötunni, auðvitað eftir Auði Haralds.

Þegar maður fær hláturskast hljómar maður stundum eins og verið sé að pynta mann, vein og læti. Ég fékk kast í gær og stráksa brá og eiginlega skammaði mig fyrir að hlæja (emja) svona mikið.

Ég þurfti að slökkva í miðri setningu frábæra lesarans og stökkva út eldhúsinu og inn á salerni til að pissa ekki í buxurnar.

 

Þegar ég sagði að það hefði hlýnað í Víti í gær, í stíl við Himnaríki, var víst átt við að Askja búi sig undir eldgos - og svo er ekkert svo ólíklegt að við fáum neðanjarðargos á Reykjaneshrygg á svipuðum tíma. Það mætti halda að þetta land væri ekki fullskapað ... dæs. 

 

Hér fyrir neðan er svo LAGIÐ. Hefur elst prýðilega og ég er búin að hlusta á það fjórum sinnum í dag, öskursyngja með viðlaginu (aumingja nágrannarnir) í hvert sinn og er bara voða sátt. En ég ætla samt að kaupa plötuspilara. Það slökknar ekki svo auðveldlega neistinn af tilhlökkun sem ég fann til á laugardaginn við tilhugsunina um hann. Ég er meira að segja komin með stað fyrir hann inni í stofu. Hann Óli hennar Önnu er með svakalega flottan plötumarkað á Háaleitisbraut og síðast þegar hann birti mynd af plötum á góðu verði eða ókeypis, sá ég glitta í þessa plötu ... ef elsku Kristbjörg hefði ekki gefið mér hana, hefði ég fengið hana hjá Óla, þessari plötu var ætlað að komast til mín ... þótt það tæki óratíma. 

 

  


Af afmæli, útliti og aldri ...

Fyrstu afmælisgestirnir hélt égHamfarahlýindi er eina orðið sem ég finn yfir ástandið heima hjá mér í gær. Ef einhver viðstaddur hefur ekki trúað á hlýnun jarðar, gerir hann það núna. Hugsa sér, það við Atlantshafið á ÍS-landi. Ekki bara funheitt í Himnaríki, heldur hafði ég fregnir af því að hiti hafi einnig hækkað til muna í Víti. Einhver sagði mér að svona gott veður á afmælisdegi táknaði að ég hefði verið góð stúlka í heilt ár. Hmmm, hugs, hugs.

Það hreyfði varla vind, ástandið var reyndar oggulítið skárra úti á svölum en góður gestgjafi þarf líka að vera inni til að hella upp á könnuna og fylla á. Ég myndi segja að paratabsið (sem elsku Hilda mín kom með - ÁSAMT FLEIRU, elsku krúttið) ofan í íbúfenið hafi gert nánast kraftaverk en ég sat þó meira en oft áður á meðan stráksi sá um dyravörslu. 

Gærdagurinn hófst á því að fínasta skip (sjá mynd) pósaði fyrir framan glugga Himnaríkis. Einhver hefur ekki nennt að keyra göngin á leið í afmælið, hugsaði ég.

 

Einar, gamli strætóvinur minn og jafnaldri okkar Madonnu, mætti klukkan þrjú. Hafði tekið strætó frá Mjódd, setið í sólinni á Langasandi, eða farið í sjósund og mundi ekki mætingartímann. Ég var á nærbuxunum með klósettburstann í annarri og ryksuguna í hinni ... nei, djók, en ég var nú samt að setja nýsamanbrotin föt ofan í skúffu og var berhandleggjuð. Einar hefur marga fjöruna sopið, svo hann kveinkaði sér ekki yfir því. En hljóp samt út og kvaðst ætla að sóla sig utandyra til fjögur.

 

Hluti fallegu gestannaUm fjögurleytið mátti sjá múg og margmenni streyma að - þrátt fyrir algjörlega misheppnað afmælis-fésbókarboðskort ... en ég rak samt augun í nokkra sem fengu ekki boð en mættu samt, sem var æðislegt. Það var brjálæðislega fjölmennt í afmælinu 2018 og þá sendi ég ekkert boð. Einhverjir létu gabba sig á Fiskidaginn í gær, aðrir fóru á Hvanneyri (en komu samt á heimleiðinni), enn aðrir festust í Gleðigöngunni ... svo ég er alsæl með mætinguna, miðað við diskafjöldann komu hátt í fimmtíu. Ég er orðin svo þroskuð að ég er hætt að telja, fann heldur ekki gestabókina. 

Núorðið vita allir af antíkskúrnum hér á Akranesi, fyrir aftan spítalann. Kristbjörg sendi mér mynd af hljómplötu í gær og textann: „Er það þessi?“ Hjartað fór á fullt, gat það verið? Jú, þetta var Upplyfting og lagið Kveðjustund sem fyrirfinnst ekki á neinum veitum eða YouTube því annar söngvari, vel syngjandi kona vissulega, hafði verið fengin til að syngja það í CD-útgáfunni. Ég hafði sungið þetta fyrir Kristbjörgu fyrir hálfum mánuði í skúrnum: Ég hef aldrei áður elskað nokkurn eins og þig, ég hef aldrei áður upplifað, svona mikla sælu, svona mikla ást! lag sem svo margir elskuðu (elska) en voru búnir að gleyma eftir innrás geisladiskanna. 

 

Igor afmælisbarnÞetta lag var í uppáhaldi á níunda áratugnum og þrjóskan í mér magnaðist bara með árunum, ég skyldi finna það. Ég fékk það einu sinni spilað á Rás 2 en þá var Hulda Geirsdóttir með yndislegan þátt frá miðnætti til eitt ... og ég hlustaði oft þótt ég þyrfti að vakna um sexleytið (til að ná strætó nógu snemma til að vera komin í vinnuna í Garðabæ klukkan átta), eða eftir fimm tíma. Akkúrat kvöldið þegar hún spilaði það hafði ég sofnað snemma ... búin á því. Hún hafði nennt að skottast á tónlistardeildina og sækja hljómplötuna sjálfa með upprunalega laginu, og skella því inn í kerfið hjá RÚV. En ég fékk aldrei að heyra það aftur. Þorði ekki að biðja gæana sem unnu áður með mér á X-inu (og ég á Aðalstöðinni á neðri hæðinni), nú á Rás 2, um að spila það því þeir héldu að væri kúl og hlustaði bara á Wu Tang Clan, efast um að þeir viti hvað upplyfting er nema í tengslum við tækjasal eða djamm. Það er hægt að vera kúl og hlusta á WTC OG Upplyftingu, er það ekki? Jú, ég fékk þessa plötu í afmælisgjöf í gær og þá uppgötvaði ég að enginn plötuspilari er til á heimilinu, ég gaf þann gamla fyrir ansi mörgum árum (og nánast allar plöturnar mínar, geymdi King Crimson og slíkt) því ég þyrfti aldrei framar á plötuspilara að halda. Mér skilst að ódýrir og góðir slíkir fáist núorðið.

 

Mynd: Hinn úkraínski Igor, eins árs í gær, mætti auðvitað. 

 

Jú, gestum var vissulega bannað að færa gjafir og ég atyrti einn gestinn sem ætlaði þá að taka gjöfina til baka en ég hélt svo fast að mér tókst að halda henni. Ég fékk plötuna, ég fékk æðislega vatnslitamynd, smávegis beilís og freyðivín (í smáflöskum), handáburð, ólífuolíu, súkkulaði, ost, kex, klúta, púða og ýmsar æðislegar dásemdir sem við stráksi orguðum yfir, snekkjan sem vinir mínir höfðu safnað fyrir handa mér, var líka æði en það verður dýrt að borga hafnargjöldin, hugsa ég.

Ég kláraði eldhúsið (enn í íbúfenvímu) og fór svo í gjafaupptakelsi með drengnum um leið og ég nýtti mér tæknina og skellti hinsegin dagskrá RÚV á endursýningu. Þar sáum við Hörð okkar syngja og fleira skemmtilegt. Gat samt ekki klárað að horfa sökum þreytu. Til að gera langa sögu stutta vaknaði ég í morgun þegar klukkan var níu eitthvað (9.57) sem var tveimur tímum á undan áætlun. 

MadonnaAldurinn ... já. Ég viðurkenni að besta ráðið til að vera eilíflega ungleg er að leyfa ekki neinum að taka myndir af mér (ekkert að þakka fyrir ráðið).

 

Madonna (16. ágúst) sleppur ekki eins vel frá ljósmyndurum og finnst hún sennilega þurfa að taka til sinna ráða til að virðast yngri ... til að verða ekki útskrifuð úr lífinu eins og margar okkar. Frægum konum leyfist síður að eldast en öðrum. Ég sá fólk missa sig á fésbók yfir hinni dásamlegu Goldie Hawn, eða útliti hennar, hún er að verða 78 ára, eins og það sé skylda hennar að líta út eins og hún gerði í Private Benjamin, þeirri frábæru bíómynd sem væri gaman að sjá aftur, áratugum seinna. Skyldi hún hafa elst vel? Sumar gamlar bækur sem ég byrja á hlusta á á Storytel get ég ekki hlustað á lengi, gefst ég upp á þeim, þoli ekki t.d. hugsunarganginn og misréttið sem ríkti og þótti eðlilegt. Get það ekki ... 

 

Þessi mynd gæti svo sem verið einstaklega slæm af Madonnu, það hlýtur að koma fyrir hana eins og aðra að myndast illa.

En aldur skiptir auðvitað ekki máli nema maður sé ostur og útlit ekki máli nema maður sé hestur, reyni ég að sannfæra mig um.

 

Eftir 50Gallinn við að nota hina aðferðina mína til að vera ungleg, eða gegn hrukkum, er stærra fatanúmer. Svo þegar maður reynir að gera eitthvað í þessu (annað en að ganga, ég hata göngur) mótmælir bakið. Ég þarf samt eitthvað að gera. Þeim fjölgar bara sjokkunum. Nýlega sótti ég um inngöngu í fésbókarhópinn Rúllum yfir heiminn (rule the world, hélt ég) því mig langar til að breyta heiminum í betri stað. Svo var þetta bara styrkjandi og eflandi huggunarhópur fyrir frekar kringlótt fólk OG ÉG FÉKK INNGÖNGU í hvelli, það án nokkurs vesens. Oft þarf maður að sverja eitthvað til að komast inn, lofa að auglýsa ekkert, ekki setja haturspósta og slíkt en ekki þarna. Ég var móðgandi velkomin.  

 

VítiJæja, ég ætti sennilega að fara að hringja í vini og vandamenn, það þarf að klára rækjubrauðtertuna, jarðarberjamarenstertuna og eitthvað smávegis annað en sennilega fer svo afgangurinn í fiðraða og fleyga vini mína á morgun eða hinn. Einhver lagði frá sér brauðtertusneið á pappadiski, á svalahandriðið í gær. Jónatan IX var ekki lengi að ræna henni, kom eins og orrustuflugvél og greip hana í gogginn. Mávarnir svifu spenntir (og svangir) yfir okkur og aðrir fuglar fylgdust með af hliðarlínunni.

Það þarf að fita mávana áður en þeir fljúga suður á bóginn. Varla gaman að fljúga til Tene á fastandi maga. En ef þessi hryllings-Vítis-hiti heldur áfram finna þeir kannski ekki fyrir neinni þörf til að yfirgefa landið. 


Flókin nöfn á jarðeldum og furðusaga af fésbók

NúpshlíðarhálsFerðamenn og kannski sérstaklega jarðvísindamenn frá útlöndum hljóta að verða smám saman stressaðari þegar þeir heimsækja Ísland, grunar mig, því það er ekkert eðlilegt sem þetta fólk þarf að læra að segja til að vera fólk með fólki. Eyjafjallajökull er náttúrlega snilld til að pína fólk, ekki minna frábært er Fagradalsfjallseldar og nú það nýjasta, ef spár jarðvísindafólks ganga eftir: Núpshlíðarhálseldar. Prófið að segja það hratt nokkrum sinnum. Það kom frétt í gær um að næsta gos gæti orðið þar (þau færast víst í austur með tímanum) en ég kom ekki til Þingvalla fyrr en á þrítugsafmælinu mínu og vissi varla hvar þeir voru ... og hef aldrei heyrt nafnið Núpshlíðarháls, þar sem gýs næst, kannski. Ég ætla sannarlega ekki að skammast í stressuðu, illa launuðu, ofhlöðnu verkefnum fjölmiðlafólki en svona landafræðifávitar eins og ég þurfa alltaf KORT við fréttina. Vissulega hægt að gúgla en kommon, ég er enn beisk síðan bloggið mitt var eini netmiðillinn sem birti mynd af eldgamalli tertusneið úr brúðkaupi Karls og Díönu (1981) þegar kom frétt um að brúðkaupsgestur hefði ekki borðað sína, heldur ákveðið að geyma hana og selja löngu síðar. Fréttin birtist en engin mynd af tertusneiðinni sem var þó mjög svo finnanleg fyrir þá sem nenntu að leita. Sjá nöldur yfir þessu í þónokkrum bloggfærslum.

 

Annað slagið kenni ég útlendingum íslensku á námskeiðum og ég hika ekki við að pína frábæru nemendur mína til að bera fram viðbjóðslega erfið orð. Enginn þeirra þorir að segja að íslenskan sé erfið, því þá býðst ég til að kenna þeim að telja upp í hundrað á dönsku (tala dönskuna með mjög ýktum hreim, kartöfluíkoki) ... eða segi eitthvað á borð við: Minä rakastan sinua (ég elska þig) á finnsku og ber það fram svo harkalega að nemendur mínir verða óttalegnir og halda að finnska sé flóknari en hún er. Íslenska sem sagt bara pís of keik og þeir heppnir að fá að læra hana. Alltaf að taka fólk á sálfræðinni. 

Merkilegt hvað þau geta, áhugasöm og þrá ekkert heitar en að fá vinnu og skapa sér betra líf. Og okkur vantar svooo fólk. Það fluttu 17 þúsund útlendingar hingað í fyrra (vissulega frá réttum löndum og með réttan húðlit) til að vinna, mest við túrisma, skilst mér. Svo hef ég orðið vör við að Rúmenum er að fjölga. Strætóbílstjórinn minn á miðvikudagsmorgun er Rúmeni og líka maðurinn sem kom með Eldum rétt-kassann á mánudaginn, svo hef ég kynnst aðeins rúmenskri konu sem býr hér. Ég er næstum farin að efast um að fólkið sem streymir þaðan hafi allt saman tengsl við blóðsugur - en ... Drakúlakastalinn er nú samt í Rúmeníu og það segir sína sögu!  

 

Mosi og frænkaÉg fæ nokkra nágranna í afmælið mitt á morgun, fleiri en oft áður. Einn úr minni blokk, held ég. Alla vega tvær konur úr Nýju blokkinni við hliðina; hundahvíslarann og svo aðra sem ég kynntist bara á röltinu og í strætó, frá Sýrlandi. Þriðji granninn er í blokk í sjónfæri frá Himnaríki, hún er frá Úkraínu og var svo ótrúlega eitthvað við hæfi með því að eignast barn 12. ágúst fyrir ári og mun taka drenginn með sér, sá á eftir að ræna athyglinni frá hinu afmælisbarninu ... Sú frá Sýrlandi á þrjú ótrúlega kurteis og indæl börn sem mæta vonandi líka. Hún er orðin ansi fær í íslensku eftir að hafa búið hér og unnið í tæpt ár en börn hennar enn betri. Hún sagði um daginn að veðrið (hitamolluógeðsveðurfyrirbrigðið) sem hefur ríkt undanfarið væri eins og ljúft vor í heimalandi hennar. Ég er að kafna í þessu d.a.h. (íslenskt blót) "vori", það voru 19 gráður á Akranesi í dag og LOGN!!! Sem betur fer fékk ég dásamlega frænku til að aðstoða mig við ryksugun og slíkt, annars hefði ég hlaupið út í búð og keypt viftu til að hafa um hálsinn. Frænkukrúttið var ansi smámunasöm sem er gífurlegur kostur í þrifum, hún sá fjögur kattahár á efsta teppinu (værðarvoð) í teppakörfunni og ég náði mynd af henni við að fjarlægja þau, Mosi (t.v.) starði á hana í forundran, eins og ég. Sjá mynd.

Jæja, Himnaríki er að verða ansi fínt (tandurhreint), nánast ekkert eftir að gera. Ég stalst í nokkrar rommkúlur áðan svo ég er ekki alveg allsgáð, er því að hugsa um að skella mér upp í rúm og lesa og slaka á fyrir læti morgundagsins. Maður verður ekki rúmlega fimmtugur á hverjum degi! Örlítill frágangur og að brjóta saman þvott bíður bara til morguns. Svona getur nú dálítið romm gert mann kærulausan.

- - - - - - - - - 

P.s. Ég mun seint vorkenna "vesalings" útgerðarmanninum með eldspýturnar sem var ekki til í að "tapa" 57 milljónum með því að gera það eina rétta og hætta við að kaupa heilt hús á þrjár milljónir. Megi draugagangur halda fyrir honum vöku allar nætur, myndi ég segja ef ég tryði á drauga. Ég er ekki lögmaður en ég trúi því varla að þetta hafi verið löglegt.

Þessi saga sem tengist útgerðarmanninum með eldspýturnar beint, gengur á feisbúkk ... svona fer kannski útburður fram þegar um fatlaðan, auðblekktan einstakling er að ræða til að Fréttamynd ársins verði ekki til. 

„Hann (pólski, fatlaði maðurinn í Keflavík) var ekki borinn út 3. ágúst eins og sagt var í fréttum. Í gærmorgun (9. ág) kom lögreglan og handtók föðurinn á heimilinu og fór með hann. Síðan kom lögreglan aftur og bauð unga fatlaða manninum út í bíl, hann hélt að hann væri að fara í bíltúr með lögreglunni, en þegar hann kom heim til sín aftur var búið að skipta um skrár í húsinu og hann á götunni. Þetta hefur ekki komið í fréttum og þarna eru greinilega brögð í tafli.“    


Bara eins og í bíómynd ...

Lokuð göngBæjarferðin gekk bærilega í gær, þótt hún tæki marga, marga klukkutíma (6 og hálfan). Lögðum af stað fyrir allar aldir frá Akranesi, 9.57, og skriðum aftur heim undir hálffimm, og það fyrir um klukkutíma langt erindi. Það er að verða vikulegur baggi á ferðalöngum að bíða í biðröð beggja megin við Hvalfjarðargöng vegna bilaðra bíla. Sem segir mér að við ökum um á bíldruslum, frekar en að það þurfi fleiri fokdýr göng. Ég ók í gegn nánast daglega í tíu ár og jú, vissulega um verslunarmannahelgina var bíll við bíl á Kjalarnesi þegar ég var á leið heim með strætó og allt gekk voða hægt. Stundum grunar mig að endalausir "bilaðir bílar" séu leið einhverra verktaka (eða ónefnds ráðherra) til að fara að drífa í göngum nr. 2 sem við þurfum svo rosalega á að halda, fremur en t.d. Vestfirðingar og V-Húnvetningar á almennilegum vegum.

Mynd: Við lentum í svona í gær með strætó, biðum í alla vega 20 mínútur. Pirrað fólk á Kjalarnesi skammaðist svo í bílstjóranum. „Þú gætir kannski reynt að vera á réttum tíma!“ sagði einn. Góð upplýsingagjöf myndi bæta mikið, hvort sem væri frá Strætó bs eða kannski frekar Vegagerðinni, jafnvel löggunni?  

 

Við borðuðum dásamlegan hádegisverð á arabíska staðnum Söru, Sara-kebab, í Mjódd, náðum að fá eftirmat í bakaríinu en tíminn eftir erindið fór svolítið í að sitja úti og bíða ... eftir strætó heim. Hvar ertu, Akraborg, þegar ég þarfnast þín?

 

Hlaupið með úlfumÉg náði að skila verkefninu (sem lá meira á en ég hélt) undir átta í gærkvöldi en mér hafði tekist að nota næstum hálfan þann tíma sem við stráksi vörðum í bænum í gær í yfirlestur. Aðallega þó í strætó. Mjög hress kona pikkaði í mig á heimleiðinni, hún sat skáhallt fyrir aftan mig, eða hinum megin við ganginn, og vildi endilega vita hvað ég væri að gera með blöð og rauðan penna. „Lesa yfir handrit,“ svaraði ég kurteislega og reyndi af alefli að líta út fyrir að vera ekki í kjaftastuði, enda að vinna. Henni fannst þetta greinilega spennandi og spurði nánar út í þetta og ég svaraði greiðlega. „Vá, þetta er bara eins og í bíómynd,“ sagði hún hrifin og svo fór hún út fljótlega, allt of snemma, eða löngu áður en mér hugkvæmdist að spyrja hana í hvaða mynd eða myndum hún hefði séð prófarkalesara ... mögulega í aðalhlutverki ... kannski í spennumynd. Ef blogglesendur vita, endilega segið mér, mig langar að sjá svoleiðis bíómynd.  Proofreader saves the world ... The very clever proofreader ... kannski get ég gúglað.   

 

Afmælisundirbúningur gengur svona sæmilega, er t.d. að blogga núna ... Ég renni frekar blint í sjóinn varðandi mætingu og verð án efa með allt of mikið af bakkelsi, eins og oftast. Mávarnir og fleiri fuglar í grennd þekkja sína konu og ég hef séð votta fyrir fiðringi hjá þeim, eins og þeir finni á sér hvað nálgast. Þeir hlakka til að fá afganga en fá samt ekki fyrr en ég hef reynt að troða í eins marga og hægt er, þar til svona sirka á mánudaginn kemur, það sem ég get ekki fryst. Þessi fb-síða sem ég stofnaði er ágæt í sjálfu sér, margir búnir að melda sig þar, en næstum jafnmargir ekki búnir að sjá boð mitt, held ég. Vona að þessar elskur lesi bloggið.

Veðrið í dag, engin sól, ogguvindur, ekki of mikill hiti, er draumaafmælisveðrið. En annars ... ég á fjórar viftur. Sú ódýrasta er sko ekki sú versta, gæti verið sú háværasta þó. Ein dásemdarkona sem ég þekki ætlaði að baka smávegis og einnig aðstoða á morgun við að gera Himnaríki gjörsamlega fullkomið liggur nú veik í rúminu. Ég er alla vega búin að taka 600 mg af íbúfeni og spenna á mig bakbeltið, til í allt eftir bloggelsi. Það myndast einhvern veginn aldrei rúst hérna eftir að ég losaði mig við helming búslóðar svo ég hef í raun engar áhyggjur. Kannski aðeins of mikið af bókum ... en það hefur alltaf verið vandamál, dýrlegt og velkomið vandamál. 

 

TjaldsvæðiHversu vel heldur Facebook að hún þekki mig? Ekki bara fésbókin. Ég fæ lítinn frið fyrir megrunar- og hormónapillutillögum á Instagram, eins og og Facebook. Svo allar fösturnar ... og allt það fólk sem segir að föstur og pillur virki ekki, það sé eitthvað allt annað sem næsti efast um og veit betur en allt hitt fólkið. En í gær otaði Facebook að mér hópum sem ég hefði sennilega áhuga á, þeir tveir fyrstu komu mér á óvart. Annar heitir Tjaldsvæði - umræðuvettvangur ... þar eru 20 þúsund meðlimir.

 

Ég fór í mitt eina tjaldferðalag þegar ég var 18 ára og það var skelfilegt. Eina daginn sem ekki hellirigndi kom frekar stór, alla vega mjög ógnvekjandi, kónguló inn í tjaldið. Það tók mig rosalega mörg ár að venja mig af kóngulóarhræðslu eftir að hafa alist upp hjá móður sem var tryllt af skelfingu við kóngulær eftir að hafa séð þrívíddarbíómynd árið 1944, jú, hún var tíu ára, minnir mig. Glerhörð vinkona kom eitt sinn og færði píanóið heima eftir að pínuoggulítil en hraðskreið kónguló hafði ært mömmu úr hræðslu og okkur grislingana hennar í leiðinni. Þarna 18 ára var ég ögn nær því að læknast, eftir ársbúsetu í London, en ekki nærri nóg. 

Svo svaf ég eina nótt, kannski 15 árum síðar, í tjaldi - svaf er líklega ofmælt, því þetta var hræðileg reynsla, glerhart undirlag (ég sem vil sofa á harðri dýnu), þúfur alls staðar og viðbjóðslega kalt. Verður ekki endurtekið. Þetta gæti mögulega verið umræðuhópur fólks sem á ekki bara tjald, heldur þeirra sem eiga tjaldvagna eða húsbíla. Ég á hvorugt. Hef ekki einu sinni sett orðið tjald eða tjaldsvæði inn á alheimsnetið, svo ég muni eftir, ekki frekar en hormóna-eitthvað en ég hef dirfst að horfa á eitthvað um föstur og netið grípur allt.

Mig langar að segja eitthvað orð, eins og fluguhnýtingar, eða barnavagn ... hátt og snjallt nálægt símanum mínum. Gaman að vita hvort slíkar auglýsingar fari þá að birtast í mínum miðlum. Hef heyrt að það gerist. En þessir hópar sem ég fékk boð um eru ekki neinu samræmi við nokkuð í mínu lífi - nema spádómsgáfa tengist þessu. Þá kýs ég frekar húsbíl eða tjaldvagn, bara alls ekki tjald. 

Hinn hópurinn var eiginlega enn fjarri allri skynsemi miðað við tilveruna í Himnaríki. Hann heitir Women who run with the wolves. Konur sem hlaupa með úlfunum. Sjá mynd hér ofar. Þar eru meðlimir 76 þúsund talsins! Úlfar eru æði ... en að hlaupa! Ég hata að ganga, hvað þá hlaupa! Það er skiljanlegra að bjóða mér að fara í tjaldsvæðahópinn ... ég átti ábatasöm viðskipti eitt sumarið við pensilín-díler á tjaldstæðinu í Stykkishólmi. En þetta úlfadæmi gæti auðvitað tengst einhverju allt öðru en hlaupum með úlfum.   


Að opinbera sum leyndarmál óvart

FúlirÞrumuveður reið yfir í dag en fengu Skagamenn að njóta þess? Heldur betur ekki. Kannski heyrðist ekki í þrumum fyrir viftunum sem snúast í flestum herbergjum hér, það gæti auðvitað verið.

Það verður smám saman ægifínt í Himnaríki, ekki eins heimilislegt og var eftir bakveikikastið þegar ég reri úr mér bakheilsuna með látum. Nú þarf rafvirkinn að fara að koma og sækja kassann með krimmmunum, lesefni næsta vetrar. Ég hef ekki sömu þörf og áður til að eiga bækur, alltaf hægt að finna eitthvað á Storytel ef mann vantar og vera þá ekki lengur með troðfullt heimili af bókum sem á kannski að lesa aftur seinna. Svo eru náttúrlega líka til bókasöfn.

 

MYND I: Minning frá því þegar Keli og Krummi fóru í fýlu, yfir kosningaúrslitum, minnir mig. Í dag er alþjóðlegur dagur katta ... og ég gleymdi að kaupa rjóma og rækjur, því er við hæfi að birta þessa sirka tíu ára gömlu mynd.

 

Við stráksi förum til Reykjavíkur í vikunni, mæting á staðinn er klukkan eitt og við erum búin kannski hálfþrjú. Strætó fer héðan kl. 9.57, komutími í Mjódd 50 mín. síðar, næsti fer ekki fyrr en eftir hádegi. Heimferð: Fyrsti vagn sem hentar okkur til baka fer kl. 15.29 (gæti verið verra) og við komin heim um 16.20. Næstum sex og hálfur tími ... og verkefni sem ég hélt að ég hefði nægan tíma til að klára en hef ekki, komst að því í dag, verður tekið með í strætó og lesið yfir þar og víðar, ef ég verð ekki búin með það áður. Sem betur fer þurfum við ekki að fara út fyrir Mjóddina og ef þið sjáið manneskju með blaðabunka í annarri og rauðan penna í hinni, gangandi þar um - er það ég. Stundum væri gott að eiga bíl til að spara tíma, en oftast alls ekki.

 

Ég viðurkenni að það óx mér í augum að panta afmælistertu með áletrun nú í ár eins og síðustu 35 árin eða svo, bakaríið hér sendir ekki heim. Þannig að núna mun enginn vita hvað ég verð gömul. Það er ekki jafnauðvelt og margur heldur að komast til að sækja á svona risastórum degi þar sem allt verður að ganga upp. Allavega mikið aukastress og þegar ég gerði það síðast (afmæli stráksa) voru komnir snemm-gestir sem biðu brjálaðir á bílastæðinu. 

 

50 áraHörður, vinur minn, hringdi í gær. Hann ætlar af öllum kröftum og mætti að reyna að koma í afmælið. Stráksi komst inn í símtalið og ákvað að segja eitthvað eitursterkt til að gulltryggja að Hörður kæmi. 

„Gurrí er búin að panta svaka góðar tertur,“ sagði hann, símtalið var í hátalara. 

„Usss, drengur,“ urraði ég, „bannað að segja frá ómyndarskap mínum, þetta heitir að opinbera leyndarmál heimilisins, viltu kannski svið í kvöldmat?

Stráksi hljóp öskrandi í burtu (leikræn þjáning, hann vissi að ég var að grínast með sviðin) og mér tókst að sannfæra Hörð um að honum hefði misheyrst illilega, auðvitað myndi ég baka hverja einustu ögn frá grunni. Majónesið í brauðtertunum yrði líka gert frá grunni, úr majónestrénu sem ég hef ræktað á svölunum í allt sumar og allt annað eftir því. 

 

Sennilega sendi ég um 150 manns boð í þennan afmælishóp minn á feisbúkk, eins og oftast áður, og oft koma í kringum 50. Ég sé að aðeins um 100 hafa áttað sig og gengið í hópinn (já, ég veit að ég hefði frekar átt að stofna viðburð). Ég mun sennilega móðga um það bil 50 manns heiftarlega, með þeim sem hafa feisbúkkið sitt stillt þannig að það er ekki hægt að bjóða þeim í hóp. Eins og önnur sýrlenska grannkonan, Hanna mín, Ásta í bókasafninu og MIKLU FLEIRI, svo sést mér örugglega yfir nöfn - svo ég bið ykkur bara innilega afsökunar sem ... farið ekki nógu oft inn á feisbúkkið ykkar eða eruð með lokað fyrir hópaboð ... Ég reyndi. 

 

MYND 2: Á laugardaginn verður alþjóðlegur dagur unga fólksins sem skýrir af hverju mér finnst ég stundum ekki árinu eldri en 25 ára. Það var ógeðslega fúlt að bakarinn skyldi ekki heyra betur en þetta þegar ég pantaði tertuna í fimmtugsafmælið mitt.


Umræðuhefð og kannski misskilið grín

Þekkir ekki sáluDrengurinn kominn heim úr helgargistingu og búinn að finna gleraugun mín. Það tók þrjár sekúndur, hann tafðist í tvær við að kíkja undir rúmið, þar sem þau voru ekki, heldur nánast beint fyrir framan hann. Hann hló, eins og mig grunaði. Hann fær svið í matinn í kvöld en það er eitthvað sem okkur finnst báðum frekar ókræsilegur matur. Ég borða bara eitthvað sjúklega gott á meðan. Á þessu heimili hlær maður ekki að óförum þess sem eldar matinn ... múahaha. Eldum rétt kom áðan svo við fáum reyndar ansi hreint girnilegan fisk í kvöld, þar slapp hann fyrir horn. 

 

Umræðan á netinu (sjá mynd) getur verið svo fáránleg, oft hatursfull. Yfirleitt reyni ég að skipta mér sem minnst af og treysti mér meira að segja ekki til að lesa allt sem fólk skrifar ... Gat þó ekki orða bundist í gær yfir einhverju bulli um múslima, svo ég svaraði út frá minni reynslu ... Undarlegt svar kom frá manneskju sem hefur í stað myndar af sjálfum sér, prófílmynd af Mo Salah, fótboltasnillingi hjá Liverpool, á Facebook-síðu sinni ... það vill svo til að Mo Salah er múslimi (frá Egyptalandi. Kannski átti þetta að vera grín, einhver setti hláturkall á svar hans.

 

 

Jónatan og MosiEitt sinn skrifaði „freki karlinn“ (á Sigló) grein fuglum til varnar og eitthvað ljótt um ketti, og ég skrifaði blogg til að reyna að leiðrétta rangfærslur hans, notaði háð sem mér finnst sterkara en reiði. Einhver hélt samt að ég hefði setið froðufellandi af reiði út í hann og úthúðað honum, svo grínið mitt var sennilega ansi mislukkað eða misskilið.

 

Það þarf alltaf að skella öllum í hópa. Fólk sem á ketti getur varla elskað hunda ... jú, ég dýrka hunda ... fólk sem á ketti hlýtur að hata fugla, alla vega halda með köttum gegn fuglum ... neibbs, nágrannafuglarnir eru vinir mínir og þekkja mig í sjón (ég kem oft út með mat handa þeim), ég er með inniketti og er því mjög fylgjandi að kettir séu lokaðir inni á meðan ungar komast á legg - en ég þoli ekki freka karlinn (kerlinguna) sem hikar ekki við að beita rangfærslum til að sanna mál sitt. Ég veit að það er ekki hægt að breyta skoðunum annarra með því að svara þeim á Facebook, jafnvel þótt maður hafi sannanir fyrir máli sínu.

 

Blerssuð blóminHmmm, ég sit hérna við tölvuna og nöldra þegar ég á að vera gera fínt í Himnaríki. Hvað myndi Freud segja við því? Helgin átti að fara í það og nú er bara hálfur dagur eftir. Komin með vinnumanninn heim og við erum bara að tjilla eins og unglingar. Það væri kannski snjallt að skella góðri tónlist á og drífa sig í stuð, taka íbúfen, skella á sig bakbeltinu, þvo tvær vélar, ganga frá hlutum á rétta staði, ryksuga (vinnumaðurinn), reyna að leggja saman róðravélina og ýta henni í kósíhornið. Gæti þó þurft að fá Guðna í Einarsbúð til að koma með vörurnar sem ég þarf bráðum að panta, hann kann á hana, gerði eitt handtak við hana og lagaði þegar hún var nýkomin til mín og virkaði ekki, svo ég treysti varla nokkrum öðrum. Jú, hann var að koma með vörur. Get ekki lofað þessa kaupmannsfjölskyldu nógsamlega.

 

Raunir mínar á tölvusviðinu eru enn í sprúðlandi stuði ... en ég gerði tilraun í gær til að stofna viðburð á Facebook til að bjóða í afmælið mitt. Leitaði til nokkurra til að vita hvernig ætti að gera það og fékk fín svör. Sé að bara hluti hefur séð boðið, fólk þarf nefnilega að ganga í hópinn sem ég stofnaði til að sjá dýrðina. Mér fannst skrítið að finna ekki tímasetningar til að skella inn og heldur hvergi möguleika fólks á að segja hvort það komi, sé áhugasamt eða nenni alls ekki. Það er eitthvað annað dæmi á feisbúkk sem er betra. Og af því að síðustu ár hafa verið svo spes, bjó ég ekki til viðburði eða hópa vegna afmælis, það var fljótlegt að hringja í litlu jólakúluna sem vissi svo sem öll fyrir hvenær borgaði sig að fara upp á Skaga í tertur og eðalkaffi. Og þau sem færa blóm, vita hvaða skelfilegu örlög bíða þeirra, er það ekki? Neðsta myndin var tekin í ágúst eitt árið.     


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 167
  • Sl. sólarhring: 279
  • Sl. viku: 1709
  • Frá upphafi: 1460642

Annað

  • Innlit í dag: 154
  • Innlit sl. viku: 1378
  • Gestir í dag: 151
  • IP-tölur í dag: 151

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Ágúst 2023
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband