Fölblá eins og undanrenna

Skert þjónustaÓvænt og góð heimsókn í dag, vinkona á leið að norðan kíkti í kaffi. Ég gat borið fram snobb-veitingarnar, fína, franska brie-ostinn, sulturnar og óvenjulega kexið. Það liggur ekki lengur undir skemmdum, til að gera langa sögu stutta. Umræðuefni okkar eru iðulega fjölbreytileg og í dag töluðum við meðal annars um skerta þjónustu og ótrúlega eyðslu sums staðar hjá hinu opinbera (eins og ný ráðuneyti fjórða hvert ár sem er ógeðslega dýrt).

Það eru heilu verslanirnar sem bjóða aðeins upp á sjálfsafgreiðslu, WH-Smith á flugvellinum í Manchester og Kostur í Garðabæ, svo ég nefni eitthvað sem ég hef reynslu af sjálf. Veit að á veitingastað í 105 Rvík eru engir matseðlar nema þeir sem maður skannar í símann sinn og pantar svo matinn í gegnum símann. Tækni er æðisleg en stundum finnst mér hún gagnast betur fyrirtækjum / stofnunum en viðskiptavinunum. Ég kenni covid-ástandinu um margt, ekki allt. Sum fyrirtæki eru enn að rétta úr sér síðan þá og vonandi sjá þau sér fært að bæta þjónustuna innan tíðar. 

 

Vinkonan fór með hópi fólks til Ástralíu eitt sinn og á heimleið, á flugvellinum ytra, var enga þjónustu að fá, þau áttu að skrá sig rafrænt en tölvan fann ekki nokkra leið til Íslands sem þó hefði átt að vera í kerfinu. Alls staðar er til gott fólk samt, ekki síst í Ástralíu, og það voru tvær manneskjur sem sáu til þess að hópurinn og farangurinn færu samferða þessa þrjá leggi til að komast heim. Það var tölvuséní í hópnum en það var samt ekki mögulegt að bóka þetta rafrænt. Það er líka sérdeilis illa farið með marga á Facebook því róbótar leita að glæpsamlegum færslum en eru mataðir frekar fáránlega svo t.d. maður sem reyndi að pósta gamalli æfingu af tónleikum sem hann stjórnaði fékk skammir fyrir það og myndbandið tekið út, því æfingin var of lík tónleikunum sjálfum sem hann hafði áður birt. Það vantar sárlega fólk þegar eitthvað svona kemur upp, ekki bara hafa gervigreind eða róbóta. Áhrifavaldi, vinsælli konu, var hent út af Instagram fyrir að þykjast vera hún sjálf. Þótt hún segði: Já, en þetta er ég, var öllu hennar efni eytt ... róbótar hata mannfólkið og reyna að ná völdum, held ég. Einu sinni las ég bók eftir Dean Koontz sem fjallaði um tölvu sem elskaði konu og náði að loka hana inni í húsi og einangra hana, og þráði að eignast með henni afkvæmi. Mögulega byggð á sannsögulegu.  

 

Hótel GlymurEinu sinni vann ég á Bifröst í nokkra mánuði, skömmu áður en ég fór sem au pair til London. Nú fer þar flóttafólk í gegn, mestmegnis frá Úkraínu, held ég. Hef aldrei unnið hjá Hótel Glym í Hvalfirði en nú hefur það verið tekið á leigu undir flóttafólk. Einhverjir virðast halda að það verði dekur og lúxus í gangi (líklegt ... not) og spyrja: Hvað um okkar fólk? Ég sá eitt sinn viðtal við einhvern hjá Reykjavíkurborg sem sagði að alla vega einn og hálfur milljarður (eða 1,8) færi í þann málaflokk, eða "okkar fólk", á hverju ári. Það er ýmislegt gert, bæði hið opinbera sem og góðgerðasamtök sem gera eitthvað. Vinkonu minni var nýlega ráðlagt að kaupa ekki íbúð á vissum stað í vissu (vinsælu) hverfi því fyrir aftan fjölbýlishúsið sem hún hafði augastað á væri lítið fjölbýli þar sem byggi ógæfufólk sem verið væri að hjálpa, vesenið væri þó ekki íbúarnir þar, heldur utanaðkomandi fólk sem vildi heimsækja íbúana og það ylli svo miklu ónæði og löggan reglulegur gestur fyrir utan. Fram að því hafði hún haldið að ekkert væri gert fyrir þetta fólk. Borgin ber ein kostnaðinn því "okkar fólk", sama hvaðan það kemur af landinu, vill vera í Reykjavík.

 

ShakespeareMunið þið ekki þegar var verið að bera saman lúxuslíf fanga og hroðalegt líf gamla fólksins, ótrúlegt því aðbúnaður aldraðra (sem er vissulega misjafn) tengist aðbúnaði fanga ekki neitt og hver vill í alvöru vera lokaður inni? Og munið þið þegar öryrkjar voru vondi karlinn sem upp til hópa svindlaði á kerfinu og þess vegna var ekkert hægt að gera fyrir fátæka og aldraða ... Mamma sagði mér frá því að þegar hjúkrunarfræðingar voru í kjarabaráttu voru kjör þeirra í sífellu borin saman við aðra hópa, t.d. sjúkraliða, og öfugt, því það er svo snjallt að etja hópum saman og það dreifir athyglinni frá aðalatriðunum. Þótt við myndum fleygja þessum 15-20 flóttamönnum úr landi (nýju útlendingalögin) eftir að hafa haldið þeim uppi ansi lengi því þau fengu ekki leyfi til að vinna, er ekki nokkur möguleiki á því að "okkar fólk" græði eitthvað á því. Ég skil ekki af hverju svona margir halda það, stjórnvöld hljóta að vera rosalega sátt því það dregur athyglina frá þeim og því sem þau eiga að gera.

 

Þegar ég var lasin fyrr í sumar kom ein sýrlenska nágrannakona mín með kvöldmat handa mér (stráksi í helgarfríi frá mér) sem maðurinn hennar hafði eldað. Ein úkraínska grannkonan passar kettina mína (fyrri kisupassarinn, elsku Hildur mín, dirfðist að flytja úr húsinu) ef ég gisti lengur en eina nótt í bænum og hún býður mér iðulega bílfar í búðir, hún fékk undanþágu, eins og landar hennar, og fær að vinna, og það breytir öllu.

 

Dásemdarvinkonan sem kom í dag hvetur mig af öllu hjarta til að flytja í Kópavog, þar sé gott að búa. Það er eins og ég hafi heyrt það áður ... Við hötum báðar að fara út að ganga en sammæltumst um að ef ég fyndi góða íbúð í Kópavogi, þegar/ef ég tími að yfirgefa Himnaríki, myndum við fara daglega saman í gönguferð. Fyrst í fimm mínútur á dag og jafnvel enda í sjö mínútum eftir fyrsta árið sem væri bara stórkostlegt. Það þaggar niður í heilsusamlegum vinum okkar og ættingjum, og við hættum kannski að vera á litinn eins og undanrenna.    

 

Séð á Facebook:

"Hafið þið heyrt um lesblinda galdramanninn vestur á Ströndum sem seldi Snata sál sína?"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 167
  • Sl. sólarhring: 279
  • Sl. viku: 1709
  • Frá upphafi: 1460642

Annað

  • Innlit í dag: 154
  • Innlit sl. viku: 1378
  • Gestir í dag: 151
  • IP-tölur í dag: 151

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband