Kaja kvödd og hætturnar utandyra

Hjá elsku Kaju okkarHádeginu var vel varið hjá Kaju sem er verslun og kaffihús og ... hætti rekstri í dag sem er sorglegt. Framleiðir áfram hollustu og dásemdir sem verða til sölu í góðum búðum. Ég væri mun hollari og mögulega orðin vegan ef væri ekki svona mikið af þess konar mat með hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum. Þetta síðasta, d og r, er mögulega matvendni en hitt tengist ofnæmi. Lífið er of stutt til að borða vondan mat svo ... jamm. Get reyndar borðað marsipan (úr möndlum) en alls ekki neitt með möndlumjöli, því miður, svo t.d. sykurlausu eftirréttirnir frá Kristu Ketó eru ekki borðanlegir af mér, botninn á ostakökunum. Þannig að ég held bara áfram að vera frekar holl með Eldum rétt.

Fór með Helgu Olivers sem ég kynntist hjá Rauða krossinum í matarklúbbnum góða, og hún þekkti bókstaflega alla á staðnum. Hún vildi sitja við borð úti. Ég er ótrúlega sveigjanleg og þrátt fyrir hroðalegan hita og fleira ógnvekjandi samþykkti ég það, vantar ekki alltaf D-vítamín í okkur landsmenn? Á 32. sekúndu byrjaði ég að svitna, enda skein sólin fast á mig án nokkurrar miskunnar og markísan hlífði ekkert. Helga sá aumur á mér og þegar inn var komið og við sestar þar, viðurkenndi ég varfærnislega fyrir henni að nú væru aldeilis uppgrip hjá geðillum geitungum, eða sá árstími. Vegna ofurhitans úti og mögulegrar árásar væri ég sérlega fegin því að vera inni. Hún hló og sagðist alltaf sitja úti sjálf og  hefði aldrei séð geitung. Hmmmm, einmitt.

Við fengum okkur ristað súrdeigsbrauð með avókadó og drukkum latte með, hálfan snúð hvor í eftirmat. Spjölluðum af kappi. Stóri gólfsíði glugginn við hlið okkar (reyndar dyr sem eru ekki í notkun) var galopinn og hinum megin við hann, sem sagt úti, sátu tvær ungar konur sem létu sólina ekki angra sig. Skyndilega upphófust skrækir og síðan kapphlaup upp á líf og dauða við ... haldið ykkur ... geitung í árásarhug. Hann hafði áhuga á vellyktandi veitingum þeirra en hefði pottþétt ekki hikað við að stinga þær í úrillsku sinni. Fyrir nokkrum árum hefði ég fært mig talsvert fjær, ég var hættulega nálægt, en nú horfði ég áhugasöm á flóttann sem heppnaðist farsællega og hugumstóra afgreiðslumanninn sem aðstoðaði við að bjarga veitingum ungu kvennanna inn. Sá grimmi varð eftir úti, hefur eflaust séð annað fórnarlamb í sólinni því hann reyndi ekki að elta konurnar. Mögulega sá hann Moggann þarna á einu borðinu og veit sennilega að upprúlluð dagblöð geta verið bráðdrepandi.

 

KajukaffiStráksi kom og hitti okkur fljótlega eftir hádegi þegar skólinn var búinn og þá drifum við okkur í besta banka í heimi, Íslandsbanka á Akranesi. Eftir að hann varð 18 ára hefur kerfið komið fram við hann eins og alla aðra fullorðna einstaklinga þar sem ekki er svigrúm fyrir neitt á borð við fötlun ... svo rafræn skilríki, væni minn, eða þú færð ekki Heilsuveru eða aðgang að einu eða neinu, þú færð lögfræðihótanir vegna reikninga sem bárust þér ekki því þeir enduðu í rafrænu svartholi. Elsku frábæri bankinn hans bretti bara upp ermar og reddaði málum, breytti stöðu hans mjög til hins betra í tilverunni, hann er alsæll. Hvernig starfsfólkið þarna kemst í peysur á morgnana fyrir vængjum, skil ég ekki. Við fórum líka í Omnis (símar, raftæki og fleira) og drengurinn gaf sjálfum sér fínustu heyrnartól í afmælis- og jólagjöf. Hann gat ekki hugsað sér að bíða til jóla og fá mig til að gefa sér í jólagjöf. Í Omnis hefur tækniblómálfurinn ég fengið mikla aðstoð þegar ég þarf (Davíð frændi harðneitar að flytja á Skagann) við hluti sem ég þarf bara að kunna á nokkurra ára fresti (eins og að skipta um síma) og fullur skilningur ríkir á því. Það er rosalega gott að búa hér á Skaganum, þótt nú sé bara eitt kaffihús eftir, Kallabakarí, sem opnar snemma og lokar snemma, eins og víða í borginni, þar sem verið er að ýta manni út í óreglu (bara barir eru opnir). En sums staðar, eins og á Kaffibarnum, alla vega í gamla daga þegar við hittumst alltaf vinkonurnar eftir vinnu á föstudögum, var hægt að fá súpergott kaffi. Best að tékka á Útgerðinni (bar á Akranesi). Það er ágætt kaffi á Galito (veitingastað) og líka á Vitakaffi hinu nýja (íþróttabar og matsölustaður, á móti Gamla Kaupfélaginu).

Hjá Kaju hittum við Bjössa Lú, Bowie-veggsmálara með svo miklu meiru, og eðlilega barst talið að kaffi. Hann kaupir súpergóðar baunir (m.a. hjá Valeria í Grundarfirði) og brennir þær sjálfur ... app kemur við sögu! Við Helga voru heillaðar. Jenna, konan hans, hefur skrifað heilmikið, var áður viðskiptablaðamaður í London eða New York áður en hún flutti hingað, og skrifaði m.a. bókina sem er fremst á mynd nr. 2, æðisleg bók fyrir erlenda ferðamenn. Frá vinstri: Karen, eða Kaja sjálf, Jenna og Bjössi.         


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 170
  • Sl. sólarhring: 275
  • Sl. viku: 1712
  • Frá upphafi: 1460645

Annað

  • Innlit í dag: 156
  • Innlit sl. viku: 1380
  • Gestir í dag: 153
  • IP-tölur í dag: 153

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband