Hefnd litlu systur og stórhættuleg Meta-gervigreindin

Sjö saman í KaríbaSeinni pakkinn frá Eldum rétt var eldaður áðan og elskan hún Inga neydd til að koma í mat, enda pakkarnir ætlaðir tveimur. Hún kom reyndar alveg sjálfviljug, borðaði nokkuð sterkan tagliatelle-rétt og sagði mér hryllingssögur úr Mall of America, þeim sataníska stað, sem hún neyddist til að fara á fyrir mörgum árum til að kaupa eitthvað sem einn afkomandann vantaði sárlega. Hún var þeirri stund fegnust þegar hún slapp út með eitthvað í poka. Þegar við Hilda skruppum ásamt nokkrum viðhengjum okkar til Orlando (Sjá allt um ævintýri Sjömenninganna í Karíbahafi (sjá mynd af vettvangi, Cozumel í Mexíkó, á leið í dolluna) í virtum fjölmiðlum í desember 2018), gistum við á hóteli með Florida Mall á neðri hæðinni. Svo vel vildi til að yfirleitt var ekki þörf á því að fara nema rétt fram hjá lobbíinu og fara ganginn að mollinu því þar er kaffihús, jólabúð (jólakúlan með mynd af Trump fékkst þar), veitingastaðurinn þar sem Junior, vinur okkar, var að vinna ... og pínkulítil sjoppa sem selur vatn, gos, bjór, tóbak, flensupillur og ávexti, svo fátt sé nefnt.

Vissulega hittum við þarna ýmsar dásemdir alveg óvænt, í mollinu sko, eins og mann sem vann með mér í Ísfélaginu í Eyjum fyrir löngu, annan sem er elsti sonur tvíburasystur mömmu og við sjáum hann allt of sjaldan, eins og aðra ættingja, en það eru alltaf fagnaðarfundir samt.

 

Herbergi drengsaFrábæru karlarnir komu með rúmið upp úr kl. 18, skrúfuðu fyrst festingu undir (sem var óvænt) og svo rúmlappirnar. Afar kvenlegur hamar sem ég fékk í jólagjöf eitt árið fyrir löngu, með tvenns konar innbyggðum skrúfjárnum í skaftinu virkaði ansi hreint vel, alla vega hamarinn, en ég þurfti að heimsækja einn nágrannann og sníkja stjörnuskrúfjárn. Það var minnsta mál, hann rétti mér veglegt skrúfjárnasafn heimilisins og rúmkarlarnir urðu afskaplega glaðir og verkið gekk miklu hraðar eftir þetta. Rúmið er ansi hreint létt en samt ekkert drasl, fínt fyrir unglingsstrák og suddalega æðislega gott að hafa það létt þegar þarf að flytja það milli sveitarfélaga. Herbergið er orðið súperfínt ... sjá mynd.

Mynd: Rúmið frá Jysk var kannski ódýrt og létt en rúmfötin breyta því í konunglegan bedda, glæsileg sængurfötin njóta sín vel og einnig skiptir lýsingin talsvert miklu máli. Mottuna á gólfinu heklaði ég á mettíma, átta tímum, ljósakrónan fékkst í antíkskúrnum við Heiðarbraut, stóllinn í Húsgagnahöllinni. Ég vona innilega að drengurinn kunni að meta litina í teppinu og herbergið almennt. Ég gerði mitt besta, ekki hægt að krefjast meira af mér.

 

Þegar ég skrapp í bæinn á þriðjudaginn sótti Hilda systir mig. Ég hef oftar en einu sinni vælt og skælt yfir skorti hennar á rokkhjarta og spilun hennar á vissum geisladiski (Vinsælustu lög Íslandssögunnar-eitthvað) og ég hafi heyrt Heyr mína bæn svona 300 sinnum á ferðalagi okkar austur að Höfn og til baka. Var það ekki fyrra? „Blessuð og sæl,“ sagði hún ansi hreint vingjarnlega miðað við illskuna sem hún var í þann veginn að beita mig, skömmu eftir að ég inn í bílinn. Þegar ég var að spenna á mig beltin, sem betur fer búin, ýtti hún á takka í mælaborðinu og hækkaði í botn ... Heyr mína bæn drundi í eyrum mínum svo hljóðhimnurnar engdust, tónlistin heyrðist yfir allt bílastæðið Breiðholtsmegin í Mjóddinni og fólk kom hlaupandi frá stæðunum Kópavogsmegin líka, gjörsamlega í losti. Þetta heitir að kunna að hefna sín. Veit samt ekki hvað vesalings fólkið í Mjódd hafði gert henni ...  

 

Facebook ógnirFréttir af Facebook

2. maí 2009:

„Sá í fréttum Stöðvar 2 að David Lynch leikstjóri drakk latte frá kaffitári, eins og ég geri annað slagið.“ Ykkar einlæg.

 

Mér finnst ég stundum svo alþjóðleg, veraldarvön, veit ekki hvaða orð lýstir þessu best. Drekk víst stundum sama kaffi og heimsfrægur leikstjóri, eins og kemur fram hér ofar. Fékk ókunnan mann á rúmstokkinn sama ár og Elísabet heitin Englandsdrottning lenti í því sama. Ég elska Skálmöld - alveg eins og Guðni forseti. Finn fyrir miklum andlegum skyldleika við þau, og fleiri sem ég man ekki eftir í augnablikinu að ég eigi eitthvað sameiginlegt með.

 

Ég þori reyndar ekki að hafa mig mikið í frammi á fb þessa dagana - bara í þessari viku hafa tveir eða þrír fb-vinir verið sviptir síðum sínum fyrir engar sakir. Gervigreind sér um þetta og hún er ekki sveigjanleg, eins og þegar frændi nokkur fékk aðvörun þegar hann gerði grín að nýnasi..um og var svo látinn fjúka endanlega þegar hann sagði við eitt afmælisbarn dagsins orðið heillin. Fyrstu fjórir stafirnir í því orði sýndu einfaldlega að frændi væri óforbetranlegur.

Til að milda gervigreindina set ég reglulega inn krúttlegar myndir af kisunum mínum. Það virðist virka. Ég passa mig að læka ekki of mikið hjá fólki, ég set vissulega alltaf hlekk á blogg dagsins inn á fb en kannski þóknast Metu það ekki til lengdar. Fólk missir þarna minningar, mögulega myndir en mér skilst að hægt sé að endurheimta þær í einhverjum tilfellum. Svo missa sumir síður sínar í klær svindlara ... fékk kveðju frá gamalli vinkonu nýlega og svaraði strax með spurningu um hvernig henni liði í nýja landinu. Fékk ekkert svar, heldur hvarf síðan hennar. Nema þetta sé nýjasta nýtt til að slíta fb-vináttu á dramatískan hátt. Hvet fólk sem lendir í þessu að gúgla hvernig eigi að endurheimta síðu sína, sumir ná að gera það, aðrir ekki.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og einum?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 113
  • Sl. sólarhring: 240
  • Sl. viku: 1429
  • Frá upphafi: 1460328

Annað

  • Innlit í dag: 103
  • Innlit sl. viku: 1138
  • Gestir í dag: 101
  • IP-tölur í dag: 96

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Fótapláss ekkert
  • Facebookvinátta
  • Fótapláss ekkert

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband