Nóa-konfektslóð og Skálmaldartengsl

Næstum öllÞær hvimleiðu og kolröngu kjaftasögur fóru í gang að ég hefði gengið yfir mig í Glasgow (10 þúsund skrefa-hryllingurinn, munið) og væri enn að ganga saman en allt gengi nú samt vel. Jú, allt gengur vel, það er hið eina rétta af þessu. Síðustu fjórar vikurnar hef ég til dæmis verið hoppandi og skoppandi sem leiðbeinandi og kynnt íslensku fyrir fólki af níu þjóðernum. Fólkið var hvert öðru dásamlegra og heilmikil tilhlökkun að mæta í vinnuna á morgnana. Tungumálin sem það talaði voru ansi mörg; þýska, franska, norska, arabíska, spænska, litháíska, lettneska, sómalska, ítalska, rúmenska, kínverska, enska, úkraínska, pólska, rússneska ... ég er ábyggilega að gleyma einhverju. Þvílíkur fjársjóður að fá þetta fólk til landsins.

 

Mynd 1 sýnir hluta hópsins í bókabúðinni síðasta daginn. Ásta sést í baksýn bæta við nýjum jólabókum ... ég elska þennan árstíma. Eins og vanalega bætir myndavélin á mig fimmtán kílóum.  

 

Fallegt sólarlag 30.11 23Strætó númer 2 kom rétt fyrir átta á morgnana norðanmegin á Garðabrautinni og ók öfugan hring, eða niður í bæ og svo þaðan upp í sveit (Bónushús) þar sem vinnan mín er. Held að leið 2 fari fjóra eða fimm hringi á dag, til að létta á leið 1 og svo er líka frístundastrætó sem ég kann ekkert á. Ég hef verið rengd nokkrum sinnum varðandi leið 2, það væri enginn strætó númer 2 á Akranesi. „Kíktu bara á akranes.is,“ sagði ég síðast nú í hádeginu, stödd í strætó 1 á leið í klipp og lit. „Ég er ekki með tölvu og kann ekki á tölvu,“ sagði konan enn vantrúuð. Sonur hennar er hirðrafvirkinn minn og ég bið hann um að sýna henni þetta. Annars eru nýju rafmagnsvagnarnir ansi fínir en sniðnir að börnum, ekki bara leiðaáætlunin. Ef ég stelst í sætin merkt eldri borgurum með staf hef ég pláss fyrir fæturna, annars ekki. Ég myndi að sjálfsögðu þjóta upp úr eb-sætinu ef einhver eb kæmi inn í vagninn. Sætin (stærðin) eru miðuð við barnsrassa, og eiginlega of þröngt fyrir tvo fullorðna að sitja hlið við hlið þótt grannir væru. Held að innanbæjarstrætó sé aðallega hugsaður til að spara skutl á börnum, því leið 2 gengur t.d. ekki á meðan frí eru í skólum. Eins gott að ekkert slíkt var í nóvember. Reyndar ... flesta morgna skutlaði elskan hún Svitlana mér í skólann. Þá var ég búin að hella upp á í vinnunni, gera kennslustofuna klára, hlusta á músík og fullt áður en hitt starfsfólkið mætti. Langfyrst. En langseinust ef ég tók strætó, þá kom ég 8.15 sem er samt korteri fyrir byrj.

 

Mynd 2: Himinninn var ansi smart í dag, eftir lit og klipp, þar sem ég stóð þarna og tók myndina var kallað í mig. Hjördís (mömmur.is) spurði hvort okkur vantaði far, stráksi hitti mig þarna eftir skóla. Ekki í fyrsta sinn sem gott fólk býður okkur far. Stráksi var þó heldur dramatískur þegar hann sagði: „Hjördís, þarna bjargaðir þú lífi okkar.“ Svo minnti hann okkur á áðan þegar hann sagði í gríni að hann vildi frekar Hjördísi sem fósturmömmu af því að hún byggi til svo flottar kökur. „Það var sko grín,“ sagði hann en efinn skein úr augum hans. Ég þarf að baka oftar.    

 

Hjartans yndin hjá Símenntun Vesturlands, Hekla og Steinar, gerðu allt, bókstaflega allt til að auðvelda mér tilveruna í kennslunni. Ég spurði Steinar einn morguninn eftir að hafa fengið tölvuaðstoð frá honum: „Segðu mér, ertu með eðlilega tölvukunnáttu eða hefurðu menntað þig sérstaklega í tölvum?“

„Uuu, bara ósköp venjulega,“ svaraði hann og þá vissi ég stöðu mína þar.

Nokkrum morgnum seinna hljóp ég inn á skrifstofu til hans og montaði mig af því að hafa getað allt sjálf ... hann nefnilega kenndi mér um leið og hann stillti allt rétt. Ef einhver hafði notað kerfið á eftir mér deginum áður, þurfti að endurstilla og það var mikið sjokk (fyrir snilling á öðrum sviðum, eins og mig). Núna get ég eiginlega næstum því titlað mig tölvunarfræð - ekki alveg -ing, það er lögverndað. Ég keypti tvo kílókassa af Nóakonfekti á fimmtudaginn fyrir viku, annan fengu hjálparhellurnar mínar hjá Símenntun á föstudeginum og hinn fór í að gefa nemendunum smakk af þessari dásemd síðasta daginn, eða á mánudaginn síðasta. Þá fengum við inni í bókasafninu á Akranesi. Móttökurnar voru svo góðar þar, gott kaffi og önnur skemmtilegheit. Mitt fólk dáðist að jólatrénu sem Dúlluhópurinn heklaði um árið, ég sýndi þeim líka Akrafjallið, heklað úr dúllum (ég gerði tvær) sem við gerðum í tilefni 150 ára afmælis safnsins. Undir lokin horfði ég á grannt starfsfólkið og svo á mig, síðan aftur á starfsfólkið og skildi um það bil 900 grömm af Nóakonfekti eftir handa því, aukakílóin fara nokkuð jafnt á þau en engin á mig sem er ansi gott. Held að þetta heiti að skilja slóðina eftir sig, konfektslóðina.

 

AlexVið kíktum næst út í bókabúð við hliðina og fólkið mitt átti varla orð yfir jólabókahefðina hjá þessari litlu þjóð. Næst heimsóttum við Omnis, frábæra raftækjabúð sem hefur nokkrum sinnum komið í veg fyrir að ég noti góðvild Davíðs frænda of mikið ... (t.d. geturðu hjálpað mér að færa gögnin úr gamla símanum?) Svo lá leiðin út í Flamingo, sýrlenska matsölustaðinn, stutt stopp þar og við enduðum hjá Hans og Grétu (flottri fatabúð) og Model (geggjuð gjafavörubúð, blóm og raftæki). Alltaf gott að vita hvar hlutirnir fást.

 

Á Ísafirði voru eitt sinn erlendir íslenskunemar dregnir á barinn og látnir panta sér á íslensku, ef það gengi þyrftu þeir ekki að borga. Ég nýtti þessa afbragðshugmynd nema við fórum í ísdeildina í Sbarro, og ég var búin að æfa þau. Það mátti líka segja: Nei, ekki svona, eða já, takk ... og allir stóðust prófið. Móttökurnar hjá Sbarro voru æði, tveir sem afgreiddu og þeim fannst þetta bara gaman. „Eru þau á fyrsta árinu?“ spurði Alla sem vinnur þarna. „Neibbs, voru að klára fyrsta mánuðinn!“ svaraði ég. Alla kallaði til þeirra: „Mikið eruð þið dugleg!“ og meinti það. Það gladdi okkur mjög, mér fannst það líka. 

 

Mynd 3: Litli fallegi nágranni minn, Alexander, kíkti í heimsókn fyrir nokkrum dögum. Stóri bróðir hans gisti hjá mér nóttina þegar Alex kom í heiminn. Sá stutti var yfirkominn af öllu því nýja sem hann sá í himnaríki en svo fór hann að brosa á fullu. Kettirnir urðu ofsaglaðir að hitta stórabróður sem tekur alltaf þegar hann kemur í heimsókn, smávegis mat úr dallinum þeirra og færir þeim, hvar sem þeir liggja í slökun. Þeir kunna að meta það - og þeir elska börn.

 

Hluti af íslenskukennslunni er að tala um samfélagið hér og að sýna þeim nytsamlegar feisbúkksíður, benda á antíkskúrinn, Búkollu, leigusíður og slíkt, en um daginn vorum við frekar háfleyg og lífslíkur Íslendinga bárust í tal. Ég komst að því í spjallinu að lífslíkur úkraínskra karlmanna eru að meðaltali 65 ár! Sá sem sagði mér það á örfá ár í að ná því sjálfur svo ég harðbannaði honum að snúa aftur til Úkraínu. Hann glotti nú bara en kommon, fólk er bara rétt síðmiðaldra 65 ára (tala af reynslu).

 

Einhverjar flensur hrjáðu okkur eins og aðra landsmenn, ég dældi í mig flensulyfi úr Ameríkunni fyrstu vikuna og líka Pepto Bismol þegar maginn var með stæla einn morguninn í síðustu viku. Fékk PB og flensulyf með elsku Anne þegar hún heimsótti mig í sumar og það kom sér aldeilis vel. En ekki eiga allir svona lagað svo einn daginn voru bara fimm eða sex nemendur mættir, allt frekar miklir töffarar svo ég skellti á tónlistartíma og spilaði m.a. ásamt íslenskum lögum, Eurovision-lög frá þeirra löndum til að kynna fyrir hinum ... og svo leyfði ég þeim að heyra HEL með Skálmöld og Sinfó. Well, þau klöppuðu eftir lagið, þeim fannst þetta svo flott, svo það er til fleira smekklegt fólk en ég! Ég gat bætt við gleði þeirra með því að segja þeim að gítarleikarinn í Skálmöld byggi á Akranesi (ef heimildir mínar eru réttar).


Skafandi og skutlandi nágrannar frá Himnaríki ...

MyndFrá jarðsögu-, eldgosa- og hamfaralegu tilliti er mjög gott að búa á Akranesi, skilst mér, þekki eina sem á eintóma ættingja í jarð-, veðurfræðinga- og eldgosakreðsunni, möguleg flóð kannski hér en sérlega litlar líkur á eldgosi við bæjarfótinn. En við finnum vel fyrir stærri skjálftunum á Reykjanesskaga. Ég vorkenni mér nú samt ekkert mikið, hugsa bara til elsku Grindvíkinga, þetta hlýtur að vera ansi óþægilegt, svo vægt sé til orða tekið. Svefnlaus fyrrinótt hjá þeim eins og mér, mér tókst þó að halda mér vakandi við íslenskuítroðið í gær. Þvílíkur munur var svo að vakna í morgun eftir nægan svefn sl. nótt. Svo hófust lætin. Nú hef ég ekki tölu á jarðskjálftum sem hafa tröllriðið öllu hér í Himnaríki og hrætt kettina mína, brotið glerið á innrammaðri mynd af Kór Langholtskirkju og fylgifiskum þar sem við vorum stödd í Flórens í júní 1985, ef ég man rétt. Myndinni hafði ég tyllt upp á hillu í stofu og hún hrundi niður við einn stóran. Í einhverjum af þeim fyrri datt pakki með tepokum á gólfið í eldhúsinu. Óþægilegt en ekkert miðað við það sem er í gangi hinum megin við hafið, í 56 kílómetra fjarlægð í beinni línu. Elsku Grindvíkingar, ég væri orðin ansi strekkt á taugum í þeirra sporum (varlega orðað). "Kristallarnir" á lampanum mínum úti í glugga hafa dinglað nánast látlaust í dag og kvöld, eins og ljósakrónurnar þarna hinum megin. Áður en stráksi fór í helgargistingu spurði hann mig til öryggis hvort við myndum deyja, hann náði nokkrum stórum hér heima, en var samt ekki sérlega áhyggjufullur. Hann er í sundi í þessum skrifuðum orðum, og nýtur lífsins. Ég er komin með jarðskjálftariðu, kíki reglulega á lampann þegar ég hristist, hann er ekki alltaf á sama máli.    

 

Valur að skafaNágrannakona mín frá Úkraínu, kattahvíslari með meiru, vinnur ekki langt frá mínum vinnustað og hefur skutlað mér undanfarna morgna í vinnuna. Í morgun biðum við í frosnum bílnum eftir því að miðstöðin hitaði rúðurnar svo sæist út, en allt í einu birtist sjálfur Valur nágranni sem skóf rúðurnar með ljóshraða, eða á innan við hálfri mínútu. 

Ef ég flyt í bæinn, sem gæti alveg orðið, svona ef ég tími ... þá ætla ég að taka hvern einasta nágranna hússins með mér (og Hekls Angels og Ingu og fleiri). Þeir vita ekki af því en mér tekst einhvern veginn að sannfæra þá um nauðsyn þess að við höldum áfram að búa öll saman. Það hlýtur að hækka fasteignaverð til muna að geta auglýst svona góða nágranna.

 

Myndin (þessi gula) sýnir hinn frábæra Val (að skafa) sem flýtti för okkar til muna í morgunsárið.

 

Það var hroðalega hált í morgun og ekki hafði það skánað í hádeginu. Ég hét því eiginlega að ef ég slyppi óbrotin heim myndi ég halda mig inni þar til í vor. Svo sá ég að spáð er hlýrra veðri næstu daga svo ég endurskoða það. Strætó ók ofboðslega hægt (næstum 10 mínútum á eftir áætlun) sem er hið eina rétta í svona ástandi, það var eins og ísfilma yfir öllum götum og gangstéttum. Sem betur fer er nokkuð um gras hérna sem óhætt er að ganga á, en ég kveið bara fyrir því að ganga yfir hlaðið, bílaplanið fyrir utan himnaríki. En ... sennilega var Valur búinn að salta því þar var nákvæmlega engin hálka! Eða kraftaverk, auðvitað.

 

Facebook-fréttir:

Ansi hreint margir hafa deilt tíu ára gömlum flökkustatus á íslensku í dag um að þeir gefi Facebook alls ekki leyfi til að nota myndir þeirra ... o.s.frv. Færri brandarar fyrir vikið.  


Fljúgandi kettir og sterkur áhrifavaldur

super-MosiFljúgandi kettir-heilkennið heldur áfram í Himnaríki og nú bíð ég bara eftir því að Krummi leiki listir sínar. Í dag hoppaði Mosi lengst upp á eldgömlu IKEA-samstæðuna - eitthvað sem ég hélt að hann gæti ekki lengur, vegna frekar mikillar matarlystar. Hér er mynd því til sönnunar.

Jú, vissulega nota kettirnir sófa og stólbök til að taka tilhlaup en samt ... elsku Ofur-Mosinn minn. Ef myndin hefur prentast vel má sjá grilla í mávastellið mitt í neðstu hillunni vinstra megin í glerskápnum. Eða drög að mávastelli, tvo bolla, sem er betra en ekkert. Er samt ekki að safna, komin með þetta fína matarstell frá Kristbjörgu í antíkskúrnum og á líka allt of marga bolla. Það þarf svo sem frekar marga bolla fyrst uppþvottavélin fer bara í gang tvisvar í viku. Í gær kenndi ég stráksa að taka hreint úr vélinni og ganga frá sem tókst mjög vel en Tetris-hæfileikana þarf að æfa til betur gangi að setja í vélina. Ég hef með góðum árangri notað stafrófsröð (t.d. gafflar, hnífar, skeiðar í aðra körfuna). Hann er samt efnilegur.

 

Mikil áhrifÁhrifavaldar á Instagram eru sumir virkilega skemmtilegir og aðrir nokkuð leiðinlegir, án þess endilega að ætla sér það (fólk sem nær smávinsældum og fer í kjölfarið að tala alveg rosalega mikið í myndavélina og með skoðanir ...) og sumir eru ofboðslega, rosalega máttugir án þess að ætla sér það, og jafnvel án þess að vera virkir á Instagram, bara á Facebook og stundum Snapchat. Mér þykir þetta svo leitt með fiskidaginn mikla, ég var í alvöru ekki reið yfir því að hann hafi verið haldinn 12. ágúst sl., á afmælinu mínu, við getum auðveldlega deilt deginum. Hættir kannski gleðigangan ef daginn ber upp á laugardag, eða verður hún flutt og haldin viku fyrr, eða um verslunarmannahelgina? Þetta var bara nöldur því ég óttaðist að þessir viðburðir fækkuðu afmælisgestum hjá mér ... og það var óþarfur ótti.

 

Kvefið er á nokkru undanhaldi - góð hvíld um helgina, bara allra nauðsynlegustu húsverkir unnir, sett í þvottavél, sett í uppþvottavél og drasl fært til yfir á minna áberandi staði áður en hægt verður að ganga frá. Ég dái flensupillurnar mínar sem ég tek samt sparlega. Einu sinni yfir daginn og svo fyrir nóttina. Því miður er eitthvað í þessum næturpillum sem gerir mig syfjaða svo ég sef sennilega af mér byrjun eldgossins ef það hefst með hressum skjálfta.

Mér skilst að Almannavarnir geti ekki bannað Bláa lóninu að hafa opið, gæti þýtt feita málsókn og háar skaðabætur ef ekkert gerist í gosmálum. Hvað er himinhár aðgangseyrir (15.000?) sinnum kannski fimm hundruð manns á dag? Jú, sjö og hálf milljón, og svo fer að gjósa annars staðar? En það á að upplýsa gesti lónsins um það sem er í gangi sem mér skilst að hafi ekki verið gert.

Sökum kvefs og aumingjaskapar komst ég ekki í bæinn og missti þar með af vatnslitasýningu Önnu vinkonu sem opnaði í gær í bókasafninu í Garðabæ, missti líka af troðfullum fundinum í Háskólabíói um Palestínu og hryllinginn sem þar stendur yfir. Ég mæli með grein Hlédísar Sveinsdóttur sem hefur verið deilt mikið á samfélagsmiðlum í dag. Afar vel skrifuð og rökstudd grein sem heitir Ég skil ekki

 

Fréttir af Facebook

Stöku grein, m.a. um slæmar jólagjafir: 

Tengdamamma gaf mér flík í stærð 14 en ég nota fatastærð 8. Hún sagði við það tilefni: „Ég valdi þetta því mér sýnist þú hafa bætt svolítið á þig upp á síðkastið.“ (Þetta er mjög móðgandi komandi frá tengdamömmu)

 

Stöku brandari

Læknir: „Einhver dæmi um andleg veikindi í fjölskyldunni?“

Maður: „Nei, við erum öll trúlaus.“

 

Stöku krúttlegheit:

Diego á sínum stað í A4 í Skeifunni.

 

Stöku nöldur:

Ein ekki ánægð með að auglýst sé leikfimi fyrir 60 plús og á tíma þegar vinnandi fólk kemst ekki. Vildi meina að unga fókið sem ákveður svona tíma fyrir "eldgamla" fólkið haldi að sé allt meira og minna hætt að vinna. (Sem er alls ekki. Ég er t.d. enn í þremur störfum, svona mestmegnis með eitthvað þrennt í gangi en af því að ég er forréttindadrós og ræð að mestu mínum vinnutíma (nema núna næstu vikur) gæti ég farið í svona leikfimi ... nema ég myndi aldrei nenna að fara í morguntíma. Ég hélt í alvöru (og vonaði) að maður þurfi minni svefn með árunum og yrði að hressum morgunhana.          


Bækur, ótalin skref og árgangsmót

Stráksi og GunnarBókabúðin allra besta hér á Akranesi var með skemmtilegan viðburð í dag, þá kom sjálfur Gunnar Helgason og kynnti bókina sína, Bannað að drepa. Stráksi var mjög spenntur svo ég keypti áritað eintak ... sem hann vonandi gleymir hratt því hann fær hana í jólagjöf. Keypti tvennt sniðugt handa honum úti í Glasgow og þarf að finna svona fimm hluti í viðbót, minna má það ekki vera. Hann er svo brjálæðislega mikið jólabarn og á innilega skilið að fá margar, margar jólagjafir.

Bækurnar hans Gunnars eru hver annarri betri. Mamma klikk og hinar, líka fótboltabækurnar og svo þessar, um það sem er bannað, þær eru víst alveg frábærar. Stráksa fannst skrítið að sjá Gunnar þar sem við þekkjum tvíburabróður hans, hann Ása ... „og þeir eru alveg eins!“ sagði hann hlessa. „Nei,“ leiðrétti ég hann. „Ási er nú ólíkt huggulegri.“ Stráksi flissaði, þeir eru eiginlega alveg ofboðslega líkir. Báðir sætir og fyndnir, við sættumst á það. Ég ætla að laumast til að lesa Bannað að drepa, fyrir jólin. Svo held ég að hinar tvær „Bannað að ...“ séu á Storytel, þá er nú aldeilis hægt að byrja á þeim.

Ég keypti til viðbótar þrjár bækur á lækkuðu verði, jólagjafir sem ég þarf helst að pakka inn núna svo ég stelist ekki í þær. Þetta eru svakalega góð bókajól, mig langar í alla vega 25 bækur. Svo á ég eftir að kaupa ljóðabækur og prósa fyrir suma. 

 

Annars hef ég verið hálflasin frá Glasgow-heimkomu. Kvef að reyna að herja á en ég berst hatrammlega gegn því - með C-vítamíni og amerískum flensupillum sem eru víst stranglega bannaðar Íslendingum. Hef getað stundað kennsluna en naumlega samt. Það var sérlega gott að enginn skóli var í dag, föstudag. Ég hafði mjög gott af því að dorma til hádegis. Tók grænar flensupillur (næturpillur) og rumskaði ekki við stóra jarðskjálftann í nótt en stráksi vaknaði og fannst þetta mjög spennandi. Ég veit ekki hvort ég eigi að vera fegin eða spæld.

 

Hress og gigtveikurÍ næstu viku þarf ég að koma mér upp einhverju sem hjálpar mér að láta símann elta mig hvert spor því það er lúmskt mikil hreyfing í því að þjóta um alla skólastofu og hlýða fólki af níu þjóðernum yfir. Í þrjá tíma ... og fá svo bara 1.200 skref yfir daginn, í gemsann sem liggur vissulega grafkyrr í töskunni eða á skrifborðinu, eins þegar ég hamast við að elda kvöldmatinn og stilli símanum upp á hillu, hlusta á sögu eða fréttir á meðan ég tek ábyggilega 100 skref. Hef nokkurn metnað fyrir skrefum eftir útlandaferðina, metnað sem ég hafði alls ekki áður, en það hefur verið of hált og kalt til að ganga í vinnuna og safna. Í gær fékk ég óvænt far báðar leiðir. Úkraínski kattahvíslarinn minn (ok, móðir hans) greip mig á stoppistöðinni þar sem ég beið eftir leið 2, skutlaði syninum í skólann, síðan mér í minn skóla og fór þá í vinnuna.

Svo eftir kennslu, þegar ég beið eftir leið 1 við Bónushúsið, (hann á að vera þar kl. 11.58 en kemur iðulega of snemma, eða 11.54, sem er sérlega stressandi því ég er búin að vinna kl. 11.50, get varla hlaupið, er enn að drepast í hásininni eftir að hafa tekið á sprett að óþörfu að næstu stoppistöð vegna misskilnings), kom gömul bekkjarsystir á hlýjum og fínum bíl og bauð mér far heim. Elsku Sigga.

 

Við hlökkum mikið til að hitta árganginn okkar ögn seinna í þessum mánuði. Byrjum gleðskapinn klukkan 18 og endum fyrir miðnætti (ekki ótti við að breytast í grasker, heldur fáum við salinn ekki lengur). Þetta er einstakur hópur, við höfum ekkert breyst, ekki einu sinni karlarnir, eins og við höfum verið geymd í formalíni eða eigum málverk uppi á háalofti af okkur, sem eldist en við ekki. Við erum líka hrikalega skemmtileg og fjölhæf og lýsum upp hvert herbergi sem við göngum inn í. Fólk hér á Skaganum talar um þetta. Þau okkar sem búa annars staðar, eins og í Noregi, Grænlandi eða Reykjavík, hefur sömu sögu að segja. Við vinnum meira að segja búningaverðlaunin alla öskudaga þótt við höfum ekki einu sinni farið í búning. Alla vega ég sem vinn heima en geri ráð fyrir að það eigi við um allan okkar árgang.

Madonna, jafnaldra okkar, er á tónleikaferðalagi núna en ætlaði að reyna að koma til Akraness, skjótast, af því að það er þyrlupallur hér á hlaðinu. Vonum að það takist. Annar jafnaldri okkar, Michael Jackson, hefði ella komið ef hann væri enn á lífi. Held að enn einn jafnaldrinn, Helgi fokkings Björns, eigi heldur ekki heimangegnt. Mig grunar samt að hann sé brjálaður yfir þokunni sem skall á hérna á Írsku dögunum í fyrra eða hitteðfyrra svo enginn sá hann og varla heyrði því þokan var svo þykk. Það er svo sem til sæmilegt tónlistarfólk af öðrum árgangi en vissulega vandfundið. Sjáum til hvað nefndin getur. Er alveg til í diskótek ef sæmilegt rokk fær að heyrast. 

 

Mynd 2 var tekin snemma í kvöld, af gömlum og gigtveikum Kela sem þaut ofsaglaður um allt Himnaríki og endaði uppi á skáp, hann getur sko ekki hoppað, heldur klifrar upp á sófa eða rúm. Dýralæknirinn í Hamraborg í Kópavogi er alveg frábær, Keli var nánast við dauðans dyr fyrir nokkrum vikum, hættur að vilja borða, orðinn horaður og svaf nánast út í eitt. „Sennilega gigt,“ sagði dýri, „prófaðu þetta lyf, settu dropa út í blautmat, sumir kettir hætta að borða ef þeir finna til!“ Og Keli fór að fljúga, sjá mynd.       


Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 646
  • Frá upphafi: 1525539

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 575
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2023
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • Eldum rétt
  • Gamla bakaríið
  • Mosakrútt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband