Skatan ... jólatréshindrun ... gleðileg jól

Drög að jólatréTuttugasti og annar desember kominn, í mínum huga var sá dagur alltaf afmælisdagurinn hennar Rósu æskuvinkonu - og er enn. Það var ógnvekjandi tilhugsun, fannst mér, að eiga afmæli næstum því á jólunum. Hún heitir líka næstum því Rósa Bennett, eins og söguhetjan í bókunum hennar mömmu. Afmælisknús, Rósa mín, ef þú ert einhvers staðar þarna úti (ef þú lest æðisleg blogg ...)

 

Facebook var að rifja upp beiskjublandinn þrettán ára gamlan status: 

„Hafa feisbúkkvinir mínir velt fyrir sér orðunum SKATAN og SATAN? Held ekki ...“ Mér finnst þetta enn virkilega umhugsunarvert.

 

Það tókst ekki að koma upp jólatrénu. Allt orðið voða fínt en en ekki jólatréð sem ég keypti í Húsó. Einn veggurinn í stofunni var eitthvað tómlegur, fannst mér í gær og þarna var nagli, án myndar! Almáttugur! Jú, flott indversk mynd hafði dottið niður, bandið hafði gefið sig (frá 1985) og myndin hrapað niður á innstungu, brotið hana svo nú sést innvolsið, stórhættulegt! Hreyfði ekki við neinu. Held að hirðrafvirkinn verði að kíkja í heimsókn bráðum, þótt það verði ekki fyrr en á næsta ári. Ég er svolítið veik fyrir jólatrjám af öllum stærðum og gerðum, án þess þó að ég sé nokkuð endilega að safna þeim ... en í IKEA um daginn, einmitt í leit að almennilegu tré, fann ég eitt pínulítið sem ég greip með mér, kannski er ég bara svona mikill miðill að ég hef fundið þetta á mér (djók) - en sjáum til hvað gestir á jóladag gera þegar þeir sjá himnaríki ÁN JÓLATRÉS! Svoddan jólabörn sem ég þekki, ég er algjör skröggur miðað við þau flest. Myndin sýnir drög að jólatré, ágætis drög sem ég læt kannski bara nægja.

 

Annars er þetta bara algjört örblogg, eingöngu til að óska ykkur öllum gleðilegra jóla, elsku krúttin mín. 


Partístand, misheppnað grín og vanrækta baðið ...

HilduboðSíðustu dagar hafa einkennst af veisluhöldum og samt ekki komin jól! Eins gott að ég pantaði ekki Eldum rétt fyrir þessa viku. Það þarf að halda afmæli, það þarf að útskrifast, borða úti, fagna komandi hátíð og allt þar á milli. Ég mætti stundvíslega degi of snemma til Hildu, það varð að undirbúa komu jólasveins og sitthvað fleira sem hún þurfti andlegan styrk og hjálp við ... Í sömu ferð tók ég allar jólagjafir sem ég gef, eða nánast, til að geta afhent ættingjum og vinum sunnan rörs, eins og mestu töffararnir orða það. Tók einnig stóra tösku með mér með alls kyns fíniríi, sturtusápum, sjampóum og einhverju sem hafði verið óhreyft hjá mér en kannski helmingur eftir í, í körfu á baðinu síðan árið 2020 þegar allt var tekið í gegn í Himnaríki. Nú var kominn tími til að vanrækta baðið (á efri hæðinni hjá Hildu) fengi smávegis umhyggju og ást og minni hættu á að ég notaði óvart hundasjampó í hárið á mér. Nýja glæsilega og flotta baðið niðri höfðar meira til heimilisfólks sem neitar að baða sig uppi. Bara við stráksi elskum að hafa þetta næstum því einkabaðherbergi okkar þegar við erum í bænum. Ég raðaði þessu dásemdardekurdóti samviskusamlega inn í baðskápinn á vanrækta baðinu og hlakkaði meira en nokkru sinni fyrr til að fara í sturtu að morgni afmælisdags systur minnar og Keiths Richards. Ég hefði átt að ... jæja, allsnakin og tilbúin í steypibað opnaði ég skápinn þar sem handklæðin eru geymd og sjúkk, þarna var eitthvað eitt dökkgrænt alveg á botninum. Ég setti það í seilingarfjarlægð frá sturtuklefanum. Þegar ég svo teygði mig í það eftir böðinuna reyndist þetta vera lítil handklæðamotta, verulega þykk, þó skárra en ekkert. Ég fylltist þakklæti yfir því að þetta hafi ekki verið gúmmímotta.

 

Í partíi tvö áttaði ég mig endanlega á því hversu ömurlegan húmor ég hef, hugsa að viss kona í vissri búð á Akranesi taki undir það því ég sé alltaf undir iljarnar á henni þegar ég mæti (mætti) ... en óánægju- og vanþóknunarsvipurinn á henni þegar hún þurfti að berja mig augum gerði alkabarnið mig svo taugaveiklað að ég varð helmingi leiðinlegri í tilraun minni til að létta andrúmsloftið. Stráksi var með í síðdegisboðinu, eins og í þeim öllum, og á meðan hann fór og sótti sér veitingar settist kona á stólinn hans og sneri bakinu í okkur, var að tala við fólk á næsta borði. Þegar stráksi kom til baka sagði ég létt: „Sestu hérna við hliðina á mér, því „vonda, vonda“ konan þarna tók stólinn þinn.“

Stráksi hló, til þess var leikurinn eiginlega gerður, ég nota hvert tækifæri til að þróa kímnigáfu hans þar sem hann er einhverfur, og mér hefur gengið ótrúlega vel að kenna honum að taka ekki öllum hlutum bókstaflega (hef reyndar sett skýlaust bann á vodkabrandarana hans á veitingastöðum) en þetta á auðvitað ekki að bitna á saklausum gestum. Unga konan gerði sig líklega til að standa upp og ég sagði að þetta hefði nú bara verið asnalegt grín, henni væri svo innilega velkomið að nota stólinn, stráksi gæti bara sest hinum megin við mig. Án þess að virða mig viðlits gekk hún samt á brott og ég sat eftir alveg eyðilögð. Héðan í frá verða lélegir fósturmömmubrandarar bara sagðir í mjög vernduðu umhverfi.

 

Helvítis hamborgariÞriðja partíið var með Löllu vinkonu, við stráksi skruppum út að borða með henni á Brasserí Kársnes í hádeginu í fyrradag. Mjög fínn staður og virkilega gaman. Stráksi hló þegar hann pantaði það girnilegasta (að hans mati) á matseðlinum, Grillaðan helvítis hamborgara, hann heitir það. Við erum ýmsu vön, hér á Skaganum var eitt sinn hægt að kaupa Haltu kjafti-hamborgara ... en stráksa þótti ansi hreint fyndið að blóta um leið og hann pantaði. Við Lalla ræddum allt milli himins og jarðar og að gefnu tilefni tjáði ég henni að ég væri hrifnust af spaghettíi með festist-við-ísskápinn-suðu, pínku pons meira soðið en al dente ... svona blaðrar maður leyndarmálunum nánast í ógáti og stendur ekki undir matgæðingsvæntingum bloggvinanna - og ekki nokkur einasti ítalskur sjarmör lítur við mér framar, en satt er satt. Það er vissulega millivegur frá al dente og að hálftímasuðu sem ég afplánaði í æsku, jæks. Ég rifjaði upp hvað ég varð stjörnustjörf yfir því að Lalla ætti vinkonu (Sara Lee, ég gúglaði) sem spilar á bassa með King Crimson - og var í afmælisveislu Löllu í fyrra, verulega indæl og skemmtileg! Ef ég hefði komist á King Crimson-tónleikana í París 2018 hefði hún mögulega spilað þar á bassann ... en ég sá bara plakötin upp um allt og hreifst yfir því að þetta gamla uppáhald mitt væri enn að túra. Fannst svolítið eins og ég hefði hoppað inn í tónlistarsöguna eitt andartak þarna í fyrra. Þetta var svipað og þegar frænka mín, mesti Arvo Pärt-aðdáandi sem ég þekki, sat fyrir tilviljun við hlið þessa eistneska tónskálds í flugvél en tók íslensku aðferðina á hann, lét eins og hann væri ekki þarna, alveg stjörf samt.

 

Síðasta partíið í aðdraganda jóla var geggjuð útskriftarveisla í gær, sonur-barnabarn í vinahópnum var að útskrifast sem rafvirki með ágætiseinkunn. Veitingarnar stórkostlegar, enda eiga mömmur.is helling í nýja rafvirkjanum. Ég hafði spurt smekkvísa vinkonu mína um mögulega sniðuga útskriftargjöf og hún nefndi eitthvað sem mér fannst spennandi en sá þó vesen við að finna, nema fara í mjög flotta og sértæka bókabúð, eða flotta deild í bókabúð - og efaðist samt um hæfileika mína til að velja eitthvað nógu geggjað.

 

Enginn tími var til þess á meðan ég var í borginni og þessum partíum, og stjórnendur Eymundsson senda ekki einu sinni erlendar metsölukiljur til okkar á Skagann (svo vér Skagamenn þurfum að fara í bæinn (eða sérpanta) til að halda við enskunni með hjálp Stephen King) svo mér fannst eigi líklegt að ég fyndi svona sérhæfða bók. Í afmæli Hildu var staddur dásemdardrengur, réttur maður á réttum stað, á réttum tíma, meira að segja nemi í rafvirkjun, ár í útskrift, og að auki er Skálmöld uppáhaldshljómsveitin hans!!! svo aðdáun mín á honum jókst um mörg þúsund rokkstig og var þó mikil fyrir. Ég spurði hann hreinlega, ef hann gæti valið um þetta sem vinkona mín stakk upp á (vönduð og virkilega eiguleg hönnunarbók) eða falleg orð á korti með nokkrum brakandi seðlum í, var hann aldrei í vafa: „Peningar, allan daginn,“ sagði hann.

 

Keli passar hekliðNú er runninn upp eini dagurinn sem ég hef til að taka til og skreyta, stráksi í gistingu, ég fæ hann bara lánaðan í veislur, og ég bara sit og blogga þar til verður dimmt. Það kemur í ljós seinna í dag hvort ég kann að setja saman nýja jólatréð, setja á það seríur og skreyta það svo vel fari. Held ég hafi keypt allt of stórt tré, 1,80 m. Hmmm.

 

 

Svo hélt ég að ég hefði keypt AAA-rafhlöður um daginn, en nei, þetta voru tvær mismunandi pakkningar af AA, frá sama fyrirtæki og allt.

Sjáum hvað Einarsbúð finnur handa mér, nú er hangikjöt, laufabrauð, grænar baunir og rauðkál á leiðinni og sitt af hverju fleira, m.a. AAA-batterí.

Af því að það eru að koma jól pantaði ég rommkúlur. Yfirleitt gæti ég þess að ekkert slíkt sé að finna á heimilinu til að ég borði það ekki ... en ég skreyti bara betur í rommkúluvímu. Er einhver 1944-réttur nógu góður og sparilegur á jóladag fyrir þá sem geta ekki borðað hangikjötið hjá mér? Nei, djók, en ég þarf að láta mér detta eitthvað í hug, fljóteldað, lítt flókið og rosagott - fyrir einn eða tvo.

 

Mynd af Kela: Tekin í gær, ég er að reyna að hekla barnateppi sem er stundum svolítið flókið þegar maður á kött sem er hrifinn af plötulopa og að sitja nánast í fanginu á manni og reyna að veiða hannyrðirnar þrátt fyrir að vera kominn á virðulegan aldur.   


Völvur, mistök og móðgandi stjörnuspá

Árum saman kvartaði ég yfir því að mamma hafi sagt öllum sem það vildu heyra að ég væri völva Vikunnar, kannski hélt hún það því ég prýddi forsíðu eins völvublaðsins, vandlega dulbúin samt, en ég var hrukkóttust starfskvenna og þótt því hæfust í þetta. Ég tók aftur á móti nokkur viðtöl við völvuna og það var ég sem klúðraði algjörlega einu stóru atriði, mögulega hef ég viðurkennt þetta áður, finnst það eiginlega líklegt. Hérna kemur það samt: 

Gurrí: Hvað geturðu sagt um Saddam Hussein? 

Völvan: Ég finn voða lítið fyrir honum á nýju ári. 

Spá fyrir 2024Gurrí: Réttarhöldin halda sem sagt áfram og hann í fangelsi?

Völvan: Gæti verið.

Gurrí skrifaði: Réttarhöldin yfir Saddam Hussein halda áfram á nýju ári. 

Það sem gerðist: Hann var tekinn af lífi um áramótin. 

 

Ég viðurkenni fúslega að það kemur stundum fyrir að ég leiti til véfréttarinnar minnar og gerði það um daginn. Sjaldan eða aldrei hef ég fengið betri spá í lífinu og hlakka því mikið til nýs árs. Eina sem ruglaði mig var new car-dæmið, gleði mín var hamslaus þegar ég las það sem new cat ... en svo ég sá ég það. Nýir bílar eru svo sem ágætir ef ég hef einhvern til að aka honum. Spáin hljóðaði upp á bæði kærasta og eiginmann (trúlofun, gifting) svo annar þeirra gæti þá orðið bílstjórinn ... Krúttlegt barn líka svo kraftaverkin gerast.

 

Of ljótStjörnuspekin er líka alltaf voða skemmtileg þótt ég sé ósammála því að ljónið sé athyglissjúkt en ég viðurkenni glysgirni mína, allt (flest) sem glitrar höfðar mikið til mín. Ég á orðið það mikið af glitrandi hálsfestum og armböndum að ég verð að vera með búningadaga hér heima í himnaríki eftir að fólkið í Einarsbúð sagði trekk í trekk: „Mikið ertu fín, ertu að fara í veislu?“ Og ég laug og sagðist einmitt vera að fara í afmæli, brúðkaup eða eitthvað, en spurnarsvipurinn á fólkinu þegar það fór að hugsa um af hverju ég færi fyrst í búðina ...

 

Ég vildi ekki vera í sporum fólks tvíburamerkinu. Í gær birti beiskur Tvíburi spána sína og þar sagði orðrétt: Þér hættir stundum til að vera of ljótur ... Sjá mynd.

Ég þekki reyndar eintóma fallega Tvíbura sem aldrei eru ljótir, svo þarna brást stjörnuspánni bogalistin: Önnu vinkonu, Þorgeir Ástvaldsson, Angelinu Jolie, Boggu vinkonu, Kristján Jóhannsson, Johnny Depp, Bubba Morthens og Marilyn Monroe (í gegnum miðilsfundi). 

 

Nóakropp„Gurrí þó!“ æpti stráksi upp yfir sig þar sem ég stóð við gluggann og var að bíða eftir að ketti (Krumma) þóknaðist að færa sig svo ég gæti skipt á rúminu. Ég vissi alveg um hvað stráksi var að tala svo ég horfði staðföst á hann og sagði: „ALDREI, ALDREI GEFA MÉR NÓAKROPP ÞEGAR ÉG LIGG UPPI Í RÚMI Á HITAPOKA!“ (Bakið e-ð að angra mig) Honum fannst þetta svooo fyndið en ég vissi ekki að Nóakropp gæti skriðið og fært sig til í rúmi svo nokkrir ljósbrúnir blettir kæmu á ansi hreint vandræðalega staði í lakinu ... mest þó undir bakinu á mér, frekar neðarlega samt! Bara HVERNIG? Ég er mjög óvön því að snæða mat eða sælgæti eða bara nokkuð þegar ég er útafliggjandi svo að klaufaskapurinn í mér við að borða lúku af Nóakroppi olli þessari mikilli skemmtun hjá stráksa. Hér á þessu heimili vöxum við seint upp úr prumpbröndurum. „Þetta verð ég að segja Hildu,“ sagði stráksi. „Ég skal gefa þér þúsundkall ef þú gerir það ekki!“ Hann lætur ekki múta sér, eins og ég vissi svo sem, svo ég játa þetta hér með fyrir alþjóð svo hann geti aldrei notað þetta gegn mér.

 

Svona æsispennandi getur lífið verið hér í Himnaríki. Gleði mín er líka mikil því þetta er síðasti dagurinn í bili sem Hilda getur beitt mig aldursofbeldi, því tölulega séð verður hún, á morgun sem sagt, aðeins einu ári yngri en ég. Alveg fram í ágúst þegar það verða „tvö ár“. Hún heldur svaðalegt partí á morgun, eins og alltaf, jólasveinn og allt, og ég fer með allar gjafirnar frá mér til minna þangað og með því er ég nánast laus við að keyra út yfir 20 gjafir með strætó. Bílstjórarnir eru aldrei til í að bíða bara í þrjár mínútur á meðan ég hleyp ... ekki einu sinni þótt ég bjóðist til að lauma að þeim eins og fimmtíu krónum.


Sparifoldin og fleira jóló

JólasveinanafniðÞegar maður man allt í einu eftir fundi sem verður um hádegisbil á morgun, þá nýkomin úr kvöldbaði og stefnan tekin á ból og bók næstu korterin, og uppáhaldsbuxurnar í óhreina tauinu, setur maður í vél og sest við blogg til að geta nú örugglega sett í þurrkarann og svooo farið í ból. Annars gætu syfja og leti spillt fyrir fagurlegri framsetningu minni á sjálfri mér.

 

Eftirmiðdagurinn sem átti að fara í eintóm leiðindi (tiltekt) fór í óvæntan, ögrandi prófarkalestur. „Þetta er voða lítill texti, því miður á pdf-i,“ sagði vinur minn. Eftir gríðarlega einbeitingu í fjóra tíma, hugsaði ég: Jæja, lítill texti, er það virkilega? þá búin á sál og líkama, enda ekki um að ræða spennandi glæpasögu, eins og stundum, heldur nokkuð sem tengist efnum og þrifum á vissum hlut sem ég hef aldrei eignast og langar ekkert í en samt er þetta mjög vinsælt dæmi. (Ath. Ekki getraun) Samt tel ég mig hafa sloppið vel frá deginum, Himnaríki er á hvolfi. Ég eldaði suddalega góðan mat ofan í okkur stráksa. Þorsk, hrísgrjón og salat. Frá Eldum rétt, auðvitað. 

 

Facebook rifjar annað slagið upp skemmtilegar minningar og sumar eru hreinlega sjokkerandi og með spádómsívafi. Hvern hefði grunað að fyrir tíu árum hefði ég sett orðið gamlárskvöld í stafavíxlvélina (sem er óvirk, snökt) og fékk orðin lágmarksdvöl, vargöld kláms OG ... varg-skálmöld!!! Að ég skyldi svo, tæpum tíu árum seinna, hlusta á sniðugt vídjó á YouTube í gegnum einhvern á Facebook, og fengi svo í framhaldinu nokkur lög með Skálmöld sem nánast samstundis varð uppáhaldshljómsveitin mín (fyrirgefðu, Radiohead, fyrirgefðu, Pink Floyd, fyrirgefðu, Wu Tang Clan og miklu fleiri).

 

Fyrir þrettán árum skemmti ég mér vel yfir bókinni Biðukollur út um allt (eftir Kleópötru ...?). Efni hennar: Dauðvona, hjartahrein aðalsöguhetja sækir mikla visku til sorphreinsunarmanns (í fimm mínútur alla miðvikudaga) sem kennir henni að berja fólk (með orðum). Hann er eini karlmaðurinn í bókinni sem ekki er „þroskaheftur“. Þetta skrifaði ég næstum orðrétt á fb-síðu mína þá.

 

MYND: Facebook bauð upp á leik í dag, finndu jólasveinanafnið þitt ... ég er Gluggastaur, stráksi er Yngisgámur, Hilda er með fyndnasta nafnið, Skyrskræfa. Ykkur er velkomið að leika ykkur. Ekkert að þakka.

 

Annars í dag, 12. des. má geta þess að þetta er u.þ.b. 33. tólftidesemberinn í röð sem ég fæ ekki í skóinn. Það er alltaf jafnerfitt en ... ég fæ þó iðulega pakka frá jólasveininum á aðfangadagskvöld (grunar vissa ættingja sem vilja halda mér í góðu skapi en er samt ekki viss). Stráksi er sérfræðingur í jólasveinum (og álfum) og eftir að ég sagði honum frá heilögum Nikulási sem bjó í Mýru (nú Tyrklandi) og dó 6. des., gerði ýmis kraftaverk, bjargaði meira að segja lífi ungra drengja sem búið var að skera í bita og salta í tunnu (ekki lesa um dýrlinga ef þið eruð viðkvæm), hann fleygði gullpeningum inn um glugga (þarna byrjaði það) hjá þremur fátækum systrum en þeirra beið ekkert nema gatan og þaðan af verra sem ég útskýrði þó ekkert nánar. Löngu, löngu seinna kom stráksi með spjaldtölvuna  til mín og benti á frétt sem hann hafði gúglað: „Fornleifafræðingar telja sig hafa fundið hina fornu Mýru.“ Þetta var frétt á ensku og ég hafði ekki hugmynd um að hann kynni orð í ensku. Ég er gríðarlega montin af þessu og hef mögulega bloggað um þetta áður. En miðað við allt og allt ætti hann ekki að hafa getað þetta. Litli snillingurinn! 

 

Fyrir ári sagði ein af fjölmörgum systrum mínum frá jólatónleikum sem hún hafði farið á og valdið henni miklum vonbrigðum. Frekar litlir og hógværir tónleikar en það kostaði nú samt helling inn á þá. Hún hafði góða reynslu af þessu tónlistarfólki en þarna í fyrra var hún ósátt við algjört skipulagsleysi, langar þagnir á meðan var verið að ákveða hvaða lag yrði næst, allt í þessum dúr sem hafði slæm áhrif á upplifun gestanna. Ég mundi eftir þessu þegar ein vinkona mín af Skaganum fór að tala um frábæra tónleika sem hún hefði farið á fyrir mörgum árum, og væru eiginlega bestir allra í minningunni, og það með sömu flytjendum og systir mín var svo svekkt út í. Ég hef látið mér nægja minninguna um Jólasöngva Kórs Langholtskirkju sem ég tók sjálf þátt í um hríð og fór svo nokkrum sinnum á eftir að ég hætti í kórnum. Sat eitt skiptið uppi, beint fyrir aftan þáverandi prestinn þar og sá að hann stóð upp, mjög pirraður, þegar gestir tónleikanna dirfðust að klappa í kirkjunni hans. Uss, við vorum allt of frjálslynd í þá daga ...

Uppáhalds-alltaf var og er Fögur er foldin, í sænskri útgáfu, við kölluðum það spari-foldina og það var gaman að syngja hana. Það var svo tengt jólunum í mínum huga en ég spurði samt fyrir útför sonar míns hvort það væri viðeigandi. Ójá, heldur betur. Og kórinn flotti, kammerkór Kórs Akraneskirkju (m.a. Steini í Dúmbó) tók spari-foldina. Rosalega góður átta manna kór. Þau tóku líka Ave Maria eftir Eyþór Stefánsson, reyndar bara konurnar, en ég heyrði það fyrst í flutningi Karmelsystra í Hafnarfirði. Eitthvað sem mætti svo innilega koma inn á YouTube.

En fyrst ég fann spari-foldina á YouTube gat ég ekki stillt mig um að leyfa ykkur að njóta:  

      


Jólamyndir - ómissandi hryllingur

SjónvarpsþátturGærkvöldið fór í sömu ómennskuna og dagurinn, eða ekki í að flokka gjafir og gjafþega saman. Um 30 manns gjafir. Held að ég hafi náð að gera það í dag, svona að mestu. Nú sé ég svolítið eftir því að hafa ekki keypt alla vega tíu jólagjafir í Glasgow ...

Inga mætti upp úr sjö, ekki til að heimsækja mig, heldur horfa á dóttur sína keppa í æsispennandi spurningakeppni á Stöð 2. Þar kepptu ÍA gegn ÍR. Sjá mynd! Okkur Ingu gekk frábærlega í sófanum mínum og gátum svarað sumu sem liðin voru í vandræðum með. Sigrún hefði átt að hafa okkur með. Hugskeyti dugðu ekki til því við notuðum nýjustu tækni við að horfa á byrjaðan þátt frá byrjun. Þið tæknivædda fólkið skiljið hvað ég á við.

 

 

Ég átti smávegis suðusúkkulaði og pínkulitla (fyrir einn) flösku af freyðivíni (keypt í fríhöfninni í okt.) sem ég hellti í glös fyrir okkur. Lítil vatnsglös, alltaf sami plebbinn. Það jók okkur nú samt kjark og þor til að horfa á tvær jólamyndir frá árinu 2022. Sú fyrri fjallaði um unga fjölskyldulausa konu (mamman dó þegar hún var níu ára og hún vissi ekkert um föður) sem að gamni sendi DNA í Find my family-eitthvað, í þeirri von að finna kannski fjarskylt frændfólk. Hún fann heilan föður úti á landi, sem reynist algjör dásemd og ekki er konan hans síðri og hann býður henni að verja með þeim jólunum, hann hafði ekki haft hugmynd um tilvist hennar. Bróðir og tvær systur í kaupbæti, auðvitað miklu yngri en hún. Hún hafði val um fjölskyldujól eða hámhorf með hundinum sínum á 50 jólamyndir. Ungur maður, fjölskylduvinur, lögmaður, munaðarlaus, pabbi hans var í hernum með þessum nýja pabba hennar, ætlaði að kippa henni og hundinum með út á land.

„Hann verður ábyggilega sætur og þau ná saman,“ sagði ég spámannslega við Ingu. Hann reyndist semi-sætur og spádómur minn var líklegur til að rætast. Hún var í drapplitaðri kápu (ég dey í drapplitu) en setti fallegan vínrauðan trefil um hálsinn sem breytti bókstaflega öllu. Kannski þess vegna tók ég eftir því að í hverju útiatriði myndarinnar eftir það var hún komin í nýja yfirhöfn (fjórar alls), samt var ferðataskan hennar lítil. Vissulega án jólagjafa en samt bara lítil. Við Inga flissuðum bara.

Þegar hún var farin að elska nýju fjölskylduna sína afar heitt og fjölskyldan hana, og sá sem keyrði hana orðinn ástfanginn af henni, fékk hún SMS frá DNA-fyrirtækinu um að mistök hefðu verið gerð, önnur kona, alnafna hennar, hefði átt að fá skilaboðin um föðurinn. Pabbinn fékk líka staðfestingu á þessu með dótturina, en ekki um mistökin. 

Hún lét heilan dag í fjölskyldudásemdarsamveru líða án þess að viðurkenna sannleikann en svo gerði hún það loks við mikla sorg allra og vinkona hennar sótti hana. Hún og pabbinn voru reyndar með sitthvort nafnið á mömmunni og staður sem látna mamman hafði búið á vissi dóttirinn ekkert um, en það voru bara smáatriði, héldu þau. 

Sólardásemd við Langasand„Ef ég væri handritshöfundurinn, myndi ég láta fjölskylduna fara til hennar í New York og klára jólin með henni,“ hélt ég áfram og Inga var sammála. Eitt sem ég sá ekki fyrir var að pabbinn fann loksins mynd af gömlu ástinni sem hann týndi (óléttri) og nýja dóttirin var alveg eins og hún, svo DNA-fyrirtækið var í ruglinu. Auðvitað má ekki hleypa ó-blóðskyldum inn í fjölskyldu um jólin, hvað var ég að hugsa? Maður lætur frekar litlu stúlkuna með eldspýturnar frjós- 

Þetta rættist og skömmu seinna kom ungi lögfræðingurinn sem skutlaði henni og bað hennar á bak við jólatréð sem fjölskyldan hafði tekið með. Hundurinn sást hvergi og mér datt helst í hug að hann hefði sloppið út í öllum látunum. Hvar var ég þegar allir hnútar voru hnýttir?

 

Mynd 2: Þetta þarf ég að þola / búa við ...

 

Varð líka vör við í spennusögunni sem ég er að hlusta á núna að grunaður maður í morðmáli slapp að heiman þrátt fyrir að vera vaktaður (með því að beina athygli löggunnar annað) sem átti kött, að dýravernd var ekki höfð í huga. Ósennilegt að maðurinn kæmi nokkurn tímann aftur á heimilið og þegar rannsóknarfólkið kom datt það nánast um köttinn sem fór inn og út um glugga þar. Hefðu þau ekki átt að fylla allt af mat og vatni eða láta dýraeftirlitið vita? Er ég of smásmuguleg eða eiga rithöfundar (og leikstjórar) að passa upp á svona hluti?

 

Allar eins ...Hin myndin var eitthvað ögn flóknari, ekki jafnaugljós og hefðbundin, og ofnotkun á yfirhöfnum átti sér ekki stað í henni. Það var þarna önnur girnileg en sama aðalleikkonan og sú sem fann pabba sinn, svo það hefði verið eins og framhjáhald að horfa á hana. Seinni myndin: Minnislaus kona á spítala, karlkynshjúkka þar ákveður að aðstoða hana við að endurheimta minnið með því að elta einu vísbendinguna sem finnst um hana. Og já, maðurinn sem hún faðmaði við jólatréð og litla stelpan sem kom hlaupandi og heilsaði, voru ekki maður hennar og barn, heldur mágur og litla frænka - sem hjúkkinn sá úr fjarlægð og fór, asninn sá. En auðvitað náðu þau saman.

Þetta eru hræðilegar myndir en samt algjörlega ómissandi afþreying væminna kvenna í biðinni eftir jólum. Ég er búin að sjá Die Hard of oft ... og hef Hildu systur grunaða um að hafa horft á Holiday án mín.

 

Eftir að gömul og góð vinkona afþakkaði dagbók fyrir næsta ár (Fucking 2024 stendur framan á henni) þar sem hún notar aðeins rafræna, fór ég að prófa það sjálf og nú finnst mér ekkert vit í því að nota venjulega dagbók ... síminn er alltaf við höndina og komandi viðburðir skráðir samviskusamlega þar. Það er heilmargt fram undan á næstunni: Þann 12. des. fer stráksi á tónleika og ég má koma með, ef hans hátign samþykkir. Daginn eftir er fundur. Þann átjánda á bráðum eldgamla systir mín afmæli og nítjánda ætla ég í löns með vinkonu. Eini gallinn er að rafræna dagbókin minnir mig ekki nógu hávært á atburðina - þarf að reyna að laga það.

Hef fiktað mig fróðleiksfús áfram, stundum með hræðilegum afleiðingum ÓVART. Stundum þegar ég fletti snappinu mínu ýti ég á eitthvað og sendi í leiðinni manneskjunni tjákn sem passar örugglega alls ekki við innihald þess sem ég var að horfa á, er jafnvel óviðeigandi! Hver man ekki þegar kinnin á mér breytti algjörlega messenger-samskiptum okkar Hildu systur, í staðinn fyrir þumal, fær hún pylsu með öllu! Þá var ég að hlusta á Storytel í strætó með símann við eyrað, en láðist að slökkva á skjánum. Þetta er orðið vandræðalegt. Held að ein Skagakona hafi hent mér út vegna þessa og mamma hennar er hætt að heilsa mér. Ég hef pókað ÓVART nýlátinn mann á Facebook (poke, pot, hnippt í, mjög hallærislegt viðreynsludæmi), ég hef sent látinni manneskju afmæliskveðju ÓVART, sett hláturskarl við sorglega færslu ÓVART, náði að leiðrétta það í hvelli en samt of seint ... Já, það er stundum vandlifað. 


Spælandi símtal og gleðirík bæjarferð

JólamarkaðurSíminn hringdi, ahh, Hilda, hugsaði ég glöð og svaraði. 

„Halló!“

„Er þetta Gleymríður, eldgamla risastórasystir mín?“ sagði kuldaleg rödd, gemsinn hrímaði. Ég hló hátt en gat ekki leynt pirringi mínum. Í dag eru „tvö ár“ á milli okkar systra en eftir níu daga verður bara „eitt ár“ (frá 12. ágúst til 18. des. ár hvert er líf mitt algjört helvíti þegar kemur að aldursfordómum litlu systur).

„Hringdir þú bara til að særa mig svöðusári svona rétt fyrir jól?“ spurði ég. Rödd mín titraði. Djöfull skal ég gefa henni hallærislega jólagjöf. Vatteraður greiðslusloppur kom upp í hugann. Eða bjóða henni kannski með á Skálmaldartónleikana? Það væri ljót hefnd gagnvart konu sem hlustar ekki á rokk.

„Nei, en gleymskan í þér er fáránleg, nema þú hafir verið að ljúga að mér fyrir þremur árum,“ sagði Man-allt-hildur og hélt áfram. „Þú fórst í neglur í heimahúsi, ekki fótsnyrtingu,“ hélt hún ótrauð áfram, „ég á ekki að þurfa að muna allt fyrir þig en allar vinkonur mínar á Skaganum hafa hringt og viljað fá númerið hjá þögla fótafræðingnum! Hafa beðið mig að spyrja þig. Þú sagðir mér alla vega að konan sem gerði neglurnar á þér flottar hafi verið fúl af því að þú hafir ekki viljað gel, bara láta snyrta og lakka, en þú hafir farið á snyrtistofu með tærnar og það hafi verið fínt. ERTU VIRKILEGA ORÐIN SVONA RUGLUÐ?“

„SPEGILL!“ þrumaði ég. Þarna heyrði ég jólagjöfina mína frá henni lækka í verði og má einnig búast við hnetusteik á minn disk á aðfangadagskvöld, með rúsínusósu, döðlumauki og möndlukartöflum, ef ég þekki hefndarþorstann í ættinni rétt (sjá bloggfærslur um litla rúsínukassann sem ég finn reglulega á ólíklegustu stöðum í Himnaríki og í martröðum mínum). 

„Hvað segirðu annars gott?“ sagði systir mín hressilega.

„Bara alltiddafína,“ svaraði ég. Og svo ræddum við um sitt af hverju en ég þorði ekki að minnast á jólamat til að gefa henni ekki hugmyndir. En svona er líf mitt, ég gleymi, hún man. Hún er löngu hætt að trúa mér þegar ég segi henni að þegar fólk er utan við sig og gleymið sé það bara gáfumerki. Hún vill hafa hlutina rétta og hikar ekki við að leiðrétta mig fyrir framan sæta karla sem missa jafnvel samstundis áhuga á mér, það er pottþétt það, heyrnarleysi mitt í háværri tónlist og „heimakærð“ mín kannski líka, sem er ástæðan fyrir skammarlega fáum giftingum síðustu árin.

 

Heklí heklÞar sem ég sat í „leti“ minni og heklaði lítið barnateppi úr plötulopa (í jólagjöf), hlustaði á glæpasögu á Storytel (geymi bækurnar sem ég keypti mér til jóla) og gaut augunum á fótboltann í sjónvarpinu heyrðist bling í símanum mínum. Inga.

 

Eigum við að skella okkur til Ástu (í Gallerí Bjarna Þórs), á jólamarkaðinn og antíkskúrinn?“ spurði þessi frelsari lífs míns. Ég var sko til í það og við byrjuðum á stoppi hjá Ástu og áttum góða stund þar að vanda við spjall og konfektát.

Þá var stutt í jólamarkaðinn (sjá efri mynd) þar sem ég keypti fínustu eyrnalokka af Gísla löggu sem var svo oft samferða mér úr strætó upp Súkkulaðibrekkuna í gamla daga, það var ómetanlegt að fá lögreglufylgd í gegnum Hálsaskóg ... 

 

Tveir fallegir kertastjakar, stjakar sem ég hef þráð að eignast hálfa ævina komu svo með mér heim úr antíkskúrnum. Ég sýndi Kristbjörgu líka mynd af lampanum fagra úr síðasta bloggi og bað hana að hafa augun opin fyrir slíkri dýrð í næstu innkaupaferð til Danmerkur. Hann þyrfti ekki einu sinni að vera blár. Hún ætlar að gera það.

Ég keypti líka nokkrar jólakúlur hjá henni, nýja jólatréð er 1,80 m hátt og þá þarf að fjölga jólakúlum. Ef stráksi flytur í eigin íbúð á næsta ári finnst mér ekki ólíklegt að ég gefi honum tréð, hann er svo miklu meira jólabarn en ég ... eða hvað.

 

Hmmm, held að orðið jól komi fyrir tíu sinnum í þessari færslu, ellefu sinnum með þessu, og aðfangadagskvöld einu sinni. Afsakið, afsakið.        


Fríhelgi ... eða hitt þó heldur

Ég eftir helgiFríhelgi fram undan en það er víst mesta rangnefni því þessar helgar sem stráksi gistir að heiman eru notaðar í alls kyns verkefni sem hafa setið á hakanum. Skápatiltekt, þvotta, sukk eða svínarí en syndsamlega lítið karlafar. Nú verða jólagjafirnar teknar föstum tökum. Jú, ég hef vissulega keypt nokkuð margar (þrjár sniðugar í Glasgow) en þarf að fara að flokka og pakka inn (setja í jólapoka sem ég keypti í Costco) svo ég kaupi ekki of margar, það er nefnilega hægt. Keypti bók fyrir eina frænkuna en mundi þá að ég hafði keypt eitthvað vellyktandi og dásamlegt í búð sem selur uppáhaldsmerkið hennar, svo ég hirði sennilega bókina sjálf. Eiginlega bara tilviljun að ég keypti nokkuð ytra, var í borgarferð, ekki innkaupaferð. Ég hélt að ég gæfi svo fáar gjafir en með þriðju vaktinni sem ég tek fyrir stráksa sýnist mér þetta vera hátt í þrjátíu. Er að hugsa um að raða gjöfum á umbúið rúm mitt, skrifa miða með öllum gjafahöfum mínum, setja réttan miða við rétta gjöf ... pakka inn og kaupa, ef vantar, eitthvað handa lausu miðunum. Ég gef eitthvað sem er fólki lífsnauðsynlegt, eins og bækur, góða lykt, sælgæti ...

 

Ég er gleymari. Einn af örfáum, ef nokkrum, göllum mínum. Hafði keypt dýrindis meðlætisskála-skál handa Hildu systur eitt árið - í afmælisgjöf (18. des.), gaf henni hana nokkuð fyrirfram og steingleymdi því svo þegar ég rambaði inn í sætu búðina hennar Dýrfinnu gullsmiðs, skáhallt á móti spítalanum, og festi kaup á fallegu hálsmeni, einmitt í afmælisgjöf. Hilda tók þakklát við afmælissteinagullhálsmeninu en svolítið hissa. „Varst þú ekki búin að kaupa afmælisgjöf handa mér?“ og minnti mig á meðlætisskálaskálina. Ég er alltaf snögg að hugsa og svaraði: „Svona dásemd eins og þú á aðeins skilið það besta, eða tvær afmælisgjafir!“ Hún samsinnti því og ég fékk án efa talsvert dýrari og flottari jólagjöf frá henni fyrir vikið. Maður kann þetta. Lymsku-Gudda í essinu sínu.

 

TásurSvo pantaði ég mér fótaaðgerðartíma áðan, í fjórða skiptið á ævinni, og kemst að rétt fyrir jólin, pantaði fulla þjónustu en sökum lítillar notkunar á fótum (ég hata gönguferðir, munið, og get ekki gengið í hælaháum og þröngum skóm) er skammarlega lítið sigg á hælum en fínt að fá klipp og krem því þótt þurfi lítið að gera líður mér svo vel á eftir, svíf. Fór síðast fyrir tveimur eða þremur árum til konu í heimahúsi, en fannst erfið og skrítin orka í gangi þar - svo ég ætla annað. Mig minnir að upplifunin hafi verið einhvern veginn svona:

„Gjörðu svo vel og sestu hér.“ Þögn.

„Ertu héðan?“ spurði ég eftir fimm mínútur til að reyna að létta andrúmsloftið sem var svolítið þvingað. Það var sem sagt ekki gott að þegja með henni.

Löng þögn. „Nei, aðflutt,“ píndi hún sig til að segja.

„Hefurðu unnið lengi við þetta?“

Löng þögn. „Í einhver ár,“ svaraði hún varlega.

Ég gafst upp, enda betra að sitja, loka augunum og njóta þess að fá nudd og góð krem, og vonaði að hún léti varkárni sína í garð viðskiptavina ekki bitna á fögrum tám mínum. Sá að hún var álíka varkár (ég þoli ekki fólk-fálát) í garð næstu manneskju á eftir mér. Held að hún sé hætt, eða kannski bara flutt eftir að hafa snyrt skessurnar hérna á Skaganum. Hef ekki séð hana lengi, lengi. Kannski voru þetta uppgrip og hún með aðstöðuna að láni, að kaupa íbúð í Reykjavík og vantaði pening. Hún var ódýrari en annað í boði. Ég gerði einu sinni "uppgrip" í litlum bæ úti á landi og átti þar með fyrir litlu sjónvarpi til að gefa syni mínum í fermingargjöf. Tók eina helgi, frítt fæði og húsnæði hjá góðu fólki.

 

Hún reyndi alla vega ekki að selja mér Herbalife, eins og nuddarinn í Baðhúsinu um árið og gat ekki nuddað á meðan hann talaði og hann talaði allan tímann. Hún gæti svo sem hafa frétt af árum mínum í Leyniþjónustu Íslands og haldið að ég ætlaði með kurteisisspjalli í upphafi að fá upp úr henni öll subbulegu atvinnuleyndarmálin. Eins og að setja vaselín úr Bónus í tómu krukkurnar utan af rándýru fótasmyrslunum, að spara 50 aura á hvern kúnna með því að hafa vatnið alltaf fimm gráðum kaldara, að vera með á "biðstofunni" stolin tímarit frá tannlækninum hennar ... eitthvað slíkt. Maður veit aldrei! Sú sem var í gamla Arionbankahúsinu, þar sem tannlæknirinn minn er, og ég farið áður til var æði en þegar ég ætlaði næst í tásnyrtelsi ákvað ég að velja stofu sem hentaði betur að fara á og lenti í þessu. Ákvað að fara aftur til frábæru Arionbankahússkonunnar en hún bara hætti og ný kom í staðinn. Áður en ég gat farið til hennar flutti hún (í dag, í hús sem ég heimsótti daglega í nóvember þar sem ég tróð íslensku í námfúsa, dásamlega útlendinga). Hún virkar ansi fín og ég hlakka til að fara.

 

LampiÍ þjónustustarfi skiptir máli að vera almennilegur, sýna oggulítinn áhuga á fólkinu sem borgar t.d. núna tólf þúsund kall á tímann. Við Anna Júlía spjöllum stundum mikið, stundum lítið, þegar ég fer í klipp og lit, en mér líður alltaf eins og ég sé innilega velkomin. Það þarf þó enginn að vera eins og ein vinkona mín lýsti mér þar sem ég vann í Gjafahúsinu á Skólavörðustíg fyrir jólin (13 ára) og nánast hneigði mig fyrir viðskiptavinum, af einskærum almennilegheitum. Ég hef svo sem sagt frá því áður að þar hefði ég átt að skilja að stærðfræði væri mitt fag, eða eitthvað tengt tölum. Ég kunni verðið á hverri einustu vöru í búðinni og þær voru rosalega margar, alls konar kerti, körfur, punt og annað fínirí. Ég man flest póstnúmer eftir vinnu við að senda út póst á níunda áratugnum, og er ekki í rónni fyrr en ég fæ að vita hvað skjálftinn var stór eða var yfir því hversu margir greindust með covid á Vesturlandi. Tölurnar fullkomnuðu atburðinn í mínum huga, furðulegt. Kannski hefði ég verið best geymd hjá núll þremur (ja.is símleiðis). Ég fékk alla vega nokkur skrítin símtöl þegar ég vann í hálft ár á skiptiborðinu hjá DV (1983?) og fékk símtöl með spurningum um símanúmer.

MYND: Þennan fallega bláa lampa sá ég á netinu nýlega og sem nokkuð fallegulampasjúk manneskja féll ég fyrir honum. Hefur nokkur séð eitthvað í líkingu við hann hjá antíksölum hér á landi?  

 

KettirnirNú fer stráksi alveg að fara. Ég þarf að nota tækifærið áður en ruslamálaráðherra Himnaríkis fer að heiman, að skipta um kattasand og senda hann svo út með allt rusl, pappa, plast og það allt. Þetta eru fínar helgar án hans og það er svo gaman að fá hann aftur, og miklir fagnaðarfundir vegna fjarverunnar. 

Já, og svo er runninn upp sá tími að ég þori ekki að borga neitt sem kemur í heimabankann minn, valkvæðar greiðslur, heitir það, ekki þó að mig langi að styrkja það í eitt skipti. Í fyrra gerði ég það og fékk í kjölfarið upphringingar frá viðkomandi félagi með von um meiri peninga. Ég er með Kvennaathvarfið, SÁA, Samtök gegn ofbeldi og Landsbjörgu í hverjum mánuði og borga það með gleði, nokkrir fá árlega, en get ekki bætt við nema henda öðrum út sem ég tími ekki. Finnst þetta frekar leiðinleg aðferð við fjáröflun. Samt er svo mikil synd að við fólkið þarna úti þurfum að halda uppi alls konar góðgerðarfélögum þegar ríkið ætti að sjá um það. Ég hætti þó öllum stuðningi við Krabbameinsfélagið árið sem það hætti að koma til Akraness með brjóstaskimunarvél, tvo daga á ári. Það þurfti að fækka konum því það voru of fáir læknar til að lesa úr myndunum og okkur Skagakonum var fórnað, eins og ég hef oft skammast yfir. Ein afsökunin var reyndar sú að vélarnar væru ekki nógu nákvæmar en samt er farið með þær til Borgarness, eru þær þá nógu góðar fyrir konurnar þar? Samt veit ég að Krabbameinsfélagið gerir margt gott - en ég er enn grautfúl, eins og Gyrðir sem ætlar aldrei aftur að sækja um listamannalaun ... Það er víst algjört flækjustig að sækja um þau og ekki á allra færi. En ég vil endilega hafa listamannalaun, annars fengjum við bara Arnald og Yrsu (þau lifa á skrifunum) fyrir jólin. Við myndum hætta að vera þessi mikla menningarþjóð og berklaveikum ljóðskáldum undir súð myndi fjölga til muna. Svo er heilmikil vinna í kringum hvern sem fær listamannalaun, ef ég tek rithöfunda sem dæmi: prófarkalestur, útlitshönnun, prentun og alls konar.     


Heilsuléttir, tónleikaraunir og lausn á íslenskukennslu

TónleikarHálfnuð við að kaupa miða á Tix.is, á Skálmaldartónleika föstudaginn 1. nóvember á næsta ári, þar sem lög af m.a. plötunni Börn Loka (þar er Hel) verða leikin í Eldborgarsal Hörpu (þar sem í loftinu er birkikrossviður sem verkfræðingur sagði mér eitt sinn þegar ég skrifaði grein um myglu að væri algjört flopp að nota, ávísun á myglu, of rakur til að hann megi einangra/loka ... grenikrossviður væri miklu betri.) Ég stoppaði í miðjum klíðum, hikaði við að kaupa þessa tvo miða - ekki nenni ég ein og hverjum á ég að bjóða með mér? Ætti ég kannski að sækja um í kórnum sem syngur með? Það væri sennilega enn skemmtilegra.

 

Mér hefur sýnst að ég sé sóló í þessari óvæntu aðdáun og ást á Skálmöld sem mér skilst þó að forseti Íslands deili með mér. Hvað myndi Eliza segja ef ...? Væri samt kúl að fara á forsetabílnum. Mögulega væri Davíð frændi til í að koma, sá smekkmaður sem hann er á tónlist, en samt, nennir hann með háaldraðri móðursystur sinni á rokktónleika? Jafnvel þótt hún lofi að vera mjög stillt og ekki syngja hástöfum með? Svona geta nú einföldustu hlutir flækst fyrir manni. Legg ekki í að spyrja hann svo tix-dæmið verður á bið eitthvað áfram. Spurning um að fara á Tinder og finna þar tónleikafélaga, með fríðindum ef sæmileg huggulegheit eru til staðar, eða ef hann andar.

 

ApótekiðNýlega, eða á meðan ég var enn að kenna útlendingum íslensku í næsta nágrenni við 301 sveitina, notaði ég tækifærið og fór í apótekið. Ég spurðist fyrir um visst krem/dropa sem eru við vægu exemi og mitt útrunnið, hvort ég gæti fengið nýjan skammt út á fyrri lyfseðil frá lækni. Viðurkenndi að ég kynni lítið á Heilsuveru sem ég hefði ekki vitað af eða tekið í notkun fyrr en fyrst í covid, til að halda utan um bólusetningar, fyrir mig og stráksa. Elskuleg kona tékkaði á þessu fyrir mig og kom svo náföl og sjokkeruð til baka: „Það er EKKERT inni á gáttinni hjá þér!“ Svona eins og hefði komið tölvuvírus og allt horfið. Ég sagði henni að það gæti alveg passað, ég væri heilsuheppin en myndi prófa mig áfram í Heilsuveru til að reyna að fá nýjan lyfseðil fyrir dropunum. Henni létti en þetta vakti mig til umhugsunar, væri ég, kona á mínum aldri, afskaplega löt við að heimsækja lækna, kannski með dulinn sjúkdóm sem hefði ekki verið meðhöndlaður sem gæti endað með ósköpum, reykti ég ekki í áratugi (til 2020), væri ég ekki brjáluð í appelsínusúkkulaði, hataði ég ekki heilsusamlegar gönguferðir og virkaði ég ekki frekar feit á myndum?

Bíddu, bíddu, hugsaði ég, það væri kannski sniðugt að láta tékka á sykursýki, las ég ekki eitthvað um að það gæti verið mjög lúmskur sjúkdómur? Augun í mér eru stundum of þreytt til að ég geti lesið á vanalega mátann, nema loka hægra auga, móðgaði ég ekki fólk iðulega með því að sjá ekki inn í bíla hjá því og veifa til baka, af því ég sá það ekki, og fyndi ég ekki stundum fyrir þorsta (sérstaklega þegar ég hleyp upp stigana), eitthvað sem gerðist aldrei hér áður fyrr? Það var einmitt auglýsing á netinu þar sem fólk var beðið um að vera á verði gagnvart sykursýki 2. Ég hafði auðveldlega getað hakað í tvö box þar, minnti mig.

 

Þegar ég fór næst í apótekið, í hádeginu eftir kennslu, einmitt til að sækja dropana eftir að hafa getað stautað mig áfram á Heilsuveru, spurði ég hvort hægt væri að kaupa blóðsykurspróf þar. „Það er frítt,“ sagði sama elskulega konan. „Ég skal aðstoða þig.“ Og hún gerði prófið á mér á meðan ég sagði henni frá grunsamlegum einkennum mínum; hálfgerðum sjóntruflunum og þessum nýtilkomna þorsta (ja, síðustu misserin). Ég hefði sjaldan fundið fyrir þorstatilfinningu í gegnum tíðina. Hún horfði á niðurstöðuna, leit upp og sagði: „Ja, kannski ertu bara farin að finna fyrir eðlilegum þorsta því blóðsykurinn eftir að hafa borðað morgunmat (súrmjólk, púðursykur og kornflex) er 5,3 sem er í fínu lagi! Það væri ekki galið að prófa aftur og þá fastandi,“ bætti hún við.

 

Ég dansa við skrifborðiðÞetta var léttir og hvetur eiginlega til frekari heilsudáða, ég er farin að dansa aftur við skrifborðið ... sennilega get ég þakkað 10-þúsund-skrefum-á-dag-ferðinni til Glasgow og almennu hoppi og skoppi í kennslunni alla virka daga í fjórar vikur, fyrir að hafa lést um nokkur hætt-að-reykja-kíló því mér líður ekki lengur eins og ég sé að hrynja. Drama? Já, pínku.

 

Minni áhugasamt jólafólk á að seinni jólamarkaðsdagarnir verða um næstu helgi, lau og sun, í Landsbankahúsinu gamla við Akratorg. Það var svo ótrúlega margt flott og skemmtilegt að sjá þar síðast og verður án efa nú um helgina. Ég ætla alla vega aftur. Svo mikið líf og fjör.  

 

Facebook-njósnir dagsins:

 

Hildur nokkur Gunnarsdóttir segir á fb:

„Þetta ætti að hífa okkur aðeins upp listann.

Orðflokkagreining kennd með aðferðum Ólafar á Mýrum (og spyrjið mig ekki hvur í andsk. hún er): 

 

Nafnorð: er orð sem hægt er að setja -djöfullinn eða -djöflarnir fyrir aftan. t.d. pottdjöfullinn, bíldjöfullinn, kattardjöfullinn.

Lýsingarorð: er orð sem hægt er að setja drullu- fyrir framan, t.d. drullubrjálaður, drulluskemmtilegt, drullusúrt.

Sagnorð: er orð sem hægt er að setja „eins og andskotinn“ á eftir, t.d. drekka eins og andskotinn, hlaupa eins og andskotinn, reykja eins og andskotinn.

Hér er komin drullufín leið til að kenna eins og andskotinn krakkadjöflum íslenska orðflokka.“        


Leyniferðir, nýtt jólatré og ... mörkin

JólatréÆsispennandi ástand ríkir núna, alls konar leyniferðir farnar til að plata suma stráka því þetta er uppáhaldsárstíminn hans stráksa. Hér trúum við að sjálfsögðu á heilagan Nikulás og vonum að hann kíki við í nótt ... en ef ekki, þá allt í lagi. Sennilega er ég orðin of rígfullorðinn til að fá eitthvað en mögulega sleppa sumir við aldurstakmörkin.

 

Í hádeginu var farin sérstök leyniferð tengd nákvæmlega þessu en Inga bjargaði öllu með skutli þangað, því síestan sem innanbæjarstrætó tekur setti heilmikið strik í reikninginn varðandi leynd, ekki gaman að hitta á stráksa í strætó á leið hans heim úr skóla, sem hefði getað gerst, þá hyrfi nú leyndin. Svo þegar stráksi kom heim klukkan eitt, var Inga í kaffi hjá okkur, "nýkomin" og nú lá leiðin í Húsasmiðjuna til að kaupa jólatré. Ég fann eitt hátt (1,80 m) og grannt og keypti það, svo nú má aldeilis fara að jólast. Er ekki sagt að maður kaupi alltaf jólatré sem líkjast manni sjálfum? Ja, mér datt alla vega ekki í hug að kaupa lágt og breitt tré ... sem var líka til sölu þarna. Ég er 1,70 m að hæð sem slagar hátt upp í 1,80 og er talsvert fyrirferðarminni en tréð sem verður sýnt hér fullskreytt einhvern daginn. Vona að allir bíði spenntir ...

 

Nágrannastrákarnir mínir, sætu og góðu, fá gjafir sem við stráksi fundum í bæði bókabúðinni og Lindex ... og svo hittum við foreldra þeirra óvænt á bílaplaninu fyrir utan. Ég flissaði að sjálfsögðu innra með mér ... ef þau bara vissu, múahahaha. Flott föt á góðu verði og spennandi dót úr bókabúðinni. Þær hafa safnast upp gjafirnar og nú bara verð ég að fylla út listann, sjá hvað vantar og drífa í að pakka inn því sem komið er. Svo verða skiptin góðu í afmælinu hennar Hildu sem er ansi þægilegt fyrir bíllausa kerlu.

Ég hoppaði inn í Krónuna og ætlaði enn einu sinni að leita að Önnu Mörtu-pestóinu sjúklega góða en greip í tómt. Var svo heppin að finna afar liðlega starfskonu sem tjáði mér að pestóið hefði verið til en lítið selst, sem ég skil betur nú því ég leitaði alltaf á röngum stöðum, eða í kæli, eins og Hagkaup geymir það, eða geymdi, fann það ekki þar síðast, svo hún ætlar að reyna að panta það fyrir mig. Það skiptir greinilega ansi miklu máli hvar hlutir eru staðsettir, ekki hefði mér dottið í hug að leita í ítölsku vörunum hjá Jamie Oliver-pestóinu ... ég grannskoðaði allar kælihillur alls staðar oft og mörgum sinnum án árangurs. Ég er ekkert fyrir pestó - en þetta frá Önnu Mörtu (og Lovísu) er bara eitthvað annað og sletta af því yfir salat, á pítsu eða nánast hvað sem er gerir einhvern galdur. Þær systur (eineggja tvíburar) gera líka súkkulaði-Hringina sem eru til fjórar gerðir af, allar með hnetum, möndlum, döðlum eða rúsínum ... því miður svo ég kem ekki nálægt þeim, en gaf Ingu einu sinni og þetta var besta súkkulaði sem sú smekklausa (djók) vinkona hefur smakkað. Kannski ekki rúsínur, en hitt er allt þarna. Dæs.

 

PalestínaFólk er orðið ansi reitt og kannski styttist í búsáhaldabyltingu, miðað við það sem maður sér á samfélagsmiðlum, ósanngjörn meðferð á fötluðum og börnum af "röngum" lit er farin að valda fleirum en mér vanlíðan og reiði. Hvenær er mæting á Austurvöll? Ég kem, öskureið. Ég get bara ekki trúað því að landið mitt viðhafi svona stefnu í útlendingamálum ... og þegar valdafólk segir að það sé verið að fara eftir lögum, þá eru það nú bara nýleg lög sem Jón Gunnarsson setti, eftir að hafa verið látinn í skítverkin, nákvæmlega til að gera þetta. Ég er verulega reið út í ríkisstjórnina núna, eins og ég kann þó vel við sumt fólkið sem þar situr. Reiðin er sannarlega ekki bundin við kjósendur stjórnarandstöðunnar ... einhvers staðar eru mörk og það er verið að fara yfir þau núna, nefnilega. Við höfum auðvitað ekki getu til að hjálpa öllum en það er heldur ekki verið að biðja um það.

 

MeinsemdFacebook-fréttir:

Svo sem ekki margt í gangi akkúrat núna, ótrúlega margir að deila undirskriftalista vegna Palestínudrengjanna sem á að senda til Grikklands - og svo eru fréttir af heppni starfsmanna Landsbankans sem fá 200 þúsund í jólagjöf frá L.Í., ef ég skil það rétt. Fínt ef hinn almenni starfsmaður fær eitthvað, ekki bara þau sem stjórna og eru hvort eð er á himinháum launum. 

 

Á náttborðinu:

Var að enda við (að hlusta á) Meinsemd eftir hjónin Kim Faber og Janni Pedersen, bók nr. 2 sem hefur verið þýdd á íslensku. Var búin með Kaldaslóð sem er sú fyrsta. Ferlega fínar bækur, þykkar og safaríkar löggusögur. Sú þriðja heitir Kyrkjari og ég bíð spennt eftir henni á Storytel. Þarf að kíkja til augnlæknis því ég stend mig að því að hlusta frekar en að lesa (ég á þessar bækur allar þrjár nefnilega) því augun þreytast fljótt, hef sennilega lesið yfir mig á síðustu áratugum. Bunkinn sem bíður eftir að lesi, ekki hlusti, stækkar ört svo augnlæknir verður það á nýju ári.  

Nú er ég að hlusta á bókina Miðnæturrósin (eftir Lucindu Riley, sama höfund og bækurnar um systurnar sjö). Sannkallaður yndislestur. Er að hugsa um að hraðhekla teppi handa litlu nágrannastrákunum mínum til að þeir fái nú almennilega gjöf frá "ömmu" á meðan ég hlusta á hana (enn 12,5 klst. eftir á hraðanum 1,2), hún er ekta kósíbók sem hæfir síður við tiltekt og annað húsverkjatengt.      


Afasaga, JFK-uppljóstranir og flottar tungubreytingar

KennedyFacebook getur verið svo gefandi og allt of langt síðan ég hef birt skemmtilegan fróðleik þaðan. Ég sá ansi hreint fræðandi samtal þann 22. nóv. síðastliðinn og er fúl yfir því hvað margt hefur farið fram hjá mér!

Maður setti eftirfarandi stöðufærslu hjá sér fyrir ofan mynd af Kennedy forseta: „Sextíu ár liðin síðan melurinn hann L.B. Johnson lét drepa þennan snjalla mann.“

 

Athugasemdir

„CIA pottþétt, sjá JFK-myndina.“

„Kennedy var drepinn vegna þess að hann vildi taka seðlaprentunina úr höndum seðlabankans. L.B. var bara asni og strengjabrúða. Eigendur svikamyllu bankakerfisins drápu Kennedy.“ 

„Það voru Bush og félagar sem sáu um framkvæmdina, restina getur þú rakið til Svíþjóðar!“ Svar: „100 pr sammála.“

„Sömu menn og drápu hann stjórna Íslandi í dag. Finnst ykkur það ekki æði?“

 

Ef þetta síðasta er rétt er búið að finna upp yngingarlyf (Eilíf æska-hvað!) án þess að láta okkur hin vita. Ég hefði haldið að þau/þeir/þær sem bera ábyrgð á morðinu væru löngu komin/komnir/komnar undir græna torfu. Það voru vissulega slagsmál í Krónunni í Lindum nýlega út af "snyrtivörum" sem gæti þó sett þetta í samhengi. Leyfið mér að hugsa.

 

UppeldiSvo sá ég annað og enn betra á Facebook, aðallega um afa og ömmur sem við vitum öll að eru besta fólk í heimi. Hér er ein sagan: 

Afi nokkur varð fyrir því að kónguló beit hann. Eitthvað bar hann sig aumlega á eftir svo dóttursonurinn fór til að sækja græðandi smyrsl handa afa. Hann var að fara út úr herberginu afi hans sagði: „Kominn á þennan aldur höndla ég bara alls ekki þá ábyrgð að vera Kóngulóarmaðurinn.“

 

Uppeldi var svo gjörsamlega allt öðruvísi í gamla daga. Mín kynslóð þurfti að borða mjög vondan og oft næringarsnauðan mat og samviskubit okkar var virkjað ef við reyndum að leifa hryllingnum. Þá var talað um svöngu börnin í Biafra. Litla systir spurði mömmu eitt sinn hvort mætti ekki senda matinn hennar þangað ... ég hefði ekki dirfst. Okkur var ekki skutlað, það hefði gert okkur óþekk. Við systkinin fengum vasapening sem dugði fyrir ís en ekki dýfu sem hefði gert okkur óþekk. Ég segi ekki að við höfum verið flengd góða nótt en það hefði ekki þótt tiltökumál á mörgum heimilum. Svo fór ég að heyra sögur frá Svíþjóð, þá komin yfir tvítugt. Ef sænsk börn köstuðu steini í glugga sem brotnaði sagði foreldrið: „Æ, ástardúskurinn minn, þetta var svo lítill gluggi, viltu ekki frekar brjóta þennan stóra, engilssnúllan?“

Ó, hvað það var gott að hneykslast á þessum frjálslyndu Svíum sem voru greinilega að búa til handónýta, ofdekraða kynslóð, það var nú annað en við.

 

Brúðkaup foreldraÞað var nú samt talað við okkur af minni kynslóð eins og við værum dekruð börn, því foreldrar okkar höfðu það svo skítt, að sögn, (mamma fékk reiðhjól í fermingargjöf, ég fékk skatthol, kommon) hvað þá afar okkar og ömmur.

Í nokkur ár eftir skilnað við fyrsta eiginmann minn var ég í eilífum þvottavandræðum, fékk að setja í vél hjá góðu fólki eða góð aðstaða með vélum fylgdi húsinu sem ég bjó í þá stundina. Svo þegar ég keypti á Hringbraut árið 1988, Einar var þá átta ára, tók ég lífeyrissjóðslán og keypti mér þvottavél og þurrkara sem dugðu vel til ársins 2020 sem segir helling um AEG-heimilistæki. Eldri kona sem ég þekkti hreytti út úr sér þegar ég sagði henni glöð frá nýkeyptu vélunum og þar með lausn á öllum mínum þvottavanda: „Þið þessar nútímakonur, hafið aldrei þurft að dýfa hendi í kalt vatn. Aldrei þvoði ég í sjálfvirkri þvottavél fyrr en eftir að börnin mín voru öll uppkomin.“ Hmm, hugsaði ég, send í sveit til að vinna frá 11 ára aldri, barnapía fyrst, svo heimilisverkaaðstoð, byrjaði 14 að verða 15 ára í fiski á sumrin (Grindavík, Vestmannaeyjar) og hef sennilega unnið við flest nema að vera þjónn á veitingastað, bókavörður eða starfsmaður á spítala. Ég notaði þennan barnaþrældóm þó aldrei sem vopn á son minn (f. 80) sem fór sjálfur að vinna 14 ára hjá BYKO með skólanum (Hagaskóla), til að geta keypt fyrstu tölvuna sína - og hann var í sveit flest sumur og stóð sig vel. Sú, þessi sem fussaði, hefði snúið sér við í gröfinni þegar ég fékk litla uppþvottavél (sem stóð á borði) í þrítugsafmælisgjöf frá fjölskyldunni. Þessar nútímakonur ... svei.

 

Svarthvíta myndin er síðan í gamla daga (1955?), úr giftingarveislu foreldra minna sem eru fyrir miðju. Pabbi stendur fyrir aftan skælbrosandi mömmu. Mínerva amma situr lengst til hægri.

 

Börn í dag? Nei, mér finnst við ekki ofdekra þau, við verndum þau kannski betur í breyttum heimi sem er þó bæði betri og verri en þegar ég var að alast upp. Þegar ég segi betri, á ég við að það er betri aðgangur að öllu, eins og t.d. tónlist og svo er hægt að gúgla* nánast allt.

 

Fyrir og eftirÍ gær kom Ellen frænka ásamt Elvari sínum í stóran og mikinn hjálparleiðangur. Það þurfti að hengja upp myndir í herbergi stráksa, ég þurfti ráð við einangrunar-plastdæmi í sturtuklefanum, klósettrúlluhaldarinn var dottinn af vegna fikts ... í Kela sko, eitthvað sem Elvar reddaði á núll einni á meðan Ellen bjargaði kommóðunni því ein kommóðuskúffan var ónothæf, skrúfa laus þar. Ég hafði því verið í vandræðum með síðbuxurnar mínar í margar vikur, því ég raða skipulega í skúffurnar, nánast í starwarsröð. Nærföt efst, þá sokkar, síðan bolir, svo buxur, næstneðst náttföt og í neðstu fer eitthvað sem erfiðara er að flokka (þykka föðurlandið úr Walmart, fínt í 20 stiga frosti, útprjónaðir ullarsokkar, of fallegir til að nota oft og lævíslegar strákaveiðigræjur, sem sagt bara eitthvað sem ég nota ekki (nógu) oft).

 

Eitt óvænt sem E og E gerðu var að snúa tungunni á tungusófanum og hafa hana hægra megin (sjá neðri myndina af þeirri samsettu, sú efri er fyrir-myndin) sem þýddi að þau þurftu að skrúfa hann allan í sundur til að geta gert það, elsku dúllurnar. Nú hefur stofan stækkað um nokkra fermetra, segir augað. Það sést kannski best þegar maður gengur inn í stofuna, af ganginum, en ég átti ekki slíka mynd til samanburðar.

Þrátt fyrir að hafa sópað saman glerbrotunum og ryksugað minnst tvisvar eftir að myndin af Kór Langholtskirkju í Flórens 1985, datt úr hillu og glerið brotnaði föstudaginn hræðilega þegar allt skalf í Grindavík og nötraði líka á Akranesi, náði elsku Elvar að stinga sig á glerbroti í öllum látunum við að breyta sófanum. Held að brot hafi leynst í fínu persnesku mottunni sem ég fékk á svo góðu verði í Portinu í Kópavogi. Hann fékk plástur á hnéð, eiginlega þrjá, vegna stöðugs blóðstreymis sem hætti ekki fyrr en við Ellen skipuðum honum að kósí-setjast á tunguhliðina og horfa á restina af Liverpool-leiknum. Myndirnar sýna að ég er ekki mikið fyrir að breyta ... held að séu alla vega tvö ár á milli þeirra.

 

Það er ekki orðið jólafínt hjá mér en ég er virkilega ánægð með útkomuna og það verður gaman að fara að jólast á næstunni. Pálmadóttir, hönnuðurinn sem hjálpaði mér við breytingarnar á Himnaríki ætlaði að snúa tungunni svona en gat það ekki þarna árið 2020, það virkaði algjörlega ómögulegt en Ellen frænka gúglaði* sófann (Jysk) og sá að það var hægt að ráða hvar tungan yrði. Og þá tóku þau upp skrúfjárnin. Ég var ánægð með sófann áður en finnst hann samt betri svona og gerir líklegra að ég nenni að setjast í hann og hafa það kósí á meðan ég horfi á eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu. Það hefur safnast svo mikið upp af góðu efni á þessum rúmu þremur árum sem ég hef varla nennt að kveikja á sjónvarpi. Í covid las ég villt og galið og fannst það æði. Samt með næstum allar sjónvarpsstöðvar sem hægt er að hafa. Jú, ég er manneskjan sem horfði næstum heilluð á Maður er nefndur í æsku því sjónvarp var svo mikið æði. Karlar að tala við karla um eitthvað óbærilega leiðinlegt en ... samt horfði ég. Og þegar kanasjónvarpið var, lögðum við systkinin eitt sinn pabba í mikla lífshættu í brjáluðu veðri þegar loftnetið á þakinu fauk til og við gátum ekki horft á Felix the cat. Ég sem man voða lítið frá þessum árum man þetta vel. Örvæntinguna miklu, alls ekki út af pabba að príla uppi á þaki á tveggja hæða húsi án öryggisbúnaðar, heldur yfir því að missa af barnatímanum! Börn í dag sem eru sjúk í síma og spjaldtölvur ná ekki með tærnar þar sem við systkinin höfðum hælana! Vondi maturinn, dýfulausi ísinn, það að þurfa að ganga heim með gaddfreðið hárið eftir sund og leikfimi og annað hræðilegt, var kannski mótvægisaðgerð - svo allt þetta sjónvarpsdekur gerði okkur ekki óþæg. Það skyldi þó ekki vera ...          


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 155
  • Sl. sólarhring: 615
  • Sl. viku: 2529
  • Frá upphafi: 1461624

Annað

  • Innlit í dag: 136
  • Innlit sl. viku: 2088
  • Gestir í dag: 134
  • IP-tölur í dag: 134

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Des. 2023
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Sérdeilis flott terta
  • Jón Gnarr og stráksi
  • Jörgen Klopp

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband