Spælandi símtal og gleðirík bæjarferð

JólamarkaðurSíminn hringdi, ahh, Hilda, hugsaði ég glöð og svaraði. 

„Halló!“

„Er þetta Gleymríður, eldgamla risastórasystir mín?“ sagði kuldaleg rödd, gemsinn hrímaði. Ég hló hátt en gat ekki leynt pirringi mínum. Í dag eru „tvö ár“ á milli okkar systra en eftir níu daga verður bara „eitt ár“ (frá 12. ágúst til 18. des. ár hvert er líf mitt algjört helvíti þegar kemur að aldursfordómum litlu systur).

„Hringdir þú bara til að særa mig svöðusári svona rétt fyrir jól?“ spurði ég. Rödd mín titraði. Djöfull skal ég gefa henni hallærislega jólagjöf. Vatteraður greiðslusloppur kom upp í hugann. Eða bjóða henni kannski með á Skálmaldartónleikana? Það væri ljót hefnd gagnvart konu sem hlustar ekki á rokk.

„Nei, en gleymskan í þér er fáránleg, nema þú hafir verið að ljúga að mér fyrir þremur árum,“ sagði Man-allt-hildur og hélt áfram. „Þú fórst í neglur í heimahúsi, ekki fótsnyrtingu,“ hélt hún ótrauð áfram, „ég á ekki að þurfa að muna allt fyrir þig en allar vinkonur mínar á Skaganum hafa hringt og viljað fá númerið hjá þögla fótafræðingnum! Hafa beðið mig að spyrja þig. Þú sagðir mér alla vega að konan sem gerði neglurnar á þér flottar hafi verið fúl af því að þú hafir ekki viljað gel, bara láta snyrta og lakka, en þú hafir farið á snyrtistofu með tærnar og það hafi verið fínt. ERTU VIRKILEGA ORÐIN SVONA RUGLUÐ?“

„SPEGILL!“ þrumaði ég. Þarna heyrði ég jólagjöfina mína frá henni lækka í verði og má einnig búast við hnetusteik á minn disk á aðfangadagskvöld, með rúsínusósu, döðlumauki og möndlukartöflum, ef ég þekki hefndarþorstann í ættinni rétt (sjá bloggfærslur um litla rúsínukassann sem ég finn reglulega á ólíklegustu stöðum í Himnaríki og í martröðum mínum). 

„Hvað segirðu annars gott?“ sagði systir mín hressilega.

„Bara alltiddafína,“ svaraði ég. Og svo ræddum við um sitt af hverju en ég þorði ekki að minnast á jólamat til að gefa henni ekki hugmyndir. En svona er líf mitt, ég gleymi, hún man. Hún er löngu hætt að trúa mér þegar ég segi henni að þegar fólk er utan við sig og gleymið sé það bara gáfumerki. Hún vill hafa hlutina rétta og hikar ekki við að leiðrétta mig fyrir framan sæta karla sem missa jafnvel samstundis áhuga á mér, það er pottþétt það, heyrnarleysi mitt í háværri tónlist og „heimakærð“ mín kannski líka, sem er ástæðan fyrir skammarlega fáum giftingum síðustu árin.

 

Heklí heklÞar sem ég sat í „leti“ minni og heklaði lítið barnateppi úr plötulopa (í jólagjöf), hlustaði á glæpasögu á Storytel (geymi bækurnar sem ég keypti mér til jóla) og gaut augunum á fótboltann í sjónvarpinu heyrðist bling í símanum mínum. Inga.

 

Eigum við að skella okkur til Ástu (í Gallerí Bjarna Þórs), á jólamarkaðinn og antíkskúrinn?“ spurði þessi frelsari lífs míns. Ég var sko til í það og við byrjuðum á stoppi hjá Ástu og áttum góða stund þar að vanda við spjall og konfektát.

Þá var stutt í jólamarkaðinn (sjá efri mynd) þar sem ég keypti fínustu eyrnalokka af Gísla löggu sem var svo oft samferða mér úr strætó upp Súkkulaðibrekkuna í gamla daga, það var ómetanlegt að fá lögreglufylgd í gegnum Hálsaskóg ... 

 

Tveir fallegir kertastjakar, stjakar sem ég hef þráð að eignast hálfa ævina komu svo með mér heim úr antíkskúrnum. Ég sýndi Kristbjörgu líka mynd af lampanum fagra úr síðasta bloggi og bað hana að hafa augun opin fyrir slíkri dýrð í næstu innkaupaferð til Danmerkur. Hann þyrfti ekki einu sinni að vera blár. Hún ætlar að gera það.

Ég keypti líka nokkrar jólakúlur hjá henni, nýja jólatréð er 1,80 m hátt og þá þarf að fjölga jólakúlum. Ef stráksi flytur í eigin íbúð á næsta ári finnst mér ekki ólíklegt að ég gefi honum tréð, hann er svo miklu meira jólabarn en ég ... eða hvað.

 

Hmmm, held að orðið jól komi fyrir tíu sinnum í þessari færslu, ellefu sinnum með þessu, og aðfangadagskvöld einu sinni. Afsakið, afsakið.        


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 32
  • Sl. sólarhring: 325
  • Sl. viku: 2274
  • Frá upphafi: 1456570

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 1905
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband