Jólamyndir - ómissandi hryllingur

SjónvarpsþátturGærkvöldið fór í sömu ómennskuna og dagurinn, eða ekki í að flokka gjafir og gjafþega saman. Um 30 manns gjafir. Held að ég hafi náð að gera það í dag, svona að mestu. Nú sé ég svolítið eftir því að hafa ekki keypt alla vega tíu jólagjafir í Glasgow ...

Inga mætti upp úr sjö, ekki til að heimsækja mig, heldur horfa á dóttur sína keppa í æsispennandi spurningakeppni á Stöð 2. Þar kepptu ÍA gegn ÍR. Sjá mynd! Okkur Ingu gekk frábærlega í sófanum mínum og gátum svarað sumu sem liðin voru í vandræðum með. Sigrún hefði átt að hafa okkur með. Hugskeyti dugðu ekki til því við notuðum nýjustu tækni við að horfa á byrjaðan þátt frá byrjun. Þið tæknivædda fólkið skiljið hvað ég á við.

 

 

Ég átti smávegis suðusúkkulaði og pínkulitla (fyrir einn) flösku af freyðivíni (keypt í fríhöfninni í okt.) sem ég hellti í glös fyrir okkur. Lítil vatnsglös, alltaf sami plebbinn. Það jók okkur nú samt kjark og þor til að horfa á tvær jólamyndir frá árinu 2022. Sú fyrri fjallaði um unga fjölskyldulausa konu (mamman dó þegar hún var níu ára og hún vissi ekkert um föður) sem að gamni sendi DNA í Find my family-eitthvað, í þeirri von að finna kannski fjarskylt frændfólk. Hún fann heilan föður úti á landi, sem reynist algjör dásemd og ekki er konan hans síðri og hann býður henni að verja með þeim jólunum, hann hafði ekki haft hugmynd um tilvist hennar. Bróðir og tvær systur í kaupbæti, auðvitað miklu yngri en hún. Hún hafði val um fjölskyldujól eða hámhorf með hundinum sínum á 50 jólamyndir. Ungur maður, fjölskylduvinur, lögmaður, munaðarlaus, pabbi hans var í hernum með þessum nýja pabba hennar, ætlaði að kippa henni og hundinum með út á land.

„Hann verður ábyggilega sætur og þau ná saman,“ sagði ég spámannslega við Ingu. Hann reyndist semi-sætur og spádómur minn var líklegur til að rætast. Hún var í drapplitaðri kápu (ég dey í drapplitu) en setti fallegan vínrauðan trefil um hálsinn sem breytti bókstaflega öllu. Kannski þess vegna tók ég eftir því að í hverju útiatriði myndarinnar eftir það var hún komin í nýja yfirhöfn (fjórar alls), samt var ferðataskan hennar lítil. Vissulega án jólagjafa en samt bara lítil. Við Inga flissuðum bara.

Þegar hún var farin að elska nýju fjölskylduna sína afar heitt og fjölskyldan hana, og sá sem keyrði hana orðinn ástfanginn af henni, fékk hún SMS frá DNA-fyrirtækinu um að mistök hefðu verið gerð, önnur kona, alnafna hennar, hefði átt að fá skilaboðin um föðurinn. Pabbinn fékk líka staðfestingu á þessu með dótturina, en ekki um mistökin. 

Hún lét heilan dag í fjölskyldudásemdarsamveru líða án þess að viðurkenna sannleikann en svo gerði hún það loks við mikla sorg allra og vinkona hennar sótti hana. Hún og pabbinn voru reyndar með sitthvort nafnið á mömmunni og staður sem látna mamman hafði búið á vissi dóttirinn ekkert um, en það voru bara smáatriði, héldu þau. 

Sólardásemd við Langasand„Ef ég væri handritshöfundurinn, myndi ég láta fjölskylduna fara til hennar í New York og klára jólin með henni,“ hélt ég áfram og Inga var sammála. Eitt sem ég sá ekki fyrir var að pabbinn fann loksins mynd af gömlu ástinni sem hann týndi (óléttri) og nýja dóttirin var alveg eins og hún, svo DNA-fyrirtækið var í ruglinu. Auðvitað má ekki hleypa ó-blóðskyldum inn í fjölskyldu um jólin, hvað var ég að hugsa? Maður lætur frekar litlu stúlkuna með eldspýturnar frjós- 

Þetta rættist og skömmu seinna kom ungi lögfræðingurinn sem skutlaði henni og bað hennar á bak við jólatréð sem fjölskyldan hafði tekið með. Hundurinn sást hvergi og mér datt helst í hug að hann hefði sloppið út í öllum látunum. Hvar var ég þegar allir hnútar voru hnýttir?

 

Mynd 2: Þetta þarf ég að þola / búa við ...

 

Varð líka vör við í spennusögunni sem ég er að hlusta á núna að grunaður maður í morðmáli slapp að heiman þrátt fyrir að vera vaktaður (með því að beina athygli löggunnar annað) sem átti kött, að dýravernd var ekki höfð í huga. Ósennilegt að maðurinn kæmi nokkurn tímann aftur á heimilið og þegar rannsóknarfólkið kom datt það nánast um köttinn sem fór inn og út um glugga þar. Hefðu þau ekki átt að fylla allt af mat og vatni eða láta dýraeftirlitið vita? Er ég of smásmuguleg eða eiga rithöfundar (og leikstjórar) að passa upp á svona hluti?

 

Allar eins ...Hin myndin var eitthvað ögn flóknari, ekki jafnaugljós og hefðbundin, og ofnotkun á yfirhöfnum átti sér ekki stað í henni. Það var þarna önnur girnileg en sama aðalleikkonan og sú sem fann pabba sinn, svo það hefði verið eins og framhjáhald að horfa á hana. Seinni myndin: Minnislaus kona á spítala, karlkynshjúkka þar ákveður að aðstoða hana við að endurheimta minnið með því að elta einu vísbendinguna sem finnst um hana. Og já, maðurinn sem hún faðmaði við jólatréð og litla stelpan sem kom hlaupandi og heilsaði, voru ekki maður hennar og barn, heldur mágur og litla frænka - sem hjúkkinn sá úr fjarlægð og fór, asninn sá. En auðvitað náðu þau saman.

Þetta eru hræðilegar myndir en samt algjörlega ómissandi afþreying væminna kvenna í biðinni eftir jólum. Ég er búin að sjá Die Hard of oft ... og hef Hildu systur grunaða um að hafa horft á Holiday án mín.

 

Eftir að gömul og góð vinkona afþakkaði dagbók fyrir næsta ár (Fucking 2024 stendur framan á henni) þar sem hún notar aðeins rafræna, fór ég að prófa það sjálf og nú finnst mér ekkert vit í því að nota venjulega dagbók ... síminn er alltaf við höndina og komandi viðburðir skráðir samviskusamlega þar. Það er heilmargt fram undan á næstunni: Þann 12. des. fer stráksi á tónleika og ég má koma með, ef hans hátign samþykkir. Daginn eftir er fundur. Þann átjánda á bráðum eldgamla systir mín afmæli og nítjánda ætla ég í löns með vinkonu. Eini gallinn er að rafræna dagbókin minnir mig ekki nógu hávært á atburðina - þarf að reyna að laga það.

Hef fiktað mig fróðleiksfús áfram, stundum með hræðilegum afleiðingum ÓVART. Stundum þegar ég fletti snappinu mínu ýti ég á eitthvað og sendi í leiðinni manneskjunni tjákn sem passar örugglega alls ekki við innihald þess sem ég var að horfa á, er jafnvel óviðeigandi! Hver man ekki þegar kinnin á mér breytti algjörlega messenger-samskiptum okkar Hildu systur, í staðinn fyrir þumal, fær hún pylsu með öllu! Þá var ég að hlusta á Storytel í strætó með símann við eyrað, en láðist að slökkva á skjánum. Þetta er orðið vandræðalegt. Held að ein Skagakona hafi hent mér út vegna þessa og mamma hennar er hætt að heilsa mér. Ég hef pókað ÓVART nýlátinn mann á Facebook (poke, pot, hnippt í, mjög hallærislegt viðreynsludæmi), ég hef sent látinni manneskju afmæliskveðju ÓVART, sett hláturskarl við sorglega færslu ÓVART, náði að leiðrétta það í hvelli en samt of seint ... Já, það er stundum vandlifað. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 30
  • Sl. sólarhring: 268
  • Sl. viku: 1572
  • Frá upphafi: 1460505

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 1253
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband