Afasaga, JFK-uppljóstranir og flottar tungubreytingar

KennedyFacebook getur verið svo gefandi og allt of langt síðan ég hef birt skemmtilegan fróðleik þaðan. Ég sá ansi hreint fræðandi samtal þann 22. nóv. síðastliðinn og er fúl yfir því hvað margt hefur farið fram hjá mér!

Maður setti eftirfarandi stöðufærslu hjá sér fyrir ofan mynd af Kennedy forseta: „Sextíu ár liðin síðan melurinn hann L.B. Johnson lét drepa þennan snjalla mann.“

 

Athugasemdir

„CIA pottþétt, sjá JFK-myndina.“

„Kennedy var drepinn vegna þess að hann vildi taka seðlaprentunina úr höndum seðlabankans. L.B. var bara asni og strengjabrúða. Eigendur svikamyllu bankakerfisins drápu Kennedy.“ 

„Það voru Bush og félagar sem sáu um framkvæmdina, restina getur þú rakið til Svíþjóðar!“ Svar: „100 pr sammála.“

„Sömu menn og drápu hann stjórna Íslandi í dag. Finnst ykkur það ekki æði?“

 

Ef þetta síðasta er rétt er búið að finna upp yngingarlyf (Eilíf æska-hvað!) án þess að láta okkur hin vita. Ég hefði haldið að þau/þeir/þær sem bera ábyrgð á morðinu væru löngu komin/komnir/komnar undir græna torfu. Það voru vissulega slagsmál í Krónunni í Lindum nýlega út af "snyrtivörum" sem gæti þó sett þetta í samhengi. Leyfið mér að hugsa.

 

UppeldiSvo sá ég annað og enn betra á Facebook, aðallega um afa og ömmur sem við vitum öll að eru besta fólk í heimi. Hér er ein sagan: 

Afi nokkur varð fyrir því að kónguló beit hann. Eitthvað bar hann sig aumlega á eftir svo dóttursonurinn fór til að sækja græðandi smyrsl handa afa. Hann var að fara út úr herberginu afi hans sagði: „Kominn á þennan aldur höndla ég bara alls ekki þá ábyrgð að vera Kóngulóarmaðurinn.“

 

Uppeldi var svo gjörsamlega allt öðruvísi í gamla daga. Mín kynslóð þurfti að borða mjög vondan og oft næringarsnauðan mat og samviskubit okkar var virkjað ef við reyndum að leifa hryllingnum. Þá var talað um svöngu börnin í Biafra. Litla systir spurði mömmu eitt sinn hvort mætti ekki senda matinn hennar þangað ... ég hefði ekki dirfst. Okkur var ekki skutlað, það hefði gert okkur óþekk. Við systkinin fengum vasapening sem dugði fyrir ís en ekki dýfu sem hefði gert okkur óþekk. Ég segi ekki að við höfum verið flengd góða nótt en það hefði ekki þótt tiltökumál á mörgum heimilum. Svo fór ég að heyra sögur frá Svíþjóð, þá komin yfir tvítugt. Ef sænsk börn köstuðu steini í glugga sem brotnaði sagði foreldrið: „Æ, ástardúskurinn minn, þetta var svo lítill gluggi, viltu ekki frekar brjóta þennan stóra, engilssnúllan?“

Ó, hvað það var gott að hneykslast á þessum frjálslyndu Svíum sem voru greinilega að búa til handónýta, ofdekraða kynslóð, það var nú annað en við.

 

Brúðkaup foreldraÞað var nú samt talað við okkur af minni kynslóð eins og við værum dekruð börn, því foreldrar okkar höfðu það svo skítt, að sögn, (mamma fékk reiðhjól í fermingargjöf, ég fékk skatthol, kommon) hvað þá afar okkar og ömmur.

Í nokkur ár eftir skilnað við fyrsta eiginmann minn var ég í eilífum þvottavandræðum, fékk að setja í vél hjá góðu fólki eða góð aðstaða með vélum fylgdi húsinu sem ég bjó í þá stundina. Svo þegar ég keypti á Hringbraut árið 1988, Einar var þá átta ára, tók ég lífeyrissjóðslán og keypti mér þvottavél og þurrkara sem dugðu vel til ársins 2020 sem segir helling um AEG-heimilistæki. Eldri kona sem ég þekkti hreytti út úr sér þegar ég sagði henni glöð frá nýkeyptu vélunum og þar með lausn á öllum mínum þvottavanda: „Þið þessar nútímakonur, hafið aldrei þurft að dýfa hendi í kalt vatn. Aldrei þvoði ég í sjálfvirkri þvottavél fyrr en eftir að börnin mín voru öll uppkomin.“ Hmm, hugsaði ég, send í sveit til að vinna frá 11 ára aldri, barnapía fyrst, svo heimilisverkaaðstoð, byrjaði 14 að verða 15 ára í fiski á sumrin (Grindavík, Vestmannaeyjar) og hef sennilega unnið við flest nema að vera þjónn á veitingastað, bókavörður eða starfsmaður á spítala. Ég notaði þennan barnaþrældóm þó aldrei sem vopn á son minn (f. 80) sem fór sjálfur að vinna 14 ára hjá BYKO með skólanum (Hagaskóla), til að geta keypt fyrstu tölvuna sína - og hann var í sveit flest sumur og stóð sig vel. Sú, þessi sem fussaði, hefði snúið sér við í gröfinni þegar ég fékk litla uppþvottavél (sem stóð á borði) í þrítugsafmælisgjöf frá fjölskyldunni. Þessar nútímakonur ... svei.

 

Svarthvíta myndin er síðan í gamla daga (1955?), úr giftingarveislu foreldra minna sem eru fyrir miðju. Pabbi stendur fyrir aftan skælbrosandi mömmu. Mínerva amma situr lengst til hægri.

 

Börn í dag? Nei, mér finnst við ekki ofdekra þau, við verndum þau kannski betur í breyttum heimi sem er þó bæði betri og verri en þegar ég var að alast upp. Þegar ég segi betri, á ég við að það er betri aðgangur að öllu, eins og t.d. tónlist og svo er hægt að gúgla* nánast allt.

 

Fyrir og eftirÍ gær kom Ellen frænka ásamt Elvari sínum í stóran og mikinn hjálparleiðangur. Það þurfti að hengja upp myndir í herbergi stráksa, ég þurfti ráð við einangrunar-plastdæmi í sturtuklefanum, klósettrúlluhaldarinn var dottinn af vegna fikts ... í Kela sko, eitthvað sem Elvar reddaði á núll einni á meðan Ellen bjargaði kommóðunni því ein kommóðuskúffan var ónothæf, skrúfa laus þar. Ég hafði því verið í vandræðum með síðbuxurnar mínar í margar vikur, því ég raða skipulega í skúffurnar, nánast í starwarsröð. Nærföt efst, þá sokkar, síðan bolir, svo buxur, næstneðst náttföt og í neðstu fer eitthvað sem erfiðara er að flokka (þykka föðurlandið úr Walmart, fínt í 20 stiga frosti, útprjónaðir ullarsokkar, of fallegir til að nota oft og lævíslegar strákaveiðigræjur, sem sagt bara eitthvað sem ég nota ekki (nógu) oft).

 

Eitt óvænt sem E og E gerðu var að snúa tungunni á tungusófanum og hafa hana hægra megin (sjá neðri myndina af þeirri samsettu, sú efri er fyrir-myndin) sem þýddi að þau þurftu að skrúfa hann allan í sundur til að geta gert það, elsku dúllurnar. Nú hefur stofan stækkað um nokkra fermetra, segir augað. Það sést kannski best þegar maður gengur inn í stofuna, af ganginum, en ég átti ekki slíka mynd til samanburðar.

Þrátt fyrir að hafa sópað saman glerbrotunum og ryksugað minnst tvisvar eftir að myndin af Kór Langholtskirkju í Flórens 1985, datt úr hillu og glerið brotnaði föstudaginn hræðilega þegar allt skalf í Grindavík og nötraði líka á Akranesi, náði elsku Elvar að stinga sig á glerbroti í öllum látunum við að breyta sófanum. Held að brot hafi leynst í fínu persnesku mottunni sem ég fékk á svo góðu verði í Portinu í Kópavogi. Hann fékk plástur á hnéð, eiginlega þrjá, vegna stöðugs blóðstreymis sem hætti ekki fyrr en við Ellen skipuðum honum að kósí-setjast á tunguhliðina og horfa á restina af Liverpool-leiknum. Myndirnar sýna að ég er ekki mikið fyrir að breyta ... held að séu alla vega tvö ár á milli þeirra.

 

Það er ekki orðið jólafínt hjá mér en ég er virkilega ánægð með útkomuna og það verður gaman að fara að jólast á næstunni. Pálmadóttir, hönnuðurinn sem hjálpaði mér við breytingarnar á Himnaríki ætlaði að snúa tungunni svona en gat það ekki þarna árið 2020, það virkaði algjörlega ómögulegt en Ellen frænka gúglaði* sófann (Jysk) og sá að það var hægt að ráða hvar tungan yrði. Og þá tóku þau upp skrúfjárnin. Ég var ánægð með sófann áður en finnst hann samt betri svona og gerir líklegra að ég nenni að setjast í hann og hafa það kósí á meðan ég horfi á eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu. Það hefur safnast svo mikið upp af góðu efni á þessum rúmu þremur árum sem ég hef varla nennt að kveikja á sjónvarpi. Í covid las ég villt og galið og fannst það æði. Samt með næstum allar sjónvarpsstöðvar sem hægt er að hafa. Jú, ég er manneskjan sem horfði næstum heilluð á Maður er nefndur í æsku því sjónvarp var svo mikið æði. Karlar að tala við karla um eitthvað óbærilega leiðinlegt en ... samt horfði ég. Og þegar kanasjónvarpið var, lögðum við systkinin eitt sinn pabba í mikla lífshættu í brjáluðu veðri þegar loftnetið á þakinu fauk til og við gátum ekki horft á Felix the cat. Ég sem man voða lítið frá þessum árum man þetta vel. Örvæntinguna miklu, alls ekki út af pabba að príla uppi á þaki á tveggja hæða húsi án öryggisbúnaðar, heldur yfir því að missa af barnatímanum! Börn í dag sem eru sjúk í síma og spjaldtölvur ná ekki með tærnar þar sem við systkinin höfðum hælana! Vondi maturinn, dýfulausi ísinn, það að þurfa að ganga heim með gaddfreðið hárið eftir sund og leikfimi og annað hræðilegt, var kannski mótvægisaðgerð - svo allt þetta sjónvarpsdekur gerði okkur ekki óþæg. Það skyldi þó ekki vera ...          


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 39
  • Sl. sólarhring: 438
  • Sl. viku: 2480
  • Frá upphafi: 1458547

Annað

  • Innlit í dag: 30
  • Innlit sl. viku: 2048
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Fallegustu menn í heimi
  • hvernig íslend sjá Evrópu
  • Siegfriedungjoy

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband