Húsfreyjugleði, strætósögur og kökuuppskrift

BjallanÓreglan er að verða algjör á þessu heimili. Ég vaknaði um áttaleytið í morgun (á sunnudegi!!!). Reyndar eftir níu tíma svefn. Dormaði að sjálfsögðu áfram með kött fast upp við bakið á mér. Krummi (miðköttur) tók upp á þeim svefnvenjum fyrir tæpu ári, hann er 12 og hálfs. Ég vissi ekkert hvað ég átti af mér að gera, í myrkri og í raun dagurinn ekki hafinn - þá dormar maður.

 

Þegar ég tók strætó heim á sunnudaginn fyrir viku (aldrei aftur klukkan 17.30 Akureyrarferðin) var vagninn troðfullur. Ég settist næstum aftast hjá öðrum villingi, pólskum manni sem býr á Hvammstanga. Hann fékk vinnu þar sem kokkur hjá Sjávarborg, geggjuðum matsölustað við sjóinn. Ég sagði þetta skemmtilega tilviljun, þar sem ég þekki fjölda fólks í 530 ... og ekkert smávegis frábært fólk, hann væri sannarlega heppinn með stað. Ég fann að ég þurfti ekkert að segja honum það. Nú bíður hann spenntur eftir almennilegum vetri og ég lofaði honum að hann fengi alveg örugglega meira en hálfs sentímetra háa snjóskafla eins og algengt er á Akranesi. Þannig að ég mun plata systur mína enn einu sinni að koma við á Hvammstanga (þarf ekki að pína hana) og snæða eins og eina góða máltíð hjá Davíd von Pólland.

 

Mynd 1: Ég svipaðist um eftir bjöllu, þar sem ég sat í fremsta sæti fyrir aftan afturdyrnar. Kannski yrði stráksi að standa upp til að ýta þegar við nálguðumst Garðabraut. Það var ekki fyrr en maðurinn sem sat í sætinu fyrir framan mig, hinum megin við ganginn hringdi bjöllunni við hnéð á mér að ég sá að ég sat á besta stað. Heklaði trefillinn sem grillir í er að sjálfsögðu eftir mig, allt of langur nema í frosti til að vefja fjórum sinnum um hálsinn. Hann er úr plötulopa og mjög hlýr.

 

JarðarberjatertaSmávegis bras var með greiðslu í strætó þegar ég fór í bæinn á föstudaginn, þannig séð, ég sagði bílstjóranum að drengurinn greiddi hálft gjald en ég fullt. Það hefði orðið sorglegur misskilningur í fyrrasumar sem nánast endaði með ofbeldi þegar ungi pólski bílstjórinn lét mig borga hálft gjald, hann sá ekki muninn á tæplega 64 ára konu og 67 ára með elliafslátt. Elsku bílstjórinn, þessi í fyrradag, er frá Úkraínu og bara í afleysingum, sagði þetta hræðilegt, svona gerðu bílstjórar ekki. Hann heitir Slava og hefur ekið mikið um bæði Noreg og Svíþjóð á trukkum. Hann sagði frábært að keyra hér, miklu minni vetur hér á suðvesturhorninu en hann ætti að venjast ... en eitt nýtt hefði bæst við hér - eða rokið. Oft þyrfti hann að ríghalda í stýrið (Hafnarfjall, Kjalarnes) til að haldast á veginum. Svo ók strætó út á veg 51 áleiðis að göngunum og við hættum að spjalla. Synd að hann verði bara í mánuð, eini ungi maðurinn á leið 57 sem hefur vit á aldri kvenna. Nema þessi frá Litháen, hann virðir okkur ætíð vandlega fyrir sér og stimplar inn rétt fargjald. Annaðhvort aldursglöggur eða farinn að þekkja okkur stráksa. Ef ekki væri fyrir frábæru bílstjórana myndi ég heimta nýja Akraborg. Ég sakna hennar svo mikið.

 

Mynd 2 tók ég á hárgreiðslustofunni þegar ég fór í klippingu um daginn. Húsfreyjan (jólablað) lá frammi og ég laumaðist til að taka mynd af einni uppáhaldsuppskriftinni (sem ég á nú samt einhvers staðar). Anna Júlía (hármeistari minn) sagði blaðið fullt af gömlu góðu uppskriftunum svo sennilega leita ég blaðið uppi og kaupi. Mjög sniðug hugmynd að mjög svo eigulegu blaði.

 

Gestirnir eru á leiðinni, þá þarf að hætta bloggeríi, klæða sig eftir sturtuna og finna eitthvað gott til að bjóða þeim. Hefði átt að fara á fætur þegar ég vaknaði, þá hefði ég getað bakað, ég er idjót. Ég á reyndar alls konar sælgæti sem ég keypti á jólamarkaðnum í gær, get alveg eins boðið upp á það í stað þess að lauma því með í jólapakka sem ég ætlaði að gera - það er hvort eð er allt morandi í sælgæti yfir jólin.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 13
  • Sl. sólarhring: 662
  • Sl. viku: 2387
  • Frá upphafi: 1461482

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 1964
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sérdeilis flott terta
  • Jón Gnarr og stráksi
  • Jörgen Klopp

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband