Húsfreyjugleði, strætósögur og kökuuppskrift

BjallanÓreglan er að verða algjör á þessu heimili. Ég vaknaði um áttaleytið í morgun (á sunnudegi!!!). Reyndar eftir níu tíma svefn. Dormaði að sjálfsögðu áfram með kött fast upp við bakið á mér. Krummi (miðköttur) tók upp á þeim svefnvenjum fyrir tæpu ári, hann er 12 og hálfs. Ég vissi ekkert hvað ég átti af mér að gera, í myrkri og í raun dagurinn ekki hafinn - þá dormar maður.

 

Þegar ég tók strætó heim á sunnudaginn fyrir viku (aldrei aftur klukkan 17.30 Akureyrarferðin) var vagninn troðfullur. Ég settist næstum aftast hjá öðrum villingi, pólskum manni sem býr á Hvammstanga. Hann fékk vinnu þar sem kokkur hjá Sjávarborg, geggjuðum matsölustað við sjóinn. Ég sagði þetta skemmtilega tilviljun, þar sem ég þekki fjölda fólks í 530 ... og ekkert smávegis frábært fólk, hann væri sannarlega heppinn með stað. Ég fann að ég þurfti ekkert að segja honum það. Nú bíður hann spenntur eftir almennilegum vetri og ég lofaði honum að hann fengi alveg örugglega meira en hálfs sentímetra háa snjóskafla eins og algengt er á Akranesi. Þannig að ég mun plata systur mína enn einu sinni að koma við á Hvammstanga (þarf ekki að pína hana) og snæða eins og eina góða máltíð hjá Davíd von Pólland.

 

Mynd 1: Ég svipaðist um eftir bjöllu, þar sem ég sat í fremsta sæti fyrir aftan afturdyrnar. Kannski yrði stráksi að standa upp til að ýta þegar við nálguðumst Garðabraut. Það var ekki fyrr en maðurinn sem sat í sætinu fyrir framan mig, hinum megin við ganginn hringdi bjöllunni við hnéð á mér að ég sá að ég sat á besta stað. Heklaði trefillinn sem grillir í er að sjálfsögðu eftir mig, allt of langur nema í frosti til að vefja fjórum sinnum um hálsinn. Hann er úr plötulopa og mjög hlýr.

 

JarðarberjatertaSmávegis bras var með greiðslu í strætó þegar ég fór í bæinn á föstudaginn, þannig séð, ég sagði bílstjóranum að drengurinn greiddi hálft gjald en ég fullt. Það hefði orðið sorglegur misskilningur í fyrrasumar sem nánast endaði með ofbeldi þegar ungi pólski bílstjórinn lét mig borga hálft gjald, hann sá ekki muninn á tæplega 64 ára konu og 67 ára með elliafslátt. Elsku bílstjórinn, þessi í fyrradag, er frá Úkraínu og bara í afleysingum, sagði þetta hræðilegt, svona gerðu bílstjórar ekki. Hann heitir Slava og hefur ekið mikið um bæði Noreg og Svíþjóð á trukkum. Hann sagði frábært að keyra hér, miklu minni vetur hér á suðvesturhorninu en hann ætti að venjast ... en eitt nýtt hefði bæst við hér - eða rokið. Oft þyrfti hann að ríghalda í stýrið (Hafnarfjall, Kjalarnes) til að haldast á veginum. Svo ók strætó út á veg 51 áleiðis að göngunum og við hættum að spjalla. Synd að hann verði bara í mánuð, eini ungi maðurinn á leið 57 sem hefur vit á aldri kvenna. Nema þessi frá Litháen, hann virðir okkur ætíð vandlega fyrir sér og stimplar inn rétt fargjald. Annaðhvort aldursglöggur eða farinn að þekkja okkur stráksa. Ef ekki væri fyrir frábæru bílstjórana myndi ég heimta nýja Akraborg. Ég sakna hennar svo mikið.

 

Mynd 2 tók ég á hárgreiðslustofunni þegar ég fór í klippingu um daginn. Húsfreyjan (jólablað) lá frammi og ég laumaðist til að taka mynd af einni uppáhaldsuppskriftinni (sem ég á nú samt einhvers staðar). Anna Júlía (hármeistari minn) sagði blaðið fullt af gömlu góðu uppskriftunum svo sennilega leita ég blaðið uppi og kaupi. Mjög sniðug hugmynd að mjög svo eigulegu blaði.

 

Gestirnir eru á leiðinni, þá þarf að hætta bloggeríi, klæða sig eftir sturtuna og finna eitthvað gott til að bjóða þeim. Hefði átt að fara á fætur þegar ég vaknaði, þá hefði ég getað bakað, ég er idjót. Ég á reyndar alls konar sælgæti sem ég keypti á jólamarkaðnum í gær, get alveg eins boðið upp á það í stað þess að lauma því með í jólapakka sem ég ætlaði að gera - það er hvort eð er allt morandi í sælgæti yfir jólin.     


Karlhylli á Kex hostel og djörf jólakúla í safnið

Allt karlkynsGærkvöldið fór í djamm í tilefni af fertugsafmæli Rásar 2 þar sem ég vann einu sinni fyrir bráðum fjörutíu árum. Ég var búin að lofa miklu slúðri og kjaftasögum en neyðist til að svíkja það, allir voru svo rólegir en um leið glaðir og enginn spennandi hneyksli. Upp á síðkastið, eða reyndar síðustu árin, hef ég orðið vör við aukna aðsókn alls karlkyns í mig (sjá mynd nr. 1 þar sem sjást fjórir af ótal mörgum aðdáendum mínum) og glaðst nokkuð yfir því án þess þó að veiða nokkuð að ráði út á karlhyllina - sem er furðulegt. Fyrir gærkvöldið fannst mér Siggi Gunnars einhver sá allra dásamlegasti og yndislegasti maður sem ég hafði aldrei kynnst og þar skjátlaðist mér ekki þegar ég hitti hann og kynntist í gærkvöldi. Ég er ekki alveg týpan til að vaða í ókunnugt fólk og heilsa, jafnvel þótt ég hafi verið búin að drekka hálfan bjór. Það sem bjargaði öllu var að hann hafði sest við hliðina á treflinum mínum og úlpunni á staðnum þar sem ég hafði verið fyrst og það var komið  fararsnið á mig eftir tveggja tíma skemmtun. Tónlistaratriði: Una Torfa, Mugison ... mjög flott. Ég brosti til Sigga og hann rétti mér útifötin mín og sagði um leið: „Gaman að sjá þig, ég hlustaði oft á þig í gamla daga (á Aðalstöðinni)“ og svo komu einhver falleg orð. Ég er orðin svo meyr núna á seinni árum að ég nánast klökknaði - settist smástund hjá honum og spjallaði. Nú veit ég að ég er jafngömlul bæði Madonnu og mömmu hans Sigga. Siggi er eiginlega miklu meira æði en ég hélt, svo mannþekking mín í gegnum fjölmiðla er bara nokkuð góð. Eins með Pál Óskar sem allir halda að sé svo næs, við unnum saman um skeið og hann var stundum dyravörður í afmælinu mínu ... en hann er akkúrat enn meira næs en fólk heldur.

 

Myndin sýnir þessa tvo og aðra tvo ... svo ekki verður um villst - ég nýt heilmikillar karlhylli.

Svipmyndir

Þegar ég mætti um sexleytið (ef mér er boðið kl. sex, mæti ég kl. sex) settist ég við hliðina á Þorgeiri Ástvalds - þarna sátu þau hjónin og voru einu andlitin sem ég kannaðist við. Ég var svo sem búin að kenna nemendum mínum að Íslendingar mættu sumir jafnvel nokkrum klukkutímum of seint í boð, en verð alltaf jafnhissa yfir óstundvísi landans. Á móti mér sat ungur og skemmtilegur maður (Úlfur Kolka). Hann var með þætti um rapp ... Saga rappsins heita þeir og eru komnir á Storytel of oll pleisis. Á þá ætla ég svo sannarlega að hlusta fljótlega og hlakka mikið til. Svona er Rás 2, svo ótrúlega mikil fjölbreytni ríkjandi. Næst tekur Úlfur rapphljómsveitir fyrir, eina í hverjum þætti og ég mun alls ekki missa af þeim. Það opnaðist eitthvað hjá mér þegar ég keypti áskrift að MTV árið 1995 og ný og æðislega flott tónlist fossaði yfir líf mitt. Ég hafði verið stöðnuð í Pink Floyd, Jethro Tull, Led Zeppelin, Mozart, Bach og slíkri dýrð en hafði svo sannarlega pláss fyrir meira og vona að svo verði um aldur og ævi. En sama hversu Siggi er dásamlegur held ég að honum takist aldrei í lífinu að fá mig til að hlusta á sálartónlist, soul, af nokkurri gleði - en hver veit? Hann sagðist hrifinn af sálartónlist og þungarokki! Svo ef einhver lína er þar á milli gæti soul-ið náð til mín. Hjálp!

 

Hverjir voru hvar-slúður:

Þarna voru m.a.: Lilja Dögg ráðherra, Óli Palli, Gunni bróðir hans, Kolbrún Halldórs, Friðrik Ómar (hann er svooo fyndinn), Þorsteinn J., Nanna og Fúsi tæknimaður, Goggi tæknimaður (sem sagði svo hræðilega setningu að hún verður ekki endursögð nema í mjög myrku bakherbergi sem búið er að hljóðeinangra og leita að hljóðnemum í og ég búin að drekka þrefaldan vodka í beilís ... Mætt var Arnþrúður frænka Karlsdóttir, Sigurður Pétur (Landið og miðin), Skúli Helga, Helga Vala, Kristján Sigurjónsson, Bogi Ágústsson, Hulda Geirs, Siggi Hlö., Andrea sjálf, Felix Bergsson og svona 100 í viðbót. Svo hefur kannski bæst við eftir að ég fór. Það var svooooo gaman að hitta gamla liðið og líka það nýja sem ég kynntist ögn. Ég dreif mig nú samt heim til Hildu þarna um áttaleytið og horfði á spennumynd frá 1999, Double Jeopardy. Hlýtt í hjarta eftir góða kvöldstund.

Bílstýran á Hreyfli sem ók mér í Kópavoginn þekkir einn af allra fyrstu fyrrverandi eiginmönnum mínum og lofaði að skila innilegri kveðju til hans og konunnar hans, þar sem hún er að fara til Spánar (á afmælisdegi Jóns Gnarr) og mun hitta þau í sólinni og hitasvækjunni ...  

 

David HasselhofVið stráksi tókum strætó heim kl. 12.30 í dag frá Mjódd en þegar ég var í appinu að leita að ferð heim var ég spurð hvort ég væri að fara frá ... og svo kom nákvæmt heimilisfang Hildu systur ... og satans-appinu fannst alveg upplagt að ég færi fótgangandi úr Kópavoginum í Mjódd, ég yrði bara 20-30 mín að skokka þetta. Datt ekki í hug að segja Hildu frá því, kannski myndi henni finnast það voða sniðugt líka og hætta við að skutla mér! Öpp eru misjafnlega góðhjörtuð, sum hreinlega ofmeta hrifningu Íslendinga á gönguferðum í kulda og trekki. Sem minnir mig á, ég er komin upp í tæplega 5.000 skref í dag. Veit ekki hvort það er mikið eða lítið, en mér líður samt eins og ég hafi afrekað heilan helling. Þetta er eini kosturinn við að innanbæjarstrætó tekur sér hvíld um helgar (og á kvöldin). Bíóhöllin tapar sennilega mest á þessu en kannski munar ekkert um okkur stráksa, það eiga allir aðrir Skagamenn bíl. 

 

Mjög skemmtilegur jólamarkaður er á Akratorgi, inni í gamla Landsbankahúsinu, bæði á fyrstu og annarri hæð. Hann verður þessa helgi og þá næstu. Ég missti mig gjörsamlega, keypti djarfa jólakúlu með mynd af David Hasselhoff. Sjá mynd. Hún fer í hópinn með flottustu jólakúlunum mínum. Axel í hjólabúðinni seldi mér skóreimar og skóáburð, Smári kokkur og fjölskylda var með konfekt, súkkulaði, varasalva, sápur, kerti og aðrar dásemdir, bókasafnið með bunka af bókum "gefins" en það voru reyndar frjáls framlög svo ég tók reyfara sem ég hafði þráð að lesa og borgaði, ágóðinn rennur til Mæðrastyrksnefndar. Þarna var Gulli (Sigfússon frá Borgarnesi) að selja LP-plötur - það var meira að segja ein með Skálmöld! Ég veit ekki hvort ég hafi pláss fyrir plötuspilara heima en vá, hvað væri gaman að eiga alvörugræjur og spila plötur. Svo voru jóla- og aðventuskreytingar í boði Skagamannsins knáa (ég og nöfn) sem á eiginmann á Dalvík (þar sem þeir búa og reka loppumarkað í bílskúrnum) og tilheyrir skemmtilegustu fjölskyldunni þaðan. Held að ein systirin (mágkona hans) sé með Gísla, Eirík og Helga-kaffihús, önnur býr á Akureyri, er með Mynju (verslun), ég fylgi henni á Instagram (Svana Símonar) og hún er æði. Held að maðurinn hans (flugþjónn) hafi einhvern tíma uppfært mig á Saga Class af því að ég var með svo mikinn dóna fyrir framan mig sem hallaði sætinu alveg niður í fangið á mér - og svo náði ég ekki netsambandi þótt ég hefði borgað fyrir það. Icelandair græddi reyndar á því ... ég hef splæst á mig á S-Class tvisvar síðan en held samt að ég myndi aldrei í lífinu tíma að fara þannig til Seattle, átta tíma flug, kostar nokkur hundruð þúsund fyrir einn, held ég. Þarna voru vörur frá elsku góðu Nínu minni, söngkonu og "fiskikerlingu" (sem söng um íspinna í laun fyrir dugnað í fiskvinnslu) og keilusnillingi, sem passaði Einar lítinn fyrir mig hér á Akranesi í denn og ég keypti ansi hreint jólalega rabarbarasultu af henni sem hún hafði sett kanil og negul út í. Vörur frá Silla kokki voru víst þarna en ég gleymdi að fara aftur og kíkja á fyrstu hæðinni, skilst að gæsakæfan sé vanabindandi. Takk, elsku Akraneskaupstaður, fyrir að standa fyrir þessum skemmtilega viðburði. Mikil stemning í gangi. Kannski förum við aftur á morgun, og mögulega um næstu helgi líka. Annars held ég að það verði gestkvæmt hjá mér á morgun en spurning um að draga gestina niður í bæ þegar ég verð búin að þræla þeim út. Það þarf að hengja upp myndir og kíkja á eina kommóðuskúffu. Fínt að fá hjálp við það fyrir jólin. Og ... ég er ekki byrjuð að skreyta!     


Besta og huggulegasta fólkið

401431424_10230757494070931_3207022623968770405_nÁrgangurinn okkar, sá besti, hittist um síðustu helgi í stúkuhúsinu sem er svo gamalt að það er komið á byggðasafnið. Þetta var vitanlega ansi hreint góð skemmtun, fólkið hafði ekkert breyst, konurnar stórhuggulegar og karlarnir glæsilegir. Ég upplýsti í stuttri ræðu hver ástæðan fyrir því er. Og af hverju þau okkar sem eru sléttust í framan sofa á grófum múrsteini til að reyna að búa til á sig hrukkur til að einhver trúi því að þau séu komin yfir fimmtugt. Það virkaði ekki en fjölgaði sjúkraþjálfurum umtalsvert á Akranesi. Við endurtókum leikinn, við Guðbjörn, og létum taka mynd af okkur saman. Sjá mynd. Myndin í skólaferðalaginu þegar við vorum 12 ára, sýndi gífurlega yfirburði mína þegar kom að sentímetrum. Ekki grunaði mig þá að ég væri hætt að stækka og yrði ekki höfðinu hærri en hann svo miklu lengur. Sjá mynd. Við spjölluðum saman um hríð og í spjallinu kom í ljós að hann afði verið fótboltamaður, um tíma atvinnumaður. Og ég vissi það ekki. Hafði horft á Liverpool gegn Manchester City fyrr um daginn ... en við vorum ósammála um tvennt - að Evrópukeppnin í fótbolta hefði verið 2016 (ég sagði það) og að við hefðum sigrað England í þeirri keppni sem G sagði að hefði verið 2018, HM (sem var rétt). Svona er nú hægt að tala um skemmtilega hluti á árgangsmótum. Enginn var drukkinn, þeir sem drukku voru mjög penir og Carlsberg-jólabjórinn sem Kamilla gaf mér í kveðjugjöf kom með mér heim aftur því einn bekkjarbróðirinn splæsti í rauðvín og hvítvín á liðið. Ég fór snemma heim því ég átti far í bæinn strax um kvöldið og síðan daginn eftir var það upplestur í Hörpu ... upp úr bestu bók jólabókaflóðsins ... Þá breyttist allt

Nú er það partí í kvöld, gamall vinnustaður heldur upp á stórafmæli og það verður svo gaman að hitta fólkið. Strætó fer eftir hálftíma eða svo, svo best að drífa sig. Kjaftasögublogg á morgun ef gerist eitthvað stórfenglega hneykslanlegt. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 646
  • Frá upphafi: 1525539

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 575
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Des. 2023
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Eldum rétt
  • Gamla bakaríið
  • Mosakrútt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband