5.9.2023 | 18:16
Af Kela, fórnum og krassandi bók ...
Í gær voru komin tólf ár og einn dagur síðan Keli, fullu nafni Áskell Einarsson, flutti frá Kattholti yfir til okkar í Himnaríki. (Krummi heitir Hrafnkell og Mosi Moskell, svona ef þarf að skamma þá sem er eiginlega aldrei). Keli og Sokki, hinn kettlingurinn sem lifði af veruna ofan í poka, ofan í gjótu, í Heiðmörk í desember, fengu fagmannlega áfallahjálp í Kattholti næstu átta mánuðina og voru svo ættleiddir með örfárra daga millibili í byrjun september. Ég hefði sennilega tekið þá báða hefði ég áttað mig en þeir hafa báðir blómstrað, hvor á sínu heimilinu. Ég hef bloggað um ýmsa dynti Kela, eins og að stela gleraugunum mínum af náttborðinu sem þýðir stundum að ég á erfitt með að búa ein - ef mig langar að sjá eitthvað. Oft sem stráksi hefur bjargað þessum málum í gegnum tíðina, og honum finnst það alltaf jafnfyndið. Vandræðin hófust með því að ég fékk mér gleraugu sem voru bara eitt gramm að þyngd.
Myndin var tekin af Kela í gær. Hann er hættur að vera hræddur, kominn með attitjúd, eins og sést.
Talsverð óvissa ríkir í ýmsum málum ... t.d. varðandi komu flóttafólks á Hótel Glym, ekki síst vegna vatnsskorts í sveitinni, og ... varðandi byggingu mögulegs hótels og baðlóns (enn eitt lónið!) hér við Langasand. Fólk talar sumt um að nú hefðum við átt að læra af reynslunni, af t.d. Sementsverksmiðunni, að gera ekki svona miklar breytingar á náttúruperlu eins og gerðar voru þá, vænn hluti af ströndinni fór undir verksmiðjuna, en þá voru auðvitað aðrir tímar og ansi fáir sem hugsuðu út í það.
Samsett mynd: Sú efri er síðan í eldgamla daga og sýnir hluta ósnortins Langasands í austurátt (sjáið háu bakkana, vá). Sú neðri var tekin löngu seinna, og í hina áttina, vestur. Þarna er allt Sements enn uppistandandi. Vinsæl strönd þá og nú.
Persónulega fyndist mér ekkert slæmt að fá eins og eitt stykki flott hótel hér við hliðina, ég gæti nánast farið á morgunsloppnum þangað og keypt mér latte, eða fínt út að borða í mínútufjarlægð og haldið mínu góða útsýni þar líka, en ég get ekki bara hugsað um mig þótt ég hafi t.d. aldrei farið í Guðlaugu og hati gönguferðir. Þetta er mjög vinsælt svæði til útivistar, nákvæmlega eins og það er, ekki alveg ósnert þó, hér eru fínir göngustígar, hin fína Guðlaug, grjótvörn með fram öllum sjónum, en þetta sem á að gera yrði einhvern veginn svo óafturkræft, miðað við þær upplýsingar sem hafa lekið út, sumar mögulega ímyndun einhvers. Það má alveg hressa upp á svæðið en fyrirhugað hótel er orðið að hálfgerðu skrímsli í augum sumra og sennilega bara vegna óvissunnar og leyndarinnar. Sumir segja að þetta muni skipta sandinum í tvennt (ekki hægt að ganga ótruflað með fram sjónum), aðrir að það geri það ekki. Það þarf að færa fótboltavöllinn þannig að mörkin verða í norður og suður, eru nú í austur og vestur. Ég notaði orðið fórna um Langasand á fb-síðu þar sem fjallað var um þetta stóra mál, og í gær var ég á síðunni krafin skýringa á þeirri orðanotkun. Tærnar á mér krulluðust af pirringi en ég kæri mig ekki um að fara út í karp sem engu skilar við fólk á netinu, jafnvel þótt ég pirri það með skoðun minni. Þetta er alla vega ekki sú leið sem ég tel vera rétta til að rökræða skynsamlega um hlutina.
Bíð róleg þar til óvissunni verður eytt og hið sanna kemur í ljós. Í einni fréttinni um þetta sagði fyrrum bæjarstjóri okkar orðrétt: Mikil áhersla verður lögð á samráð og samtal við bæjarbúa og hagsmunaaðila. Mér fyndist að íbúakosning ætti að fara fram, þetta verður mikil breyting á ásýnd Langasands, nátttúruperlunnar sem hann er. Ef þetta reynast vera geggjað flottar breytingar og rökstuðningur með þeim góður, sigra þær í kosningunni. Óvissan er verst.
Kannski verður þetta gullfalleg bygging, Skaganum til sóma og laðar að langþráða ferðamenn, Skaginn missti svolítið flugið þegar Hvalfjarðargöngin komu og Akraborgin hætti að sigla á milli, og við þurfum sannarlega eitthvað meira til að trekkja að. Hér eru nú samt fleiri staðir til að byggja hótel á en bara við Langasandinn, ef viljinn væri fyrir hendi. Breiðin, smábátahöfnin (eins og á Sigló) og fleiri.
Vonandi hafa hótelhaldarar, hvar sem þetta hótel rís, vit á því að velja gott kaffi til að bjóða gestum sínum upp á. Ekki trúa mjúkmálu sölufólki um handtíndar baunir, gúglið frekar en bjóða upp á súrt kaffi (mikil sýrni, ekki mikil gæði) sem hefur tröllriðið öllu hér síðustu árin ... Ég er enn í sjokki eftir að hafa snætt hádegisverð á Hótel Holti vorið 1989 þar sem Kaffi Marino, í rauðu dósunum (fékkst m.a. í Bílanausti) var í boði eftir matinn. Ég vissi ekki þá að yfirþjónninn hafði stolist til að kaupa baunir frá Te og kaffi til að nota í vélina góðu sem gerði cappuccino og latte og það allt. Ég hafði ekki enn kynnst þeim kaffidrykkjum. Það var ekki fyrr en tveimur árum seinna, í New York, sem ég bragðaði á cappuccino og smakkaði í fyrsta sinn beyglu, og Dustin Hoffmann gekk fram hjá.
Mynd af Akranesi. Held að svæðið sirka innan pennastrikanna sé það sem verið er að hugsa um að byggja upp. Það væri helst Nýja blokkin (lengst til vinstri) sem missti óhindrað útsýni til Reykjavíkur (ef hótelið verður hátt, við fáum ekkert að vita), en Alma leigufélag á Nýju blokkina og eigendur finna pottþétt einhverja góða ástæðu til að hækka leiguna enn meira, t.d. vegna komu fíns hótels á hlaðið eða vegna minni sjávarseltu á gluggana ... eða bara enga ástæðu.
Ég hef verið að hlusta á Hús andanna (Isabel Allende) á Storytel síðustu daga og var yfir mig hrifin, hef lesið hana nokkrum sinnum en fannst mjög gaman að hlusta og rifja upp þessa stórkostlegu sögu eftir allt of langan tíma. Mig minnir að bíómyndin hafi líka verið góð ...
Nú var ég rétt að byrja á sögu sem ég hafði merkt mér á meðan hún var enn væntanleg og kom svo út í gær. Fékk svolítið áfall þegar ég sá umsögn um hana, þá einu sem komin er:
Varð að gefa þessu rusli eina stjörnu til að geta skrifað umsögn. Lögga með sköndulinn á sér á heilanum (gubbkarl) ... og konur bara nothæfar til þess að riðlast á og þrífa undan honum skítinn. Sveianttan. Gaf þessu klukkustund sem ég fæ aldrei aftur.
Það tekur 17 klst. og 49 mín. að hlusta á þessa bók í lestri Kristjáns Franklíns Magnússonar (sem er fantafínn lesari), en ég nota alltaf 1,2-hraðann og því mun ég verja (vonandi ekki eyða) 14 klst. og 43 mín. í hana - ef ég þoli svona typpalingasögu (sem ég geri auðvitað). Er búin með 9 mínútur af henni, byrjaði að hlusta á meðan ég snæddi hádegisverð (Wellington-kornflex og snobb-súrmjólk með glitrandi púðursykri a la Harrods) og gaurinn kominn á morðstað, alls ekkert dónalegt enn, því miður. Ég þarf að brjóta saman þvott í kvöld og ganga frá, verð lengi að því ef þetta er krassandi bók.
Rúmið mitt frá RB kemur á morgun. Sendibílstjóri og burðarmaður, mæta eftir hádegi, aðstoða mig við að koma rúminu á lappir, ef þarf, (þetta er kannski svo fínt rúm að það hefur fætur, afsakið) og taka umbúðir með sér og gamla rúmið. Mikil synd að þurfa að losa sig við bara fimm ára rúm sem var ekki einu sinni ódýrt. En dýnan stóð ekki undir væntingum og loforðum (nema fyrstu 2-3 árin) og einn rúmfóturinn hefur frá upphafi verið til vandræða, það ískrar í honum þegar ég sný mér. Kettirnir hafa brýnt klærnar aðeins á hliðinni á rúmbotninum - svo ég kunni ekki við að auglýsa það gefins, dýnan samt eins og ný nema ekki eins stíf og hún á að vera, hef alltaf notað hlífðarlak og aldrei drukkið á því og hellt niður kókómjólk eða rauðvíni. Hilda systir hefur sofið í RB-rúmi árum saman og lætur mjög vel af því. Hlakka vandræðalega mikið til að sofa betur og vakna bakverkjalaus, eins og ég gerði fyrstu árin á þeirri gömlu. Gef skýrslu eftir fyrsta sofelsið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2023 | 16:57
Plat og prettir og þetta "eina" sem karlar vilja
Allrahanda plat og prettir hafa viðgengist í gegnum tíðina og ýmsir glæpónar nýta sér Internetið til að svíkja óteljandi marga. Ég lenti nýlega í óteljandi-hópnum, þegar sakleysisleg eldri kona, Aðalbjörg að nafni, reyndi að gefa mér háa fjárhæð þar sem hún var sjálf við dauðans dyr. Við vitum flest að böggull fylgir ætíð skammrifi þegar svona skilaboð berast. Til að fá milljónirnar frá Aðalbjörgu hefði ég þurft að reiða fram einhverjar upphæðir sjálf til að liðka fyrir en sæi aldrei krónu af gjöfinni.
Ég nennti ekki að tilkynna hana, blokkaði frekar, Facebook er nefnilega ansi hreint eftirlát við ýmsa svindlara og orðljóta rasista eða transfóbíska. En ... ef þú vogar þér að segja heil-lin við fb-vinkonu þegar þú óskar henni til hamingju með afmælið, eftir að hafa fengið viðvörun fyrir að gera grín að nýnasistum, grín sem ekki skildist, þá er þér umsvifalaust fleygt út. En að láta sér detta í hug að einhver falli fyrir þessari frægu blekkingu, þegar látlaust er varað við svona svikahröppum. Íslenskan hefur vissulega skánað til muna í þessum póstum og nú hef ég alveg hætt að fá bréf frá lögmanni í útlöndum sem segir mér að gamall frændi minn, John Haraldsdóttir, sé látinn og hafi arfleitt mig að auðæfum sínum. Ég sakna þess ekki þótt það hafi stundum verið fyndið.
Strax í barnæsku er byrjað á blekkingunum:
-Ef þú verður ekki þæg, verður þú send í Villingaholt. (Vissi í æsku að það gæti ekki verið til staður með þessu nafni)
-Ef þú verður ekki þæg, gefur jólasveinninn þér ekkert í skóinn. Kartöflur voru ekki mikið notaðar til óttastjórnunar á mínu heimili. (Þetta virkaði einna best)
-Ef þú borðar of mikið poppkorn festist það inni í þér og það þarf að skera úr þér botnlangann. (Borða örsjaldan poppkorn)
-Ef þú skrökvar verður tungan á þér svört. (Trúði þessu ekki lengi)
-Ef þú bendir upp í himininn á flugvél, mun hún hrapa. (Finnst enn hálfóþægilegt að sjá fólk gera þetta)
-Ef þú drepur járnsmið (skordýrið) hrapar flugvél. (Myndi aldrei drepa járnsmið, punktur)
-Ef þú hættir ekki að naga neglurnar muntu aldrei giftast. (Ég nagaði neglur frá 8 ára til 58 ára, fyrsta gifting mín var þegar ég var 22 ára og þeim átti bara eftir að fjölga)
Hvítar lygar sem fá börn til að fara snemma að sofa hálfan mánuð á ári eru algjörlega réttlætanlegar ... en sumt er óskiljanlegt. Af hverju má ekki benda á flugvél? Af hverju var það kallað að skemmta skrattanum ef maður söng við matarborðið?
Karlmenn vilja bara eitt, sagði mamma stundum við mig þegar ég var unglingur, án þess að hirða um að útskýra það nánar. Eitthvert hræðsluáróðurslygabull, hugsaði ég. Loksins, eftir mörg hjónabönd, komst ég að því hvað hún meinti. Þetta EITT sem karlar vilja í raun er að fá að fara í búðir og versla óáreittir án þess að vera dæmdir fyrir það. Þeim hefur sumum verið innrætt að þeir eigi að láta konum það eftir ... fáránlegt. Þannig helst einhvers konar ógnarjafnvægi í hjónaböndum, eiginlega í lífinu á jörðinni.
Tek mig og Halldór fjanda sem dæmi um hið gagnstæða ... þegar við fórum saman í flotta og stóra vöruhúsið í Washington-ríki um árið. Ég missti lífsviljann eftir fimm mínútur á meðan fjandi fataði sig upp ofsaglaður.
-Ha, tóm karfa? sagði hann felmtri slegin þegar við hittumst loks á landamærum karla- og kvennadeildar.
-Jamm, ég fann ekkert, eigum við ekki að drífa okkur!
Á næstu tveimur mínútum hraðvaldi hann, alveg fumlaust, á mig úlpu og kápu en sá hafði allan tímann verið tilgangur búðarferðarinnar. Úlpan reyndist vera nr. 22 og kápan 20. Tók ekkert eftir því þegar hann neyddi mig til að máta, og hann ekki heldur, vanalega nota ég nr. 16. Sú uppgötvun var gerð eftir heimkomu til Íslands.
Ég seldi kápuna og gaf drapplitu úlpuna eftir um það bil ár. Notaði kápuna ekkert, en úlpan kom sér afskaplega vel og ekki bara sem vörn gegn kulda. Þetta ár hafði ég getað farið með kettina innanklæða í vinnuna nokkrum sinnum og heim aftur án þess að nokkur tæki eftir búrunum, faldi líka stöku fjölskyldu þar, sem hafði ekki efni á fargjaldinu með strætó. Þvottavélin kom eitt sinn með, fór í viðgerð í bænum, heim aftur, líka undir úlpunni og enginn sá neitt athugavert.
Þessi úlpa var dýrgripur. Þótt ég liti sannarlega ekki vel út í henni og missti allan séns (með fölva í vöngum vegna litarins, ég "dey" í drapplitu, og minnti ég óneitanlega á Eric Cartman úr South Park, jafnvel Hulk, ljósbrúnn Hulk) en karlvanhylli mín stóð vissulega bara í þetta eina ár.
Þegar við sonur minn fórum í tískubúðina Nínu þar sem ég keypti árlega handa honum skyrtu í sumargjöf, settist ég fljótlega í "karlahornið" (kommon) og fletti tímaritum á meðan hann virtist skemmta sér vel við að leita að flottri skyrtu.
Ég held að þessi kenning mín sé rétt, þetta er alla vega reynsla mín og að auki sé ég karlmenn mjög oft í búðum og yfirleitt alltaf glaðlega og káta, og ef það sannar ekki mál mitt veit ég ekki hvað ætti að gera það ...
Það er alltaf verið að reyna að plata okkur á einn eða annan hátt! Mitt hlutverk í bloggheimum ætti auðvitað að vera að fletta ofan af blekkingum. Að minnsta kosti þegar ég finn nógu góðar afsannanir, eins og núna!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2023 | 20:34
"Komment" í eigin persónu og óvænt kjötsúpuheppni
Heimsfrægð Mosa hefur varla fram hjá bloggvinum mínum, eða þegar ég skellti ljósmynd af honum að prófarkalesa og með sjóinn minn í baksýn, inn á Fb-síðuna View from YOUR window. Myndin fékk ótrúlega mörg læk og yfir þúsund athugasemdir. Ein athugasemdin, eða bandaríska konan sem skrifaði hana, mætti svo í heimsókn til mín í dag ásamt vinkonu sinni. Þær voru á leið til Borgarness og gista þar í tvo daga. Báðar eru nú sjúkar í flatkökur með hangikjöti, sérstaklega Anne mín en Sue, vinkona hennar, virtist líka ansi hrifin. Anne ætlar að taka hangikjötsálegg með út til Maryland, og auðvitað flatkökur.
Ég bauð þeim upp á allt það íslenskasta sem ég fann; kleinur, flatkökur, hangikjötsálegg, grafinn lax, graflaxsósu, Myllu-fransbrauð til að rista, þrjár tegundir af osti, chili-sultu, malt og appelsín, bingókúlur og Hraun. Ég hefði bakað pönnukökur líka (eigin uppskrift) ef nýleg pönnsupannan mín væri ekki ómöguleg þar sem ég kann ekki að steikja hana til. Festist allt við alltaf, óþolandi.
Inga kom líka, að sjálfsögðu, og gerði allt enn skemmtilegra eins og vanalega. Ann og Sue fannst pínku fyndið að við værum vinkonur, alla vega vegna þess að önnur elskar til dæmis að ganga og sú gönguglaða fer í ferðalög til furðulegustu landa eins og Íraks (um páskana í fyrra), Víetnam, Madeira og annarra ógeðslega heitra pöddulanda. Ég ferðast vissulega líka, reyndar til ansi spennandi staða, eins og Seattle (Conway, Liverpool og bráðum Glasgow, sigldi um Karíbahafið 2018 (í svaðalegum hita reyndar). Finnland er sennilega einn mest ögrandi staður sem ég hef heimsótt ... út af reiðum geitungi sem- æ, skiptir ekki máli.
Inga viðraði okkur eftir gott spjall og mikinn hlátur, og við byrjuðum á að kíkja niður á vita. Eftir breytingarnar þar er ógeðslega langt að ganga þangað frá bílastæðinu (enn lengra í roki og rigningu) og þær nenntu ekki að vitanum (skiljanlega þótt ég segði þeim að Hilmar vitavörður væri æði). Næst kíktum við á brjálað brimið að norðanverðu, hjá skipasmíðastöðinni gömlu, svo í galleríið hans Bjarna Þórs þar sem Ásta hans tók vel á móti gestum, eins og vanalega á laugardögum. Okkar konum þótti frábært að fá að skoða sig þar um. Ekki var gleðin minni að fá að sjá antíkskúrinn þar sem Anne keypti bæði dúk (800 kr.) og litla mjög sæta diska (1.200). Ég keypti tvö föt (ekki fatnað) undir kartöflur og uppstúf um jólin, í stíl við matarstellið mitt fína sem ég fékk þar. Að síðustu skoðuðum við byggðasafnið okkar og vorum það seint á ferðinni að ljúfi maðurinn í afgreiðslunni sagðist ekki hafa brjóst í sér til að rukka okkur, tæpur hálftími í lokun. Við þutum frekar hratt í gegn, hlustuðum ekki á fræðslu og upplýsingar í tækinu sem hver og ein fékk, það bíður þar til næst þegar við mætum tímanlega. Það var samt ótrúlega gaman að hraðskoða allt. Þetta er mjög flott safn og góð sýning. Anne talaði um hvað henni fyndist gaman að fara á íslensk söfn (þetta er ekki fyrsta ferð hennar hingað) því þar væru svo góðar upplýsingar og skýringar á öllu, vandað mjög til verka, sagði hún, mér til mikils monts. Þær voru einstaklega ánægðar að hafa fengið leiðsögn um Akranes, þeim leið eins og við hefðum farið með þær á spennandi leynistaði.
Mynd: Frá vinstri: Anne, Sue og Inga.
Þær hafa orðið varar við andúð á erlendu ferðafólki í Reykjavík, að túristar fylli allar íbúðir svo Íslendingar hafi ekki húsaskjól en ég leiðrétti það snarlega:
Ferðamenn (1,5 milljón á ári) eru algjörlega saklausir, líka erlent fólk sem komið er til að vinna hér (17.000 í fyrra), einnig er Reykjavíkurborg saklaus þótt byggt sé of lítið, eins Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður ... sökudólgarnir eru hælisleitendur (3.000) ...
Vinkona mín frá Litháen sagði mér nýlega frá góðum sið í heimalandi hennar. Skólarnir hófust í gær og hver einasti nemandi mætti með blóm (vönd eða eina rós eða sólblóm) og færði kennara sínum. Í október verður svo Dagur kennara og þá verður þetta endurtekið. Mjög til fyrirmyndar, kennarar eiga þetta skilið og miklu meira en það.
Ótrúlegt hvernig heppnin getur elt mann ... tengdasonur vinkonu minnar eldar stundum kjötsúpu ofan í fjölskylduna en getur ómögulega haldið stillingu svo súpan dugir ofan í tuttugu manns. Konan hans er ekki hrifin af kjötsúpu og krakkarnir nenna ekki að borða hana marga daga í röð - svo vinkona mín bjargaði súpurestinni í gær, kom áðan með vænan skammt handa mér svo ég þarf ekki að borða afganga af flatkökum með hangikjöti eða ristað brauð með graflaxi og graflaxsósu í kvöldmatinn. Eldi hann sem oftast og bjargi tengdamóðir hans restum sem oftast. Er mér of sjaldan boðið í mat? Játs. Er ég sjálf dugleg við að bjóða fólki í mat? Well, sko, uuu, neee, eiginlega ekki.
Mynd 3: Flott terta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2023 | 14:50
Óvæntur matargestur og byrjað að hvessa ...
Óvæntur gestur mætti á svalahandriðið um kvöldmatarleytið í gær, klár gaur sem veit greinilega hvar uppruna súpueldhúss Himnaríkis er að finna. Hann fékk heila tertusneið að launum fyrir dirfskuna. Yfirleitt eru það bara smáfuglarnir sem þora að setjast á handriðið, síðan Jónatan I. var og hét, sá sem fékk mig til að sjá máva í nýju og betra ljósi, réttu ljósi. Sem skemmtilega og gáfaða ... sem geta ekkert að því gert þótt þeir séu stórir og sterkir fuglar sem garga í stað þess að syngja fagurlega. Lögfræðingur MAST sagði á Facebook-veggnum mínum í gær að mávar væru eiginlega lagðir í einelti, og ég trúi gamla strætóvini mínum.
Ein fb-vinkona mín varð eitt sinn vitni að því þegar gömul kona sem var að gefa fuglum veifaði viskustykki til að koma í veg fyrir að rangir fuglar fengju mat. Bara þeir fallegu máttu verða saddir. Ég vona innilega að hún hafi ekki átt ófrítt barnabarn sem fékk ekki pönnukökur hjá henni eins og hin barnabörnin. Ég hef sagt frá því áður þegar Jónatan fyrsti flaug á svalaglugga Himnaríkis og hálfrotaðist. Sonur minn fór út á svalir með vatn og brauð sem fuglinn vildi ekki, fylgdist svo með honum jafna sig. Vinir hans og ættingjar hvöttu hann óspart til dáða þar sem þeir flugu fyrir ofan hann og eftir um tvo tíma treysti hann sér til að yfirgefa svalirnar. Eftir það mætti hann alltaf á handriðið ef hann langaði í brauðsneið. Við hættum fljótlega að gefa honum svona nálægt húsinu ... og með árunum fjölgaði afkomendum hans sem biðu vongóðir á staurunum við sjóinn. Einar fór alltaf í kringum afmælisdag Madonnu (16/8) með leifar af kræsingum afmælisins og fann góðan stað við Langasand. Ég á mynd af honum með fjölmarga máva sem fylgdu honum eins og litlir hvolpar. Þeir þekktu sinn mann - og líka krummarnir.
Það er byrjað að hvessa nokkuð og hetjur sjóþotanna hafa svifið um sæinn um og eftir hádegi en strax um tvöleytið var orðið of hvasst. Þeir pökkuðu saman, nenntu eflaust ekki að fjúka á bryggjuna, skil það vel. Hviður komnar vel yfir 20 m/sek.
Ég þarf sennilega að leggja mig í dag til að missa ekki af stuðinu í kvöld (eða athuga hvort komist nokkuð vatn inn um eina óþétta glugga Himnaríkis - sem snýr akkúrat á móti veðrum, vindum og regni í kvöld. Í austur.
Það rétt náði að koma september en sumum finnst ansi bjánalegt að tala um haustlægð þegar enn er ágúst.
Mynd: Því miður verður bláfáninn tekinn niður innan tíðar, þótt Langisandur sé ómenguð bláströnd allt árið, og þá verður ekki nokkur leið að vita vindáttina nema reka fingur út um glugga ... eða kíkja í símann sinn ... eða á vedur.is. Dæs.
Mömmu- og pabbabrandarar á Facebook:
Það eru ótrúleg afföll af bílum. Fæst alltaf miklu minna fyrir bílinn heldur en maður vonaði. En að fjárfesta í steypu er talið vera mun betra. Ég hef því ákveðið að næsti bíll sem ég kaupi verði steypubíll.
Þetta er stóra trampólínhelgin. Hver dettur í lukkupottinn og fær frítt trampólín?
Veit einhver hvar maður skráir sig í Skaftárhlaupið?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.5.): 12
- Sl. sólarhring: 23
- Sl. viku: 363
- Frá upphafi: 1527020
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 303
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni