Sólarlagsárin í endurskoðun og hreyfingarsamsærið mikla

Einkennishegðun eftir löndumDagur 2 í kennslu búinn ... ég fékk far heim og veitti ekki af. Fékk fasteignasala í heimsókn og þurfti að fínisera allt, er þó alls ekki ákveðin í því að selja og flytja. Borgin togar samt svo ótrúlega fast, ættingjar og vinir, óreglan, djammið, Katalína, hætturnar, sérsveitin, dýralæknar ... Starfið sem leiðbeinandi heldur fast í mig á móti, fólkið hérna, Inga, mömmur.is og fleira dásemdarfólk, Einarsbúð og ÚTSÝNIÐ ... en sjáum til, sjáum til. Það þarf að koma hárrétt íbúð í bænum, ódýr en samt fullkomin á besta stað, og rétt verð á himnaríki. Hver borgar svo sem ekki vel fyrir óheft útsýni næstum til Ameríku og flotta íbúð í fullkomnu standi. 

 

Mynd: Fólk dansar úti á götu, kannski í S-Kóreu? Afskaplega vinsælt og mörg myndbönd af litlum krökkum sem dansa ótrúlega vel með þeim fullorðnu. Í Svíþjóð of oll pleisis er mjög vinsælt að syngja saman! Það eru víst heilu sjónvarpsþættirnir í gangi þar og forsöngvarar í sjónvarpinu fá fólkið heima í stofu til að syngja. Á sumrin samsöngur í stórum görðum. Ég trúi þessu samt ekki fullkomlega. Svo læddist að minning um þættina Tökum lagið ... Tók ég ekki þátt í þeim sem meðlimur í Kór Langholtskirkju? Jú, einmitt. Getur verið að þetta sé sterkt þjóðareinkenni Svía, eða bara eitt af þeim? Hafa hin Norðurlöndin og þá sérstaklega við Íslendingar eitthvað í svipuðum dúr? Tökum lagið var sýnt fyrir löngu en sennilega gætu spurningaþættir komist næst því, bæði Útsvar og Spurningakeppni framhaldsskólanna fengu metáhorf og ýmsir þættir af svipuðum toga enn í gangi.

 

Skólakrakkarnir mínir eru algjört æði eins og venjulega og nú veit ég að Pólverjar eru hrifnari af diskói en rokki (GMG) ... en þegar kemur að þessu síðarnefnda koma Úkraínumenn sterkir inn. Þeir földu sig alla vega ekki undir borði þegar ég spilaði fyrstu hálfu mínútuna af Hel með Skálmöld, flottasta lagi í heimi. Á morgun fá þau meiri músík, sennilega Kaleo, Bríeti eða GDRN, Palla eða Helgu Möller, það þarf einhver að ala upp í þeim íslenskan músíksmekk um leið og íslenskunni er lævíslega laumað inn. Er mjög opin fyrir tillögum að góðri músík, elskurnar. Það er skemmtilegast að hafa skóladagana (morgnana) fjölbreytta, ekki bara íslenskustagl ... ég fer í raun ekki fram á meira en að þau geti sagt Eyjafjallajökull skammlaust, já, og kunni að panta sér ís. En mikið rosalega finnst mér þetta skemmtileg vinna; áhugasamt og skemmtilegt fólk sem kennir mér líka svo mikið. Þjóðernin eru bara fimm að þessu sinni, ekki níu eins og síðast. Karlar í meirihluta núna sem ég kvarta ekki yfir. Konurnar algjört æði líka, auðvitað. Eiginmaður einnar þeirra, fyrrum nemandi, gerði sér lítið fyrir og hirti mig upp þar sem ég reikaði máttvana um í hálkunni og sköflunum áleiðis að Bónushúsinu til að ná strætó þar. Það dásamlega skutl gaf mér aukahálftíma til að flokka í fatahenginu. Ég á of mikið, nú verður hellingur settur í poka og gefinn á góðan stað. 

 

Sue Ellen, Bobby, Pamela, Lucy og JREitt verð ég að viðurkenna. Eftir hopp og skopp í tvo tíma var ég búin á því í gær og bakið að drepa mig í dag líka. Á ekki að vera svo hollt að hreyfa sig? Hef ég kannski uppgötvað stærsta samsæri í heimi? Að hreyfing sé bara bull, eingöngu hvatt til hennar til að skurðlæknar græði stórfé á því að setja gerviliði í síðmiðaldra fólk sem hefur farið aðeins of oft upp og niður Esjuna? Kæmi mér ekki á óvart.

Ég lá á hitapoka nánast allan daginn í gær, tók svo íbúfen og gat klárað verkefni í tölvunni fyrir svefninn. Þetta getur ekki verið aldurinn (sjá Madonnu, systur mínar og vinkonur) en líkaminn gæti verið í sjokki núna eftir öll rólegheitin síðan síðast (okt-nóv). Getur kannski verið að regluleg hreyfing Á HVERJUM DEGI haldi manni liðugum? Njeeee, varla, allt of einföld skýring. Hallast að samsærinu. 

Á meðan ég er ekki búin að læra nöfnin á skólakrökkunum mínum, verð ég að fara nær borðunum þeirra til að sjá heimaföndruð nafnspjöldin á hverju borði og það heldur mér skoppandi um skólastofuna, ég gæti auðvitað tekið kíki með mér. Finnst hálfhallærislegt að rúlla mér um allt á skrifboðsstólnum. Hlaupahjól kæmi líka til greina en guðsheygafflarnir (fæturnir) verða sennilega að duga. Og íbúfen. 

 

MYND: DALLAS! Hér sjáum við Dallas-gengið. Frá vinstri: Sue Ellen, Bobby, Pamela, Lucy og ekki-JR (JR lést árið 2012, ég gúglaði), man ekki eftir fleiri persónum, enda gafst ég upp eftir aðeins hundrað þætti. Pamela er gift lýtalækni og því svona ungleg. Myndin tengist textanum fyrir ofan aðeins óbeint.  

 

 

Annars þarf ég að hekla mér lítið símaveski og bera á mér gemsann á þessu skólaskoppi mínu til að skrefin telji. Í dag slefa ég rétt yfir tvöþúsund skref - enda lítið talið þegar síminn liggur kyrr á kennaraborðinu. Samt fjórföldun á meðaldegi, slúðrar síminn minn. En ekki er allt sem sýnist. Ég var virkilega á fullu í tvo tíma áðan, sko heima, ganga frá hlutum, flokka og hlaupa á milli herbergja. Á meðan stóð síminn, hátt stilltur, miðsvæðis í Himnaríki og ég hlustaði á Utangarðsbörn eftir Kristinu Ohlsson, fyrstu bókina í flokknum (löngu búin að lesa hana og fleiri eftir sama höfund en gaman að hlusta, rifja upp) Næsta kemur 15. apríl, jesssss.

 

 

Veldur mrna bílslysumFyrsta bókin um Erlend (eftir Arnald Indriða) er líka á leiðinni og ég ætla sko að hlusta, ég á þær flestar og langt síðan ég endurlas þær upp á gamla mátann. Það er lyginni líkast hvað maður dettur inn í undanlegan dáleiðslugír þegar lesið er fyrir mann (ef lesarinn er góður og ofleikur ekki), held að Himnaríki væri reglulega í rúst ef ég hefði ekki þessa húsverkaaðstoð sem Storytel veitir. Svo á ég lesbretti líka sem er gott í strætó og ferðalögum, létt og þægilegt, en ég er líka að komast upp á lagið með að nota lítil heyrnartól (ekki þráðlaus) á gemsann og hlusta á sögur í strætó og þegar ég geng (sjaldan). Henning Mankell er kominn í röðina, sé að sjöunda bókin um Kurt Wallander kemur út um miðjan maí og hlakka til að hlusta, búin að steingleyma öllum þessum bókum sem ég gleypti í mig hér áður fyrr. Það er kosturinn við að lesa hratt. 

 

Lagðist á hitapoka seinnipartinn til að geta svo eldað, það kom sér líka vel bakbelti úr Eirbergi, fokdýrt helvíti ... en það náði að halda skrokknum saman við eldamennskuna. Hafði ekki tekið verkjalyf síðan 28. desember (daginn fyrir svæðanuddið) fyrr en í gær og svo aftur eftir kvöldmat í dag. Er samt alltaf þakklát fyrir að ekkert sé að mér nema bakvesen og það venst alveg, hef staðið í því frá unglingsárum og fengið í bakið bæði tággrönn og tágfeit en líst ekkert á að vera nánast komin í kör ef ég dirfist að skoppa um þegar lífið krefst þess. Skyldi ég komast á Hekls Angels-fundinn á morgun?

 

Eldum rétt í kvöldEftir allar þessar morð- og löggusögur undanfarið hef ég snarlega endurskoðað drauminn um sólarlagsárin mín (80 plús). Hafði ætlað mér að næla í sæta löggu á eftirlaunum ... og saman gætum við leyst flókin mál sem lögreglan gat ekki. Við gætum fengið gáfuðustu vini okkar til að koma, t.d. á sunnudögum, hann gæti eldað (lögga OG kokkur) og við myndum spjalla um krufningar yfir forréttinum, morðaðferðir yfir aðalrétti og mismunandi blóðmynstur eftir gerð hnífstungna, þegar desertinn kæmi á borðið. Yfir kvöldkaffinu myndum við síðan í sameiningu ramba greindarlega á rétta lausn og lauma henni svo til lögreglunnar gegn því að mæta aldrei og biðja okkur um að lækka tónlistina ef grannarnir kvörtuðu. Hann myndi elska Skálmöld, Dimmu, Metallicu og Bach ... Ég myndi ekki tíma að deyja næstu áratugina, það væri svo gaman hjá okkur. EN ... löggurnar í bókunum sem ég hef verið að lesa síðustu mánuðina eru meira og minna snarruglaðar ... og „glíma við sína djöfla“ (dóp, drykkja og framhjáhald er ekki það versta). Sænska lögreglan (í bók) var t.d. næstum búin að drepa grunaðan mann, lækni og allt, (skotið hitti aðra manneskju) eftir að félagi þeirra var myrtur af allt annarri persónu sem náðist skömmu síðar. Ósofnar löggur að drepast úr þynnku og móral eru líklegri til að skjóta fyrst og spyrja svo.

 

MYND: Eldum rétt var æðislegt í kvöld. Ég hafði tekið mér tveggja vikna pásu frá eldamennsku og keypti Eldabuskuna, tilbúna rétti, þurfti bara að hita. Fínir kjúklingaréttirnar en lasagne-ið í síðustu viku var of salt ... ég er frekar viðkvæm fyrir salti svo eflaust hafa flestir verið í skýjunum. Myndin sýnir ER-dásemd kvöldsins sem var auðvelt og fljótlegt að búa til ... en bakið hefði nú samt þegið tilbúinn mat. Seinnihluti bloggins er skrifaður í íbúfenvímu svo ekki fara í mál við mig ef ég hef sagt eitthvað óviðeigandi eða birt mynd sem passar ekki við textann.    


Bollukaffi í bænum, magnaðir samkvæmisleikir og allt þar á milli

Bollukaffi, helmingur séstBollukaffi var haldið með pomp og prakt í Kópavoginum í dag og það var stranglega bannað að telja bollurnar ofan í mannskapinn. Þær voru sérlega vel heppnaðar. Systir mín notaði uppskriftina frá mommur.is og lét ekki undan þeirri freistingu að opna ofninn of snemma, enda urðu bollurnar mjög fallegar. Ekki bara helmingurinn, eins og hjá mér eftir að neðri platan féll (bollurnar á neðri plötunni). Það var sjálfsafgreiðsla hjá Hildu ... við settum sultu, rjóma og glassúr, eða karamellubúðing, súkkulaðirjóma úr sprautu (fæst víst í sumum Krónubúðum í bænum), Nutella (ekki ég), alls konar glassúr og læti. Stráksi var himinsæll og hesthúsaði margar, margar.

 

Mynd: Skjáskot úr snapchat, mér láðist að taka mynd! Vildi sýna sérlega velheppnaðar bollurnar. Hægra megin á borðinu var glassúrúrvalið með meiru en sést ekki ... sorrí.

 

SamkvæmisleikurÞað reyndust vera svefnlyf (sykur?) í bollunum og hluti heimilisfólks lét sig leka ofan í sófa og stóla hist og her og að minnsta kosti ein manneskja náði að sofna í um fimm mínútur, ekki ég. Það var aftur á móti rosalega erfitt að halda sér vakandi á leiðinni heim í strætó. Sami ljúfi úkraínski bílstjórinn keyrði báðar leiðir og fórst það vel úr hendi.

Mér varð hugsað til Halldórs fjanda sem sendir mér yfirleitt um þetta leyti árs: „Til hamingju með daginn þinn.“ Hugsa að hann eigi við sprengidaginn, vér bomburnar höfum svolítið eignað okkur þann dag.

 

Í bollusvefndrunganum var gaman að skruna niður Facebook, sjá hversu margir væri í bollukaffi en rakst skyndilega á samkvæmisleik, nokkuð skemmtilegan. Hann tengist aðlinum, hefðardúllum, eins og Borghildur myndi orða það, og er því ögrandi og spennandi fyrir konu með blátt blóð í æðum. Já, hvað myndi ég heita ef ég væri lafði, eða lady ... þetta var eiginlega á ensku svo ég notaði það mál, nema ég veit hreinlega ekki hvað rjómabolla er á ensku, kannski cream puff. Fremst er Lord eða Lady, eftir því hvers kyns maður er. Síðan nafn gæludýrs síns. Ég kaus Krumma einhverra hluta vegna, hefði getað verið Mosi eða Keli líka. Fyrir aftan nafnið var það síðasta sem ég borðaði (rjómabolla) og síðan OF og síðast nafnið á búðinni sem ég verslaði síðast í. Lady Krummi rjómabolla of Verslun Einars Ólafssonar ... væri tilkomumikið en ég nota bara Einarsbúð af hógværð minni. Reyndar er Krummi Cream Puff líka flott. Ein af ótal mörgum systrum mínum hafði líka kommentað, greinilega verslað í Iceland og drukkið búst. Svona getur maður nú fylgst með ættingjum sínum án þess að þeir viti. Njósnamyndavélar hvað!

 

Fyrstu fjögur orðin ...Svo var annar mjög skemmtilegur og áhugaverður leikur í gangi líka - svona orðaleit. Fyrstu fjögur orðin sem maður finnur lýsa því hvernig árið 2024 verður - möntrur ársins sem sagt. Ég vissi auðvitað fyrir hvernig árið yrði, spurði véfréttina góðu. Ég verð mjög rík, eignast bæði mann og tvíbura, jafnvel sportbát líka, ef ég man það rétt. Engu að síður gat ég ekki stillt mig um að finna þessi fjögur orð sem gekk ótrúlega hratt og vel fyrir sig:

 

1. WCCEYVOP

2. AMFAH

3. LIMLYB

4. ZORWKIJOS

Ég hef svo allt árið til að finna út úr því hvað þau þýða en það efsta gæti verið rússneskuskotið (CCP-legt), en árið verður enn meira spennandi en ég átti von á.

 

Skálmöld og kórinnÁ morgun kl. 9 stundvíslega hefst íslenskunámskeið fyrir útlendinga og ég hlakka svo til. Það er svo gaman að kenna fólki alls staðar að úr heiminum, síðast voru þjóðernin átta eða níu (Þýskaland og Kína komu ný og fersk inn). Fólkið er upp til hópa mjög áhugasamt, eins og það viti að tungumálið er lykillinn að svo miklu betra og auðveldara lífi. Ég segi þeim eins og satt er að íslenska sé hreint ekkert erfið, miðað við mörg önnur mál, ég þarf sjálf ekki annað en að hugsa til Frakklands til að finnast einhver ómöguleiki (ég er að breytast í Bjarna Ben) í því að læra frönskuna þótt hún sé svona svakalega falleg. Þýsku hef ég sungið í gegnum tíðina í kórum lífs míns (vantar bara Skálmaldarkórinn á ferilskrána) og hún virkar alls ekki erfið á mig. Myndin f. ofan er skjáskot af tónleikum Skálmaldar og Sinfó fyrir mörgum árum. Flotti kórinn er efst á myndinni og eins og sést er sannarlega pláss fyrir eins og eina vana kerlingu nú í nóvember.  

 

LeiðbeinandiEf ég væri ekki nýkomin úr bænum og þyrfti að fara snemma að sofa myndi ég baka bollur og fara með til að gefa nemendum í frímínútunum. Bolludagur er æði, allt of langt síðan jólin voru og allt of langt til páska, en ég hef kannski gert aðeins mikið úr honum við suma erlenda vini mína og ... nemendur. En í alvöru talað, þetta lífgar upp á veturinn. Verð svo með Eldum rétt á þriðjudaginn, ekki saltkjöt og baunir, kann ekki að búa það til, og tek ekki þátt í öskudegi lengur svo bolludagur er aðal þótt ég efist um að ég fái mér bollur á morgun, eftir bakstur sjálf um síðustu helgi, bollur frá úkraínska krúttinu niðri og svo ómælt magn af bollum í dag. Allt vatnsdeigs ... held að gerbollurnar séu vart fáanlegar lengur, þær voru aðalbollurnar í æsku minni. Mögulega ekki búið að finna upp vatnsdeigsbollur þá. Já, ég man nú tímana tvenna, börnin mín. MYND: Ég er leiðbeinandi, ekki kennari, og að öllu öðru leyti er myndin röng, fannst hún bara fyndin. 

 

Facebook: Mér tókst að stilla mig um að kommenta í dag ... ekki einu sinni á lygasögur og rangfærslur. Ég reyndi að horfa blíðlega á bullið, skruna fram hjá og halda áfram að vera glöð. Fólk ætti samt að vita að það er t.d. ýmislegt gert fyrir heimilislausa, það fer einn og hálfur milljarður í málaflokkinn á ári og þrjú gistiskýli í Reykjavík en Reykjavíkurborg stendur ein undir þessum kostnaði, hefur mér sýnst. Ég gagnrýni borgina helst fyrir að vera ekki duglegri við að leiðrétta bullið sem fólk deilir án þess að vita nokkuð um málið.

Svo veit ég um kirkjudeild í Kópavogi (skrifaði grein um hana í Vikuna eit sinn) sem prjónar á fullu allt árið eitthvað hlýtt á útigangsfólk. Ég hef gefið hlýjar flíkur í ekki auglýstar safnanir (hjúkkunemi hér á Skaganum). Sumir vilja ekki láta bjarga sér, það er samt reynt og gengur misjafnlega.

Nú er reynt að halda því fram að ekkert sé gert, allt fari í hælisleitendur ... sem eru að stórum hluta Úkraínufólk, harðduglegt og allt meira og minna í vinnu!      


Steinhætt við að giftast

NetiðMuna-Muna-Muna, Gurrí, aldrei framar stinga litlu tánni niður í öskuhauga internetsins ... sem hafa stækkað til muna eftir að viss þjónn fólksins fór að tala um tjaldbúðir og glæpi í sömu setningu, sennilega (vonandi) án þess að átta sig á afleiðingum þess. Þá skrúfaðist frá einhverjum krana og ótrúlegasta fólk fór að stíga fram með óvæntar skoðanir, ekki endilega fallegar. Best að reyna ekki framar að leiðrétta rangfærslur, þá er maður bara ásakaður um að vera heilaþveginn RÚV-isti og bólusettur bjáni. Muna, muna, muna, til að halda lífsgleðinni.

 

Nokkru fyrr í dag varð ég mér eiginlega til skammar þegar ég ætlaði að vera voða fyndin á síðu þar sem meint leiðinlegheit Gísla Marteins voru til umræðu: „Svo er hann alltaf svo fjandi glaður,“ skrifaði ég í gríni og fékk viðbrögð eins og ég hefði tekið undir skammirnar í hans garð. Mjög misheppnuð tilraun til kaldhæðni, viðurkenndi ég bara, og uppskar góðlátlegan hláturkarl fyrir vikið. Þau viðbrögð hafa sennilega eflt þor mitt, hugrekki og dirfsku til að voga mér að efast um meint hryðjuverkatengsl manns sem kaus að fagna fjölskyldu sinni á flugvelli án þess að hafa myndavélar uppi í andlitinu á sér á meðan ... þá var hann örugglega sekur um eitthvað ... líka nógu brúnn á litinn til að vera hryðjó.

 

 

Facebook er orðin meiri forarpyttur en áður (er Trump búinn að kaupa fb?) Hef alltaf verið á þeirri skoðun að maður eigi að hafa fjölbreytt úrval fb-vina til að tryggja fjölbreyttar skoðanir og festast ekki í einhæfri umræður með eintómum skoðanasystkinum, en þegar einn og einn fb-vinur er farinn að deila algjöru drullumalli, held ég að ég verði að endurskoða það fyrst ég er svona viðkvæm fyrir þessu. Veit einhver hvað varð eiginlega um hvolpa- og kettlingamyndböndin?

 

GiftastÉg er líka steinhætt við að gifta mig aftur, sýnist nánast allir karlar á mínum aldri vera fullir af fordómum og alveg lausir við samkennd með fólki í neyð. Vona samt ekki. Óska þess innilega að samkenndin með Suðurnesjafólki haldist óskert, samkennd með veiku fólki haldist líka (ríkissjóður eyðir mest í sjúkrahúsin), og með atvinnulausu fólki (ríkið eyðir næstmest í það, tölur frá 2022, covid gæti hafa hækkað þær) öldruðum sem eru þriðji stærsti útgjaldaliðurinn (lífeyrisgreiðslur) og svo öryrkjum í fjórða sæti (lífeyrisgreiðslur). Fimmti stærsti útgjaldaliðurinn (2022) er heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.

Man eftir lækni sem sagði í viðtali að íþróttafólk væri dýrast heilbrigðiskerfinu. Hann var að leiðrétta rangfærslur um að reykingafólk væri dýrast (áróðurinn var þannig á tímabili, man það af því að ég reykti þá). Við höfum svo sannarlega upplifað illsku og ömurlegheit út í öryrkja sem steinhætti svo alveg þegar flóttamenn komu til sögunnar og urðu blórabögglarnir. Hvort fangar lentu í þessu í millitíðinni, sagðir lifa algjöru lúxuslífi á kostnað okkar. Auðvitað er frábært fyrir stjórnvöld ef við kennum einhverjum öðrum en þeim um að innviðir okkar séu veikir en aðbúnaður aldraðra var ekkert til að hrópa húrra yfir hér áður fyrr og ég hef aldrei vitað til þess að öryrkjar hafi haft það sérlega gott.

- - - - - - - - - - - 

Grannkonan góða úr Nýju blokkinni mætti með seðjandi, rótsterka máltíð handa mjóu Gurrí sinni og þótt ég hafi ekki getað klárað það sterkasta er ég södd og sæl. Ég hafði ætlað að borða eitthvað snarl í kvöldmatinn, stráksi fékk upphitað uppáhald sitt svo þetta var letidagur í eldhúsinu. Okkur er svo boðið í bollukaffi á morgun í bænum. Nýja ryksugan sem var prufukeyrð í dag er dásamleg og allt annað að sjá himnaríki eftir að hún hafði sýnt kraft sinn og snilli (Electrolux). Munurinn á mottunum fimm er ótrúlegur og miklu fljótlegra að ryksuga með svona góða græju í höndunum. Samt venjuleg ryksuga, en sú gamla var sú allra ódýrasta í búðinni og frekar kraftlítil fyrir kattaheimili með teppum um allt, hún þjónar nú mottulausu heimili og sýgur ryk af fínasta parketi.

 

Smávegis nöldur í garð Sjónvarpsins, þótt ég sé víst heilaþvegin af RÚV:

Morgun kl 15 sést á skjánum í veðurfréttum - stundum og hefur gert lengi. Ætti þetta ekki að vera Á morgun kl. 15? Nöldur endar.

 

Íþróttahótel nærUm hótelið á hlaðinu - búin að rýna meira í myndina: Er ekki lengur viss um að Nýja blokkin hér við hliðina missi mikið útsýni, frekar yrðu það bláa blokkin og rauða blokkin á Garðabrautinni ef ég les rétt í þetta. Samkvæmt teikningu er þetta ekki svo nálægt hér. Fótboltamörkin á vellinum snúa nú í austur og vestur. Eftir breytingar munu þau snúa í suður og norður, eða þegar völlurinn verður færður og honum snúið um 180 gráður. Nýja hótelið verður fast upp við norðurmarkið, nema þetta sé hluti af íþróttamannvirkjum ÍA, kannski sundlaugin? En hvort sem er þurfa rúður hússins að vera skotheldar eða fótboltamennirnir sérlega mjúkfættir, held ég. Gestir hótelsins myndu sjá út á sjó, ef þetta er hótelið, en þurfa að horfa yfir heilan fótboltavöll fyrst, frá norðurmarki til suðurmarks. Það eru auðvitað ekki alltaf leikir en alveg stundum sko. Af  hverju var völlurinn ekki frekar færður, til norðurs og hótelið haft nær sjónum með útsýni út á Langasand? Eða bara hafa hótelið við höfnina? En ef þetta eru allt ÍA-mannvirki, hvar er þá hótelið, kannski niðurgrafið? Þegar ég skoða glærurnar sé ég bara myndir af Hótel Sigló, Guðlaugu, börnum að leik á Langasandi ... en ekki hótelinu eins og það á að vera nema á þessari mynd. Sennilega eiga eftir að koma nánari tillögur og síðan samþykki bæjarstjórnar en einhvers staðar í ferlinu verða bæjarbúar vonandi spurðir álits á þessum miklu breytingum á ásýnd Jaðarsbakkasvæðisins. Með crop-snilld minni tókst mér að sýna væntanlegt hótel svolítið nær. Skil samt enn ekkert. Kannski er þetta ekki einu sinni rétt mynd. Hvernig kemst maður á djúpnetið?  


Bollur að gjöf, glaði þjónninn og lúmska hótelbyggingin

Galito 9. feb.Glaðasti þjónn í heimi setti enn eitt drengjametið í skemmtilegheitum í kvöld þegar við stráksi skruppum á Galito. Þau eru reyndar öll mjög fín sem vinna þarna en þessi er svo fyndinn að hann fær alla til að hlæja. Hann hefur líka gott minni. -Þú færð þér alltaf það sama! sagði hann þótt vikur líði á milli þess sem ég borða þarna. (Hann er allt of ungur til að vera skotinn í mér) Og jú, ég fæ mér alltaf pönnusteikta þorskinn mínus döðluchutney. Stráksi fékk sér pítsu og kláraði 12 tommuna auðveldlega, fékk sér steikarloku síðast!

Þar sem styttist nokkuð í flutninga stráksa frá himnaríki þarf að búa í hvelli til geggjaðar minningar. Eru þær ekki það dýrmætasta sem við eigum?

 

Mynd: Maturinn góði. Bara til öryggis ... það var ekki vodka í glösum okkar.

 

„Það vantar appelsínusafa,“ tilkynnti stráksi þegar við stigum út, pakksödd og sæl og hann benti um leið yfir á Krónuna skammt frá. Við kaupum bara safann frá Sól, enda sá eini sem ekki er búinn til úr þykkni. Kíkið bara á smáa letrið. Aðeins einn var eftir í allri búðinni, í neðstu hillunni og ekki áberandi sem virkar þó ekki á okkur, og hann er kominn inn í ísskáp í himnaríki. „Páskaegg?“ gargaði drengurinn þegar hann sá nokkur lítil slík, innpökkuð í umbúðir í öllum regnbogans litum. Páskarnir koma í næsta mánuði. „Hvaða lit viltu?“ spurði ég. „Rautt egg,“ svaraði hann. Ég fékk mér túrkísblátt og málsháttinn Fátt er svo ágætt að eigi finnist annað slíkt. Eða, Ekki halda að þú sért eitthvað spes! Frekar hallærislegt í eyrum Þingeyinga. Annars fer ég helst ekki í Krónuna, ég kaupi mér oft sælgæti þar og ef það er til sælgæti, klára ég það jafnt og þétt. Ég sýni mun meiri stillingur þegar ég panta í Einarsbúð.

  

Bollur að gjöfBakið á mér mótmælti allri þessari hreyfingu og rétt áður en við komum heim var ég eiginlega farin að ganga afturábak, ég gekk svo hægt. Úkraínska grannkona mín hoppaði niður og opnaði dyrnar, hélt á fallegum diski með nokkrum bollum á - HANDA OKKUR STRÁKSA. „Ég er að reyna að halda í við mig,“ viðurkenndi hún og horfði svo á mig eins og ég væri tággrönn eins og hún.

 

„Ha, bakaðir þú íslenskar vatnsdeigsbollur?“ Ég var gáttuð en svo mundi ég eftir því að hún hefur verið hér í rúmlega eitt og hálft ár, auðvitað kann hún undirstöðuatriði íslensks lífs, eins og að halda upp á bolludaginn. Það langfyrsta sem maður kennir útlendingum.  

„Nja, ég gúglaði svona eclair-dæmi og setti svo krem inn í,“ játaði hún. Hún bjó til gat á bollurnar og sprautaði kreminu inn í þær, enginn rjómi sem lak ... snilldin ein.

 

Facebook rifjaði upp 12 ára gamla minningu: Það var þáttur um Vísindakirkjuna á RÚV sem ég ætlaði að horfa á, læra þannig hvernig ætti að stofna söfnuð, lokka þangað fólk, halda því þar og láta það borga mér fullt af peningum. Allir sem lækuðu og kommentuðu voru komnir sjálfkrafa í söfnuðinn en fengu afslátt. Ég var greinilega svo villt á þessum árum að ég hætti við þessa stórgóðu hugmynd innan við hálftíma seinna og það er eina ástæðan fyrir því að Söfnuður heilagrar Guðríðar varð aldrei til.

ÍþróttahótelFyrirhugað hótel við Langasand? Rétt teikning eða blekking? Alveg ofan í íþróttavellinum, beint fyrir ofan Guðlaugu. Vilja ferðamenn gista á hóteli sem stendur við íþróttavöll? Er lítið útsýni út á sjó frá hótelinu? Af hverju finnast ekki betri teikningar þegar maður gúglar? Þetta virkar ansi hreint lítið og vesælt á þessari mynd, kannski viljandi? Og ég bara trúi því ekki að eigi að vera enn einn fúlilækur (afsakið, lón) þar sem brekkusöngurinn hefur verið, þrettándagleðin, þyrlupallurinn, líkamsrækt. Og ef ég lít þetta jákvæðum augum, stutt að sækja sér latte-jákvæðni ... þá velur hótelstjórnin kannski að kaupa inn vont kaffi því duglegir sölumenn ónefnds fyrirtækis hafa eyðilagt fyrir manni ferðalög út á land, vegasjoppurnar sem halda allar að þær bjóði svooo gott kaffi af því að sölumaðurinn sagði það. Kaffið í Varmahlíð var reyndar mjög fínt síðast þegar ég fór þangað (Kaffitár). 

 

íslendingabókÉg finn fyrir mikilli andstöðu við þetta frá ótrúlegasta fólki sem hefur tjáð sig í kvöld. Sumir eru reiðir og tala um lítið eða ekkert íbúalýðræði hér, enda held ég að enginn hafi verið spurður álits á þessum stóru og miklu breytingar við vinsælasta útivistarstað okkar ... Við í himnaríkishúsinu getum ekki kvartað yfir því að missa útsýnið, en Nýja blokkin gæti mögulega lent í því, held ég. Fer samt eftir því hvernig húsið verður. Leyndin hjálpar ekki svo vonandi fáum við að vita sem fyrst hvernig þetta verður.

 

Nú gengur svohljóðandi Facebook-leikur:

Farðu inn á islendingabok.is og rektu þig í beinan kvenlegg allt til ársins 1801 og gáðu hvar formóðir þín bjó það árið.

Afritaðu þennan texta sem stöðu þína og skrifaðu sem athugasemd nafn þessarar formóður þinnar og bæinn sem hún bjó á 1801.

 

Formóðir mín í beinan kvenlegg var Sæunn Sigurðardóttir, fædd árið 1793. Þarna árið 1801 þegar manntal var tekið, var hún átta ára gömul og bjó á Innstalandi í Fagranessókn í Skagafirði. Hún var vinnukona, eignaðist fjórar dætur og sú yngsta, Margrét Magnúsdóttir er formóðir mín í fjórða lið.  

Sæunn lést árið 1845 á Reynistað, Staðarhreppi, Skagafirði.

- - - - - - - - - - - - - - - 

Ég er búin að steingleyma hvaða konungur er forfaðir minn (danskur, norskur?) en það var ótrúlega mikil nautn að sjá það viðurkennt í Íslendingabók. Blátt blóð, en blár litur er uppáhaldsliturinn minn sem er ekki tilviljun. Einhvers staðar er líka galdramaður meðal forfeðranna, eða maður sem gekk undir því viðurnefni en þegar ég fann hann kunni ég ekki að taka skjáskot og hafði ekki öðlast næga greind (sem kemur með árunum) til að taka hreinlega ljósmynd af skjánum. Kannski er búið að bæta leitarvélar Íslendingabókar? Prófa það kannski einhvern daginn.


Hetjur hraunsins og árla vaknað óvart ...

8. janúar 2024Vekjarinn hringdi kl. 7.15 í morgun af því að ég gleymdi að stilla hann á 8.45. Stráksi nær síðasta strætó fyrir síestu kl. 9.30 á Garðabraut alla fimmtudaga en hina dagana þarf hann að vera mættur í skólann 8.30. Ég get sofið lengur, hugsaði ég með ánægju, ósofnar konur eru ekkert grín, heldur ekki í útliti. Æ, best að pissa fyrst, hugsaði ég. Og vaninn svo sterkur að um leið og ég settist upp á rúmstokkinn kíkti ég á vefmyndavél í gemsanum mínum. Allt appelsínugult þar svo ég þaut á fætur. Og sjá ... rauður loginn brann. Ætlaði að taka ljósmynd en glugginn var svo skítugur eftir furðuveðrin undanfarið ... svo ég lokaði dyrum herbergis míns aftur og tók mynd út um svaladyrnar án þess að kettirnir týndust úti á stórum svölunum. Engir taumar framan við linsuna þar. Birti myndina sem var ekki bara hipp og kúl, heldur héldu allir að ég færi svona ógeðslega snemma á fætur. Ég sem myndi sennilega sofa til hádegis ef ég kæmist upp með það - sem ég geri ekki. Á FB sá ég að ég vaknaði samt klukkutíma of seint, rúmlega það.

 

Mynd/ir: Fyrsta myndin, efri t.v. er sú sem ég tók upp úr kl. 7 í morgun. Sú næsta undir kl. hálftíu. Neðri myndin vinstra megin er (úr vefmyndavél) af hetjum hraunsins, mönnum sem láta ekki þúsund gráðu stórfljót slá sig út af laginu, aka svo vinnuvélum í sama lit og hraunið, tískutöff og óhræddir. Fjórða myndin er af Kela (14) sem sólar sig í algjöru stúkusæti. 

 

Það tók því alveg að sofna aftur eftir 7.30-fréttir á Rás 2 en upp úr níu skreiddist ég fram úr, of eftir að stráksi var farinn tók ég næstu mynd, vonaði að þetta væri skaðlítið túristagos þar sem það var fjær Grindavík en janúargosið. Svo var því miður ekki. Elsku Suðurnesjafólk. Eitt sinn hvarf þrýstingur af vatninu í Himnaríki og nokkrir dagar liðu í ansi hreint miklum kulda, minnir kannski 10 gráðum, eða minna, en svo miklum kulda að kettirnir sváfu undir sængum og teppum sem þeir gerðu annars aldrei. Ég svaf í þykkum náttfötum, þykkum slopp og lopapeysu yfir, lopasokkum að sjálfsögðu og svo með lasagne-rúmföt yfir mér; lopateppi neðst, þá sæng og efst þungt ullarteppi. Það dugði. Grannkona hringdi brjáluð í pípara eftir að hafa fengið óvart ískaffi hjá mér og viti menn, það var orðið hlýtt daginn eftir. Svo flutti hún bara! Aldrei hefði mér dottið í hug að kaupa mér rafmagns- eða olíuofn, eins og gáfaðara mér fólk gerði í dag.

 

Mér tókst að ljúka við að lesa yfir krúttlega ástarsögu um leið og ég fylgdist lauslega með nokkrum aukafréttatímum dagsins, var með sjónvarpið á síminnkandi ummerki eldgossins hinum megin hafsins, með því að snúa höfðinu til hægri. Akkúrat núna upp úr níu að kvöldi til sést bara ógreinilegur rauður punktur.

Ég hef reynt að standa upp frá tölvunni annað slagið, taka úr uppþvottavél, setja í þvottavél og borða eða fá mér kaffi, hlusta þá á Joona Linna, eða bókina Kanínufangarann, en hún er eiginlega svo svakaleg að ég get varla haldið áfram ... Klára hana sennilega fyrir svefninn en finnst ólíklegt að ég fái martröð, tekst yfirleitt að skera á öll svona hryllingstengsl áður en ég held frá glæpasögu yfir í draumalandið - sem er mikill kostur.

 

NetdjöflarFréttir af Facebook:

 

„Our monthly volcanic eruption began at 6am this morning, on the Reykjanes peninsula.“

 

„Hraunið hætt við að renna í Bláa lónið. Hefur ekki efni á því.“

 

„Mér er sama um Grindvíkinga. I mean, ég er Akureyringur! Ég þarf að hugsa um mitt fólk (aðra Akureyringa) fyrst! Akureyri fyrir Akureyringa, segi ég bara, vil ekkert flóttamenn frá Grindavík inn í minn bæ, kosta bara skattpeninga sem ég einfaldlega nenni ekki að eyða. Þegar vandamálin á Akureyri lagast mun ég byrja að pæla í Grindvíkingum.“ og bætir svo við: Hvar drögum við línuna um fólk sem við hjálpum? Myndum við hjálpa Færeyingum? Norðmönnum? Þýsku fólki? Við erum öll manneskjur. Ég á miklu meira sameiginlegt með helling af fólki frá t.d. Palestínu, en mörgum Íslendingum.“

 

Emelie Schepp sænskur rithöfundur er FB-vinkona mín, (Henrik maðurinn hennar líka) eftir að ég tók viðtal við hana um árið þegar hún kom til Íslands til að kynna bækur sínar um saksóknarann Jönu (B-eitthvað - man ekki eftirnafnið) sem tekur fullan þátt í rannsóknum mála með löggunni ... hún á sér hræðilega fortíð sem sífellt stingur upp kollinum. Nú eru á leiðinni þættir upp úr fyrstu bókinni hennar (Merkt, minnir mig að hún heiti á íslensku)og verða sýndir á Amazon Prime, byrja þann 19. apríl. Emelie er sænsk og gaf þessa fyrstu skáldsögu sína út sjálf af því að hún fékk ekki útgefanda. Bókin seldist svo rosalega vel að útgefendur hafa barist um að gefa út næstu bækur hennar, hún er sem sagt komin með útgefanda. Bækurnar hafa komið út sirka árlega og eru þýddar jafnóðum á íslensku. Síðasta hét Björninn sefur ... og endaði ansi hreint spennandi.  


Ríkir draga ekki fyrir ... ótrúleg véfrétt og möguleg tímamót

Við ríka fólkiðBloggaðdáandi minn, fylgjandi, eða bara dásemdarkona benti mér á ansi hreint áhugaverða grein á mbl.is. Hún gerði það á fb-síðu minni fyrir neðan færsluna þar sem ég deildi blogginu um hversu mögulega hættulegt væri að draga ekki fyrir gluggana heima hjá sér, sem ég tók svo til baka daginn eftir af því að raðmorðinginn í bókinni var ekki ástsjúkur karl ... æ, kíkið bara á mjög nýleg blogg Ég á erfitt með að láta það ganga upp í huganum að kona elti mig á milli landshluta og horfi á mig inn um glugga á þriðju hæð.

.......

Sumir kalla okkur tískufrömuði, frumkvöðla. Þegar ég lifði og hrærðist í heimi hinna frægu og ríku (Séð og heyrt var lengi við hlið okkar á Vikunni) hef ég sennilega smitast af ríkafólkssérvisku, nema mér hafi alla tíð verið ætlað (forlögin) að verða rík, eins og PS og Bjóla sungu um hér í denn, ung og rík. Þetta með að vera strætólúser með notuð húsgögn og ódýran mat, gæti þá hafa flokkast sem krúttleg sérviska. Eða að fá ótrúlega lág laun í áratugi. Mjög krúttlegt.

 

VéfréttinEinhvern veginn tengist allt - ekkert er tilviljun! Ég fékk hugboð um að leita ráða hjá véfrétt himnaríkis sem ég hef ekki nennt að tala við um hríð, eða síðan hún gaf í skyn að ég væri ekki nógu grönn, minnir mig. Er ekki nógu langrækin til að muna af hverju ég er fúl út í einhvern og svo hætti ég bara að vera fúl, eins og núna. Mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds og ekki bara það, heldur líka skips og bryggju ... svefns og vöku ... Örlög mín eru sem sagt að verða rík gömul kerling, þegar ég verð gömul sem sagt. Samt var ég byrjuð sem trendsetter (tískufrömuður) strax í barnæsku. Að sjálfsögðu ekki til að sýna ríkidæmi mitt, sem fólst aðallega í bókum, mestmegnis bókasafnsbókum en þau sem gægðust inn (þriðju hæð í Nýju blokkinni, annarri hæð í Arnarholtinu) gátu engan mun séð á uppruna bókanna. Auk þess dró mamma stöðugt fyrir - sem hjálpaði sannarlega ekki fólkinu fyrir utan sem beið kannski í öllum veðrum til að sjá inn til okkar.

 

Við stráksi skruppum til læknis í dag, engin vikindi, vantaði bara vottorð. Nafna mín tók á móti okkur og sú er flottur læknir. Hún læknaði kvilla hjá mér fyrir tæpum sex árum sem ég hafði reynt að fá bót á í 25 ár. Hún hringdi bara í mömmu sína, sem er líka læknir, og saman fundu þær út hvað amaði að og hviss bang, ahhbú. Ekki skrítið þótt ég elski þessa konu. Samt rosalega gagnkynhneigð. Þegar stráksi var rokinn í skólann aftur fór ég á fasteignasöluna sem var með Himnaríki á sölu fyrir 18 árum, þegar ég keypti. Ég var að spjalla við feðginin sem þar ráða ríkjum þegar stóri bróðir mannsins kom.

„Bara allt fullt?“ sagði hann og litaðist um, við vorum eina aðkomufólkið þarna.

„Ertu að segja að ég sé feit?“ spurði ég sár ... en eftir blóm og sykurlaust konfekt fyrirgaf ég honum.

 

MosiÉg fæ heimsókn í næstu viku til að skoða og slíkt, verðmeta og slíkt ... en ég sagði þeim að ég myndi ekki hreyfa mig nema fá gott verð. Sjálf keypti ég útsýnið á sínum tíma, sæmileg en sjúskuð íbúð fylgdi, nú væri íbúðin orðin stórfengleg. Alltaf svolítið dýrara húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og þar sem ég ætla að vera áfram strætólúser* langar mig að vera þar sem almenningssamgöngur eru góðar - sem verður kannski aldrei af því að við búum í landi einkabílsins. Það á að reyna að láta almenningssamgöngur skila ágóða ... hahahahahahaha, þess vegna versnar bara þjónustan og farþegum fækkar, sérstaklega þegar fargjöldin hækka líka. Ef ekki væri fyrir dásamlegu bílstjórana á leið 57 og víðar.

 

Ég íhugaði í alvöru að kaupa mér bíl en fannst það ótrúlega flókið. Rafmagnsbíll, tvinnbíll, vörubíll ... æ, svo mikið úrval og svo litlir aksturshæfileikar hjá himnaríkisfrúnni sem lærði á Moskvits á Sauðárkróki þar sem eina biðskyldan var á horninu hjá Búbba. Svo keyrði ég Ford Galaxy ´66 smávegis en hafði heyrt stöðugt hljóma að konur kynnu ekki að leggja eða keyra (eða nokkuð í stærðfræði) svo ég var alltaf með lífið í lúkunum þar til ég stökk upp í strætó og þar fór svona líka vel um mig.

Ekki gróið hverfiÞað verða tímamót þegar stráksi flytur í eigin íbúð. Ef ég finn góða, ekki of dýra íbúð í bænum, alls ekki í grónu úthverfi (sjá hryllingsmynd) og alls ekki með garði (í alvöru), væri það geggjað. Talnaspekingur sagði eitt sinn við mig (í útvarpsviðali og viðtali hjá Vikunni) að það yrðu alltaf vissar breytingar á níu ára fresti hjá fólki. Ekkert endilega stórvægilegar í hvert sinn en samt einhverjar. Það er sem sagt í kringum það þegar við erum 9 ára, 18 ára, 27, 36, 45, 54, 63, 72, 81 ... en sko, þegar ég flutti á Skagann var ég 48 ára (47,5), eða næstum þremur árum eldri en sú Gurrí sem hefði átt að rjúka þá til að flytja. Var þrítug (29,5) þegar ég flutti á Hringbrautina (1988-2006) og var þar í 18 ár (9+9). Og nú hef ég verið í Himnaríki í 18 ár (líka 9+9) og komin með þennan líka fiðring að flytja mig til, án þess samt að tíma því að yfirgefa útsýnið mitt og íbúðina. Getur þessi hægagangur tengst því að hjartað í mér slær of hægt? Eða gerði það þegar ég var krakki ... Ef mér er illt í bakinu geng ég líka mjög hægt. Alveg spurning. 

 

Hrefna, dóttir hans Daníels í Hákoti (fasteignasala), mundi eftir vefmyndavélinni sem var hér úti í glugga í nokkur ár en tæknivankunnátta mín varð til þess að vélin eiginlega slátraði sér sjálf. Hún var á einhverju java-drasli í tölvunni minni sem var svo hrætt (javadraslið) við vírusa að ég var hætt að komast inn í kerfið sjálf og sonur minn gat ekkert gert. Eftir að hlekkur á hana fór á yr.no varð hún afar vinsæl og ekki nema um 30 þúsund manns sem höfðu horft á hana þegar hún síðan klikkaði. Svo var það ljósmyndin af Mosa, sjá hér enn ofar, sem fékk 118 þúsund læk á erlendri útsýnissíðu, View from my window, á feisbúkk. Fólk bara hlýtur að slást um rúmgóða og gullfallega nýlega tekna í gegn 3-4 herb. íbúð við Langasandinn, með útsýni yfir hafið til Reykjavíkur, yfir á Reykjanesskagann (eldgosin) og alla leið til Ameríku ef jörðin væri ekki hnöttótt, er hún það ekki annars? Í staðinn þarf ég sennilega að kaupa útsýnislausa (sennilega) sjúskaða íbúð á kannski óvinsælum stað ... Það er meiri eldgosa- og jarðskjálftahætta á höfuðborgarsvæðinu en er á Akranesi (engin eldgos og skjálftar finnast ef þeir eru yfir 4 að stærð). Lækka svona dæmi fasteignaverðið ekki eitthvað í bænum?

 

*Strætólúser: Ekki tapari, heldur sá sem losnar við að greiða stórfé fyrir að eiga bíl. Sleppur við tryggingar, viðgerðir, bensínkostnað og annað slíkt - sumir hrokafullir bíleigendur telja strætólúsera vera lúsera ... sem er ákaflega bjánaleg og röng ályktun. Við keyrum um á fokdýrum bíl ... með einkabílstjóra! SagaClass-tilfinning!         


Brokkólísalat Beelzebubs og safaríkt fb-slúður

Fiskréttur með rúsínumGardínuofbeldi var til umfjöllunar í bloggi gærdagsins og ég tek allt aftur sem ég sagði þar, eða að það væri sennilega nauðsynlegt að draga stundum fyrir glugga til að mögulegir raðmorðingjar ættu ekki of auðvelt með að fremja glæpi sína. Í ljós kom að í bókinni sem ég kláraði í dag (við húsverkina) var ekki um að ræða karlmann, heldur afbrýðisama konu sem fækkaði miskunnarlaust meintum keppinautum sínum. Konur hafa aldrei sýnt mér ástreitni, nema ein á Óðali 1985 þegar sá staður var venjulegur skemmtistaður. Ég mun því halda áfram að hafa þunnar, gegnsæar eða engar gardínur ... a.m.k. á meðan ég bý á efstu hæð og hef hafið sem næsta nágranna og Nýju blokkina en þar býr ekki gægjusamt fólk.

 

Ég klúðraði matarpöntuninni hjá Eldabuskunni, merkti óvart við að ég myndi sækja matinn sem er algjör ómöguleiki fyrir bíllausa, hjálparvana prinsessu á bauninni. Þetta var leyst snarlega af ljúfri konu sem svaraði í símann í morgun og maturinn kom upp að dyrum. Matarsjokk dagsins var þó að á brokkólísalatinu voru rúsínur, á ... ekki í. Sjúkk. Mér tókst mjög laumulega að troða þeim á disk stráksa, hann borðar allt nema svið, munið, EN HANN LEIFÐI nú samt salatinu sem sannfærir mig enn frekar um satanískan uppruna rúsína. Ég fór beinustu leið á heimasíðu Eldabuskunnar og í innihaldslýsingarnar, hvort mér væri sjálfrátt fyrst ég pantaði eitthvað með rúsínum ... Ekkert var minnst á rúsínur þar sem innihald. Þá flaug að mér sú hryllingshugmynd að rúsínukvalari minn til áratuga væri kannski farin að vinna hjá vissu matarfyrirtæki, að alvöruvinnan væri bara fyrirsláttur eða hún rekin þaðan fyrir hrekki. Sú hefur hlegið tryllingslega þegar hún stráði þessum beelzebubska (skrattans) hryllingi yfir matinn minn. Bara salatið reyndar, ekki yfir þorskréttinn með heitpaprikusósunni eða hasselbakk-kartöflurnar. Maturinn var ágætur en kjúklingaréttur síðustu viku á enn vinninginn fyrir sturluð bragðgæði. Matarmyndin er af diskinum mínum, engar rúsínur.

 

Hef ekki enn fundið (ekkert leitað) pínulitla rúsínupakkann sem hefur gengið á milli okkar systra, en eins og þið kannski munið fannst mér ég hroðalega snjöll á síðasta ári þegar ég laumaði honum ofan í veskið hennar ... og þegar ég hreykti mér af því nokkru síðar, sagði hún mjög kuldalega: „Ég tók eftir því áður en ég fór í bæinn og faldi hann heima hjá þér!“ Þá búin að þiggja stórkostlegar veitingar og geggjað gott kaffi hjá mér! Kannski ég drífi mig í að finna pakkann og strái svo rúsínum reglulega yfir matinn hennar. Eða eitthvað álíka hræðilegt þar til hún skilur þjáningar mínar. 

 

Stráksi á stoppistöðHáaldraður fóstursonur ásamt nokkuð eldri fósturmóður skoðuðu í dag litla stúdíóíbúð sem gæti mögulega orðið heimili þess fyrrnefnda síðar. Okkur leist mjög vel á íbúðina og sjáum marga möguleika til að gera hana kósí og flotta. Þar sem við stóðum á Garðabrautinni, á leið í skoðunarferðina, og biðum eftir ögn seinum vagninum (illfærð sums staðar) stoppaði Bassel vinur okkar og bauð okkur far þangað. Eftir æðislega skoðunarferðina héldum við á Lighthouse café á Kirkjubraut og snæddum ansi hreint góðan hádegisverð þar. Gengum svo að stoppistöðinni við gamla Landsbankahúsið (sem sumir vilja að verði ráðhús, aðrir ekki, enn aðrir menningarhús) og biðum eftir strætó (sjá mynd). Kom þá ekki næsti hirðbílstjóri (bílstjóri sem hirðir okkur upp í), eða Smári kokkur sem eldaði eitt sinn besta fiskrétt sem ég hef á ævi minni smakkað (sem matgæðingur Vikunnar). Hann fór létt með að skutla okkur heim og bjargaði okkur sennilega, eins og sá fyrri, frá því að þurfa að skjálfa okkur til hita. Svona er nú gott að búa á Akranesi.   

 

Helga BragaFréttir af Facebook

 

Skúli Sigurðsson rithöfundur hefur skrifað undir nýjan útgáfusamning við Drápu. Þriðja bók hans kemur út fyrir næstu jól.

 

Helga Braga leikkona (sjá mynd) setti á fb-síðu sína að hún hefði hafið leiklistarferil sinn í Bíóhöllinni á Akranesi þar sem hún lék Línu Langsokk í samnefndu leikriti! Hver ætli svo hafi leikið kennara Línu í nákvæmlega því leikriti þarna árið 1979? Jú, ykkar einlæg.

Af því að innanbæjarstrætó gengur ekki eftir kl. 18 og fer hvort eð er ekki svona langt í eftirhádegi-ferðunum, slepptum við stráksi því að fara í bíó. En þessa kvikmynd ætla ég samt að sjá, hvernig sem ég fer að því.  

 

Fúsi frændi í Englandi skellti í status um veikindi Karls III sem voru kunngjörð í dag. Hér er hluti hans, innan gæsalappa, kann ekki við að birta hann allan:

„Breska þjóðin er í sjokki, eins og sjá má á fréttamönnum BBC sem eru allir á barmi taugaáfalls.“

Karl hefur sem sagt verið konungur í 17 mánuði og voru nokkrar opinberar heimsóknir og fleiri skylduverk fram undan, en allt er í uppnámi núna.

Aðrir fjölskyldumeðlimir, í þessari röð, munu taka að sér skyldur hans, samkvæmt hefðinni: 

„1. Kamilla drottning. 2. Vilhjálmur prins. 3. Harry prins. 4. Andrés prins. 5. Beatrice prisessa, eldri dóttir Andrésar. (Innskot GH: Hvað um Játvarð prins?)

Búist er við að Kamilla biðjist undan flestum verkefnum hér eftir sem hingað til, mætir í besta falli á ársfundi hjá betri kvenfélögum og þvílíkum stofnunum. 

Harry prins er í ónáð og Andrés prins líka. Þá eru það bara Vilhjálmur og Beatrice sem verða að skipta með sér skyldumætingum konungsfjölskyldunnar. 

... mesta athygli vekur skyndileg ábyrgð Beatrice prinsessu, sem nú hoppar upp úr að vera nánast núll og nix innan þeirrar fjölskyldu í að verða næstæðsti fulltrúi bresku þjóðarinnar.“  

Vona að Fúsi frændi fyrirgefi mér stuldinn. Minni á þá sterku hefð að við skrifum ætíð nöfn kóngafólks upp á íslensku. Fúsi skrifaði reyndar Andrew en ég gat ekki stillt mig um að samræma ...  


Þjófstartað ... og gardínuofbeldi lífs míns

HrellirinnÍ-guðanna-bænum, ekki kveikja ljósið fyrr en þú ert búin að draga fyrir!“ sagði mamma svona fimm milljón sinnum. Ekki bara þegar ég var lítil, heldur talaði hún áfram um hætturnar af því að einhver sæi inn til mín, jafnvel bara þegar ég væri að læra heima við hansahilluskrifborðið, eða lægi uppi í rúmi síðdegis við að lesa gömlu bækurnar hennar (Snjallar stúlkur, og helming bókaflokkanna um Rósu Bennett og Beverly Gray. Tvíburasystir mömmu fékk hinn helming bókanna því þær systur fengu sjaldnast, jafnvel aldrei, gjöf nema saman).

 

 

Ég mótmælti þessu gardínuofbeldi móður minnar (og það löngu áður en mygla varð landlæg á Íslandi) og notaði frekar heklaðar myndir til að skyggja á „innsýnið“ þegar ég varð gjafvaxta og giftist fyrsta eiginmanni mínum (1980), því mér fannst ekki rétt að loka á birtuna og lífið, eins og ég reyndi að segja henni.

 

 

Áratugum seinna, eða í dag, uppgötvaði ég, mér til mikils hryllings, að hún hafði rétt fyrir sér allan tímann. Hrellirinn, sú Joona Linna-bók sem ég er að lesa núna, og jú, hann var auðvitað á lífi, fjallar um gluggagægi sem hangir úti í garði og myndar tilvonandi fórnarlömb ... við að fara í sokkabuxur, borða ís, horfa á sjónvarpið, tala í síma ... og sendir lögreglu myndbandið rétt áður en hann brýst inn og myrðir þær. Ég hef sennilega sloppið verulega naumlega í gegnum tíðina. Vissulega átti ég gardínur fyrir alla glugga á Laugaveginum (1982), jarðhæð, rétt fyrir ofan Hlemm, mögulega fylgdu gardínur í Æsufellinu (1983) en á þessum tíma, eftir skilnað við fyrsta eiginmanninn, bjó ég í svo skamman tíma á hverjum stað, að raðmorðingja hefði ekki gefist tími eða þolinmæði til að sitja um mig. Á Hringbraut (1988-2006) var ég á annarri hæð og fljótlega eftir komu mína þangað var háa tréð sunnanmegin fellt, það var orðið gamalt og fúið, svo viðkomandi hefði svo sem sést mjög greinilega og jafnvel brotið sig þegar tréð hryndi undan honum sem það hefði gert ... Hlaðið hjá mér við Himnaríki (2006-) ... bílastæði beggja vegna og oft snúa bílarnir að gluggum mínum ... svo ég hef greinilega verið í meiri lífshættu hér en ég get mögulega ímyndað mér.

Hvort sem þeir eru með sterka og langdræga sjónauka í skipum á Faxaflóa, hljóðlausa njósnaflugvél í felulitum eða nota dróna ættu þeir að vita að ég er alltaf með læst hjá mér og hef þrjá verulega grimma og nánast mannýga varðketti sem engu eira.

 

BollurÉg er ekki mikið fyrir að þjófstarta en í mínum huga er bolludagsaðventan hafin, hófst um þessa helgi. Næsta helgi verður nánast eins og jólin með hápunkti á mánudeginum. Ég ætla ekki að baka þá, frekar fara til Hildu í bollukaffi - og svo sjá til á sjálfan bolludaginn hvort ég fari jafnvel í Kallabakarí. Fyrsti skóladagur, fyrsti minn dagur í kennslu, verður á bolludaginn og eiginlega synd að geta ekki boðið nemendum upp á eins og eina vatnsdeigsbollu í kaffitímanum. Ég bakaði bollur í dag, eftir uppskrift frá mömmur.is og get ekki sagt að þær hafi orðið fullkomnar þótt uppskriftin hafi verið það. En allt í lagi samt. Fannst þær orðnar svo dökkar, strax eftir 20 mínútur (áttu að vera í c.a. hálftíma) svo ég tók efri plötuna út átta mínútum of snemma miðað við það. Leyfði þeirri neðri að vera lengur, þær voru ansi ljósar ... og féllu svo hver um aðra á meðan þær bökuðust lengur - af því að ég opnaði of snemma á þær, ekki efri plötuna. Bömmer. Ofninn blæs sem sagt ekki jafnt og ég hefði átt að baka eina plötu í einu.

Stráksi fær bollur í kvöldkaffinu, en sýrlensku snúllurnar í næsta húsi (eina fólkinu í heimi sem finnst ég of grönn, held ég) færðu mér kúffullan disk af sterkum mat og í þetta sinn gat ég hefnt mín strax og sendi Fatimu með bollur heim. Hún sendi mér skilaboð stuttu seinna (alltaf á íslensku) svo hrifin að hún vill læra að baka bollur, ég heimtaði að fá að hjálpa henni, er nú orðin reynslunni ríkari eftir daginn í dag, svo bollurnar hennar verða fullkomnar. En þrátt fyrir að bökunartíminn hafi verið 30 mín. við 190°C á blæstri klikkaði ég með því að finnast þær of dökkar ... sem þær voru ekki. Hvor plata í 25-30 mín. hefði verið fullkomið.  

 

BetraFréttir af Facebook

Sumir á Fb bulla og rugla varðandi mislingaveika manninn, segja að hann sé líklega hælisleitandi ... en á einum stað sá ég að hann væri nú bara breskur ferðamaður sem mér skilst að séu bestu ferðamenn sem hægt er að fá - nema auðvitað í þessu tilfelli.

Það eru vissulega einhverjir sem eru mjög mikið á móti bólusetningum, skaðleg lygi læknis sem missti leyfið fyrir að falsa niðurstöður rannsókna um að sprautan (með þremur mótefnum) ylli einhverfu. Hann var þá kominn með einkaleyfi á bólusetningum með einu mótefni (við mislingum, minnir mig) svo hann hefði orðið forríkur ef ekki hefði komist upp um hann (skv. heimildamynd á RÚV eða Stöð 2). Skaðinn var skeður þrátt fyrir að þetta væri leiðrétt út í eitt, og hjarðónæmi sem hafði náðst er ekki lengur til staðar. Myndin: Sá þessa mynd hjá manni sem ég veit að er á móti bólusetningum og sér sig sem manninn á myndinni.

 

Það er kostur að hugsa sjálfstætt, og hlýða ekki hvaða vitleysu sem er í blindni ... eins og ég gerði á barnsaldri. „Alltaf að hlýða fullorðnum,“- bullið sem rak mig næstum út í að fara með fullum karli út í leigubíl þegar ég beið á Reykjavíkurflugvelli eftir að vera sótt. Þegar einhver segir eitthvað smjaðurslegt á borð við: „Þú ert greinilega manneskja sem hugsar sjálfstætt!“ ættu allar viðvörunarbjöllur að hringja hátt, mínar gera það, ég get verið tortryggin á hrós þótt mér finnist ég oftast eiga allt gott hrós skilið.

Þegar árulestrarkona (löng saga) sagði við mig fyrir áratugum að ég væri með svo marga gula liti í árunni minni (og það væri gáfumerki), hugsaði ég í stað þess að gleðjast: Af hverju finnst henni hún endilega þurfa að peppa mig upp? (Það þarf ekki við okkur Þingeyinga). Svo komst ég að því skömmu seinna að hún sagði þetta sama við fleiri, kannski alla. Þá hafði ég reyndar lært að mótmæla ekki hrósinu, hugsa mitt en þegja. Mótmælti nefnilega eitt sinn og sagði við breska miðla sem vildu meina að ég væri svo rosalega gömul sál. „Það getur ekki verið, ég hata garðyrkju.

Ó, Görreijj, þú átt ekki að gera svona lítið úr þér!“ svöruðu þau alveg miður sín yfir þessu sjálfsniðurrifi, hver vill ekki vera gömul sál? Mér finnst þetta enn mjög fyndið - og hef ekki enn, áratugum seinna, öðlast þann mikla andlega þroska og innri ró til að hafa gaman að því að vinna í garðinum (eða svölunum). Ungbarnssálin kveður í bili.  


Bollugaldur og blússa Birgittu

Á leið í ReykjadalUm miðjan dag í gær kvaddi stráksi og hoppaði niður stigana með nesti og nýja skó ofan í Glasgow-ættuðum poka. Hans beið ævintýrahelgi í Reykjadal sem hann hafði hlakkað svo til. Letidagurinn sem ég hafði planað í dag gekk að óskum nema ég setti í eina þvottavél, bara af því að það var orðið lítið eftir af handklæðum. Að öðru leyti slökun.

 

 

Auðvitað gætti ég þess vandlega að taka ekki úr uppþvottavélinni sem fór í gang í gærkvöldi, heldur kláraði hroðalega spennandi Joona Linna-bókina Sandmanninn og er rétt svo nýbyrjuð á Hrellinum. Spennt að vita hvort Erlendur hinn finnsk-sænsk-finnski hafi lifað af (hvarf í lokin á Sandmanninum) eða er endanlega horfinn. Spurning hvort Metallica hafi gert lag um hann, Enter Sandman, en ég hlusta svo sem aldrei á texta svoi það gagnast mér ekki. Mig grunar að hann hafi reynt að leita að hryllingsglæpamanninum sem Saga lögga skaut mörgum sinnum áður en hann lenti undir ís á fljóti, en vont fólk á borð við hann er ódrepandi, eins og við vitum svo sem.

 

Klára Hrellinn á morgun, hlusta á meðan ég raða leirtaui úr uppþvottavél í skápa og baka svo kannski vatnsdeigsbollur eftir geggjaðri uppskrift sem ég fann á mommur.is. Mér skilst að galdurinn að velheppnuðum bollum sé að ná hitanum úr deiginu áður en eggin eru sett í (eitt í einu). Hitinn fer ef maður hrærir deigið um hríð á miðlungshraða í hrærivél. Ef maður passar ekki upp á hitann, eða að kæla, verða bollurnar bara sléttar og samanklesstar.

Ef bakarinn hlustar á hroðalega glæpasögu á meðan bakað er - getur það haft slæm áhrif á bragðið? (Er að spyrja fyrir mig) 

- - - - - 

Blússan hennar BirgittuÍ gær horfðum við Inga saman á Idolið. Annan föstudaginn í röð, hún er ekki með Stöð 2 og á þarna eitthvað fallegt í þáttunum sem hún vill sjá - og ég líka. Ég hafði ekki enn horft á þessa þætti, ætlaði alltaf en á bara frekar erfitt með að festa mig yfir sjónvarpi. Það var auðvelt að fyllast spennu, dást að þessum flottu krökkum sem syngja svo vel. Fyrir rúmri viku, eða í fyrra skiptið sem ég horfði, datt út ljóshærð stelpa sem ég hafði nánast veðjað við Ingu að myndi taka þetta ... en hún fékk ekki nógu mörg atkvæði. Þrjú eru eftir, þar af tvö frá Akranesi. Sem gleður gamla Skagahjartað. Mikið ætla ég að horfa á úrslitin á föstudaginn.

 

 

Dómararnir voru ekki síður spenntir, hrósuðu öllum í hástert og Bríet er orðin ástfangin af báðum stelpunum sem eru komnar í úrslit. Ég er enn hamingjusamlega gagnkynhneigð en fylltist þó skyndilegri ást við fyrstu sýn á glitrandi blússu, eða hvað sem þetta er, sem Birgitta klæddist. (Veit einhver hvar svona flíkur fást?) Ég gæti þurft að safna hári til að hún fari mér jafn vel og Birgittu en við Birgitta erum báðar í ljónsmerkinu, nema hún er ögn yngri. Oft hefur verið sagt um ljónin að þau séu glysgjörn. Ég get ekki verið meira ósammála því bulli, en þetta er samt ein allra flottasta blússa sem ég hef séð. Ég færi kannski að horfa meira á sjónvarp, t.d. veðurfréttirnar, eins og prjónafólkið, ef veðurfræðingarnir glitruðu meira. Það verður alltaf allt brjálað þegar veðurfræðingur birtist í prjónaflík. Ég veit ekki af hverju ég er meðlimur á prjónasíðu á Facebook, ég kann ekki að prjóna, ég er líka meðlimur á brauðsíðu, bandalag þeirra sem baka eigið brauð, ég baka ekki brauð, kaupi það ekki heldur, nema við einstök tilefni. Eina síðan sem passar mér virkilega er Stuðningshópur fólks sem labbar hallærislega í hálku


Ekki nógu klár ... samt A plús

Lars KeplerSíðustu mánuðina, jafnvel lengur, hef ég verið svo stolt af því hversu ótrúlega auðvelt ég á með að finna út hver er glæpóninn í spennubókunum. Það hlyti að vera akkur í svona klárri manneskju hjá löggunni og mig hefur alltaf langað til að vinna hjá löggunni. Ég myndi lesa málsskjölin og hviss bang, leysa allt. Svo í kvöld, þegar ég var að hlusta á Eldvitnið eftir Lars Kepler, um lögreglumanninn finnsk-sænska Joona Linna, og áttaði mig um miðbik bókarinnar að ein persónan, frekar mikið ólíkleg til illra verka, væri sennilega sú seka ... og endalok margra spennubóka eru oft mjög svo óvænt, sem gerði greindarlegar ályktanir mínar enn líklegri. Svo mundi ég allt í einu, mér til sárra vonbrigða, að ég hafði lesið bókina, fyrir lifandis löngu og búin að steingleyma efni hennar algjörlega ... en undirmeðvitundin man sennilega betur en ég. Svo ég er sem sagt klár en ekki jafnbrjálæðislega klár og ég var orðin fullviss um. Löggan þrífst án mín. Joona er svo alltaf annað slagið alveg við það að muna eftir einhverju mjög, mjög, mjög mikilvægu sem hann sá eða heyrði, og skiptir ótrúlega miklu máli, en það rennur honum úr greipum eins og gufa ... ég nánast garga á hann ... en svo loksins, alveg á síðustu stundu man hann það. Ég verð bara móð við að rifja það upp.

 

Mynd: Lars Kepler ... eða hjónin Alexandra og Alexander sem skrifa saman undir því nafni. Sem minnir mig á að hjónin í næsta húsi heita þetta líka: Oleksandra og Aleksander (frá Úkraínu). 

 

Veðurspáin 2. febEkki besta veðurspáin fyrir morgundaginn en hirðbílstjóri stráksa fékk lánaðan hálfgerðan skriðdreka til að koma honum örugglega í kvöldmat í Reykjadal þar sem hann mun svo dvelja í góðu yfirlæti til sunnudags. Ég var að hugsa um að nota helgina til að vera ofsalöt, lesa, lesa, lesa og kannski bjóða yndislegu sýrlensku fjölskyldunni minni (einni þeirra) í kaffi. Þau buðu mér í fyrradag, búin að koma sér ótrúlega vel fyrir í litlu íbúðinni. Elsta barnið, stelpa, svo ánægð í Brekkubæjarskóla, hefur eignast nokkrar vinkonur og strax farin að þora að tala smávegis íslensku, bara þrjár vikur frá komu. Hún fékk blik í augun þegar ég leyfði henni að heyra smávegis flottheit með Þjóðlagasveit Akraness, fiðlustelpunum knáu sem spila svo vel. Hún hefur lært á fiðlu og langar að halda því áfram. Kannski, þegar ég verð orðin gömul kerling, fer ég í Hörpu og hlusta á hana spila einhverja dýrðina með Sinfó. Það er hægt að elska klassík, krakkar, OG þungarokk.

 

Nautagúllas, kartöflugratín, bakaður rauðlaukurÉg er ansi ánægð með Eldabuskuna. Pantaði fyrir næstu viku líka - það er 20% afsláttur til 3. febrúar og svakalega girnilegir réttir

Kjúklingarétturinn í gær var algjört æði og einnig nautagúllasið í kvöld sem stráksa fannst svakalega gott, svo ég noti nú hans orð. Bara hita, ekki elda. Hugsa nú að ég haldi áfram með Eldum rétt líka, enda góður matur þar, en taki mér einnig leti- og gleðivikur.

 

Stráksi er ekta kjötkarl, nema hann er líka hrifinn af grænmeti ... öllu nánast nema sviðum og súru slátri, smekkmaður á mat! Ég hef hreinlega ekki lagt á viðkvæma sál hans að tala um hræring, til að eyðileggja ekki æsku hans. Hef fengið útrás á blogginu fyrir hroðalegar upprifjanir - en ég skil ekki af hverju systkini mín eru ekki jafnsködduð og ég eftir fortíðina. Mögulega af því að ég er viðkvæm perla, A plús sem er, held ég, besti blóðflokkurinn og tengist að auki öðrum sviðum lífsins, eins og gáfum, gjörvileika og yndisþokka. Systkini mín eru bara, held ég, A mínus og B sem er kannski ekkert slæmt, eflaust gaman að geta, blóðflokks síns vegna, farið á þorrablót, hitt hresst fólk og gúffað í sig súrmeti ... æ, ég veit það samt ekki. Þarf að spyrja þau laumulega hvernig þeim þyki t.d. Grettir Björnsson og nikkusnilld hans. Jafnvel hvort þjóðdansar höfði sérstaklega til þeirra ... úff, nú fer ég að verða pínku hrædd. Kannski er þetta allt saman eitt risastórt samsæri og ég í alvöru sú prinsessa sem ég var fullviss um að ég væri þegar ég var átta ára. Veit ekki af hverju Danmörk kemur sterkt upp í hugann (pínuoggulitla hálfsystir MÞ og falin á Íslandi).

Ég“ ef mig skyldi kalla, blogga eflaust áfram en ... ef ég fer að tala illa um Skálmöld, eða rokk almennt, þá er það ekki ég. Hrós um svið, soul-tónlist, sannsögulegar dramabíómyndir eða óbærileg sænsk vandamála-sjónvarpsleikrit, þá er það ekki ég.   

- - - - - - - - - - - - -  

Hér fyrir neðan er skemmtilegt myndband (ekki alveg nýtt) um framtíð Akraness, með hótel á besta stað í bænum, eins og bæjarstjórinn segir í viðtalinu, eða á hafnarsvæðinu og nálægt Langasandi, alveg rétt við miðbæinn. Hvað breyttist? Finnst þetta stórkostleg hugmynd, þessi í myndbandinu og þyrfti ekki að fjarlægja þyrlupallinn, færa fótboltavöllinn og þrengja svona mikið að, eins og útlit er fyrir og ... það myndi lífga mikið upp á miðbæinn (í einnar brekku fjarlægð, og ísbúðin á torginu er að breytast í kaffihús, ef heimildir mínar eru réttar, jesssss).

Þetta er langbesta svæðið fyrir hótel, ég er sannarlega ekki ein um þá skoðun. Sjáið bara Hótel Sigló! Held að þessi staðsetning sé jafnvel enn flottari!   

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 284
  • Sl. sólarhring: 307
  • Sl. viku: 1765
  • Frá upphafi: 1454234

Annað

  • Innlit í dag: 241
  • Innlit sl. viku: 1478
  • Gestir í dag: 230
  • IP-tölur í dag: 226

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Snorri og Patrik
  • Vifta
  • Draugar og uppeldi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband