Færsluflokkur: Bloggar

Blekking en samt ekki og notaleg sófabreyting

UppistandUppistandið í fyrradag var bráðskemmtilegt og við Ólöf nutum þess að hlæja nánast stöðugt í klukkutíma. Við sátum frekar aftarlega því allt var nærri orðið fullt þegar við mættum, en ég borgaði þúsundkalli meira fyrir miðann til að fá bestu sæti ... 

 

„Þú hefur verið blekkt,“ sagði eitt skyldmenni uppistandarans, „það eru engin bestu eða verstu sæti hér.“ Ég ákvað að taka þessu sem aukabrandara (ég var tekin!) en svo þegar ég kom út eftir skemmtunina, hitti ég samstarfsfólk sem tjáði mér (já, ég furðaði mig á þessu við þau) að ódýrari miðarnir hefðu verið fyrir námsmenn og aldraða. Þar sem ég uppfylli hvorugt var þetta hárrétt verðlagning, og ekki einu sinni há fyrir svona góða skemmtun.

 

Held að uppistand sé uppáhaldsdjammið mitt ... Er enn afar þakklát RÚV fyrir að birta slíkt í sjónvarpinu fyrir þarsíðustu áramót, Snjólaug er sjúklega fyndin og þau öll bara sem fórna sér svona fyrir okkur hin. Ólöf fór á barinn á Sykursalnum og splæsti á okkur appelsíni og kitt-katti sem hefði varla þurft því einn brandarinn, sá langsætasti, var að undir hverjum stól leyndist Mars-súkkulaði. Ég er svo heiðarleg að eini lausi stóllinn í salnum, við borðið okkar Ólafar, er enn með Mars-súkkulagði límt undir setunni. 

 

Fyrir og eftirÉg var svo yfirfull af orku og krafti eftir skemmtunina að ég fór að breyta í stofunni heima hjá mér. Já, ég veit, sumir segja að breytingaþörf á heimili tengist skorti á kynlífi, en ég er svo sem ekki neinn síbreytari, sannarlega ekki. Ég prófaði að færa sófann undir gluggann (hef gott bil samt út af ofninum) og hér eru fyrir- og eftir-myndir. Gætti þess að taka ykkur á sálfræðinni, að hafa dagsbirtu á eftir-myndinni og flottan kött í forgrunni til að ykkur þyki breytingin miklu flottari. Sko, stofan minnkar svolítið sjónrænt við þetta svo ef ég set íbúðina á sölu (ef ég vinn í happdrætti og kemst í fokdýran Kópavog - er samt mjög ánægð hér) mun ég færa sófann aftur svo hann standi við vegginn vinstra megin. Stofan er örlítið notalegri svona, finnst mér og meira bjóðandi: Komdu og sestu, Gurrí mín, láttu fara vel um þig, sæta beib, svona eins og stofur segja.  

 

Eftir brjálað hámhorf mitt á Ludwig (mæli með) um síðustu helgi áttaði ég mig á því að stofan var ekki hönnuð fyrir slíkt gláp, eða uppröðun húsgagnanna (sjá fyrir-mynd, t.v.), eiginlega meira fyrir virðulega setu í þægilegum sófa með tebolla í annarri og eitthvað fínt skoskt kex í hinni, jafnvel skonsu með hleyptum rjóma og sultu. Hálsrígur var nefnilega ein uppskeran af glápinu svo annaðhvort þurfti að færa sófann svo hægt væri að liggja í honum við áhorf eða halda áfram sjónvarpsforðun minni sem hefur staðið í nokkur ár. Ég var oggulítið farin að óttast að ég notaði Storytel eins og dóp, væri orðin háð því að láta róandi rödd (með lágmarksleiklestri) leiða mig um lífið í leiðslu í gegnum húsverk, strætóferðir og slíkt. Fokkings lífið yrði að halda áfram, og hvað er hversdagslegra en að henda sér í sófa á kvöldin og horfa á sjónvarpsþætti? Ég spurði Kópavogs-systur mína síðast þegar ég var í heimsókn hjá henni: Hvað á ég svo að horfa á?

 

Ég gafst reyndar alltaf upp á öllu (nema Twenty Four) þegar seríum sumra ágætra þátta fór að fjölga ... Eins og til dæmis Prison Break, þar var lopinn aldeilis teygður, skilst mér, ég gafst upp strax í upphafi fyrsta þáttar í seríu tvö. Ég hafði líka orðið fyrir ákveðnu áfalli þegar ég ætlaði að horfa á girnilega seríu, tónlistarþætti með uppáhaldshljómsveitinni minni, Skálmöld í Sherwood, hélt að þetta væru heimildaþættir, vandlega músíkskreyttir ... en nei, þetta var lögguþáttasería sem tengist ekki þungarokki á nokkurn hátt, held ég. Hrmpf ...

Það sem systir mín lagði til að ég horfði á var:

 

RÚV

- Skálmöld í Sherwood

- Undir yfirborðið (úkraínskir spennuþættir)

- Hamingjudalur

- Sekúndur

- Leynibruggið (eitthvað fyrir okkur stráksa um páskana)

 

Stöð 2

- Moonflowers Murders

- Sullivans Crossing

- True Detective (sá fyrstu þáttaröðina, hún var æði)

 

- Coma sem er sennilega á Sjónvarpi Símans en við systur höfðum ekki tíma til að hanga lengur yfir sjónvarpsþáttaleit sem ég skráði samviskusamlega í gemsann minn, svo SSímans bíður betri tíma. Ég er einmitt með Premium hjá þeim ... svo er ég með Netflix líka og Disney plus og Amason Prime ... Hef ég kannski ekki tíma til að stunda atvinnu?

 

Með KrummaÍ dag hefði ástkær sonur minn, Einar, orðið 45 ára, sem er eiginlega hálfundarleg tilhugsun fyrir móður sem er sjálf ekki mikið eldri en það ... en hver telur svo sem árin? Þessi dagur vekur alltaf upp mun fleiri tilfinningar en dánardagurinn (3. jan. 2018) og hefur verið frekar erfiður síðustu árin. Mér finnst gott að verja honum í eitthvað allt annað en hátíðarhöld og læti til að minnast hans og ætla í dag að leggjast yfir góða þáttaröð í sjónvarpinu - jafnvel góða bíómynd ef ég dett niður á einhverja. Fæ mér góðan kaffibolla honum til heiðurs, en hann átti sameiginlegt með mér að finnast kaffi besti drykkurinn. Einar var sjálfur algjör sjónvarps-kall og hafði sérlega gaman af því að fylgjast með náttúrulífsþáttum um villt dýr, helst kattardýr af ýmsu tagi, og styrkti ýmis samtök sem vernduðu dýr í útrýmingarhættu. Hann nærði í sér flughræðsluna með því að horfa á þætti um flugslys og hafði líka gaman af því að fylgjast með spennuþáttum og Tottenham spila í enska en ég ætla að velja einhverja slíka þáttaröð. Ég get ekki horft á náttúrulífsþætti því það er alltaf einhver saklaus sem deyr í þeim og svo segir Attenborough þegar ljónið rífur í sig sæta bamba: Svona er hringrás lífsins ...

Nú eru kattahatarar* farnir af stað á Facebook vegna hreiðurgerðar fuglanna. Ef mínir kettir væru útikettir myndi ég auðvitað halda þeim inni á varptíma en bæði hrafninn og mávurinn eru ungum hættulegri en heimiliskettir. Ég hef bjargað fugli lifandi úr kattarkjafti og Míró var í fýlu við mig í heilan klukkutíma á eftir ...

 

*Kattahatrið sem ég tala um felst alls ekki í umhyggju fólks fyrir fuglum, heldur í orðum á borð við: Þá eru þessi ógeðslegu kvikindi (kettir) komnir á kreik ... bla bla ... gott að ég náði ekki ógeðinu sem reyndi að ná fuglinum ... osfrv.

Sumir sem hata ketti og elska fugla hata samt máva (ég var alin upp við að maður ætti að hata þá en sonur minn breytti þeirri skoðun minni algjörlega), borða kjúkling, önd og rjúpu ...

 

Samsettu myndirnar sýna ungan Krumma, Hrafnkel Einarsson, á öxl dýravinarins Einars sem fór aldrei í "dýr-greinarálit", og hin sýnir sama kött í fanginu (andlitinu) á mér fyrr í dag, en Krummi nálgast nú ört fermingaraldurinn (14 ára). Ég skellti þessum myndum á Facebook í dag en gat því miður ekki notað fleiri tölustafi og þannig birt aldur minn. Veit ekki hvað Musk og Trump eru að hugsa með því að breyta Fb svona ...


Fyndnir vinir, fundvísir fuglar og óvænt hámhorf

Svona sá ég þetta fyrir mérUppistandið í Sykursalnum á morgun verður að veruleika í lífi mínu og mikil tilhlökkkun ríkir. Ég hef um nokkra hríð minnst á þetta við nokkra aðila, jafnóðum og ég hitti þá, svona nánast. Það er gríðarlega ögrandi og talsvert mikil áskorun að eiga svona upptekna vini og vandamenn (suma jafnvel með flensu) sem var ábyggilega raunin núna - en svo var þó alls ekki þegar ég keypti miða á tónleika Skálmaldar með næstum ársfyrirvara, engan langaði mér með nema unga konu með góðan tónlistarsmekk - þungarokk engin fyrirstaða.

Á uppstandið langaði þó ábyggilega allt mitt fólk en komst ekki þrátt fyrir að ég hefði í einu blogginu nýlega talað um hvað ég hefði mikinn áhuga á að fara og ýjaði að því að mig vantaði einhvern með mér. Foreldrar uppistandarans létu mig vita á Fb að þau yrðu þarna sem var mikill bónus. Ég sá lengi vel fyrir mér að við færum saman fimmtán eða tuttugu allra nánustu vinir og vandamenn en það er svo ótrúlega erfitt að sópa saman þessum villiköttum mínum - nema einum í einu. Það verður samt vonandi einhvern daginn.

 

12. apríl 2025Ég hefði að sjálfsögðu átt að skipuleggja þetta betur og með lengri fyrirvara.

Mér tókst með herkjum en tókst það samt að redda sólmyrkva í afmælinu mínu á næsta ári, geri aðrir betur ... gúglið bara 12. ágúst 2026.

... og Simpsons-þættirnir spá andláti Donalds Trump á laugardaginn, á afmælisdegi sonar míns sem verður / hefði þá orðið ... 45 ára! 

 

 

Jæja, en í gærkvöldi áttaði ég mig á því að það þýddi lítt að ýja bara að einhverju, heldur sendi einni vinkonunni sem kom með mér á Bókakonfekt Forlagsins fyrir síðustu jól, ákveðinn tölvupóst sem hljóðaði svona:

„Mætti halda að ég eigi mér það eina áhugamál að draga þig á djammið ... nennir þú á uppistand á fimmtudaginn?“

og bætti svo við: „Bókmenntir, uppistand, hvað næst?“

Hún svaraði:

„Þú ert bara lóðrétt á leið í sollinn! Er engin kirkja í hverfinu?“

 

Við Ólöf erum sem sagt á leiðinni á djamm / uppistand annað kvöld og hlökkum til að hlæja okkur til óbóta. Já, ég kaupi mig inn á fyndna viðburði þótt ég eigi svona skemmtilega vini.

 

Ég skrapp með einni vinkonunni á kaffihús í fyrradag. Þetta var hálfgerður fundur í leiðinni og hún var með lyklaborð á sér ef þyrfti að skrá eitthvað ... ekki stórt lyklaborð og hún er tölvunarfræðingur, samt svo brilljant að eiga vinkonu sem gengur með lyklaborð í  vasanum!  

 

Mosi á sjaliÖnnur skemmtileg vinkona átti þátt í því að ég rauf nokkurra ára sjónvarpsbindindi mitt (nema örstutt kíkk á fréttir, Gísla Martein eða fótboltaleik) þegar hún heimsótti mig nýlega og sagði frá þáttaröðinni Ludwig á RÚV. Mér tókst að finna þættina skömmu eftir að Guðrún fór og horfði á þá alla sex í einni beit og bíð spennt eftir framhaldinu. Aldeilis komin á bragðið.

 

Allt sem tengist eineggja tvíburum finnst mér spennandi. Söguþráður í byrjun: Áhyggjufull kona hefur samband við mág sinn (jebb, tvíburabróður manns síns), einrænan gátuhöfund, og biður hann um að sækja minnisbók eiginmannsins á lögreglustöðina, en þar kynni eitthvað að leynast sem skýrði hvarf eiginmannsins (hann skildi eftir dularfullt bréf).

Nema mágurinn fer, sveittur af kvíða, hatar fólk, þykist vera löggan, nema hann er gripinn glóðvolgur ... eða tekinn með á morðstað þar sem hann leysir málið á undraverðum hraða og líka það næsta ... Hún sagði mér ekki meira en þetta dugði til að ég stykki á vagninn og nú hreinlega auglýsi ég eftir meira fjöri, einhverju sem er pínku spennandi og kannski líka fyndið. Ekkert skrítið þótt það sé alltaf fínt í stofunni hjá mér ... ég hangi aldrei þar yfir sjónvarpinu og drasla í leiðinni. Svo er ég líka miklu minni draslari en áður ... eftir að húsgögnum og munum fækkaði ... til muna. Hohoho. Aukin vítamíninntaka skiptir eflaust máli líka, ég er ekki lengur örþreytt eftir ekkert.

 

Myndin fyrir ofan er af Mosa sem hefur komið sér vel fyrir á undurmjúku og fögru sjali vinkonunnar sem sagði mér frá Ludwig og prjónaði sjalið.

 

LudwigStráksi verður glaður yfir meiri sjónvarpsáhuga mínum, hann kemur og gistir yfir páskana og við getum þá horft á eitthvað saman. Við ætlum með elskunni henni Steingerði að skoða álfaslóðir á skírdag.

Hún er lærður leiðsögumaður með meiru og þar fyrir utan sannur sagnabrunnur, hann sérlegur áhugamaður um álfa og ég ... fylgi bara með. Tek með mér bók til öryggis ef þau verða óþolandi. (Djók! Ég hlakka virkilega mikið til.)

Það væri gaman að finna einhverja frábæra þætti til að horfa á með stráksa, til dæmis um álfa, ævintýri, galdra og slíkt sem við höfum bæði gaman af að sjá. Kannski eru einhverjar jólamyndir í boði þrátt fyrir árstímann, en með hverjum deginum styttist í jólin.

 

Þigg allar tillögur - ég á eftir að sjá allar seríur síðustu fjögurra, fimm ára nema Ludwig. Er samt með Netflix, Amason Prime og Disney plús (kann ekki (gleymi) að segja því upp ... á ég kannski erindi í þáttinn Viltu finna milljón? sem ég veit að kennir fólki að spara ... ég lifi samt frekar spart miðað við marga; á ekki bíl, fer ekki til útlanda osfrv.)

 

Gaslýsandi gemsiBýst við að þegar ég fæ endurgreitt frá skattinum (sem hirti nánast helminginn af séreignarsparnaði mínum í fyrra af því ég hafði ekki efni á því að láta það allt renna inn á lánið mitt, ég var að kaupa dýrari íbúð) til að kaupa sérstakt úr sem mælir hreyfingu, svefn og alls konar. Held að þau ráði drauma manns líka.

Gemsinn minn, gaslýsandi gemsinn minn, sem klífur með mér hæstu og lægstu tinda lífsins vill samt ekki viðurkenna nema í örfáum tilfellum að ég gangi frekar oft upp á sjöttu hæð. Hvíli mig vissulega í einhverjar sekúndur á þeirri fjórðu til að freistast ekki í lyftuna, en það getur varla skipt máli.

Hér á myndinni má sjá raunverulegt dæmi um sex hæða klifur mitt, sextán tröppur á milli hæða, eða átta tröppur í norður og átta í suður, en gemsinn (lygasjúki bjáninn) viðurkennir þessar sex hæðir bara sem þrjár. Ég get hoppað upp þrjár hæðir tíu sinnum á dag og fengið eina ferð skráða. Ég skal hlíta því en ekki þegar hann falsar sannar ferðir mínar.

 

Eini gallinn við svona úr er sá að ef ég færi í matvörubúð og hvíldi höndina á innkaupakörfunni allan tímann myndu skrefin ekki teljast með og þau eru svoooo mörg. Ég þarf nánast engin stigahlaup (gang) eftir búðapyntingar. Eins og átakanleg myndin sýnir viðurkennir gemsinn minn bara dag og tíma dags sem ég fór upp þessar sex hæðir ... ekki raunverulega hækkun á sextán þrepa fresti, og þarna einn laugardaginn nýlega þegar ég fór tvisvar upp og tvisvar niður, fékk ég viðurkenningu - en bara fyrir aðra ferðina upp.

 

Mávarnir mínir fundu mig hérna í höfuðborginni og fögnuðu ofsafengið í gær þegar ég mætti með poka fullan af ýmsum afgöngum, meðal annars frekar vondu brauði sem ég tók úr frysti og þíddi með aðstoð brauðristar, ég tróð útrunnum smjörva með og ýmsu öðru góðgæti sem gladdi vini mína mjög. Nú, ef þetta eru nýir vinir, held ég að Inga vinkona sjái Skagafuglum áfram fyrir fæði allan ársins hring. Hér hef ég fóðrað hvæsandi og vanþakklátar gæsir og stygga hrafna síðustu mánuði og finnst gaman að hópurinn hafi stækkað eftir að Jónatanarnir mínir komu frá Afríku til sumarvistar. Fer ekki í fuglgreinarálit ... svangir fuglar eru bara svangir fuglar og mávar eru flottir og gáfaðir, eiga jafnmikið skilið að vera gefið og öðrum. Minni á að hinir fögru svanir geta verið svakalega grimmir og éta líka andarunga á Tjörninni. Gleymi aldrei forsíðu Moggans um árið þar sem slík átveisla fór fram ... Hef ekki treyst mér til að lesa Dimmalimm síðan. 

 

Fannst á Facebook:

Elsku HerbertDenverslun (sem er svo sannarlega til á FB, birt orðrétt):

„afsakið séum að trufla en hvað þíðir ef manni dreimir að það sé heill heimur og önnur þjóð neðanjarðar undir síðumúla???? er samt ekki að missa tennur líka í draumnum. 

minnum líka á að fóttbrottnir viðskiftavinir fá enga sérmeðferð.“

 

- - - -  - - - - - - 

FB minnti mig nýlega á Herbert Hnausdal sem bauð sig fram til forseta eitt árið, reyndar bara á Facebook, ýmsum til mikillar gleði. Fyrir nokkrum árum skrifaði ég:

„Get ekki annað en mælt með þessum forsetaframbjóðanda: Herbert ætlar m.a. að hafa Dorrit áfram á Bessastöðum, hækka kjörþyngd fólks, hafa kvenkynsbílstjóra, þýskar vinnukonur og fleira flott. Ekki láta flekkað mannorð hans og dóma vegna landabruggunar skemma fyrir ykkur. Herbert er spennandi valkostur.“

 

- - - - - - - - - - - - - - - 

Ég: „Ég er enn hálfdauð eftir allt þetta crossfit í morgun.“ 

Samstarfsmaður: „Það er borið fram croissant og þú borðaðir fjögur!

- - - - - - 

Áttundi kaflinn úr Stabat Mater eftir Pergolesi hefur verið uppáhaldið mitt síðan ég var átta ára, eða í rúm tuttugu ár. Ekkert að þakka.

(Ok, mamma æfði þetta verk með Kór Akraneskirkju um árið, Haukur Guðlaugsson stjórnaði, og ég fór með á flestar æfingarnar og tónleikana líka, minnir mig. Það þurfti ekki meira til að ég hrifist af þessari dásemd. Mæli með að hlusta á allt verkið, alla tólf kaflana (mamma hélt mest upp á þann tólfta, amenið) ... en þessi útgáfa er mjög góð - söngkonurnar algjört æði. Hef svo sem ekki leitað að plötu þar sem kór kemur við sögu, held að verkið sé samið fyrir sópran, alt og hljómsveit en það er voða flott með kór líka í sumum köflunum. 


Loksins skimun og grimma stafavíxlvélin virkjuð

SkimunTæplega mánuður er liðinn síðan ég fékk bréf frá Landspítalnum um að mæta í skimun og loks herti ég mig upp og hringdi. Vissi að það yrði erfitt að finna réttan tíma, jafnvel langt fram í tímann, sem hafði tafið mig frá því að hringja. Veit t.d. ekki enn hvenær (kl. hvað) ég kenni í apríl/maí og svo versnar í því þegar nær dregur sumarfríum starfsmanna sem er allt í lagi nema þegar þarf að ákveða að fara eitthvað klukkan eitthvað ákveðið. Fannst ólíklegt að ég fengi skimun á laugardagskvöldi sem myndi henta mér vel en það mátti samt vona.

 

„Kemstu klukkan 13.40 í dag?“ spurði ljúfa konan sem svaraði í símann. „Uuuujáts!“ svaraði ég og trúði vart heppni minni, einhver hafði greinilega afpantað sem kom mér svona líka vel, enda var mæting til vinnu klukkan fimm og nægur tími.

Ég mætti niður á Eiríksgötu, lét vita af komu minni (skimun í fyrsta sinn í mörg ár) og held að það hafi ekki verið ljúfa konan sem hreytti pirruð út úr sér: „Þú þarft að skrá þig þarna,“ og benti á nokkra skjái á veggnum á móti. Það sem alkabarnið heyrði var: „Fávitinn þinn, það er árið 2025, reyndu að uppfæra þig og láta mig í friði!“ En auðvitað meinti hún það ekki þannig. Ég þakkaði henni kurteislega fyrir, skráði mig og borgaði (posi hjá skjánum) en þurfti því miður að fá að vita hvar stiginn upp á þriðju hæð eða lyfturnar væru ... og alveg jafnhress yfir trufluninni urraði konan mér í rétta átt.

 

Allt annað viðmót mætti mér uppi ... eða þögull en vinalegur skápur sem reyndist vera búningsklefi ... með tvennar dyr svo ég gat læst almenningsmegin. Klæddi mig úr að ofan og beið svo þar til rauða ljósið yfir innri dyrunum breyttist í grænt, þá mátti ég fara inn til elskulegu kvennanna sem þar biðu spenntar eftir því að fá að mynda mig. Tók örfáar mínútur, svo var það klefinn aftur, ég klæddi mig og gekk niður stigana. Þá tók nú aldeilis ævintýrið við. Ég hélt í áttina að Landspítalanum, (Eiríksstaðir eru við hliðina á Vörðuskóla og fyrir aftan Hallgrímskirkju) og minnti að það væri stoppistöð þar - sem var rétt - en strætó birtist bara allt í einu svo ég tók til fótanna og hljóp eins og vindurinn á móti honum. Komst auðveldlega yfir götuna því umferð var nánast engin. 

„Þú hefðir ekki þurft að hlaupa,“ sagði vingjarnlegi bílstjórinn. „Næsti vagn kemur eftir átta mínútur,“ bætti hann við. Hvernig átti ég að vita það? hugsaði ég en sagði bara: „Takk fyrir að bíða.“

Hásinarnar? veit ég að allir mínir bloggvinir hugsa. Hvernig fór fyrir þeim, greyjunum sem hafa verið að jafna sigm hálfslitnar eftir strætóhlaup fyrir nokkrum árum?

 

StigagangurinnSko, eftir að hafa skokkað niður margar hæðir hér heima (sjá mynd úr stigaganginum, hún var tekin á fyrstu hæð og upp) fyrr um daginn, þrjár hæðir á Eiríksstöðum (sem húsið heitir) og almennt séð hreyft mig miklu meira á þessu ári en þeim síðustu, tekið inn B1-vítamín, verið með hælahækkun í skónum ... og ef gemsanum mínum skjátlast ekki, hafa hásinar ykkar einlægrar verið í ágætri þjálfun. Ég gæti farið að skokka, grunar mig ... en ég set mörkin þar. Stigahlaup og strætóhlaup, það er meira en nóg.

 

Ég var ekki með neitt vesen í skimuninni, enda stjórnar starfsfólk á plani því ekki hversu illa er farið með Skagakonur. Myndavélar eru m.a. sendar til Selfoss og Keflavíkur svo konur þar þurfa ekki að taka sér frí úr vinnu nema í kannski korter, en konurnar á Akranesi mega gjöra svo vel að mæta til Reykjavíkur sem þýddi að ég fór aldrei, reiknaði út að ef ég hefði átt tíma þar kl. 10 að morgni myndi það taka mig um sex klukkutíma að komast þetta fram og til baka með strætó. Það var mjög letjandi, ekki síst eftir að hægt var að fara í skimun á spítalnum á Akranesi lengst af, eða þar til Krabbameinsfélagið hætti að nenna að koma.

Reyndi alveg að fá að sitja í með vinkonum en þær voru jafnvel nýbúnar að fara í skimun þegar ég hringdi í þær eða ætluðu ekki að fara. Svo er Vegagerðin að draga enn frekar úr þjónustu landsbyggðarstrætó á Akranesi, fækka stoppistöðvum niður í þrjár, þannig að nú munu sko ALLIR flykkjast í strætó ... vonandi muna þau eftir að hækka fargjaldið líka. Bíllinn til Akureyrar og frá Akureyri, mun ekki lengur koma við á Akranesi (það "tafði" víst um 20 mínútur). Getur verið að ungi en forni maðurinn í Miðflokknum, vonarstjarnan Snorri, hafi náð að valda skaða með fáránlegum fréttaflutningi sínum um árið (Stöð 2) þegar hann vildi meina að allt of margar stoppistöðvar á milli Reykjavíkur og Akureyrar væru ástæða þess að farþegum hefði fækkað, sem sagt líklegra en covid-tíminn, fargjaldahækkun og fækkun ferða? Nú vill þessi sama mannvitsbrekka meina (ræða á Alþingi) að kynjafræði búi til femínista sem hati karla. Ég er femínisti og ég elska karla, hvað er þá að mér, eða er Snorri kannski bara með uppistand á þingi og segir bráðum: bara djók!?  

 

Náði að knúsa kettina í tvo tíma eftir brjóstaskimun og áður en ég fór í vinnuna, og sá mér til gleði að ljúfi sýrlenski bílstjórinn keyrði vagninn minn sem er með stoppistöð hér á hlaðinu. Þessi sem býður alltaf góðan daginn, stoppar brosandi fyrir óléttum konum með barnavagn og halarófu af krökkum á gangbraut ... hann lítur út fyrir að vera fyrrum bóndi úr Skagafirði (móðurættin mín er þaðan) en ég veit að hann þekkir sýrlenskt vinafólk mitt á Skaganum, annars hefði ég haldið mig við Skagafjörðinn. Eina sem hann kvartar yfir er að samstarfsfólkið talar allt saman á ensku, ekki íslensku, hann langar svo til að verða betri í íslenskunni. Ekki sá fyrsti sem ég hef hitt sem segir það. Ég ráðlagði honum að fara á námskeið í skólanum mínum, þar er nú ekki töluð enskan.

 

Tíminn sem ég kenndi í gærkvöldi var sá síðasti þar sem almenn kennsla fór fram, því nú á föstudagskvöldið verður útskriftarathöfn. Mér tókst að klára aðalkennslubókina, gefa þeim öllum pínkuponsulítið páskaegg (úr mjólkursúkkulaði frá Nóa, namm) með málshætti (skyndihugdetta þegar ég keypti mér snemmbúinn kvöldmat í Hagkaup, sushi). Páskaeggin vöktu mikla lukku og líka málshættirnir. Ó, hvað ég á eftir að sakna þeirra. Dásamleg öll.

 

Hvað er svona sæt kona eins og þú að ...Ég vældi aðeins undan því um daginn hvað viðreynsluaðferðir sumra karla virkuðu illa og væru árangurslausar þegar þeir halda til dæmis að spjall í gegnum Messenger á fb væri málið. Ég hef síðan hugsað svolítið út í hvað geti virkað ... Mögulega að rekast "óvænt" aftur og aftur á sama sæta manninn úti í búð og svo myndi hann kannski segja glettnislega: „Hvað er svona falleg kona eins og þú að gera á stað eins og þessum?“ Ég gæti mögulega fallið fyrir þessu en man þó eftir gaurnum sem ég hitti á Gauk á Stöng (eða Dubliner) einu sinni, kannaðist við hann og spurði í gríni hvað svona huggulegur maður væri að gera á stað eins og þessum. Hann varð ógeðslega fúll og rauk í burtu. Þetta var ekki einu sinni pikköpptilraun hjá mér, bara grín. Einhver bauð mér upp í dans eitt sinn og ég sagðist fyrst vilja sjá skattaskýrslu föður hans ... sá varð alveg brjálaður líka og fór í fússi. Átti víst forríka foreldra en ég hafði ekki haft hugmynd um það. Húmor þarf víst að vera góður til að hann virki á alla, ég er farin að gera mér grein fyrir því.

Það væri mjög notalegt (ef ég hefði ekki hrakið þessa menn og miklu fleiri frá mér) að vera vakin á páskadag við ilmandi góðan kaffibolla og Fabergé-páskaegg ... sem næst varla úr þessu, svo stutt er til páska. Sé varla fyrir mér heldur að nokkur karl myndi nenna að keyra alla leið til Grundarfjarðar og kaupa þar baunir af Valeria-kaffi (espressóbrenndar) til að gleðja mig sérstaklega. Væri gaman að vita hvort Valeria-kaffið fáist í bænum, t.d. Melabúðinni. Þar kennir ýmissa kaffigrasa.

 

Vigdís og HallaNýlega kíkti ég á gamlan uppáhaldsvef með stafavíxlvélinni góðu. Ég gleymdi eftir síðustu kosningar að skella inn nýju  stjórnarflokkunum ... sem ég er reyndar ansi hreint fúl út í fyrir að hafa látið viðgangast að senda tvær konur (sú yngri, unglingur á leið í próf) út í óvissuna í dag, á meðan erlendar mafíur og glæpaklíkur fá að vaða hér uppi og hættulegur ofbeldismaður þurfti fimm löggur til að gæta sín í dómsal (reyndar kominn með vernd).

Útlendingarnir okkar (flóttamenn og innflytjendur) vinna störfin sem við nennum ekki að vinna, þau kaupa ódýru bíldruslurnar sem við keyrum ekki lengur, halda uppi strætó, bæði sem farþegar og bílstjórar, eru ómetanleg fyrir góðgerðasamtök á borð við Samhjálp og Hjálpræðisherinn með sjálfboðavinnu (óháð trú) og fleira og fleira. Heimurinn er bara orðinn þannig að við getum ekki litið undan og látið sem það komi okkur ekki við.

 

Jæja, stafavíxlið ... Ég vel bara það andstyggilegasta sem kemur:

 

Flokkur fólksins: Loksins KFUK-flór.

Samfylkingin: Fylgsni minka eða  Fiskinn mygla ...

Viðreisn: Sviðin er ... (allt of fáir stafir til að fá fútt í þetta)

 

Hinir flokkarnir

Miðflokkurinn: Lokkum inn frið (ég er ekki að grínast)

Sjálfstæðisflokkurinn: Skjákort fulls fæðis.

Framsóknarflokkur: Karlakór forns KFUM.

Vinstri græn: Svitinn grær.

Náði ekki Lýðræðisflokknum sem bauð sig fram síðast, eða Sósíalistum, hvað þá Pírötum, prófaði meira að segja að setja Píratapartý (það er samt ekki Ý í partí, krakkar) en vélin treysti sér ekki til að finna eitt einasta útíhött-orð hjá þeim. Takk samt, Elías!

Sjálf er ég: Aldraður hrísguð, eða Draugur sarð hlíð ... 

 

Nokkrar konur eru næstar (ekki svona hræddur, Snorri) og hér leita ég ekki að því andstyggilegasta, það má hlæja að flokkum á þennan hátt en síður fólki, finnst mér.

 

Sama hvað ég reyndi að setja Þorgerði Katrínu inn, vélin náði ekki að búa til ný orð fyrr en ég setti inn Katrín Gunnarsd og þá komu tillögur á færibandi. Svo þurfti ég að finna nafnið á föður Ingu Snæland (althingi.is) sem er Ástvaldur, til að fá eitthvað út úr hennar nafni, það kom ekkert bara með Ingu Snæland einni. Hér eru sem sagt formenn stjórnarflokkanna, rektor HÍ, lögreglustjórinn, forsetinn og biskupinn, sumar fá eina merkingu, aðrar fleiri ef ég gat ekki gert upp á milli:

 

Inga Sæland Ástvald: Ágæta vald landsins, Ágæta vill dans dans, Ásældist vagnaland.

Kristrún Frostad: Kúrdi snart frost (sem passar alveg ef Mette fær að ráða útlendingamálum hér) ... Dúfnakorr strits.

Katrín Gunnarsd: Danskur tanngír ... Andríkt garn uns ...

Silja Bára: Sjáir bala.

Sigríður Björk: Kjurr bíði grös.

Halla Tómasdóttir: Dómstólar hitta al ... Matarsódi hló latt.

Guðrún Karls Helgud: Garðhús und gullker.


Fótakremjur, frændafundur og stigahlaup

FótakreistÓtrúlega fín bæjarferð farin í dag með einni systurinni, kaffihús og allt. Lét nokkuð gamlan draum rætast um sérstakt fótakremjutæki sem ég hef þráð en ekki tímt að kaupa ... en 20% afsláttur var meira en ég þoldi svo ég sló til og er meira að segja búin með "fótakreistu" kvöldsins.

 

Stærra tækið sem kreistir lærin líka var allt of dýrt. Konur sem safna bjúg þótt þær "hlaupi" (með smáhvíld á fjórðu hæð) reglulega upp næstum átta hæðir í samt lyftuhúsi sínu, nærri því daglega, þurfa eitthvað almennilegt ef þær vilja forðast lyf og geta það.

Mig grunar að Inga (sjúkraþjálfari) hafi dáleitt mig í einni heimsókninni því það er ekkert eðlilegt hvað ég er farin að njóta þess að hreyfa mig. Þegar ég horfði á veðurfréttirnar í kvöld og sá góða veðrið fram undan datt mér strax í hug að nú ætti ég kannski að prófa að ganga í vinnuna. Endilega rekið mér kinnhest svo ég vakni til meðvitundar og verði ég sjálf aftur, letidýr og sófakartafla ... eða kannski ekki.

Svo hef ég áttað mig á því að gemsinn minn gaslýsir mig, tekur ekki mark á stigahlaupum mínum (get ekki notað "stigagöngum", það gæti misskilist) og tekur alltaf meðaltal síðustu þriggja áratuga, eða að ég hafi gengið mínus tvær hæðir daglega ... nánast. Ég þurfti að fara í djúpríkið í símanum mínum til að finna laugardaginn, þegar ég fór tvisvar niður og tvisvar upp stigana en það kom út eins og ein ferð upp. Ég hélt að ég ætti stefnumót við vinkonu klukkan tvö hérna niðri og við svo saman á Kaffi Vest, en þegar hún var ekki komin klukkan tvö núll fimm kíkti ég á skilaboðin, það var þá klukkutími í hana, og auðvitað gekk ég upp stigana og æfði mig í fluguhnýtingum og ýmsu gagnlegu þessar 55 mínútur sem ég beið uppi. Svo stökk ég niður aftur rétt fyrir þrjú og skoppaði svo upp aftur þegar ég kom heim af Kaffi Vest. Léttara með hverju skiptinu.

 

Kaffi VestÁ Kaffi Vest sat ég nálægt virðulegum manni sem var þarna með barnabörnum sínum. Þegar hann var að fara sneri hann sér að mér og spurði hvort ég þekkti hann ekki ... á meðan ég horfði á hann runnu árin af honum og ég mundi hvað hann hét, við vorum saman í Austurbæjarskóla og Vörðuskóla fyrir nokkrum árum. Meira að segja náskyld, eða sexmenningar skv. Íslendingabók. Langalangafar okkar voru bræður. Runólfur (minn, f. 1800)) og Jón (hans, f. 1799)) Jónssynir. Reffileiki hans er sennilega vegna starfsævinnar hjá utanríkisþjónustunni. Það er eins og mig minni að ég hafi hringt í hann árið 2000 til að fá upplýsingar um borðsiði í veislum í Buckingham-höll en ég var að vinna að grein um almenna mannasiði og fannst sjálfsagt að bæta þessu við ef einhver lesandi Vikunnar yrði svo heppinn að komast í matarboð þangað. Það var gaman að vinna þessa grein sem endaði víst sem námsefni hjá einhverjum kokkaskóla, minnir mig.

 

Vinkona mín tók þessa mynd af mér og ókunnugum sessunautum mínum ... (nema sá til hægri við mig reyndist vera gamall skólabróðir og frændi). Veðrið á laugardaginn var alveg frábært eins og sést í baksýn, reyndar var þrumuveðrið í gær alveg stórskemmtilegt. Þetta eru ekki pálmatré þarna á Hagamel, bara saklaus blóm úti í glugga.

 

Við vinkonurnar ræddum mögulega yfirtöku Íslands á Bandaríkjunum - eða stöku ríki þar. Báðar erum við hrifnar af Washington-ríki og hún af Hawaii (hiti plús sólskin = stuttbuxnaveður) og stakk upp á Flórída (krókódílarnir eru stór mínus, að mínu mati). Vissi ekki af þessum möguleika, að lönd gætu mögulega yfirtekið vinaþjóðir sínar, bara eftir hentugleika, en nú lítur allt út fyrir að það geti gengið upp. Spennandi möguleikar hafa skapast. Ég væri líka til í að eiga Skotland, finnst það geggjað land, spurning hvort það sé nógu mikill dugur í núverandi ríkisstjórn til að láta vaða.       

 

RúsínuraunirÉg keypti kodda í Jysk, þunnan og góðan, helst til of mjúkan samt, síðan kreistunudddæmið í Kópavogi og sitthvað fleira í fatabúð, ég sem hata búðaráp ... við stoppuðum og fengum okkur laxabrauð (úr landeldi) í Kaffi Mílanó, sama góða þjónustan og síðast ... og ég varð svo meyr yfir þessum skemmtilega frídegi að ég viðurkenndi fyrir systur minni að ég hefði falið tvo rúsínupakka inni á baði hjá henni í gær, sunnudag. Ég er orðin svo forhert að ég var ekki að farast úr spennuhlátri á meðan hún skutlaði mér heim um kvöldið ... og þegar ég fór með dósina mína í dósatunnuna í fatahenginu hennar, skömmu fyrir brottför, ætlaði hún að vera fyndin og sagði mér að setja hana á hvítt herðatré í fatahenginu. Ég gerði það, tók því sem hún sagði bókstaflega, og gleymdi því svo af forhersku einni saman. Til að festa dósina betur varð ég að kreista hana svolítið og skemmdi hana þar með, sem var algjör synd. Á Akranesi má kreista og kremja dósir án þess að þær missi verðgildi sitt, en ekki hér í borginni. Frekar fúlt því dósirnar taka svo miklu meira pláss svona ókreistar. 

 

Fann sjálf rauðan pakka undir handklæðabunkanum inni á baði hjá mér, eða síðasta handklæðinu í áður-bunkanum. Annars held ég að stríðið sé tapað ... ég finn bara alls ekki síðustu pakkana, enn tveir ófundnir, minnir mig, eflaust verða þeir hér um langa hríð og menga heimilið þar til ég flyt næst, sennilega eftir tæp átján ár ef ég fylgi mynstrinu! Átján ár á Hringbraut, átján ár í himnaríki ... Þótt ég sé ánægð hérna við sundin blá langar mig alltaf svolítið í Kópavoginn (sem næst Hamraborg) eða í miðborg Reykjavíkur. Það er bara svo skrambi dýrt að flytja og kaupa á báðum þessum stöðum, og ekkert víst að ég verði heppin og lendi efst í átta hæða húsi til að geta gengið stigana og haldið þannig sixpakkinu við.

 

P.s. Veit annars einhver hvar hægt er að fá rúsínulaus páskaegg? Ýmsar ástæður eru fyrir því að ég veit að í alla vega tveimur tegundum (Nóa, Góa, minnir mig) er að finna súkkulaðirúsínur (dulargervi dauðans) ... og ekki bara það, heldur eru þær í lausu á meðan hlaupbangsar fá plastpoka utan um sig! Vilja páskaeggjaframleiðendur ekki bara setja þurrkaðar gulrætur í eggin? Eða stropuð egg? Það er svo erfitt að forðast svona hrylling. Eitt sinn pantaði ég mat hjá Eldabuskunni og í girnilegu brokkolísalati leyndust rúsínur án nokkurrar viðvörunar, öll önnur hráefni voru samviskusamlega talin upp. Samsæri? Ég er farin að halda það! 


Stóru markaðsmistökin ... kaffispjall og draumur um uppistand

Símtal í strætóNýlega fékk ég upphringingu frá góðgerðasamtökum sem ég væri alveg til í að styðja ef ég væri ekki með fullt af öðrum sem ég tími alls ekki að hætta að styðja (m.a. SÁA, Kvennaathvarfið og björgunarsveitirnar) og tek þá stefnu að bæta ekki við þau samtök sem fyrir eru því ég er eiginlega bara í einni til tveimur vinnum um þessar mundir. 

„Er þetta Guðríður?“

„Já, það er hún.“

„Já, sæl, Guðríður. Mig langar að spyrja þig, Guðríður, hvort þú hafir áhuga á að styrkja okkur (....) um smáupphæð á mánuði, Guðríður? Hvað segir þú um það, Guðríður?“

„Ég er reyndar í strætó núna á leið til vinnu,“ nánast hvíslaði ég því ég þoli ekki þegar fólk talar hátt í síma á almannafæri.

„Viltu, Guðríður, að ég hringi í þig seinna? Hvenær mætti bjóða þér að fá símtal, Guðríður?“

„Úff, held að þú þurfir ekki að hringja aftur, ég styrki það mörg samtök að ég get ekki bætt við mig, alla vega í bili.“

„Segum það, takk fyrir, Guðríður.“

 

Sleppti ég því að styrkja samtökin vegna þessa hræðilega misskilnings sem ríkir um að allt fólk elski að heyra nafn sitt nefnt á fimm sekúndna fresti? Nei, alls ekki, ég varð samt rosalega pirruð út í þann sem hringdi yfir þessu nafnabulli og enn pirraðri út í forríka markaðsfræðinginn sem hefur talið svo mörgum fyrirtækjum trú um þetta virki og fengið vel greitt fyrir. Ég þekki ekki eina einustu manneskju sem ekki verður smávegis pirruð á svona símtölum, sérstaklega vegna þess hvað hringjandinn hjakkar endalaust á nafni þess sem fær símtalið.

 

Systir mín lenti í svipuðu fyrir skömmu, önnur samtök, og hún vildi endilega styrkja það um fimm þúsund krónur í eitt skipti - en var sagt að það yrði að vera mánaðarleg greiðsla, kannski bara tvö þúsund krónur á mánuði? Skiljanlega er betra að fá 24 þúsund á ári en skitinn fimmþúsundkall ... en systir mín gaf sig ekki, þrátt fyrir að fá að heyra fagurt nafn sitt mjög oft í frekar stuttu símtalinu. Hún er með heimasíma, eins og aðrir gamlingjar (djók) og það er tryllingslega mikið sótt að slíkum risaeðlum sem eru sennilega svo ruglaðar að þær gefa og gefa öllum samtökum sem eru svo sæt að hringja og rjúfa þannig félagslega einangrun sem þetta fólk býr væntanlega við, ef markaðsfræðin lýgur ekki. Döhhhh ... Ég sleppti mínum heimasíma ekki fyrr en ég flutti í bæinn en hafði aðeins notað hann til að hringja í gemsann minn ef ég fann hann ekki, og taka á móti söfnunarsímtölum ... Þeim fækkaði mjög við að hætta með 552-1039-númerið mitt síðan 1986. Vissulega ókeypis að hafa hann en fyrst hann gekk fyrir rafmagni og var ekki öryggistæki eins og áður (landlína á útleið, eða farin), hafði ég ekkert að gera við hann.

 

MílanóSteingerður almáttugur kom eftir hádegið og ég stökk upp átta tröppur og tók lyftuna, til að láta hana ekki bíða. Við ætluðum á kaffihús. Fljótlegt var að fara niður í Borgartún, tveir fínir staðir þar ... en ekkert bílastæði var að fá hjá Te og kaffi svo við ókum ögn lengra og ætluðum í Kaffitár en það var búið að loka þar, sem var gert 1. mars sl.. Man að ég fór þangað einn daginn eftir vinnu, þegar ég vann bara til þrjú, en varð að drekka kaffið á ljóshraða því lokað var klukkan fjögur. Held að það hafi ekki verið sérlega sniðug ákvörðun (að loka svona snemma) því mörgum finnst notalegt að hittast yfir góðu kaffi og kökusneið eftir vinnu. Sakní sakn á elsku Höfðatorg.

 

Við enduðum á Kaffi Mílanó í Skeifunni og fengum þar fínasta kaffi og meððí. Þjónustan algjörlega til fyrirmyndar, eigandinn hljóp um allt og gætti þess að vel færi um viðskiptavinina, ég fékk of heitan latte og hann bjargaði því í hvelli. Eitt sinn heyrði ég að þar væri lokað klukkan fjögur sem hentaði mér illa og því kaus ég að fara ekki þangað ... en það er ekki rétt, það er víst klukkan fimm sem er allt annað og betra, hentar mér alla vega mjög vel. Ég sá vinnustaðinn minn út um gluggann og á eftir að verða fastakúnni þarna. Virkilega gaman að sjá þarna stórt og flott málverk eftir Bjarna Þór, stórlistamann Akraness, og svo töluðum við eigandinn fallega um Ástu hans Bjarna sem við elskum greinilega bæði ... og auðvitað Bjarna líka!

Hún vinkona mín vinnur hjá Samhjálp sem eru sannarlega góð samtök sem bjarga mörgum, og hún sagði mér að Kaffistofan þeirra gengi vel, og ekki síst vegna þess að hælisleitendur, af ýmsum trúarbrögðum, vinna sjálfboðavinnu þar í miklum mæli, til að borga Íslandi til baka. Ég hef heyrt að eitthvað svipað sé í gangi hjá Hjálpræðishernum og alveg pottþétt víðar. Mér finnst að það megi vekja meiri athygli á þessu, allt of margt fólk sem trúir því að allt flóttafólk fái bætur og nenni ekkert að gera. (Núverandi ríkisstjórn virðist meira að segja vera á móti flóttafólki, ef marka má nýlegar fréttir! Ég er í losti, ef rétt er. Treysti á stjórnarandstöðuna að mótmæla harðlega.)

 

Auðvitað er alltaf þannig fólk innan um, fólk sem nennir ekki að vinna ... en muna ekki allir eftir því þegar tugir Íslendinga fengu frímerki á rassinn og voru sendir heim frá Danmörku um árið, búnir að vera jafnvel áratugum saman með frítt húsnæði og uppihald þar? Man að þegar ég skildi við allra fyrsta eiginmann minn fékk ég þá ráðleggingu að flytja með soninn til Köben og lifa þar góðu lífi án þess að þurfa að lyfta litla fingri. Það hugnaðist mér (vinnualkanum) ekki og ég var sögð heimsk fyrir vikið. 

 

Uppistand StefánEftir bráðskemmtilegt spjall og gott kaffi var stutt gangan út að Bláu húsunum en hirðnuddarinn minn er með stofu í einu þeirra. Hún sá til þess að allir vöðvar, sinar, innyfli og bein fengju meðferð. Sjúkranuddarar eru svakalega sterkir ... hún þarf ekki að biðja nokkurn um að skrúfa lok af krukkum heima hjá sér (stráksi sá orðið um það í himnaríki síðustu árin sem hann bjó hjá mér).

Mér líður rosalega vel núna og býst við að sofa eins og vært ungbarn í nótt, það gerðist nefnilega síðast þegar ég fór í nudd til hennar. Og ég vaknaði með bros á vör, að springa úr vellíðan.

Það fyrirfinnst nánast allt í Skeifunni en mér hefur ekki tekist að finna úrsmið þar eða í grenndinni. Það vantar batterí í úrið mitt og mér líður eins og unglingi, alltaf að kíkja á gemsann (m.a. til að missa ekki af strætó í vinnuna).

 

Fínn og stórskemmtilegur samstarfsmaður minn, Stefán Ingvar, verður með uppistand núna 10. apríl nk. og ætlar að sigra atvinnulífið (spennt að vita hvað hann eigi við með því). Mig langar svo svakalega mikið að mæta. Óttast mest að finna engan til að fara með mér (ég þekki nánast eingöngu ótrúlega upptekið fólk). Man að ég nötraði yfir þessu sama varðandi tónleika Skálmaldar í nóv. í fyrra - í Hörpu. Þá þurfti ég að hella mér í mikil heilabrot ... fólkið mitt ekki bara upptekið, heldur hafði sumt ferlegan tónlistarsmekk. Hvern þekkti ég sem var vitlaus í sjúklega gott þungarokk og myndi njóta þess að tárast með mér yfir dýrðinni? Fann fyrir rest eina sem átti þrítugsafmæli daginn áður en ég keypti miðana og hún gargaði af gleði yfir afmælisgjöfinni sem var síðan afhent 11 mánuðum seinna. Við sátum á besta stað því ég keypti miðana svo snemma!

 

Mosi í kvöldNú er að finna vin eða vandamann sem hefur gaman af því að hlæja. Held að allt mitt fólk uppfylli það og meira til. Vissulega sá ég í hillingum áður en ég flutti í bæinn að ég yrði alltaf að menningast eitthvað og gera skemmtilega hluti, endalaust fjör, en veruleikinn varð nú annar. Oftast er það ég sem er sökudólgurinn, þreytt og nenni engu eftir langan vinnudag ... vinn bara þrjú kvöld í viku núna, til kl. 19.45, komin heim kl. 20 ef ég fæ far, og er ekki endilega til í mikið djamm á eftir. Orkan víðs fjarri. En ég mun leggja heilann í bleyti og vona það besta. Þetta er á fimmtudagskvöldi, þá á ég frí og er til í allt. Því miður á ég ekki frí á miðvikudagskvöldum en þá er ægilega flottur bókaklúbbur í gangi í einu bókasafni borgarinnar, ég myndi ganga í hann ef hann væri t.d. á fimmtudögum ... en þá kæmist ég ekki á uppistandið! Vandlifað stundum.

 

Á laugardaginn er svo annar kaffihússhittingur vikunnar með vinkonu. Ó, hvað ég hlakka til. Er búin að safna upp ýmsu sem ég þarf að tala um við hana og get varla beðið eftir að heyra hvað hefur á daga hennar drifið undanfarið. Hún kemst pottþétt ekki með mér á uppistandið því fimmtudagar eru mestu annadagar hennar og langt fram á kvöld. Ég myndi taka minn athyglissjúka kött, Mosa, með mér ef ég héldi að það mætti og að hann hefði húmor. Hann hefur á margvíslegan hátt truflað bloggun mína hér í kvöld með því meðal annars að koma sér fyrir beint fyrir framan skjáinn, nánast ofan á lyklaborðinu (sjá átakanlega mynd), væla og skæla ... en hann er samt æði og ég fyrirgef honum allt.     


Heppni, hugmynd og óvænt sæt á síðustu stundu

AugabrúnirGemsinn minn les hugsanir, eins og margoft hefur komið fram. Ég er eins og óframkölluð filma, kveinaði ég í hljóði í gær og horfði með hryllingi á ljósar, nánast ósýnilegar augabrúnir mínar (kolsvartar í gamla daga) og alveg ósýnileg augnhár ... en viti menn, nokkrum sekúndum seinna birtist auglýsing frá snyrtistofu í símanum. Ég leitaði að einni slíkri í Skeifunni, nafla alheimsins, og fann Snyrtistofu Ágústu aðeins steinsnar frá vinnunni - gekk frá tímapöntun í gemsanum og var svo heppin að einn tími var laus daginn eftir, eða í dag. Mögulega spilaði pjatt og hégómagirnd inn í þetta því ég vissi að innan tíðar, vonandi einhverra daga, kæmi ljósmyndari frá Mogganum vegna viðtalsins þarna um daginn og hver vill ekki vera sætur á mynd í dagblaði? Ég hefði þá vonandi einhverja daga til að æfa fagurt bros, vera búinn að redda mér almennilegum farða sem ekki ýkir broshrukkur til muna. Heppin.

 

Myndin er auðvitað ekki alveg ekta en sýnir þó augabrúnirnar nokkuð eins og þær eru. Það er bara svo freistandi að láta Snapchat gera andlitið fullkomið ...

 

 

AugabrúnaskorturEins og svo oft áður var heppnin með mér í liði og lausi tíminn var um hálfþrjú, fundur í skólanum ekki fyrr en kl. 16. Enn meiri heppni þegar Bryndís, fyrrum húsvörður, hirti mig upp heima, sjálf á leið í Skeifuna, og fleygði mér út á ferð við snyrtistofuna (til að hjólkoppunum yrði ekki stolið). Ég var með spennandi kilju með í för og fannst forréttindi að setjast í þægilegan stól í ljúfu andrúmslofti og lesa um nýjasta morðmál Kim Stone rannsóknarlögreglufulltrúa. Krufningarskýrslan var rétt komin þegar ég var sótt í litunina, alls ekki plokk, og er nú komin með MÍNA KONU í snyrtistofuheiminum í Reykjavík. Hún var svo mikið æði og litaði mig svo flott að allir í vinnunni öskruðu af hrifningu - nemendur mínir sýndu svipuð viðbrögð þegar kennsla hófst. „Ég vil ekki svartar augabrúnir, bara brúnar, verð annars svo gribbuleg,“ sagði ég greindarlega við ungu konuna. 

„Það er líka sniðugt að setja gráan lit með,“ sagði hún - en meinti svo ekki strípur úr gráu og brúnu sem mér fannst afleit hugmynd í augabrúnir ... en þá var sá grái bara til að gera þann brúna enn flottari með blöndun. Greinilega mjög langt síðan ég hef farið á snyrtistofu. Svo kostaði þetta vel undir 10 þúsund sem mér finnst vel sloppið fyrir svona flotta þjónustu. Það aukast líkur á því að ég lendi á séns, held ég. Heppin.

 

MóðurættarbjútíÞað er alltaf fundur á þriðjudögum fyrir kvöldkennarana og skömmu áður en þeim fundi lauk fékk ég upphringingu frá ljósmyndaranum sem boðaði komu sína í kvöld klukkan 19. Ég var með visst tromp uppi í erminni og þess vegna fékk ég ekki taugaáfall. Elskulega stúlkan á snyrtistofunni hafði gefið mér tvær prufur af góðum farða sem átti ekki að ýkja eitt eða neitt, bara auka á fegurð. Sem hann svo gerði. Nemendur mínir voru allir til í að stilla sér upp á mynd með fegurðardísinni mér, elsku yndislegu krúttin mín frá Úkraínu, Palestínu, Venesúela, Sýrlandi, Grikklandi, Víetnam og Afganistan, flest, ef ekki öll, búin að vera að vinna allan daginn og svo láta þau troða í sig íslensku á kvöldin án þess að bresta í grát af þreytu. Bara þessi vika og sú næsta eftir, þá er námskeiðinu lokið, þetta líður allt of hratt. Þrjár vikur búnar og ég er næstum búin að læra nöfnin á þeim öllum. Jamm, flestir snillingarnir sem ég vinn með læra nöfn nemenda sinna á fyrsta eða öðrum degi en ég myndi muna afmælisdagana þeirra frekar, tölur henta mér mun betur en nöfn.

 

Myndin af skvísum úr móðurætt minni (tekin í afmæli í himnaríki fyrir nokkrum árum) tengist þessari færslu ekki neitt en hún sýnir brúnu augun og dökka hárið sem ég minntist á í síðasta bloggi (myndin úr brúðkaupi foreldra minna), nema hjá okkur Hildu systur, sem erfðum hina nokkuð ljósari fegurð úr Flatey á Skjálfanda.

 

Tómatar eða rúsínur ...Vinkona mín af Skaganum mætti í örheimsókn í gær, hafði verið hjá tannlækni og vildi endilega færa mér mat í leiðinni ... ég kenndi henni íslensku á sínum tíma á Akranesi og svo urðum við vinkonur seinna, sem nágrannar. Ali, eldri sonurinn, kom með henni og það var ekkert til hérna ... (ef ég kaupi sælgæti fyrir gesti ... þá borða ég það sjálf) svo ég rétti Fatimu tvo rúsínupakka, handa sonunum sem Ali varð mjög ánægður með. Þar með má kannski segja að ég hafi eyðilagt möguleika mína á því að ná að hefna mín hroðalega á systur minni. Rúsínupökkum hefur sem sagt fækkað hjá mér um tvo og ekki möguleiki að ég geti, orðstírs míns vegna, keypt slíka pakka sjálf. Fel bara tómata, hún er með ofnæmi fyrir þeim. Kannski í dósum til að eyðileggja ekki fatnað eða húsgögn. Held að þetta sé fínasta hugmynd!

 

Áður en ég fór í vinnuna kom ég við hjá Pure Deli, líka steinsnar frá vinnunni, fékk mér avókadóvefju og hollustusafa með. Vaninn er á gervihnattaöld að tappar séu fastir við flöskur ... en ekki þarna svo ég lenti í svakalegu óhappi og það skvettust einhver ósköp yfir bleika bolinn minn. Sennilega vegna hollustu drykkjarins þá þornaði bletturinn án þess að skilja eftir sig nokkur ummerki! Það kom sér einstaklega vel í dag (kvöld) að vera ekki í blettóttum bol. Heppin.

 

peningarÉg hóf viðskipti við Búnaðarbanka Íslands fyrir langalöngu, útibúið á Hlemmi sem er löngu hætt en ég hvergi nærri ... Bankinn hefur skipt um nafn nokkrum sinnum en alltaf þjónustað mig vel, ekki síst eftir að ég fór í greiðsluþjónustukerfið árið 1995. Þá voru skuldir mínar teknar, allt árið lagt saman og síðan deilt með tólf sem var akkúrat það sem ég þurfti til að sleppa við dráttarvexti - sem ég hef hamingjusamlega gert síðan. Eftir að ég flutti í bæinn í október á síðasta ári fannst mér ég eyða undarlega miklu og samt bólgnaði einn reikningur minn út (engar trilljónir samt), eða þessi sem tengdist greiðsluþjónustunni. Nýlega hringdi ég í bankann og spurðist fyrir um þetta og þá kom í ljós að óvart hafði verið dregið af mér allt of mikið, eins og hússjóðurinn fyrir himnaríki, fasteignagjöld til Akraneskaupstaðar og gott ef ekki Skaga-vatn og -rafmagn líka ... en ekki borgað samt þar sem engar innheimtukröfur voru á mig þaðan, svo þetta bara safnaðist upp. Ekki skrítið þótt ég upplifi reglulega að ég hafi unnið í happdrætti ... galdurinn er að láta bankann sinn gera sig skítblanka og fá svo leiðréttingu ... yndislegt. Og þá fer maður á snyrtistofu.

 

Af Facebook ... reyndar brandari sem ég þýddi fyrir Vikuna hér í denn ... en hann lifir enn. Fann hann á Fyndnir Skagamenn

 

Guðmundur var að spjalla við Tom, kunningja sinn í Kaliforníu. 

„Ég er að fara til La Jolla í næstu viku,“ sagði Guðmundur. 

„Þú átt að segja La Hoj-a,“ greip Tom fram í. 

„Ó, ég skil. Við hjónin ætlum að dvela á El Cajón-hótelinu.“

„Þú meinar El Ca Hóne-hótelinu,“ leiðrétti Tom aftur. 

„Úps, ég skil.“ 

„Hvenær ferðu svo aftur til Íslands?“ spurði Tom. 

Guðmundur hugsaði sig um í smástund og sagði svo varfærnislega:

„Veit ekki, annaðhvort í húní eða húlí!“ 

 


Heppni við Höfðatorg, dýrmætar myndir og fleiri pakkar

Rúsínur ...Systrastríðið ríkir enn og magnast bara ... Hún kom í næstum óvænta heimsókn í dag og sníkti kaffi, trúði því aldrei að ég hefði náð að flytja svona hratt á milli póstnúmera, eins og ég reyndi að telja henni trú um. Hún hvatti mig til meiri og meiri drykkju þetta auma korter sem hún stoppaði, þangað til ég var komin í spreng, og svo þegar ég var búin að pissa lá henni allt í einu svo hrikalega á að komast heim, og ræna mér með sem var ætlunin. Ekki grunaði mig að hún hefði á þessari mínútu sem athöfnin tók, og sem hún hafði þá í friði, falið þrjá rúsínupakka til viðbótar við þá þrjá ófundnu síðan í afmæli stráksa. Reyndar, við heimkomu í kvöld setti ég í þvottavél og hvað fann ég ekki ofan í þvottakörfunni? Jú, rauðan pakka sem hefði svo auðveldlega getað farið óvart í þvottavélina og eyðilagt öll fötin mín. Ég hefði hent þeim, að sjálfsögðu. Nú þarf ég á sérsveit að halda til að leita og finna, síðan rúsínuverja íbúðina með öllum ráðum. Er búin að snúa öllu við í stofunni og eldhúsinu án árangurs ... það eru fimm pakkar eftir og ég mun hvorki sofa né nærast fyrr en ég finn þá ... hrmpf! Ef ég væri viðskiptasinnuð myndi ég selja aðgang að heimili mínu, kannski kæmu fjórir í einu, fimm þúsund kall á mann, og leyfa þeim að leita að rúsínupökkum. Ég yrði forrík á skömmum tíma.

 

Myndin: Eldhúsborðið mitt. Rúsínupakkarnir passa reyndar vel við D-vítamínspreyið til vinstri.

 

Besti leigubílstjórinnÁ föstudaginn um fjögurleytið, þar sem ég stóð, full yndisþokka, á stoppistöðinni við Höfðatorg, nýbúin að missa af leið 15 (Grensásvegur) því ég var að reyna að gúgla fyrir franska ferðamenn hvar tveggja hæða útsýnisstrætó, þessi rauði, stoppaði eiginlega í Borgartúninu. Þau vissu ekki að þau höfðu hitt á hræðilegasta gúglara landsins sem fann þetta auðvitað ekki, en ég sagði nokkrum sinnum Sjú Tem á frönsku sem róaði þau algjörlega. Gott að tala svona mörg tungumál ... Þau þökkuðu fyrir sig (fyrir ekkert), fóru og ég steig framar, eða nær götunni, til að athuga hvort fimman væri kannski vagninn á leiðinni á stoppistöðina ... en þá kom allt í einu þessi rosalega flotti leigubíll og bílstjórinn heimtaði að ég settist upp í hann. Þarna var elskan hún Ragga á ferð, sem ég kynntist í eldgamla daga á fyrri bloggaraárum mínum hér. Og við höfum í raun aldrei misst sambandið, takk, Facebook. Það var sjúklega spennandi að renna ljúflega upp Laugaveginn og aka svo Suðurlandsbraut og inn í Skeifuna, eins og prinsessa. Ég horfði með hrokafullu hæðnisaugnaráði á strætólúserana sem fylltu stoppistöðvarnar á leiðinni. Eins og sést á myndinni prjónar Ragga í pásum. Ferðin hefði gjarnan mátt vera lengri, svo gaman að hitta hana.

 

Eldgamlar myndirUm síðustu helgi hitti ég elsku Emmu frænku, föðursystur mína og þá einu eftirlifandi af systkinunum sjö úr Uppibæ í Flatey á Skjálfanda. Hún átti níræðisafmæli, þessi elska, og alveg frábært að hitta hana og fleiri ættingja sem samfögnuðu afmælisbarninu. Við fengum að skoða gamlar myndir úr eigu Emmu og þær sem tengdust okkur fengum við að taka með heim.

 

 

Hér er sýnishorn: Efri myndin til vinstri: bræðurnir Hjalti, pabbi og Guðmundur. Myndin til hægri er af pabba þeirra, honum Jónasi afa, mynd sem ég hafði aldrei séð. Hann og amma voru með skólann í Flatey.

 

Neðri myndirnar eru úr brúðkaupi pabba og mömmu. Algjör fjársjóður að fá þessar myndir. Ég sé að mamma hefur gift sig í svörtu ... ekkert verið að hugsa um hjátrú. Hjónabandið stóð líka bara í áratug, þar um það bil, en skilaði nokkrum æðislegum börnum ... Brúðkaupsmyndin vinstra megin efri röð: Mínerva móðuramma mín (barnabarn Jónasar frá Hróarsdal í Skagafirði), Ella, elsta systir mömmu, Edda dóttir hennar og Hadda tvíburasystir mömmu. Neðri röð: pabbi (Haraldur) og mamma (Bryndís). Þau voru bæði Jónasbörn en báðir afar mínir hétu Jónas Jónasson ... Móðurættin mín er nánast öll með svart hár og brún augu (franskt blóð) en ég erfði hina ljósu fegurð úr föðurættinni. Alla vega blágrá augu sem verða græn þegar ég er í veiðihug.

 

Með Emmu frænku 2025Ég bið alla ættfræðihatara í bloggvinahópnum margfaldlega afsökunar á þessu aftur-til-fortíðar-flippi. En ... það var allt svo miklu betra í gamla daga, var það ekki? Mig minnir að pabbi hafi sagt mér að hann hafi verið farinn að vinna eins og fullorðinn um tíu ára aldur og byrjaði í leiðinni að reykja.

Margar heyrði ég sögurnar um lífsbaráttuna hörðu í Flatey, eins og þegar amma þurfti að hrekja ísbjörn á brott úr húsinu ... en svo var þetta bara saga sem ég las í skólanum og ruglaði saman við ískalt líf pabba og hans fólks þarna úti á hjara veraldar. Eyjan fór í eyði á sjöunda áratug síðustu aldar, þegar hver einasti íbúi flutti í burtu. Mér lánaðist að koma þangað einu sinni, þá bara fimm ára, en mjög sennilega var engin filma í myndavélinni, því það náðist ekki á filmu. Mér fannst hrollvekjandi að þegar amma opnaði dyr í eldhúsinu kom í ljós haus á lifandi kú og litla borgarstúlkan af Akranesi, hljóðaði upp yfir sig þegar Búkollan baulaði. Ég fór í kaupfélagið í Flatey með pabba og man að þar fengust bæði dúkkukerra sem ég ágirntist mjög og brjóstsykur (ég fékk einn poka).

 

Myndin sýnir okkur Emmu frænku.

 

Amma og afi fluttu á Laugaveg 138, jarðhæð, í Reykjavík. Svo undarlega vildi til að fyrrum tengdadóttir þeirra, mín háæruverðuga móðir, festi kaup á þessari sömu íbúð löngu seinna og bjó þar í mörg ár, eða þar til hún flutti upp í Asparfell í fínu útsýnisíbúðina, þá síðustu sem hún átti.

 

FramtíðarstörfVið systur skruppum í Bónus í dag og þar keypti ég páskaegg handa stráksa. Hann sagði mér í síðasta símtali að honum fyndist betra ef ég splæsti páskaeggi á hann en að hann splæsti á mig eða sjálfan sig. Ég samþykkti það og nú er páskaeggið komið upp í skáp og bíður hans. Sjálf fékk ég páskaegg nýlega, eða í síðbúna innflutningsgjöf. Góðu gestirnir mínir frá Bandaríkjunum höfðu frétt að það væri miklu ódýrara að kaupa íslenskt sælgæti í matvörubúðum en í fríhöfninni. Það fannst þeim ógurlega skrítið. Mér þótti leitt að þau náðu hvorki að sjá norðurljós í þessari vikulöngu Íslandsferð, eða eldgosi sem hefði verið upplifun. Þau yfirgáfu landið í dag. Eru sannarlega ekki hrifin af nýja forsetanum og hugleiddu að fá að flytja hingað í fjögur ár. En ætla að reyna að þrauka. Í fjölskyldu þeirra er trans maður sem þarf heldur betur að hafa fyrir lífinu og tilverunni þessi ár. Eða lengur, ef Musk lætur græða í hann eitthvað tæknilegt sem lætur hann lifa um ókomna tíð.

 

Ég er eiginlega hætt við að leita mér að meiri vinnu. Ég stóðst níðþungt lesara-próf hjá Hljóðbókasafninu og fæ vonandi eitthvað að lesa þar innan tíðar ... og almáttugur, hvað ég mun ekki leiklesa með látum. Hlustaði á ágæta bók nú um helgina og lesarinn bæði söng og gargaði (lék mæðgur að rífast á háa c-inu, sem var mjög kvalafullt) ... ég var eiginlega í losti á meðan ég vaskaði upp í dag og hlustaði, taugarnar eins og gaddavírsstrengir, ótrúlegt að ég hafi ekkert náð að brjóta. Svo get ég alltaf fengið meira að gera í skólanum þar sem ég kenni þrjú kvöld í viku, annað slagið koma yfirlestrarverkefni ... og þetta er bara alveg nóg. Ég þarf líka tíma til að sinna köttunum, Mosi hefur hlaupið í spik og lítur ekki við megrunarmatnum sem ég keypti í dag í dýrabúðinni við hliðina á Bónus og Costco ... Hann hefur ekki eirð í sér til að elta leiserpunkt nema í tíu sekúndur á dag og ef ég reyni að fara í eltingaleik við hann, verður hann skelfingu lostinn, ég á bara að klappa honum, ekki hlaupa og hræða hann ...          


Gestakoma að westan, nýtt stefnumót og vinnuleit

Mosi heimsfrægiEinhver muna eflaust eftir því þegar Mosi varð heimsfrægur, eða mynd af honum þar sem hann sat við tölvuna og prófarkalas á meðan hafið lét öllum illum látum hinum megin við gluggarúðuna.

Ég hafði verið að vinna en skroppið fram í eldhús til að sækja mér kaffi, var með símann á mér og náði að taka nokkrar myndir af honum ... Setti eina á síðuna View from YOUR window ... og frægð Mosa lét ekki á sér standa.

Það komu 118 þúsund læk og um 1.500 athugasemdir. Meðal annars frá bandarískri konu sem var á leið til landsins ekki svo löngu síðar. Hún heimsótti mig á Skagann, ásamt vinkonu sinni, og Inga var þarna líka, að sjálfsögðu. Næsta heimsókn var í gær þegar hún kom ásamt eiginmanni, syni og tengdadóttur.

 

 

Góðir gestir

Ég keypti vanilluskyr frá Ísey, eina dollu á mann, smurði flatkökur með hangikjöti, nýbakað fransbrauð (formbrauð) úr Bakarameistaranum hinum megin við götuna með silungi (landeldi), sósu og dilli. Svo átti ég fimm rjómapönnsur í frysti, síðan í afmæli stráksa, skar þær í tvennt og það passaði, þær voru þiðnaðar þegar kom að eftirrétti sem var líka í formi pínkuponsupáskaeggja, eitt á mann, með málshætti ... og mig grunar að farangur þeirra verði ansi þungur því þau eru vitlaus í íslenskt sælgæti, súkkulaði.

Og jú, Anne kom með flensupillur handa mér svo ég er verulega vel sett núna. Þegar Elfa kemur í haust verður hún eflaust með fullt fangið af þeim líka. Ég fæ svo sem ekki lengur þessar leikskólapestir eins og sl. haust, en deili pillunum hiklaust með þeim sem vilja láta sér líða ögn betur í leiðindakvefi.

 

Mynd: Hér eru elsku gestirnir, Inga lengst til hægri, sjúkraþjálfari og hroðalega hamingjusöm yfir þessari miklu og splunkunýju hreyfiþörf vinkonunnar ...

 

LaxabrauðSíðustu mánuði hefur Skeifan verið sannkölluð miðja alheimsins í lífi mínu og ég sæki nánast alla mína þjónustu þangað. Matvörukaup (allar búðir nema Nettó þar), apóteksviðskipti, nudd (mjög nýlega fann ég mína konu), gleraugnaþjónustu og sitt af hverju fleira. Tímaskortur olli því að ég varð að arka af stað undir hádegi í gær í Holtagarða, handan götunnar. Ég vissi að Bónus auglýsti að sjóeldislax væri ekki seldur hjá þeim ... og hafði næstum keypt ferskan lax þegar mig vantaði reyktan. Það var í raun bara silungur sem ég sá, fékk aðstoð frá konu af Seltjarnarnesi sem er svo hrifin af búðinni í Holtagörðum að hún kýs að versla þar. Úrvalið, starfsfólkið, aðgengið, bara allt, sagði hún um leið og hún bjargaði mér frá ferska laxinum sem var sannarlega úr landeldi, skv. merkingum. Á neðri hillunni var reyktan lax að finna en með því að lesa einnig smáa letrið kom í ljós að hann hafði verið pyntaður í sjóeldi einhverra Norðmanna sem höfðu verið gerðir brottrækir úr eigin fjörðum og fengu auðvitað aðgengi að íslenskum fjörðum. Ég er sammála þessari konu af Seltjarnarnesi, Bónusbúðin í Holtagörðum er alveg frábær og starfsfólkið verulega gott.

 

Mynd: Og jú, ég keypti líka ferskt dill (hvað á ég að gera við afganginn?). Gestirnir elskuðu laxabrauðið!

 

Svo átti ég stefnumót í Bakarameistaranum ... hitti þar mann sem vinnur í Holtagörðum og við höfum ætlað að hittast lengi. Það kom án efa glampi í augu Ingu þegar ég sagði henni frá fyrirhuguðu stefnumóti, símleiðis sem sagt. „Nei, ekki gera þér neinar hugmyndir,“ sagði ég, „hann er rúmlega 20 árum yngri en ég.“ Áður en Inga gæti réttlætt það með hegðun Madonnu í ástamálum (hún er 66 ára, kærastinn 28 ára) mundi ég sem betur fer eftir því að sá sem ég var að fara að hitta væri samkynhneigður, svo rómantískar væntingar Ingu fyrir mína hönd urðu að engu. Ég gleymdi samt ekki að segja henni frá nýjustu viðreynslunni ... samþykkti "vin" á fb því hann átti svo marga sameiginlega vini með mér, fólk sem ég treysti til að samþykkja ekki hvern sem er. Skömmu eftir samþykki mitt hóf hann spjall og ég varð ógurlega þreytt um leið, hef ekki gaman af slíku, hvað þá við ókunnuga. Eftir fyrstu kveðjur, sagði hann: Ég nenni ekki að pikka í símann minn, ertu ekki bara til í að hringja í mig? Dæs, nei ... Daginn eftir benti ég honum á að fúsa spjallfélaga væri auðveldara að finna á stefnumótaforritum en á feisbúkk. Strákar mínir, þetta er ekki leiðin að hjarta mínu. Heldur ekki að senda mér rósir og konfekt. Ég hef dregið mjög úr sykuráti og kettirnir njóta þess að éta blóm, velta um vösum ... svo ég hef orðið að afþakka allt blómakyns um langa hríð. Veit svei mér ekki hvaða aðferð er best, en bara alls ekki spjall á fb. 

 

Með 30 ára reynsluÉg hef lokið strangri og bráðskemmtilegri þjálfun minni í vinnunni (fékk laun á meðan) og hef það sjúklega gott núna - lifi letilífi nánast alla daga því ég kenni bara þrjá seinniparta frá kl. 17) í viku. Algjört frí mánudaga og fimmtudaga ...

 

 

Þolir vinnualkinn þetta? Nei, strax í byrjun fór að bera á svínslegu líferni, lengri svefni, almennri leti (það er helst til of fljótlegt að taka til hérna) ... nema ég hef nánast undantekningalaust gengið upp stigana þegar ég kem heim. Húrra!

Ég fór að HUGSA ... bara hugsaði það, kannski ætti ég að leita mér að vinnu á morgnana, eða kl. 10-14, jafnvel 9-16, eitthvað slíkt. Það eina sem ég gerði var svo sem að hlaða niður forritinu Alfreð í símann minn og hef rúllað aðeins í gegnum laus störf þar. Sennilega nægði það til að allt færi af stað ... nú sé ég nánast engar auglýsingar á samfélagsmiðlum nema þær sem tengjast lausum störfum. Margt spennandi í boði.

 

 

Langar mig að verða dagskrárstjóri (sjónvarps) hjá RÚV? Já, já, frábær vinnustaður (vann þar 1986), en ég hef ekki reynslu eða menntun í það, takk samt. Horfi líka of lítið á sjónvarp til að teljast hæf. Svo fór ég að sjá aftur og aftur auglýsingu frá Útfararstofu kirkjugarðanna, skrifstofustarf sem ég gæti svo sannarlega hugsað mér að gegna ... en ég held að umhverfið yrði mér um megn, allt sorgmædda fólkið sem ég myndi hreinlega skæla með í stað þess að vinna starf mitt ... Eimskip auglýsir eftir fólki um allt land í ýmis störf, ég horfi núna yfir athafnasvæði fyrirtækisins, gæti orðið njósnari þess, heiman frá mér, og fylgst með hvort kranastjórar sýni glannaskap ... hvort gámum sé ekki örugglega raðað í litaröð og í stafrófsröð innan hvers litar, á trukkana. Svo vantar hópstjóra í hraðþjónustu hjá Toyota en ég er á strætó, yrði samt mögulega gjaldgeng því rosalega margir í kringum mig eiga Toyotu. Svo vantar traustan sérfræðing í stjórnstöð hjá RARIK  ... en mig skortir því miður þekkingu á rekstri dreifikerfa ... Margt annað sem ég get nú samt. 

 

ChuckÞetta hefur breyst, störf hafa nánast komið upp í hendurnar á mér á síðustu árum en ekki núna. Ég er ekki bara skapgóð og þolinmóð, heldur kann ég langflest póstnúmer landsins utanbókar, er talnaglögg, komin úr barneign og tek svo mikið af vítamínum að mér verður varla misdægurt, veit ýmislegt sem aðrir pæla ekkert í, eins og að barbídúkkan varð til árið 1959, Þengill illi af Ísfólkinu á afmæli 1. desember, eins og pabbi (1930) og fullveldi Íslands (1918). Ég kann að segja takk á t.d. úkraínsku, spænsku og arabísku, er að leggja á minnið takk á víetnömsku og grísku ... við sem erum ættuð úr Þingeyjarsýslu myndum með sanni segja að ég talaði fjöldamörg tungumál ...

 

Af Facebook

 

Chuck Norris getur séð hvort mjólk er útrunnin með því einu að horfa á kúna.

 

Chuck Norris getur hlustað á hlaðvörp í örbylgjuofninum sínum.

 

Jólasveinninn var til í alvörunni þar til hann gleymdi að gefa Chuck Norris í skóinn.       


Berdreymi, auðvelt skopp og litlu, rauðu kassarnir

Berdreymi ...Mögulega er ég fórnarlamb dáleiðslu, hugskeyta eða innrætingar af versta tagi því mér er farið að finnast gaman að skokka (ganga) upp á sjöttu hæð (með smástoppi á fjórðu til að ná andanum, ég reykti allt of lengi). Í gær þegar ég kom upp á mína hæð horfði ég hissa á tölustafinn sem mætti mér, ha, er ég virkilega komin alla leið og ekkert mál? Eftir að ég losnaði við hætti-að-reykja-kílóin (flest, held ég) varð bara hvert einasta skopp svo miklu auðveldara.

Það er greinilega ansi auðvelt að þyngjast þar til maður hættir að standa almennilega undir sér og allt verður erfiðara.

Það eru bráðum fimm ár síðan ég hætti að reykja (apríl 2020) og ég hélt að letin við að hreyfa mig tengdist bara aldrinum. Hnuss, en sú vitleysa, ég var bara orðin of þung. Svo hleð ég í mig vítamínum sem eykur svo sannarlega nennu mína til að hreyfa mig.

 

 

Vona innilega að það snjói ekki meira í bráð því hálkan er versti óvinur þeirra bíllausu. Ekkert skrítið að ég sé nánast heiðursfélagi í fb-hópnum Fólk sem labbar hallærislega í hálku. Það munaði minnstu í gær að ég gengi heim úr da Skeif, en var með innkaupapoka, ekki svo þungan samt ... nota tækifærið áður en geitungarnir fara á stjá og stinga fyrst, spyrja svo ... en þá gæti ég verið orðin svo spræk að ég gæti hlaupið þá af mér. Ég gerði það alltaf í London um árið þegar ég var au pair.

Fyrst Júlí Heiðar, söngvari með meiru, óttast geitunga, skammast ég mín ekkert fyrir það. En ég er ekki lengur jafnrosalega smeyk og ég var á síðustu öld, það var raunverulegur ótti sem þá hrjáði mig. VIð erum víst eina landið í heiminum þar sem moskítóflugur lifa ekki - en lúsmýið er nú ágæt sárabót, er það ekki? Fram til ársins 1985 gátu Íslendingar státað sig af býflugna- og geitungalausu landi. Ég tel ekki randaflugurnar með ... Þá voru næstum tíu ár síðan ég kom frá London, aldeilis búin að monta mig af stinguflugnaskorti okkar hér ... en sama fólk og ég talaði við hélt reyndar sumt að við hefðum ísbirni sem gæludýr. Hvernig datt mér í hug að flytja í Laugardalinn? Reyndar alveg í útjaðar hans en ég þarf að ganga nánast í gegnum hann á leið til vinnu. Grímuskylda myndi auðvelda allt, held ég, og einhvers konar net sem þægilegt væri að sveipa um sig áður en haldið er út í gönguferð á vorin og haustin. Það gæti orðið skemmtileg tíska, alls konar litrík net, jafnvel með blikkljósum þegar fer að dimma í ágúst ... alla vega yfir höfuðið.

 

Myndin er skjáskot af Facebook-minningu sem sannar að ég er nálægt því að vera berdreymin (og þá móttækileg fyrir hugskeytum, innrætingum og dáleiðslu) ... skrambi nálægt því. En ég skrökvaði því svo sem að mér skjátlaðist aldrei þegar kæmi að því að ráða drauma. Og þó ... Við vitum auðvitað ekkert hvort George Clooney hefur haft lögheimili sitt hér á landi til lengri eða skemmri tíma.

 

 

Afmæli stráksaNú er víst búið að breyta ... þótt ég vinni til sjötugs fæ ég ekkert hærri lífeyri frá ríkinu sem var alltaf visst agn til að fá fólk til að vinna lengur en til 67 ára. Þetta á þó bara við þau sem byrjuðu fyrr að taka lífeyri frá lífseyrissjóðunum sínum, sem hægt er að gera frá 65 ára aldri. Þá getur fólk minnkað við sig vinnu án þess að finna fyrir því, mjög sniðugt. Þetta hljómar svolítið eins og skerðing, er það ekki? Myndin af fólkinu hér við hliðina er úr afmælisveislu stráksa en tengist þessu umræðuefni ekki beint. Stráksi stendur, hinir sitja. 

 

 

KræstJá, afmælisveislan hans stráksa, Reykjavíkurdeildin, gekk sérdeilis vel og hann var afar ánægður með daginn, flottu kökurnar og verulega gjafmildu gestina. Ég fékk meira að segja pakka, síðbúna innflutningsgjöf; þrjá ilmandi pakka af góðu kaffi ... og frekar stórt páskaegg, haldið ykkur!

 

Hilda bakaði stóra marenstertu fyrir afmælið, Mía kom með litlar pönnsur, Eva frænka með ost og vínber og Dagbjört frænka með venjulegar pönnsur, annað keypti ég hjá Myllunni, verulega gott; m.a. litla kleinuhringi, súkkulaðitertu og túnfiskssalat, allt á fínu verði. Ég steingleymdi að taka alvörumynd af veitingunum, þetta fór bara á snappið og hvarf eftir 24 tíma. Nánast eins og leifarnar ... systir mín er með stórt heimili og ég heimtaði að hún og heimilisfólkið kláraði þetta fyrir mig. Gæsirnar og krummi fengu samt eitthvað smávegis, leifar af diskum og svona. Svo skolaði ég herlegheitin og gaf mér ekki tíma til að vaska allt upp fyrr en á mánudeginum. Svo innilega glöð yfir því að uppvask hleypur aldrei frá manni. Og nei, ég er ekki með uppþvottavél. Og já, ég hef bara gaman að því að vaska upp, hlusta á eitthvað skemmtilegt á meðan.

 

 

Þvílík hamingja og gleði hjá okkur stráksa báðum. Svo fékk hamingjusamur drengurinn far með Ingu heim á Akranes og með í farteskinu (afmælisgjafir) næstum heila súkkulaðitertu með karamellukremi sem hann gat leyft sambýlingum sínum að njóta með sér í kvöldkaffinu eða daginn eftir, sem sunnudagskaffi. Grunar að það hafi fallið vel í kramið. Það komust ekki allir í afmælið, ég var svolítið sein að bjóða sumum og gleymdi öðrum ... það hafa verið miklar annir sko. 

 

Auðvitað notaði viss systir mín tækifærið og kom fyrir mörgum, mörgum rúsínupökkum ... t.d. í glerkrukku með eyrnapinnunum, og bak við sturtusápu inni í sturtuklefa og ofan í tannburstaglasinu. Mér skilst að hún hafi verið ansi dugleg við kvikindisskapinn í afmælinu en ég ekki búin að finna nema þrjá pakka, alla inni á baði. Hef leitað víða í stofunni en hvergi séð grilla í litla, rauða kassa. Þarf að fara að játa mig sigraða, held ég. Borða gæsir rúsínur? En hrafnar? Ég er svo þakklát henni fyrir hjálpina við afmælið að mig langar bara að láta hana sigra. Svo gætu þessi skrif mín verið lúmsk blekking mín til að hún hætti að vera á verði. Kemur allt í ljós.


Björgun á Hlemmi

Fyrir og eftirHöfuðborgin hefur upp á margt að bjóða, eins og Akranes svo sem, og eftir flutningana hingað hef ég verið að leita að margvíslegri þjónustu sem er ögn flóknara að finna en ég hélt. Nuddið er komið inn í líf mitt aftur ... jesssss, svo eignaðist ég dásamlegan klippara (elsku Hassan) sem kemur þó alla leið frá Akranesi til að klippa ykkar háæruverðuga og er afar vandvirkur og góður. Í stað þess að hringja í hann gerðist eitthvað á mánudaginn, það small eitthvað í höfðinu á mér og ég gafst upp á hárlubbanum. Vildi klippingu strax, í hvelli, á stundinni! Ætlaði að bíða þar til eftir Ramadan en fannst öskrin í mér fyrir framan spegilinn um morguninn eiginlega óbærileg, ekki síst fyrir nágrannana.

Undir hádegi stökk ég upp í strætóinn minn og hringdi bjöllunni þegar Herdís sagði í hátalaranum: „Næsta stopp er gamla Rúgbrauðsgerðin!“ Þaðan fetaði ég mig sífellt nær Hlemmi þar til ég fann hárstofu (Hárhornið) sem býður upp á að mæta án þess að panta tíma og fá klippingu. Syfjulegur hundur tók á móti mér, dillaði skottinu og leyfði mér að klappa sér. Síðan heilsaði ég upp á starfsmann sem skömmu síðar bjó sig undir að klippa mig. „Þynna og stytta,“ sagði ég þreytulega eftir allt argið heima, þakklát fyrir að starfsfólkið öskraði ekki af hryllingi, eins og allir í strætó á leiðinni. Ég var reyndar með heyrnartól í eyrunum, að hlusta á sögu en heyrði einhvern hávaða samt.

Ég fékk fína klippingu og ekkert nema klippingu (ekkert hárlakk, engin hárþurrkun) og borgaði ekki nema rétt rúmlega 6.000 kall fyrir. Aldeilis gott verð í þessari dýrtíð.

Ekki var hægt að sleppa því að heimsækja Hlemm mathöll (í fyrsta sinn). Ég fékk mér pastarétt sem var ekki "betri" en svo að ég leifði honum næstum öllum. Ég var þreytt við heimkomu, lagði mig í smástund, vaknaði svo til að hátta mig og næsta morgun um áttaleytið var ég sprellfjörug, ekki skrítið eftir sautján klukkutíma svefn. Hmmm. Kettirnir alsælir yfir því að ég væri farin að nálgast þá svona rosalega þegar kemur að svefnþörf. Ég tjáði þeim að ég hefði sennilega verið eitthvað lasin og náð að sofa það úr mér. Þeir fnæstu bara. Mun prófa mathöllina aftur, ekki spurning, en þá fullfrísk. 

 

Fyrir-myndin hér fyrir ofan var tekin fyrir skömmu en sýnir alls ekki allan hryllinginn sem ríkti í hármálum heimilisins en samt ögn af því sem vesalings baðspegillinn mátti þola. Á þeirri seinni, eftir-myndinni, finnst mér ég líta ótrúlega virðulega út í sólinni á stoppistöðinni í gær. Veit ekki alveg hvað henni Önnu Júlíu (Classic hárstofa, Akranesi) finnst um það.

 

Mínir mennSvo þarf að finna snyrtistofu! Keypti mér brúnan augabrúnalit og maskara í Hagkaup um daginn og öðlaðist hálfgert andlit við notkun á því dæmi en Anna Júlía sá alltaf um þau mál um leið og hún litaði á mér hárið. Nuddarinn sagði mér frá snyrtistofu í bláu húsunum við Skeifuna og svo er víst önnur í Glæsibæ líka. Þessir staðir þurfa að vera í göngufæri við vinnuna (í Skeifunni) eða vel staðsettir þegar kemur að strætó.

 

Afmælisbarnið (stráksi) er komið til höfuðborgarinnar og nýtur lífsins með Hildu frænku þegar þetta er skrifað. Vitað var af þeim á kaffihúsi í Hamraborg í Kópavogi, ef marka má skýrslur sérsveitar sem berast mér reglulega eftir að ég lét vita af rúsínustyrjöldinni rosalegu. Jú, jú, eftir síðustu heimsókn mína í Kópavoginn fór ég vandlega í gegnum veskið mitt eftir að heim var komið og fann einn pakka sem hafði verið ansi vel falinn. Lymskan og grimmdin sem endurspeglaðist þarna varð til þess að sérsveitin tók málið að sér. Ég fæ sérstaka vernd á meðan Reykjavíkur-afmælisveislan stendur yfir á morgun og síðan verður gerð markviss leit að rúsínupökkum því andstæðingur minn neytir allra bragða til að finna ótrúlegustu og kvikindislegustu felustaðina. Ekki að furða þótt ég þurfi stundum sautján tíma svefn samfleytt ...


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 571
  • Frá upphafi: 1524202

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 482
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Með Krumma
  • Fyrir og eftir
  • Uppistand

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband