Færsluflokkur: Bloggar
17.1.2025 | 21:16
Hvetjandi strætó og mögulegir galdrar
Þriðji í vinkonuhittingi í gær, Hagkaupsferð fyrst til að kaupa inn fyrir helgina ... Eldum rétt-kassarnir voru við það að renna út svo ég keypti bara eitthvað tilbúið, vonandi bragðgott og ekki of mikið unnið. Svo ákvað ég við heimkomu, þar sem ég var komin í helgarfrí, að undirbúa helgarþrifin aðeins með því að vaska upp og vera búin með eldhúsið, en lenti óvænt í verulega blóðugu slysi þar sem einn fíni matardiskurinn úr antíkskúrnum á Akranesi brotnaði í loftinu, fannst mér því ég skarst við að reyna að bjarga honum. Vinstri höndin skarst á nokkrum stöðum, aðallega fingurnir. Vá, hvað blæðir mikið úr fingrum ... og svo held ég að fólkið á hæðinni fyrir neðan hafi orðið óttaslegið vegna ógnvekjandi brothljóðs og kvenmannsgargs. Þótt mér hafi fundist blóðið flæða fór ekki einn dropi niður á gólf, alveg ótrúlegt, svo ekkert lak á milli hæða ... Verkefni beið mín í tölvunni en ég var svo slegin að ég skreið undir sæng, þrælplástruð og illilega skekin, og ... sofnaði. Náði að skila af mér verkefninu í dag, enda ferskari og glaðari eftir laaaangan (en truflaðan) nætursvefn. Mér finnst dagsljósalampinn hafa áhrif til góðs, og hef verið dugleg síðustu daga að baða mig í ljósi hans. Hress og kát í dag þrátt fyrir að gemsinn hafi hringt og vakið mig tvisvar í nótt. Heyrði í ungum vini í síma í gær og ég hef hann grunaðan um að hafa óvart lagst á símann sinn í nótt og hringt óafvitandi í mig - tvisvar. Honum fannst það ógurlega fyndið þegar ég hringdi í hann í dag og sagði honum frá þessu. Eins gott að þú hringdir ekki óvart í lögguna, sagði ég. Löggan hefði orðið að koma og tékka á þér, hugsa ég, og þér hefði ekki þótt gaman að vakna við það. Viðmælanda mínum þótti það mjög ólíklegt þar sem hann hafði aldrei hringt í lögguna á ævinni svo það myndi varla gerast óvart um miðja nótt, sem er auðvitað rétt hjá honum. Þetta ónæði kveikti í köttunum sem framleiddu alls konar hljóð sem héldu enn lengur fyrir mér vöku en þá var gott að hafa hljóðbók til að setja á í korter.
Myndin sýnir eitt sárið (á vísifingri vinstri handar) Það hefur gróið grunsamlega hratt síðan í gærkvöldi, en mér varð flökurt og svimaði af spenningi þegar ég áttaði mig á því að þetta var sennilega ekki slys eða óhapp og alls engin tilviljun. Nú er allt komið í samhengi ... hlaupahjólsslysið sem ég lenti í átta ára gömul beint fyrir framan Sjúkrahús Akraness og var flutt beinustu leið á saumastofu Braga læknis. Hef borið lítið og nánast ósýnilegt ör á enninu síðan. Það þurfti síðan þessa áminningu áratugum síðar, eða blóðugt fingurslys þar sem ég tók eftir lögun ört gróandi eldingar-sársins áður en það verður að ólögulegri línu. Mjög spennandi tímar fram undan.
Er að hlusta á bókina Draumar úr snjó og er orðin spennt. Var það þó ekki í upphafi og þurfti að komast inn í nokkuð drungalega stemninguna (mannlegir brestir, óhamingja, óheppni) og haldast þar, ekki flýja á vit yfirborðsmennskunar (sem ég sæki svolítið í, hrifin af góðum endi og ekki of miklum átökum eða eymd) en ég er lítið fyrir t.d. sannsögulegar bíómyndir, þær eru oft svo sorglegar og enda illa (eins og Titanic) og það er eiginlega líka þannig með sumar bækur. Veit að margt fólk vill bara grjótharðan sannleikann án vonar um að eitthvað breytist til batnaðar hjá söguhetjunum ... þannig sé lífið.
Ég harkaði af mér eymdina í byrjun og get ekki hætt að lesa þessa bók, vil vita hver morðinginn er, svo venst stemningin alveg og hefur breyst eftir því sem fleiri eru kynntir til sögunnar. Aumingja prestsfrúin samt. Var líka búin að gleyma því hversu hroðalega tengdamömmu (að það er fyndið) Maria lögreglukona á, þetta er ekki fyrsta bókin um hana og ég hrifin af þeim fyrri. Hef sennilega verið að hlusta á of glaðlegar bækur upp á síðkastið og því átt erfitt með þessa í fyrstu. Hún er fín.
Andlitsblinda hrjáir mig ekki en stundum mætti halda það. Í fyrradag talaði samstarfskona mín um að ungur sonur hennar þráði að lesa vissa fullorðinsbók sem er ofbeldisfull og alla vega ein ansi grafísk kynlífslýsing sem hentar ekki innan við tíu ára gömlum dreng ... Í gær mætti ég til vinnu með þrjár unglingabækur sem er skárra en hardkor fullorðins. Hryllingsbók um Drakúla, þykka fantasíuævintýrabók og fínustu bók eftir Hildi Knútsdóttur snilling. Konan sat á kaffistofunni þegar ég kom og ég rétti henni bækurnar og hrósaði þeim hástöfum, sagði eins og var að ég hefði ekki náð að grisja nógu mikið bækur og fleira, áður en ég flutti í bæinn. Í kaffihléinu komst ég að því að ég hafði ruglað saman tveimur samstarfskonum ... því allt önnur kona sveif á mig glöð og spurði mig hvort ég hefði verið að koma með bækur handa stráknum hennar ... Þá áttaði ég mig á ruglingnum og bað þá fyrri afsökunar. Þetta var bara fyndið og hefur svo sem hent mig áður en sennilega á meira móðgandi hátt þarna undir aldamót ... þegar ég fékk ungan tónlistarmann í útvarpsviðtal til mín á Aðalstöðina, hann ætlaði að spila og syngja á Gauknum um kvöldið og þótti fínt að fá þessa fínu auglýsingu (þátturinn var eftir hádegi á laugardögum). Svo fór að ég mætti á Gaukinn um kvöldið þótt það hafi ekki endilega verið á planinu þarna fyrr um daginn. Hitti ungan mann í anddyrinu þegar ég mætti og hann heilsaði mér glaðlega. Ég brosti á móti en spurði: Fyrirgefðu, hvernig þekkjumst við aftur? Eitthvað slíkt. Hann starði á mig í smástund og sagði svo: Ég var í útvarpsviðtali hjá þér í dag.
Svo innilega leiðinlegt að vera svona ómannglögg. Mér var fyrirgefið þetta í vinnunni, þótti ekki einu sinni tiltökumál. Það tekur mig alltaf smátíma að læra öll nöfn á vinnufélögum en endurtekningin skapar meistarann. Tek fram að konurnar sem ég ruglaði saman eru ekkert líkar í útliti, en þær eru báðar mjög ljúfar - slíkt getur ruglað mann.
Það gengur ljómandi vel að komast á milli hverfa í Reykjavík, tólfan í Höfðatorg (ég þarf að vísu að fara yfir Sæbraut til að ná tólfunni, en það eru gangbrautarljós) og fimman frá Höfðatorgi á stoppistöðina Heimar - en ég er svo utan við mig að ég óttast stundum að taka óvart tólfuna aftur hinum megin við götuna í staðinn fyrir fimmuna á leið til vinnu. Að vera utan við sig er víst gríðarlega mikið gáfumerki ... ég hugga mig við það.
Það er enginn strætó sem gengur beint héðan af Kleppsvegi og í Skeifuna en þegar hálkutímabilinu lýkur er alveg séns að ganga upp Holtaveginn og ná leið 14 á Langholtsveginum. Ferðin tekur 26 mín. ... þar af þarf ég að ganga í 25 mín. Fyrst geng ég í 19 mín upp á Langholtsveg, síðan er strætóferð í 1 mín. og þá önnur gönguferð í 6 mín.
Eftir að B1-vítamínið hefur unnið hásinarverkjabata-verk sitt svona vel og hælupphækkunin líka, finnst mér ekkert að því að tölta þetta í sæmilegu veðri en þó síður þegar versta geitungaplágan stendur yfir (apríl/maí og út sept?) og er sennilega nánast hálfnuð í vinnuna þegar ég er komin upp á Langholtsveg en gæti þá allt eins farið alla leið gangandi, eða bara niður Álfheimana. Talandi um hvetjandi strætó ...
Athugið: Er ekki orðin andsetin eða umskiptingur, en þið megið endilega gera eitthvað í því ef ég fer að tala um að skreppa í sund. Á næsta ári verða 40 ár síðan ég fór í Laugardalslaugina en þrengsli, kvenmergð og smellir í rössum að slást saman í sturtuklefanum gerði mig endanlega fráhverfa þeirri líkamsrækt, eins og ég hef áður sagt frá. Skil alveg amerísku kerlingarnar sem fussa yfir þessari miklu nánd þegar þær neyðast til að deila baðförum sínum með ókunnugum konum á Íslandi. Takk kærlega, Sól og sæla, eða kannski ekki, fyrir að venja mig á einkasturtuklefa og -búningsaðstöðu eftir ljósatímana veturinn 1985-1986, það er engin leið til baka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2025 | 23:10
Smiðsraunir, lampagleði og kaffiástir
Vinkonuhittingar eru frekar tíðir eftir að ég flutti í bæinn ... núna tvo daga í röð var ég sótt í vinnuna af vinkonum. Í gær fórum við tvær í kaffi hingað heim en í dag skelltum við okkur, hinar tvær, í Te og kaffi í Borgartúni. Dásamlegur staður í Borgartúninu og verulega nærandi samverustundir þar sem umræðuefnin dekkuðu nánast allt á milli himins og jarðar.
Te og kaffi er í miklu uppáhaldi, ekki bara af því að þar er gott kaffi og meðlæti, heldur er opnunartíminn hagstæður þeim sem vilja hittast yfir kaffibolla eftir vinnu. Ansi mörg kaffihús loka klukkan fjögur og vilja meina að of fáir mæti eftir þann tíma, of dýrt að halda starfsfólki á yfirvinnukaupi fyrir kannski fáa gesti. Við vinkonurnar sátum reyndar til rúmlega fimm í dag og staðurinn sem er ekki lítill, var fullur af kaffielskandi fólki.
Eflaust er þessi snemmlokun covid-árunum um að kenna að einhverju leyti - en það gleður kaffihjarta mitt mikið að einhverjir góðir staðir séu opnir lengur ... sem minnir mig á að elsku Súfistinn í Hafnarfirði skellir endanlega í lás núna bara á morgun eða hinn. Fínustu kaffiminningar þaðan. Tók alla vega tvö viðtöl þar fyrir Vikuna áður fyrr, góður friður á efri hæðinni til að spjalla og kaffið auðvitað ferlega gott ... og terturnar, maður minn!
Hirðsmiður Skýjahallarinnar mætti stundvíslega klukkan 9.34 í gærmorgun - eftir að hafa gert íbúa á rangri hæð rúmrusk. Sá harðneitaði því að einhver Gurrí byggi þar. Verkefnin urðu fimm en ekki fjögur og eitt sérlega tímafrekt svo ég varð að skilja smiðinn eftir og hlaupa út í strætó til að komast í vinnuna á réttum tíma. Stundvísi er minn helsti galli ... ég er manneskjan sem mætti í partíin klukkan níu ef partíið átti að byrja þá. Restin af fólkinu mættti svo um tíuleytið í fyrsta lagi. Sýnist nýi vinnuveitandinn ekkert fúll þótt ég mæti hálftíma of snemma, það stendur þannig á strætó og ekkert mál að setjast niður yfir kaffibolla og spjalla. Ég vinn sem leiðbeinandi í íslenskuskóla fyrir útlendinga sem er ótrúlega skemmtilegt og alveg frábær skóli.
Tímafreka verkefni smiðsins: Það reyndist vera að setja hærri fætur undir sófann minn úr Dorma. Fæturnir fengust í Jysk (takk, elsku Ellen frænka, fyrir að finna þá fyrir mig, ég var svo viss um að það fengjust ekki aukafætur á sófa ...). Sófinn hækkaði um þrjá eða fjóra sentimetra ... en það kostaði líka tár, bros og takkaskó, eins og við segjum það upp á íslensku. Þegar við snerum sófanum við, til að koma honum á lappirnar nýju, var ég svo mikill eymingi að ná ekki að lyfta honum nóg, svo hægri afturfóturinn hreinlega brotnaði. Smiðurinn ákvað að skjótast í Jysk í Skeifunni og kaupa nýja - en þurfti að bíða í 20 mínútur fyrir utan, ekki opnað fyrr en klukkan 11! Hver hefði trúað því? Svo kom hann til baka, skrúfaði splunkunýkeypta fótinn (í öðrum lit en hinir) undir á meðan ég blikkaði elsku litháísku grannkonuna til að hjálpa okkur við að lyfta. Hún lyfti sófanum ein með smiðnum, sagði mér bara að slaka á, enda sterk kona, og nú er sófinn kominn í rétta hæð fyrir mig. Hnén eru ekki lengur uppi í höku á mér þegar ég sit þar, heldur er allt beint og fínt og ég svíf á fætur þegar ég þarf að standa upp. Munar öllu að fá þessa litlu hækkun ...
Mynd: Þarna sjást smiðurinn og eftirlitskötturinn hugumstjóri (Mosi) að koma nýjum fæti undir sófann svo hann verði nothæfur. Kannski fer ég að nenna að horfa á sjónvarpið núna. Ótrúlega margar þáttaraðir sem ég hef ekki séð ... m.a. Vigdís, Verbúðin, Game of Thrones ... ég veit, ég er hryllileg. Ein af fáum sem sá ekki sýningarnar Níu líf (Bubba) og Elly. Vona að þær hafi verið teknar upp og verði sýndar í sjónvarpi um páska eða jól.
Hann var um þrjár mínútur að koma fatahenginu upp. Þriðja tilraunin og sú sem heppnaðist. Ég sagði honum að ég skildi ekkert í þessu, að t.d. þroskaþjálfinn sem hefði reynt fyrst ætti nú samt að hafa gott lag á þrjóskum vegg með þessa menntun ... en hann hafi vissulega verið með afleita borvél. Harði veggurinn vafðist þó ekkert fyrir smiðnum og borvélinni hans (mini-loftpressa?).
Smiðurinn vildi meina að textinn í Stuðmannalaginu: Hvað er svona merkilegt við það ... að bora í vegg? væri ein allra mesta fölsun tónlistarsögunnar ever, því það væri heilmikið mál að bora í vegg og gera það vel. Það vissu smiðir. Ég trúi honum algjörlega og hef misst allt álit á Grýlunum sem sungu lagið ... nema auðvitað elsku Herdísi minni, fyrrum kórfélaga með meiru, sem ég hlusta daglega á í strætó. Næsta stopp er Höfðatorg ... osfrv.
Fatahengið (frá Jysk) er ljómandi fínt og ég sagði smiðnum að ég myndi eflaust bara hengja mína yfirhöfn þar og kannski tvo, þrjá trefla, bjóða frekar gestum að hengja af þeim inn í skáp því þetta væri ekki svo sterklegt. Þetta fatahengi þolir sko alveg 200 kíló, sagði hann hneykslaður ... svo ég er hætt við að vera með fjöldatakmarkanir í næsta afmæli.
Ég þarf samt að kaupa spartl og fylla upp í göt fyrri tilrauna (lélegra borvéla) og sækja málningu niður í geymslu og gera vegginn fínan, alla vega fyrir næstu jól. Svo er ég komin með vissa vatnslitamynd á betri stað, hún var ekki í flútti við aðrar myndir ... og það er líka komin rúllugardína í herbergið mitt. Nú ætti ég að geta sofið vel í komandi miðnætursól. Fimmta verkefnið var að laga læsinguna á hurðinni fram á gang, hann var losaralegur og ég alltaf hrædd um að ég myndi standa með hurðarhúninn í höndunum þegar ég væri að loka og drífa mig í vinnuna.
Mynd af fatahengi: Lengst til vinstri sést langi trefillinn sem ég heklaði um árið úr plötulopa. Hann er það hlýjasta og dásamlegasta sem til er og í raun er ég steinhætt við að hekla mér eiginmann.
Vinkonan sem rændi mér í dag í Skeifunni og flutti mig sérlega viljuga á kaffihús kom í leiðinni með ljómandi flottan appelsínugulan lampa handa mér - sem passar vel í eldhúsið (og bara hvar sem er). Það vantaði meiri birtu þar, hún vissi af löngun minni í lampa þangað, ég er birtusjúk, ekki síst eftir búsetuna í bjarta himnaríki, en hef svo sem alltaf verið það, alin upp á heimili þar sem þótti eðlilegt að væri sem oftast og mest dregið fyrir svo enginn sæi inn (arg) ... mér fannst þetta lokun á lífið og nöldraði endalaust yfir því (og geri enn sums staðar). Þá voru í tísku þykkar og miklar gardínur ... og frekar þykkir stórisar undir. Hér í Skýjahöllinni eru gardínur bara til skrauts, hanga til hliðar á stóra glugganum í stofunni, hvítar og nánast gegnsæar en samt gott að hafa þær og draga tímabundið fyrir ef sólin er með dólg. Ef ég þarf að striplast (mjög sjaldan, ég er dama) slekk ég bara ljósin. Væri samt spennandi að fá sérsveitina aftur í heimsókn.
Mynd: Appelsínuguli lampinn virkar svolítið skakkur á myndinni, afsakið, er búin að laga það, hann stóð ofan á snúrunni.
Kathleen Dehmlow - minningargrein (lauslega þýdd)
Kathleen Dehmlow (Schunk) fæddist 19. mars 1938. Foreldrar hennar voru Josep og Gertrude Schunk frá Wabasso.
Hún giftist Dennis Dehmlow í St. Anne-kirkjunni í Wabasso árið 1957 og eignaðist með honum börnin Ginu og Jay.
Árið 1962 varð hún ófrísk eftir mág sinn, Lyle Dehmlow og flutti til Kanada. Hún yfirgaf börn sín, Ginu og Jay, sem voru alin upp af foreldrum hennar, Gertrude og Joseph Schunk.
Hún lést 31. maí 2018 í Springfield og þarf nú að standa skil á gjörðum sínum fyrir æðri dómstól. Hennar verður ekki saknað af Ginu og Jay sem vita að veröldin er betri staður án hennar.
---
Spilað 850 milljón sinnum á Spotify, segir Facebook um lagið The Sound of Silence með Disturbed. Kemur ekki á óvart:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2025 | 23:36
Gleymdir stórviðburðir og maki með gervigreind ...
Hlustaði heilluð á Rokkland í dag (Rás 2) þar sem ekki eingöngu var spiluð tónlist af fyrstu plötu Led Zeppelin (áhugaverðar upplýsingar um lagið Babe, I´m gonna leave you) sem á 57 ára afmæli í dag, heldur var fjallað um elsku Skálmöld líka, skemmtilegt viðtal við tvo úr hljómsveitinni, og svo fengu þeir að velja eitt lag þarna í restina ... ég hrópaði: Veljið Hel, veljið Hel, Hel ... og þeir námu hjartans ósk mína, gítarleikarinn guðdómlegi og trommarinn magnaði, fjarhrif eru svo vanmetin. Alveg sama þótt þátturinn hafi verið tekinn upp fyrirfram, tímaflakk hefur verið viðurkennt um langa hríð, t.d. í Hollywood.
Stína Ágústsdóttir sem ég vissi ekkert um áður, frábær tónlistarkona, var virkilega áhugaverð, ég hlakka til að hlusta á músíkina hennar. Hef alltaf verið hrifin af þessum þáttum Óla Palla og gekk meira að segja svo langt þegar við hittumst í fyrsta sinn (í sjoppunni Þyrli í Hvalfirði sem þá var enn opin) að ég rauk upp um hálsinn á honum af hrifningu (á þáttunum sko), þá vinnandi á annarri útvarpsstöð (Aðalstöðinni líklega). Svona geta nú góðir útvarpsþættir glatt mann ... Myndin er rammstolin og tengist þráðbeint þessum dásamlega þætti sem ég hlustaði á í dag. Þetta var algjör aldrei vekja mig-þáttur.
Fékk bráðskemmtilegt fólk í heimsókn í gær, hafði verið búin að byrgja mig upp fyrir óveðurshelgi (óveðrið var víst bara í nótt) með brauði og alls konar áleggi. Er nefnilega komin með brauðrist. Fór með systur minni í Costco á fimmtudaginn og kom út með forláta ristavél (hehe) sem kostaði sannarlega ekki mikið en er samt óvænt rosalega tæknileg. Telur niður tímann ... það er tímateljari á takkanum þar sem maður stillir hitann, geri aðrir betur. Ég vissi ekki af því fyrr en fyrsta brauðsneiðin var ristuð í gær af einum kaffiboðsgestinum ... þar með er ég sennilega komin í hóp græjusjúklinga ... uppfylli alla vega eitt skilyrðið fyrir inngöngu þangað ...
Ein þeirra sem kom í heimsókn hafði nóg fyrir stafni fyrr þennan dag en fékk slitið sig lausa með því að segja að hún væri að fara í áríðandi kaffiboð. Það er mikill heiður! Eftir á sá ég að gestir hefðu þurft að vera miklu fleiri til að veitingarnar gengju út ... frystirinn minn orðinn fullur og ég ekki svo rosalega mikil brauðkerling, svo ég verð að gefa gæsunum rest.
Að vísu vil ég helst ekki koma nálægt þeim vegna fuglaflensunar, vil ekki bera með mér smit heim því kettir geta líka fengið fuglaflensu og dáið.
Áður en ég flutti inn í Skýjahöllina bað ég hirðsmiðinn minn um að setja öryggiskeðju á alla gluggana (sjá mynd) svo þeir gætu ekki opnast nógu mikið til að köttur kæmist út um þá, annars myndi Mosi fleygja sér út, hann er ekta Íslendingur, hugsar bara: Þetta reddast ... og kettir eiga 9 líf!
Mosi á bara 6 líf eftir - er orðinn 10 ára svo hann á vonandi nokkur góð ár eftir.
Nú um áramótin rifjaði margt fólk upp liðið ár en mig minnti einhvern veginn til að byrja með að árið hefði verið frekar viðburðasnautt hjá mér, eins og yfirleitt.
Svo fóru stórviðburðirnir 2024 að rifjast upp hver af öðrum.
Í apríl: Stráksi flutti frá mér eftir sjö ára búsetu í himnaríki. Það var mikil breyting fyrir okkur bæði. Hann flutti á dásamlegt sambýli þar sem hann unir hag sínum vel í lítilli og fallegri íbúð ... innan seilingar er öll sú aðstoð sem hann þarfnast, ásamt ást og umhyggju. Bæði jólum og áramótum varði hann hjá mér og gerir það eflaust um ókomna tíð, enda einn af fjölskyldunni ... og mesta jólabarn sem ég hef kynnst. Hann hefur komið reglulega í heimsókn hingað og gist.
Himnaríki sett á sölu (gæti hafa verið í apríl).
Júní: Það kom ljómandi fín umfjöllun í DV 22. júní. Gosútsýnisíbúð Gurríar til sölu ... og ansi margir mættu á opið hús í kjölfarið. Enginn þáði lakkrísinn sem ég hafði keypt af ömmu Andreu í Bónushúsinu ... Par sem mætti á opna húsið gerði tilboð ... og hviss bang, himnaríki selt! Ég hafði sjálf leitað mér að íbúð, mest í Kópavogi, en gekk voða illa að finna eitthvað þar sem hæfði efnahag og geitungahræðslu.
Júlí: Aldrei tekið föst lyf við einu eða neinu, ótrúlega heilbrigð (nema fj. bakið) en Inga vinkona gerði allt vitlaust þegar blóðþrýsingurinn í mér var orðinn ósmekklega hár (ég hafði neyðst til að borða allan lakkrísinn frá opna húsinu sjálf). Frábæra heilsugæslan á Akranesi hætti ekki fyrr en þrýstingurinn fór að gefa sig og ég var sett á blóðþrýstingslyf í kjölfarið - sem ég man blessunarlega alltaf eftir að taka (fyrir utan 2 skipti). Þetta voru merkileg tímamót.
Ágúst: Viku eftir afmælið mitt ágerðust veikindi Kela, míns súpergóða kattar og vinar, og honum varð ekki bjargað. Hann var orðinn 14 ára og mikill dásemdarkarakter. Hann hafði á sínum tíma fundist ofan í poka með öðrum kettlingum í gjótu í Heiðmörk í desember 2010. Honum var hjúkrað til lífs og geðheilsu í Kattholti og þangað sóttum við Einar hann í lok ágúst eða byrjun sept. 2011.
Spjall í afmælinu (12. ág.) leiddi til þess að ég útvíkkaði fasteignaleit mína yfir á fleiri póstnúmer. Ásamt Hönnu minni og háæruverðugri móður hennar, fórum við á nokkra staði þann 29. ágúst sl. og urðum spenntastar fyrir Skýjahöllinni sem er í 104 Reykjavík. Vissulega í grónu hverfi, en samt á útjaðri þess, sjúkk. Höllin stendur í rauninni við sömu götu og Harpa tónlistarhús ... eða Sæbrautina þótt ég sé nær Holtagörðum en Hörpu. Það sem okkur þremur sem skoðuðum íbúðina þótti furðulegt í tengslum við Skýjahöllina, var að skjöl frá húsfélaginu sem fasteignasalan lét mig fá, voru dagsett á afmælisdögum okkar þriggja, í maí, júní og ágúst, svo á ein vinkona mín að auki afmæli skoðunardaginn sjálfan.
Meant to be, hefði ég sennilega hugsað væri ég forlagatrúar. Íbúðin var vissulega stærst af þessum sem ég skoðaði og ágætlega falleg, og eftir tilboð og svo gagntilboð sem ég tók var allt innan fjárhagslegra marka og ég myndi ekki fara á hausinn, samt fá prýðilega íbúð, með útsýni og allt, vissulega nokkuð minni en himnaríki en hvað hefur svo sem ein hræða og tveir kettir að gera við 100 fermetra?
September: Endalausar flensur og kvefpestir. Ónæmiskerfið hrundi, sennilega vegna flutningastressins, og ég varð eins og viðkvæmt barn nýbyrjað í leikskóla. Samt þurfti að pakka niður heilli búslóð. Þakklát Ingu minni sem hafði aðstoðað mig í Covid-ástandinu við að grisja þarna 2020 um leið og himnaríki var tekið í gegn. Ég bjó vel að því þarna fjórum árum seinna. Svo fékk ég mikla aðstoð frá Rahaf minni við niðurpökkun - og Ellen og Elvari, og Ingu. Ég fékk Skýjahöllina afhenta 1. okt. en ég vildi láta mála fyrst og gera gluggana katthelda, svo 5. október, laugardagur, var ákveðinn sem dagur flutninga. Svitlana niðri var ótrúlega frábær og kom í veg fyrir fráflæðivanda með því að fara með alls konar dót frá mér í Búkollu eða á haugana. Ég seldi gamla tekkskrifborðið mitt og keypti í staðinn mjög lítið tekkskrifborð sem passar betur í pínkuoggulitla vinnuherbergið.
Október: Daginn fyrir flutningana kom Hilda systir ásamt fríðu föruneyti, Inga líka, og við fluttum "eldhúsið" og annað brothætt á tveimur bílum í bæinn. Gengum frá því inn í skápa og ofan í skúffur, sem munaði ótrúlega miklu. Flutningar í bæinn þann fimmta. Fékk ómetanlega og fjölþjóðlega aðstoð: Ísland, Litháen, Sýrland og Úkraína ...
Nóvember: Tónleikar með Skálmöld í Hörpu!
Þetta var svona það helsta sem gerðist 2024. Ég sakna Skagans og fólksins þar virkilega mikið, enda bjó ég í þessu góða samfélagi í rúm 18 ár, fyrir utan æskuárin auðvitað og nokkur ár þar á milli, en ég er samt líka ansi hreint ánægð hér í 104 Rvík.
Gott hús með góðu fólki, stutt í vini og ættingja, það tekur 9-11 mín. að keyra til mín úr Kópavogi og eitthvað svipað úr Þingholtunum ... talandi um að vera vel staðsett. Svo er ég loksins farin að vinna (í Skeifunni) og fyllti á Klapp-strætókortið mitt (með aðstoð Hildu systur) í kvöld, sé að það munar talsvert miklu í verði að kaupa mánaðarkort en að borga stakt fargjald. Þannig á það auðvitað líka að vera. Mánaðarkortið er á 11.200 kr., ég fer tvær ferðir á dag mán. til fim., sem gera átta ferðir í viku, 32 í mánuði ... sem þýðir að hver ferð er á 350 krónur. Þegar ég borga eina staka ferð, með peningum eða debitkortinu mínu, kostar hún 670 krónur - svo þetta er frábært.
MYND: Flottu glasamotturnar sem ég fékk í jólagjöf. Þær eru svo móðgandi að ég leyfi gestum mínum að velja sér setningu til að þeir móðgi sig frekar sjálfir en ég þá. Anna vinkona valdi sér t.d.: Svart eins og sálin þótt hún hafi notað kaffirjóma út í kaffið sitt! Það er kurteislegasta glasamottan.
Hirðsmiðurinn mætir til mín á þriðjudaginn. Eldsnemma! Það eru fjögur verk sem þarf að vinna:
1) Setja nýjar lappir undir nýja sófann. Það hækkar hann um þá þrjá eða fjóra sentimetra sem þarf til að hnén á mér hætti að ná upp að höku á mér þegar ég sit þar. Þá get ég losnað við bláu púðana úr sófanum, sjá vettvangsmynd. Lágir sófar eru ekki góðir, eiginlega bara hræðilegir ... nema fyrir það fólk sem kvartar aldrei yfir þrengslum í flugvél.
2) Setja upp fatahengið úr Jysk (þriðja tilraun), bora í grjótharðan vegg sem skrúfur hafa fest í ... Smiðurinn ætlar að mæta með spartl til að laga fyrri tilraunir. Staðan 2-0, veggnum í hag. Held að smiðurinn taki loftpressuna með - eftir hroðalegar lýsingar mínar á harðneskju veggjarins.
3. Færa nagla á vegg til að mynd verði á réttum stað.
4. Setja upp rúllugardínur í glugann á herberginu mínu svo ég geti sofið þegar sólin fer að skína nánast um miðjar nætur.
- - - - - - - - - - - -
Ástamálin hafa svo sem ekki verið mér sérlega hugleikin síðustu dagana ... mánuðina ... jafnvel heilu misserin. Veit að ef foreldrar mínir væru enn á lífi myndu þau hafa gríðarlegar áhyggjur af þessu kattakerlingar- og kaffiþambslíferni mínu.
Heimurinn hefur breyst mikið og til er fólk sem hefur gifst sjálfu sér! Það kæmi aldrei til greina hjá mér, þótt ég elski og dái sjálfa mig langar mig frekar í maka sem getur eldað almennilegan mat (án Eldum rétt-hjálpar), kann að keyra bíl og á bíl ... eitthvað slíkt sem ég uppfylli því miður ekki sjálf.
Upp á síðkastið hef ég gælt við þá hugmynd að hekla mér karl úr plötulopa (yrði hlýlegri). Ég kann hvorki að prjóna né sauma og er alls ekki nein föndurkona svo hekl verður það að vera.
Svo gæti ég einhvern veginn, með hjálp Davíðs frænda, tengt manninn gervigreindinni og látið hann t.d. segja mér góðan pabbabrandara daglega, kennt mér spænsku (mig langar að læra spænsku) og hvatt mig til ýmissa dáða, eins og gönguferða eða skopps í stiganum frammi til að fá lögbundna hreyfingu. Jafnvel upplýst mig um spennandi hluti sem hann finnur í leyndum kimum alnetsins svo ég geti slegið um mig á kaffistofunni í hádeginu eða skorti aldrei umræðuefni í áríðandi kaffiboðum.
Þetta er auðvitað alls ekki ákveðið, ég hef verið í hekl-ládeyðu um nokkra hríð og þarf að klára eitt stykki barnateppi sem ég skulda áður en ég fer að hugsa um einhvern hekl-maka. Leyfi ykkur að fylgjast með.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.1.2025 | 22:23
Loksins strætó, Skeifan og nýtt rúsínustríð ...
Gærdagurinn fór meðal annars í að læra á strætó. Þá var þriðji dagur í nýju vinnunni en ég rúntaði um á leigubíl í öryggisleysi mínu fyrstu tvo dagana. Ekki bæði nýtt starf OG læra á strætó í einu! Það vildi svo ótrúlega til að skrefafjöldi minn jókst úr um það bil 600 skrefum (að meðaltali) í tæp 5.000! Litli spássitúrinn um Góða hirðinn með vinkonu gæti svo sem hafa orsakað hluta þeirra. Gemsinn minn var að missa sig af fögnuði! Ég geng nú samt pottþétt meira en 600 skref á dag, því ég er ekki með símann stöðugt á mér - hoppa og skoppa á milli herbergja hér án þess að það náist á skrá. Þvoði stofugluggann með látum um daginn, sólin opinberar allt, þvoði einhverjar þvottavélar og hengdi upp þvott með gemsann á einhverju borði ... svo ég taki nú smádæmi.
Ég auglýsti nýlega eftir öllum mínum strætóbílstjórum og farþegum á Facebook því mér fannst eiginlega fáránlegt að þurfa að fara upp í Breiðholt (Mjódd) með leið 12 og taka þaðan þristinn, held ég, niður á Miklubraut og fara út hjá Skeifunni. Það hlyti að vera til skárri og ögn styttri leið. Tvær mjög klárar konur, önnur bílstjóri, stungu upp á leið 12 í "hina" áttina, sem sagt fara í Höfðaborg (Borgartúni) og taka svo leið 17 á Grensásveg (6 mín. labb í vinnuna) eða leið 5 sem stoppar gegnt Glæsibæ (5 mín. þaðan). Prófaði leið 17 í gær frá Borgartúni og svo fimmuna í dag. Finnst fimman betri því það eru færri krókódílasíki, gaddagirðingar og ekki jafnhroðalegar hálku-hindranir gönguleiðina frá Glæsibæ, líka færri stórstræti að komast yfir. Grensásvegur er svakaleg umferðargata!
Nýja vinnan ... hún er æðisleg. Samstarfsfólkið líka! Ég byrjaði á mánudaginn, þetta er hlutastarf og svo bíður annað hlutastarf innan tíðar annars staðar, ég hringi sennilega á morgun og skipulegg mætingar þangað. Ef þarf að mæta á morgnana, þarf ég að finna góða strætóa héðan í Kópavog og svo úr Kópavogi í Skeifuna. Þá spyr ég elskurnar mínar á Facebook ráða aftur. Grunar að tólfan í Mjóddina sé best og leið 4 þaðan í Kópavog. Leið 4 svo í Mjódd til baka og leið 3 á Miklubraut þaðan. (Nú finnst mér líklegt að Strætó bs vilji fá mig í vinnu, ég er orðin sérfræðingur eftir aðeins tvo daga, fjórða vinnan kannski?).
Skeifan er ljómandi skemmtilegur og líflegur staður. Myndi þó njóta þess betur að ganga um og kynnast umhverfinu almennilega ef væru ekki himinháir skaflar, viðbjóðshryllingshálka ... eins og t.d. hálkugangstéttin fyrir utan visst fyrirtæki, rétt hjá vinnustaðnum mínum og sem er gönguleið mín í og úr strætó, hvort sem ég tek fimmuna eða leið 17. Allir í lengjunni mokuðu fyrir framan hjá sér nema þau ... sem er kannski mjög eðlilegt og bara flottur bisness, enda gæti fyrirtækið auðvitað grætt á því að við dettum. Plástrar, grisjur, teygjubindi, sokkar sem styðja við, sótthreinsikrem, spritt, jafnvel gifs (ef bráðavaktin er full) fyrir utan verkjalyf er hægt að kaupa þar. Auðvitað moka þau ekki, það væri fáránlegt svona þegar ég hugsa út í það. Það fer að hlýna svakalega næstu daga, svo kannski er leigubíll málið þegar lífshættuleg hálka geisar meðan á hlýnun stendur, þá þýðir ekki einu sinni að salta. Það getur verið svo gaman að taka leigubíl. Á mánudaginn fékk ég eiturhressan bílstjóra sem fékk sér víst í glas kvöldinu áður af því að vinur hans kom í heimsókn. Hann er B-manneskja, konan hans og börnin A-manneskjur sem voru búin að skafa bílinn fyrir hann um morguninn ... svo man ég ekki meira en hann er vel giftur maður. Þriðjudagsbílstjórinn átti ekki orð yfir að ég gengi ekki bara þessa leið heim ... upp alla Álfheimana, hálfan-ish Langholtsveginn, niður allan Holtaveg og heim ... en eftir að hann tók kílómetrastöðuna róaðist hann aðeins í þessu, stutt vegalengd á bíl en það er kannski meira en að segja það fyrir gönguferðahatara að ganga tvo kílómetra í vinnuna og svo tvo kílómetra heim (á sumrin allt of heitt og allt morandi í geitungum, á veturna hálka og rok og kuldi). Konan hans hafði unnið alla tíð á X-leikskóla, sagði hann mér, og þau bjuggu við X-götu sem kom þó ekki í veg fyrir að hún gengi til og frá vinnu Í ÖLLUM VEÐRUM! sagði hann hreykinn. Ég gubbaði innra með mér sem haturskona gönguferða en svo viðurkenndi bílstjórinn að þegar þau fóru til Tene um árið hafi hún dregið hann í hroðalega langar og erfiðar gönguferðir, hann hafi verið örmagna megnið af tímanum.
Ekki séns í þessari hálku, sagði ég ísköld. Í ÖLLUM VEÐRUM, endurtók hann, svo innilega stoltur af göngu-frúnni sem fékk sér bara kvenbrodda í verstu færðinni.
Þegar fimman ók frá Glæsibæ (Suðurlandsbraut) að Höfðatorgi seinnipartinn í dag, fannst mér ég eiga skilið einn góðan ... enda 11 mínútur í tólfuna heim, skv. strætóskýlinu. Ég gekk að Kaffitári (rúmur hálftími í lokun!?!) og fékk mér latte sem bæði hressti og kætti. Náði þarnæstu tólfu heim rúmlega fjögur ... sem þýddi að vagninn var stútfullur af fólki á leið heim úr vinnu! Sennilega hefði ég náð betra sæti korterinu fyrr ... en hva. Ég er að læra á strætó upp á nýtt.
Margt ljómandi gott hjá strætó. Ég ætla þó ekki að borga endalaust með debitkortinu þótt það sé hægt, frekar fylla á Klappkortið sem ég keypti í desember en vinkonan sem var með mér þá og keypti líka Klappkort, fór þó illa út úr því, keypti sér hópferð í ógáti, borgaði fyrir fimm manns í einu í þessari einu strætóferð sinni, og hún er ekki einu sinni þybbin. Hún á bíl en vildi tékka á almenningssamgöngum. Við vissum auðvitað ekki þegar við fórum í Kringluna til að kaupa Klappkortin, að nákvæmlega fjórum dögum seinna yrði hægt að borga með venjulegu greiðslukorti ... held samt að slíkt sé dýrast, svona ef maður fer fjóra daga vikunnar á milli eins og ég.
Stoppistöðvarnar sjálfar eru svo algjör snilld, það kemur nefnilega fram þar hversu stutt eða langt er í næsta strætó. Leið 12: 2 mín. o.s.frv.
Heimili mitt, Skýjahöllin, var í hálfgerðri rúst við heimkomu í dag, en lítið hefur verið vaskað upp og snurfusað síðustu daga. Fékk nefnilega í hendur verkefni rétt fyrir jól, tvö, til að vera nákvæm, og hef notað hverja frístund í að vinna við þau (með hjálp Mosa, eins og sést á myndinni) og nánast allt annað hefur mætt afgangi ... eins og bloggskrif, uppvask og jóla-niðurtakelsið. Skilaði verkefnunum af mér í gærmorgun og þótt þau væru skemmtileg var sem fargi væri af mér létt ... en þar sem þetta var fyrsti í strætó-dagurinn (í gær) var ég nánast örmagna við heimkomu og tók hvíld fram yfir húsverk, ótrúlegt alveg ... Skrapp vissulega í stutta ferð í Góða hirðinn með vinkonu eftir vinnu, hana vantaði sófa og fann einn fínan á 4.500 kr.
Ég lagðist upp í rúm á hitapoka eftir allt erfiðið, öll skrefin. Er líka að hlusta á svo spennandi og skemmtilega sögu á Storytel, Fórnarlambið eftir Henrik Fexeus. Var ekkert yfir mig spennt fyrst en er að springa úr spenningi núna, ætla samt að treina mér seinni rúmlega sjö klukkutímana til helgarinnar. Er löngu hætt að tíma að flýta lestrinum og stilla á meiri lestrarhraða eins og ég gerði fyrst, ég vil frekar njóta og ekki klára of hratt. Er komin í helgarfrí og ætla að fara í svolítið ráp með systur minni á morgun, þarf að kaupa mér góða brauðrist, skamma Elkó (hef tvisvar reynt að stilla á þvo/þurrka-prógrammið ... hún þvær en hættir svo, samt stendur þvo í 20 mín. og þurrka í 60 mín - 1 kg af þvotti). Systir mín á ögn stærri gerð af sömu vél og henni nægir að stilla á prógrammið en ég sé hvergi hvernig ég virkja þurrkaradæmið sem virðist þurfa að gera, vélin þvær bara í 20 mín. Það eru tveir eða þrír takkar sérmerktir þurrkun en ég er hrædd við að skemma með því að gera eitthvað vitlaust ... svo ég spyr kurteislega um þetta á morgun (ætla ekkert að skamma neinn). Það er samt mjög léleg þjónusta við neytendur að sleppa leiðbeiningum á íslensku, sérstaklega þegar um er að ræða rándýrar vélar, það segir sig ekki alltaf sjálft hvernig þeim á að stjórna.
Skömmu fyrir jól fórum vér systur á ansi hreint skemmtilega jólatónleika, mína fyrstu (fyrir utan Jólasöngva Kórs Langholtskirkju á síðustu öld). Ég var ekkert voðalega spennt fyrir þeim þegar jólin nálguðust, hafði nóg að gera og óttaðist að þetta yrði eitthvað yfirþyrmandi væmið, svona rjómatertulegt hrímhlussudæmi. Ég þurfti ekkert að óttast. Þetta voru Vitringarnir þrír, og ég þóttist nokkuð viss um að þetta yrði alla vega fyndið en það varð eiginlega miklu meira en það, fyndið, hátíðlegt og flott. Ég skemmti mér konunglega!
Hér í "Ævintýrahöllinni" hefur verið gaman að búa. Alltaf eitthvað að gerast ... ef það er ekki sérsveitin þá er það bara eitthvað annað. Djók.
Á gamlársdag var ég frekar stressuð því ég sá að það var verið að loka Sæbrautinni ... eitthvað rosalegt hlaut að hafa komið fyrir en samt heyrðist ekkert í löggunni og hvergi sást í blá blikkljós. Fólk í gulum vestum stóð vörð svo enginn nema fuglinn fljúgandi kæmist. Ég fór á allar fréttasíður á netinu en enginn nógu vel vakandi blaðamaður hafði haft veður af þessu ... össs. Svo fór skyndilega að sjást í hlaupandi fólk, helling af því, og það rifjaðist upp fyrir mér að eitthvað væri til sem héti Gamlárshlaup ÍR ...
Eins og sést á myndinni hljóp talsvert margt fólk hér fram og til baka á Sæbrautinni á gamlársdag.
Nafli alheimsins er hér. Hérna er Friðarsúlan, gamlárshlaupið, rauður himinn í eldgosi (hinum megin við húsið), og margt fleira áhugavert. Verð samt að viðurkenna að ég er svolítið: Iss, miklu betri snjómokstur á Akranesi ... en ég verð þó líka að láta koma fram að það er talsvert snjóléttara á Skaganum en í höfuðborginni. Held að aðeins tvisvar á mínum 18 árum norðan rörs (árin 2006-2024) hafi snjóað meira á Akranesi en í Reykjavík.
Elskan hún Fatima, vinkona mín frá Sýrlandi, kom í stutta heimsókn um daginn.
Eins og sitthvað fleira hér í borginni, hefur það vaxið mér í augum að koma mér í klippingu ... ég get ekki pantað tíma hjá minni konu á Skaganum þegar allra veðra er von, bíða kannski í mánuð eftir tímanum og svo er ófært vegna vindhviða á Kjalarnesi! Þar sem Fatima starfaði sem klippari í Sýrlandi spurði ég hana hvort hún væri til í að klippa mig, bara smávegis svo ég gæti sýnt mig utandyra. Hún ráðlagði mér að biðja frekar manninn hennar (sem er ansi klár klippari og, að hennar sögn, í miklu meiri æfingu en hún), og það var minnsta mál í heimi að koma af Skaganum og klippa "ömmu" sona þeirra hjóna. Á laugardaginn mætti svo öll yndislega fjölskyldan, sætu synirnir sem kalla mig ömmu, alla vega sá eldri, klipparinn kom með skærin sín, slá, hárlakk og fleira sem til þurfti og hviss, bang, ég léttist um mörg kíló af hári og yngdist um sirka tuttugu ár, ef eitthvað er að marka speglana heimilisins. Snöggur og virkilega góður klippari. Ég átti smákökudeig í ísskápnum og hafði bakað eina plötu sem hélt drengjunum hamingjusömum fram yfir klippingu.
Myndin sýnir klippinguna ... á byrjunarstigi.
Nýtt rúsínustríð er skollið á. Ég fann lítinn ógeðslegan rúsínupakka ofan í töskunni minni eftir jólahátíðina sem ég varði meira og minna heima hjá vissri systur minni. Nú verða engin vettlingatök, heldur eintóm harka og hefnigirni. Hef ekki gert plan vegna anna en það verður sko gert.
Rúsínur eru verkfæri Satans, eins og döðlur, hnetur og möndlur ... en ég læt þessa ekki óhefnt. Síðast (fyrir löngu, löngu) fannst mér ég svo ofboðslega klár og laumaði rúsínupakka sem systir mín hafði áður troðið inn í skáp heima hjá mér, í veskið hennar á meðan hún var í heimsókn hjá mér í himnaríki, og skemmti mér konunglega yfir þessari lymsku minni. Hlakkaði yfir þessu í næsta símtali og þá kom áfallið: Jú, ég tók eftir pakkanum áður en ég fór og faldi hann heima hjá þér (í himnaríki) ... Ég fann hann loksins, eða þegar ég var að pakka niður, áður en ég flutti í bæinn.
Kalla mögulega saman nokkrar vinkonur til skrafs og ráðagerða um næstu aðgerðir, um þá hernaðaráætlun sem þarf að gera. Blóð, sviti, tár ... allt til að vinna sigur. Óttast nú samt að þetta geti orðið nýtt 100 ára stríð ...
Mynd: Mosi horfir með hryllingi (réttilega) á rúsínupakkann sem ónefnd systir setti lymskulega í töskuna mína þegar ég reyndi að halda heilög jól með henni fyrir skömmu. Systur eru systrum verstar, mætti halda ... Hörkuleg hernaðaráætlun með fullri gagnsókn er í burðarliðnum. Megi sumir passa sig allsvakalega mikið ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2024 | 17:13
Arfaslæmar jólagjafir ...
Jólasveinninn sló í gegn í afmælinu í gær, eins og vanalega, og tókst meira að segja að galdra smávegis sem við áttum ekki von á. Hann breytti heilum spilastokki í 52 laufaníur!!! Ég legg ekki meira á ykkur. Við stráksi trúðum ekki eigin augum. Ég fékk ekki nammipoka en stráksi fékk auðvitað, enda finnst vart meiri aðdáandi en hann. Aðdáunaraugnaráð mitt féll í grýttan jarðveg.
Til að fá aukajólagjöf frá systur minni prófaði ég að segja að hún liti ekki út fyrir að vera degi eldri en fertug. Held að það hafi verið yfir strikið ... þótt ég meinti auðvitað hvert orð. Hefði sennilega átt að segja tvítug.
Margir góðir gestir mættu, ættingjar, vinir og alls konar vandamenn, suma sér maður bara 18. des. ár hvert og frábært að geta gengið að þeim vísum þá.
Veislan var mjög flott, fullt af girnilegum tertum og alls konar, ég fékk rækjubrauðtertusneið heim í nesti og hún var einmitt í hádegismat á þessu heimili í dag.
Vegna óvæntrar hálsbólgu (ekki minnar) breyttust plön dagsins úr því að verða jólaskemmtiflækingur um borgina yfir í að verða heimahangelsi. Ég á reyndar eftir að pakka inn örfáum jólagjöfum - svo berst hingað fyrra jólaverkefnið á morgun svo það er eins gott að halda vel á spöðunum. Mér finnst ég alltaf vera syfjuð (ekki döpur, svo það komi nú fram), tek samt vítamín, vonandi nóg. Þyrfti að komast fljótlega í búð til að kaupa dagsljósslampa, held að það virki vel á syfjuslen þrátt fyrir nægan svefn. Úps, nema auðvitað að ég hafi verið björn í fyrra lífi og þurfi að liggja í híði mínu meira en átta tíma á sólarhring þessa dagana. Finn sennilega fyrir þessu af því ég er ekki í vinnu sem krefst þess að ég vakni fyrr og þjóti út í strætó, sem gerist strax eftir áramótin. Svo er ég líka Ljón sem smitast af sambýlismönnum mínum, öðrum kattardýrunum sem sofa út í eitt ...
Mín fyrsta strætóferð eftir flutningana til Reykjavíkur var farin í nótt. Ég sýndi debitkortið mitt spennt og glöð en það var gert upptækt af bílstjóranum sem sagði þetta vera jóla-debitkort og ekki gilt - sem var sannarlega ekki rétt. Ég er enn pirruð út í hann og mæli ekki með svona asnalegum draumum þar sem maður býr t.d. enn á Hringbrautinni þótt bráðum séu liðin 20 ár frá flutningunum þaðan. Draumar uppfæra sig ekki eins og tölvan mín ... sem slekkur á sér í tíma og ótíma og er með vesen og leiðindi ... af því að hún er að uppfæra sig! Það er sennilega stillingaratriði, spyr minn mann í þessum málum.
Versta jólagjöf sem hægt væri að fá?
Margir nefndu ryksugu og straujárn en það er greinilega margt verra en það.
- Keilukúla.
- Að fá ekkert. Narsinn - minn fyrrverandi - gaf mér aldrei neitt eftir að börnin okkar fæddust svo ég fór að kaupa mér mínar eigin jólagjafir. Sú síðasta var að skilja við hann.
- Naglasnyrtivörur frá ömmu sem vissi að ég nagaði neglurnar.
- Bók um létt fæði þótt ég væri ekki í megrun.
- Hnetusúkkulaði. Ég er með ofnæmi fyrir hnetum.
- Jólaskraut, framleitt á vinnustaðnum mínum.
- Biblíu frá afa og ömmu. Ekki einu sinni, heldur tvisvar, með nokkurra ára millibili.
- Eitt vetrardekk í brúðkaupsafmælisgjöf 22. des. Hitt dekkið um jólin. Við erum skilin.
- Góðgerðar-eitthvað í mínu nafni.
- Faðir minn og illa stjúpmóðirin sendu mér eitt sinn úrklippu úr pöntunarlista, mynd af kápu sem þau ætluðu að gefa mér. Síðan eru liðin 47 ár og ekkert bólar á kápunni.
- Ég fékk herðatré þegar ég var tólf ára, ekki ánægður með það.
- Pabbi gaf mömmu straujárn og skildi ekkert í því hvers vegna hún varð svona sár.
- Skilnaðarpappírar - jólin valin til að særa enn meira.
- Bækur nr. 2 og 7 í 12 bóka seríu.
- Nefháraplokkari frá pabba. Ég var 13 ára og ekki ánægður sem reitti pabba til reiði.
- Baðvigt, myndi ég halda. Mín uppáhalds vonda gjöf er þó klósettbursti frá tilvonandi tengdamömmu.
- Allt sem mágkona mín gefur. Ekki bara mér, heldur öllum. Það þarf sérstaka hæfileika til að finna svona skelfilega ósmekklega hluti. Hún er samt ekki að grínast.
- Ég fékk eyrnalokka frá kærastanum mínum. Komst að því að fyrrverandi kærasta hans hafði gleymt þeim hjá honum. Í rúminu hans.
- Við systkinin fengum skrítnar gjafir frá afasystur okkar. Eitt árið fékk bróðir minn dós af grænum baunum frá henni.
- Ávaxtakaka.
- Púsluspil ... ég púsla ekki.
- Konan mín á eftir að elska nýju moppuna sína. Ég bara veit það!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2024 | 22:57
Óvænt gjöf, strætósjokk og hættulegt hnetusmjör
Jólavinnulotan sú fyrri hefst ekki fyrr en á föstudaginn, smávegis tafir sem urðu þess valdandi, í raun, að fólkið mitt fær jólagjöf frá mér í ár. Ég pakkaði nefnilega mestu inn í dag á milli þess sem ég reyndi að skreyta örlítið. Flotta græna mósaíkjólatréð kemst hvergi í samband við rafmagn, ekki í fjöltengið, ekki beint í vegginn svo ég þarf að kaupa rétta kló og blikka svo einhvern með viti. Sennilega litlu systur Önnu vinkonu, hún er sú sem kemst næst því að vera kjarneðlisfræðingur af þeim sem ég þekki, fyrir auðvitað Gulla stjarneðlisfræðing, gamla bekkjarbróður minn. Hún gat alla vega sett ljós inn í forstofuskáp og alltaf þegar hún opnaði skápinn kviknaði ljósið. Það kalla ég snilli. Kannski kunna fleiri að skipta um klær. Kannski þarf ég ekkert að hafa kveikt á því.
Dyrabjallan hringdi snemma kvölds, ég átti ekki von á neinum, ekki sendingu, engu, en í mynd-dyrasímanum sást vingjarnleg kona sem sagðist vera með sendingu til mín frá ... haldið ykkur ... aðdáanda! Ég beið þó ekki spennt eftir rósavendi á meðan lyftan fór upp á sjöundu, því kettirnir tryllast alltaf þegar koma blóm í hús; fella niður vasann og eyðileggja blómin með því að narta í þau með tilheyrandi gubbelsi stundum. Nei, þetta var svo miklu betra en blóm ... þetta var B1-vítamín! Hundrað töflur af vítamínínu sem á eftir að kýla niður hásinarvesenið. Ljúfa konan sem kom með pillurnar lofaði að skila miklu þakklæti og knúsi frá mér til gefandans.
Litla systir, þessi sem er svo rosalega ung miðað við mig (16 mánuðum yngri) minnkar aldursmuninn á milli okkar niður í eitt ár frá og með morgundeginum og það stendur til 12. ágúst nk. þegar ég verð allt í einu sérlega aldurhnigin miðað við hana, eða tveimur árum eldri. Hún á sem sagt afmæli. Stráksi mætir að sjálfsögðu, kemur með strætó frá Akranesi, það tímir ekki nokkur hræða að missa af jólasveininum sem mætir alltaf í afmælið, okkur gestum til sérstakrar gleði og ánægju. Stráksi sagði á sambýlinu sínu að systir mín ætti stórafmæli og gerði hana nokkrum árum yngri sem gladdi hana svo mikið, þegar ég sagði henni það, að hún ætlar að kaupa enn eina jólagjöf handa honum. Fínt trix, kæru bloggvinir. Ég ætla svo sannarlega að segja eitthvað sérlega fallegt við hana á morgun svo hún kaupi fleiri jólagjafir handa mér.
Myndin af okkur systrum sannar mál mitt. Þarna erum við á unglingsaldri, fyrir ekkert svo mörgum árum, myndin greinilega tekin milli 12. ágúst og 18. desember þegar aldursmunurinn er sem mestur. Hún svona líka ungleg en ég gæti verið 26 ára.
Mánudagur 16. desember 2024
Staður: Hestháls, 110 Reykjavík ... eða kannski 116 Rvík?
Almáttugur, nú verðum við að drífa í að gera Gurrí kleift að nota debitkortið sitt í strætó, ég hélt að við hefðum alveg tíma til að redda því fram til 5. janúar, eða svo. Ásgerður stikaði um stjórnstöðina og neri hratt saman höndum. Svitaperlur féllu hratt af enni hennar niður á gólf.
Bíddu, bíddu, er hún flutt frá Akranesi? Barði virtist hlessa.
Fylgist þú ekki með því helsta sem gerist í heiminum? spurði allt hitt starfsfólkið í einum kór.
Hún keypti áfyllingarkort síðasta föstudag í Kringlunni og ég var bara að frétta það núna! Eins og við vorum búin að fela upplýsingaborðið vel ... hún er bara of klár fyrir okkur, fyrir þennan heim! Það mátti sjá tár á ýmsum hvörmum.
Við sem héldum að það dygði að flytja aðalstöðvar og tapað/fundið í Hestháls, þangað sem enginn kemst nema fuglinn fljúgandi og fólk á bíl! sagði Siggi mæðulega. Hún á eftir að koma og hella sér yfir okkur og fá bloggvinina með sér!
Borgarstjórinn ætlar að koma okkur til bjargar og setja Hestháls tímabundið í póstnúmer 116 Reykjavík, hún veit að það er á Kjalarnesi sem dregur vonandi úr löngun hennar til að mæta á staðinn. Elísabet var þó svolítið efins á svip en reyndi að bera sig vel.
Eigum við að endurgreiða henni þúsundkallinn sem kortið kostaði? Hún mun ekki nenna að skrá sig inn á Mínar síður-það dæmi allt saman, eða finna út úr því hvernig það er gert, til að leggja pening inn á það ef hún getur bara veifað debitkortinu, ætli hún gráti þann þúsundkall. Guðjón var samt orðinn áberandi fölur.
En hvað gerir hún næst? Bloggar hún brjáluð um þetta? Hvar eru rússneskir eða ísraelskir hakkarar þegar maður þarf að láta eyðileggja moggabloggið í heild? Jóhann var farinn að nötra af ótta.
Hættið að tala, farið að vinna í því að gera allt klárt fyrir vísa og debit í vögnunum. Hún er reið, við vitum það! Við getum ekki annað en vonað að hún hafi ekki verið búin að fylla á kortið. Annars eigum við ofsareiði hennar yfir höfði okkar og þá getum við alveg eins lokað sjoppunni! Vinnum í alla nótt og höfum þetta tilbúið eldsnemma í fyrramálið, ég panta pítsu og bý til espressó á línuna, sagði Ásgerður ákveðin.
- - - - - - - - - - - -
Þriðjudagur, 17. desember 2024
Staður: Allir fjölmiðlar landsins:
Hægt að borga með korti í strætó
Frá og með deginum í dag er hægt ...
Sjá mynd.
Þvílík dásemd og dýrð. Loksins, ég er ekkert reið en ég hefði samt sleppt því að kaupa kort á þúsundkall á föstudaginn ef ég hefði vitað að þetta yrði málið fjórum dögum seinna.
Þetta verður án efa útfært og gert betra með tímanum svo að t.d. öryrkjar og eldri borgarar geti borgað rétta (lægri) upphæð með kortinu sínu, eða jafnvel einhver krúttmolinn borgað fyrir bæði mig og sjálfan sig í strætó, það þarf nú ekki meira núorðið til að heilla mig upp úr skónum. Ég þarf ekki þyrluferðir eða limmósínur þótt það gæti vissulega verið gaman. Er orðin svo lífsreynd að ég man hreinlega ekki hvort hef setið í limmósínu en það var ógleymanlegt að fara í þyrlu um árið. Ég hef að minnsta kosti aldrei komist nær Justin Bieber en þá ... (sami þyrluflugmaður).
Viðurkenni að ég les stundum bara fyrirsagnir og hef stundum of lítinn tíma eða nennu til að lesa betur. En þannig afla ég mér yfirborðsþekkingar á ýmsum málum og einnig get ég notað fyrirsagnirnar á ýmsan máta ... eins og nú á blogginu til að tala um mögulega skaðsemi hnetusmjörs.
(Ath. Ég er ekki að tala um Herra Hnetusmjör.)
Ég er með ofnæmi fyrir jarðhnetum, fæ aukinn hjartslátt bara við að finna lyktina af salthnetum (takk, Icelandair, fyrir að bjóða ekki upp á þær lengur) þótt sumt fólk, illa haldið af mannvonsku, myndi kalla þetta matvendni. Rúsínur og döðlur falla frekar undir það.
Ég hreinlega man ekki hvers vegna ég tók skjáskot af þessari frétt, það var á þessu ári og ekkert langt síðan, en fréttin er samt rúmlega ársgömul. Mér fannst þetta sennilega fyndið (af því að ég veit ekkert ógeðslegra en hnetusmjör og þetta var líka svona Vissiégekki-móment).
Núna er ég ferlega forvitin að vita hvernig í ósköpunum svona fyrirsagnir verða til. Hvaða spekúlasjónir urðu þess valdandi ... kannski að apapiss komist í snertingu við jarðhnetur með afleiðingum ... eða Bill Gates múti stærstu hnetusmjörsframleiðendum heims til að eitra fyrir okkur, fækka okkur? Maður hefur nú heyrt annað eins um hann ... blikk, blikk.
Ég legg til að Íslendingar hætti að flytja þetta inn, bara til öryggis (tíhí), og við borðum mysing í staðinn, mögulega blandaðan saman við kotasælu. Hugsa sér, það er heilt fylki/ríki í Bandaríkjunum sem helgar sig jarðhneturækt! Það er Georgíuríki með 42% af allri ræktun USA. Ef ég hefði nú fæðst í Georgíu og jafnvel orðið að vinna í hnetusmjörsverksmiðju alla tíð, og það væri alltaf hnetusmjör á borðum í staðinn fyrir venjulegt smjör, kokteilsósu eða sveppasósu, svo væri kannski hnetusmjörsgrautur í matinn í hádeginu á laugardögum, eins og grjónagrautur í denn, hnetusmjörsmaríneraðir hamborgarar í sjoppunum og svo framvegis ...
Mikið er ég heppin að hafa fæðst á Íslandi - þrátt fyrir kæsta skötu, þverskorna ýsu, siginn fisk, brauðsúpu, nætursaltaðan þorsk, súrt slátur og annað í þessum dúr sem yrði mögulega (sennilega) skilgreint sem efnavopn ef maður lenti í öryggisleit á erlendum flugvelli með slíkt í töskunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2024 | 22:11
Jólakúlublæti, fúlar gæsir og óvænt jólavinna
Síðasti fáránlega rólegi dagurinn í bili ... ég hef kvartað stöðugt yfir því að hafa ekki nóg að gera, eða að fá ekki fasta vinnu (tvær) fyrr en EFTIR áramót. Ég var orðin sæmilega sátt við rólegheitin, að skreyta og jólast í (drepleiðinlegum) hægagangi þegar ég fékk símtal undir hádegi í dag. Heljarinnar yfirlestur fram undan, svipað og sl. haust þegar ég átti að vera að pakka niður og var að auki með leikskólakvef. Alveg dæmigert, hugsaði ég, akkúrat þegar ég ætti að fara að skreyta jólatréð og svona ... en hló nú samt ofsaglöð innra með mér, hrikalega ánægð með að geta unnið eitthvað spennandi.
Á morgun berst mér fyrra handritið svo ég verð meira og minna föst yfir því á næstunni. Það síðara kemur svo á milli jóla og nýárs og því verður skilað áður en önnur vinnan af tveimur hefst snemma í janúar. Gleði, gleði.
Þessi "önnur vinnan" er eftir hádegi í u.þ.b. mánuð sem þýðir að ég get ekki pantað frá Eldum rétt á meðan. Bílstjórinn kemur iðulega um kl. 13.30 á mánudögum. Það verður gífurleg áskorun því ég er ekki sérlega góð í að elda nema með sérvöldu hráefni og uppskrift (sem sagt Eldum rétt) - spurning um að ganga smáspöl eftir vinnu og kaupa eitthvað tilbúið; sushi, Lemon eða slíkt. Veit ekki um gott kaffihús í grennd, þyrfti samt að kanna það, oft hægt að fá súpu á slíkum stöðum. Gæti reyndar búið til fullt af lasagne, grænmetissúpu og annað í þeim dúr sem ég kann án uppskriftar, fryst og hitað, nenni ég því? Það er eiginlega allt núna sem beinir mér út á hjónabandsmarkaðinn aftur, ég sem hélt að ég væri hætt þessu strákaveseni. Vissulega algjör dýrð að koma heim úr vinnunni og einhver búinn að elda. Ef þið vitið um einhvern myndi það spara mér mikinn tíma sem ég myndi annars eyða í bakaríum og bókabúðum, sérstaklega í Skotlandi.
Fann ljómandi fína lausn fyrir jóladag, fyrir hangikjötshatandi fólkið (já, það er til, svo fer hangikjöt líka illa í suma), pantaði tvöfaldan skammt af ljómandi góðum kjúklingarétti sem ég elda á jóladag, spennandi meðlæti líka. Frá Eldum rétt, sem sagt, kemur á Þorláksmessu. Kvöldmatur fyrir okkur stráksa og svo stór skammtur fyrir jóladag.
Fór út í garð í dag, bak við hús, með heilan helling af matarleifum til að gefa svöngu gæsunum sem halda hér til. Þegar ég var búin að stappa niður snjóinn í smáparti af garðinum og byrjuð að dreifa kræsingum þar, tók ég fyrst eftir gæsahópnum sem var við Sæbrautarenda blokkarinnar, ég var garðmegin. Ég kallaði á þær en eitthvað vandamál með traust virtist hamla þeim frá því að koma hlaupandi. Til að sýna að ég væri sauðmeinlaus fór ég að fleygja smávegis mat í áttina til þeirra sem virtist ætla að virka. Alfa-gæsin í hópnum virtist ánægð í fyrstu en þegar hún nálgaðist enn meira fór hún að hvæsa grimmdarlega á mig, sennilegast af vanþakklæti. Gæsir nútímans eru ekki jafnljúfar og þessar sem voru við Tjörnina í denn. Algjörar frekjur, eflaust að skammast yfir því að brauðið hafi ekki verið nógu nýtt eða ekki nógu mikið krem á kökunni, of mikið kolvetni, e-efni, kakó á kostnað súkkulaðis ...
Þótt ég sé brjáluð út í gæsirnar, aðallega alfa-kvikindið, sleppa þær ekkert við mig. Mér finnst að afgangar eigi að fara í gæsir og aðra fugla yfir vetrartímann og máva og fleiri á sumrin. Ég er rosalega glöð yfir því að hafa fundið fínan fuglamatarstað fyrir matarleifarnar, eins og ég átti á Akranesi. Elsku krumminn sem ég sá uppi á þaki í blokkinni í dag, lagði eflaust ekkert í hvæsandi gæsir eða kýs bara vegan og ketó.
Fór fyrst með rusl í tunnurnar niðri/úti. Er búin að finna út að það fer meira plast frá mér en pappi og ansi lítið fer í það óflokkanlega sem er það eina sem við getum fleygt beint í sorplúgu á hverri hæð. Skagamenn eru nýkomnir í "nýja" kerfið svo ég byrjaði ekki að flokka almennilega og rétt fyrr en við flutningana í bæinn í október. Þetta var mjög þægilegt á Akranesi ... pappi og plast saman í stórar tunnur, allt hitt í minni tunnurnar. Kerfið venst mjög fljótt og ég keypti nýlega í Bónus bunka af bréfpokum undir matarúrgang. Fæst frítt hjá Sorpu, skilst mér, en mun seint nenna að taka strætó í Sorpu til að fá ókeypis poka.
Borgarlífið er ljómandi fínt - og alveg frábært að hitta fólkið mitt svona miklu, miklu oftar - en ég fæ nú samt reglulega sting í magannn af söknuði eftir Skaganum - bara öllu þar. Er meira að segja enn meðlimur í sérstökum Skagahópum á fb (sem gerir aðskilnaðinn léttbærarari) þótt ég skipti mér lítið af sem brottflutt.
Er byrjuð að skreyta örlítið fyrir jólin, það var svo hárrétt ákvörðun hjá mér að geyma jólaskrautið í skápum hér uppi í stað þess að fara með það niður í geymslu.
Ein jólakúla lifði ekki af flutningana í bæinn ... nokkuð gömul sú, með málaðri mynd af Akraneskirkju og ártalinu 2006, ég fékk hana í jólagjöf það sama ár. Ég er ekki vanþakklát gæs svo í staðinn fyrir að gráta þá kúlu gleðst ég frekar yfir því að eiga margar ótrúlega flottar kúlur, m.a. eftir listakonuna Tinnu Royal. Eins og þessa með elskunni honum Hasselhoff. Sjá mynd.
Enn er jólakúlan með Donald Trump í sérstöku uppáhaldi en hana keypti ég 2018 í jólabúð úti í Flórída ... af því að mér fannst hún svo hræðileg. Þá var Trump forseti og myndin af honum með fágætt jólabros á vör. Svo held ég líka rosalega mikið upp á kúlurnar eftir Tinnu - bláan ópalpakka, dós með Orabaunum, malt-og-appelsín, kókosbollu, Die Hard-kúluna og bara alls konar. Fæ stráksa til að skreyta jólatréð með mér á Þorláksmessu og þá fá allar þessar skemmtilegu jólakúlur að njóta sín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2024 | 23:19
Þú ert samt feit - og ýmsar jólajátningar
Gærdagurinn hófst með hálfgerðu áfalli. Vinkona hafði sent mér skilaboðin: Geturðu sent mér símanúmerið þitt! sem er öruggt dæmi um að feisbúkksíða viðkomandi hafði verið hökkuð. Ég hringdi strax í hana:
Vissirðu að það er búið að hakka þig? spurði ég döpur.
Ha, nei, af hverju dettur þér það í hug?
Hakkarinn bað um símanúmerið mitt í messenger. Algengasta gabbið á fb og hefur verið lengi.
Nei, þetta var nú bara ég, sagði hún. Áttaði mig á að ég er með rangt númer en nú er ég komin með það fyrst þú hringdir, sagði vinkonan alsæl. Hún er nýflutt aftur til Íslands og samskipti okkar hafa iðulega verið í gegnum messenger en alltaf gott að vera með rétt símanúmer.
Við ákváðum að bregða undir okkur betri fætinum og fara í Kringluna. Mig vantaði strætókort, hana vantaði sundhettu og andlitskrem. Kortið fékkst á upplýsingaborði Kringlunnar sem var svo vel falið á 2. hæð að það þurfti að ganga alla Kringluna, báðar hæðir, til að finna það. Hefði þurft annað upplýsingaborð til að spyrja um staðsetningu þess. Leiðbeiningar á íslensku fylgdu með kortinu, takk, strætó. Ég þarf sem sagt að skrá mig inn á Klappið til að fá að kaupa miða og látið þá á kortið. Þetta var öðruvísi í gamla daga: Fá fullorðinsmiða, takk (eða mánaðarkort). Já, gjörsovel, það gera mörgþúsundkrónur. Og ég hoppa upp í strætó, borga með einum miða af miðakorti sem dugar í mánuð, og ekkert vesen. En auðvitað er ég sjúklega þakklát fyrir þessi tækniundur öll sem auðvelda lífið til muna ... Ég er alla vega sérlega þakklát fyrir að Strætó skyldi hafa fyrir því að vera með leiðbeiningar á íslensku, ekki gerir Elko það þótt maður kaupi fordýra þvottavél hjá þeim. Það var ekki troðfullt í Kringlunni, enda klukkan bara rétt um hálftvö, svo löngunin til að hlaupa út kviknaði ekki. Náði meira að segja að kaupa jólahandsápu (með sítrónugrasi, sjúklega góð lykt) fyrir heimilið af elskunum í Sólheimum sem voru þarna með flottu vörurnar sínar.
Mynd 1: Í gær endursýndi RÚV Útsvarsþátt - ég fékk skilaboð um það þar sem ég sat í vinkonukaffi, búin að steingleyma sjónvarpsstjörnuferlinum, sem er ólíkt okkur Þingeyingum að gera. Við höfum leyfi til að monta okkur, neimdroppa og hvaðeina, hefur mér skilist af ættingjum mínum. Ég þorði ekki að horfa nema rétt á byrjunina en held að þetta sé þátturinn sem ég brilleraði í Oliver Twist-spurningunum þremur, nema var aðeins of stressuð að muna að Oliver vann ekki hjá líkkistusmiði, heldur útfararstjóra. Dómarinn svo grjótharður ... en við unnum nú samt, minnir mig. Sigrún vissi allt um Indland, Bjarni allt um landafræði.
Sé á myndinni að ég var ekki offitusjúklingur þarna, eins og mér fannst ég vera (oftast). Hvernig hef ég nennt að eyða stórum hluta af lífinu í áhyggjur af aukakílóum sem gerðu mér ekkert slæmt heilsufarslega? Skilst reyndar að heilbrigðiskerfið geti verið slæmt í fitufordómum, ég var t.d. skömmuð fyrir að hafa bætt of miklu á mig þegar ég var komin níu mánuði á leið árið 1980, samt var ekki arða af aukaspiki á mér og ekki mikill bjúgur ... Ég var alveg miður mín yfir því. Ég lét ekki tékka á stórum fæðingarbletti því ég óttaðist skammir fyrir offitu, bletturinn reyndist svo vera skaðlaus þegar ég loksins þorði ... þá hvort eð er á leið í eina uppskurð lífs míns (teratoma) en enginn skammaði mig. Ég bætti á mig eftir að ég hætti að reykja fyrir bráðum fimm árum en þau kíló eru að mestu farin núna. Ég fann vel fyrir þeim (erfiðara að ganga upp stigana) og vildi losna við þau.
Ég fylgist með Kötlu (Systur&makar) á Instragram og hún sýnir oft fötin sem hún hannar og selur á hinum ýmsu samfélagsmiðlum. Nýlega setti hún inn auglýsingamynd af sér á Facebook, í fallegum kjól sem hún sagði vera klæðilegan, klæddi af ... eitthvað slíkt. Einhver fyndinn karl setti athugasemd: "Þú ert samt feit!" Hún var komin næstum sjö mánuði á leið á myndinni og hann tók eflaust ekkert eftir því vegna þess líklega að kjóllinn var svo klæðilegur, honum fannst hún bara ekki nógu mjó og fann sig knúinn til að benda henni á það.
Þetta er svolítið íslenskt ... vinkona mín, búsett í USA, vill meina það. Hún fór í matarboð ytra þar sem önnur íslensk kona var viðstödd og þeirri konu fannst hún knúin til að benda bandarískum manni sem hún þekkti ekkert, á að hann yrði að gera eitthvað í sínum málum, hann væri allt of feitur. Kanar eru mjög kurteisir, hann lét þetta yfir sig ganga án þess að drepa hana, en bandarísk vinkona vinkonu minnar, var stórhneyksluð á þessum dónaskap ... eins og maðurinn vissi ekki af þessu sjálfur. Ég get varla ímyndað mér að hann hafi drifið sig í megrun við þetta.
Ef einhver gefur mér óumbeðin ráð (þú myndir virka grennri ef þú létir minnka á þér brjóstin, þú ættir að gera þetta, gera hitt, bla bla) finnst mér það bara pirrandi en ekki hvetjandi. Ráð eins og: Ég hef heyrt að B1-vítamín sé gott við hásinarveseni, er aftur á móti mjög gagnlegt og virkilega vel þegið. Hef kíkt eftir B1-vítamíni síðan ég heyrði þetta en ekki fundið. Mér myndi t.d. ekki þykja það vera dónaleg afskiptasemi ef einhver segði mér hvar það fengist.
Í bók sem ég hlustaði nýlega á, kom fram að flestir karlar óttist mest af öllu þegar þeir fara á Tinder-stefnumót, að konan reynist vera feit. Þeim finnst víst skipta minna máli hvernig þeir líta út ... Í Jurassic Park, fyrstu myndinni, var bara "útlitsgallað" fólk étið af risaeðlum. Þybbinn karl (of kors) og svo strákur sem gekk með gleraugu. Ekki skrítið þótt þetta síist inn í mann, þetta er svo víða! Gjörsamlega óþolandi.
Nú eru víst börn og barnafjölskyldur að fara yfir um af jólastressi því það er svo mikið að gera áður en jólin koma. Ef börnin eru í tómstundum, skóla, tónlistarskóla, íþróttum er brjálað að gera. Ekki bara tónleikar, jólastund, jólaföndur, heldur bara jóla-allt í tengslum við þær! Það þarf líka að fara út í skóg og höggva niður jólatréð. Það eru litlu jólin, stóru jólin, jólahlaðborðin, jólaglögg ... Mikið skil ég að þetta sé stressandi. Og mikið hefur allt breyst á ekkert svo rosalega mörgum árum ...
Þegar ég var lítil þurfti sko að hafa fyrir því að finna einhverja oggulitla jólastemningu á aðventunni. Í desember beið ég í örvæntingu (koma jól?) eftir því að upplýst risastór stjarna kæmi upp á þak á síldarturni við Akraneshöfn. Þegar hún kom upp, kæmu sennilega jól. Samt komu þau ekki fyrr en eftir óbærilega langan tíma, alveg tvær eða þrjár vikur. Það tíðkaðist ekki að gera neitt jólalegt fyrr en nánast á Þorláksmessu og varla það!!! Það var vissulega bakað fyrir jólin en það mátti ekki smakka neitt fyrr en jólin komu og þá var svo mikill matur alltaf og ekkert pláss fyrir eldgamlar smákökur þá. Svo voru ótrúlega oft bein (lærisneiðar?) í jólamatnum og hræðilega erfitt að skera í kringum það fyrir sjö ára krakka sem fannst matartíminn og uppvaskið á eftir bara tefja jólin (gjafirnar) frá því að koma. Maður slapp oftast við að skræla brúnuðu kartöflurnar, til að sýna smájákvæðni.
Það þurfti að fara ógeðslega snemma að sofa frá 11. desember svo jólasveinninn gæfi manni eitthvað í skóinn, sem var samt aðallega eitthvað drasl (innflutningshöft) eins og mandarínur og minnsti skammtur sem hugsast getur af súkkulaði (þarna voru lögð drög að súkkulaðifíkn fullorðinsáranna). Svo fékk bara mamma að skreyta og stofan var harðlæst þangað til klukkan sló sex á aðfangadagskvöld. Þá fyrst mátti kveikja á jólatrénu og þá varð allt rosalega heilagt. Held að fáir hafi áttað sig á einu ... en hún er engin tilviljun þessi tíska að hafa stofur nútímans alveg galopnar og tengdar eldhúsi og borðstofu, og ekki nokkur möguleiki að loka hana af eða læsa ... Arkitektar nútímans eru fyrrverandi svekktir krakkar sem fengu ekki jól fyrr en kl. 18 á aðfangadag.
Að opna eina gjöf fyrir mat? Nei, þessi börn mættu ekki vera ofdekruð, það gerði þau bæði óþæg og vanþakklát. Við systkinin getum samt þakkað fyrir hvað mamma var mikið jólabarn, annars hefði bernska okkar verið enn hroðalegri.
Ekki bara jólin voru skelfileg í gamla daga ... Ég get varla minnst á það ógrátandi enn þann dag í dag hvað það var lífshættulegt að fara út, komast í skólann. Ég reyndi að fela mig undir rúmi með bók til að lifa af en var dregin undan því og hent út. Á unglingsárunum var það í raun bara áskorun að komast lifandi yfir Snorrabraut, frá Norðurmýri að Austurbæjarskóla. Á Akranesi man ég eftir djúpum síkjum (ekki allar götur voru steyptar þá) sem þurfti að stökkva yfir, ísbjörnum sem átu lötu börnin sem voru léleg í leikfimi, hagléli sem gat handleggsbrotið mann ...
Því var börnum ekki bara skutlað í skólann? Sko, ekki allir áttu bíla og það var álitið gera okkur svo gott að takast á við hætturnar, lífið sem biði okkar væri ekki dans á rósum ... Þetta var allt síðan þaggað niður (fréttafölsun) með ýmsum ráðum til að heilu kynslóðirnar færu ekki fram á skaðabætur frá ríkinu. Mín kynslóð er búin að vera á fullu við að passa að börn nútímans lendi ekki í þessu sama og hviss bang - þannig varð bílaþjóðin Ísland til.
Næsta kynslóð á eftir minni, foreldrar nútímans, tók jólin skrefinu lengra og nú er bara of gaman, of mikið við að vera, of mikið stress.
Í dag er Reynum að gera allt vitlaust-dagurinn. Tveir menn, annar kenndur við frost og hinn við eld, fengu sömu snilldarhugmyndina - að tæta og trylla smávegis í lýðnum. Held að sá fyrrnefndi eigi vinninginn, með því að draga upp á dekk Indverja, búsettan á Íslandi sem hefur sterkar skoðanir á íslenskum konum. Þær indversku vita að þeirra staður er á bak við eldavélina. Þarna átti aldeilis að berja á fjandans femínistunum (kerlingum almennt) og í leiðinni blása í elda hatursbáls rassistanna. Tvær flugur í einu höggi! Sá "heiti" óskaði svo síonistum gleðilegra jóla á fb-síðu Sósíalistaflokksins, ekki við mikla gleði þar, en kaus samt pottþétt Arnar "lýðræðis" í kosningunum um daginn.
Það vantaði bara skáldið, kennt við fjörð skerjanna, til að toppa fjörið ... sem samt misheppnaðist, það varð ekki allt vitlaust, nefnilega, flest fólk orðið vant svona rugli og skilur tilganginn, oft pjúra illgirni, sem liggur að baki.
Þar sem ég sat í rólegheitum og snæddi síðbúinn hádegisverð (Eldum rétt) hringdi dyrabjallan. Frammi var sölumaður sem reyndi að fá mig til að styrkja Krabbameinsfélagið. Ég lét ekki bitna á honum "langrækni" mína í garð félagsins sem lagði niður brjóstaskimum fyrir Skagakonur, eða skerti þjónustuna þannig að konur þurftu að fara til Reykjavíkur til þess, og sumar hættu alveg að fara, eins og lagt var upp með, hlýtur að vera. Það vantaði lækna til að lesa í myndirnar (sem þeir gerðu fyrir framan tölvu í Rvík) og því varð með öllum ráðum að fækka konum.
Vegagerðin er í sömu vegferð, ætlar að draga mjög úr strætóþjónustu við Akranes, leið 57 mun svo á endanum pottþétt hætta að stoppa á Skaganum ... til að hjólkoppunum verði ekki stolið ... (Vegagerðin svaraði aldrei bréfinu frá mér þótt það væri skrifað á kurteislegu, hálfgerðu stofnanamáli, en þar komu fram skoðanir farþega sem benti á að eðli strætó væri að stoppa oft til að taka farþega upp í. Það væri afturför að breyta í rútusamgöngur þar sem fólki var skutlað í veg fyrir rútuna. Missti við þetta allt álit á Vegagerðinni. Hefur Akraneskaupstaður getu og vilja til þess að láta innanbæjarstrætó ganga langt fram á kvöld og allar helgar, eyði stórfé til að Vegagerðin geti sparað?
Ég sagði manninum frá Krabbó að allir mínir styrkir væru í gegnum netið. Hann brosti fallega, sennilega með samviskubit yfir því að trufla fólk svona á laugardegi, og spurði svo: En ... ertu nokkuð vildarvinur félagsins? Eins og það væri ofboðslega eftirsóknarvert. Þá sagðist ég vera vildarvinur svo margra, sem er rétt, að ég gæti alls ekki bætt við mig, sem er líka rétt. Svo kvaddi ég og óskaði honum alls hins besta í huganum. Ég er ekki langrækin að eðlisfari, en hét því bara þarna í denn að styrkja aldrei framar félag sem gerði fólki erfiðara fyrir, viljandi.
Ætlunin var að byrja að jólaskreyta í dag en hver nennir því þegar Liverpool og Fulham keppa í fótbolta (og heilum níu mínútum bætt við)? Annars hékk ég í símanum í sófanum og fékk alltaf skilaboð í gegnum FotMob-appið: um rauða spjaldið, skoruðu mörkin og það allt nokkrum sekúndum ÁÐUR en sjónvarpið sýndi það, svo ég gat risið upp og horft ... Sem betur fer unnum við frækilegan varnarsigur (3-3), einum manni færri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2024 | 22:09
Tvö störf, ein kattkynsstjarna og mörg ráð
Upp úr hádegi í dag skellti ég mér í skjört og bomsur, pantaði bíl hjá Hreyfli og hélt síðan af stað í atvinnuviðtal í ljómandi fínni drossíu. Starfið er á sama sviði og það sem ég vann við hjá elsku Símenntun Vesturlands, eða að kenna útlendingum íslensku. Samt allt öðruvísi, aðrar kennsluaðferðir og sannarlega ekki síðri. Gaman að mæta í dag því þetta var lokadagur og mikil gleði ríkti með útskriftina. Hitti þar óvænt gamlan nemanda og það urðu fagnaðarfundir. Þetta var mjög langt atvinnuviðtal (mátti samt ekki vera styttra) og ég varð sífellt hrifnari, langaði mikið til að vinna þarna. Og ... viti menn, fyrsti vinnudagur minn þarna verður 6. janúar á nýju ári.
Nú bara verð ég að fara að læra á reykvíska strætókerfið, er svo illilega dottin út úr því eftir að hafa kunnað nánast allar leiðir utanbókar (sem unglingur), en giska á að til að sleppa við langar göngur í hálku eða án hálku (Klappið gefur 17 mín. í fyrsta strætóvali) væri hreinlega einfaldast að taka strætó nr. 12 hér á hlaðinu (2-3 mín. labb skv. Klappinu) og fara með honum upp í Breiðholt, í Mjóddina - og síðan þaðan með einhverjum vagni sem ég er ekki búin að finna út enn, í vinnuna sem er í 108 Reykjavík. Hitt nýja starfið mitt er í 200 Kópavogi og ég gæti gert nákvæmlega það sama með tólfuna, nema leið 4 fer þangað frá Mjódd. Sá í dag myndir frá biðstöðinni í Mjódd ... ekki fögur sjón, enda tekur því varla að ýta undir gleði og hamingju hjá strætólúserum, þeir enda hvort eð er flestir á því að kaupa sér bíl.
Sennilega hef ég ekki tíma til að finna mér þriðja starfið, það finnur mig vanalega, eða ég fær sendar bækur eða annað til yfirlestrar sem er alltaf mjög skemmtilegt. Fyrstir komu, fyrstir fengu ... mig. Svo þau sem ætla að hafa samband eftir áramót (tvö störf sem ég hef ekki fengið svar við) verða víst að sætta sig við eitthvað annað fyrst þau gripu ekki gæsina strax (tíhíhí).
Hvernig heldur maður svo upp á að hafa fengið góða vinnu, tvö áhugaverð og pottþétt skemmtileg störf frá og með janúar? Jú, með því að fá sér kaffibolla og rommkúlur.
Ég uppgötvaði allt í einu að jólin eru alveg að koma og ég eftir að vera með jólahlaðborð fyrir mig og leynivinaleik, nema ég sleppi jólaglögg út af rúsínum. Mamma varð eitt sinn mjög "lasin" þótt hún borðaði bara ávextina í bollunni ... svo það væri ábyrgðarhluti að láta aðra starfsmenn mína, sem eru alltaf ég, borða rúsínurnar. Ég setti undir mig hausinn og stefndi á Skeifuna, fengist ekki örugglega eitthvað flott og algjörlega óvænt sem ég gæti gefið sjálfri mér, t.d. í Hagkaup?
En ... fyrst var það Diego, sæti Skeifukötturinn í A4. Ég keypti einn jólagjafapoka undir fyrirferðarmestu jólagjöfina frá mér í ár og einhenti mér síðan í að klappa frægustu kattkynsstjörnu landsins. Diego nennti ekki einu sinni að vakna, svo upptekinn var hann við að vera sætur og steinsofandi köttur ofan í körfu á ljósritunarpappírsbunkanum vinstra megin þegar komið er inn.
Hagkaup tók mér með kostum og kynjum. Ég ætlaði ekki að kaupa neitt sérstakt en tókst þó eyða ansi hárri upphæð þar. Nokkrar jólagjafir fengust þar (svona sætt aukadót) og sjálft hangikjötið. Tók sénsinn og keypti Hagkaupshangikjöt með minna saltmagni. Það er hamingjusamlega komið inn í ísskáp ... jólaís í frysti og ég keypti líka litlar frosnar vöfflur, meira upp á von og óvon, lét stráksa vita að mig vantaði brauðrist á heimilið ... en hann er ólíkindatól og kaupir eflaust gjafakort í Bláa lónið handa mér ... djók. Allir sem þekkja mig vita að ég er ekki hrifin af neinu svona blautu nema þá helst kaffi. Alls ekki neinu spa-dóti, hrollur!
Einnig keypti ég rommkúlurnar, eina vínsælgætið sem mér finnst gott, á þessum fyrra degi leynivinaviku. Ég er mjög spennt að vita hvað ég gef sjálfri mér á morgun, seinni dag leynivinavikunnar. Í kvöldmat snæddi ég jólahlaðborð ... en viðurkenni að mig langaði bara í sushi og keypti það, og það var æðislegt. Veit samt ekkert hvort ég geri eitthvað varðandi jólaglöggdæmið en hlýt að leysa það einhvern veginn.
Vildi að ég hefði tekið með mér í 108-túrinn í dag, sjúklega fallega vatnslitamynd sem ég fékk í innflutningsgjöf - það er víst afar gott innrömmunarverkstæði þarna í Ármúla 20. Ég þurfti eiginlega að velja á milli Kringlu og Skeifu, og valdi það sem þýddi styttri gönguferð (auðvitað). Í Kringlunni, uppi á annarri hæð, er víst hægt að kaupa sér fyrirframgreidd strætókort. Held að mig langi mest í þannig en svo gæti ég auðvitað þurft að fá mér mánaðarkort. Íslenskukennsluvinnan er fjórum sinnum í viku, frí á föstudögum, og hin vinnan meira eftir samkomulagi. Kannski næ ég fjögurra daga vinnuviku? Er það samt ekki of lítið fyrir vinnualka? Ég gæti farið að þrífa eftir kúnstarinnar reglum eða skreyta kökur - og birta á Instagram. Þá fæ ég loksins ókeypis skyr og snyrtivörur, kannski. Föstudagsfegurð - ef ég verð með snyrtivörukynningar. Föstudagsfínirí fyrir þrifin, föstudagsflottheit ef ég fer í kökurnar. Er hægt að læra almennilega á Instagram t.d. á YouTube? Kann eiginlega ekkert.
Facebook rifjar upp:
Bubbi Morthens varð fimmtugur 6. júní 2006. Afmælistónleikarnir hans hétu 06.06.06. Svo kom 12. des. 2012, og þá skrifaði Matti Matt úr Dúndurfréttum m.meiru: 12.12.12. Er þá Bubbi Morthens ekki 100 ára í dag? (Elska svona (pabba-)brandara)
Ég var frekar dugleg að skrifa um sætukarlana mína og stoppistöðina kennda við þá, á feisbúkk í denn. Þeir komu inn í leið 57 (frá Akranesi) í Mosó og voru líka samferða smáspotta í leið 24 frá Mjódd (þegar ég vann í Garðabæ). Ég man að annar starfaði sem lögga á Dalvegi.
Fyrir 11 árum á Facebook:
Á Dalvegi: Horfðuð þið á Sirkus Billy Smart í sjónvarpinu á gamlárskvöld þegar þið voruð litlir? spurði ég tvo töffara af sætukarlastoppistöðinni í Mosó. Þeir svöruðu hissa: Þegar við vorum litlir var ekki komið sjónvarp á Íslandi. Þessi óformlega könnun breyttist óvart í hið mesta skjall.
Þarna ætlaði ég að fá þá í lið með mér ... ég þoldi ekki þessa þætti nefnilega og fékk nokkra smekklega fb-vini til að samsinna mér í því fyrir neðan þessa gömlu stöðufærslu. Ég þjáðist yfir þessum þáttum, fannst þeir tefja áramótin frá því að koma svo ég get ekki horft á neitt sirkustengt nema kannski mögulega í hryllingsmyndum.
Matthea: Alveg sammála, þoldi ekki Billy Smart.
Hildigunnur: Úff já, í minningunni voru þetta bara fáklæddar en glimmervæddar stúlkur sem róluðu sér. Leiðindin uppmáluð.
Þórdís: Þeir klikka ekki MOSÓkarlarnir.
Þorkell: Þér til gamans ... (og svo fylgdi slóðin á wikipedia-síðu sirkussins.)
--------
Konan mín bað mig um að fara með kóngulóna út í stað þess að drepa hana. Ég fór út, fékk mér nokkra drykki. Næs gaur. Hann er vefhönnuður.
Bókamálin:
Ég er á síðustu millimetrunum í bók á Storytel, þeirri annarri sem telur niður dagana til jóla. Rómantísk dramasaga, smáfyndin á köflum, rembist samt aðeins við léttleikann. Rithöfundar, nefni engin nöfn, þurfa að fara að gyrða sig í brók varðandi rómantíska sögustaði. Einu staðirnir sem þeim dettur í hug eru bakarí og bókabúðir, helst í Skotlandi en Svíþjóð kemur líka til greina. Hvað varð um skrifstofur eða skemmtiferðaskip, fiskbúðir eða fóðurblöndur?
Svo verð ég alltaf pínkupirruð á sögupersónum (kvenkyns) sem ofhugsa hlutina. (Við áttum dásamlega ástarnótt í gær en hann virkar svo kuldalegur í dag, sama þótt hann sé á kafi í vinnu, hvað ætli mágkona mín hafi sagt um mig við hann í gær þegar hann sótti hana á rútustöðina? Örugglega eitthvað slæmt ...)
Mynd: Bókahilla í vinnuherberginu, þar leynist engin spjaldtölva en ég ætla samt að leita aftur, hillu fyrir hillu, um helgina, tvær hillur við vegginn á móti. Sjá umfjöllun ögn neðar.
Þoli heldur ekki þegar konur í bókum tala illa um t.d. fótbolta, eins og það sé algild skoðun okkar stelpnanna. Aldeilis ekki! Ég þekki karla sem nánast hata fótbolta og myndu eflaust fá hroðalega útreið í rómantísku bakarís- og bókabúðabókunum fyrir vikið. Ég er ekki að biðja um bækur á borð við Ástir og örlög á holdsveikrahælinu ... ég þarf bara nýjar hugmyndir ... fyrir sjálfa mig. Ég hef prófað að hanga í bakaríum, alveg árum saman og það er sko það fitandi að aðeins undirborðslegir karlar litu við mér! Vann meira að segja eitt sinn í bakaríi (fyrir milljón árum) en uppskar ekki hið minnsta daður. Bókabúðir eru ögn skárri en hér í 104 finnst ekki bókabúð, eða jú, Nexus í Álfheimum sem er samt ekki hefðbundin bókaverslun - en hér eru tvö bakarí, í Holtagörðum og Álfheimum. Sjáum til þegar ég nenni að fara að ganga svolítið um hverfið, svona þegar vorið nálgast.
Í dag fór skrefafjöldinn vel yfir 2.000, samt var vont veður - og þungar byrðar (hangikjöt og fleira) sem urðu til þess að ég gekk ekki alla leið upp við heimkomu. Það er erfiðara að fylgjast með skrefum hér heima, ég hreyfi mig helling, mun meira en í himnaríki, veit ekki hvað veldur, en þyrfti að venja mig á að geyma símann í vasanum því hann mælir auðvitað engin skref á meðan hann liggur kyrr einhvers staðar. Ég tími varla að kaupa mér heilsuúr, sjáum til á nýju ári þegar ég verð farin að vinna á fullu.
Póstkassinn minn hérna niðri er nú meiri dýrðin og iðulega uppspretta margslunginna gleðitilfinninga. Þangað rata velkomnar bækur, jólakort (bráðum, þetta eina), tilkynning frá borginni um vegleg fasteignagjöld (svo dásamlegt að vera boðin velkomin til borgarinnar af borginni) og í dag beið mín geisladiskur og fallegt bréf! Ég VISSI að það hefði verið rétt ákvörðun að fara með vinkonum mínum í kosningakaffi hjá VG þar sem ég hitti elskuna hann Gumma eftir 50 ára aðskilnað, þennan sem vann með mér nánast ófæddri, ég var svo ung, í Ísfélaginu í Vestmannaeyjum. Ég vissi svo sem að hann væri í Spöðum, þeirri flottu töffarahljómsveit, en ... hann var að senda frá sér geisladiskinn Ferhendur Tjaldarans (Bergþór Pálsson syngur lög Guðmundar Guðmundssonar við ljóðaþýðingar Magnúsar Ásgeirssonar og fleiri kvæði). Hlakka til að hlusta, jafnvel þótt þetta líkist ekki Jethro Tull, eins og hann bendir á!
Inni í stofu, í hillu fyrir neðan sjónvarpið, bíður þessi fíni ghettoblaster sem hefur alveg bjargað mér þegar mig langar að hlusta á tónlist í stofunni. Youtube-tónlistarveitan hefur bjargað tónlistarhungri mínu í vinnuherberginu en veggir hér eru svo þykkir að ég yrði að stilla á hæsta ef mig langaði að hlusta á tónlist við t.d. eldamennskuna. Það er ekki fallegt að gera í fjölbýlishúsi. Á reyndar tól og tæki til þess að hlusta víðar með aðstoð símans en þau eru sennilega á sama stað og týnda spjaldtölvan. Ég fékk annars fínar ábendingar á feisbúkk í gær um mögulegan felustað tölvunnar:
Ertu búin að leita í fötunum þínum, t.d. nærfötum?
komment: Gurrí er einmitt sú manngerð sem er útsett fyrir að týna raftækjum innanklæða ...
komment: ... meinti sko í fataskápnum.
Er hún í blaðagrindinni eða í bókaskápnum?
Ein sagðist tala við meinstríðinn löngu látinn afa eiginmannsins (sem hún hitti aldrei) og biðja hann um að skila hlutnum ... getur svo gengið að honum skömmu seinna. (Þetta er svona Harry Potter-hjálp, eins og mig vantar)
Önnur sem kommentaði þekkir konu, Chippewa-indjána, sem heldur því fram að hús eigi það til að taka hluti ... og skila þeim svo þegar þeim sýnist. Og þegar þau skila taka þau jafnvel eitthvað annað í staðinn!
Mynd: Helgin fer líka í að grannskoða þessar hirslur, bæði hvítu og svörtu. Búin með skúffur og skáp: engin tölva, hillur skoðast um helgina, tvöfaldar raðir nefnilega ... og svo eru blaðabunkar (tímarit) neðst í svarta skápnum.
Það var styst frá borðtölvunni inn í svefnherbergi til að opna efstu skúffuna í kommóðunni og gramsa í nærfötum og náttfötum. Engin tölva. Blaðagrindin: tékk, ekki þar. Bókahillur eru þrjár í vinnuherberginu, tvær háar, ein lág. Sjá mynd hér ofar af annarri háu við hliðina á skrifborðinu. Svo enn meira af bókum í samstæðunni inni í stofu. Ég myndaði mögulega staði ... en fataskápurinn inni í herberginu mínu liggur líka undir grun ef ekkert finnst í bunkum og hillum. Þarf að sækja jólaskraut inn í skápinn og ætla að leita vandlega í leiðinni. Helgin fer í að skreyta og leita ... fínasta plan. Gestir samt velkomnir, nóg kaffi til, ef ég fæ nægan fyrirvara baka ég smákökur! Passið ykkur á hálkunni fram undan, elskurnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2024 | 16:37
Týnda tölvan og möguleg tilvistarkreppa kattanna ...
Furðulegt háttarlag húsmóður ræður hér ríkjum að mati kattanna. Þeir stara á mig þegar ég veð um íbúðina og opna hinar ýmsu hirslur til að gramsa í þeim. Horfi annað slagið rannsakandi, jaðrar við grimmdarlega, á bókahillurnar í stofunni og kíki líka á aftari bókaraðirnar í leit að einhverju svörtu (hulstrið) í bókarstærð. Jú, spjaldtölvan er týnd og hefur ekki sést síðan í október. Ég hafði samband við þau sem hjálpuðu mér við að koma mér fyrir en ekkert þeirra gekk frá spjaldtölvunni neins staðar, eins og ég vonaði. Mér var bent á að leita í blaðabunkum (tímarit) ... sem eru reyndar núna komnir í snyrtilega bunka á smekklegum stöðum, auðvitað, og ein giskaði á að hún væri enn ofan í kassa - held samt ekki því ég man eftir henni hér í litla vinnuherberginu þegar allt var í kössum og drasli. Held að ég hafi stungið henni einhvers staðar á sniðugan stað og kannski finnst hún ekki fyrr en eftir 18 ár, þegar ég flyt næst, ef ég held í hefðir. Hvar er Harry Potter þegar maður þarf á honum að halda? Hlusta núna á Sálumessu Mozarts en það er tilviljun, tengist ekki hvarfinu, ég hef ekki gefið upp alla von. Ég er vissulega berdreymin (sjá nýlegt blogg) en miðað við árafjöldann á milli þeirra tveggja drauma er fljótlegra að flytja eftir 18 ár til að finna hana.
Annars eru kettirnir enn svolítið að finna taktinn eftir flutningana, og kannski aðallega að eftir hafa misst Kela sem öllu stjórnaði. Hann lék við Mosa (10) og Krumma (13) til skiptis, þeir tveir hafa aldrei verið sérstakir vinir (alls ekki samt óvinir en stundum abbó ef hinn fékk meiri athygli) eða leikið sér saman, þeir gert tilraunir nokkrum sinnum hér en það verður svo ekkert úr því. Mögulega tilvistarkreppa.
Krummi hefur orðið enn meira kelinn og vill nánast liggja ofan á andliti mínu til að komast enn nær mér, svo mikla ást sýnir hann. Hann nánast kæfir gesti mína í gæsku og suma meira en aðra.
Mosi vill alltaf vera nálægt manni, eltir mig nánast í sturtu, og sækist eftir klappi. Báðir sofa mikið sem er kannski eðlilegt, enda svo sem farnir að eldast. Ég nota rauðan leiserpunkt fyrir Mosa til að elta svo hann hreyfi sig meira en ... hann hleypur mestmegnis í spik, elsku karlinn. Ég, gúglmeistarinn sjálfur, kíkti á netið og leitaði að fræðslu. Sá þar ráð um að sniðugt væri að leika við þá á daginn til að örva þá, ég keypti reyndar upptrekkjanlega mús nýlega sem Mosi nennir að elta í tíu sekúndur, þriðja hvern dag. Ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur af þeim, þeir eru heilsuhraustir en kannski aðeins of ungir til að leggjast í kör. Hluti af þjálfun þeirra af minni hálfu er að hafa opnað aftur fyrir efri skápana - þeir þurfa að hoppa svolítið hátt upp, reyndar ekki alla leið af gólfinu, heldur af stól, og svo niður aftur, það gerir þeim vonandi bara gott.
Myndin af köttunum var tekin tveimur dögum eftir flutningana, þeir búnir að uppgötva ævintýraskápinn sem hefur verið griðastaður þeirra þegar hundar og litil börn koma í heimsókn. Þeir eru vinalegir hvor við annan en ég vona að þeir fari að leika sér saman. Ég fór að rannsaka allar ljósmyndir sem ég tók eftir að ég flutti, eða þarna í október, en sé ekki spjaldtölvuna á neinni þeirra. Hún er á of "góðum" stað.
Hvað bendir til þess að þú sért í "sértrúarsöfnuði" þótt þú gerir þér ekki grein fyrir því sjálf/ur?
Margir svöruðu einhverju sem tengdist Trump, MAGA (make America great again) og öðru í bandarísku samfélagi, um Vísindakirkjuna, babtista og fleiri kirkjur, byssueign ofl. en sitthvað fleira fékk að fylgja með:
- Þú veist svo miklu betur um flest málefni en sérfræðingar með langt nám að baki.
- Þú veist að það er merki um sjálfstæða hugsun að synda móti straumnum í hvaða máli sem er.
- Þú ferð að hatast við eitthvað sem þú gerðir ekki áður, til að falla betur inn í nýja hópinn þinn.
- Leiðtoginn hefur alltaf rétt fyrir sér.
- Þú gengur bara í pilsi/serk og ert hætt að láta klippa þig.
- Þú hættir að fylgjast með fréttum, enda hvort eð er allt falsfréttir til að hræða almenning til hlýðni.
- Þú veist að ýmsar reglur samfélagsins eru til þess gerðar að ná enn meiri stjórn á okkur.
- Þér er ráðlagt að vera í minna sambandi við gamla vini og ættingja, enda eru þau ekki jafnupplýst og þú.
- Nýju vinir þínir vita nákvæmlega hvernig á að leysa vandamál heimsins.
Tíu bíómyndir ... með mesta áhorf allra tíma
1. Titanic
2. E.T.
3. Galdramaðurinn í Oz
4. Stjörnustríð
5. Hringadróttinssaga
6. Mjallhvít
7. Terminator 2 (sem hét hvað á íslensku?)
8. The Lion King (var það þýtt yfir?)
9. The Jesus Film (?)
10. Guðfaðirinn.
Man hreinlega ekki hvort ég var búin að birta þennan lista yfir bíómyndir áður hér á bloggi ... og veit heldur ekki hvort þetta er rétt, eða að þessar tíu myndir eigi áhorfsmetin. Það er alveg trúlegt svo sem. Ég fór með mömmu í bíó til að sjá Titanic og mig hefur aldrei langað til að sjá hana aftur. Svona sannsögulegar myndir enda svo margar illa og lífið er of stutt fyrir slíkar sorgir. Mig langar að fara að horfa á ofsavæmnar jólamyndir og til þess vantar mig týndu spjaldtölvuna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 35
- Sl. viku: 828
- Frá upphafi: 1515923
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 701
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni