Færsluflokkur: Bloggar
10.12.2024 | 19:16
Ástarleiðrétting, uppgötvun korter í jól og útlitsfordómar
Bloggfærsla gærdagsins innihélt alvarlega villu ... Mér varð virkilega á í messunni þegar ég hélt því fram að ég hefði verið í sambandi við David Gilmour, gítarleikara Pink Floyd. Svo margir kærastar, svo stuttur tími, svo mikil gleymska. Það hef ég mér til afsökunar.
Frekar slæm mynd af Ginger hægra megin með David var það lík mér (vinstra megin), svona fljótt á litið, að ég gleymdi að kíkja í Handbók veiðikonunnar sem ég hef haldið nokkuð samviskusamlega síðan 1978. Ég var auðvitað au pair í London 1976, ekki byrjuð að halda skrá þá, og þekki þar að auki nokkra tónlistarmenn (Gummi bróðir kann t.d. á gítar) og ákaflega eðlilegt að ruglast. Ég bið Ginger og David innilega afsökunar og einnig Polly, núverandi eiginkonuna. Þetta kennir mér bara að fá mér aldrei framar ljósar strípur og permanent!
Ég er komin af afskaplega dökkri yfirlitum-móðurætt og hefði aldrei átt að lýsa á mér hárið. Mun snjallara að gera það núna þegar gráum hárum er farið að fjölga.
Þvottavélarsérfræðingur minn, snillingurinn hún Jenný, fékk líka á sig lygi nýlega hér á bloggi þegar ég sagði hana vera búsetta úti í Noregi. Auðvitað býr hún í Svíþjóð, ég vissi það en skrifaði samt Noregur. Afsakaðu þúsundfalt! Getur verið að gervigreindin sé farin að rugla svona í manni? Jafnvel rússneskir eða fyrrum ísraelskir leyniþjónustumenn sem eru víst til alls vísir þegar kemur að því að rugla í ríminu?
Reyndar er víst bara greindarmerki að vera utan við sig og bulla, skilst mér og sennilega hefur greindin bara þvælst fyrir mér þegar ég "ranglendaði" hana.
Elsta vinkona mín, ekki að árum samt, kíkti loksins í kaffi til mín í dag í Ævintýrahöllina. Við kynntumst í Nýju blokkinni á Akranesi, kannski fjögurra eða fimm ára gamlar, lentum í sama bekk í barnaskóla og höfum haldið tryggð hvor við aðra alla tíð síðan. Hún er yfir sig hrifin af íbúðinni (eins gott), mætti með himneskar veitingar, eins og heimabakaðar smákökur, snúða og svo brauð sem hún greip með úr frystinum hjá Brauð&co. Við þiðn kom í ljós að brauðið var með ekki bara rúsínum heldur kúrennum líka. Ég hélt ró minni, merkilegt nokk, en hún var hugsandi yfir skorti á innihaldsmerkingum. Hún hefði aldrei keypt brauð með þessu innihaldi, en hún gat svo sem borðað það, viðurkenndi þessi mikla hetja og tók afganginn með heim, enda er ég ekki enn búin að koma mér upp fuglum hér í bænum sem þiggja afganga.
Það er náttúrlega ekki nokkur hemja að geta ekki borðað hnetur, möndlur, döðlur og rúsínur. Þetta fyrsta og annað er svo sem ofnæmistengt en hitt matvendni. Ég beit reyndar óvart í gráfíkjustykki um daginn og varð samstundis flökurt svo fíkjur eru í hópnum og hafa svo sem alltaf verið.
Ég er að uppgötva þessa dagana, mér til hryllings, að ég er ömurleg húsmóðir, kann vissulega að halda afmælisveislur og ryksuga en matarboð ... bara alls ekki. Man eftir tveimur í fljótu bragði, á Hringbrautinni (1988-2006). Skellti hrygg inn í ofn og allt var tilbúið klukkan 19 ... gestirnir þrír mættu klukkan 23 og áttu varla orð yfir hvað mjúki, ofeldaði hryggurinn var góður, það var ekki búið að finna upp gemsa þá svo ég beið hugstola eftir andlátsfréttum af þeim. Svo hef ég kannski tvisvar eða þrisvar, fyrir löngu, boðið upp á bestu súpu í heimi, grænmetis með chili ... mér finnst hún mjög góð þótt ég sé ekki mikil súpukona. Jú, eitt sinn stóð ég heilan dag og undirbjó indverskan mat fyrir 2-3 vini - allt í lagi maturinn en samt var ein sósan þunn en átti ekki að vera það. Hefði ég keypt Korma-sósu í krukku og sett yfir kjúkling hefði það bragðast betur og einnig litið betur út ...
Ég hef árum saman fengið nokkra ættingja í hangikjöt á jóladag. Það getur ekkert klikkað þar, ég sýð hangikjötið á Þorláks eftir leiðbeiningum á umbúðum, kæli það og geymi í ísskáp. Mamma bjó alltaf til uppstúfið en systir mín tók við af henni með það. Svo tókst mér af mikilli snilld að opna dósir með baunum og rauðkáli, og kaupa laufabrauð ásamt malti og appelsíni. Ógurlega gaman, alltaf. En ... hangikjöt fer ekkert sérlega vel í fólk (ég fæ t.d. bjúg en læt mig hafa það einu sinni á ári) og sífellt færri borða það, virðist mér. Ég yrði að finna eitthvað annað með því Pálínuboð kemur ekki greina. Lausnamiðaða systir mín stakk upp á að ég hefði t.d. lítið lambalæri líka og ... mér hefur nánast verið flökurt af stressi síðan.
Öll eldamennska mín miðast nefnilega við hversdagsmat og síðustu árin oft Eldum rétt-rétti. Ég kíkti á jólamatseðilinn 2024 hjá Eldum rétt og íhugaði að kaupa kannski af þeim auka-jólamat og elda eins og meistari ... Eina sem kemur til greina fyrir jóladag er Wellington-steik ... og hnetueftirréttur - AFTUR, sá sami og í fyrra og um páskana og bara alltaf á hátíðum. Hnetuofnæmi er eitt algengasta ofnæmi í heimi, elsku Eldum réttið mitt!!!
Ég kann auðvitað ekki við að bjóða upp á lasagna eða plokkfisk um jólin svo ég verð bara að játa vanmátt minn þegar kemur að matarboðum. Með aðstoð hjálpsamrar systur sem hristir veislur fram úr erminni án þess að blikna eða svitna, og þolinmóðra gesta býst ég við að þetta gangi samt upp. Ég viðraði áhyggjur mínar við litháíska nágranna minn í gær og hann vill meina, eins og systir mín, að læri sé auðvelt að elda og gott að borða, kannski ekki með uppstúfi samt - en það er hægt að kaupa góðar sósur og nýta meðlætið með hangikjötinu!
Þetta er alla vega sagan á bak við uppgötvun mína um hversu hræðileg húsmóðir ég er. Ég hef ekki hugsað út í þetta áður - fer sorglega sjaldan í matarboð og held sjálf aldrei matarboð. Hvernig er hægt að lifa í rúm 50 ár (aldursleynd nema í afmælisveislunni) og komast upp með svona? Ætli sé hægt að fara á skyndi-örnámskeið í Hússtjórnarskólanum? Ef einhver fær hugmynd að einhverju fínu (ekki reyktu), enn einfaldara en læri, þigg ég öll ráð til að taka vel á móti elsku fólkinu mínu án þess að fara yfir um á taugum.
Nýlega sá ég ljósmynd af leikaranum Sean Penn (64) ásamt kærustu sinni, Valeriu Nicov (30) og yfirlýsingu um að þau litu svo bjánalega út saman, ættu illa saman útlitslega ...
Mér finnst svona lagað alltaf bæði hallærislegt og illgjarnt en gat þó ekki annað en hugsað um sjónvarpspar/-hjón sem mér fannst aldrei og finnst ekki enn passa saman útlitslega. Bæði alveg stórhugguleg og svakalega góð og allt það, en ... samt. Sem sagt pabbinn og mamman í Húsinu á sléttunni. Ég legg ekki meira á ykkur ... Ég hugsaði þetta alltaf þegar ég horfði (stundum) á Grenjað á gresjunni í gamla daga en hef ekki hugmynd um af hverju þau passa bara alls ekki saman í mínum huga. Mér finnst þetta ekki oft, hjón og pör iðulega mjög ólík í útliti en passa fínt saman, en í þessu tilfelli hefði ég valið annan leikara með henni eða aðra leikkonu með honum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2024 | 17:09
Endalaus heppni og gæfa, eða hvað ...
Búin að fara í tvö atvinnuviðtöl, fæ annað starfið og byrja eftir áramót, og svo er annað viðtal í vikunni sem ég er spennt fyrir og þar hefst vinnan líka eftir áramót. Spurning hvort ég láti ekki tvö störf duga, ef ég fæ þetta ... langar vegalengdir og þar með tímafrekar strætóferðir spila inn í. Reyndar helgarfrí í báðum svo auðvitað gæti ég bætt við mig vinnu þá. Hvað er að mér? Alveg óvart valdi ég starfsvettvang (eða hann mig) sem ég get næstum verið í til dauðadags.
Ég er svoooo fegin að ég lagði t.d. ekki fyrir mig atvinnumennsku í hnefaleikum eða fótbolta. Vissulega voru fyrirsætustörf áberandi um tíma ... forsíðan á völvublaði Vikunnar 2007 (mamma hélt að ég væri völvan það árið og sagði það öllum!), svo var heilsíðumynd í heilsutímariti um áhrif járnskorts á líkamann. Sjá mynd. Stjörnuljósmyndarinn Raggi Th. tók myndina en hann hefur hlotið mikla frægð um heim allan fyrir rosalega flottar eldgosamyndir. Þessi myndataka var fín æfing fyrir hann, þarna á síðustu öld, svo heit var ég. En mér skilst að maður hætti að þykja fagur eftir því sem árum og hrukkum fjölgar svo fyrirsætubransinn reyndist ekki henta mér þótt ég hafi verið hrukkulítil ótrúlega lengi.
Ég hef svo sem ekkert verið að flíka frægum eiginmönnum eða kærustum lífs míns nema þá í gríni en ég rakst á þessa mynd nýlega og þurfti virkilega að hugsa mig um hvort við David hefðum náð að giftast eða ekki. Þetta var á hryllilega permanent-tímabilinu þegar ég reyndi að verða ljóska sem klæddi mig ekki en ég var líka undir áhrifum frá Önnu frænku sem sagði alltaf að ég myndi giftast manni með ættarnafn. Gurrí Gilmour hljómaði svo vel en mig minnir að við höfum ekki náð svo langt því prinsinn af- æ, sleppum því, ég skrifaði undir þagnareið. En það var gaman að sjá þessa löngu gleymdu mynd af okkur þegar allt lék í lyndi, vikuna góðu sem við rugluðum saman reytum.
Það er reyndar heilt myndaalbúm á Facebook-síðu minni sem heitir Með fræga fólkinu en eftir hótanir um lögsóknir er það ekki nema svipur hjá sjón og engar djarfar myndir eftir. Og þar eru alls ekki endilega gamlir kærastar. Þarna erum t.d. við Sverrir Stormsker (alls ekki kærasti) ... við Gummi bróðir (hann lék pabba Benjamíns dúfu í bíómyndinni), við Nanna Rögnvaldar, við Jason Statham leikari (reyndar ljósmynd af honum), við Jón Viðar og svo framvegis. Ég ætla að taka sénsinn á því að bæta þessari mynd við þar, sennilega í skjóli nætur einhvern daginn til að sleppa við reiði Pollyar núverandi. Náði aldrei að kynnast hinum í Pink Floyd en hef alveg átt gott spjall við strákana í t.d. Gildrunni fyrir tónleika eitt sinn, tók útvarpsviðtal við Dúndurfréttagaura einu sinni, tímaritsviðtal við Baggalút líka, svo ég þekki sko alveg hljómsveitagæja.
Mér líður stundum eins og ég sé fáránlega heppin manneskja en verð að viðurkenna að heppnin er stundum bara vegna einhvers sem ég jafnvel misskildi eða hafði rangar forsendur fyrir og slíkt ... Ég var orðin frekar stressuð þegar ég hélt ranglega að lokagreiðslan fyrir Ævintýrahöllina myndi fara illa með fjárhaginn og rúmlega það ... ég var búin að fá hátt yfirdráttarlán (sem kostaði mig næstum þúsundkall þótt ég hefði algjörlega séð um vinnuna sjálf, rafrænt) og eitthvað stóð þar um að ég mætti ekki nota yfirdrátt til fasteignakaupa sem jók á stressið ... en áður en ég hafði náð að hringja í bankann og ráðfæra mig við einhvern þar, kom í ljós að engin þörf var á yfirdrætti, einhver hafði skrifað ranga tölu á skjal og ég tekið hana trúanlega án þess að taka upp reiknistokkinn minn. Hélt bara að það hefði verið svona brjálæðislega dýrt að flytja. Mér leið samt þarna eins og ég hefði unnið í happdrætti, þannig var líka líðanin þegar ég fann vel falinn og gleymdan lífeyrissparnað á besta tíma núna í sumar, hafði skilist á konu í símtali að hún ætlaði að kalla eftir öllu slíku svo ég hélt að ekkert meira væri til.
Þótt ég hafi keypt nokkuð minni íbúð, þurfti ég að borga á milli, póstnúmer skipta nefnilega máli og 104 er póstnúmer fallega fólksins. Þetta var samt ekkert annað en gleðileg stórheppni, fannst mér, hver þarf lottóvinning þegar fé leynist svona út um allt? Nú hef ég fundið alla mína fjársjóði, og tilveran miðast við að fara að vinna í janúar, tvö störf, þrjú auðvitað ef ég tel verkefnin með sem berast reglulega, eða yfirlestur í tölvunni minni. Næsta ár ætti að verða skemmtilega annasamt. Heilanum fer nefnilega aftur í svona rólegheitum og blóðið hættir líka að renna almennilega, finnst mér, svo ég hlakka virkilega til komandi árs. Leti og rólegheit eru dásamleg blanda um helgar en ég kýs lætin og annríkið á virkum dögum.
Þau sem þekkja mig vita að ég er bókasjúk og t.d. á covid-tímum þegar allt var lokað og læst í samkomubanni slökkti ég á sjónvarpinu, full af mótþróaþrjóskuröskun (sjónvarpsgláp átti að bjarga þjóðinni, munið) og lagðist í lestur bóka með malandi ketti allt í kringum mig.
Heppnin eltir mig nefnilega líka í bókheimum þótt ég sé ekki lengur í þeirri aðstöðu að fá sendar bækur í tugatali (sjúkk samt, ekkert pláss) hef ég fengið nokkrar mjög girnilegar gefins á aðventunni. Ég keypti auðvitað Voðaverk í Vesturbænum þar sem höfundur (Jónína Leósdóttir) gerir okkur Gísla Martein ódauðleg í hreint út sagt æðislegri bók ... keypti líka ljóðabók Þórdísar Gísladóttur, Aðlögun. Eva frænka gaf mér dásemdina Í skugga trjánna (Guðrún Eva Mínervudóttir) sem ég er búin að lesa ... svo bíða mín fleiri: bók Nönnu Rögnvaldar, Þegar sannleikurinn sefur, spennubók með dassi af torfbæjarklámi, bók eftir Einar Örn Gunnarsson, Krydd lífsins, bók eftir Skúla Sigurðsson, Slóð sporðdrekans ... og nú niðri í póstkassa liggur bókin ÓKEI ... uppruni og saga þekktasta orðatiltækis í heimi, eftir Sigurð Ægisson. Gæfa að þekkja rétta fólkið - hver þarf svo sem bókabúðir eða bókasöfn ... tíhíhí, grín. Næstu daga ætti ég að geta hellt mér út í lestur því minna verður um slíkt í janúar ef að líkum lætur.
- ætíð með puttann á púlsinum:
Held að valkyrjurnar þrjár; Kristrún, Inga og Þorgerður Katrín, ættu bara að hætta þessu spjalli sínu um stjórnarmyndun. Hann Frosti Logason hefur sagt opinberlega (sá það á Facebook) að hann hafi enga trú á því að þetta gangi.
- - - - - - - - - - - - - - -
Hvað hræðir þig núna en gerði ekki þegar þú varst barn?
Ansi margir kváðust vera orðnir lofthræddir og voru líka hræddir við að detta en hér koma önnur svör:
- Þegar síminn og dyrabjallan hringja.
- Að meiða mig þegar ég geri eitthvað ævintýralegt.
- Framtíð heimalands míns.
- Að missa heilsuna.
- Framtíðin.
- Að fá óvæntan póst.
- Missa vinnuna, þá heimilið og þurfa að búa í bílnum.
- Framtíð barnabarnanna.
- Næstu fjögur árin ...
- Að Bandaríkin verði fasistaland.
- Dauðinn.
- Að missa vini og fjölskyldu.
- Einvera í ellinni.
- Apar.
- Stríð.
- Að lifa of lengi og klára alla peningana mína.
- Fólk.
- Húsaleiga.
- Konur.
- Trúarbrögð.
- Að lifa börnin mín.
- Karlar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2024 | 23:32
Góður gestagangur, alheimsnaflinn og válynd veður
Tilraunastarfsemi er í gangi núna í Ævintýrahöllinni en rúmteppið er í þvotti og þurrkun ... Þarf ekki að koma alveg þurrt út en bíð spennt, tekur bara klukkutíma þetta prógramm.
Well ... þvotturinn búinn (20 mín.) en vélin gerir enga tilraun til að fara að þurrka ... takk, Elkó, fyrir að láta ekki þýða leiðbeiningar og ljósrita handa Íslendingum, fokdýr þvottavél en við þurfum sjálf að finna út úr þessu, leita að leiðbeiningum á ensku með gúgli (þær komu á Norðurlandamálunum) eða þekkja konu í Noregi sem er snillingur í öllu sem viðkemur þvottavélum og leiðbeiningum með þeim. Það ætti samt ekki að þurfa. Þjónustuskortur er víða, eykst bara, ef eitthvað er, og fátt pirrar mig meira. Ég man svo vel eftir þeim tíma þegar t.d. kaupmenn kepptust við að bjóða bestu þjónustuna. Það var ekkert endilega allt best í gamla daga, síður en svo en þetta mætti laga.
VIÐBÓT:
Systir: Er of mikill þvottur í vélinni?
Ykkar einlæg: Bara eitt lauflétt rúmteppi.
Rúmteppið: Ég er reyndar svolítið þungt svona blautt, sorrí.
Systir: Trúlega of stórt.
Fékk dásamlega gesti af Skaganum í dag, aðra sýrlensku fjölskylduna mína, hin hefur þegar komið (með máltíð í farteskinu, auðvitað). Ég keypti gjafir handa litlu dúllunum (líka þeim á Skaganum), valdi syngjandi stríðinn kaktus sem hermir eftir öllum hljóðum. Bið foreldrana samt innilega afsökunar á látunum ... Þetta leikfang sést oft á samfélagsmiðlum þar sem foreldrar stríða ómálga börnum sínum á fyrsta ári og hræða. Þessar dúllur mínar eru orðnar nógu stórar til að hafa bara skemmtun af þessu. Mér láðist að láta vita með opnunartíma gjafa en efast samt um að krúttin mín hefðu samþykkt að bíða til jóla, enda algjörlega allt í lagi að opna þegar þær vilja. EvuLaufeyjar-kökurnar runnu ljúflega niður með malti og appelsíni sem stelpurnar eru vitlausar í. Að mínu mati langbesti jóladrykkurinn. Mikið hlýja allar þessar góðu heimsóknir undanfarið mér um hjartarætur. Ég held hreinlega að ég hætt að vera intróvert.
Fór í stórskemmtilegt frænkukaffi í gærmorgun, samt mæting kl. 10!!! og horfði hrifin af 6. hæð heima hjá frænkunni í Grafarvogi, beint yfir á 6. hæð í ævintýrablokkinni minni. Lyftan heima hjá henni er lítil EN hún er stækkanleg, svona ef fólk þarf að flytja eitthvað á borð við rúmið sitt ... mínir flutningamenn þurftu, eins og frægt er orðið, að bera rúmið mitt alla leið upp, og tvennt annað sem komst ekki í lyftuna, þar sem ekki er séns að stækka hana. Fólki finnst almennt sniðugt að lyftan mín stoppi á milli hæða hér. Að það þurfi að ýta á 7 og ganga svo niður átta tröppur til að komast á hæðina mína. Eða upp átta tröppur til að komast upp á næstu fyrir ofan. Þetta gæti auðvitað verið gömul leyniþjónustubygging þar sem allt var gert til að rugla ókunnuga í ríminu svo ég ætti kannski ekkert að vera að gefa of miklar innanhússupplýsingar hér.
Ég heyrði brjálæðislega háværa tónlist áðan, eins og verið væri að spila tónlist inni í íbúðinni minni, mögulega hávaða frá trylltum nágranna, og stökk á fætur til að taka betur til ef sérsveitin þyrfti að komast aftur inn til mín en ... þetta var víst bara kókakóla-lestin sem brunaði ótrúlega hratt eftir Sæbrautinni - sem sagði mér samt að ég byggi nánast í nafla alheimsins. Er fasteignaverð ekki örugglega hærra þar sem kókakóla-lestin ekur um einu sinni á ári?
Orkan hefur aukist hjá mér upp á síðkastið (kannski síðan sérsveitin mætti?) en ég ætla samt að fá mér dagsljósalampa til að hressa mig enn meira við. Ótrúlega gaman að vera til í nánast allt nema giftingu (sorrí, strákar) og geta nú vaskað upp strax eftir kvöldmat í stað þess að geyma það til næsta morguns eins og hefur þurft stundum ... Gæti verið að vítamínin séu að kikka inn - loksins. Er ekki byrjuð að skreyta samt, langar að klára að ganga betur frá sumu sem hefur ekki fundið endanlegan stað og ég hætt að sjá - en ekki lengur.
Bókin ofurlanga sem ég skrifaði um nýlega, Miðnæturstelpur, og sagði að hún væri 27 klst. löng í lestri á Storytel var nú ekki nema rétt rúmir 13 tímar, ég veit ekki hvaða tölu ég sá og misskildi. Biðst innilega afsökunar og vona að ég hafi ekki eyðilagt vongleði mjög margra með þessu. Langar bækur á Storytel eru eitthvað sem auðvelt er að elska, ef þær eru sæmilega skemmtilegar og þessi er það.
Vitlaust veður á morgun, skv. vedur.is, en áður en hvessir fyrir alvöru langar mig svolítið (í hitanum sem spáð er) til að þvo suðurgluggann hjá mér, veit samt ekki hvort lárétt og hraðfara rigning geri jólahreingerninguna á glugganum, eina suðurglugga íbúðarinnar, hann er stór og nær yfir allar svalirnar og gefur ágæta birtu, stundum of mikla sól ... Svo eru þrír fínir gluggar í norður, eldhús, herbergi, litla herbergi. Ég er svo góðu vön síðan úr himnaríki að hafa haft glugga á baði og tvo á gangi (fyrrum þvottahúsinu og í kósíhorninu) eða í hverju herbergi hússins og rúmlega það. Ég þarf, þrátt fyrir ágæta glugga, að laga lýsinguna hér, það er of dimmt. Loftljós sem lýsa allt of lítið. Sérstaklega finnst mér áríðandi að hafa góða lýsingu þar sem fólk kemur inn í íbúðina. Lýsing er mjög mikilvæg.
Myndina tók ég áðan og sneri bakinu í dyrnar fram á gang. Þessi sjón mætir mér og gestum mínum þegar gengið er inn og horft beint fram. Skápurinn á móti, efri einingin er iðulega hæli kattanna fyrir gestkomandi hundum og börnum. Krummi (13) náðist í dag áður en honum tókst að stökkva upp í skápinn en slapp svo undir rúm í herberginu mínu. Mosi (10) var örlítið stressaður en vissi samt að hann væri öruggur í skápnum. Stóllinn er þarna fyrir neðan af góðri ástæðu en ég verð auðvitað, sem klikkuð kattakerling, að kaupa fínan kattastiga handa þeim, kannski hringstiga til að spara pláss. Hægra megin fremst, bak við blaðakörfuna, sést í spegil sem ég er að reyna að finna nýtt heimili fyrir, vonandi sem fyrst.
Ástæða myndatöku var auðvitað lýsingin. Hún virðist þó meiri á myndinni en hún er. Lagast mikið þegar ég kveiki á lampanum á píanóinu vinstra megin. Sams konar leiðindaljós (dauft, fúlt, leiðinlegt) er í stofunni og herbergjunum. Er með lampa nánast um allt. Mig vantar góðan lampa í eldhúsið til að gera það bæði vinnuvænna og notalegra. Ég hef ekki notað Pinterest og kann því lítið á það, ákvað fyrir löngu að sleppa sumum miðlum til að eyða ekki of miklum tíma í tölvu eða síma ... en þegar ég leita á Pinterest er eins og ég finni bara greinar, ekki ljósmyndir sem gefa hugmyndir. Þekki ekki marga sem hanga þar og gætu aðstoðað, en ég er reyndar arfaléleg í allri leit, alls staðar á netinu. Næst þegar ég hitti Davíð frænda ætla ég að biðja hann um að kenna mér að tala við gervigreindina og fæ hana þannig til að kenna mér að leita á Pinterest, eða gefa mér góðar hugmyndir almennt varðandi lýsingu og mögulega líka lykilinn að eilífri æsku, endalausri hamingju, tilgangi lífsins (42, ég veit), hver myrti Kennedy Í ALVÖRU og sitt af hverju fleira. Leyfi ykkur auðvitað að fylgjast með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2024 | 23:20
Stór dagur afsals, Batman-bíll en skortur á sérsveit
Afar rólegur og lítt æsandi dagur miðað við undanfarið ... og þó. Ég vaknaði fyrir allar aldir, meira að segja fyrir tíu, og ákvað að drífa mig í afsalsgerðina fyrir hádegi. Gestakomur eftir hádegið ollu því að ég þurfti að klára að ryksuga og taka aðeins til. Ég var afar orkumikil í allan dag, ofsaglöð og ótrúlega fljót að gera allt fínt (kannski 20 mín. með ryksugun). Tókst að slá út ljósum í eldhúsi en fékk litháíska aðstoð (góður granni sem vinnur frá kl. 5 á morgnana fram yfir hádegi) við að ýta á réttan takka frammi - svo nú kann ég þetta.
Tók leigubíl til krúttmolanna hjá Gimli, frábært fólk að vinna þar. Ég skipulagði allt ógurlega vel. Fékk að leggja lokagreiðsluna inn á reikning þeirra áður en ég pantaði bíl frá Hreyfli og í annað sinn á ævinni fékk ég Teslu. Í þetta sinn með geggjuðum dyrum ... sem opnuðust eins og bíldyr í framtíðarmyndum. Það klingdi svo í einhverju fram í, ég gleymdi í hrifningu minni að spenna beltið, í fyrsta sinn í áratugi. Áfram glumdi í viðvörunarbjöllu en þá hafði ég hvílt höndina á sætinu við hliðina ... útskýrði bílstjórinn. Sjúklega næmt kerfi, sagði hann.
Má ég eiga von á því að að bíllinn opinberi t.d. að ég borðaði súrmjólk og kornflex í morgunmat, spurði ég. Too much information-svipur kom á annars mjög hressan bílstjórann og í huganum barði ég sjálfa mig nokkrum sinnum með blautu handklæði í andlitið.
Ég eignaðist skýjahöllina (ævintýrahöllina) rétt fyrir hádegi í dag með því að undirrita nokkur skjöl og láta af hendi stórfé, leigubíllinn beið fyrir utan Gimli og ók mér síðan beinustu leið heim aftur. Þegar ég gekk að húsinu, kallaði flottasti húsvörður í heimi (Bryndís) á mig út um gluggann: "Kemurðu á Batman-bíl!" Ég svaraði játandi, auðvitað var þetta Batman-bíll (sjá mynd) og ég sagðist ýmist ferðast um á slíkum bílum eða þyrlum ... næstum satt (ógleymanlegt þegar ég tók strætó í bæinn um árið og kom heim á Skagann á þyrlu en eftir þá þyrluferð get ég með sanni sagt að ég hafi komið upp á Esjuna því þyrlan kom við þar áður en mér var skutlað heim. Lúxuspía.
Fyrri heimsókn dagsins var um þrjúleytið, verulega indæl hjón, Þóra og Dagbjartur, og ég sló auðvitað í gegn hjá þeim með nýbökuðum smákökum (takk aftur, Eva Laufey). Ég aðstoðaði með yfirlestur á bók sem Þóra var að gefa út. Sjúk, heitir bókin og er krimmi um sálfræðing í klemmu.
Bókin er um sálfæðinginn Emmu sem lifir góðu lífi með eiginmanni og dóttur þegar fortíðin bankar harkalega upp á - atvik sem hún hefur reynt að gleyma í nokkur ár minnir á sig ... spennandi bók með óvæntum endi. Eitt ansi áhugavert í bókinni, var um arfgengu persónuleikakenninguna sem aðalpersóna bókarinnar er spennt fyrir, eins og höfundurinn, í eftirmála kemur góð útskýring á kenningunni. Þar skiptir t.d. máli hvar við erum í systkinaröðinni. Ég er, samkvæmt því, eins og mamma. Elsta systirin eins og pabbi, því hún er stelpa, hefði annars snúist við. Ég hef reynt að máta ýmsa vini og vandamenn við þetta. Ég erfði vissulega sitt af hverju frá mömmu en líka svartan húmor frá pabba, enda er þetta ekki alveg klippt og skorið frekar en annað og líka gert ráð fyrir umhverfi, uppeldi og fleira. Mér finnst þetta alla vega mjög skemmtilegt og gaman að fá þetta inn í spennubók. Dagbjartur er víst duglegur að sannreyna þessa kenningu, jafnvel á ókunnugum sem halda sumir að hann sé einhvers konar sjáandi, svo oft passar þetta hjá honum.
Seinni heimsókn dagsins var frá húsfélagsskvísum af Skaganum, formanni og gjaldkera. Ég, eitt sinn riddari húsfélagsins, yfirgaf þær í október og síðan hefur víst verið afskaplega rólegt í húsinu, að þeirra sögn. Ekkert bold and the beautiful-ástand, allir stilltir. Sem segir kannski ýmislegt. Þeim finnst ég flutt í hálfgert háskahús, það eru 32 íbúðir í stigaganginum sem býður hættunni heim og að auki er vínbúð handan götunnar (hélt að þær vissu að ég hata gönguferðir). Samt held ég að þær öfundi mig rosalega af heimsókn sérsveitar í fyrrakvöld - og mér sýndist á augnaráðinu að þær héldu að þetta hefði verið eins konar vígsluathöfn, nú væri ég viðurkenndur íbúi fyrst ég fríkaði ekki út. Kannski misskildi ég alveg augnaráð þeirra og þær bara svona yfir sig hrifnar af nýbökuðum smákökum og Nóakonfekti sem ég bauð upp á. Norðmennirnir sem eiga Nóa Síríus núna ættu nú samt að passa sig, að okkar mati, að verðleggja sig ekki út af markaðnum. Ef einhver stefnir á að gefa mér kíló af Nóakonfekti í jólagjöf, bendi ég á minni og þar af leiðandi ódýrari konfektpakka með bara fylltum molum, en það eru nefnilega einu molarnir sem ég borða. Stórtap fyrir Ingu vinkonu því hún fékk alltaf "vondu" molana mína sem hún leit á sem bestu molana.
Myndin (neðsta) birtist fyrir nákvæmlega einu ári á feisbúkksíðu minni og var spá fyrir árið 2024. Ég ákvað að reyna að láta allt rætast, bara upp á grín, aðallega þó til að gleðja véfréttina, en verð mögulega að játa mig sigraða, eitt atriði af fimm er nú bara alveg frábært ... það eru 26 dagar eftir af árinu og lífið hér í borginni fullt af óvæntum atburðum til þessa.
Ég veit hvað ég ætla að gefa sjálfri mér í jólagjöf ... Ekki bók, að þessu sinni (ja, kannski bara eina eða tvær) heldur svokallað dagsbirtuljós.
Kona hér í húsinu mínu fer í ljósbað í svona 20 mín. á dag og segir það gefa sér mikla orku í skammdeginu. Ég hef verið frekar syfjuð og dösuð (en glöð samt) undanfarið sem gæti verið myrkrinu að kenna, samt er ég alls ekki sóldýrkandi.
Þar sem ég þarf ekki að hlaupa út í vinnu á morgnana hef ég svo sem lítið gert til að laga þetta, vissulega tekið D-vítamín sem er gott en tvö sprey á dag nægja kannski ekki yfir myrkasta tímann.
Skilst að svona lampar séu ekki svo dýrir en geri ótrúlega mikið fyrir orkuna. Mér veitir ekki af meiri orku. Ég er bara komin með eitt jólaskraut, lítið tré sem þyrfti nú samt að skreyta ... ja, reyndar tvö skraut, elskurnar af Skaganum færðu mér bleikan, mjög fallegan hnotubrjót í innflutningsgjöf.
Mér finnst nú allt í lagi að leyfa jólunum í ár að koma og fara áður en fólk fer að pæla í þeim næstu, en ég sá í dag á samfélagsmiðlum að jólin 2025 verða stórubrandajól. Þá verður 24. des. á miðvikudegi, jóladagur og annar í jólum á fimmtudegi og föstudegi. Svo kemur helgin ...
Ég kíkti fram í tímann á almanakinu í gemsanum til öryggis, rétt skal vera rétt á þessu bloggi, og sá einnig að ég á afmæli á þriðjudegi 2025. Finnst líklegt að ég haldi upp á það með því að bjóða 70 eða 80 allra nánustu í kaffi og tertur. Fyrst ég kom yfir 90 manns í 56 fermetra íbúðina mína á Hringbraut ætti að fara ágætlega um gestina í 70 fermetrum, eða svo. Stórar svalir og allt.
Hef bara Mosa í búri, því hann hoppar út um alla glugga (alla vega einn, einu sinni) og niður af öllum svölum (alla vega niður af einum, einu sinni). Hann fannst sem ungur kettlingur lafhræddur ofan í bílvél á Akranesi, enginn veit hvaðan hann kom. Allt þetta vesen á honum þýðir bara eitt: hann á aðeins 6 líf eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2024 | 20:01
Draumar sem rætast ... seint og um síðir
Einhvern tímann á fyrrihluta níunda áratugarins, jafnvel fyrr, dreymdi mig æsispennandi draum um svartklædda lögreglumenn í köðlum hangandi utan á Nýju blokkinni á Akranesi (við Höfðabraut), þar bjó ég í nokkur ár sem krakki. Til skýringar er himnaríki í Gömlu blokkinni, fyrstu blokkinni á Skaganum, sú Nýja var önnur blokkin og fæstir gerðu ráð fyrir því að innan einhverra áratuga yrðu blokkirnar orðnar óteljandi og ómögulegt að nefna þær eftir aldri þeirra. En draumurinn var ákaflega spennandi þótt ég muni ekki neitt nema sérsveitarklæddar löggur í köðlum í spennandi verkefni. Mundi þó að þegar ég vaknaði hugsaði ég að drauminn yrði ég að muna og skrifa síðan spennubók um efni hans. Á þeim tíma var nánast ekkert í boði í spennubókadeildinni nema Alistair MacLean.
Mynd: Sem brjálaður bloggari varð ég að taka laumulegar myndir svo mér yrði trúað að draumar gætu ræst svona löngu seinna, ég ýki stundum og plata á þessum vettvangi sem hefði komið mér í koll núna ef ég hefði ekki sannanir. Vona samt að mér verði fyrirgefið.
Það var síðan eins og við manninn mælt, að fjörutíu árum seinna rættist þessi draumur, nema í öðru húsi þannig að mig dreymir greinilega fyrir daglátum, eitthvað sem ég vissi ekki. Um hálfátta í gærkvöldi hringdi dyrabjallan, svo var barið þéttingsfast á dyrnar að auki. Ég hljóp til dyra, kíkti í gegnum gægjugatið og sá tvær stórhuggulegar löggur fyrir utan. Í síðasta bloggi bað ég um að ef einhver ætlaði að kæra mig fyrir grasrækt ætti að senda síðmiðaldra ... æ, sjáið bara síðasta blogg. Vil að komi fram að þetta er saklaust kattagras.
Megum við fara út á svalir hjá þér? spurði sérsveitin, þetta voru alvörugaurar með byssur. Ég varð ofsaspennt en hélt aðdáunarskrækjunum niðri í mér, sagði bara kurteislega: Gjörið svo vel, og galopnaði dyrnar. Krummi og Mosi lágu uppi í skáp og ég vissi að þeir myndu halda sig þar.
Mynd: Sönnun nr. 2.
Ég hef horft á nógu margar glæpamyndir og lesið enn fleiri glæpasögur, til að vita að það þýddi ekkert að spyrja þá hvað gengi á. Mögulega æfing í klifri í köðlum fram undan og bankað á mína íbúð til að gefa lífi mínu meira gildi og spennu sem er hverri manneskju nauðsynlegt til að blóðið haldi áfram að renna í æðunum? Ekki reyndist nefnilega vera þörf á kaðlahangelsi svo þeir fóru tveir að pakka dótinu saman, algjörir ljúflingar, rólegir og fagmannlegir. Alltaf velkomnir í kaffi.
Ég var ótrúlega fegin yfir því að það var eiginlega ekkert drasl heima hjá mér ... reyndar óuppvaskað í eldhúsinu og vissulega kominn smátími frá því ég ryksugaði síðast en það var komið kvöld og í augum sérsveitar sem er vön að fara inn í alræmdustu viðbjóðsgreni, grunar mig að þeim hafi fundist ofboðslega fínt hjá mér, bara eins og í höll. Hugga mig við það. Ég hafði verið að horfa á fréttir, var löt við að fara að vaska upp eftir kvöldmatinn og skipti á milli stöðva, stoppaði við Fóstbræður sem voru á þegar bjallan hringdi. Svo var lítil maltogappelsín-dós á sófaborðinu sem ég var að klára úr. Enginn landi í glasi eða grasrækt í eldhúsglugganum ... nema kattagras auðvitað. En hver man ekki eftir Lása kokki sem sagði: Ó, ó og æ, æ, skipið er að sökkva og ég ekki búinn að vaska upp. Ég er svolítið þarna.
Það var nú samt ekki fyrr en þeir voru farnir sem ég áttaði mig á því að þeir væru enn meiri hetjur en mig grunaði ... ég leit nefnilega út eins og argasti vélsagarmorðingi, komin í þrjár peysur vegna kulda (sjá síðasta blogg), hárið ógreitt og ég var bara algjör hryllingur, búin að sofa úr mér allt vit í flótta undan komandi jólaflensu sem þorði síðan ekki að láta sjá sig. Fagmennska þeirra sýndi sig í því að ég var ekki handtekin á staðnum sem gangandi umhverfisslys. Það er allt annað að sjá mig í dag, svo ég vona innilega að þeir komi aftur.
Eina sem ég frétti eftir lymskulegar njósnir mínar í dag var að nokkrum hæðum neðar hafi verið staddur maður sem var álitinn ógn, ekki íbúi. Í slíkum tilfellum fer allt í gang, og líka plan B, C, D, E, F og G. Ég var sennilega plan G, eða svalirnar mínar. Skýjahöllin hvað! Þetta var Ævintýrahöllin í gær.
Ohh, hvað mig langaði til að þeir settust niður í kaffi hjá mér og segðu mér spennandi sögur úr vinnunni ... ég hefði getað sagt þeim sitt af hverju spennandi um fyndnar stafsetningarvillur úr minni vinnu ... eins og þegar Vikan var með Danska kúrinn og ég fór yfir uppskriftirnar fyrir prent ... mig hefur aldrei langað jafnmikið til að sleppa því að leiðrétta villu og þegar kom: Pyntið með brómberjum. (í staðinn fyrir puntið). Þeir hefðu sko hlegið ...
Mynd: Tengist ekki draumi, en ég leitaði á náðir véfréttarinnar sem vildi meina að ég játaðist einhverjum núna yfir jólin. Það var alls ekki á dagskrá en mögulega var lögguheimsóknin í gær bara yfirvarp, samsæri og feður þessara flottu sérsveitarmanna í leit að almennilegri kellingu ... hef heyrt miklu ótrúlegri samsæriskenningar en það.
Mig dreymir líka oft brim og mikinn öldugang sem mikill aðdáandi hafs í ham. Núna fyrir nokkrum dögum, í draumi, átti ég íbúð (á Akranesi, held ég) sem lenti í tjóni vegna óláta í sjónum, húsið fór nánast í kaf, aumingja leigjandinn minn. Svo ég hringdi í tryggingarfélag þar sem Andrés (hjá mbl) svaraði í símann og tók mér ljúfmannlega. Ég gúglaði nafnið Andrés, hvað það þýddi í draumi og það táknar víst óveður. Það var eins og við manninn mælt, gul viðvörun um nánast allt land strax um morguninn - enn hvít jörð. Var það ekki í fyrradag? Svo eftir þessi tvö skipti get ég sagt með sanni að ég sé berdreymin, nánast með miðilsgáfu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2024 | 18:20
Varkárni, vondur smekkur og skýjahöll í sjötta himni ...
Sat rafrænan fund í gærkvöldi og skemmti mér vel, þegar ég var loks búin að setja hljóðið á í Settings - sem þurfti án þess að ég vissi að væri slökkt á því. Hélt að hljóðið væri á ... en ekki ÞETTA HLJÓÐ. Dæs. Hef ekki verið á svona fundi síðan á covid-tímum. Skrifaði líka fundargerðina, varð að handskrifa því lætin í mér á lyklaborðinu höfðu áhrif á gæði hljóðsins. Tækniheft hvað ... en mér fer fram, um leið og ég læri eitthvað, man ég það framvegis, verð bara grautfúl ef gert er lítið úr mér fyrir að kunna ekki eitthvað sem ég hef aldrei lært.
Nú á nýju ári og á tveimur til þremur nýjum vinnustöðum þarf ég án efa að tileinka mér ýmislegt nýtt sem er bara gaman ... en vissuð þið að ársbyrjun bendir til þess að árið verði ansi hreint ... eitthvað svakalegt kannski. Sjá efstu mynd!
------ ----- ----- ---
Höfuðverkur í gær gerði að verkum að ég kappklæddi mig fyrir nætursvefninn, peysa og allt, þunn sæng en líka teppi, fór að sofa snemma (miðnætti) og vaknaði upp úr hádegi í dag, um eittleytið, með þá fullvissu að ég hefði sofið af mér hroðalegt jólakvef. Lyf sem ég tek gera mig kulsækna (sem var ekki áður, langt í frá) og ég hef síðan dottið ofan í alls konar ofkælingarveikindakvef síðan í júlí. Ekki hefur hjálpað til að ónæmiskerfið hrynur oft hjá fólki sem stendur í stórræðum eins og flutningum milli landshluta. Ég geri nánast allt; sker hráan lauk í tvennt og hef uppi á kommóðu í svefnherberginu mínu, tek inn bæði C- og D-vítamín og passa upp á svefninn. Líka löngu hætt að kyssa nokkurn mann í litlu lyftunni (hún býður upp á rómantík) og þannig smitast, reyni svo sem yfirleitt, ef ég er ekki með þunga poka, að ganga upp stigana en tek stundum lyftuna frá fimmtu upp á sjöundu ... játa það hér með.
Eitt það versta við að flytja var að missa Einarsbúð sem færði mér allt sem mig vantaði upp að dyrum. Í gær kom sendill frá Gæludýr.is (gaeludyr.is) með mat og sand fyrir kisurnar og einnig grasfræ í bakka ... en ég stunda nokkuð umfangsmikla grasrækt í eldhúsglugganum (ef þið sendið lögguna á mig, hafið það þá ógiftan og sætan, síðmiðaldra karl). Svo fæ ég matinn sendan með Eldum rétt upp að dyrum ... og prófaði núna síðast að kaupa annan réttinn tilbúinn, kjúkling með sætfrönskum og koníakssósu ... þurfti bara að setja kjúkling og kartöflur á ofnplötu í korter í heitan ofn og hita sósuna í potti, rífa niður salatið. Ögn fljótlegra og minna subbulegt. Nýjung hjá Eldum rétt. Hinn rétturinn sem var í boði og ég þáði EKKI, var saltfiskréttur, eitthvað sem er í sama flokki hjá mér og þverskorin ýsa, svið, súrt slátur og kæst skata ... Ég fæddist samt ekki í röngu landi. Svona er smekkur misjafn. Ég með góðan smekk, allir aðrir vondan, eða öfugt? Frábært dæmi um misjafnan smekk: Ég sá á Facebook nýlega auglýsingu frá Geðhjálp þar sem tveir hlutir voru taldir upp - sem báðir áttu að vera dæmi um að hlúa vel að sér ... göngutúr eða sundferð. Bloggvinir mínir vita að hvorugt á upp á pallborðið hjá mér, svo vægt sé til orða tekið. Get ekki valið um hvort er hræðilegra. Allir vinir mínir og ættingjar, held ég, elska gönguferðir og sund. Sumir splæsa meira að segja í Sky Lagoon-ferðir ... ætla samt að sjá til með gönguferðir þegar fer að hlýna og þá með góða sögu í eyrum. Þarf að skoða umhverfið og fara í rannsóknarferðir í allar áttir. Það geri ég alltaf þegar ég flyt í nýtt umhverfi, á um það bil 18 ára fresti.
Get víst seint sagt að ég sé mikið tæknitröll. Systur mína fór að lengja eftir að ég sendi henni miðana okkar á Vitfirringana þrjá í Hörpu, jólatónleika 21. des., svo hún gæti prentað út og haft tilbúna, og í ljós kom að ég hafði aldrei klárað kaupferlið. Þetta átti sem sagt að vera afmælisgjöf frá mér til hennar. Hef aldrei nennt á jólatónleika nema með Kór Langholtskirkju um árabil en nú átti aldeilis að breyta til. Hún tók í kjölfarið að sér að panta eigin afmælisgjöf og tónleikarnir verða 22. des., kl. 17, minnir mig. Ég geri ekki mikil kaup á netinu og kýs yfirleitt alltaf að millifæra inn á alvörureikning hjá alvörufyrirtækjum, í mín örfáu skipti, eins og Gæludýr.is. Veit að ýmsir hafa farið illa út úr kaupum með því að gefa upp kortanúmer, eins og Friðrik Ómar sem glataði töluverðum fjármunum nýlega, í stressi og fljótfærni, reyndar í "viðskiptum" við þaulvana tölvuþrjóta. Eflaust enn auðveldara að plata óvant fólk á borð við mig.
Komst aldeilis í feitt nýlega ... eða fann safaríka og langa glæpasögu til að hlusta á. Hún er nýútkomin, heitir Miðnæturstelpur og er eftir Jonas Mostöm. Hef lesið fleira eftir hann og get mælt með bókum hans. Þessi er rúmlega 26 klukkutíma löng (jessssssss) og nú hef ég enga afsökun fyrir að setja íbúðina ekki í jólabúning, þrífa fyrst samt. Það er svo gott ef maður er með góða bók að hlusta á. Ég geri ekki þá kröfu til bóka að þær gefi jólastemningu á meðan ég skreyti ... Þessi er líka afskaplega vel lesin af Margréti Örnólfsdóttur.
Á morgun verður afsalsdagurinn mikli. Þá afsala ég mér himnaríki (snökt) og Skýjahöllin verður mín (er aðeins að máta þetta nafn á nýju íbúðina). Það eru allir hjartanlega sammála um að þessi íbúð mín sé vel staðsett, bæði upp á útsýni (haf, Esju, Kjalarnesið í norður og Breiðholtið, 104 Rvík og stundum eldgos í norðurátt) því flestir vinir og vandamann eru bara í kringum tíu mínútur á leiðinni til mín, hvort sem þeir eru í Kópavogi eða Reykjavík. Skýjahöllin passar í raun vel því ég er í skýjunum yfir íbúðinni og hún er skemmtilega hátt uppi, höll er kannski full drambsamt orðaval en ég er í ljónsmerkinu og við Ljónin lítum víst á okkur sem algjörar hefðardúllur, ef marka má stjörnuspekina. Undirnafn gæti svo verið: Í sjötta himni! Eða bara Í skýjunum. Sko, íbúðin er á sjöttu hæð og lyftan stoppar bara á annarri hverri hæð, í alvöru, svo ég þarf að taka hana upp á sjöundu og ganga hálfa hæð niður - svona þegar ég treysti mér ekki til að ganga næstum alla leiðina upp) Hvað finnst ykkur? Þarf að skrolla niður fésbókina mína til að skoða góðar tillögur sem þar komu frá fb-vinum, t.d. Skýjahöllin.
Myndin er af stórfrægu fatahengi mínu sem hangir nú uppi bara til að hylja nýleg göt á hryllingsveggnum ... ég get sett þar lauflétta úlpu mína og trefilinn (sem ég heklaði fyrir mörgum árum) en ekkert annað. Í næstu heimsókn vissra engla úr Kópavogi verður betri borvél tekin með og almennileg töng til að ná föstum skrúfum.
Önnur fasteignasalan vill hafa undirskriftirnar rafrænar en hin ekki ... býst því við að taka leigubíl þangað í þessari ömurlegu hálku og veseni og líka á barmi þess að detta í enn eitt stórkvefið sem ég geri nú samt pottþétt ekki vegna stórvirkra varnaraðgerða - en nú bara verð ég að eignast lopapeysu. Sit hér við tölvuna í tveimur peysum, annarri þykkri og samt eru handleggirnir á mér kaldir viðkomu. Ofninn við hliðina á mér er heitur ... Ég er samt manneskjan sem pantaði fokdýra silkisæng frá útlöndum eitt árið til að geta sofið vegna hita (sumar). Heimilishitinn í himnaríki var alltaf í kringum 18 gráður sem er vissulega ágætur hiti fyrir rauðvín en ekki gesti mína sem skulfu oft úr kulda og þurftu stundum peysur og ullarsokka að láni. Vissulega ávani hjá mér að hafa kalt og það kostaði líka að á sumrin þurfti ég viftur til að lifa af.
Dans - dans - dans
Enn eitt sem ég hef aldrei verið sérstaklega hrifin af, er dans en það er eitthvað í gangi núna með mig. Ég sá myndbandið hér fyrir neðan á netinu fyrir skömmu og hreifst ansi mikið af dansgleðinni sem þar ríkir. Góða skemmtun, elskurnar. Í næsta bloggi gæti ég farið að tala fallega um sund, gönguferðir og kæsta þverskorna ýsu ... ekki missa af þegar geimverur yfirtaka líkama minn og smekk ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2024 | 01:11
Hryllingsveggur, tvisvar í kosningakaffi og eldklár frænka
Kosningasjónvarpið fór eiginlega alveg fram hjá mér í gær, sitt af hverju gott kom vissulega út úr kosningunum og líka ýmislegt minna gott. Það verður til dæmis mikil eftirsjá að VG, svo margt gott sem þau standa fyrir, fúlt líka að missa t.d. Lilju í Framsókn, Þórhildi Sunnu í Pírötum og fá ekki alla vega Sönnu og Davíð Þór inn hjá Sossum, þau hefðu lífgað upp á þingið. Svona getur maður nú hrifist af alls konar fólki úr alls konar flokkum. Fjölbreytni er góð.
Það var frábært að sjá Óla - okkar vinsæla apótekara á Akranesi, komast á þing. Ein ansi hress vinkona fór í apótekið eitt sinn skömmu fyrir einhverjar bæjarstjórnarkosningar og Óli spurði hana hvort hún ætlaði ekki að kjósa "rétt". Ég hef alveg sofið hjá Sjálfstæðismönnum en set mörkin við að kjósa þá, svaraði hún blákalt, öðrum viðskiptavinum til mikillar kátínu.
Myndin er skjáskot úr myndbandi þar sem þessi hressa kona hrópar aftur og aftur á hlauparana: "Takk kærlega, takk innilega." Mig langar að verða þessi týpa og er þegar búin að panta miða til Boston (Boston-maraþonið) í apríl árið 2050. Verð með svona skilti.
Í gær fór ég með tveimur vinkonum í kosningakaffi ... Önnur kom upp úr kl. 13 og sótti mig og við fórum í kaffið hjá VG á Suðurlandsbraut, bæði góðar veitingar og svakalega gott kaffi (Jólakaffið frá Te og kaffi). Fór heim upp úr tvö, nálægt hálfþrjú, og næsta vinkona mætti klukkan 16 og sótti mig. Við fórum líka í kaffið hjá VG. Ég gætti þess ekki að dulbúa mig þarna í seinna skiptið, vera að minnsta kosti með annan trefil, og svo gerði ég þau mistök að setjast á sama stað og fyrr um daginn. Ónefndur fyrrum ráðherra sem mætti líka aftur, sagði hlessa en kátur: Þú enn hérna?
Nei, fór en kom aftur því ég átti eftir að smakka vöfflurnar, sagði ég næstum því sannleikanum samkvæmt. Fór heim og beið eftir úkraínskri heimsókn sem átti að koma í tímagapið milli 15 og 16 (ómældar vinsældir mínar) en það náðist því miður ekki að hittast í þetta sinn, sé Svitlönu vonandi næst þegar hún kemur í bæinn. Snökt.
Mér datt ekki í hug að biðja vinkonurnar að koma með mér í önnur kosninga"köff", taka út staðina og gefa einkunn eins og ég vissi að sumir gerðu án nokkurrar miskunnar en ég er ekki sama óhemjan og ég var upp úr tvítugu. Svo var ég líka eiginlega frekar södd og þorði heldur ekki að taka sénsinn á því að fá kannski vont kaffi með kræsingum annars staðar. Allt of algengt í hinum ýmsu veislum að hafa fullkomnar veitingar en vont kaffi ... Ég var reyndar duglegri að fara á milli staða á Skaganum á kosningadegi.
Það stóð upp úr í seinni heimsókninni til VG að þangað kom maður sem ég hafði ekki hitt í hálfa öld - var að vinna með honum í Ísfélagi Vestmannaeyja sumarið 1974, þegar ég var rétt orðin unglingur. Það urðu fagnaðarfundir, hann er alveg jafnskemmtilegur og í denn, með smitandi hláturinn sinn og góða músíksmekkinn (Jethro Tull með meiru), hann er líka hljómsveitargæi og allt (í Spöðum) og sestur í helgan stein. Hann sagði tvisvar: Þú ert nú svo ung ... sem gjörsamlega bjargaði deginum því ég hef verið fórnarlamb aldursfordóma* síðan ég varð fertug, alla vega annað slagið. Ein vinkona mín fer oft til útlanda og segir gríðarlega mikinn mun á því að vera þar eða hér upp á aðdáun strákanna ... það er enn blístrað á hana erlendis, en á Íslandi er löngu búið að stimpla hana út. Ég sé svo illa frá mér, þótt ég sé með gleraugu, að mér finnst allir sætir karlar gefa mér hýrt auga.
*Fékk þarna rétt rúmlega fertug, meðal annars sendan heim bækling um alls konar vörur sem henta eldri borgurum; sokkaífæru, göngugrindur, fullorðinsbleyjur, pillubox með áminningartækni ... vörur sem móðir mín var allt of ung til að nota næstu tuttugu árin.
Mynd: Ég nota vissulega gott andlitskrem til að halda mér unglegri.
Eigimaður minn á þessum tíma (40 ára) sagðist ekki treysta sér til að vera kvæntur konu sem ætti svona stutt í fimmtugsaldurinn (41 árs) og við fórum hvort sína leið. Svo löngu, löngu síðar fór hann á stefnumótasíðu og fann þar unga og fallega erlenda konu. Þau urðu ástfangin, hann fór til hennar í útlandið og þau giftu sig örfáum mánuðum eftir að þau kynntust. Einhverju seinna fór hún fram á skilnað, fékk helming eigna hans, eins og lög gera ráð fyrir, eða kaupmáli. Hann komst svo að því síðar að þarna hefði skipulögð glæpastarfsemi verið að verki ... allt fólkið hennar í brúðkaupinu, foreldrar, systkini og fleiri, voru leigðir leikarar - allt gabb nema giftingin sjálf sem var lögleg, til að hafa af honum fé. Hann gat ekkert gert, svo passið ykkur, elskurnar. Sönn saga og ekkert einsdæmi víst.
Í dag var gerð úrslitatilraun til að hengja upp fatahengið mitt létta og löðurmannlega úr Jysk. Tvær skrúfur og málið dautt. Steindautt, enda betri borvél núna. Síðast kom snjall þroskaþjálfi á staðinn ... það kom gat í vegg, skrúfa brotnaði inni í veggnum og lélega lánsborvélin sem hann notaði nánast bræddi úr sér. Í dag fékk ég svo deja vu-tilfinningu, því nákvæmlega það sama gerðist hjá snjalla, handlagna og klára húsgagnasmiðnum, þessum með betri borvélina. Ég þarf greinilega að losa mig við þennan vegg sem glímir við mótþróaþrjóskuröskun. Tveir menn: tvær holur, tvær skrúfur fastar í vegg sem heldur að hann sé utan um neðanjarðarbyrgi á stríðstímum.
Ég er búin að panta loftpressu frá Byko og svo veð ég bara í þetta sjálf. Spurning um að hafa samband við Tækniskólann og bjóða vegginn til leigu, nota hann til að brjóta niður nemendur í trésmíði, svo þeir ofmetnist ekki, heldur læri að til séu svo viðbjóðslega sterkir veggir að ekkert virki á þá nema dínamít. Þá ná þeir þessari auðmýkt sem þarf til að þeir mæti í verkefni á þeim tíma þegar þeir segjast ætla að gera það ...
Mynd: Ellen frænka knúsaði heppinn Krumma í dag á meðan Elvar hennar boraði í hryllingsvegginn hroðalega. Ég kveinaði yfir því að þægilegi sófinn sem hún sat í væri of lágur fyrir langa leggi mína og nákvæmlega ekkert gaman að láta sig falla ofan í hann ... svo ég nennti því ekkert og það færi aldrei vel um mig í lífinu. Ellen kíkti í símann sinn, pikkaði ögn og sagði svo: Ég er búin að panta 5 cm lengri fætur undir sófann þinn, fást hjá Jysk og kosta bara nokkra þúsundkalla. Svona lánsöm er ég með fólkið í kringum mig. Fatahengið getur bara hoppað upp í ómögulegheitin í sér.
Fór seinna í dag með systur minni í litla jólabúð við Gylfaflöt í Grafarvogi. Keypti ansi skemmtilegar og snjallar jólagjafir handa stráksa og minnstu elskunum mínum á Skaganum og einnig nokkra gyllta poka undir jólagjafir (á 100 kall stykkið). Ég er vön að endurnýta þá jólapoka sem ég fæ sjálf en sennilega hef ég ekki tekið neina með í flutningunum til borgarinnar (á reyndar eftir að fara niður í geymslu og athuga hvort þeir séu í stóru ferðatöskunni). Ef ég finn þá, get ég samt pottþétt endurnýtt þá síðar eða gefið. Það var orðið svo kvíðvænlegt og ömurlega leiðinlegt að klippa niður jólapappír, pakka gjöfum inn og vesenast í óratíma, að ég fór að pakka inn í dagblöð sem var mjög fljótlegt, reyndi að velja fagrar jólaauglýsingar til að hafa pakkann samt fallegan. Gjafaþegar mínir þurftu í kannski tvö eða þrjú ár (á aðfangadagskvöld) að þvo af sér prentsvertu en eitt árið átti ég svo allt í einu heilan helling af jólagjafapokum sem ég endurnýtti þau jólin og hef gert það síðan. Það var bæði ódýrt (ókeypis) og ljómandi fínt. Vistvænt að auki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.11.2024 | 17:27
Mitt eigið moll, klár gervigreind og elskan hann Chuck Norris
Vettvangsferð var farin um Holtagarða í gær. Lítið stoppað, ekkert keypt en gaman að vita af þessum flottu búðum í næsta nágrenni. Ég emjaði og grét í Dorma yfir fallegum sófa sem væri allt of lágur fyrir langleggjaða dömu sem keypti sófann vegna fegurðar, sá hann á netinu, mátaði ekki ... væru til lengri sófafætur til að kippa vissri tilveru í lag? Þyrfti minnst 5 cm hærri fætur undir sófann sem gæti þó mögulega gert hann hjákátlegan í útliti en ég gæti blekkt með teppum eða dáleitt gesti mína til að taka ekki eftir því. Gamli sófinn minn úr Jysk var nefnilega keyptur með langa leggi mína í huga og var hinn girnilegasti að setjast í þótt ég sæti ekki svo oft í honum við að glápa á sjónvarpið. Langar að taka upp gláp aftur, fyrst ég fæ ekki vinnu sem jólaskraut í glugga í des.
Í Dorma voru til sölu lítil skilti sem á stóð: Gleðileg Jól.
Jákvæða systirin: Mikið er gaman að sjá svona á íslensku.
Neikvæða systirin: Já, sammála, en það er samt villa þarna, það á ekki að vera stórt J í jól. Hæ, vantar ykkur prófarkalesara eða eiga skiltagerðarmenn kannski bara að fá að stjórna stafsetningarmálum ykkar?
Afgreiðslustúlka: Honum hefur kannski fundist flottara-
Neikvæða systirin: Ég kaupi aldrei neitt sem inniheldur villur, kýs ekkert með stafsetningarvillu í nafninu, afber alls ekki sjónvarpsefni (munið Stundina Okkar um tíma?). Mér finnst allt annað þegar við sauðsvartur almúginn gerum villur, en fyrirtæki, fjölmiðlar, stjórnmálaflokkar, opinberir aðilar verða trúverðugri þegar vinnubrögð eru vönduð.
Jákvæða systirin: Jæja, gamla geit, eigum við að drífa okkur?
Við systur kusum utankjörstaðar fyrir búðaskoðunina og það var merkilega mikið að gera, röð eins og á flugvell þegar fólk bíður eftir að komast í öryggisskoðunina. Ekki séns að kjósa taktískt, fannst mér, ég kaus þann flokk sem ég vil sjá vinna góð störf á þingi. Ég gerði sama í forsetakosningum, kaus ekki taktískt þótt ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að minn maður yrði tæplega forseti. Kannski heimskulegt að kjósa með hjartanu, kannski alls ekki, en því að kjósa flokk eða forseta bara til að einhver annar komist ekki að? Iss, piss.
Það var nokkuð margt um manninn líka þarna í búðunum, svona miðað við fimmtudag. Partíbúðin er æðisleg, Fakó undursamleg, líka Curvy og Dorma og bara allt þarna. Svolítið falinn demantur í mínum huga, hafði ekki hugmynd um þetta litla moll, eiginlega mitt eigið moll, og svo er Bónusbúðin á neðri hæðinni ansi fín líka. Ítreka, það væri fínt að fá apótek og kaffihús þarna líka. Bakarameistarinn er bakarí og væri frekt að ætlast til þess að algjört gæðakaffi væri á boðstólum ... sem minnir mig á að hópurinn Gerum Akranes enn betra fyrst Gurrí er flutt ... er að opna kaffihús í gamla Stúkuhúsinu á Safnasvæðinu (strætó gengur ekki þangað en það er samt í lagi því það eiga allir bíl) og þar verður dýrindiskaffi frá Te og kaffi í boði og starfsfólkið búið að fara á námskeið og alles. Vá, hvað ég hlakka til að koma á Skagann næst. Í gamla stúkuhúsinu lofaði ég sjálfri mér því að reykja hvorki né drekka. Ég reykti í allt of langan tíma en hætti í apríl 2020. Drykkjan á mér er svo aumingjaleg að ég er hársbreidd frá því að koma út úr skápnum sem bindindiskona. Kaffi er bara betra ...
Alla helgina núna mun Útvarp Akranes (FM 95) hljóma, flott dagskrá en þetta er til styrktar Sundfélagi Akraness.
Gervigreindin er ansi hreint skemmtileg. Systursonur minn spjallaði við hana, altso gervigreindina, um vandræði mín hvernig ég gæti komið word-inu mínu í lag - er með áskrift, búin að borga og allt en skjölin eru samt með stæla. Þú getur ekki hlaðið þessu niður, bjáninn yðar, eða vistað, asninn yðar - svona stælar. Gervigreindin sagði frænda að ég þyrfti að skrá mig inn ... uuuu, hvernig, hvar, hvers vegna? grét ég. Ef hægt er að hægja á skjölum mínum og gera mér lífið erfiðara, hlýtur að vera hægt að laga allt þegar sjálfvirka greiðslan frá mér hefur skilað sér - ég skulda ekkert, svo hvaða vesen er þetta? Já, búin að prófa að endurræsa ...
MYND: Hér sýnir gervigreindin okkur hvernig elskan hann Jack úr Titanic myndi líta út í dag ef hann væri á lífi.
Hún getur vissulega búið til falsfréttir, falsupplýsingar ... varla þó þessar sem ég heyrði nýlega ... vissuð þið að hælisleitendur í hundraðatali hafa lamað heilbrigðiskerfið okkar með því að vera á biðlista eftir kynleiðréttingu? Fyndið ef þetta væri ekki svona grátlegt þar sem sumir kjósa að trúa þessu. Þarna er reitt til höggs og fyrir því verða bæði hælisleitendur og trans fólk, viðkvæmir hópar sem þurfa alls ekki á svona að halda.
Gleðilegt að livefromiceland.is, vefmyndavéladýrðin mín, er að rakna úr rotinu, ég get kíkt núna til Vestmannaeyja, á gosstöðvarnar og víðar sem gleður nördahjarta mitt innilega.
Vitið þið hvernig dyrabjallan hjá James Bond hljómar?
- Dong, ding dong.
--------------------------
Chuck Norris:
- Hann sigraði Usain Bolt í 100 m hlaupi þótt Chuck hlypi afturábak og notaði keðjusög sem jójó á meðan.
- Nýfæddur skutlaði hann sjálfum sér og foreldrum sínum heim af fæðingardeildinni.
- Þegar hann segir brandara um Jödu Pinkett Smith, slær eiginmaður hennar, Will Smith, sjálfan sig utan undir.
- Þegar hann fer í sturtu verður hann ekki blautur. Vatnið blotnar.
- Þegar hann varð 18 ára fluttu foreldrar hans að heiman.
- Hann getur kveikt eld með því að núa saman tveimur ísmolum.
- Í eina skiptið sem hann hafði rangt fyrir sér var þegar hann hélt að hann hefði gert mistök.
- Hann getur setið úti í horni í kringlóttu herbergi.
- Hann getur staðið upp á meðan hann situr.
- Í skólanum hans þurftu kennararnir að rétta upp hönd ef þeir vildu tala.
- Þegar hann fæddist sló ljósmóðirinn á bossann á foreldrum hans.
- Hann getur búið til snjókarl úr rigningarvatni.
- Hann finnur ilminn af sunnudagsmatnum strax á miðvikudegi.
- Þegar Bell fann upp símann var hann þegar kominn með 3 missed calls frá Chuck.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.11.2024 | 17:01
Alls konar hamingja og snilldarhugmynd
Skilaboð um helgina. Erum á markaði á Akranesi, eigum við að kaupa Valeríukaffi frá Grundarfirði handa þér?
Uuuu, já, takk, heldur betur aldeilis, emjaði ég, bað um baunir, espressóbrenndar. Vissulega fæ ég ekki jafngott bragð og úr alvörukaffivél á kaffihúsi en baunavélin mín er nú samt býsna góð. Þessar elskur sem fóru á markaðinn á Skaganum mættu svo í heimsókn til mín um hádegisbil í dag. Að sjálfsögðu bakaði ég eina plötu af smákökum (Takk, Eva Laufey) og bauð líka upp á ljómandi gott hafrakex úr Kristjánsbakaríi (fæst í Bónus) með smjöri og osti.
Fúsi og Nanna eru ekki bara greiðvikin og góð, heldur líka mjög skemmtileg, annar sonur þeirra, Stefán, á ekki langt að sækja það en hann er einn fyndnasti maður landsins (langar mjög mikið að sjá uppistand með honum). Þegar þau fóru gripu þau allt ruslið með, Sorpuruslið, pappa og plast utan af þvottavélinni og smávegis meira. Ég sendi þeim svo varúðarskilaboð um að það væri bæði pappi og plast í svarta ruslapokanum, ég vildi ekki að þau yrðu handtekin við að gera mér þennan stórgreiða.
Á meðan þau stoppuðu hjá mér (allt of stutt) fékk ég upphringingu frá vinnustað (aukavinna) þar sem ég hafði farið í spennandi hæfileikapróf. Ég stóðst víst prófið, var mér sagt, og gæti fengið verkefni ... eftir áramót. Man ekki hvort ég þurfti að dansa í hæfileikaprófinu en ég er enn liðug eftir að hafa verið í Dansskóla Sigvalda. Brillera ætíð í söng eftir veru mína í Kór Langholtskirkju og bý líka alla tíð að því að hafa verið í Skagaleikflokknum. Kona með reynslu.
Þetta EFTIR ÁRAMÓT er samt alveg að fara með mig. Hvað er að, Reykjavík? Þrjár vinnur, með þessari, sem ég get fengið ... eftir rúman mánuð. Hvað á ég að gera í desember? Lesa, dúlla mér, ryksuga, horfa á jólamyndir, drekka kaffi? Það býst svo sem enginn við rándýrum jólagjöfum frá mér í ár - það er svo dýrt að flytja, munið - en lifi ég aðgerðaleysið af?
Hef um langan tíma verið svo handviss um að ég yrði hamingjusamasta kona í heimi þegar ég kæmist á eftirlaun ... en ég er ekki svo viss núna. Ein vinkona mín, hætt að vinna, vaknar frekar snemma, gerir jógaæfingar í korter og fer svo að læra tungumál (í gemsanum) í einhvern tíma líka ... en hvað svo? Hún hatar vissulega ekki gönguferðir svo hún fer eflaust í langar göngur um nágrennið. Svo passar hún barnabörnin sín stundum. Þarf ég ekki bara að koma mér upp ömmubörnum í Reykjavík, ég skildi nokkur dásamleg eftir á Akranesi. Elsku Ali, Alexander, Aya, Bana og Evia, mikið sakna ég þeirra.
Ef ég fer á fullt í vinnuleit núna gæti ég fengið eitthvað fast, eitthvað spenandi, alveg óvart, og orðið þá að svíkja vinnustaðina þrjá eftir áramót, allt draumastörf þar, þetta verður gefið upp þegar allt er orðið blýfast og meira en 99 prósent öruggt. Bakið á mér treystir sér ekki í afgreiðslustarf í verslun í einn mánuð sem væri alveg möguleiki að fá, svo ég verð bara að slaka á ... Ég gæti auðvitað farið að spá í spil og strekkja dúka á sama stað (bjó sú spákona ekki einmitt við Kleppsveg?)
Óhemjugangurinn er algjör hér á heimilinu. Er með nokkrar girnilegar jólabækur í bunka á náttborðinu, eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Þórdísi Gísla, Nönnu Rögnvaldar og Skúla Sigurðar - og óvænt bættist bókin Krydd lífsins eftir Einar Örn Gunnarsson við, mikinn uppáhaldshöfund ... Ég tók þá ákvörðun að treina mér þessar bækur, þessa dýrð eitthvað fram á aðventuna ... en hvað gerðist ekki í gærkvöldi? Ég valdi bókina hennar Evu, ætlaði að lesa þar til ég yrði syfjuð, þorði alls ekki að velja spennubók (Nanna og Skúli) til að falla ekki í þá freistni að klára ... Hversu lítið þekki ég sjálfa mig. Auðvitað byrjaði ég á bókinni hennar Evu frænku, Í skugga trjánna, og klukkan hálfþrjú í nótt lokaði ég henni, búin og sátt eftir lesturinn, virkilega góð bók, svo góð að ég tímdi ekki að hætta fyrr en hún var búin, gat það ekki. Ef svona lestraræði grípur mig aftur, sem er mjög líklegt með þessar bækur, fer ég bara fyrr upp í. Hugsa að ég geymi mér ljóðin hennar Þórdísar til aðfangadagskvölds ... en þori engu að lofa.
Steingerður kíkti í stutta heimsókn í dag ásamt Kríu, Kría er meðalstór hundur, svona eins og Krummi er köttur ...
Jú, taktu hundinn endilega með, ég set kettina upp í skáp, hafði ég sagt við hana.
Hún skellti upp úr, ég var samt ekki að grínast. Skápurinn er í svo miklu uppáhaldi hjá kisunum og þar finna þeir til öryggis. Þeir lágu þar báðir þegar Steingerður hringdi og kom tíu mínútum seinna, og fylgdust svolítið stressaðir með þegar Kría leitaði út um allt að þessum kisum sem hún fann lyktina af. Hún gelti glöð og spennt þegar hún kom loks auga á Mosa uppi í skápnum. Krummi var þá kominn undir eitthvað, hann hefur þróað sér ótta við hunda og þorir ekki að láta þá heyra það nema þeir séu minni en hann, þá hefur hann birst ógnandi til að bjarga mannfólkinu frá þessum ófétum ... sem hann álítur frændhunda mína, Herkúles og Golíat vera ...
Mig fer samt að vanta skápinn, eða plássið, þetta er svo rosalega góð hirsla undir alls konar hluti, á nefnilega enn eftir að opna nokkra kassa sem standa rólegir í neðri hlutanum vinstra megin (ókei, verkefni í desember, nema það komi desembervinna upp í hendurnar á mér). Svo er annar eins skápur inni í svefnherberginu en ég er búin að loka á kettina þar, er með alls konar heklgarn þar og ekkert pláss fyrir ketti, svo kostaði það eilíf sjokk og óvænt upphrökkelsi um miðjar nætur þegar þeir stukku niður (eða hlunkuðust, þeir hafa fitnað talsvert eftir að Keli dó, hann sá um að þjálfa þá með eilífum eltingaleikjum).
Ég geri ráð fyrir að kjósa utankjörstaðar á morgun, hérna hinum megin við götuna, þá get ég farið í kosningakaffi víða um borg á laugardaginn, eða kannski bara eitt, leyfi vinkonu minni að ráða. Eitt sinn fyrir mjög mörgum árum fannst mér og vinkonu ákaflega fyndið að skreppa í kosningakaffi bara hjá einhverjum flokki sem við kannski kusum ekkert endilega. Við völdum að heimsækja Framsóknarflokkinn ... ég man ekki einu sinni hvar í borginni, mögulega í Kópavogi. Við fengum svo dásamlegar móttökur þar, áður en við vissum af vorum við farnar að skera niður lagtertur í stórum stíl og svei mér ef sjálfur Óli Jó kom ekki og heilsaði upp á okkur ungu konurnar sem hann gladdist svo yfir að sjá ... en þá var Framsókn algjör gömlukarlaflokkur, fannst okkur vinkonunum, við vorum rúmlega tvítugar.
Það væri svo innilega gott stundum að hafa persónukosningu ... geta kosið gott fólk úr flestum flokkum (er ekki hrifin af fjórum flokkum sem eru í framboði núna). Vona að ég teljist gildur kjósandi (ekki feit samt) þótt Hrefnu-millinafnið (sem bættist við á þessu ári) sé hvorki á ökuskírteininu mínu frá 1986 né á vegabréfinu sem rann út í september sl. Finnst peningasóun að fá mér nýjan passa fyrr en utanlandsferð er fyrirhuguð sem verður sko ekki í bráð. Einhver sagði mér að hægt væri að fá nafnskírteini í símann en ég hef getað notað vegabréfið án vandræða þegar ég hef þurft á skilríkjum að halda. Það verður alla vega einn flokkur rosalega sár ef ég fæ ekki að kjósa.
Mikið gladdist ég þegar Diego Skeifuköttur fannst, ómeiddur. Margir hugsuðu kattaþjófinum þegjandi þörfina, en það ætti að fara varlega í að dæma. Þegar svona hlutir gerast er oftast um andlega veika einstaklinga að ræða. Við refsum sjaldnast slíku fólki (nema auðvitað það sé erlent ...) ættum frekar að reyna að hjálpa því.
Skrifborðsstóllinn minn var keyptur í A4 í Skeifunni, ansi dýr en ég hafði verið alla tíð á undan í gömlum og notuðum stólum, þetta var sá allra fyrsti sem ég keypti nýjan ... var þá í leit að Diego, vildi sjá þennan fræga kött og nánast datt um minn frábæra skrifborðsstól í leiðinni ... Held að Hagkaup, A4 og fleiri tapi sannarlega ekki á því að hafa hann hjá sér í vinnu.
Hugmynd að desembervinnu fyrir mig: Ég væri alveg til í að sofa í góðu bæli (helst hægindastól samt) í einhverri búð núna í desember, helst bókabúð, og fá laun fyrir. Hæ, Penninn Eymundsson! Góður stóll, hlýtt teppi, almennilegt kaffi og jólabók. Gæti auðveldlega setið úti í glugga og blaðað í girnilegum bókum, látið sem ég væri heima að springa úr hamingju yfir jólabókum. Jólasveinar eru eitthvað svo 2023 sem gluggaskreytingar. Get byrjað strax eftir helgi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2024 | 20:25
Menning úti á nesi, týndur Diegó og húsfélagsdraumur
Verulega góð sumarbústaðarferð var farin um nýliðna helgi, lau til sun, en um hríð ætluðum við systur að fresta henni um viku, til kosningahelgar sem hefði svo sem verið í lagi en samt ákveðin stemning að vera heima og fylgjast með talningu. Eins gott, bæði skánaði veðurspáin fyrir síðustu helgi þegar nær dró ... og versnaði sú fyrir koss-ningahelgina. Elsku stráksi kom með okkur og svo auðvitað frændvoffarnir, Herkúles og Golíat.
Fordómar mínir gagnvart sumarbústaðaferðum hafa hrunið, alla vega gagnvart einum ákveðnum bústað fyrir austan Fjall. Ég verð farin að skreppa í sund áður en ég veit af ... djók! MYND: Þessi flotti krummi mætti á svæðið í gærmorgun og gladdi hjörtu okkar.
Vér systur komum við, að vanda, í listagalleríinu á milli apóteks og KFC á Selfossi, þar sem ég hef keypt snilldarflotta hluti, eins og ferfugla og hálsmen með fleygum setningum úr Andrésblöðum. Ein tilvonandi jólagjöf þaðan skemmdist aðeins (stél á ferfugli) í flutningunum til Reykjavíkur í okt. og ég hafði farið með hana í viðgerð fyrir skömmu. Ég sótti fuglinn núna á laugardaginn og það var ekki viðlit að ég fengi að borga fyrir viðgerðina, ekki svona góður kúnni. Ég mæli svo hástöfum með þessu galleríi, flottir hlutir til gjafa eða fyrir mann sjálfan - svo er Selfossbær kominn í mikið uppáhald hjá mér eftir að hafa farið oftar þangað síðustu árin en áður.
Stórsjarmörinn og Skeifukötturinn Diego var numinn á brott í gær, eins og alþjóð sennilega veit. Ég man að frænka mín á Grettisgötu lenti í slíku fyrir einhverjum árum en þarna í grennd, eða á Njálsgötu, (ekki langt fyrir ofan Hverfisgötu og Regnbogann) býr eða bjó kona sem rændi kettinum hennar frænku minnar. Konan sú var víst þekkt fyrir að safna köttum en afhenti frænkuköttinn þegar dóttir frænku fór þangað til að sækja hann. Sú unga kona, dóttirin, er stödd úti í Kuala Lumpur en nálægt tölvu, mamma hennar náði í hana til að fá heimilisfangið. Ég kom upplýsingunum um staðsetninguna til Dýrfinnu því það er betra að leita á of mörgum stöðum en of fáum. Skilst að kattaþjófurinn hafi náðst á myndband hjá A4 í Skeifunni þar sem ránið átti sér stað og vona að lögreglan geti eitthvað gert. Trúi ekki öðru en að innan löggunnar séu margir dýravinir sem taka svona mál alvarlega.
Elfa vinkona er á landinu og heimsótti mig í dag skömmu eftir að Eldum rétt-pakkinn mætti á staðinn, eins og klukka í kringum hálftvö. Þá var ég búin að ryksuga - sólin skein það grimmdarlega inn um suðurglugga stofunnar að ég fékk áfall, sannkallað ryk-taugaáfall. Svo mikið að tuskan fór á loft, í eldhúsinu líka, skápshurðir voru kannski ekki þaktar ryki en það sáust nokkur korn, og að auki á ísskápnum! Sólargeislarnir ná nefnilega alveg inn í eldhúsið. Arggggg. Sól er svo ofmetin! Aldrei lenti ég í þessu í himnaríki, nema mögulega þegar ég fór fáránlega snemma á fætur og náði morgunsólinni (austurgluggi) ... Þetta var svo sem allt í lagi, ég var að hlusta á ágætis sögu sem heitir Fyndin saga ... skemmtilega skrifuð þroska- og ástarsaga um fleira en bara skemmtilega atburði, eins og svik í ástum, erfiða foreldra og annað slíkt, en auðvitað líka góða hluti, og allt virðist ætla að enda dásamlega vel og ástin sigra, ég er langt komin með bókina og klára undir svefn í kvöld.
Svo, undir kl. þrjú í dag drifum við Elfa okkur á vatnslitasýningu í Bókasafni Seltjarnarness en Anna vinkona okkar er með betri vatnslitamálurum heims, að mínu mati. Hún hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar og verðlaun svo þetta eru engar ýkjur. Eldgossmyndin á milli þeirra er einmitt eftir Önnu - en heill hellingur af listafólki á mynd/ir eftir sig á þessari skemmtilegu sýningu. Sverrir Tynes Zappa-aðdáandi og Elísabet, forstjóri Geislavarna ríkisins, voru á meðal þekktra Íslendinga sem létu sjá sig á sýningunni. Ég gat látið gest, konu sem ég þekki ekki, fá nafnið á hlaðvarpi sem mér finnst afar áhugavert, heitir Skuggavaldið í umsjón tveggja prófessora við HÍ. Er ansi hrifin af samsæriskenningum, eins og bloggvinir mínir vita. Er ekki nógu dugleg að gúgla og viða að mér upplýsingum um t.d. eðlufólkið (breska konungsfjölskyldan er sögð vera eðlufólk ...) og fleira og fleira. Hlakka til að hlusta.
MYND: Elfa er fínasti píanóleikari og komst í feitt (píanóið mitt) í dag, og ég komst á tónleika ... Spegillinn fyrir aftan hana ... vantar einhvern spegil? Hann er flottur og massívur, þarfnast smáástar, en ég var orðin svo þreytt á að lenda í sífellu í sjokki ef mér varð litið í hann, mikil fegurð getur víst haft þessi áhrif á fólk. Svo er ekkert pláss fyrir hann hér, því miður. Hann bíður við útidyrar.
Geri alltaf annað slagið samninga við fólk, um að hjálpa mér að koma dóti á Sorpu (og spegli í gám Góða hirðisins) en svo gleymi ég fráflæðivandanum og líka fólkið. Sennilega skelli ég bara jólaseríu á pappa- og plastruslið utan af þvottavélinni, hver þarf svo sem jólatré með svona fínan ruslapoka? (sem er hinum megin við píanóið og sést ekki á myndinni).
Kaffi Vest varð fyrir valinu sem næsti áfangastaður okkar Elfu, gott kaffi og fínasta kleina - svo hittum við Gísla Martein (hann er einn eigenda) og ég gat ekki stillt mig um að láta hann vita að Jónína Leósdóttir hefði gert okkur bæði ódauðleg í nýjustu bók sinni, Voðaverk í Vesturbænum, um Eddu á Birkimel. Hvorugt okkar Gísla kom nálægt morði í bókinni, en Gísli misskildi mig fyrst:
Ha, lét hún mig vera með aldursfordóma gagnvart Kaffi-Gurrí? Hann var í sjokki, þessi elska.
Nei, alls ekki, það var tengdasonurinn sem hafði aldur minn ekki á hreinu og vissi ekki hvort ég (Kaffi-sjálfið mitt) væri hæf í kúl sjónvarpsþátt, svaraði ég ... en tengdasonurinn er þessi sem mætti alveg tala betri íslensku, að mati Eddu tengdamömmu, ja, sem mögulegur sjónvarpsmaður ...
Ég tók viðtal við Gísla fyrir mörgum árum og hann var mikið yndi, (líka t.d. Simmi (í Simmi og Jói)) og slík aðdáun á viðmælendum deyr seint út. Alltaf að vera góður við blaðamenn (og afgreiðslufólk) ... það getur þýtt ævilanga aðdáun.
Ef myndin prentast vel má sjá Gísla standandi þarna hægra megin á myndinni. Einnig sést í kaffið mitt og kleinu fremst.
Aðeins rúmum mánuði eftir að ég flutti á Kleppsveginn er búið að biðja mig um að koma í hússtjórnina. Að sjálfsögðu sagði ég já, ég vil búa í góðu húsi með góðu fólki og þá tekur maður þátt og reynir að gera sitt besta. Vonandi verður mér treyst fyrir einhverju spennandi, eins og að sofa hjá einhverjum hjá Reykjavíkurborg svo við fáum fleiri tunnur undir pappa og plast. Ég er auðvitað að tala um að sofa, ekkert annað!!!
Á fyrsta aðalfundinum í himnaríki, sennilega tveimur mánuðum eftir að ég flutti á Skagann, sagði þáverandi húsfélagsformaður: Aha, ertu blaðamaður? Þá ert þú tilvalin í hlutverk riddara húsfélagsins. Næstu átján árin gegndi ég því frábæra embætti. Það getur verið vinna og vesen að vera í stjórn húsfélags en sem riddari slapp ég svakalega vel, þurfti í rauninni bara að vera sæt og skrifa fundargerðir sem, núna síðustu árin, var búið að undirbúa svakalega vel af formanninum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 34
- Sl. viku: 828
- Frá upphafi: 1515923
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 701
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni