Færsluflokkur: Bloggar
20.11.2024 | 18:35
Snobbað lúsmý, glaður intróvert og hnausþykk ferilskrá
Elsku dagbók, fyrirgefðu að ég hef ekkert skrifað í marga daga en ég fékk enn eina leikskólaflensuna eftir rúmlega mánaðarpásu. Keypti loksins C-vítamín. Mjög kalt úti. Það mátti búast við þessu, hitti svo miklu fleira fólk eftir að ég flutti til höfuðborgarinnar og það er alltaf þessi eini sem hnerrar og smitar ...
Hvernig er svo fyrir yfirlýstan intróvert (sem fann engan mun á lífi sínu í samkomubanni) að umgangast svo miklu fleiri en undanfarin ár? Jú, takk, það er bara allt í lagi, eiginlega bara rosalega gaman þótt ég sakni Akraness stundum alveg brjálæðislega mikið.
Afmælisfrænka mín (13) færði sunnudagsveisluna til laugardags og ég fékk bílfar með góðu frændfólki vestur í bæ þann dag eftir að árangurslaust reyndist að setja upp fatahengið góða úr Jysk, tvær skrúfur, 4 eða 5 mm. EN ... veggirnir eru ekki bara þykkir hér á Klepps, sem kemur í veg fyrir almennilegt wifi, heldur einstaklega grjótharðir því borvélin (lánsvél, afar léleg og eldgömul) bara emjaði og gat ekki neitt, ein skrúfan brotnaði líka og er föst í veggnum. Þarna var þaulvanur og laghentur (og einstaklega elskulegur) þroskaþjálfi að verki en sennilega þarf ég að leita til barnasálfræðingsins (sem er líka afar elskuleg og á súperfína borvél, eða maðurinn hennar) til að koma kvikindinu upp á vegg. Þurfum við smiði í fjölskylduna? Ónei! Í allri spælingunni vegna fatahengisins gleymist hreinlega að setja upp rúllugardínuna í svefnherberginu. Kannski bíður hún bara píparans í ættinni, heheheh, ef hann kemur með borvél með sér í bæjarferð fyrir jólin.
En algjörlega óháð fatahengjum og borvélum, það er svo innilega dásamlegt að hitta ættingjana svona miklu, miklu oftar en áður, ekki bara einu sinni til þrisvar á ári, eins og í allt of mörgum tilfellum.
Afmælið var algjör dásemd. Ég hafði styrkt unga Vesturbæjarstúlku með kaupum á nýbökuðum skinkuhornum sem voru einmitt afhent á laugardaginn. Stúlkan var svo sæt að mæta með þau í hús afmælisbarnsins (í Vesturbænum) þar sem þau voru samstundis gerð upptæk og snædd af bestu lyst af okkur afmælisgestunum. Auðvitað með mínu samþykki, fannst bara frábært að þau nýttust þarna, svona nýbökuð og góð. Annars hefðu þau mögulega gleymst um ókomin ár í frystinum heima hjá mér.
Myndin af Chuck Norris tengist færslunni óbeint. Það er talað um aldur - afmæli tengjast aldri.
Í afmælinu fór að bera á leiðindahálsbólgu ykkar einlægrar sem varð til þess að ég leyfði engin kveðjuknús og reyndi að anda ekki. Það var samt svo gaman og skemmtilegir gestirnir. Móðir afmælisbarnsins sagði okkur m.a. frá furðulegri háttsemi lúsmýs í garði hennar undanfarin sumur ... lúsmýið píndi og beit sem sagt bara þá vini hennar (íslenska) sem bera ættarnöfn. Ein viðstödd sem hefur rétt á að bera tvö ættarnöfn en notar bara eitt staðfesti þetta. Nú er ég loksins sátt við, eiginlega þakklát fyrir, að vera bara Haraldsdóttir. Var meira að segja farin að sjá svolítið eftir því (alls ekki lengur) að hafa hafnað bandarískum vini vinkonu minnar af því að hann ber ættarnafnið Mattrass. Vinkonan skilur enn ekkert í því hvers vegna ég harðneitaði að hafa rass í ættarnafni mínu. Bind samt enn vonir við að finna Filippus Angantý (sem guð sagði mér (12 ára gamalli) í draumi að ég myndi giftast ... og að ég myndi eignast tvíbura og deyja í hárri elli 38 ára). Filippus A. er ekki til í þjóðskrá. Nema ... það er alltaf sá möguleiki að stórhuggulegur Skoti, Phillip McIntyre (er hægt að komast nær Filippusi Angantý en það?) að nafni, fyrirfinnist og finni mig hér í 104 Reykjavík eða ég hann í næstu Glasgow-ferð. Er yfir mig hrifin af Glasgow ... og er alls ekki að tala um verslanirnar, held að innkaupaferðir heyri nánast sögunni til, veit alla vega ekki um neinn sem fer staðfastlega og eingöngu þangað til að gera góð kaup.
Við Hilda fórum samferða heim úr afmælinu (hún skutlaði mér) og fljótlegasta leiðin til að fá áríðandi hvítlauk í blóðið (drepur vampírur OG kvef) er að kaupa hvítlaukspítsu og á 107-pítsustaðnum hans Páls Óskars fékk ég eina slíka sem var ansi hreint bragðgóð. Í stað þess að bíða kyrrar eftir pítsugerðinni kíktum við í Melabúðina á meðan en hún er alltaf jafnskemmtileg. Þarna fékkst kaffi frá ýmsum íslenskum kaffibrennslum (m.a. Kvörn, Te og kaffi, Kaffitári og Kaffibrugghúsinu) ... mig minnti að Valeríukaffi (350 Grundarfjörður) fengist þar og spurði, því það er svooo gott og erfitt að nálgast það fyrir bíllausa kerlu. Konan sem ég talaði við var áhugasöm og ætlaði, held ég, að panta það því það var hvergi að finna þar. Kannski þarf ég bara að flytja í 107 nema Holtagarðar fari að gyrða sig í brók (ókei, ég er ekki enn búin að fara þangað í vettvangsferð, nema rétt til að kaupa kaffirjóma og kattamat) og komi með geggjað kaffihús, bókasafn, apótek og fleira ... Það er t.d. mjög flókið fyrir mig að taka strætó í Skeifuna eftir ýmsum nauðsynjum, skv. Klappinu (gangið í 17 mínútur bla bla hryllingur). Einfaldast er að taka tólfuna héðan í Mjódd og svo vagn þaðan á Grensásveg, ég "fattaði upp á því" sjálf en er kannski ekki fljótlegasta leiðin. Samt, ég nenni ekki að ganga í 17 mínútur í hálku og alls konar óveðri, þannig að langt á milli stoppistöðva mun FÆKKA farþegum, þið sem eruð að skapa Borgarlínuna takið það vonandi til greina. Borgarlínan mun ekki fara Sæbraut, ég var svo viss um það en efast þó um að stoppistöðin næst mér verði tekin. Svo ótrúlega margt fólk býr hér á þessum bletti. Yfir 100 íbúðir bara í tveimur háu blokkunum. Sem minnir mig á, veit einhver hvernig maður losnar við átta hæða blokk sem er fyrir annarri átta hæða blokk, svo maður sjái upp á Akranes?
Sunnudagurinn fór í bráðskemmtilegt Bókamessurölt í Hörpu, jú, ég tók flensulyf og kenndi mér því ekki meins en sparaði samt faðmlög og blauta kossa til að smita engan.
Hitti fyrst elsku Ása í Drápu sem bauð mig velkomna til borgarinnar og staðfesti af festu að 104 Reykjavík væri hverfi fallega fólksins. Hann býr ekki svo langt frá mér. Ella var þarna líka og svo hitti ég Skúla Sigurðsson rithöfund. Hef lesið tvær bækur eftir hann og er yfir mig hrifin af honum. Fékk þá nýju, Slóð sporðdrekans, og hlakka ótrúlega mikið til að lesa hana. Er komin með fínt safn nýrra jólabóka í hús. Elsku Eva frænka gaf mér sína nýju bók, Í skugga trjánna, sem er víst algjör dásemd, segja þau sem hafa lesið hana. Svo hlustaði ég á Nönnu Rögnvaldardóttur lesa upp úr sinni nýju, Þegar sannleikurinn sefur, og get ekki beðið eftir að lesa hana, Nanna kíkti nefnilega í heimsókn til mín á mánudagskvöldið, borðaði hjá mér (Eldum rétt-fisk) og færði mér eintak, eins og hún hefur eiginlega alltaf gert með sínar bækur, öll árin, en við kynntumst á Króknum þegar við vorum 16 og 17 ára. Það var sérlega gaman að fá Nönnu og það er alls engin hetjudáð að bjóða matgæðingum á borð við hana í mat, hún var sátt við matinn og er ekki matvönd. Sumir þora varla að bjóða mér kaffi, af því að ég er kaffikerling... en játa fúslega að frekar vildi ég uppáhellt ódýrt heimiliskaffi en t.d. Jamaica Blue Mountain-kaffið sem ég fékk eitt sinn á kaffihúsi hér á landi (hætt), sennilega í kringum 1995. Þá kostaði lítil pressukanna af því aðeins 1.100 krónur ... Olían í kaffinu farin að þrána og mikið geymslubragð af því.
Keypti ljóðabók eftir eitt uppáhaldsljóðskáldið mitt, Þórdísi Gísladóttur, Aðlögun heitir hún. Hef ég andlegt þrek til að geyma bækurnar til jóla eða hvað? Er komin með fjórar af þeim sem mig langar mest í - en þær eru auðvitað fleiri. Þegar ég vann á Vikunni var ég oft búin að lesa tugi jólabóka áður en jólin runnu upp og gat sjaldnast sparað mér neina til að lesa á jólanótt. Fólkið mitt gaf mér að sjálfsögðu aldrei bækur í jólagjöf, nema mamma, hún gaf iðulega bækur, og ég fékk bókina Sumarlandið frá henni eitt árið, óvænta metsölubók um blómabrekkur og annan hrylling (í mínum huga, geitungar og of mikill hiti, mætti ég frekar vakna í Vetrarvondalandi í 101 Rvík ... útgefandinn hafði hitt mig á Vikunni og laumað að mér eintaki, elsku karlinn, svo það var kát Fjóla í bókabúðinni á Akranesi sem tók við eintakinu frá mömmu sem ég skilaði milli jóla og nýárs, því það var langur biðlisti eftir bókinni. Ég held alveg örugglega að hún hafi heitið Sumarlandið.
Djammið sem átti að vera á föstudeginum breyttist svolítið. Ein vinkonan afboðaði sig svo við Lalla fórum bara tvær á kaffihús niðri í bæ. Það var sjúklega gaman að koma í miðbæinn og vonda veðrið sem spáð hafði verið hélt sig á mottunni, alla vega í 101 og 104. Við fórum í hið nýja kaffihús Kokku á Laugavegi (á horni Frakkarstígs) og vá, hvað það var æðislegt. Ég var spennt að smakka kaffið, spyr vanalega hvaða kaffitegund (frá hvaða fyrirtæki) sé notuð. Var ansi hreint sátt þegar ég heyrði að það væri Kvörn á 755 Stöðvarfirði. Ég er reyndar það mikill plebbi að mér finnst kaffið þeirra aðeins of lítið brennt, svona yfirleitt, en aldrei vont. Fékk tvöfaldan latte sem var einstaklega góður svo ég mæli hástöfum með þessu kaffihúsi. Meðlætið var líka gott. Og í búðinni á neðri hæðinni fékk ég ansi góðan tímamæli (bakið kartöflurnar í 25 mín.) sem ég nota mikið þegar ég er að elda. Hann var kominn í gang í fyrsta sinn á mánudaginn þegar ég fann þann bláa sem ég hafði leitað að árangurslaust frá því ég flutti.
Atvinnuleit er í fullum gangi, svona þannig, hef eiginlega ekki nennu til að senda inn eina umsókn og bíða svo, ekki svona vinnualki, heldur dæli á nokkra staði og bíð svo svara. Áskil mér rétt til að taka öllum eða hafna öllum ... það væri alla vega gaman að geta verið í tveimur til þremur, eins og núna síðustu árin. Ferilskráin sem ég gerði á síðustu öld fyrirfinnst hvergi (hef ekki þurft að sækja um starf síðan undir aldamót) svo ég bjó til nýja í fyrradag og hún er ansi mikilfengleg þó að ég segi sjálf frá. Hver vill ekki konu sem hefur unnið í fiski, verið innheimtufulltrúi, símastúlka, fulltrúi, skrifstofustjóri, einkaritari forstjóra, verslunarstjóri, útvarpskona, blaðakona, rekið kýr og rakað með hrífu upp á gamla mátann í sveitinni, au pair í London, skrifað bækur (gleymdi því reyndar í ferilskránni), leiðbeinandi, fósturmóðir og man líka flestöll póstnúmer landsins síðan hún vann við að senda út reikninga á níunda áratug síðustu aldar. Já, og svo hefði IKEA ekki getað flutt í Holtagarða úr Kringlunni án minnar aðstoðar, svo það komi nú fram ... Þar hitti ég elskuna hann Hjört Howser og saman sóttum við um að sjá um morgunþátt á Aðalstöðinni, Drög að degi, sem við gerðum um veturinn. Æ, hvað ég sakna hans.
Ég fletti í gegnum Alfreð (alfred.is), ekki alla leið samt, og sá nokkur áhugaverð störf. Skellti þó upp úr þegar ég sá að hlunnindin við eitt þeirra voru að komast ókeypis í sund í bæjarfélaginu. Þau sem þekkja mig vita að ég fer aldrei í sund, hata allt blautt (nema kaffi og rigningu), hef ekki farið í sund síðan 1986 (ja, einu sinni í Reykjaskóla eftir það reyndar) og skil hreinlega ekki af hverju spa er skilgreint sem dekur. Hef farið tvisvar eða þrisvar á ævinni í heitan pott. Finnst yndislegt að fara í sturtu svo það komi nú fram.
Myndin úr Ísfélaginu sannar, svo ekki verður um villst, að ég var send, aðeins 15 ára gömul, til Eyja til að vinna fyrir heimilinu; foreldrum mínum og 17 svöngum systkinum árið 1974. Hvar var umboðsmaður barna? Veit/man ekki hver það er sem horfir á mig með vandlætingu (til hægri), sennilega af því að það stendur Gurrí með ý-i framan á svuntunni minni.
Að vinna í bókabúð í Leifsstöð heillaði mig reyndar mjög ... held að strætóleysi á nóttunni komi í veg fyrir það. Ritari (ekki læknaritari) á einni deild á Landspítalanum í afleysingum hljómaði líka vel. Sem hjúkkudóttir hef ég ekki skilið af hverju ég hef aldrei unnið á spítala, starfsævin er auðvitað ekki búin - spítalar hafa aldrei hrætt mig, frekar hið gagnstæða.
Núna rétt áðan kom sendill frá gæludýr.is í fyrsta sinn með kattasand upp að dyrum hjá mér (frítt að fá heimsent á höfuðborgarsvæðinu, nema 116 Rvík sem er Kjalarnes og 271 Mosó dreifbýli). Kassinn er tíu kíló að þyngd og helst til of þungur að bera frá Holtagörðum (yndisleg dýrabúð þar) þótt þangað sé ekki langt að fara. Hef verið heppin að fá far hingað til.
Heimilið er nánast í rúst vegna undanfarins og hverfandi slappelsis, lækningamáttur hvíldar og svefns ásamt C-vítamíni og hvítlauk, er sannarlega ekki ofmetinn. Ætlaði að gera allt í dag en þá komu nokkur frekar fljótleg verkefni til að lesa yfir og svo langaði mig líka að dusta rykið af blogginu ... Heita vatnið er kraftlaust í dag svo uppvaskið síðan á mánudagskvöld verður að bíða enn lengur (búin að skola allt). Á morgun, segir sá lati eða slappi, þá mun ég ryksuga, brjóta saman þvott, vaska upp (sýð bara vatn í katlinum ef heita vatnið er með vesen) og gera allt súperfínt. Svo þarf ég að gera samning við einhvern sem fer reglulega í Sorpu að taka mig með (ef það er ekki hræðilega úr leið) því fráflæðivandinn er alltaf sá sami á heimilinu. Hef ekki enn losnað við umbúðirnar utan af þvottavélinni (of fyrirferðamiklar til að ég geri grönnum mínum það að troða þeim í ætíð of fullar tunnurnar hérna úti, sem eru of fáar fyrir 32 íbúðir). Það eru samt fjölmargir kostir við að vera bíllaus.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2024 | 01:28
Vefmyndavélasjokk, ævintýradagur og ... pólitík
Ævintýraríkur dagur sem endaði óvænt í gómsætum kjötbollum í Kópavogi! Þarf að strætó-búast fljótlega eða læra á visst Klapp, er dauðhrædd við að fikta því það gæti kostað mig 650 krónur hið minnsta, myndi gera það úti á stoppistöð og vona það besta en hafa samt 650 krónur í reiðufé sem plan B. Hvar finnur maður klink? Það er afar stutt í sparsemi, jafnvel nísku á þessu heimili. Það er rándýrt að flytja, eiginlega dýrara en ég hélt, svo nú skal haldið fast um veskið. Samt tók ég leigubíl í dag í bráðskemmtilegt atvinnuviðtal þar sem tveir bráðhuggulegir menn (aðeins of ungir samt) léku á als oddi. Gaman að vita hvað kemur út úr því. En vinnualkaskvísa sem þarf sín þrjú störf til að lifa af (andlega) getur víst ekki beðið endalaust eftir að þau komi upp í hendurnar á henni eins og hefur nú samt iðulega gerst í gegnum árin. Leigubílstjórinn var síðan svo mikið æði að hann lækkaði kostnaðinn um tæpan þúsundkall því hann sagðist hafa valið lengri leiðina í Kópaviog og ég ætti ekki að tapa á því. Lifi Hreyfill!
Mynd: Mosi tekur út strætóbiðskýlið mitt.
Eftir viðtalið barðist ég í komandi óveðri og komst við góðan leik á kaffihús ... Systir mín hafði veður af veru minni í heimabæ hennar, og heimtaði að ég kæmi í heimatilbúnar kjötbollur heima hjá henni en fram að mat gat ég meðal annars knúsað Golíat, frændvoffa minn, sem þurfti mikið á frænkuknúsi að halda. Keypti inn í Nettó í Engihjalla á heimleið, ljómandi skemmtileg búð, hleypti manni með lítið magn af vörum fram fyrir mig ... hann reyndist vera frá Sri Lanka og tala mjög góða íslensku eftir 14 ára búsetu hér á landi. Aha, sagði ég greindarlega, landið sem hét áður Ceylon og skipti um nafn í kringum 1976. Hann starði á mig og jánkaði þessu alveg dolfallinn af hrifningu. Mér datt ekki í hug að segja honum að ég hefði verið au pair úti í London það ár og þar sem ég hefði gott minni mundi ég eftir þessu úr fréttum ... og líka því að Bandaríkin áttu 200 ára afmæli þetta ár. Þannig að ég get alltaf sagt ... aha, árið 1776 urðu Bandaríkin til, og allir halda að ég hafi verið svona rosalega góð í landafræði og sögu og öllu því, sem ég var ekki. Bara sæmileg. Það kom sér vel að hafa marga hluti í gangi þarna 1976, eins og t.d. þorskastríðið en allir fréttatímar á BBC (aðalfréttatíminn kl. 21) hófust á fréttum um stríðið, sem við unnum ... með skærum.
Ljúfi afgreiðslumaðurinn reyndist vera frá Albaníu og hann talaði líka fína íslensku. Að sjálfsögðu hrósaði ég þeim ógurlega, sem gamall leiðbeinandi í íslenskukennslu fyrir útlendinga, en ég held að velflestir sem flytja hingað og ætla sér að búa hér vilji læra tungumálið. Ég þekki pólska konu sem elskaði landið okkar frá fyrstu sýn og kvartaði bara yfir því hversu erfitt væri að finna íslenskunámskeið, hvað þyrfti eiginlega að grafa djúpt til að finna út úr því.
Held að aðgengið að íslenskukennslu hafi skánað mikið á síðustu árum, sem betur fer. Skil svo sem alveg fólkið sem kemur bara til að vinna í takmarkaðan tíma, að það nenni ekki að læra nýtt tungumál, sérstaklega ef það þarf ekki að læra það, vinnur bara með öðrum útlendingum til dæmis. Samt, það er alltaf betra að geta bjargað sér.
Af hverju vissi ég þetta um mennina þarna í Nettó? Jú, af því að ég er svo forvitin, ég hreinlega spurði þá. Einn starfsmaðurinn sem hjálpaði mér að finna vissan hlut (ég gleymdi samt að kaupa eldhúsrúllur, arggg) er frá Afganistan þar sem ekki er töluð arabíska svo ég gat ekki slegið um mig með þessum þremur orðum sem ég kann á því máli, heldur persneska, eins og í Íran. Sá frá Sri Lanka talar tamílsku (sem er eitt þriggja tungumála þar, ég gúglaði) ... mikið er ég þakklát fyrir að það eru bara tvö tungumál á Íslandi; íslenska og norðlenska. Ég er ágæt í báðum ... mjólg (mjólk), taKa (tagga), púnktera (þegar springur á bíldekkinu), vaski (vaskur) ...
Vefmyndavélarnar bestu og flottustu sjást ekki lengur en svo virðist vera sem livefromiceland.is-svæðið sé ekki lengur starfandi. Það eru ekki góðar fréttir. Þegar mig langaði að sjá eitthvað reglulega flott, kíkti ég á vélina frá höfninni í Vestmannaeyjum, þessa sem sýnir bæinn í baksýn, ásamt Helgafelli og Eldfelli, æðisleg vefmyndavél, það er vissulega önnur úr Eyjum sem sýnir höfnina en þar er Heimaklettur í baksýn og sú vél kemur enn upp ef leitað er, hin ekki og ég græt það. Það voru líka ansi hreint góðar vélar sem sýndu eldgosin á Reykjanesskaga, frá hinum ýmsu sjónarhornum. Ferlega gott fyrir jarðskjálfta- og eldgosaáhugasamt fólk. Slæmt ef rétt er, eða að þau séu endanlega hætt ... en ég hugga mig núna við vél sem sýnir Sæbrautina, nálægt Hörpu, og út á sjó, Friðarsúluna og ljósin á elsku Akranesi. Tók ljósmynd af tölvuskjánum ... vélin er flottari í dagsbirtu en þá sést ekki Friðarsúlan og varla Akranes heldur.
Kristjana á Skaganum hefur bætt mér upp útsýnisskerðingu lífs míns síðan 5. október sl. með því að birta flottar útsýnismyndir af áttundu hæð hjá sér, og ekki væri verra ef t.d. góðhjartaður fyrrum granni minn af Jaðarsbraut myndi allt í einu fyllast löngun til að birta myndir af sjónum við Langasand, sérstaklega í suðvestanátt, eins og er núna, heilu myndböndin bara ... Ég myndi fúslega borga fyrir áskrift að sjónum mínum gamla góða þegar veður eru válynd ...
Sæl, Gudda mín. Takk fyrir stórfenglegt blogg, fræðandi og upplýsandi, eins og þín er ætíð von og vísa. Svo ertu líka afar falleg útlits og merkilega lítið hrukkótt miðað við aldur, sem er samt enginn miðað við marga sem eru miklu eldri en þú. Þú ert alls engin hlussa heldur.
Hér kemur erindið: Ég las eitt sinn á bloggi þínu að þú hefðir fyrir slysni hlaðið niður Klapp-appinu um það bil tveimur eða þremur árum áður en þú fluttir til borgarinnar, og hafir haldið að það væri landsbyggðarstrætóapp. Getur verið að þetta hafi beint eða óbeint ýtt þér til borgarinnar, að þér hafi fundist þú tilneydd til að flytja svo þú gætir notað Klappið?
Með vinsemd og virðingu, Gorgeir, frændi þinn frá Sódavatni í Vestur-Þingeyjarsýslu.
- Þetta er rétt, ég hlóð Klappinu niður fyrir algjör mistök fyrir svona tveimur árum. Það munaði um það þegar ég var flutt í bæinn að þurfa ekki að eyða tíma í það. Ég hlóð Hreyfilsappinu niður í morgun, en þorði ekki að fara of langt við fiktið, vildi ekki panta bílinn of snemma, alveg óvart. Svo eiginlega allt í einu var klukkan orðin svo margt að ég hringdi bara á bíl. Hvílík risaeðla ... En landsbyggðarstrætó býður upp á að nota debit- og kreditkort til að borga fargjaldið, það er framtíðin í borginni. Svo var leigubíllinn á Akranesi ekki alltaf í vinnu og maður hringdi með góðum fyrirvara í gemsanúmer bílstjórans, ekkert app þar ... held ég hafi bara einu sinni hringt á bíl á Akranesi, og það var þegar hálkan var svo mikil að ég treysti mér ekki til að fara gangandi til tannlæknis. Ég verð nú samt pottþétt orðin algjör borgarstúlka fyrir jól. Er í startholunum og búin að læra heilmargt frá komu.
- - - - - - - - - -
Ég gef auðvitað ekki opinberlega upp hvaða flokk ég kýs 30. nóv. nk. Alvörubloggari og áhrifavaldur gætir ætíð hlutleysis, en ég dáist nú samt að mörgum í framboði og elska suma hreinlega. Hér eru dæmi um örfáa af þeim sem ég dái: Mér finnst Svandís Svavarsdóttir alveg frábær þótt ég þekki hana ekkert, elska Jón Gnarr, fyrrum samstarfsmann minn, dáist að Kristrúnu Frosta (og Þórði Snæ (ruglið var úr tvítugum strák)), mjög ánægð með Sigurð Inga í ýmsu, elska Davíð Þór, líka gamlan samstarfs m/ meiru, finnst Þórhildur Sunna æðisleg, þótt ég þekki hana heldur ekkert, og aldeilis líka einn ráðherrann okkar, sem er í miklu uppáhaldi! Guðlaugur Þór, einn allra besti yfirmaður sem ég hef haft í lífinu, stjórnaði Aðalstöðinni (útvarpsstöð) um tíma á tíunda áratug síðustu aldar.
Það gæti verið snjallt af fólki með mannaforráð að læra af þessu, að hugsa til framtíðar, að sýna starfsfólki sínu ætíð virðingu og vinsemd því kannski fer fólkið síðar út í pólitík ... og góðsemi þess gleymist aldrei. Það græðir jafnvel atkvæði fyrir vikið, að minnsta kosti gott umtal sem er líka dýrmætt.
Þetta er ekki kosningaáróður (það má bara setja X við einn flokk), frekar óður til þess fjölbreytileika sem við höfum að velja úr. Ég hélt mig við að vera ópólitísk á meðan ég var blaðamaður og reyni það enn en hef áskilið mér rétt til að skipta um skoðun í þessum málum þegar mig lystir. Það er fullt af góðu fólki í flestum flokkum, en reyndar þrír, fjórir flokkar sem ég uuu, gæti verið hrifnari af, mjög, mjög pent orðað.
Myndi ég kjósa Veðurflokkinn ef hann byði sig fram, flokk sem væri fullur af jarð-, veður- og eldgosafræðingum? Já, svo sannarlega. Trúi því að loforð þeirra um æðislegt veður verði efnd, og líka að eldgos framtíðar færðu sig alfarið upp í öræfi þar sem þau gætu ekki haft nokkur vond áhrif á eitt eða neitt og svo væri nóg af ríkisreknum vefmyndavélum allt um kring.
Myndin er sjálfa af okkur Golíat voffafrænda, hún var tekin í dag á meðan Hilda bjó til gómsætar kjötbollur með kartöflumús, sósu, rauðkáli og sultu. Megi ég fara sem oftast í atvinnuviðtöl í Kópavogi.
Dagskráin mín er svo blindfull á næstunni að það hálfa væri nóg. Hef ég kannski ekki tíma til að vinna? Hefði ég jafnvel átt að búa áfram á Akranesi í rólegheitum? Eiginmaður frænku minnar þarf að sýna snilli við að finna tíma um helgina, milli alls þessa djamms á mér, til að hengja upp snaga (þarf borvél), og setja upp rúllugardínu (þarf borvél) hér á Klepps. Held að það sé það síðasta sem þarf af svona veseni.
Föstudagur: Djamm með vinkonum um miðjan dag.
Laugardagur: Harpa, bókamessa.
Sunnudagur: Afmæli hjá frænku.
Mánudagur: Vinkona kemur í mat.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2024 | 17:32
Góð uppfinning, erfiður karlamarkaður og tákn um snilli
Langlokan sem ég skrifaði áðan hvarf út í veður og vind þegar tölvan vildi endilega endurræsa sig í miðjum bloggskrifum mínum. Samsæri, segi ég nú bara, því það gerðist þegar ég var að bera saman mál Jóns Gunn og Sophie, mágkonu Karls konungs þriðja af Bretlandi. Sophie lét sig hverfa í alla vega áratug eftir hneykslið og kom svo hress til baka og allir búnir að gleyma nema ég, en konungsfjölskyldan hótaði ekki lögreglurannsókn eins og tíðkast hér á landi þegar eitthvað óþægilegt kemur upp. Skyldi Jón láta sig hverfa eða verður kannski hægt að kenna hælisleitendum um?
Stórskemmtileg skírnarveisla var hluti af samkvæmislífi síðustu helgar, en lítill frændi fékk nafn, reyndar tvö mjög flott þótt í mínum huga verði hann aldrei annað en Gurrí frændi. Upphafsstafirnir eru LVK ... ég mæli alltaf með að upphafsstafir allra myndi orð! Hefðu foreldrarnir bara haft vit á því að hafa t.d. Arnar sem millinafn, ættu þau LAK ... Örn, LÖK, bara dæmi. Sigurjón Örn ... SÖK, sem væri kúl því pabbinn var einu sinni lögga og þá myndi sonurinn feta í þau fótspor og sanna sök glæpamanna ... eða auðvitað sakleysi. Ég er svo sem að fleygja hér stórgrýti úr gróðurhúsi, sjálf með upphafsstafina GHH en sé samt varla hvaða miðnafn hefði gert sæmilegt orð úr G og H með sérhljóða á milli. Davíð frændi nánast lofaði að láta framtíðardóttur sína heita t.d. Lísu Svanhildi ... bara svo frænka gæti skemmt sér.
Efsta myndin var tekin í skírnarveislunni, heima hjá afa og ömmu litla barnsins, ég kolféll auðvitað fyrir útsýninu.
Það fór rúmur mánuður í að herða upp hugann til að þrífa ofnplöturnar sem gleymdist að gera hjá fyrri íbúa. Ákvað að gera spennandi leik úr þrifunum, hafði vissulega góða sögu í eyrunum en tveimur dögum fyrir þrifin spreyjaði ég tveimur mismunandi hreinsiefnum á plöturnar. Sú til vinstri fékk efni sem heitir Collo og ég keypti í Omnis á Akranesi (fæst í Ormsson, held ég) og á hina fór Pink Stuff sem er æðislegt efni en svo sem ekki gert sem ofnahreinsir, en alltaf gaman að bera saman epli og appelsínur. Platan með Collo-efninu varð eins og ný þegar ég þreif hana en hin nokkuð hreinni en ekkert á við hina svo ég skellti á hana Collo-inu, dugði ekki einn sólarhringur, svo skítugar voru þessar plötur.
Myndin var tekin EFTIR þrif. Svo verður þessi til hægri jafnhrein og hin eftir tveggja daga Collo-meðferð.
Mér datt ekki í hug að gera veður út af þessu, sjálf skildi ég ruslaskápinn ógurlega á Hringbraut eftir óhreinan þarna 2006, eða unga konan sem fékk borgað fyrir flutningsþrifin en steingleymdi að þrífa hann. Nú er ég að launa konunni sem keypti af mér Hringbrautina með því að þrífa sjálf ógeðsplöturnar fyrir konuna sem seldi mér Kleppsveginn. Virkar karma ekki þannig? Íbúðin á Hringbraut er svo sem ónýt núna eftir að einhver eigandinn málaði gullfallegu og upprunalegu innidyrnar rauðar! Húsið var byggt á árunum 1931-1937 og virkilega vandað til verka.
Frú Gurrí, af hverju ertu ekki búin að ná þér í mann, kominn rúmur mánuður síðan þú fluttir í þetta gósenland (104 Reykjavík) af flottum körlum? spurði vinkona mín, þessi sem er vitlaus í kransakökur og hefur mætt í öll mín brúðkaup nema þau sem fóru fram í kyrrþey. Hún minnti mig á að ég hefði áður fyrr verið miklu betri í þessum málum.
Ég hugsaði mig lengi um og varð að viðurkenna fyrir henni að markaðurinn væri fremur erfiður núna. Samfélagsmiðlar hjálpuðu lítið sem er algjörlega öfugt við það sem margir halda. En sjáum bara til. Það er ljómandi fín hverfissíða hérna í hundrað og fjórum og kannski eitthvað flott í boði þar og þá losna ég við að fara í bomsurnar og hafa eitthvað fyrir þessu.
Samt er sennilega of mikið að gera í menningarlífinu til að tími gefist í eitthvað annað en bara það. Mig langar á viðburði á bæði miðvikudag og fimmtudag, viðburði sem tengjast bókum.
Nýja þvottavélin er æði en ég hef ekki enn prófað þvo og þurrk-prógrammið, bara þvæ og læt þvottinn svo þorna á þvottagrind. Engar leiðbeiningar hvort hægt sé að bara þurrka ... spurði eina sem á svona vél og hún var ekki viss. Mér hugkvæmdist þarna við fyrsta þvott að láta viftuna mína (sem bjargar mér á sólríkum dögum við suðurgluggann) blása á þvottinn. Það er gjörsamlega æðislegt, allt þornar miklu fyrr en ella og t.d. föt af mér sem sjást á myndinni eru fáránlega slétt og mjúk, eins og nýstaujuð, inni í skáp hjá mér. Á bara eftir að prófa rúmfatavél ... erfitt að setja sængurver og lök til þerris á svona grind en spennandi samt að prófa - kannski með tveimur viftum? Ég á þrjár! Án efa ódýrara en að setja í þurrkara.
Á myndinni sést því miður ekki í viftuna, hún var staðsett til vinstri, stóð á stól og blés og blés og þurrkaði, þessi elska.
Um daginn birti ég lista yfir algengustu afmælisdaga fólks (sem upplýsti að tíminn til að búa til börn rennur fljótlega upp, eða dagarnir í kringum jólin).
Hér koma sjaldgæfustu afmælisdagarnir. Í stað þess að byrja á tíu og telja niður, kýs ég íslensku leiðina, að halda fólki ekki of lengi æsispenntu, heldur fara beint í þann sjaldgæfasta sem, ótrúlegt en satt, er:
1) 29. febrúar!
2) 25. desember
3) 1. janúar
4) 24. desember
5) 2. janúar
6) 4. júlí
7. 26. desember
8) 28. nóvember
9) 27. nóvember
10) 26. nóvember
Ef þið eruð jafnvitlaus í lista og ég, getið þið glaðst því hér kemur annar sem er yfir bestu framhaldsmyndaflokka allra tíma (hef ekki hugmynd um hvernig þetta var fundið út, sennilega með einhvers konar kosningu - en smekkur er misjafn, samt ekki tryllast).
Ath. Ekki búið að finna upp konur þegar listinn var gerður.
1) Godfather.
2) Star Wars.
3) Lord of the Rings.
4) Indiana Jones.
5) Harry Potter.
6) The Dark Knight.
7) James Bond.
8) Toy Story.
9) Pirates of the Caribbean.
10) Marvel.
Síðasti listinn bjargaði gjörsamlega sjálfstrausti mínu og jók á þingeyskt montið sem aldrei er nóg af. Ég bara vissi það ...
Tíu algeng tákn um að þú sért snillingur!
Er með alla vega sjö af tíu, en alin upp á tímum Hvað heldurðu að þú sért? svo ég myndi t.d. aldrei segja nr. 1. Það er annarra að dæma um það, hugsa ég hógvær.
Þú ...
- ert skapandi.
- ert forvitin/n.
- nýtur einveru.
- hlustar meira en þú talar.
- ert einbeitt/ur.
- þarft að berjast við freistingar.
- ert nátthrafn.
- ert dagdraumamanneskja.
- hefur mjög gott minni.
- talar við sjálfa/n þig.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2024 | 17:43
Kraftaverk á Kleppsvegi en samt ...
Símtal til litlusystur dugði til að fá símanúmer hjá pípara sem héðan í frá verður aldrei kallaður annað en Guðmundur almáttugur. Hvar ertu? spurði hann og svo ... Ég er akkúrat laus í augnablikinu en bara í smástund, kem eftir 20 mínútur, bætti hann við og ók sem leið lá á Kleppsveginn. Á meðan á Facebook:
Linda María: Þessir kranar hafa örugglega fagnað 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar akkúrat þarna.
Nanna: Tuttugu píparamínútur geta verið langar.
Ég: Nei, hann er kominn.
Hanna: Þetta flokkast víst sem kraftaverk!
Og kraftaverk var það. Nú er enginn leki ... en ég hef ekki enn sett í vél og alveg spurning hvort ég eigi nóg af fötum til að dekka helgina ... því ekki kann ég að gúgla mér til nægilegs gagns. Auðvitað kíkti ég í bæði norsku og dönsku leiðbeiningarnar sem fylgdu vélinni en þar skildi ég fátt og fann heldur ekki þær upplýsingar sem ég þurfti að fá.
Á hvaða takka ýtir maður fyrst? Byrjar maður á að velja prógrammið, hvað svo til að þvo 30 gráðu vél, start eða on? Á hvað ýtir maður til að stjórna hitastigi, ef þess þarf? Og svo framvegis. Þessi er gjörólík Siemens-vélinni minni á Skaganum sem var í raun mjög einföld eftir að Hildur niðri kenndi mér á hana (þótt ég hafi ekki getað notað hana til hins ýtrasta vegna skorts á leiðbeiningum nema á úrdú og svahílí). Ég ætla ekki einu sinni að hugsa um þurrkaradæmið í vélinni fyrr en ég hef lært þvottinn fyrst. YouTube var heldur ekki hjálpfús og ég treysti mér ekki í eitthvað fikt og setja kannski óvart á suðuprógram.
Góðir gúglhæfileikar fyrirfinnast bara alls ekki hjá mér, sem er synd því ég væri meira en til í að verða eins og Lisbeth Salander, nema þá í vinnu hjá lögreglunni, vera konan sem finnur allt sem hún vill í tölvunni sinni og leysir þannig flókin glæpamál ... Grannkona mín á svona þvottavél en kemur ekki heim úr sumarbústað fyrr en á sunnudagskvöld. Aðrir eru veikir eða uppteknir (búin að senda a.m.k. eitt neyðarkall). Ætli sé í lagi að mæta í mjög stuttum stuttbuxum í nafnaveislu á morgun? Ég VEIT að þetta er mjög einfalt, eins og allt er þegar maður er búinn að læra það.
Gærkvöldið var dásamlegt. Bókakonfektið úti á Granda, sem sagt. Átta rithöfundar lásu upp úr verkum sínum og þetta voru virkilega girnilegar jólabækur, var búin að kaupa eina þeirra, eða nýju bókina um Eddu á Birkimel og lesa hana, mæli innilega með henni. Það er ekki annað hægt en að fara í jólaskap við að hlusta á svona upplestur. Gömul mynd af jólatrénu mínu minnti á sig á fb og þarna sést eina kúlan sem ég á í ljótukúlusafninu mínu, Trump prýðir hana. Hún er rauð.
Þarna hitti ég Kollu sem vann með mér á Fróða og líka Nönnu R. sem reyndar vann líka með okkur þar og ótrúlega gaman að hitta þær og spjalla. Nanna er með bók í jólaflóðinu og ég get ekki beðið eftir að lesa hana, hún hefur fengið góða dóma. Þarna var einnig Þórólfur sjálfur, sá eini af þríeykinu góða sem ekki fór í framboð, en ég þekki hann því miður ekki svo ég kunni ekki við að heilsa. Ekki eftir að hafa heilsað Jónasi R. í ógáti 1972, þegar hann var einn heitasti poppari landsins. Þarna voru eflaust fleiri sem ég þekki en nærsýni mín kemur iðulega í veg fyrir að ég heilsi fólki þrátt fyrir gleraugun. Ég geri mig oft að fífli þegar einhver á bíl kemur til að sækja mig, ótti minn við að setjast inn í rangan bíl og hræða glóruna úr bílstjóranum, er það mikill að ég horfi frekar grimmdarlega á alla bíla sem koma og ef einhver bílstjórinn veifar mér sest ég inn í þann bíl. Það hefur einu sinni klikkað, en þannig varð eitt af hjónaböndum mínum til.
Var að klára að hlusta á ansi þunglyndislega glæpasögu um bankaræningja sem tekur gísl ... gíslinn hafði strokið af geðveikrahæli og smám saman fer allt fjandans til. Verð að viðurkenna að þessi misserin er ég mun meira fyrir venjulegar og þá kannski klisjukenndari glæpasögur þar sem enginn bítur nefið af neinum eða hungrið þjakar eða einhver fær ekki óvart ör úr boga í fótinn og blæðir út. Allt of lítið um löggur, allt of mikið um vonleysi og klúður. Alls ekki slæm bók, bara aðeins of þunglyndisleg. Ætla að finna einhverja léttari til að hlusta á í kvöld. Eftir að leigubílstjórinn sagði mér frá konunni sem hætti að lifa lífinu og notaði hverja vökustund nánast til að hlusta á sögur, dró ég úr hlustun, reyni að gera það bara fyrir svefninn og þegar ég er að gera einhver arfaleiðinleg húsverk. Sem minnir mig á að ofnplöturnar voru voru ansi hreint skítugar þegar ég flutti inn, ég setti hreinsiefni á þær í gær og þarf að þrífa þær í dag ... Þá er nú fínt að geta hlustað á fína bók á meðan.
P.s. Neyðarkallið virkaði, ég fékk send tvö myndbönd og nákvæmlega á hvað er ýtt til að geta þvegið ... og þar með verður sett í vél núna eftir augnablik.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2024 | 13:21
Fjörugt samkvæmislíf, ruggustóll í bið og kosningaráð
Elskurnar hjá Elkó settu svo sem ekkert drengjamet í hraðþjónustu, fá samt tíu fyrir kurteisi, en um eittleytið ætlar elskulegur nágranni minn að klára að tengja þvottavélina. Slangan kom með dropp-sendli í gærkvöldi, svo stór að hún hefði aldrei farið fram hjá okkur hirðsendibílstjóranum (eitthvað sem bæði ég og Elkó höfðum áhyggjur af) ... Vélin keypt á mánudegi ... og kemst í notkun á ... þegar ég er búin að gúgla hvernig eigi að nota hana. Ekki halda að þetta séu elliglöp (það fyrsta sem mörgum dettur í hug hjá fólki yfir 50 ára) að geta ekki notað erlendar leiðbeiningar, ég er bara mjög fúl yfir áberandi minnkandi þjónustu í svo mörgu. Ef gervigreindin getur talað íslensku, geta sumir druslast til að láta þýða (og bara ljósrita þess vegna) leiðbeiningar fyrir fokdýru vélarnar sem þau selja. Ég veit að sumir kaffihúsa- og búðaeigendur áttu erfitt eftir covid-lokanir og slíkt, en núorðið fer ég ekki lengur í búðir sem loka kl. 17 eða kaffihús sem loka í kringum kl. 16. Það sparast auðvitað við að þurfa ekki að borga fólki eftirvinnu - en ég man bara allt of vel eftir kapphlaupinu um kúnnana, þegar keppst var við að bjóða sem bestu þjónustuna. Landsbyggðastrætó er gott dæmi um versnandi þjónustu sem, ótrúlegt en satt, dregur samt ekki fleiri farþega að ... döh
Jæja, frú Guðríður, hættu þessu nöldri ... þú gerir þitt með því að sniðganga ... jamm.
Ýmsar jákvæðar breytingar hafa fylgt flutningum mínum til höfuðborgarinnar, vissulega meira fjör, enda er rólegheitalíf svo innilega ofmetið ... til lengdar. Í kvöld ætlum við Ólöf að hlusta á upplestur úr nýjum jólabókum úti á Granda og í næstu viku fer ég í síðbúinn hádegisverð með tveimur vinkonum. Aðrar tvær ætla að koma í heimsókn mjög fljótlega, sennilega samt í næstu viku. Þetta er bara rétt byrjunin á yfirmáta fjörugu samkvæmislífi vetrarins. Er hætt við að finna mér ruggustól, í bili. Það er eins og ég hafi aldrei flutt á Skagann, það er að komast inn í kerfið hjá vinum og vandamönnum að ég sitji ekki lengur dáleidd við gluggann minn að horfa á brimið ... vá, samt, hvað ég sakna þess. Það hlýtur að vera mjög flott í dag, suðvestanhvassviðri og dásemd. Nú vantar mig einhvern við Jaðarsbraut sem tekur myndir af briminu mínu ... ég gætti þess vandlega að selja ekki neitt af landhelgi minni, bara himnaríki sjálft, svo ég á marga, marga lítra af sjó þarna fyrir framan.
Facebook rifjar alltaf reglulega upp minningar dagsins, fyrir visst mörgum árum og fyrir nákvæmlega tíu árum skrifaði ég:
"Himinglöð og alsæl eftir tveggja tíma dásemdarstund með 50 myndarlegum körlum."
Hvað ætli hafi verið í gangi hjá mér þarna? Einn nægir mér nú alveg svo þetta með fimmtíu vekur mér eiginlega óhug ... nema mögulega þetta hafi verið kórtónleikar, Fimmtíu fóstbræður úr Skagafirði, eitthvað slíkt. Ég fer ekki bara á Skálmaldartónleika ... en ég ætla að rembast við að rifja þetta upp. Þetta var alla vega skemmtilegt ...
Sá annað á fb í gær sem mér fannst merkilegt.
"Berðu virðingu fyrir fólki sem gengur með gleraugu. Það borgaði fyrir að að sjá þig!" Algjörlega rétt. :)
Fann líka góða staðhæfingu á erlendri fb-síðu:
Ég hata þegar einhver fleygir í mig ísskáp þegar ég er úti að ganga.
Svo átti fólk að bæta við, og þetta kom:
... þegar Voldemort notar sjampóið mitt
... þegar ég er að synda og hákarl gleypir mig.
En svo voru flest önnur komment um að fólk fleygði ekki ísskápum út um hvippinn og hvappinn ... hvers konar bull væri þetta og fljótlega hætti ég að lesa svörin.
Ég fann kosningageðheilsufærslu, ammríska auðvitað:
Hvað hefur þú gert í dag (í fyrradag) til að halda geðheilsunni? (í bið eftir úrslitum kosninganna í USA). Nýtist okkur Íslendingum núna 30. nóvember. Hvort sem við bíðum eftir ískrandi íhaldsstjórn eða krassandi kommastjórn ...
- Við tókum að okkur heimilislausan hund og það hefur haldið okkur uppteknum.
- Hef fengið mörg góð ráð frá röddunum í höfðinu á mér.
- Hlustað á Willie Nelson-tónleikaútgáfur á hæsta.
- Horft á gamlar bíómyndir og prjónað.
- Gekk í rigningunni með barnabarnið.
- Eldaði sérlega góðan mat í kvöld.
- Tók flensupillur og fór snemma í rúmið með hundunum mínum.
- Hef horft á fréttalausa sjónvarpsstöð.
- Haldið upp á afmælið mitt. Ef hann sigrar, breyti ég um afmælisdag.
- Spilað Jimi Hendrix, það gerir allt betra.
- Tók til í bakgarðinuim og þreif innkeyrsluna.
- Hlustað á bók í upplestri Stehens Fry og saumað út.
P.s. Granninn búinn að tengja. Nýtt vandamál ... leki úr krananum, svo ég þarf pípara. Vatnsslönguvöntunin var bara fyrirboði um meira vesen ... en ef ég lendi nú á stórhuggulegum pípara ... hvernig verður þá fb-minningin eftir tíu ár? Spennandi líf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2024 | 23:40
Óvænt drama, góð matargjöf af Skaga og þvottavélarólukka
Tónleikarnir með Skálmöld ... voru þeir góðir? Já, með þeim allra bestu. Aldrei vekja mig-tilfinningar. Mikil stemning og ég þekkti bara þrjá, sem segir mér að ég sé svolítið ein í þessu, samt alls ekki.
Elsku þrítugsafmælisbarn 4. janúar sl. og sem kom með mér á tónleikana (afmælisgjöfin hennar) lenti í drama-Gurrí sem ég hélt að væri ekki lengur til. Við höfðum rætt saman daginn áður og hún ætlaði að koma kl. 19, eða klukkutíma fyrir tónleikana, að sækja mig og þar sem ég bý eiginlega við sömu götu og Harpa var það kannski í það fyrsta ... en samt gaman að geta sest niður í rólegheitum og kíkt á ókunnu sálufélagana.
Kl. 18.55: SMS frá mér: Á ég að hlaupa niður núna?
Kl. 18.57: Hjartsláttur, ekkert svar, hvað hefur komið fyrir?
Kl. 18.59: Það er eitthvað að. Eitthvað mikið. Hún getur ekki verið hætt við að koma!
Kl. 19.02: SMS frá mér: Láttu mig endilega vita ef þú kemst ekki.
Kl. 19.04: Ég trúi þessu ekki, hún hefur hlakkað jafnmikið til og ég. Ætli hún sé að vinna fyrir sinn flokk, þarna beinu útsendinguna á RÚV og hefur gleymt sér? Fékk hún ekki pössun?
Kl. 19.08: SMS frá henni: Hæ, elskan, var að mála mig og heyrði ekki í símanum, kem fljótlega.
Kl. 19.09: SMS frá henni: Ég myndi aldrei hætta við!!!
Kl. 19.15: Ég skammaðist mín, fór niður, fannst meiri kurteisi og líka fljótlegra að bíða þar ef hún væri alveg að koma.
Kl. 19.30: Hún mætir á Kleppsveginn. Sorrí, ég þurfti að skutla XXX fyrst, við erum nú samt á góðum tíma.
Kl. 19.30: Ég: Já, ekkert stress, elskan mín.
Það rifjaðist upp fyrir mér að hafa fengið áhyggjur af fólki ef það kom ekki á umsömdum tíma (ég er sjálf mjög stundvís), stundum var ég í miðri átakanlegri útför í huganum þegar viðkomandi kom, hafði tafist í símtali (heimasíma), umferð eða einhverju álíka. Ég endurheimti stöðugt fólk á lífi sem ég var byrjuð að syrgja, hélt samt sjálf áfram að mæta t.d. í boð á réttum tíma, þótt gestgjafinn væri kannski enn í sturtu. Þegar Einar strætóvinur kom klukkutíma of snemma í afmælið mitt í fyrra náði hann mér bara berhandleggjaðri, það var ekki hneykslanlegra en það, ég bauð honum til stofu en hann kaus að nota tímann til að fara frekar í sjósund ... hans undarlega val, ég veit, ég hefði auðvitað farið í jakkann og gefið honum kaffi.
Tónleikarnir voru dásamlegir á allan hátt. Textar allra laganna birtust fyrir aftan hljómsveitina og ég get vottað að allur textinn var afar vel prófarkalesinn, ég sá bara skort á einni kommu í upptalningu í flottu lagi. Og það sleppur. Mig langaði mjög mikið þetta kvöld til að fá hraðinngöngu (lauma 50 kr. að kórstjóranum) í Hymnodiu, þennan himneska kór sem hefði nú samt alveg mátt heyrast hærra í. En ... ég lét mér nægja að læka síðuna þeirra á Facebook. Hefði sennilega ekki fengið að syngja með á laugardeginum og sunnudeginum hvort eð var.
Í dag fékk ég frábæra heimsókn. Önnur sýrlenska fjölskyldan mín heimsótti mig í dag, fjölskyldufaðirinn þó hjá tannlækni, og það var einstaklega gaman. Kom hún Fatima mín með mat, eins og venjulega? Ójá. Svo mikið að ég þurfti að frysta í skömmtum. Eldum rétt hvað? Sá yngri var nýhættur að vera hræddur við mig, hló bara og skemmti sér þegar tími var kominn til að fara. Þau fengu vöfflur hjá mér, alveg ljómandi góðar frá Kötlu, minnir mig, í flösku með dufti sem þurfti bara að bæta smávegis mjólk við og hrista. Svo gerði ég súkkulaðiglassúr og þeytti rjóma. Sló alveg í gegn. Ég er að venjast nýju eldhúsi, aðeins of lítilli birtu þar ... og í raun væri ég til að hafa meiri birtu í stofunni (þegar sólar nýtur ekki) og ganginum líka. Er greinilega ekki þessi kósí- og rómanstýpa sem vill lifa lífinu í hálfrökkri. En það hafa nú samt orðið talsverðar breytingar á mér upp á síðkastið. Ég horfði á sjónvarpið á laugardagskvöldið! Það er saga til næsta bæjar. Sá tvær ruglaðar bíómyndir ... aðra um sætan mann sem tekur á leigu mjög flotta íbúð en andi eiganda leigusamningsins og húsgagnanna, ekki látinn þó, læknir í dásvefni á sjúkrahúsi, mjög sæt kona, lætur hann ekki í friði. Ástarmynd með draugaívafi. Hin er um tvær miðaldra vinkonur sem skella sér til smábæjar í Flórída eftir að hafa misst vinnuna og í fríinu bjarga þær lífi bæjarbúa sem öskureiður fyrrum íbúi, kona sem hafði orðið fyrir einelti þar, ætlaði að drepa með baneitrunum býflugum ... Hljómar hræðilega en margt óvænt fyndið þarna samt. Svo tókst mér að klára alveg hreint frábæra bók eftir Jónínu Leósdóttur, nýju bókina um Eddu á Birkimel. Við Gísli Marteinn vorum gerð ódauðleg í bókinni, alla vega ef einhver man eftir Kaffi-Gurrí ... Bókin mjög skemmtileg að öðru leyti líka. Ég er hissa á því að einhverjum hafi ekki dottið í hug að gera sjónvarpsþætti um Eddu og ævintýri hennar.
Við Heiðdís frænka skelltum okkur í Elkó seinnipartinn í dag og ég festi kaup á þvottavél með þurrkara, eitthvað Electrolux-dæmi sem hefur fengið afar góða einkunn alls staðar. Var nú samt búin að heita mér því að kaupa ekki framar dýrar vélar ef ekki fylgdu með leiðbeiningar á íslensku, annað er óvirðing, finnst mér. Ég spurði en sætti mig svo bara við að því miður ... Ég gæti reddað mér á enskunni. Samt, það er algjört metnaðarleysi að bjóða ekki upp á leiðbeiningar á íslensku, bara láta þýða og ljósrita það svo ... láta kaupandann borga ögn meira og allir sáttir!
Hirðsendibílstjórinn minn, frábæri maðurinn hennar frábæru Ólafar, sótti vélina og kom með hana á Kleppsveg og það hreinlega fylgdi bara að tengja hana fyrir mig. Það þurfti vissulega að taka baðhurðina af hjörum til að koma vélinni inn á litla baðið. Ég byrjaði auðvitað á því að taka FULLT af leiðbeiningabæklingum úr tomlunni og sá mér til undrunar og sorgar að þeir voru bara á dönsku, norsku, sænsku og finnsku!!! Þekkja innkaupastjórar Elkó ekki Íslendinga? Meira að segja forsetinn okkar talar ensku í konunglegum veislum í Danmörku! Ekki nóg með það heldur vantaði sjálfa slönguna sem flytur vatnið úr vegg í vél. Við leituðum um allt; í pappa- og plastdraslinu (umbúðamenguninni), inni í sjálfri þvottavélinni, bara alls staðar en án árangurs. Þá, eða sjö mínútum eftir að þjónustuver Elkó lokaði, hringdi ég og fékk beint samband við verslun. Þar var kurteisleg kvörtun mín skráð og ég bað um að einhver kæmi með slönguna á morgun og kláraði að tengja vélina (minn maður nánast búinn að því) - sem skaðabætur fyrir að hafa fengið mánudags-pökkunarmistakavél án leiðbeininga á ensku ... og ég sem ætlaði að þvo í kvöld. Gúgla og finna á ensku. Sjáum til hvað þau gera fyrir mig.
Þótt ég hafi fengið átta í dönsku á landsprófi áskil ég mér rétt til að búa í Danmörku innan um innfædda eingöngu í nokkra mánuði til að ná upp nánast steingleymdri kunnáttu minni, veit að það myndi gerast. Danskan var auðveld og skemmtileg, fannst mér, en tækifærin til að æfa sig að tala voru því miður engin og kona í oft og iðulega þremur störfum hefur engan tíma til að læra dönsku í "frístundum" sínum nema ástæða sé til, og ástæðan kom ekki fyrr en nú í kvöld. Vélin sem ég skildi eftir í himnaríki var nú bara á dönsku (stafirnir framan á) og ég notaði eingöngu bómullarprógram og stjórnaði svo hitastigi og vindingu í gegnum það. Jú, jú, það gekk ljómandi vel í fjögur ár, enda fín vél - en kom án ísl. leiðbeininga. Hildur sem átti heima niðri, kom nefnilega upp og kenndi mér á hana, og á hvaða takka ég ætti t.d. að ýta til að vélin tæki bara einn klukkutíma í að þvo í stað þriggja, eitthvað sem maður verður að vita.
Nú hef ég opinberað mig sem algjöra dramadrottningu, ekki bara vegna óstundvísi á þungarokkstónleika, heldur líka leiðbeiningalausra þvottavéla! Og ég sem þoli ekki drama!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2024 | 23:30
Óvænt útsýni, hæfileikakeppni og ... tónleikarnir
Margbreytileika veðurs gætir sannarlega hérna líka, eins og í himnaríki, og meira en ég hélt, útsýnið breytist endalaust, mér til mikillar gleði. Viðurkenni samt að ég sakna sjávarniðar af Skaganum og þess að sjá ekki öldur nema með kíki. Af því að það er svo innilega kolrangt að konur rati eftir innsæi og karlar eftir kortum, verð ég ekki almennilega sátt við útsýnið héðan fyrr en ég veit nákvæmlega hvert ég horfi, og þarf kort til þess, eins og vanalega. Þegar ég fór með mömmu og Hildu til Dublin eitt árið, áttu þær (alla vega mamma) ekki orð til yfir ratvísi mína. Ég leit á kort og þá varð þetta allt mjög auðvelt. Kannski er ég með karlaheila, þoli ekki mikið búðaráp ... en ég held samt í alvöru að við séum bara misjöfn og asnalegt að draga okkur í dilka; Þú ert kona, þú hefur gaman af því að versla. Þú ert karl, þú ert mikið fyrir fótbolta ... Ég kýs fótbolta allan daginn!
Já, útsýnið, ég trúi því eiginlega ekki en í dag þegar ég gaf mér tíma í fyrsta sinn til að skoða nágrennið með kíki (ekki nágrannana) sá ég mér til undrunar að ég sé Kjalarnesið og Grundahverfi ... virðist vera, ég þarf bara að losa mig við eina háa blokk til að sjá alveg upp á Skaga. Mögulega fleiri blokkir en den tid, den sorg. Þegar ég keyri (með strætó yfirleitt) upp úr Kollafirði yfir á Kjalarnes á leið á Skagann sé ég auðvitað ljósin í Reykjavík, og nú eru mín ljós orðin þátttakendur. Hef margsinnis ekið (ekki sjálf) Sæbrautina og ekki haft svona sjöttuhæðar-útsýni svo ég var eiginlega ekkert að hugsa um hvað væri á bak við Viðey og þar, ég hef aldrei séð Kjalarnes og Kollafjörð frá þessu sjónarhorni. Á samt eftir að skoða almennileg kort og næst þegar ég fer á Skagann mun ég kíkja eftir Kleppsvegi (krönunum í Sundagörðum) á leiðinni, tek kíkinn bara með - eða spjalla við indæla fólkið hjá Landmælingum. Ég er vissulega manneskja sem ferðast afar sjaldan og sé að auki frekar illa, þrátt fyrir gleraugu. En svona hluti vil ég vita. Í hina áttina, út um stofugluggann, sé ég Breiðholt og ef mamma væri enn á lífi og byggi í Asparfellinu gæti ég veifað henni, við yrðum þó báðar að vera með sérlega góða sjónauka. Mögulega hefði mamma orðið að losa sig við Asparfell 4 til að sjá örugglega heim til mín, er ekki frá því.
Í gær fór ég í eins konar atvinnuviðtal, nánast hæfileikakeppni þar sem alveg var horft fram hjá útliti, greind, kurteisi, kollhnísagetu og sönghæfileikum ... svo fátt eitt sé talið. Spennandi að vita hvað kemur út úr því.
(Myndin er vissulega pínku lýsandi, ég bjó á landsbyggðinni í næstum 20 ár en var reyndar allan tímann í tveimur til þremur störfum)
Ég hef svo sem litlar afkomuáhyggjur en ég vil frekar hafa of mikið að gera en of lítið, vinnualkinn ég ... Ég finn eftir sumarið (sem var allt of rólegt) að ég þarf að hafa alla vega tvær vinnur, helst þrjár. Að hlusta á sögur á daginn á meðan ég pakka upp úr kössum (mjög fáir eftir af þessum milljón) er vissulega mjög gaman en ég óttast að gamanið geti kárnað og að þetta verði að ávana eða fíkn ... ef eitthvað er að marka vissan leigubílstjóra ... Ég tók sem sagt leigubíl í gær í næsta póstnúmer þar sem viðtalið fór fram, hef heyrt svo margar hryllingssögur af geðillum höfuðborgarstrætóbílstjórum sem henda fyrst óvönum farþegum út og spyrja svo! Þótt ég hafi hlaðið Klappinu niður (reyndar óvart, fyrir tveimur árum) og tengt það við greiðslukort, veit ég ekki hvort það virkar, og ég var ekki (er aldrei) með peninga (650 kr.) á mér svo leigubíll var eini kosturinn. Hvern þekki ég sem tekur strætó reglulega og getur uppfrætt mig um einfaldleika Klappsins? Væri svo einfalt og gott að geta borgað með debit- eða kreditkorti eins og í landsbyggðarstrætó.
Eftir viðtalið sem gekk vel, sló ég öllu upp í kæruleysi, sá hvergi banka í grennd, og tók leigubíl til baka (einhver er nú innkoman). Við bílstjórinn fórum að spjalla um sitt af hverju; stjórnmál, landhelgismálið, kvótann, mikla umferð, verðtrygginguna og fótaferðartíma síðmiðaldra fólks, ég ráðlagði honum alla vega að nota Storytel eins og svefnlyf, ég léti lesa mig í svefn hvert kvöld, eins og litlu börnin gera ... Þá sagði hann mér sögu um að vinkona hans og konu hans, hefði orðið alveg háð því að láta lesa fyrir sig. Hún hætti að nenna að hitta vini sína, hékk bara heima alla daga og hlustaði á bækur. Þau heyra orðið aldrei í henni, hún nennir ekki lengur neinu, lífið er bara á bið hjá henni, vildi hann meina. Hann og konan hans eru með Storytel en ætla sannarlega ekki að enda eins og vinkonan. Ég var ótrúlega snjöll þarna á heimleiðinni og hafði vit á að biðja leigubílstjórann um að fara í Dýraríkið í Holtagörðum með mig og bíða í smástund á meðan ég keypti niðþungan kattasand sem ég þurfti þá ekki að bera nema bara rétt úr bílnum og inn í lyftu heima.
Mynd, bara upp á djókið: Ókeypis matur fyrir áttræða og eldri ... ef þau eru í fylgd með báðum foreldrum sínum. ...
Þetta með "söguháðukonuna" fékk mig samt svolítið til hugsa ... ver ég of miklum tíma í að hlusta á bækur? Bæti ég það upp með því að vera að dedúa og vesenast á meðan, elda, taka til og slíkt? Hefur þetta bitnað á hlustun á tónlist? Já, já og já.
Í dag kom fyrsti snjórinn og þá valdi ég ekki jólasögu til að hlusta á, heldur setti auðvitað Jólaóratóríu Bachs "á fóninn" - enn mjög hugsandi. Svo valdi YouTube-rásin alls konar flotta músík í kjölfarið ... gæti verið að ég hafi í algjöru ógáti verið að kolefnisjafna tónleika morgundagsins?
Jamm, tónleikarnir með Skálmöld eru á morgun. Keypti miðana snemma á þessu ári, eða 3. janúar, á sex ára ártíð sonar míns, fannst einhvern veginn mjög viðeigandi að gera eitthvað æðislegt þann dag, eitthvað sem gleður ... Ég veit að ég hefði aldrei getað dregið hann með mér á svona þungarokkstónleika. Hann kom með okkur mömmu á Töfraflautuna í Hörpu um árið og fannst það æði, hann fór á Skunk-tónleikana og einhverja fleiri en þótt hann hafi kennt mér að meta rapp og margt fleira breyttist (þróaðist) smekkur hans ... ég er t.d. enn að hlusta á Wu Tang og Eminem, en ég fílaði þó aldrei Guns'n Roses eins og hann gerði á unglingsárunum, enda fyrirmyndir mínar á sama sviði, Led Zeppelin og Deep Purple, talsvert betri, finnst mér.
Ég hringdi áðan í þrítugsafmælisbarnið sem ég gaf Skálmaldartónleikana í afmælisgjöf (ég fylgi með), og hún hafði beðið spennt allan tímann, ætlar að mæta klukkutíma fyrir tónleika á morgun að sækja mig því þetta er of mikið ævintýri ... maður mætir ekki sekúndu of seint. Gaman líka að ná að virða fyrir sér sálufélagana í Hörpu, smekkfólkið dásamlega áður en dýrðin skellur á. Tvær fyrstu plötur sveitarinnar verða teknar á morgun; Sorgir og Börn Loka. Finnst sú seinni skemmtilegri, enda er Hel þar. Tímdi hreinlega ekki að fara á þrenna tónleika sem Skálmöld verður með, en hinar fjórar plöturnar skipta sér á laugardags- og sunnudagskvöld.
Ég er mjög sátt við þetta ... vissulega verða kappræður á RÚV sama kvöld, eða á morgun, sem ég var algjörlega viss um að væri eitt stórt samsæri gegn mér - til að ég kysi eitthvað bull (aldrei Snorra samt út af hryllilegu strætófréttinni, sama í hvaða flokki hann væri) ... en svo mundi ég að ég horfi nánast aldrei á línulega dagskrá, heldur bara þegar ég nenni. Og ég mun nenna að horfa á kappræður frambjóðenda á laugardeginum. Nema ég fái gesti. Það hefur verið gestkvæmt um helgar síðan ég flutti og gestir ganga fyrir pólitík.
Geri fastlega ráð fyrir að það verði álíka stemning á morgun og hér í vídjóinu, þori ekki að vona að Edda í Angist mæti, svo er engin sinfó eða stór kór ... en þetta verður nú samt sturlað. Stigvaxandi stuð frá 4:20 mín. í myndbandinu en sá kafli og til enda náði mér strax og gerði mig að æstum aðdáanda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2024 | 23:37
Móðgandi listi, súpergóð slökunarhelgi og frjósamur september
Skemmtileg og ljúf helgi að baki, elsku stráksi minn kom í heimsókn og gisti eina nótt. Hún var ekki þétt dagskráin ... letin yfirtók allt. Í gær fórum við nú samt í skemmtilegt afmæli hjá nágrönnum mínum (myndin af honum tekin í afmælinu) og héngum svo í sófanum og hægindastólnum þar til hungrið svarf að, horfðum á mjög sæta jólamynd, við erum bæði nokkuð hrifin af jólunum og svo var kvöldið bara búið. Við ætluðum í rannsóknarferð um hverfið, ganga niður í Holtagarða, kíkja á Minigarðinn eða eitthvað en letin var svo yfirgengileg að við fórum ekkert. Svo kom vinkona okkar um þrjúleytið í dag og bjargaði okkur á kaffihús í Borgartúni. Ég kvartaði við hana yfir því að orðaforði minn yrði einhæfari og fátæklegri með árunum, einhverra hluta vegna (konur tala ekki bara um barnauppeldi og mataruppskriftir) og hún ráðlagði mér að lesa Þórberg ... Það ætla ég að gera og ég á ýmislegt í bókahillunum líka sem gneistar af orðsnilld. Átti bæði Þórberg og Laxness en glataði þeim fyrir um aldarfjórðungi. Vinkonan stakk upp á í framhaldinu að endurnýta orðið forpokuð/forpokaður og nota það yfir þau sem taka margnota poka með sér í búðir. Því er hér með komið á framfæri.
Hagkaup í Skeifunni var næsti skemmtistaður (það þarf ekki mikið til að gleðja okkur stráksa) og eftir smávegis innkaup (græna, venjulega ÖnnuMörtu-pestóið var búið!!!) var það bílabiðröð við KFC, uppáhald stráksa sem fékk sér vefju og franskar. Held að hann hafi farið ansi hreint sáttur og saddur heim með 19.59-strætó á Skagann. Eins gott að ég fylgdi honum alla leið að vagninum því leið 57 stóð þar sem Selfoss-strætó (leið 51) er vanalega, því stór og tómur vagn var í plássi leiðar 57 (eins og köttur í bóli bjarnar). Ég sagði við ungan mann sem stóð og beið við tóma vagninn að ef hann ætlaði á Skagann væri það fremri vagninn. Sá ungi maður þakkaði kærlega fyrir, ætlaði svo sannarlega upp á Skaga, eins og allt almennilegt fólk. Svona get ég nú verið afskiptasöm.
Íbúðin er orðin svo ótrúlega fín, þakka mér það þó ekki, heldur þeirri frábæru aðstoð sem ég hef fengið. Finn líka hvað orkan eykst með hverjum deginum og þarf ekki lengur að hlaða mig með því að leggja mig - sem ég hef aldrei á ævinni þurft að gera fyrr en nú seinnipart sumars. Hvaða pestir voru þetta eiginlega sem ég nældi mér í?
Ég hef nú lokað efri skápnum í svefnherberginu, ekki við mikla gleði Mosa (10) en Krummi (13) missteig sig þegar hann stökk niður fyrir nokkrum dögum og meiddi sig, ekki samt alvarlega, virtist vera. Hann nánast haltraði í u.þ.b. einn og hálfan dag og ég var alveg á nippinu með að redda mér bílfari með hann til dýralæknis, hann haltrar ekki lengur og er bara mjög sáttur við að liggja á extramjúku og góðu teppi (fyrir kettina) ofan á rúmteppinu á rúminu mínu. Ég hef misstigið mig sjálf og jafna mig yfirleitt mjög hratt, sama virðist gilda um ketti. Hann er auðvitað kominn á virðulegan aldur og mætti svo sem vera ögn léttari sem skýrir kannski af hverju hann sveif ekki mjúklega niður, eins og eðlilegt telst hjá köttum.
Fannst á Facebook
Alla tíð hef ég verið ótrúlega veik fyrir fjölbreytilegum listum yfir ýmsa hluti ... mest lesnu glæpasögur allra tíma ... ríkustu lönd heims ... og allt þar á milli. Nýlega rak á fjörur mínar listi yfir löndin 25 sem eiga myndarlegustu karla heims. Þarna hlaut Ísland að skora hátt. Mjög hátt! En ... spennið beltin og takið róandi áður en þið lesið þennan fáránlega asnalega lista, pottþétt að löndin á honum hafi borgað sig inn á hann:
1. Spánn, 2. Svíþjóð, 3. Frakkland, 4. Brasilía, 5. Ítalía, 6. Tyrkland, 7. Indland, 8. Bandaríkin, 9. Japan, 10. Þýskaland, 11. Saudi-Arabía, 12. Bretland, 13. Kanada, 14. Danmörk. 15. Suður-Afríka, 16. Kína, 17. Noregur, 18. Líbanon, 19. Pakistan, 20. Tékkland, 21. Vensúela, 22. Víetnam, 23. Sómalía, 24. Angóla, 25. Suður-Kórea.
Þarna komst Ísland ekki á blað (hefði ekki sætt mig við 26. sætið ef við hefðum lent þar), þrátt fyrir mikla fegurð og myndarlegheit hérlendra karla, t.d. af Skaganum, svo ég nefni nú einn kaupstað á Fróni af handahófi. Insidemonkey er heimildin.
Við Íslendingar náum þó 20. sæti yfir ríkustu þjóðir heims árið 2024, erum ofar en t.d. Austurríki, Svíþjóð og Þýskaland, Kanada og Bretland, já, og Frakkland ... Ríkasta landið skv. þessum lista er Lúxemborg, þá Liechtenstein ... og þarna eru líka Sviss, Noregur, Bandaríkin, Danmörk og Holland á undan okkur, við þurfum að gyrða okkur í brók. Heimild þarna er CeoWorld.
Myndin sem er af Mosa að horfa með mér á Gísla Martein a föstudaginn, tengist listunum ekki neitt. Við skemmtum okkur bara svo vel.
Enn einn listinn birtist mér svo um helgina en hann vill meina að aðventan og jólin séu nú ekki bara hátíð barnanna, heldur líka foreldranna, hmmmm ...
Tíu algengustu afmælisdagar fólks:
1) 9. sept.
2) 19. sept.
3) 12. sept.
4) 17. sept.
5) 10. sept.
6) 7. júlí
7) 20. sept.
8) 15. sept.
9) 16. sept.
10) 18. sept.
Sjötta sætið! Hvað hefur október fram að færa sem rekur fólk í rúmið í unnvörpum? Eru það Vökudagar á Akranesi, fyrsti vetrardagur eða bara næturfrostatíminn að hefjast? Ef er þá nokkuð að marka þetta. Að sjálfsögðu leitaði ég ráða hjá Vísindavefnum og kom sannarlega ekki að tómum kofanum þar.
Fyrst í stað hló ég því við Íslendingar skárum okkur svo úr ... Sko, miðað við áramótin 2002-2003 og afmælisdaga allra þálifandi með íslenska kennitölu (líka útlendinga og fólks sem var búsett erlendis) þá var 23. júní 1966 dagurinn sem flestir fæddust á, eða 31 einstaklingur. Næst 15. des. 1959 og 30 fæddir þann dag. Ef ártalinu er alfarið sleppt er dagurinn 28. apríl með 1.010 fædda og næsti á eftir reyndar 25. sept. en þá hafa fæðst 1.003.
Svo las ég áfram ... um að sumarmánuðirnir væru heldur vinsælli til barneigna en hinir, flestir eiga afmæli í júlí, 28.964 (eða 934 á dag)), nánast jafnmargir í ágúst, eða 28.816 (930 á dag). Svo kemur: September, með sína þrjátíu daga, á hins vegar vinninginn því að meðaltali eiga 943 manneskjur afmæli á dag þann mánuð, desember er óvinsælastur til að hlaða niður barni, en einungis 832 eiga að meðaltali afmæli á dag í þeim mánuði. Ég hef því miður ekki nýrri upplýsingar en þetta ... enda léleg í gúgli. Mér finnst þetta samt spennandi. Og allir listar nema kannski kjánalistar sem gefa í skyn að íslenskir karlar séu ófríðir.
Neðsta myndin tengist færslunni ekki beint ... en aldrei nógu oft minnst á Pink Floyd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2024 | 17:01
Uppþvottur í gestagangi , Vegagerðin í ruglinu og kannski véfréttin líka
Uppþvottavél fyrirfinnst hvergi í nýju íbúðinni svo ég nýt þess bara að þvo fornaldarlega upp sem er í fínasta lagi, í alvöru. Byði kannski ekki í það ef fleiri byggju hjá mér. En það hefur verið nokkuð gestkvæmt síðan ég flutti og stundum margir bollar sem þarnast þvottar eftir daginn.
Eftir að stráksi flutti hélt ég áfram að kaupa Eldum rétt, tvo rétti í viku sem dugðu í fjórar til fimm máltíðir, og skolaði alltaf leirtauið voða vel, skellti síðan uppþvottavélinni í gang um það bil vikulega. Fínt fyrir eina manneskju ... sem eldar. Mér finnst ég þurfa að vanda mig svakalega við uppvaskið, til að allt verði tandurhreint, eins og úr uppþvottavél og hef mikinn metnað þar.
MYND: Mér hafa verið gefnir þessir fallegu múmínbollar og á, held ég, sex eða sjö. Vel af sér vikið hjá konu sem er ekki að safna þeim ... en ég nota þá daglega og finnst þeir æði.
Lokaupphengiathöfn fór fram í gær, vissulega án smiðsins sem komst ekki, en mikið varð allt miklu heimilislegra. Næstu vikur fara síðan í að opna restina af kössunum og ganga frá dóti þar, eða losa mig við það. Ég var svo lasin á pakkaniður-tímanum að ég gat ekki grisjað eins og ég vildi, með svo duglegt aðstoðarfólk að t.d. Græna þruman sem ég ætlaði að gefa Ingu vinkonu kom með mér í bæinn án þess að ég gæti rönd við reist. Ég á bara gerviblóm, kettirnir éta allt grænt nema grænmeti og húsgögn og sumar plöntur eru hreinlega hættulegar fyrir þá. Eins og ég var mikil blómakerling í gamla daga. Fyrsti eiginmaður minn taldi eitt sinn blómin í hneykslan sinni eftir að eitt þeirra reyndi að éta hann, og komst upp í áttatíu og fimm. Þá bjuggum við reyndar í einbýlishúsi ...
MYND-mósaík: Ég biðst afsökunar ... ég kann ekkert í fótósjoppi svo ég set myndirnar inn á Facebook, vel for my eyes only, tek skjáskot af því og nota það til að birta.
Efri myndin sýnir eldhúskrókinn þar sem má sjá gamlar klukkur og alls kyns myndir. Sú stóra af kisunum er eftir kattahvíslarann minn frá Úkraínu, elskuna hans Svitlönu (guð forði okkur frá menningarblöndun samt) Þessi til hliðar er eftir Bjarna Þór, stórlistamann Akraness, og efsta er kort sem fylgdi Húsum og híbýlum fyrir nokkrum árum, ægilega flott. Man ekki nafn listakonunnar. Anna vinkona (Ólafsdóttir Björnsson) gerði tvær skemmtilegar bollamyndir sem hanga hjá klukkunum og á þeim eru spennandi stærðfræðiformúlur, notaðar af mér sem nokkurs konar próf fyrir aðdáendur.
Neðri myndin er frá vinnuherberginu pínkuoggulitla, hillurnar hægra megin troðfullar af bókum og punti (nýja íbúðin er minni) og í gær komu upp myndahillur sem lífga mikið upp á.
Rifjaði upp spádóma véfréttarinnar fyrir árið 2024 og þeir eru loks byrjaðir að rætast. Reyndar eru tveir mánuðir eftir af árinu og í raun nægur tími til að trúlofa mig, giftast, eignast sætt barn og nýjan bíl. Allt annað hefur ræst. Sjá mynd.
Er ekki enn búin að kaupa þvottavél til að hafa inni á baði svo ég er að þvo núna niðri í kjallara. Eina sem þarf að gera eftir þvott og þurrkun er að tæma síuna á þurrkaranum. Það þarfnast sterkra vöðva, óslasaðra hnjáa og hreinlega hugrekkis, enda stór iðnaðarþurrkari fyrir stórt hús. Ég þvoði krumpuðu bolina aftur þótt þeir væru hreinir og þeir eru að þorna á þurrkgrind hérna uppi í sjötta himni ... óveðrið sem spáð var er frekar í rólegra lagi en ég þori samt ekki að setja grindina út á svalir. (Ég náði að taka síuna úr, hreinsa hana en tókst ekki að koma henni aftur á, reyndi í tíu mínútur. Frábæri húsvörðurinn var á eftir mér með þvottahúsið og bjargaði málum).
Mér sýnist á öllu að það sé að koma nýtt kaffihús á Skagann minn góða. Það verði staðsett í gamla stúkuhúsinu sem er á Safnasvæðinu. Það eru frábærar fréttir og vonandi verður boðið upp á gott kaffi. Sko alvörugott. Það laðar ekki minna að en gott bakkelsi. Ég mæti sannarlega á staðinn fyrr en síðar.
En ég hef svo sem hvorki tillögurétt né málfrelsi varðandi Skagann og kaffið ... þar sem ég er flutt ... og Vegagerðin var ekki sein á sér eftir að ég var farin, mér skilst að strætó, eins og hann hefur verið sl. 18 ár, heyri brátt sögunni til og breytist í rútu ... með einni stoppistöð á Skaganum sem er næs fyrir bílstjórana en hreint ekki fyrir farþegana. Kannski á að fá Akraneskaupstað til að láta innanbæjarstrætó sem er helst ætlaður skólakrökkum (dregur mjög úr skólaskutli), fara að ganga öll kvöld og helgar og breyta áætluninni til að fólk þurfi ekki að fara langar leiðir í alls konar veðri.
Sparnaður verður tæplega nokkur því svona aðgerðir fækka bara farþegum enn meira, það hefur sagan sannað. Þegar strætó byrjaði, árið 2006 og ég flutti á Skagann, strætóferðirnar gerðu það mögulegt, fóru tveir troðfullir vagnar (rútur) í fyrstu ferð dagsins, um hálfsjö og þótt þarna í upphafi hafi kostað sama fyrir Skagamenn og Reykvíkinga skilst mér að ferðirnar hafi samt staðið undir sér og vel það. Þá var auðvitað farið í breytingar, fargjald hækkað sem fækkaði farþegum ... ýmsir fjölmenntu í bíla sem var ódýrara svo strætóferðum var fækkað í kjölfarið (orsök-afleiðing). Ekki bætti covid-tíminn úr skák en til að ná upp farþegafjölda var ekkert gert ... viss Snorri, nú oddviti Miðflokksins í NV, komst að þeirri niðurstöðu í mikilli furðufrétt á Stöð 2 að þar sem stoppistöðvar á milli Reykjavíkur og Akureyrar væru svo margar, væri kannski ekkert skrítið að farþegum hefði fækkað ... döh, það er eðli strætisvagnaferða að hafa ekki of langt á milli stoppistöðva, við búum á Íslandi! Átakanlega hálkumyndin sem hér fylgir minnir mig á dagana þegar ég var í um það bil korter að staulast út á stoppistöð, en ekki tvær til þrjár mínútur. Að þurfa að verjast fótbroti lengri leiðir en bara út á Garðabraut er martraðarkennt.
Ég veit að þetta táknar að það verði erfiðara fyrir stráksa að koma í heimsókn til mín. Við völdum ferðina til Reykjavíkur á morgun út frá því að hún færi frá Akratorgi, þá er stutt að fara fyrir hann, og sömuleiðis heimferðina á sunnudag - en stundum fer vagninn ekki alla leið þangað (hægt að þakka ónefndri prestsfrú frá Stykkishólmi fyrir það, hún kvartaði sáran yfir því að strætó stoppaði á Akranesi, hvað þá færi alla leið á torgið).
Ég sendi Vegagerðinni kurteislegt erindi í tölvupósti fyrir kannski ári eða tveimur, þegar ég fór að heyra minnst á þessar mögulegu breytingar. Ég er enn hissa og hneyksluð á því að hafa ekki verið virt svars.
Það verður vissulega mun auðveldara fyrir mig að viðhalda bíllausa lífsstílnum hér í bænum - enda er ég vel staðsett. Myndin sýnir eftirlitsköttinn Mosa sem veitti iðnaðarmönnunum mínum mikið aðhald þegar þeir gerðu upp himnaríki fyrir fjórum árum. Það fór ekkert fram hjá honum. Ég vildi óska þess að einhver á borð við hanm (alþingisfólk, ráðherrar?) geti veitt stofnunum það aðhald sem þarf til að ekki sé vaðið yfir almenning, heldur forgangsraðað með hag okkar allra í huga.
Hvað segir Facebook annars gott?
Þegar finna átti nafn á barnabarn Hálfdáns og Þorgerðar voru nú ekki vandræðin. Barnið fékk nafnið Hálfgerður.
Hrós sem mörgum finnst eðlilegt en er í raun frekar krípí ...
- Þú ert svo andlitsfríð (ef þú værir bara ekki svona feit)
- Ef ég væri yngri værum við að deita! (held ekki ...)
- Þú hlýtur að hafa verið rosalega myndarleg/ur þegar þú varst yngri ...
- Þú værir svo miklu sætari ef þú bara brostir ...
- Ef hún væri ekki dóttir mín værum við saman á föstu ...
- Hún á sko eftir að skilja eftir sig mölbrotin hjörtu þegar hún eldist.
- Ég elska þig og mun bíða eftir þér (þegar þú ert að reyna að losa þig við manneskjuna)
- Þú ert svo mikið æði, hvers vegna ertu ekki gift/ur?
- Ef þú værir konan mín myndi ég ekki hleypa þér úr húsi (þess vegna er ég ekki konan þín)
- Þú ert í raun og veru klár, ég átti ekki von á því.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2024 | 17:43
Góð heimsókn, vond súpa og ævintýraríkt nýja lífið
Skelfilegur, hroðalegur matur var á boðstólum hér í gærkvöldi, kenni helst um kunnáttuleysi mínu í matargerð og á eldavélina, og ofni sem neitaði að hitna. Ég hef of sjaldan fengið góða lauksúpu í lífinu, sem er algjör synd því ég er svo hrifin af lauk og ætlaði aldeilis að bæta úr því í gegnum Eldum rétt, en í gær hefði ég alveg eins getað skorið lauk og soðið hann í vatni í klukkutíma ...
Ekkert var minnst á að krydda í uppskriftinni (Ég þarf: kryddið með salti og pipar eftir smekk, annars sleppi ég því) fyrir utan kryddjurtirnar sem fylgdu, ég hélt að eitthvað nauta-dæmi sem fylgdi líka með væri fullt af kryddi og því þyrfti hvorki salt né pipar.
Gat ekki leikið listir mínar með ostabrauðið ofan á súpunni og hitað það saman inni í ofni, heldur hitaði brauðið sér í litlum ofni og skellti ofan á ... alveg sama, ekkert gott. Svo stóð EINFALT sem erfiðleikastig ... hrmpf! Ég leyfði megninu að flakka í vaskinn og ofan í lífræna pokann í gærkvöldi, eftir góða sigtun og ofan á eldhúsrúllublöð, en geymdi eina skál fyrir hádegisverðinn í dag og hyggst krydda vel og vandlega og rista brauðið betur og brúna ostinn vel ofan á.
Ég er langt komin með að hreiðra um mig hér á Kleppsvegi. Kisum líður rosalega vel, sofa út í eitt, helst uppi í skáp í herberginu mínu.
Stráksi kemur í heimsókn um helgina og gistir eina nótt sem er mikið tilhlökkunarefni. Það verður kósí hjá okkur, veit ég, svo er stefnan að skreppa með vinkonu okkar á kaffihús um miðjan sunnudag áður en hann hoppar upp í strætó og siglir heim á elsku Skagann.
Þessa dagana er ég aðallega í því að endurhlusta á kósíbækur, til að þurfa ekki að hugsa of mikið við lokaflokkun á dótinu mínu, sem var reyndar langt komin á Skaganum. Hvað fer upp í skápa, hvað fer niður í geymslu? Það eru lúxusvandamálin þessa dagana.
Það er svolítið sérstakt hjá bókaforlögum að velja lesara sem tala t.d. dönskuna reiprennandi til að lesa sögur sem gerast þá í Danmörku. Það var ruglandi að hlusta á slíkt í einni, ég skildi varla nafnið Rasmus, en mörg önnur nöfn, borin fram á bestu dönsku fóru forgörðum hjá mér. Ugggrrrasmusss skildist fyrir rest. Það eru nefnilega ekki Danir sem hlusta á upplesturinn, halla undir flatt og segja svo hrifnir: Ansi ber þessi lesari nöfnin á fólki, götum, hverfum og borgum vel fram ... Svo finnst mér að það ætti að fallbeygja nöfn í íslenskum þýðingum, ekki segja: Við ætlum að fara til Mona. Heldur ... til Mónu. Annars elska ég Storytel og lét framburðinn svo sem ekkert pirra mig, sagan sem ég hlustaði á var fín en hefði orðið enn betri í mínum huga með smávegis íslenskun, svona eins og við landsmenn berum orðin alltaf fram. Í nýju bókinni eftir Jussi (hún fékk að fljóta með kósíbókunum) heitir aðalpersónan til dæmis Kal Mök (Carl Mörck) og það tók mig smátíma að skilja hver þetta var, því ég hef bara lesið (ekki hlustað á) þessar bækur - en þessi nýja er hrikalega spennandi og lesturinn fínn ... Mæli með. Síðasta bókin um Deild Q - sakn, sakn.
Myndin var tekin síðasta sunnudag, þá komu Hilda og Júlíana í heimsókn, einnig frændhundarnir Herkúles og Golíat. Útsýnið til suðurs er líka ansi fínt og mér skilst að ég þurfti bara að fara út á svalir og horfa til hægri til að sjá roðann af eldgosi, ef Reykjanesskaginn heldur þessu gosveseni áfram.
Mig vantaði örfáa hluti til að koma heimilinu í stand, meðal annars snaga bak við hurðina fram, skóbekk, rúllugardínu í svefnherbergið og þrjár myndahillur sem verða fyrir ofan skrifborðið. Þar geta fjölskyldumyndir og önnur fegurð notið sín vel. Elsku Erla granni bauðst til að skutla mér í Jysk - sem ég valdi fram yfir Ikea vegna minni fjarlægðar og ... allrar göngunnar í Ikea. Maður getur nú verið latur ...
Á fimmtudaginn verður svo allt (nánast) klárað, alla vega myndir og málverk og þá verður nú gaman. Ánægð með veggina hérna. Nóg pláss fyrir allar stærðir af myndum.
Smávegis áhyggjur voru af því að ná ekki að setja skóbekkinn saman á þessu ári, svo ég sendi "tengdasyni" mínum (ég er tengdó2 hjá honum) ljúf skilaboð, hvort hann gæti verið svo indæll og dásamlegur að hjálpa mér við að setja saman ... til öryggis bætti ég við: "Ég drep þig ef þú segir nei. Djók." Hann las á milli línanna og skildi ... mætti strax eftir vinnu í gær og var varla hálftíma að gera þetta, elsku dúllan. Hann fær svo miklu flottari jólagjöf fyrir bragðið.
Hér á myndinni sést skóbekkurinn góði úr Jysk í Skeifunni. Ég hafði augastað á öðrum á netinu, með leðurveseni og allt, en get alveg notað þennan tíuþúsundkall sem munaði í verði. Ég klippti myndina ögn til, svo ekki sæist jvað lan-snúran ógurlega breiðir enn úr sér þarna á ganginum. Hef troðið mottum yfir hana til að sleppa við fótbrot. En það er bara svo gaman að hlusta á tónlist (í tölvunni), að ég tími ekki að taka úr sambandi og hafa þá bara ofurveikt wifi ...
HLÉ ...
Dyrabjallan hringdi óvænt klukkan rúmlega 12, í miðri bloggun og fyrrum ástkær ritstjóri minn mætti með fangið fullt af brauði, köku, rjóma og listaverki eftir elsku Lindu Guðlaugs. Ég hafði átt von á henni, en ekki fyrr en eftir klukkan fjögur svo þetta var óvænt ánægja, ég var ekki byrjuð að hita súpuna frá helvíti, svo ég geri það bara í kvöld. Eftir skemmtilegt spjall og þegar hún gerði sig líklega til að kveðja át ég allan handlegginn á henni (hún hafði rétt mér litla fingur) og plataði hana til að skutla mér í Dýraríkið hérna á móti, hefði auðvitað getað farið gangandi en tilvonandi afar þungar byrðar myndu eflaust gera að verkum að ég næði ekki yfir gangbrautina á meðan græni karlinn/kerlan? logaði og ég myndi líka missa allan séns með allt of langa handleggi.
Við hittum uppáhaldsnágrannana (Erla er líka uppáhalds) þegar við komum út úr lyftunni á fyrstu hæð (yfirleitt hoppa ég niður en býð ekki virðulegum gestum mínum upp á slíkt skopp) og þegar ég sá þau skældi ég yfir ónýtri eldavél (gömul AEG) en ég vissi að eiginmaðurinn væri snjall, ef einhver gæti lagað eldavélina væri það hann. Jú, jú, við heimkomu lét ég hann vita að ég væri komin til baka með sand og kisumat, hann stökk yfir, fiktaði í öllum tökkum og "vúlla" - ofninn virkar. Svo allt er fullkomið hér.
Eins og sést á spennumyndinni sem náðist af mér (með öryggismyndavél sérsveitarinnar) á Kleppsveginum er lífið hér mun ævintýraríkara en á Skaganum þar sem ég bjó þó við hliðina á þyrlupalli.
Býst við að ég haldi mig bara við strætó héðan í frá. Nenni ekki að láta æpa endalaust á mig í gegnum gjallarhorn: Stoppaðu í hvelli, fagra kvendið þitt! Það verður svo leiðigjarnt. Hef þó kynnst suddalega sætri löggu og hrikalega flottum þyrluflugmanni. Þeim síðarnefnda þótti æðislegt að ég ætti sama afmælisdag og Ásdís Rán sem er ekki bara fyrrum forsetaframbjóðandi, heldur líka þyrluflugmaður, eins og hann, og fyrirsæta.
Eitt furðulegt. Ég hef ekki fengið boð um að fara í framboð, samt með hreina sakaskrá! Mikill missir fyrir flokkana.
Nú er atkvæði mitt ekki jafndýrmætt og þegar ég tilheyrði Norðvesturkjördæmi, með tvöfalt vægi á við vesæla Reykvíkinga ... en þessu hlýtur að verða breytt fyrst ég er flutt í bæinn. Held að ég sé í Reykjavík norður-kjördæmi og þarf sennilega að kjósa í Laugardalshöll ... eða Holtagörðum ef ég vil kjósa utankjörstaðar. Allt svo spennandi fram undan: Tónleikar með Skálmöld 1. nóv., kosningar 30. nóv., aðventan og svo bara jólin! Þá er nú orðið stutt í bolludaginn! Svo eru verkefni farin að berast sem er gott, ég er nýbúin að senda fullt af peningum til fyrri eiganda íbúðarinnar (er víst að kaupa íbúðina af viðkomandi) og finnst ömurlega tómlegt að fara inn á heimabankann minn núna, það bergmálar þar. Það er svo dýrt að flytja, borga sölulaunin, flutningana og ótal margt fleira. Er svo fegin að hafa ekki freistast til að fara í afar girnilega utanlandsferð sem var farin í morgun ...
Er líka mjög fegin að hafa ekki náð að kaupa í Kópavogi, þær íbúðir sem ég girntist þar voru nokkuð dýrari en þessi (2-3 milljónum) samt svipað stórar ... nema mín er samt svo miklu betur farin en þær, svo ég skil ekki alveg verðlagninguna hjá sumum.
Síðasta myndin sýnir Mosa taka stöðuna á umferðinni um tvöleytið í dag. Ef vel er gáð má sjá, hægra megin við hausinn á honum, grilla í keðjuna sem passar að glugginn opnist ekki nógu mikið fyrir hann til að hann geti fengið sér flugferð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 5
- Sl. sólarhring: 38
- Sl. viku: 832
- Frá upphafi: 1515927
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 705
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni