Færsluflokkur: Bloggar

Píslarganga í Ikea, kaffipjatt og upphengisérsveit

Eldhúsborð og stólarSamstarfskona síðan 1995 plús hafði samband í gær og bauðst til að skutla mér í Ikea (og víðar), í leit að fyrirheitna eldhúsborðinu. Það fannst í Ikea, eða minnsta eldhúsborðið á höfuðborgarsvæðinu, aðeins 75x75 en mátti samt ekki stærra vera. Ég keypti það samt, enda á góðu verði. Frú Sigríður og frú Guðríður gerðu þó víðreist, heimsóttu Húsgagnahöllina og kíktu líka í Jysk þótt vitað væri að eina litla borðið þar passaði ekki. Dásamlegi afgreiðslumaðurinn í Húsgagnahöllinni sagðist geta sérpantað fyrir mig eldhúsborð (um 250 þúsund) ógurlega fínt merki, en ég bar mig mjög vel og sagðist hreinlega ekki geta beðið eftir sérpöntun ... Fór til baka og keypti IKEA-borðið á innan við tíuþúsundkall. Frú S fannst smart hjá mér að klæðast sænsku fánalitunum (gulur bolur, ljósblár trefill) til að tryggja mér betri afgreiðslu, en sú snilld var nú bara óvart.

 

MYND: Eldhúsborðið nýja og stólarnir ... eldhúsklukkurnar ekki komnar upp á vegg, og myndir.

 

Einhvers staðar inn á milli búðaferða fórum við í kaffi, Kastalakaffi, þar sagði frú S að fengist suddalega gott kaffi. Meðlætið væri líka gómsætt og allt á fínu verði. Það var allt rétt ... nema kaffið var ekki suddalega gott, greinilega búið að skipta um tegund, sagði frú Sigríður hugsandi. Ég hef alltaf sagt að maður eigi ekki að spara í kaffi en þarna hafði einhver ákveðið að kaupa inn Gevalia (njósnir mínar leiddu það í ljós á innan við 15 sekúndum) til að bjóða upp á þarna, fínasta heimiliskaffi en mér finnst það ekki gott val hjá kaffihúsi. Við erum að tala um örfáar krónur sem sparast á hvern bolla. Meðlætið var gott og afgreiðslan einstaklega hlýleg og góð, ég var líka í góðum félagsskap svo þetta var mjög gaman.

 

 

Frú S með KrummaEldhússtólarnir fengust í Ilvu og eru sennilega þægilegustu stólar sem ég hef setið á, þeir eru svo háir sem er geggjað fyrir konu með langa fætur. Sölukonan í Ilvu, nýbyrjuð að vinna þar, hætti ekki fyrr en hún fann réttu stólana fyrir mig, ég verð henni ævinlega þakklát. Frú S gerði sér svo lítið fyrir og setti saman fyrir mig bæði borðið og stólana sem var mikið góðverk, hún fór líka ótrúlega létt með það, verk sem hefði tekið mig marga daga (vikur, ár), ef ég þekki mig rétt. Á meðan spjölluðum við saman. 

„Aha, ertu intróvert? Mér datt það í hug,“ sagði hún, „þess vegna leið þér svona illa inni í Ikea.“

„Það var nú bara allt labbið,“ hugsaði ég klökk en kinkaði kolli, ég setti örugglega skrefamet, pottþétt 10 þúsund skref sem ég gekk bara við að leita að einu pínulitlu borði. Nú loksins skil ég orðið píslarganga. Ég vann í stuttan tíma (3 mán.) í Ikea á síðustu öld, þegar verslunin flutti frá Kringlunni í Holtagarða og kunni því á allar flóttaleiðir þar, hraðreinar fyrir innkaupafælna gesti - sem kom sér oft mjög vel. Ég vil geta farið inn í búð, gengið (ekki of mörg skref) að því sem ég ætla að kaupa, borga og fara út. Samt öfunda ég fólk sem er kannski með mér í búð og finnur eitthvað æðislegt sem ég missti af í öllum flýtinum við að komast hratt út.

 

Myndin er af frú Sigríði þar sem hún setti saman eldhúsborðið, búin með stólana. Krummi hélt hálsinum á henni heitum á meðan. Frú S er afar góð í pabbabröndurum sem falla alltaf í góðan jarðveg hjá mér. Hún flýtti til dæmis fyrir sér með því að setja seinni stólinn saman á undan hinum ... sem mér fannst mjög fyndið. 

 

Gardínur og myndirSeinnipartinn í dag komu nokkrir hjálparkokkar til að aðstoða mig við að hengja upp gardínur, myndir og slíkt ... elsku upphengisérsveitin mín. Hirðsmiðurinn kom síðan ótrúlega seint, það seint að dyrabjallan hringdi klukkan 20.30 og mér tjáð að það mætti ekki bora og negla eftir klukkan 20 á kvöldin virka daga, 18 um helgar. Mig hafði minnt að það mætti vera með læti til kl. 21 ... en gengið mitt mætir bara aftur í næstu viku. Hellingur búinn og hefði náðst fyrir níu en ég vil ekki brjóta húsreglur. Smiðurinn er mjög hrifinn af húsreglum hér, sagðist búa í húsi þar sem væri borað og neglt á öllum tímum - það væri mjög þreytandi. Hann var það hrifinn að það kæmi mér ekki á óvart þótt hann keypti sér íbúð í húsinu mínu.

 

Gerum eitthvað skemmtilegt fyrst Gurrí er flutt héðan-hópurinn á Akranesi hefur haft nóg fyrir stafni frá 5. október sl. við að bjóða upp á æsispennandi viðburði á Skaganum, eins og ég hef vælt undan. Núna síðast sá ég boðað til stórdansleiks á hlaðinu hjá himnaríki (Jaðarsbökkum), reyndar lokahóf ÍA en alveg sama. Svo var víst mjög stór æfing í dag hjá Lögreglunni á Vesturlandi, sérsveitin og allt, og ég föst á Kleppsveginum! Svo flytur Kór Akraneskirkju verkið Misa Criolla núna laugardaginn 26. okt. akkúrat þegar ég verð upptekin við að læra texta Skálmaldar utanbókar fyrir tónleikana 1. nóv. Bara fyrstu tvær plöturnar ...

Stundum væri svo hagkvæmt að geta teleportað sig á milli staða. Stráksi minntist á það í gær en hann kemur fljótlega í heimsókn, ekki þessa helgi samt, og gistir. Þá verður nú gaman hjá okkur. Ef hann getur ekki teleportað sig tekur hann strætó í Mjódd og þar mun ég bíða eftir honum.         


Flutningar, netháski, geymslugleði og undarlegar tilviljanir ...

Allt að komaNetvesenistíma lokið ... það dugði ekkert minna en lan-snúra til að tengja tölvuna við netið ... allt annað sem ég prófaði virkaði ekki. Maðurinn frá Mílu ráðlagði mér, þegar hann tengdi mig fyrir tíu dögum, að vera þráðlaus sem ég gerði með aðstoð (kostaði fimmþúsundkall). Það dugði nú samt ekki, heldur ekki lán á "magnara" nágrannans góða sem er vinur vinkonu minnar á Akranesi. Síminn þarf kannski að gyrða sig í brók varðandi netmál sín, eða er þetta bara svona ef maður dirfist að hafa tölvuna sína of mörgum metrum frá ráder? Fyrri íbúi var með sína tölvu (og tvo skjái) nákvæmlega á sama stað, greinilega tölvukarl. Davíð frændi mætti með margra metra snúru áðan sem verður notuð aðeins á meðan ég vinn og blogga. Þess á milli uppvafin á bak við píanóið til að sjokkera ekki gesti og gangandi. Snúra sem flækist um fætur og lækkar fegurðarstuðul heimilisins stórlega. „En ... Gurrí, þú verður að geta bloggað og hlustað á þungarokk,“ sagði frændi svo innilega réttilega. „Geturðu íhugað að fá þér Makka?“ spurði hann mjög varlega. „Sannarlega ekki,“ svaraði ég önug, snúðug og grautfúl. Hnusssss! Elska iPhoninn minn samt.

 

Myndin sýnir stofuna eftir blóð, svita og tár, fyrir nokkrum dögum, fékk æðislega hjálp þá, og núna á fimmtudaginn verða svo hengdar upp myndir og málverk og þá kemst lokamynd á allt. 

 

Maður bjargar sérFlutningarnir, hvernig gengu þeir og hvernig er nýja húsið, hvernig líður kisum og er nokkuð spanhella í nýja eldhúsinu? eru spurningar sem ég veit að ásækja margan bloggvininn ...

 

Á föstudeginum (4. okt) fórum við nokkur saman á tveimur bílum með "eldhús" himnaríkis og brothætt punt í margnota pokum frá t.d. bónus og krónu, eitthvað sem hafði verið safnað um hríð og er miklu þægilegra að burðast með en kassar. Þarna voru Hilda, Inga, stráksi og Júlíana. Það gekk allt saman ljómandi vel og svo fengum við stráksi bílfar heim í kringum kvöldmat. Ég var allt of þreytt til að geta farið með honum eitthvað út að borða og líka of seint að panta frá Galito eins og ég hafði lofað. Fékk nú samt snilldarlega góða hugmynd, eða að hita skyndirétt frá Bónus, kjötdæmi sem ég vissi að stráksa myndi líka. Hitaði hann þessar lögbundnu þrjár eða fjórar mínútur og þegar ég tók hann út úr örbylgjuofninum mundi ég eftir því að öll hnífapör voru komin á Kleppsveginn ... Ég hljóp á milli herbergja, nánast allt komið í kassa nema úti í glugga sá ég þennan fína gráðuboga sem ég tók og þvoði með heitu vatni og sápu, mjög vandlega og rétti stráksa. Þrátt fyrir að ég minnti hann á að seinna meir myndum við skellihlæja að þessu hafði þetta neikvæð áhrif á matarlystina, enda hafði hann búist við einhverju mun betra en skyndirétti sem þyrfti að snæða með einhverju af ætt reglustika. Sjá átakanlega mynd ...

 

Flutt frá HimnaríkiRéttilega kaus ég að fara snemma að sofa um kvöldið og klára að pakka í þessa þrjá kassa og fimm svörtu ruslapoka við fyrsta hanagal. Ég rauk á fætur um hálfsjö og á skömmum tíma varð allt tilbúið fyrir fyrstu burðardýrðirnar mínar. Íslenska deildin (4), eða Mömmur.is, elsku Hjördís ásamt eiginmanni, móður og syni, riðu á vaðið fyrir klukkan níu, en flutningabíllinn mætti með fyrra falli, kom korter í sem var bara fínt.

Þá var ég búin að setja Mosa og Krumma í búrin og þegar litháíska deildin (2) mætti tók vinkona mín þaðan við stjórninni sem flutningastýra og sýrlenska klanið mitt (1) skutlaði okkur kisunum í bæinn. Þá var úkraínska gengið (3) mætt í öllu sínu veldi í himnaríki og mér sýndist ég sjá tár á hvarmi bílstjórans (íslenskur en samt ágætur) ... (djók) - því allt gekk svo hratt og vel. Mun hraðar en ég bjóst við. Fyrst voru stóru hlutirnir teknir, síðan kassar og annað smádót sem er snjallt þangað til komið er á nýja staðinn, þá er kössum og smádóti hent inn og svo þarf að koma stóru hlutunum fyrir en það reddaðist allt saman, auðvitað. Ég svaf þó á skrítnum stað fyrstu nóttina, rúmið í réttu herbergi en við rangan vegg, en náði að laga það daginn eftir. 

 

Elsku BasselVið Bassel drifum okkur í bæinn með Krumma og Mosa, hrædda og vælandi, komum örsnöggt við í matvörubúð í Holtagörðum, og rétt náðum í skottið á flutningabílnum ... í alvöru, hann var kominn. Eins og við vissum þurfti að bera svarta speglaskápinn alla leið upp á sjöttu hæð ... og líka rúmið mitt og rauða antíksófann. Þar tóku Úkraína, Litháen og Ísland höndum saman og það var ekki einu sinni kvartað! Þvílík heppni að eiga svona gott fólk að. Geymt en ekki gleymt!

 

Nýi eigandi himnaríkis (annar tveggja) trúði ekki sínum eigin eyrum þegar ég hringdi um hálfþrjúleytið og sagði að hann gæti flutt inn ... þá var búið að þrífa himnaríki hátt og lágt. Hann spurði mig hvort hann gæti fengið lánað eitthvað af fólkinu mínu þegar hann flytti sjálfur. Hérna syðra var klukkan varla orðin tvö þegar flutningabíllinn var orðinn tómur og ofsaglaður bílstjórinn komst í síðbúinn hádegismat með samstarfsmönnum sínum. Hann var mjög hjálplegur, skapgóður og skemmtilegur, mæli hástöfum með þessu fyrirtæki, Flutningaþjónustunni. Fann það með léttu gúgli snemma í september og pantaði bílinn þá. Allt gekk eins og lofað var, fékk meira að segja símtal þann fjórða, eða daginn fyrir flutninga, til að staðfesta að bíllinn kæmi, mikið sem ég kann vel við svona fagmennsku.

 

Nýja lífiðKrummi og Mosi voru ansi hreint stressaðir fyrst í stað, enda lokaðir inni í pínulitlu herbergi (vinnuherbergi mínu) með mat, vatn, kattasand og mjúkt teppi. Það var ekki fyrr en elskan hún Júlíana fór inn til þeirra og klappaði þeim að þeir róuðust. Hirðsmiðurinn minn var búinn að "skítmixa" gluggana, eins og hann kallaði það, eða festa keðju þannig að gluggar gætu ekki opnast nema takmarkað. Mosi slapp ómeiddur eftir fall (stökk?) af fjórðu hæð um árið, en ég veit ekki með sjöttu hæð. Við tökum enga sénsa hér. Þeir urðu stressaðir aftur á mánudeginum þegar ég fékk góða hjálp við að taka upp úr kössum og lætin voru svo mikil að þeir héldu sennilega að ég væri að flytja aftur, en þeim líður samt afskaplega vel á nýja heimilinu, það er eins og þeir sofi fastar, betur og lengur en áður, algjör slökun. Eins og sést kannski á samsettu myndinni er Mosi búinn að helga sér efri skápinn hægra megin inni í svefnherberginu mínu, ég bíð um tíma með að koma fyrir meira dóti þar en er komið. Krummi situr  á gluggakistunni inni í stofu, þar er suðurgluggi og mikil sól, hvítu gardínurnar úr himnaríki eru í síkkun, og út um gluggana í hina áttina, eða norður, sést friðarsúlan. Hvað annað? Annaðhvort eldgos eða friðarsúla ... sætti mig ekki við neitt minna.

Mér fannst svolítið sjokkerandi að finna hvergi geymsluna mína. Vissulega 32 íbúðir í stigaganginum en samt, númerið mitt var hvergi finnanlegt ... en svo er annar geymslugangur sem ég vissi ekki af, inn af hjólageymslunni. Þar fann ég elskuna mína og mun heldur betur njóta þess að hafa geymslu sem ég hafði ekki í himnaríki. Ferðatöskurnar farnar niður, og afgangsmálningin á leiðinni. Svo geggjað!

 

Villa eða villaÉg prófaði þvottahúsið niðri í gær og fékk góða hjálp við þurrkarabaráttu frá húsverðinum sem er afskaplega flott og töff listakona, bráðskemmtileg í þokkabót. Hef líka hitt húsfélagsformanninn sem er frábær líka. Svo býr gömul samstarfskona á fyrstu hæð ásamt dóttur sinni. Hún færði mér bók og kex í innflutningsgjöf, þessi elska, og við höfum farið saman í matvörubúð tvisvar. Gott fyrir hásinina sem varð fyrir smáhnjaski í látunum og hreyfingunni í kringum flutningana.

Varðandi þvottahúsið sem er afar snyrtilegt, tvær þvottavélar, önnur stór, hin venjuleg, og stærðarinnar þurrkari, held ég samt að ég muni kaupa mér þvottavél til að hafa hér uppi, mögulega þessa flottu með bestu meðmælin frá Electrolux, með innbyggðum þurrkara, ég er orðin of góðu vön eftir 18 ár ... svo held ég að ég hafi haft þurrkarann niðri á of háum hita í gær, sumt er hræðilega krumpað ... en ég á svo sem straubretti og -járn. 

 

Ég náði, með aðstoð fb-vina að skipta um lögheimili. Gúglaði og fann hvar ætti að gera það, en það var samt röng slóð svo ég spurði bara á feisbúkk og fékk svar að vanda. Ég er svo vön að gera allt í tölvunni minni (ekki gemsanum) og hún ekki nettengd. Svo þjáðist ég ógurlega á sunnudaginn yfir því að geta ekki kosið til Alþingis í mínu nýja kjördæmi en ... það er víst ekki lengur miðað við lögheimili 1. des., ég rétt slapp inn á kjörskrá í bænum. 

 

 

MYND: En ef netið átti nú við flotta óskilgreinda villu til að búa í, t.d. flott einbýlishús við hafið með spennandi leyniheimilisfangi, en ekki mistakatengda villu ...  

 

Lítið eldhúsborðÉg er enginn samsæriskenningasmiður en sumt af þessu veseni mínu getur ekki við tilviljun ... að fá ekki nettengingu fyrr en núna fimmtánda, tíu dögum eftir flutninga, er ekki eðlilegt, ég sá meira að segja, í lok sept., löggubíl sem var lagt Akranesmegin, eða við Garðabraut, akkúrat þannig að ég gæti ekki flutt þann daginn ... og að fá upp villu þegar ég reyndi að skipta um lögheimili ... eitthvað furðulegt í gangi. Ég skildi þetta auðvitað um leið og stjórnin féll ... en í fyrstu hélt ég að Akranes væri að stríða mér, þér var nær að flytja, Gurrí, því menningarstrætó mun ganga á milli listviðburða á Vökudögum, AKKÚRAT ÞEGAR ÉG ER FLUTT, og eitthvað fleira flott í gangi. Samt, mjög seint á sunnudagskvöldið fékk ég upphringingu frá stráksa um að það væri rafmagnslaust á Akranesi. Eftir stutt spjall og blíðlega áminningu um að það væri ekki sérlega sniðugt að hringja svona rosalega seint, það væri eiginlega tilviljun að ég væri enn vakandi, kvöddumst við með kærleikum, eins og alltaf. Tæpum klukkutíma seinna hringdi hann svo aftur til að láta mig vita að rafmagnið væri komið aftur á ... Mér fannst það mjög sætt - og ég var ekki sofnuð, bara ofurspennt í Millenium-þríleiknum sem hefur bjargað mér í netleysinu.

 

Varla tilviljun ... í hvaða bíl (félagsskap) haldið þið að ég hafi verið á sunnudaginn þegar ríkisstjórnin féll og ég í búð að leita að litlu einföldu eldhúsborði? Jú, í bíl þeirrar sömu og ég var með 11. september 2001 á leið til Borgarness. Fyrsti stafurinn í nafninu er ... Hilda systir. Við erum greinilega magnaðar. Þar sem systurnar sætu eru ferð, gerast hlutirnir!

 

Já, og ég held að þetta séu ekki spanhellur, ég hef ekki enn þorað að prófa eldavélina sem virkar ógeðslega flókin ... hef bara borðað til skiptis á Argentínu steikhúsi og Grillinu á Hótel Sögu. Auðvitað frítt, sem áhrifavaldur. 

 

Myndin (fannst á netinu, ekki mitt eldhús) sýnir svipað borð og ég leita að, svona tveggja manna borð, rétt fyrir súrmjólkina á morgnana og kaffisopa með vinkonu. Fannst litla borðið í Jysk fínt, en of áberandi/afgerandi, svart og viðarlitað, til að það gæti fallið vel inn í allt hérna, en held áfram leit. Tillögur vel þegnar.  


Rúsínuhrekkurinn ... og bergmál í himnaríki

BloggaðstaðanSkrifborðið mitt fína og fallega var sótt í kvöld af nýjum eiganda svo ég sit við gluggann og horfi yfir til Reykjavíkur á meðan ég skrifa, lyklaborð og skjár í gluggakistunni, mjög skrítið. Sjá má ljósin í Reykjavík í fjarlægð, einnig snúruhrúguna viðurstyggilegu á gólfinu, sem ég þarf að reyna að fá vit í ... en býst við að einhver frændasnillingurinn aðstoði mig svo við komuna til Reykjavíkur. Fæ samt ekkert net fyrr en á mánudaginn.

 

Bæði Rahaf (Sýrland) og Inga (Ísland) gerðu algjört kraftaverk í pökkunarmálum í dag og gær og Svitlana (Úkraína) sér um stöðugar ferðir með dót frá mér í Búkollu og bauð mér að auki í kvöldmat í gær, Rahaf hafði mætt með svakagóðan hádegismat handa mér. Mikið elska ég þær allar og fleiri sem hafa komið mér til hjálpar. Í dag var nefnilega fyrsti sæmilega góði dagurinn minn eftir þessi langdregnu veikindi og slappheit ... hef svo sem verið að þyrla upp ryki og er með rykofnæmi sem bætir varla úr skák. Meiningin er að taka sem allra minnst Skagaryk með í bæinn, vil eitthvað annað til minningar um elsku Akranes. Fasteignasalinn sem fékk sömu pestina var ögn á undan í batanum, eða náði sæmilegri heilsu á mánudaginn í þessari viku ... en konan hans er orðin veik. Covid hvað! Ég hef horft áhyggjufull á sambýlismenn mína, Krumma og Mosa, en þeir eru fílhraustir, sofa þó mikið og eru frekar áhyggjufullir yfir þessum látum, þessu drasli og tilfæringum.

 

Í dag festi ég kaup á fínasta sófa frá Dorma, á góðu tilboði, og ísskáp frá Smith og Norland. Ekkert fleira verður keypt í bráð - ja, mögulega eldhúsborð og tveir stólar. Eitt af því sem fer í Búkollu næst er heimasíminn minn, nú getur enginn hringt í 552-1039 lengur (eftir 38 ára samfylgd) og reynt að selja mér bækur eða fá mig til að styrkja enn eitt góða málefnið ... ég notaði heimasímann nánast aldrei nema bara til að hringja í gemsann minn ef ég fann hann ekki heima ... Hússjóðurinn er svo gríðarhár í nýja húsinu, verið að safna fyrir vissu verki, að þar til hann lækkar mun ég sýna grimmd og enga miskunn við þá sem dirfast að hringja í gemsann til að biðja um pening.

 

Rúsínupakkinn endalausiEitt af því sem fannst í flutningaveseninu var rúsínupakkinn pínulitli sem systir mín skildi eftir hér af mikilli grimmd, hún veit að ég hata rúsínur. Fann hann í fyrra inni í eldhúsi og hélt að ég hefði hefnt mín með því að lauma honum í veskið hennar ... en hún fann hann áður en hún fór heim, og laumaði honum í körfuna sem geymir blöð og tímarit, í fatahenginu. Sá bunki hefur nú eiginlega bara hækkað og voðalega lítið um að vera þar, engin furða þótt ég hafi ekki fundið hann. Hef bara sofið illa og næstum nagað neglurnar af pirringi yfir því að finna hann ekki.

 

Stráksi kom í stutta heimsókn í dag, eiginlega bara til að fara út með rusl (svo mikill pappír, svo lítið plast). Hann kemur með í fyrramálið í eldhúsferðina í bæinn. Ég hef eignast dásamlegan hirðsendibílstjóra sem ætlar að sækja fyrir mig sófann og ísskápinn og koma með á Kleppsveginn á morgun. Það' er nánast allt komið í kassa og poka nema föt úr kommóðu og þremur hillum í skáp, dót í litlu kommóðu, og svo eldhúsið ... en margar hendur vinna létt verk og þetta klárast allt annað kvöld. Kl. níu á laugardagsmorgun þegar flutningabíll frá Flutningaþjónustunni mætir verða hér sterkir gaurar sem þjóta hér upp og niður stigana. Svo kemur elsku Bassel minn og sækir mig og kettina.

 

Um miðjan dag í dag byrjaði að bergmála í stofunni, þá vissi ég að þetta myndi allt saman nást á réttum tíma. Vonandi gengur allt hitt vel þarna sunnan við sjóinn minn. Nýju íbúarnir fá sennilega gos í nóvember og þá verð ég að sætta mig við að sjá það í sjónvarpinu. En ... yfir og út í bili, næsta blogg sennilega á mánudaginn kemur. Ég er líka svo spennt í sögunni ... Karlar sem hata konur, samt hef ég lesið bókina nokkrum sinnum og séð myndina alla vega tvisvar. Fín bók, vel lesin og dásamlega löng.


Afhending í dag, fín dýrabúð og aukin tilhlökkun

Álman til hægriDásemdardagur í dag sem hófst með ónauðsynlegum göngutúr út á stoppistöð við gömlu bæjarskrifstofurnar. Garðabraut er lokuð og ég áttaði mig ekki á snilli strætó sem fer bara krókaleiðir frekar en að skilja Gurrí sína eftir. Vagninn fór kl. 13.15 frá Akranesi og var kominn rétt rúmlega tvö í bæinn. Elskan hún Anna besta Anna beið eftir mér í Mjódd og eftir smámisskilning varðandi lyklamál hjá fasteignasölunni drifum við okkur á kaffihús í Borgartúni. Jú, afhending íbúðarinnar á Kleppsvegi fór fram klukkan 16 í dag. Fasteignasalinn bað mig að skoða allt mjög vel, til dæmis athuga hvort leyndust nokkuð brenndir lambaskankar inni í ofninum, hann vissi af slíku dæmi, hann vildi að allt gengi vel fyrir sig, annars fengi hann ekki deyfingu næst þegar hann færi til tannlæknis ... (skýring: tannlæknirinn hans seldi mér íbúðina). Íbúðin var eiginlega fallegri og fínni þegar ég sá hana svona auða og útúrskúraða ... gardínur sem gera dimmt í íbúðum eru hreinlega af hinu illa. Það vantar vissulega betri lýsingu, það eina sem ég get sett út á. Þegar maður skoðar íbúðir sem aðrir búa í er argasti dónaskapur að rífa upp alla skápa og kíkja. Ég gerði það fyrst í dag og er ansi mikið sátt við fínan búrskáp vinstra megin við komandi ísskáp en hægra megin við hann er ryksugu- og sópaskápur, það er virkilega gott skápapláss í íbúðinni og að auki lítil geymsla í kjallaranum.

 

Myndin sýnir herbergja-"álmuna". Baðherbergi t.h., vinnuherbergi á móti og svefnherbergi. Útsýni fínt, Esjan alveg sjúkleg, ég dirfist ekki að gera kröfur um meira sjávarútsýni en þetta, finnst þetta bara ansi fínt. Tek kíki með mér og get dundað mér við að fylgjast með skemmtiferðaskipum á milli verkefna hjá mér, samráði skipafélaganna og öllu þar á milli. 

 

Sjórinn minnVið Anna skruppum í dýraverslunina í Holtagörðum skömmu fyrir afhendingu. Tólf ára gömul tík tók á móti okkur af virðuleik og fylgdi okkur inn. Mig vantaði kattasandskassa með loki, kattasand og kattamat. Svo þegar við erum flutt, ég og kettirnir, verða keypt ný bæli handa þeim. Vinnuherbergið er svakalega lítið (1,80 X 2,20) en þangað kem ég auðveldlega pínulitla tekkskrifborðinu sem ég er búin að festa mér, já, og tekkskrifborðið sem ég auglýsti til sölu er mjög sennilega selt. Alla vega frátekið. Ég mun sakna þess, enda fallegur gripur, en þetta litla er líka mjög fallegt og passar betur inn í smáa skrifstofuna. Lyftan er minni en mig minnti ... svarti skápurinn kemst ekki inn í hana og heldur ekki rúmið mitt. Sennilega ekki antíksófinn rauði heldur ... vá, hvað ég ætla að láta flutningamennina borga mér mikið fyrir þessa líkamsrækt sem þeir fá sunnan megin rörs.

 

Mynd: Ég á eftir að sakna þessa útsýnis verulega en á milljón myndir af því sem ég get yljað mér við. 

 

Kattaheldar svalirKrummi og Mosi eru að leika sér! Og það í fyrsta sinn. Núna á meðan ég blogga. Alfakötturinn, elskan hann Keli, stjórnaði öllu með harðri loppu og lék við þá til skiptis nánast til dauðadags. Þeir tveir dirfðust ekki að reyna að leika sér saman ... en núna er það að breytast sem er gjörsamlega æðislegt! Smiðurinn minn er enn að reyna að pæla í því hvernig hann geti gert svalirnar kattheldar án þess að það sjáist utan frá. Svo ætlar hann að sansa opnanlegu gluggana þannig að Mosi ævintýraglannaköttur geti ekki ýtt þeim upp og stokkið niður, honum er trúandi til þess, hann skortir alla rýmisgreind.

Smiðurinn er snjall og snöggur málari líka og ætlar að mála fyrir mig veggina og loftið á flísaklæddu baðinu. Guðný sem hannaði fyrir mig himnaríki valdi litinn sem fer á veggina. Svona mjúkur hvítur, hlýlegur, svo þarf ég að finna eitthvað út úr lýsingunni. Mjög fallegur sófi í Dorma freistar mín, er á góðu tilboði sem er ekki verra. Stráksi getur sofið á honum þegar hann kemur í heimsókn og vill gista.

 

DraumarÞetta tók allt tímann sinn og það munaði bara nokkrum mínútum að ég næði 17.30-strætó heim, umferðarsultur um allt, en þá hefði ég náð í afmælismat hjá vinkonu minni ...

 

Þar sem ég sat í 18.30-vagninum sá ég á snappinu þegar afmælissöngurinn var sunginn fyrir hana. Mikið hefði verið gaman að ná ... en maður flýtir ekki afhendingarathöfn og málningarkaupum. Elskan hún Anna vildi endilega að ég sæti hjá henni í bílnum þennan tæpa klukkutíma í næsta strætó og við höfðum um nóg að tala.

 

Mjög gaman að flytja í bæinn og hitta hana enn oftar, og aðra vini og vandamenn ... en svo fæ ég öðruvísi sting í hjartað við tilhugsunina um að flytja frá elsku Akranesi.

 

Eldhúsborð og stólarMiðað við hvað gerðist eftir að ég flutti af Hringbrautinni finnst mér ekki ótrúlegt að fljótlega fari allt í gang á Akranesi, það komi gjöðveikt kaffihús (það fæst auðvitað kaffi í Kallabakaríi og Costa-kaffi í Frystihúsinu - ísbúð) OG að Akraborgin fari að ganga á milli. Hún tengdi Skagann svo miklu betur við umheiminn en allt annað. Um leið og ég var flutt af Hringbraut var póstnúmerinu breytt úr 107 í 101 og Kaffi Vest opnaði skammt frá, í húsinu þar sem áður var pósthúsið á Hofsvallagötu, eða apótekið. 

 

Í fyrrinótt dreymdi mig að ég væri byrjuð að reykja, og það eins og strompur, var hneyksluð á sjálfri mér en reykti samt! Í nótt var ég komin með fósturbarn, einstaklega erfitt ... Ég kíkti á netið til gamans til að vita hvað reykingadraumurinn merkti en fannst merkingin þar algjört bull, eða viðvörun um óvin ... ég spurði manneskju sem veit mikið um drauma og hún sagði báða draumana merkja að ég væri undir álagi og stressi, mikið væri í gangi og ... já, ég get sko tekið undir það.

Mikið verður gaman að "dúlla sér" við að taka upp úr kössum án nokkurrar streitu í næstu viku. Þetta niðurpakkelsi inniheldur milljón handtök og þótt ég hafi gefið margt og mikið í allar áttir á ég samt allt of mikið dót. Hélt að ég væri grimm í grisjun en ekki nógu grimm. Á morgun og hinn verð ég að klára. Elsku Hilda mín kemur síðan á föstudag og við flytjum ásamt Ingu, Júlíönu og stráksa, brothætt dót t.d. úr eldhúsinu og komum fyrir í nýju íbúðinni. Sennilega verð ég að nota tækifærið og kaupa bæði sófann og ísskápinn þá. Líka lítið borð og stóla í eldhúsið.

 

Neðsta myndin: Mig vantar svona borð og stóla í eldhúsið. Það er pláss fyrir það. Sýndist ég sjá svona borð hjá Jysk.is og veit að þar fást mjög góðir og þægilegir eldhússtólar. Ath. þetta er mynd af netinu, ekki úr nýja eldhúsinu mínu.         


Skilningsleysi yfir harmsögu og ferlegar flutningaáhyggur

TannsiAumingjaskapurinn var allsráðandi þegar ég mætti stundvíslega til tannsa í dag. Hélt að gönguferðin þangað myndi verða hressandi og bætandi en aldeilis ekki. Hóstinn hefur lagast en ekki nóg, flökurleiki bætti ekki úr heldur og hvern langar að gubba á tannlækninn sinn eftir æsilegt hóstakast í miðri tanntöku? Ekki mig. Svo ég borgaði bara skrópsektina og dreif mig heim með strætó. Næsti tími tuttugasta og eitthvað október, eins gott að hviður á Kjalarnesi hleypti mér á Skagann með strætó. Maður slítur sig ekki svo auðveldlega frá tannlækninum sínum, hárgreiðslumeistaranum og öðru góðu hér í þessum dæmalaust yndislega bæ ... Var að hugsa um að kveðja kaupmannshjónin í Einarsbúð á heimleiðinni en var svo skynsöm að hringja fyrst og veit núna hvaða tími dagsins er bestur til að hitta á þau og knúsa í ræmur.  

 

 

Leið síðan ögn betur eftir að hafa lagt mig með æsispennandi bók til að hlusta á: Síðasti hlekkurinn heitir hún, eftir Fredrik T. Olsson. Búin með tíu klukkutíma, bara átta eftir. Var reyndar byrjuð á algjörri dásemd: Þessir djöfulsins karlar en ætla að geyma mér hana þar til líf mitt er orðið stresslaust, ekkert: Næ ég að pakka öllu fyrir laugardag? Næ ég að kaupa ísskáp og fá á Kleppsveginn fyrir laugardag? Kemur flutningabíllinn örugglega? Sofa burðarmennirnir yfir sig? Verður pínulitla lyftan biluð? Er möguleiki á því að Skálmöld aflýsi tónleikunum 1. nóv.? Er eldavélin með spanhellum? Plís, ekki span!

 

Ég hefði getað fengið nýju íbúðina afhenta í dag, degi fyrr sem sagt, en sagði seljanda sem hafði samband í gærkvöldi að það væri því miður of seint að aflýsa tannlæknatímanum í dag og allt væri miðað við fyrsta október. Stráksi kíkti svo í heimsókn eftir vinnu og borðaði upphitaðan skyndirétt á meðan ég snæddi dásamlegan sýrlenskan mat frá elsku Fatimu minni. Fyrir hádegi hafði fulltrúi hinnar sýrlensku fjölskyldunnar minnar mætt og aðstoðað mig við að pakka. Hún tók niður gardínurnar í stofunni sem nýttust sérdeilis vel til að vefja utan um gömlu eldhúsklukkurnar en ég hætti við að þvo gardínurnar hér á Skaga. Held að ég nýti frekar iðnaðarvélarnar í nýja húsinu. Ég á allt of mikið dót, allt of mikið af öllu, samt búin að losa mig við heilan helling.    

 

Facebook, ó, Facebook

 

SúrmaturFacebook rifjaði upp í dag að fyrir nákvæmlega 14 árum opnaði ég mig og sagði strætóvini mínum harmsögu lífs míns á leiðinni frá Mosó til Reykjavíkur. Kaldur og staðinn hafragrautur og súrtunna með næstum ársgömlu slátri komu við sögu. Ég hefði haldið að ég fengi stuðning vina og vandamanna á Facebook þar sem ég sagði frá þessu en aldeilis ekki:

 

Óli: Það losar um munnvatn. 

Nanna: Alveg væri ég til í ársgamalt súrt slátur núna. En hafragrauturinn þyrfti helst að vera nýr.

Einar strætóvinur: Já, ég er enn með tárin í augunum eftir að hafa hlustað á Harmsögu ævi minnar, eftir Gurrí í strætó í morgun. Annars táraðist ég líka vegna þess að þetta var sennilega síðasta strætóferðin mín með henni. Ég á eftir að sakna allra strætófélaganna.

Borghildur: Þetta er herramannsmatur og ekki orð um það meir. 

Hulda Björk: Vildi óska þess að ég ætti ársgamla tunnu. Mmmm

Hilda: Tja, misjafn er smekkur manna, súrt slátur er viðbjóður ... (smekkkona hún systir mín)

Guðrún: Súrmeti er góðmeti .. æi, nú fer ég að hlakka svo til þorrans, nú á mig eftir að dreyma súrmeti í alla nótt!

 

Ekki furða þótt dvalarheimilin breytist lítið í matarmálum, þegar tiltölulega ungt fólk hefur svona ... fornan smekk. ;)

 

Góður íslenskur gamaldags matur: Hangikjöt, uppstúf, laufabrauð, flatkökur, pönnukökur, kjötsúpa, slátur (ekki súrt), rófustappa, kleinur ... (ég borða kannski ekki hrátt hakk eins og sumir þjóðernismenn en er alls ekki landráðakona)

 

GaldurBetri heimur

Ef þú gætir fjarlægt eitthvað eitt úr heiminum til að gera hann betri, hvað yrði það?

 

Græðgi.

Mannkynið.

Sjálfselsku.

Moskítóflugur.

Pedófíla.

Trump.

Harris.

MAGA.

Vinnustaðinn minn.

Hvar á ég að byrja?

Glæpi. 

Sjúkdóma.

Hatur.

Kóngulær.

Kynþáttahatur.

Síonisma.

Alkóhól.

Hungur.

Stríð.

Pólitík.  


Elskulegheit, augnableyta og Titanic-svindlið

Litlir kassarMikið vorkenni ég burðarmönnunum þínum,“ sagði Inga og horfði á bókakassana sem eru nokkuð fyrirferðarmiklir í litla herberginu.

„Þetta er ekkert,“ svaraði ég, „líklega bara fjórðungur af því sem ég átti þegar ég flutti á Skagann.“

Þeir grétu nú pínkupons þarna 10. febrúar 2006 yfir að skoppa niður af annarri hæð á Hringbraut með bévítans bókakassana og það eina sem huggaði þá var að um það bil fimm eða sex Fjölbrautaskólastrákar hér á Skaga báru bækurnar upp á fjórðu hæð. Allt í gegnum elsku Kolbein frænda. Ég skulda þeim enn pítsuveislu. Með eðlilegri verðbólgu og vöxtum ætti hún að vera orðin að utanlandsferð fyrir þá núna. Ég minntist nokkrum sinnum á það en það var einhvern veginn aldrei tími hjá strákunum svo það datt upp fyrir en þakklæti mitt er nú samt ómælt. Nú fæ ég minnst fimm sterka karla til að hoppa upp og niður stigana með kassa og mig grunar að þeir þurfi ekki að fara í ræktina í svona þrjá mánuði á eftir.

 

Skrifborð úr tekkiLangflestar bækur heimilisins fóru sem sagt í kassa í gær. Þetta var ótrúlegur dagur. Ég var vöknuð fyrir allar aldir upp úr níu þegar Ólöf, gamla góða samstarfskonan síðan á síðustu öld og bjargaði mér þegar ég smitaðist ekki af Covid í ræktinni en þurfti samt að fara í bæinn ... mátti ekki fá far og mátti ekki taka strætó en átti samt að mæta til Reykjavíkur. Með þetta fína sjúkrahús á Akranesi sem mátti þó ekki sjá um okkur. Jæja, hún var með hugsanlega smitaða unglingsdóttur sem átti að mæta líka í sýnatöku þennan dag, svo hún skutlaðist úr Mosó upp á Skaga, fór með mig á sýnatökustað, beið og skutlaði mér svo heim. Þess ber að geta að við höfðum ekki sést og heyrst í ansi mörg ár. Hún fór svo með dótturina seinnipartinn. Þetta var svo fúlt ástand að ef dóttirin hefði greinst jákvæð hefði það þýtt allt upp á nýtt fyrir mig, og öfugt. En hvorug okkar þurfti að súpa seyðið af gjörðum okkar. Sem sagt, Ólöf spurði hvort mig vantaði eitthvað og ég sagði að litlir kassar væru eina ögrunin - það var eins og við manninn mælt, að um leið og kötturinn hennar var búinn með fegurðarblundinn ofan á bringunni á henni, dreif hún sig af stað og færði mér nokkra litla kassa, ásamt því að setja saman nokkra afar flókna kassa af stærri gerðinni (ekki úr IKEA þó). Dásamleg!

 

Myndin er af tekkskrifborðinu mínu sem ég ætla að selja mjög ódýrt (10 þús. eða besta boð), fann svipað hjá Kristbjörgu í antíkskúrnum, nema hátt í helmingi minna, sem er æði því ég flyt í minni íbúð og MIKLU minna vinnuherbergi (2,10 x 1,80). Krummi tekur sig aldeilis vel út á myndinni og honum er ætlað að taka athygli frá draslinu ... bara einn sentimetri til hægri i glugganum og þá myndi sjást í pappírsdraslið sem ég ætla að flokka í kvöld.

 

HjálparhellurSíðan komu óvænt skilaboð, systurdóttir og kærasti heimtuðu að fá að koma og pakka niður fyrir mig. Móðir frænkunnar á leiðinni með hunda sína svo senn yrði allt fullt af aðstoð. Inga nýbúin að vera að aðstoða mig, einnig Rahaf mín og svo ætlar Fatima líka eitthvað að koma, báðar úr sýrlensku hjálpardeildinni.

 

 

Það kom eitthvað blautt í augun á mér út af allri þessari góðmennsku, óverdós af elskulegheitum, myndu sumir kalla það, en mér þótti þetta þó verulega hallærislegt af mér þar sem ég hef gefið mig út fyrir að vera harðskeyttur ofurtöffari sem grenjaði ekki einu sinni yfir endinum á Titanic-myndinni ... bara pirraðist yfir því hve löng hún var og ég vissi auðvitað alveg að Jack yrði fórnað, þótt hann væri alls ekki útlitsgallaður á nokkurn hátt. (Í Jurassic Park var t.d. öllu þybbnu fólki með gleraugu fórnað, minnir mig).

 

 

Augun voru löngu orðin þurr og töff þegar systir mín mætti og síðan dóttir hennar og tengdasonur - það urðu fagnaðarfundir því þetta var víst ekki samsæri. Það er ekki allt samsæri alltaf sko.

 

Mér finnst ég enn, öllum þessum vikum seinna, vera að flokka og flokka og flokka, gleymdi t.d. skápnum hægra megin í tekkskrifborðinu mínu fagra, búin með skúffurnar vinstra megin, og þar leyndist aldeilis mikið af pappír! Mikið verður tunnan sem tekur pappa og plast ánægð með allt sem hún fær frá mér á morgun. Ég lét pakka niður sjónvarpinu og öllu tilheyrandi sem hjálparhellum fannst frekar skrítið en það er miklu betra að flokka hluti og pakka niður með góða sögu í símanum en eitthvað í sjónvarpinu. Pásur eru illa séðar á þessu heimili. 

 

Fljótlega eftir hádegið á morgun fer ég svo til tannlæknisins og mun þar skilja eftir eitt stykki jaxl sem tannsi vildi endilega fá til minningar um mig fyrir Skagamenn, held ég. Maður verður að skilja eitthvað eftir sig ... Held að ég verði ekki mjög til stórræðanna við heimkomu eftir tanndráttinn - og svo næsta dag er það bara 13.15-strætó í bæinn og fá afhenta lyklana að nýju íbúðinni. Allt að skella á!

 

Titanic óvæntur endirInn á milli þegar ég hef verið ein heima hef ég verið að hlusta á söguna Það sem við komumst ekki yfir ... og sú kom á óvart! Svolítið óforskömmuð bók og ansi fyndin á köflum. Jú, ástarsaga og allt eftir Lucy nokkra Score. Ég sofna oft við upplestur, stilli Storytel kannski á hálftíma eða tímann til að klára kaflann ef hann er sæmilega langur, en hló upphátt tvisvar í gærkvöldi þegar ég átti að vera að koma mér í draumalandið. Var ekki sérlega hrifin allra fyrst en svo náði hún mér. Alveg mátulega rómantísk, ótrúverðug og allt það sem prýðir svona bækur, meira að segja erótík (jibbí) í henni, sem sagt dásamleg í gefa, eiga, henda-starfinu hér. Hún var líka fín við flokkunina bókin Mikaela eftir Önnu Bågstam (lögfræðikrimmi).

 

Ljósmyndin hér á síðunni sannar að það er lítið að marka bíómyndir. Jack bjargaðist greinilega! Sjúkk, hvað ég var framsýn að hafa ekki grenjað yfir endinum á Titanic.

 

FokkmerkiðVar boðið í úkraínska kjötsúpu í dag og sú var góð - kattahvíslarinn minn sem bar ábyrgð á því góða boði tók svo tvo kassa sem eiga að fara í Búkollu, svo ég væli ekki lengur um fráflæðivanda. Vona bara að einhver falli fyrir skrifborðinu. Annars tek ég það bara með í bæinn og held áfram að reyna að koma því út. Ljósakrónurnar fögru og góðu sem hafa prýtt himnaríki eru farnar í antíkskúrinn og fá vonandi ástríkt heimili, en mér sýnist á öllu að á Kleppsvegi sé lítil þörf á að mæta með ljósakrónur. Kemur bara í ljós ... fliss.

 

Fyrsta og eina óhappið sem hefur orðið hér við þessa flutninga átti sér stað þegar verið var að pakka niður bókum - sem hefur verið tekið í nokkrum hollum síðustu daga. Fokkjústyttan bleika sem ég fékk í jólagjöf eitt árið frá vinkonu, skall í gólfið og langatöng brotnaði af. Brotnaði samt "vel", en viðkomandi "brjótari" tók hana með sér og ætlar að redda sér góðu lími þannig að ekki nokkur leið verði að sjá misfellu. Svo verður mætt í heimsókn og mér færð límd og fullkomin styttan. Aðeins ég, "brjótarinn" og bloggvinir mínir munu vita af þessu óhappi.

 

Hér á Akranesi hafa jarðskjálftar á Reykjanesskaga varla fundist nema ef þeir eru yfir fjóra að stærð. Í kvöld sá ég að ég er aldeilis á leið í meira fjör ... en íbúi í 104 Reykjavík, bráðum mínu póstnúmeri, fann vel fyrir þessum sem komu í kvöld, eigi svo langt frá Keili, hristist þrátt fyrir að þeir væru "bara" 3,3 og 3,6 sem finnst aldrei hér. Og ég fer á sjöttu hæð sem gerir þetta enn meira spennandi ... Mamma var alltaf mjög jarðskjálftahrædd og nötraði vel á sinni sjöundu hæð í Asparfelli en eftir að hún flutti á Eir fann hún aldrei fyrir neinu. 

 

Spæling í strætóNýjasta lúxusvandamálið:

Veit einhver hvernig hægt er að losna við fastan takka í lyklaborðinu? Einn takkinn festist alltaf, urrr. Það er stafurinn I-i sem er mikið notaður á þessu heimili, og ég er að verða brjáluð! Hann helst niðri og er eiginlega hættur hrökkva upp eftir smástund. Ég get skrifað á sama hraða og venjulega svo það truflar ekki þannig en ... bara að hann sé fastur þarna gengur ekki. Missti dropa af einhvers konar hreinsidæmi, röngu, en hélt að ég hefði náð að þurrka allt upp - greinilega ekki.

- - - - - - - - - - - - - - 

Ég hef oft skrifað um slæma sjón ungu útlensku strætóbílstjóranna sem hafa nokkrum sinnum reynt að gefa mér afslátt (vissulega unglinga-, öryrkja- eða elliafslátt en ...).

Myndin er sönnun síðan þetta gerðist í fyrsta skiptið! Sjáið bara þessa átakanlegu mynd sem er skjáskot af Snapchat-færslu minni. Greinilegur skortur á klipp og lit og framköllun í andliti - sem afsakar eitthvað - öskureiðin og beiskjan leka af andlitinu en ... bílstjórinn keyrir enn sem er einungis miskunnsemi minni og skorti á langrækni og hefndarfýsn að þakka.

 

Facebook

 

Árangursríkasta svindl allra tíma?

Flestir (frá USA) sem svöruðu nefndu skipulögð trúarbrögð en tryggingar fylgdu fast á eftir!

 

- Þegar McDonalds takmarkaði fjölda sósubréfa með borgaranum.

- Skattar og tryggingar.

- Hvernig skattar eru notaðir í öllum löndum, hluti fjárins aldrei notaður fyrir almenning.

- Skipulögð trúarbrögð, hjónabandið fylgir fast á eftir.

- Kreditkort.

- Pólitík.

- Að kántrítónlist sé sögð góð. 

- Að konur verði að vera giftar og eiga börn.                  


Augnaráð í Bónus, skeyti frá Baggalút og heilaleikfimi framtíðar

BaggalúturMinningar fylla nú heilan kassa þrjátt fyrir grimma grisjun, handrit, ritgerðir síðan í HÍ sem væri gaman að lesa en ekki núna. Ekki tími. Búin með hillusamstæðuna en bæði í skúffum þar og skápum leynist sitt af hverju skemmtilegt. Eins og heillaóska-símskeyti frá Baggalúti sem komst ekki í afmælið mitt, heilu bunkarnir af orðaleit (word search) sem ég klippti út úr ensku blaði sem ég hafði aðgang að lengi vel - og margt, margt fleira. Þetta síðarnefnda á að halda kollinum í lagi þegar ég fer að eldast (mamma notaði krossgátur sem þjálfun fyrir heilann).

 

Ég var búin að steingleyma þessu með Baggalút en ég tók viðtal við þessar elskur þegar enginn vissi hverjir stæðu á bak við Baggalútsnafnið og fréttasíðan þeirra, baggalutur.is, viðhélt heilmikilli gleði í samfélaginu á þessum tíma. Ein minnisstæðasta fréttin: Kona nær bílprófi en sá fáheyrði atburður átti sér stað ... osfrv. Enn gleðja þeir Íslendinga og nú með jólatónleikum og sem fjölmiðlamenn. Það þurfti nú ekki meira en þetta viðtal (í Vikuna) við þessa bráðskemmtilegu menn til að bjóða þeim í afmæli. Svo urðu þeir svo frægir að ég kunni ekki lengur við að bjóða þeim. Sniðugt hjá þeim að senda þetta skeyti - sem 19 árum seinna gleður sorterandi skvísu á Skaganum. Og ... skeytið fór að sjálfsögðu í minningakassann.    

 

Pítsa fyrir stráksaUm fimmleytið fékk ég far með Svitlönu í apótekið í útjaðri bæjarins (úti í rassgati). Ég hafði safnað úr ýmsum skápum og krukkum, aðallega efstu hillum, kössum sem höfðu verið í hvarfi, ýmsum lyfjum sem þurfti að eyða á réttan hátt. Lét verkjalyfin hans Kela fylgja líka. Það voru ekki beint svipugöng sem ég var látin ganga, en ég var með kassa utan um þrenns konar lyf, sem ég hefði nú alveg getað sett sjálf í "pappaplast" (við flokkum það enn saman). Ég leyfði þeim að fylgja, svona ef apótekið vildi vita hvaða lyf ég hefði verið að "hamstra". Þarna var t.d. plastpoki með hvítum pillum í, sennilega íbúfeni en ég tek aldrei sénsa með lyf. Þarna voru líka gömul vítamín ... sem sagt lyfjadótarí margra ára. Ég hef verið dugleg að kaupa vítamín í gegnum árin en er léleg í því að taka pillur svo inntakan á t.d. D-vítamíni varð ekki regluleg fyrr en spreyin góðu komu til sögunnar. Ekki fullur poki sem fór, en nógu mikið samt. Frábær þjónusta hjá apótekum að taka við þessu til eyðingar. Notaði tækifærið og keypti hóstamixtúru, nú skal kvefið hroðalega og langdregna sem hófst 29. ágúst, sigrað! Er eiginlega viss um að svona álag, eins og fylgir flutningum, hafi lengt kvefið og dýpkað ...

 

Óvænt yndismynd af EinariJú, stráksi kom með - valdi að borða hjá mér í staðinn fyrir heima hjá sér, svo ég keypti pítsu hjá Dominos sem er við hliðina á apótekinu. Ætlaði að kaupa mína vanalegu síðan í denn - eða með tómötum, lauk og gráðosti en þá eru víst komin einhver ár síðan fyrirtækið hætti alfarið með tómata. Mig rámar nú eitthvað í að hafa fengið sólþurrkaða tómata sem var verra en flest annað. Held að viss systir mín hljóti að hafa haft hönd í bagga með því, enda er hún með lífshættulegt ofnæmi fyrir tómötum. Svo ég keypti bara með sveppum, lauk, papriku og einhverju slíku sem var mjög gott. Kostaði í kringum 2.000 kall, eitthvað afmælistilboð í gangi. Við stráksi borðuðum okkur til óbóta en ég á samt tvær sneiðar eftir í hádegisverð á morgun. Svo stökk ég inn í Bónus og keypti litla Bónus-rétti, alls konar rétti sem ætti að duga mér út næstu viku til áts ... ekki séns, svona á barmi flutninga að ég nenni að elda ... og óhreinka bakaraofninn sem er nánast tandurhreinn. Alla vega lítið mál fyrir flutningsþrifin mín að gera hann skínandi. Ég fékk augnaráð í Bónus, fyrir að taka sjö til átta svona rétti og fátt annað, þeir eru ótrúlega góðir en ég hlakka samt til að elda mér mat á Kleppsveginum. Held að það hafi verið útlendingar (næpuhvítir eins og Íslendingar) sem horfðu hneykslaðir og með hálfgerðu ógeði ofan í innkaupakörfuna mína svo mér er skapi næst að ganga í Miðflokkinn. Ég sagði eins hátt og ég gat þegar ég var komin á kassann: ÉG ER AÐ FARA AÐ FLYTJA EFTIR VIKU, NENNI BARA ALLS EKKI AÐ ELDA! ÞESS VEGNA KAUPI ÉG ÞESSA SKYNDIRÉTTI. Stúlkan sem afgreiddi mig var mjög kurteis en ég fann samt að fólkið í kring var mjög hneykslað. Svo ég setti á mig hettuna þegar ég laumaðist til að sækja pítsuna í nokkurra skrefa fjarlægð frá búðinni ...

Inni í Dominos spurði ég undrandi og forvitin, sem mikill unnandi tónlistar: „Hvort er þetta tónlist eða læti í vélum?“ (Bara taktur, nákvæmlega ekkert annað). Ungi maðurinn svaraði eldgömlu kerlingunni: „Bæði.“ Hann virtist vera í ótrúlega miklu jafnvægi og þess vegna stakk ég ekki upp á t.d. Skálmöld sem hefði eflaust gert meira fyrir geðið og vinnugleðina en taktfast eitthvað stórfurðudæmi. Sem sagt svona tónlist, sumt kántrí og sálartónlist er á algjörum bannlista í himnaríki.

 

Neðsta myndin er líka dásemdarminning ... frænka sonar míns (þau eru bræðrabörn) fékk hana senda rafrænt í gær - hún var tekin í sveitinni sem hann fór svo oft í með afa og ömmu í föðurætt, á Nýjabæ, rétt við Kirkjubæjarklaustur. Einar var alla tíð mikill sveitastrákur og dýravinur, hefur eflaust notið þess að fá að gefa heimalningnum. Mikið gaman að sjá þessa mynd.       

 

Facebook ...

Sextán ár upp á dag síðan ég byrjaði á Facebook ... Minnir að það hafi verið Anna Kristjáns von Tenerife sjálf sem ýtti mér þangað, eða var það á Moggabloggið?

 

Það skrítnasta og ótrúlegasta sem fjölmargt fólk trúir samt? 

Það komu mörg svör og auðvitað eitthvað á borð við ... að Trump geri Bandaríkin betri ... og annað í þeim dúr en það er svo stutt í kosningar westra ...

 

- Mikil vinna færir þér velgengni. 

- Núna verður þetta öðruvísi.

- Fólk sem kláraði varla skylduna veit samt meira um vísindaleg málefni en fólkið sem hefur helgað líf sitt vísindum. 

- Föstudagurinn þrettándi er óheilladagur.

- Það lenti enginn á tunglinu.

- Pólíester getur andað.

- Annað barn lagar hjónabandið.

- Jörðin er flöt.

- Það er líf eftir dauðann

- Það þarf ekki að nota svitalyktareyði.   


Eins og nýsleginn túnfiskur ... og tungumál ungbarna

Elsku IngaKláraði yfirlesturinn um tíuleytið í morgun og ætti þá að geta einbeitt mér alfarið að flutningum. Vissulega verður haldinn húsfundur hjá mér í dag varðandi fyrirhugað verk svo ég neyðist til að laga til og ryksuga ... sem ég ætlaði hvort eð er að gera. Það verður síðasta skiptið sem ég get kallað mig riddara húsfélagsins með sanni. Held að í nýja húsinu mínu sé ekki venjuleg hússtjórn, visst fyrirtæki úti í bæ sér um allt þar.

 

Ég hafði setið sveitt við yfirlestur í gær þegar elskan hún Inga hafði samband, búin að fara í ríkið og fá almennilega bókakassa handa mér. Hún fékk að sjálfsögðu kaffi sem var svo hressandi að hún gat ekki stoppað sig fyrr en hún var búin að fylla alla nýkomnu kassana af bókum úr stofunni. Svona gersemar eru ekki á hverju strái. Í huganum greindi ég hana með mikinn skort á ADHD ... en það var kannski orðum aukið hjá mér í síðasta bloggi að hún hefði greint mig, hún sagði að þetta að vaða svona úr einu í annað í tiltekt líktist fólki með ADHD ... en himnaríkisskáldið lætur svo sem sannleikann ekki þvælast fyrir sér, frekar en sum önnur skáld ...

 

Svo ætlar ástkær litla systir að kíkja um helgina og hjálpa ... Ég þurfti að fresta tannlæknatímanum í gær og fer í tanntökuna á mánudaginn, tek svo við íbúðinni í bænum á þriðjudaginn og stóri F-dagurinn verður á laugardeginum.  ... Held að það verði lítið hægt að blogga fyrr en á mánudag, ef Síminn kemst, þar að segja, til að tengja allt. Ekki skrítið þó að ónæmiskerfið sé í skralli þessa dagana. Ég nota þetta ColdZyme óspart og held að það hafi heldur betur haldið stórveikindum í skefjum núna upp á síðkastið. 

 

KisudraumarHimnaríkiskettirnir eru svolítið órólegir og vita greinilega að eitthvað stendur til.

Nú sé ég eftir því að hafa ekki fylgst betur með í tímum þegar var verið að kenna kattamál. Ég man nú samt alveg ungbarnamálið sem nýfædd börn nota til að lýsa líðaninni: 

 

Eh: Ég þarf að ropa.

Neh: Ég er svöng/svangur.

Heh: Mér líður ekki vel.

Owh: Ég er þreytt/ur.

Eairh: Loft í maganum í mér.

 

Svona í alvöru ... þetta kallast Dunstan-barnamál og ein nýbökuð móðir var að segja frá því á Instagram í gær, hún vildi meina að þetta passaði ótrúlega vel. Ef börnin væru að kvarta ætti að hlusta vel á þau og reyna að greina orðin ...

 

KattamálÉg kann auðvitað aðeins í kattamáli, eins og ítölsku, pólsku, arabísku og finnsku.

Uppsperrt skott með smálykkju efst táknar: Ertu komin heim, hæ, gaman að sjá þig.

Að lygna aftur augunum nokkrum sinnum: Hér er allt í góðu standi, ást og friður. 

Og svo framvegis.

 

Mig grunar að þá dreymi æsispennandi drauma (sjá mynd 2), alla vega stundum, þeir eru ekki rosalega hræddir við ryksuguna (sjá mynd) en ganga virðulega út úr þeim herbergjum sem er verið að ryksuga. Mosi var trylltur af ótta við ryksuguna þegar hann flutti í himnaríki 2018 en þegar hann sá að Keli og Krummi létu sér fátt um finnast ákvað hann að taka ryksuguna í sátt. Þannig.

 

Smáhlé ...

Klukkan rúmlega fjögur fylltist himnaríki af sætum smiðum sem ætla að klára verkið sem aðrir smiðir höfðu byrjað á og ekki lokið við (story of our house). Synd að þurfa að flytja ... eða kannski ekki. Sjálf fæ ég reyndar fína heimsókn strax á mánudeginum eftir F-daginn þegar menn frá Símanum mæta til að tengja mig við umheiminn. Virkilega hress maður hringdi í mig upp úr hádegi í dag og kvaðst mæta til mín:

„Sjáumst klukkan hálfníu á mánudeginum,“ sagði hann. 

„Ó, ég skal reyna að sýna hugprýði og vakna,“ tautaði ég örvæntingarfull en maðurinn hló bara grimmdarlega. Engin miskunn. Mjög fínt samt að vakna svona snemma og halda áfram að taka upp úr kössum. Þeim mun fyrr klárast þetta!

 

Ó, Facebook ...

Ein á fésinu tók að sér að betrumbæta nokkur algeng orðatiltæki og fékk önnur lánuð. Hún á fyndna og skemmilega fb-vini sem lögðu í púkkið. Hér eru nokkur góð dæmi:

Frá henni

Ekki hundar í ættinni. (Ekki hundrað í hættunni)

Flýgur fiskisúpan. (Flýgur fiskisagan)

Enginn er verri þótt hann vakni. (... þótt hann vökni) 

 

Og fb-vinirnir:

Að vera eins og nýsleginn túnfiskur.

Sá vægir sem vitið hefur heima. 

Rósin í pylsuendanum.

Að naga sig í handarkrikana.

Betra en seint en kannski.

Eins og þjófur úr heiðskíru lofti. 

Að vera sleginn með blautri tösku í andlitið. 

Stormur í mýflugu. 

Að gera úlfalda úr vatnsglasi. 

Ekki beittasta peran í skúffunni.      


Spennandi greining, svikult app og þáttaraðir sem enda illa

Litlir kassarDagurinn fór að mestu í yfirlestur en til að hvíla andann var aðeins flokkað inn á milli ... Inga mætti í kaffi og eiginlega kom, sá og sigraði, losaði kósíhornið með því að pakka bókunum þar ofan í marga litla kassa svo hægt yrði að sækja bókahillurnar í kvöld.

Hún greindi mig líka með ADHD. Ég hafði sagt: „Skrítið, það er allt í rúst hérna, ég veð úr einu í annað, flokka úr þessum skúffum, nema einni eða tveimur, fer svo í annað herbergi, flokka þar heilan helling. Bara alveg eins og þegar allt er að drukkna í drasli í himnaríki (sjaldan eftir 2020-grisjunina), ég veð herbergi úr herbergi, fer með glas inn í eldhús, set í uppþvottavélina í leiðinni, tek svo tuskur og fer inn í bað og skelli í þvottavél, sé eitthvað sem á að vera inni í stofu, færi það ... svo bara allt í einu er íbúðin orðin sjúklega fín! Ég hef verið svona alla tíð!“ Augnaráð Ingu var greindarlega geðlæknislegt þegar hún lét dóminn falla. Sjálf er ég vön að sjúkdómsgreina mig og fæ stöku sinnum aðstoð Facebook-vina ef þarf, og ákvað strax að ég vildi engu breyta, það væri miklu skemmtilegra að taka til á þennan hátt í stað þess að taka hvert herbergi fyrir sig og klára það. Hrollur!

 

MYND: Hluti kassanna sem Inga pakkaði niður í. Bókahillan vinstra megin er farin eftir um 15 ára búsetu við himnaríki.

 

Sá myndband áðan með lagi frá áttunda áratugnum, How do you do, og fannst mjög gaman að rifja lagið upp, hafði aldrei séð myndbandið, það ríktu lengi höft á Íslandi, gleðihöft. En ... ég þjáðist virkilega mikið yfir því að fólkið í myndbandinu hreyfði sig ekki eða klappaði í takt ... skánaði þó eftir því sem leið á. Þarf að spyrja Ingu hvað svona þjáning táknar. Treysti alfarið á hana í þessum málum, enda hefur hún mikið unnið á spítala. 

 

Kommóðuskrímslið sem sagt farið með hillunum, aukarúmið flutti niður á aðra hæð í kvöld þar sem níu ára gutti mun sofa í því í nótt og næstu árin ... og í raun er litla herbergið þá nánast tilbúið til að verða kassaherbergið. Þá breytist kannski greining frú Ingibjargar, eða þegar ég fer að klára að fylla kassana, einn í einu, og fara með þá þangað inn merkta og tilbúna til flutnings. Það er farið að vanta bókakassa (stofan alveg eftir), ég treysti svolítið á Vínbúðina, þótt ég sé ekki kúnni þar, stóru kassarnir þar eru mjög svo mátulegir undir bækur, eða nógu litlir.

 

LeikurinnEftir að Elfa vinkona "spillti mér" úti í Bandaríkjunum og dró mig inn á spilavíti ákvað ég í leiðindum mínum þar sem ég beið á flugvelli í Seattle fyrir ansi mörgum árum, á heimleið eftir stórkostlega dvöl ytra, að hlaða niður leikjaappi, svona spilavítisappi þar sem hægt væri að leika ýmsa leiki með himinháum gervi-vinningum. Ég hefði getað keypt mér spilapeninga en var ekki nógu spennt til þess. Varð bara sífellt snjallari með árunum og lifði í raun lífi hinna efnuðu í símanum mínum þar til leikjaappskvikindið heimtaði að ég skráði mig inn í gegnum Facebook, einhverra hluta vegna. Mér fannst það asnalegt, fór í fýlu í hálft ár en skráði mig svo aftur inn, í einhverjum leiðindum ... og þá í gegnum Facebook. Ég átti jú tugi milljóna (dollara) þarna inni. Þetta gerðist svo aftur, sennilega ári seinna, að ég þurfti að skrá mig inn í gegnum fb og ég varð fúl. Svo ætlaði ég að játa mig sigraða en þá hafði hið hræðilega gerst. Ég átti vissulega mínar 50 milljónir (dollara) í spilapeningum (sjá mynd) EN LEIKURINN MINN (sjá  mynd) var horfinn! Hættur, farinn ... og aðrir leikir þarna hræðilega leiðinlegir. Þannig að ég mun henda út Double Down Casino-appinu, samt með ábyggilega 30 M eftir. Ég lærði samt aðgæslu í fjármálum þarna, ég fór aldrei niður fyrir 20 milljónir dollara í hreinni eign og hætti á meðan ég var í gróða. Það var svakalega auðvelt að samsama sig með Samherjagenginu, eigendum Bláa lónsins og fleiri auðjöfrum, enda jafningi þeirra um hríð - en nú er það bara hversdagurinn og allur alvörupeningur staddur í steinsteypu við Kleppsveg. Dæs.   

 

Á Facebook

Fjandi sloppinn út í heimFb minnti mig á að viss frændi sem gengur oft undir nafninu fjandi, yfirgaf landið fyrir nákvæmlega tíu árum. Ég fylgdist þá með Norrænu sigla með hann út í heim en á þeim tíma var Seyðisfjörður mun tæknivæddari en hann er í dag því það virðist ekki nokkur leið að fylgjast með ferðum Norrænu í beinni útsendingu lengur. Fyrir alvörunörda sem lifa lífinu stundum í gegnum vefmyndavélar (allir Íslendingar þegar koma eldgos) er þetta mikil afturför. Þetta er eiginlega grátlegt því nú get ég aðeins fylgst með ferðum Norrænu í gegnum MarineTraffic-síðuna og það krefst ofurmannlegs ímyndunarafls.

 

Myndin sýnir hið fagra færeyska skip Norrænu sigla hratt út úr Seyðisfirði með fjanda innanborðs en nú er ekki nokkur leið að fá að sjá svona fegurð (skipið, kaupstaðinn, fjanda) í beinni útsendingu. Hrmpf ... 

 

Fb um sjónvarpsþætti:

Þáttaröð sem endaði svo illa ... að þú dauðsérð eftir því að hafa eytt svona miklum tíma í að horfa á hana ...

Ansi mörg nefndu Game of Thrones sem gerir mig enn glaðari yfir því að hafa hætt að horfa eftir fyrsta þátt. Ég hætti hreinlega að horfa þegar farið er að teygja lopann í svona þáttum. Hafði gaman af því að horfa á Prison Break, fyrstu þáttaröðina, og Dexter sömuleiðis, eða kannski rúmlega það, líka Lost-bullið. Nú horfi ég bara á Gísla Martein (verð að drífa mig í að horfa á síðasta þátt áður en sá næsti brestur á). 

 

- Game of Thrones.

- The Walking Dead.

- The Crosby Show ...

- How I met your Mother.

- Dallas. 

- The Umbrella Academy.

- Designed Survivor.

- Lost.

- Dexter.

- House of Cards.

- Orange is the new Black.

- True Blood.

- Sopranos.

 

Hér er svo umrætt myndband, góða skemmtun:


Bítlahneisa, bullsögur og meintur bókaplebbi

Dulbúningur fyrir kattasandHeilsan svo miklu betri í dag og ýmislegt afrekað. Stráksi kom í mat (bara snarl) og fór út með ruslið sem var nú aðallega pappírsdót í pappaogplast-tunnuna. Svo þurfti ég að losna við annan Ikea-kassann, eða skúffuna sem hýsti fatið með kattasandinum, hef bara pláss fyrir annan þeirra. Ekki víst að þetta nýtist Villiköttum en vonandi þá einhverjum sjálfboðaliðanum heima því hver vill ekki dulbúa kattasandinn á heimilinu? Sterkur karl og sterkur strákur mættu rétt áðan og þessar elskur ætla að koma aftur og taka kommóðuna sem ég hélt að yrði óviðlosnanlega skrímslið í himnaríki ... og tvær bókahillur sem eiga að fara í Búkollu. Held að kommóðan sé alveg nothæf en skúffurnar eru svolítið stífar. Minnir nú samt á sum húsgögnin sem ég átti á fyrstu árum fyrsta hjónabands míns og var bara fínt.

 

Mynd: Fínasti dótakassi fyrir börn en nýttur sem einkasalerni fyrir ketti himnaríkis, búið að skera úr á hliðinni til að kisi komist inn. Ætla að taka annan kassann með í bæinn, hef ekki pláss fyrir báða. 

 

Þessir innflytjendurÉg sá skrítna frásögn í morgun sem sumt fólk deildi nú samt á feisbúkk um meint sældarlíf hælisleitanda. Einn þeirra vildi læra ritlist hjá Skerjafjarðarskáldinu góða, þeim sem sagði söguna, og tvöfaldaði tilboð sitt þegar skáldið baðst undan því, enda búsettur erlendis.

Hælisleitandinn stefndi á meistaranám í ritlist og að verða rithöfundur. Hann á að hafa búið um nokkra hríð á Íslandi og vitanlega haft ókeypis lögfræðiþjónustu, ókeypis fæði, húsnæði og svo auðvitað vasapeninga frá ríkinu, svo þakklátur fyrir að hafa ekki þurft að greiða fyrir læknisþjónustu eða sálfræðiþjónustu, ókeypis lyf og hann hafði látið gera við allar sínar tennur ókeypis ... það kom líka fram í frásögninni að maðurinn ætti erfitt með að (vildi ekki?) læra málið. Sagan endaði svo á: Helvíti væri gott ef íslenskir ellilífeyrisþegar hefðu sömu kjör og hælisleitendur.

 

Þetta gæti auðvitað hafa verið skáldleg frásögn af því sem viðkomandi skáld vill meina að sé í gangi, en fólk deilir þessu sem sannleika þótt þetta séu rangfærslur. Sjá hér ögn neðar. Ég færi oft í stílinn sjálf en reyni að níðast ekki á minnihlutahópum í leiðinni.   

 

HælisleitendurSamkvæmt Vinnumálastofnun (2023) fær einstaklingur (hælisleitandi) 8.000 kr. á viku, hjón 13.000, fjölskylda með börn aldrei meira en 28.000 á viku. Ekki sérlega há framfærsla í einu dýrasta landi heims. Fólkið fær frítt húsnæði á meðan það bíður afgreiðslu umsóknar sinnar og það þarf að deila herbergi eða íbúð með öðrum, það fær strætókort, læknisþjónustu og börnin fá að ganga í skóla.

Ókeypis tannlæknaþjónustan inniheldur tvo kosti: verkjalyf eða láta draga tönnina úr. Engar viðgerðir leyfðar nema fyrir börn með alvarleg tannvandamál, svo hælisleitandinn laug blákalt að skáldinu. 

 

Saga skáldsins og eldri færsla (sjá mynd) fóru báðar af stað í dag. Ég svaraði á nokkrum stöðum, þótt ég nenni yfirleitt ekki að taka þátt í fb-leiðindum, og fékk þetta svar frá einhverjum Einari Gíslasyni: „Þetta rasistaþvaður er barn síns tíma. Þjóðin er að vakna.“ Jamm, sjálf orðin leið á rasista-orðinu, langar að breyta því í t.d. rassista. Auðvelt að breyta á bréfsefninu. Eins og þegar vinnan mín flutti úr Lynghálsi í Lyngás ... þurfti bara smávegis tippex.

 

 

Ef þetta væri þannig að fólk sem leitar hælis hefði það svona miklu betra en við hin, er samt ekki við það að sakast, heldur stjórnvöld sem létu slíkt viðgangast. Það kostaði svo sannarlega mikið fé að taka almennilega á móti Úkraínufólki í þúsundatali en það virðist nú samt heldur betur farið að borga til baka með vinnu og þátttöku í samfélaginu, enda fékk það, ólíkt öðrum hælisleitendum, að fara strax að vinna. Úkraínsk grannkona mín, mikil dugnaðarkona, ætlar að hjálpa mér að flytja, þetta dásemdarkrúsídúlluyndi.

 

Ég er alls ekki að segja að vinir mínir og vandamenn séu orðnir gamlir og slitnir, bara alls ekki ... ég miða við bakið á mér, eða hvað ég gæti burðast með, þannig að ungir og sprækir útlendingar verða í meirihluta þeirra sem aðstoða við búferlaflutningana eftir 11 daga ... og koma frá Litháen og Úkraínu (og Íslandi) - sá sem ekur mér og hefðarköttunum til Reykjavíkur á flutningsdaginn er frá Sýrlandi. Koma svo, hvar eru Bretar, Grikkir, Pólverjar, Ítalir?

 

Mest seldu plötur allra tímaFimmtíu mest seldu plötur í heimi

Hefði í alvöru haldið að Bítlarnir væru ofar á svona lista, eða Stones, eða Radiohead eða Skálmöld!!! Gaman þó að sjá Nirvana og Eminem.

 

1. Thriller - Michael Jackson

2. The Dark Side of the Moon - Pink Floyd

3. The Bodyguard - Whitney Houston

4. Grease - Ýmsir flytjendur 

5. Led Zeppelin IV - Led Zeppelin

 

Vó, nr. 2 og 5 ... mæli með!

 

Bítlarnir eru í 27. sæti með Abbey Road en þar á milli eru Pink Floyd með Vegginn, Dire Straits, Nirvana- EN HEI, ég ákvað að birta bara listann sem er líka miklu skemmtilegra fyrir fólk. Alla vega vil ég skoða mína lista sjálf og velta þeim fyrir mér.

Er mjög hrifin af listum almennt og t.d. í bókaþætti mínum á Aðalstöðinni í gamla daga, þegar Kolla Bergþórs var gagnrífandi þáttarins (og mjög góð), mætti hún oft með skemmtilega lista yfir alls konar bækur sem við gátum svo rætt fram og til baka.

 

Ég er ekki sérlega góð í gúgli á fjölbreytilegum vinsældalistum en hér er allavega nýjasti Storytel-vinsældalistinn, beint upp úr símanum mínum:

 

1. Dimma eftir Ragnar Jónasson

2. Atlas: Saga Pa Salt eftir Harry Whittaker og Lucindu Riley

3. Miðillinn eftir Sólveigu Pálsdóttur

4. Í hennar skóm eftir Jojo Moyes

5. Tengdamamman eftir Moa Herngren

6. Fótspor hins illa eftir Birgittu H. Halldórsdóttur

7. Mamma, pabbi, barn eftir Carin Gerhardsen

8. Blóðmjólk eftir Ragnheiði Jónsdóttur

9. Drungi eftir Ragnar Jónasson

10. Utan garðs eftir Unni Lilju Aradóttur 

 

Þetta er ekki beint venjulegur vinsældalisti, heldur sýnir bara hvaða bækur eru nýjastar inn um þessar mundir og þykja girnilegar til lesturs ... held að í árslok komi listi yfir þær bækur sem fengu mesta lesturinn árið 2024. Ég á Tengdamömmuna alveg eftir af þessum lista ...

 

Fékk heilmiklar skammir (og eflaust verðskuldaðar í huga einhverra) fyrir að mæla með bók (Mýrastúlkunni) sem ég var að lesa og kláraði svo í dag. Að höfundur væri ofmetinn og persónur í bókinni ósympatískar og siðferðilega gjaldþrota ... Æ, þegar mig vantar afþreyingu á meðan ég pakka niður og flokka og alls konar, geri ég þær kröfur að sagan gangi upp, sé spennandi og grípandi og lesarinn góður (bara ekki segja UNGAbarn). Nýt þess alveg að hlusta á alls konar bækur ... ég kvaldist ekki undir Mýrarstúlkunni, miklu frekar yfir framburði lesara í Colin Dexter-bókinni á undan (um Morse), þar sagði lesarinn ekki Oxford upp á íslensku, heldur Oxfuuoooöördt ... sem var bæði kvalafullt og tilgerðarlegt og yfirmáta breski framburðurinn smitaðist stundum yfir á íslensku orðin ... Sú sem er lesari Mýrarstúlkunnar, Elva Ósk, er frábær - góður lesari gerir allar bækur enn betri. Líka þær sem innihalda persónur sem eru siðferðilega gjaldþrota ... Ég er t.d. mikil kaffikerling en í kaffiheiminum þyki ég eflaust vera algjör plebbi því mér þykir vel brennt kaffi mjög gott en er ekkert sérstaklega mikið fyrir lítið brennt - finnst það oft súrt. Eitt allra besta kaffi sem ég hef fengið er þó frá Sonju Grant, 2018-uppskeran af Kólumbíukaffinu ... svo er kaffið frá Valeríu á Grundarfirði rosagott ... mikið bragð og alveg sýrni en samt svo fullkomið ... Í gamla daga: Mokka Sidamo frá Te og kaffi ... og ég man ekki árgerðina, en Kólumbíukaffi frá Kaffitári var algjör dásemd. Man bara að það var prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum og Katrín Fjeldsted í framboði og ég aðstoðaði hana á skrifstofunni, hellti m.a. upp á þetta svakalega góða kaffi. Afsakið, missti mig út í kaffispjall. 

 

Þannig að ég er kannski líka bókaplebbi ... Bíð samt spennt eftir fleiri bókum eftir höfund Mýró, en ef hún fer að pirra mig, hætti ég bara að nenna að lesa hana og læt þá sem skammaðist í gær strax vita. Það hefur alveg komið fyrir að ég steinhætti að lesa suma höfunda, þá alveg búin að fá nóg.    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 22
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 849
  • Frá upphafi: 1515944

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 711
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband