Færsluflokkur: Bloggar
22.9.2024 | 22:10
Vér intróvertar, konan sem skaut JR og bara 12 dagar ...
Getur verið að búferlaflutningar hafi áhrif á ónæmiskerfið? Heilsan nánast hrundi daginn sem ég fann íbúðina mína á Kleppsvegi. Þetta er auðvitað líka væl í mér og aumingjaskapur, svo það komi nú fram. En dagurinn hefur farið í hvíld, svefn og örlitla sjálfsvorkunn. Eins og ég ætlaði að vera dugleg! Gat rétt smakkað nokkra bita af sýrlenska matnum sem ég fékk sendan til mín, restin fór í ísskápinn og verður að bíða morgundagsins.
Ég hef verið að hlusta með hléum á Morse lögreglufulltrúa síðustu daga (bók á Storytel) og haft nokkuð gaman af en vá, hvað hlutirnir hafa breyst. Morse lögreglufulltrúi leysir ekki bara flókin glæpamál, heldur reynir hann að höfða til siðferðiskenndar fólks, hann skammaði unga skrifstofustúlku og kallaði hana lauslætisdrós. Hún hélt náttúrlega við giftan mann sem Morse kallaði auðvitað flagara í yfirheyrslu. Siðferðiskennd fólks hefur hrakað síðan þetta var og ég hef á tilfinningunni að Morse myndi hreinlega ekki hafa tíma til að leysa glæpamál í dag, svo mjög þyrfti hann að siða fólk til. Gátan var fín og lærdómurinn sá að maður skyldi aldrei svindla í neinu sem tengist prófum! Svo fór ég að hlusta á bók sem heitir Mýrarstúlkan (eftir Elly Griffiths) og sú er virkilega fín. Aðalsöguhetjan er fornleifafræðingur um fertugt sem býr í gömlu steinkoti við ströndina í Norfolk á Englandi, ásamt tveimur köttum. Fornleifafræði er æsispennandi, kettir eru æði svo ég gat strax samsamað mig við söguhetjuna. Þarna er nokkuð geðvondur en myndarlegur rannsóknarlögreglumaður (slef) sem fær hana til að aðstoða sig, og í nágrenninu býr fuglaáhugamaður sem náði að bjarga lífi hennar þegar hún villtist myrkri í saltmýri í grennd. Mér finnst skrambi gott að eiga sjö klukkutíma eftir af henni og hún virðist vera fyrsta bókin í nýjum bókaflokki, það stendur allavega Part 1 in Ruth Galoway ... Húrra!
Ætla að reyna að sofa þessi nýjustu veikindi ... eða frekar viðbótarslappheit á brott, úða fyrst í mig vítamínum - gott að margir kassar eru enn opnir, eins og sá með vítamínunum. Á morgun fer ég nú samt að loka kössum, bara 12 dagar í flutninga - EF VEÐUR LEYFIR, tólf heilir dagar og svo við vakn á þeim þrettánda mætir flutningabíllinn. Ég hef kíkt á spár langt fram í tímann og sé ekkert nema almennilegt flutningaveður, alla vega til 1. okt. svo ég hef eiginlega ákveðið að það verði þannig minnst út árið. Ég þekki kannski ekki veðurfræðinga en ég hef það oft horft á veðurfréttir að ég leyfi mér að spá þessu. Kannski verður október eini snjólausi mánuður ársins 2024. Það snjóaði víst í fjöll í júlímánuði, sem ég hélt að væri eini snjólausi sumarmánuðurinn!
Svo hringdi hirðmálarinn í mig í dag og bíður spenntur eftir að geta hafist handa (1. okt.). Segir gott að Slippfélagið sé í grennd, hundfúlt að fara langar leiðir ef eitthvað smotterí vantar. Ég er hvíta týpan, langar að hafa sem flesta veggina hvíta, í alvöru, tek birtu alltaf fram yfir "kósíheit" og rökkur, ég er manneskjan sem dreg öskrandi gardínurnar frá ef ég kem inn á dimma staði. Enda er ég ekki lengur velkomin á marga bari og matsölustaði landsins yfir sumartímann ... OG fyrrum eiginmenn mínir hafa sumir, alls ekki allir, kveinað yfir skorti á rómantík hjá mér - eins og birta eða skortur á birtu geri útslagið! Veit fólk ekki að það er t.d. eldhætta af kertaljósum? Svo maður leyfi sér ögn að gagnrýna rómansklisjurnar.
Málarinn minn hefur nokkra daga í verkið, hann er mjög snöggur OG vandvirkur. Svo ætlar hann að aðstoða mig við að loka svölunum ... ekki á venjulega mátann, heldur með ósýnilegu, kattheldu neti, svo það komast áfram flugur þangað, jei. Ég er ekki svalatýpan svo Krummi og Mosi fá að eiga svalirnar (á efri myndinni sést í þær). Myndi vilja geta sest hjá þeim í góðu veðri, jafnvel hengt þvott á þurrkgrind líka ...
Stofan á nýja heimilinu er alveg ágætlega stór, virkar minni á myndinni vegna sófans stóra sem er þar (og fylgir ekki með) en ég verð bara með rauða antíksófann þarna einhvers staðar, hillusamstæðu og annað slíkt, og svo langar mig að fá mér góðan sófa (ekki tungu- eða horn-) undir gluggann (sjá fasteignamynd úr íbúðinni). Mikið væri gaman að geta fundið t.d. notaðan Chesterfield-sófa, eiginlega í hvaða lit sem er, bara í sæmilegu standi, það er gamall draumur en með sífellt "lengri" lífsreynslu hef ég komist að því að draumar rætast ekki alltaf og það er bara allt í lagi. Báðar fasteignasölurnar gáfu mér afsláttarkort sem virka á nokkrum stöðum, m.a. í Dorma, en þar eru frekar sætir sófar, held ég. Þarf að kaupa ísskáp áður en ég flyt inn, svo ég vona að afsláttur bjóðist líka í þannig búðum.
Ég gerðist nýlega félagi í hópi á feisbúkk sem heldur utan um svokallaða intróverta ... það sem ég hef séð í hópnum líst mér ekkert voðalega vel á, þetta er meira fólk sem lokar sig af, líður illa innan um aðra og hefur jafnvel lent í áföllum sem fær það til að loka sig enn ákafar af. Ég er einhvers konar intróvert, jafnvel algjör, þótt ég elski fólk, og fleygi mér sennilega út úr þessum hópi sem ég hélt að yrði á léttari nótum, ég er manneskjan sem fann engan mun á lífi mínu í covid þegar samkomubann skall á. Ekki nokkurn einasta mun og ég er ekki að ýkja. Ég hélt að fólk væri að grínast þegar það nánast grét á feisbúkk yfir því að geta ekki hitt vini og vandamenn Á HVERJUM DEGI ... en ég veit auðvitað að sumir voru mjög einmana og þessi innilokun hafði slæm áhrif á þá. Það var á þessum tíma sem ég lærði orðin intróvert og extróvert og áttaði mig á því hvorum megin ég stend. Myndin af kattamanninum er nú samt ekki lýsandi fyrir mig, ég fæ aldrei óvænta gesti - ef einhver hringir óvænt bjöllunni, er það einhver íbúi hússins sem hefur gleymt útidyralyklinum og veit ... að ... ég ... er ... eiginlega ... alltaf ... heima ...
Á Facebook
Vissuð þið að Kanaríeyjar hafa í sjálfu sér ekkert með kanarífugla að gera, engir kanarífuglar þar. Sama með Jómfrúareyjar, engir kanarífuglar þar heldur.
Mary Crosby, dóttir Bing Crosby og Kathryn Grant, lék Kristinu Shepard í Dallas, konuna sem skaut J.R. Ewing eins og frægt er orðið. Það voru víst um 90 milljón manns sem settust niður við sjónvarpið þann 21. nóvember 1980 til að komast að því hver það var sem skaut ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2024 | 16:17
Borðvél, kveðjuhófin og mögulegt skrímsli ...
Áhyggjur sumra af uppþvottavélarleysi mínu í nýja húsinu (Í efra, eða sem Vogadíva í skýjahöll, Sögur af sjöttu hæð ... og fleira gott) eru miklar á meðan öðrum er alveg sama. Mér þykir vænt um þessar áhyggjur þriggja vina en ríflega helmingurinn hefur mælt með lítilli vél sem hægt er að hafa uppi á borði og fylla með fimm lítrum af vatni í hvert skipti eða láta tengja við kranann. Tæplega helmingurinn leggur til pípara og smið sem er talsvert flóknara og dýrara.
Ég fékk gesti í gær, nokkrar konur á leið í sumarbústað í Borgarfirði og þurfti að taka út úr uppþvottavélinni skolaða bolla sem biðu þvottar, og tókst bara nokkuð vel til við að þvo þá upp úr sápu og sjóðandi vatni í vaskinum, svei mér þá ... Sko, ég veit um konu sem hvatti vinkonu sína mikið til að koma til sín í kaffi og fór svo að rukka hana um að borga í kaffinu - en ég hef aldrei heyrt um konu sem hvetur vini og vandamenn til að koma í kaffi til sín og segir svo öllum að þvo upp eftir sig. Maður gerir ekki slíkt ... en ég á fína gúmmíhanska, bursta og hendur, svo hafið engar áhyggjur. Kannski kaupi ég borðuppþvottavél, kannski venjulega ... kannski næ ég mér í karl. Þeir geta verið mjög gagnlegir, þessar elskur.
Tvær frábærar kveðjuveislur voru haldnar á Galito í gær og fyrradag. Í fyrradag með miklum uppáhaldskonum, Helgu og Ingu.
Það gerðist svolítið átakanlegur atburður þarna, eiginlega óskiljanlegur. Það koma vanalega stórir hópar af sérlega flottum körlum úr hinum ýmsu starfstéttum og borða þarna í hádeginu. Einn afar sætur var langsamlega seinastur að koma sér í mat og það var ekki pláss fyrir hann við borðið hjá samstarfsmönnum hans. Í stað þess að vísa honum hreinlega til sætis hjá okkur Ingu og Helgu, það var sorglega áberandi lausi stóllinn við fjögurra manna hringborðið hjá okkur og nánast ekkert laust í salnum, var hann látinn setjast aleinn við borð! Mér sýndist hann horfa hryggur yfir á lausa stólinn hjá okkur, annað slagið. Ég fékk ekkert sérlega skýr svör þegar ég bað um að þetta gerðist ekki aftur, heldur sagði þjónninn að það væri nú biðlisti eftir því að fá sæta menn við borðið hjá sér! Furðulegt alveg ... en þorskurinn var góður, virkilega góður. Takk fyrir mig, elsku Helga mín Olivers. Hún tók myndina af okkur Ingu.
Gærkvöldið var svo notað til að fara út að borða á Galito. Í þetta sinn með hjartkærum úkraínskum kattahvíslurum himnaríkis, Svitlönu og Rostyk (kattaguði) og svo auðvitað stráksa. Geggjað sushi á mínum diski, glaðasti þjónn í heimi fékk áfall því ég fæ mér alltaf þorskinn ... (eins gott að hann vissi ekki hvað ég fékk í hádeginu daginn áður), sá yngsti fékk pítsu en stráksi og Svitlana steikarsamlokuna góðu ... með salati í stað franskra. Nokkur ár síðan við stráksi áttuðum okkur á því hvað það var miklu betra að hafa salat en franskar. Svitlana ætlar aldeilis að hjálpa mér við flutningana og það munar um það.
Önnur sýrlenska fjölskyldan mín kom svo í hádeginu í dag á bíl og aðstoðaði mig við að fara með nokkra kassa í Búkollu ... meðal annars lítið sjónvarp (stráksi notaði það með PS5) og ágæta brauðrist sem ég notaði í síðasta sinn í morgun til að rista tvær frosnar vöfflur (verkefnið: klára úr frystinum) til morgunverðar (ég smurði með hvítu súkkulaðimauki, hnetu- og sykurlausu, guð, það er svo gott, frá Good Good og sneiddi banana ofan á ... Ég kaupi eiginlega aldrei brauð svo brauðristin er hreinlega ónotuð, vona að einhver geti nýtt sér hana, hún er í fínu lagi. Þarna voru líka nokkur gömul og góð kökuform, það nægir að eiga tvö fyrir bananabrauð, óþarfi að eiga fimm ... Svo fórum við með eitthvað smávegis í Frískápinn góða á móti Búkollu sem er svo frábær hugmynd, kemur í veg fyrir matarsóun. Ég hef verið sérlega ánægð með að geta gefið svöngum fuglum (mávum ofl. á sumrin, krummum ofl. á veturna) mat hérna við sjávarsíðuna. Held að við Inga séum nánast þær einu - hitt fólkið fer þá vonandi í Frískápinn með matvöru.
En að hugsa sér ... þegar ég fer fyrir alvöru að pakka niður, þarf ég engu að velta fyrir mér, get pakkað öllu niður umhugsunarlaust því ég er búin að fara yfir allt (eða flest).
Við fengum dásamlegar móttökur í Búkollu en ég hætti mér ekki alla leiðina þangað inn ... gerði tilraun til að láta setja bann á mig þar svo ég fái ekki að kaupa neitt (gamlar bækur, slef), en fékk bara svarið: Kannski vantar þig eitthvað til að flytja með þér! Sjúr, einmitt ... ef ég sé það ekki, kaupi ég það ekki, eins og með sælgæti, ef það er ekki til í himnaríki þá borða ég það ekki ... en því miður skildu konurnar sem heimsóttu mig í gær HEIL TVÖ APPELSÍNUSÚKKULAÐISTYKKI eftir ... og ég er búin með hálft. Við erum að tala um 200 grömm, núna 150 ... Ávaxtadeildin samt alltaf góð. Bananabombur líka góðar.
Þessi kommóða sem stráksi þurfti ekki að taka með sér, sjónvarpið var ofan á henni og alls konar dót í skúffunum, virðist ætla að verða skrímslið í himnaríki ... það þarf tvo karlmenn til að bera hana niður ... svo er ég með tvær fínar bókahillur. Systir mín var að ráðleggja mér að auglýsa þetta á síðunni Brask og brall, sumir ættu kerru og myndu eflaust koma brunandi úr bænum eða Borgarnesi eftir góssinu ... mér þykir hún bjartsýn ... en sakar ekki að prófa.
Eina manneskjan sem svaraði kommóðuauglýsingunni sagðist ætla að leita að einhverjum til að aðstoða sig við að sækja hana en svo hef ég ekkert meira heyrt. Ég ætti kannski að finna fleira girnilegt til að gefa og láta það fylgja kommóðunni? Óopnuð Kalúha-bokka (á óræðum aldri samt) ... ég kann ekki listina við þetta en systir mín selur/gefur nánast hvað sem er í gegnum Brask og brall, segir hún.
Ég er líka með fullt af MJÖG girnilegum DVD-myndum til að gefa: Stella í orlofi, Kill Bill, ein Harry Potter-mynd, Mission Impossible, Paycheck, Eragon, Die Hard 4 ... svo fátt eitt sé talið, og eitthvað af hljóðbókum á CD ... Hausaveiðararnir eftir Nesbö (ein hans allra mest spennandi bók (bíómynd gerð líka) en ekki um Harry Hole), Hvernig ég kynntist fiskunum, Dalalíf ... Þetta var allt til hérna og ég samt ekki farin að hlusta á bækur þá, og núna nánast löngu hætt að horfa á sjónvarp.
Talandi um alls konar sellebrittís: ætla samt að horfa á Gísla Martein á eftir, þátt gærkvöldsins. Ánægð með tæknina. Er nefnilega enn í algjöru losti eftir að hafa misst af lokaþættinum af Löðri (Soap) 1982 af því að ég kunni ekki að segja nei á þeim tíma ... fór annað þótt mig langaði ekki, myndbandstæknin enn mjög ný og aðeins á færi þeirra efnameiri að eignast slíkt tæki, mér tókst það nú samt sjö árum síðar með vísa-rað. Ef einhver brask- og brallari tekur þetta ekki með kommóðunni athuga ég að fara með til Búkollu eftir viku. Þetta gætu verið bíómyndir sem sonur minn átti, og hljóðbækur sem ég fékk gefins fyrir löngu og beið of lengi með að nenna að hlusta á ... sem ég er afar hrifin af hljóðbókum núna en nota bara Storytel.
Jæja, farin að flokka í hirslum meyjarskemmunnar ... tvær kommóður, einn skápur, stór fataskápur ... sjúklega gaman.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2024 | 22:15
Fráflæðivandi, kveðjuveislur og stuðvís rafvirki
Matarklúbburinn var dásemd að vanda eftir sumarfrí og skrítið til þess að hugsa að þegar Inga vinkona eldar kjúklingasúpu eða annað gott í næsta mánuði, verði ég víðsfjarri góðu gamni (í 46 km akstursfjarlægð (45 mín, með bíl) eða 23 km í beinni loftlínu (2 mín. með flugvél)). Kannski sjálf með eitthvað Eldum rétt-gómsæti í 104. Það var greinilega hárrétt hugsað hjá mér að panta ekki Eldum rétt þessa vikuna, fer næst út að borða í hádeginu á morgun (afmælisgjöf), svo aftur með stráksa út að borða á föstudagskvöld! Ég hef frest til miðnættis að panta fyrir næstu viku - líklega er snjallara að klára úr frystinum. Alveg spurning um rabarbaragraut daglega í nokkra daga? Hef smakkað mun verri mat en það. Slurp! Alla vega verður eitt lasagna eldað (500 g af nautahakki í frystinum) sem dugir í nokkrar máltíðir og mögulega fer frosna restin beinustu leið í Frískápinn.
Sýrlenska vinkonan djöflaði mér þvílíkt áfram í dag þar til ég baðst vægðar! Hún pakkaði niður öllum myndum í bókakósíhorninu, við tæmdum kommóðuna hans stráksa (hann tók bara það sem hann vildi með) og flokkuðum í henda og gefa ... ekkert eiga. Svo verður hún auglýst gefins fljótlega, ásamt fínustu bókahillum ... Fráflæðivandi himnaríkis er mitt helsta áhyggjuefni en ég losna allavega við kassana á ganginum núna á laugardaginn og kannski kommóðuna og hillurnar, ef mér tekst að setja auglýsingu - hringi kannski í Búkollu og tékka. Fínar hillur og ágæt kommóða.
Hirðrafvirki himnaríkis mætti stuðvíslega og sótti tvo kassa af sjúklega girnilegum glæpasögum, heilu bókaflokkana sem hann gladdist mikið yfir, og í leiðinni tók hann niður ljósakrónur heimilisins og gerði við innstungu í stofunni sem frekar þung mynd hafði dottið ofan á og rústað, myndin hafði verið innrömmuð 1985 og bandið sem hékk á naglanum gaf sig með þessum hroðalegu afleiðingum ... ekki nema 39 ára ending sem ég furða mig á. Ekki nema von að heimurinn sé að fara fjandans til ...
Loftljósin fögru fara ekki með í borgina ... held ég sé búin með langömmustílinn, ekki þó alveg hætt með antík. Fínt að blanda saman gömlu og nýrra en mér sýndist að væru ljós alls staðar á Klepps sem fylgja væntanlega ... annars kaupi ég bara. Nú eru rússneskar ljósaperur í öllum herbergjum himnaríkis og það er rosalega bjart hérna. Ef nýir eigendur mála (sem er mjög líklegt) ætti aldeilis að vera góð vinnubirta. Nýja íbúðin mín verður einmitt máluð hviss bang, áður en ég flyt inn. Fljótlegt að mála hana tóma, vildi elsku málarinn minn meina.
Það er hellingsspenningur í gangi og vonandi elta verkefnin mig áfram. Ég er allt of ung til að setjast í helgan stein, enda spræk með eindæmum.
Ég er enn mjög spennt fyrir að vinna hjá Bankasýslu ríkisins og er meira en til í að hjálpa við að selja banka, helst sem flesta, ég yrði komin út á Arnarnes í risastórt einbýlishús strax á næsta ári ef það væri það sem ég vildi.
Svo er líka inn í myndinni að elta æskudrauma mína ... verða söngkona, leikkona, dansmær eða ljósmóðir. En reyndar hef ég sungið í kórum (Langholts, Mótettu og Fílharmóníu) svo ég get hakað við það X, lék bláu öxlina í Heilsubælinu í Gervahverfi X, var viðstödd fæðingu systursonar míns, X - og ef vetur í Dansskóla Sigvalda telst með hef ég í raun uppfyllt vonir mínar og þrár í gegnum tíðina.
Hvað er eiginlega eftir sem gaman væri að sýsla við?
--- --- --- --- --- --- --- --- --- ---
Facebook rokkar
Hver er uppáhaldsskáldsagnapersónan þín? (Bókagull á fb)
- Karítas.
- Góði dátinn Svejk.
- Jón á Nautaflötum og Þóra í Hvammi.
- Hörður Grímsson.
- Lína Langsokkur.
- Steinríkur.
- Kalmann.
- Anna í Grænuhlíð.
- Greifinn af Monte Cristo.
- Snúður og Snælda.
- Egill Skallagrímsson.
- Janína úr Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu.
- Emil Svenson í Kattholti.
- Bilbo Baggins.
- Ólafur Fíólín.
- Maddit.
- Kristín Lafransdóttir.
- Woland í Meistaranum og Margarítu, og auðvitað kötturinn í sama verki.
- Ronja.
- Edda í Vesturbænum (á Birkimel).
- Salka Valka.
- Ótugtin hún Ketilríður.
- Pollýanna.
- Korka Þórólfsdóttir.
- Mía í Múmínálfunum.
- Kíkí í Ævintýrabókunum.
- Nancy Drew.
- Hercule Poirot.
- Gengið í Tinnabókunum
og fleiri og fleiri ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.9.2024 | 23:24
Alveg óvæntur nágranni og dagsannar samsæriskenningar
Flutningsundirbúningur gengur sérdeilis vel, eða eftir að önnur sýrlenska vinkonan mætti með svipuna upp úr hádegi í dag. Við fórum yfir alla eldhússkápana þar sem við tókum gefa-hlutina og settum í kassa. Maðurinn hennar kemur svo og sækir þá. Get varla ímyndað mér annað en að Búkolla gleðjist yfir mörgu eigulegu fyrir búsáhaldadeildina, og Frískápurinn gleðst líka því það er ekki séns að ég nenni að taka allan búrskápinn með, held ég hafi talsvert minna skápapláss á Kleppsvegi en hér.
Ansi hreint frábær fyrrum samstarfskona sem mætti í afmælið mitt í ár, og það í fyrsta sinn, sendi mér einkaskilaboð í gær, kvaðst búa á Kleppsvegi númer XX og spurði mig hvar nýja íbúðin mín væri. Í ljós kom að við verðum í nákvæmlega eins íbúðum í sama húsi og sama stigagangi, nema hennar íbúð er nokkrum hæðum neðar í húsinu. Hún er hrifin af sameiginlega þvottahúsinu í kjallaranum svo ég sé núna nákvæmlega ekkert eftir því að hafa ætlað að taka sénsinn á því að notast við það. Hún lætur vel af því að búa þarna sem róaði mig mikið. Ég var nefnilega flutt inn í Hamraborg í huganum og það hefur verið svolítið skrítin tilhugsun að setjast svo að við sundin blá.
Ég fékk símtal í gær á meðan ég var að klára verkefnið góða, það síðasta af þremur ... Beðin um að lesa yfir 500 síðna doðrant, spennubók. Ég fór að hlæja og sagðist sjaldan hafa haft meira að gera en einmitt núna þegar ég stæði í niðurpökkun vegna flutninga. En ... ef hann lofaði að segja ekki ónefndri systur minni frá því, hún gladdist nefnilega svo mikið fyrir mína hönd að ég væri farin að sjá fyrir endann á verkefnum og gæti einbeitt mér að flutningunum. Hann lofaði því. Núna mun ég verja átta tímum á sólarhring í flutningavesen, átta tímum í yfirlestur (þegar búin með 100 síður) og átta tímum í svefn. Stel einhvers staðar tíma til að blogga. Þetta þýðir að ég hef engu og mun engu sambandi ná við bókina sem ég er að reyna að hlusta á, Blóðmjólk heitir hún, hefur fengið góða dóma og mér líst vel á hana, en ég rugla saman persónum, nokkrar vinkonur segja söguna til skiptis og hver þeirra hefur sinn lesara sem almennt pirrar mig (að hafa fleiri en einn lesara) en ég held að það sleppi í þessari. Hugsa að ég byrji á henni upp á nýtt þegar ég verð flutt í 104. Vona bara að kosningar til alþingis verði eftir að ég hef skipt um lögheimili (miðast reyndar við 1. des.) svo ég nái að kjósa rétt í bænum, en það verður kraftaverk ef stjórnin lifir af að senda fárveikt, fatlað barn úr landi.
Á morgun verður svo síðasta kvöldmáltíðin með matarklúbbi Rauða krossins, allavega sem íbúi á Akranesi. Það er svo margt í síðasta sinn þessa dagana. Klipp og lit, reyndar ekki tannlæknirinn því hann (hún) vill ólm draga úr mér ólukkans tönnina sem kvaldi mig í síðustu viku svo ég fer einu sinni enn þangað. Elsku hjartans sendillinn hjá Einarsbúð kvaddi mig fyrr í dag, bar sig reyndar ótrúlega vel en hlýtur að hafa verið tárvotur, en sagði bless til öryggis ef hann sæi mig ekki aftur. Ég tjáði honum að ég ætlaði að koma í búðina innan tíðar og kyssa og knúsa kaupmannshjónin sem ég hef þekkt frá því ég var barn og montrassaðist um búðina þeirra. Erna hlær enn að því sem ég sagði við hana þegar ég sá hana vera að skúra búðina, eða að ég ætlaði alls ekki að verða skúringarkona þegar ég yrði stór, heldur dansmær eða leikkona (ég las óhemjumikið, gæti hafa verið komin í Cartland strax þá) en ég hef mögulega skúrað milljón sinnum síðan ég sagði þetta. Ég bið hana afsökunar á þessu minnst árlega en hún hlær bara. Ég pantaði klósettpappír í dag, æ, hafðu það góðan pappír, eins og Lamba eða þennan frá Costco, sagði ég. Mikið þarf ég að vera dugleg að pissa ... því ég fékk ábyggilega tíu rúllur sendar í risapakka, eitthvað sem ég hefði áður glaðst yfir ... ef ég væri ekki að pakka heimilinu niður. Ég gargaði t.d. tryllt um helgina þegar ónefnd systir mín rétti mér vítamín sem ég hafði beðið hana um að panta fyrir mig, og hún skilaði mér að auki litlum plastdunki sem hafði borið tertur eftir afmælið mitt ... allt sem þyngir flutningabílinn er eins og eitur í beinum mínum (röng þýðing úr þýsku, eiter in beinen þýðir nefnilega gröftur í fótum).
Svo reyni ég að plata Ingu tölvusnillinginn minn til að skella Ikea-kommóðu og -hillum á gefins-síðu, mögulega þarf ég líka að losa mig við fallega tekkskrifborðið mitt, vinnuherbergið er alveg ferlega lítið. Það fundust svo heilu bokkurnar í búrskápnum ... hvað geymist Beilís í mörg ár í lokuðum skáp ef flaskan hefur aldrei verið opnuð? En sérrí? Spyr fyrir vin.
- - - - - - -
Fleiri hugmyndir að nýju nafni á bloggið:
- Sögur úr efra
- Grubblan (samansett úr Gurrí bloggar)
- Lífsreynslusögur Gurríhar
- VogaDívan
Svo fékk mín hugmynd, Sætaspæta við sundin blá, eitt atkvæði frá frænku minni. Mér verður samt illt í hógværðinni því ég er alin upp við að ég eigi ekki að þykjast vera eitthvað. Allt tal mitt um eigin fegurð er í gríni, því miður. Samfélagsmiðlastjörnur og áhrifavaldar verða að bera sig vel og þess vegna má greina eilítið þingeyskt mont annað slagið. Ég verð, ekki að ég vilji þetta.
Algjörlega sannar samsæriskenningar sem þú dregur ekki í efa
- Trump er antikristur
- Uppáhaldssamsæriskenningin mín er sú að allt eigi eftir að verða í himnalagi.
- Geimverur eru á meðal okkar.
- Kurt Cobain var myrtur. Courtney Love veit allt um það.
- Eyrað á Trump greri á tveimur dögum. Einmitt.
- Kolkrabbar eru geimverur.
- Dauði Natalie Wood var mjög grunsamlegur.
- Jeffrey Epstein stytti sér ekki aldur, hann fékk hjálp.
- Áætlun 2025 (myndi færa okkur meira en 100 ár til baka).
- Díana var myrt (af Fjölskyldunni)
- Marilyn Monroe var ráðin af dögum.
- Ég trúi á kraftaverkasögur um eyra og golf ...
- Bítlarnir bjuggu aldrei í gulum kafbáti.
- Elvis er í vitnavernd.
- Við fórum aldrei til tunglsins, höfðum ekki tæknina til þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2024 | 22:49
Gaspur eða heilaspuni og áskorun í eldhúsmálum
Handvirkur uppþvottur verður hin nýja áskorun í nýju íbúðinni. Þar er ekki uppþvottavél og ekki einu sinni tengt fyrir einni slíkri. Með því að horfa út yfir vinnusvæði Eimskipa og láta hugann reika, skáskjóta öðru auganu yfir á Esjuna og hinu á Viðey gæti þetta orðið notaleg stund en samt alveg spurning hvort gestakomur verði leyfðar út í hið óendanlega. Það er ekki vistvænt að vera með pappaglös í stað bolla undir kaffið og eldhúsrúllubréf undir bakkelsið í stað diska. Of heitt að setja munninn undir kaffistútinn á baunavélinni ... þvílíkar áskoranir sem bíða mín í október. Hef ekki vaskað handvirkt upp í bráðum tvo áratugi svo það gæti orðið skemmtileg tilbreyting, mögulega með sögu í eyrunum, tónlist eða þögnina ... Alls ekki slökunartónlist, hún pirrar mig, var að hlusta á Sogne di Volare eftir Christopher Tin þegar YouTube valdi óvænt slakandi tónlist fyrir sálina og líffærin, eitthvað, og þetta var svo mikill hryllingur, meira að segja fuglasöngur með sem lokkaði Mosa upp á skrifborð, hann hélt að nú fengi hann að horfa á vídjó. Sennilega Clyderman ... flýtti mér svo að slökkva að ég gleymdi að gá.
Sem gríðarmikill áhrifavaldur án gjafa, gæti ég líklega breytt viðhorfi landsmanna til uppvasks svo það verði splukunýtt og spennandi tískufyrirbæri að handvaska upp leirtauið. Það yrði sennilega léttbærara fyrir alla ef ALLIR aðrir þyrftu að vaska upp, held ég. Ég legg samt ekki í að ögra framleiðendum uppþvottavéla svo ég ber bara uppvaskskvalir mínar í hljóði. Það er nógu spennandi að hafa BÆÐI Eimskip og Samskip í grennd. Og ég með kíki ... þetta verður eitthvað.
Í gær auglýsti ég eftir nýju nafni á bloggið mitt eftir að ég flyt í 104 Reykjavík, skammt hjá Kleppi, komandi Sundabraut og í Vogahverfinu, held ég.
Fjölmargir fb-vinir notuðu tækifærið til að sýna fjörugt ímyndunarafl og dæmalausa grósku hugans. Og nei, ég er ekki móðgunargjörn þótt fyllst ástæða sé fyrir því (Gaspur Guðríðar) Hér eru nokkur dæmi:
- Skýjahöllin (kannski Sögur úr skýjahöllinni)
- Heilaspuni úr Hreinsunareldinum
- Gaspur Guðríðar
- Einræður alvísrar kattakonu
- Sögur úr sollinum
- Bullað í borginni
- Sögur sveitakonu
- Sögur af sjöttu hæð
- Klepparasögur
- Kjaftasögur Klepparans
- Sögur við sundin blá
- Sagnaþulur við sæinn
Jú, jú, allt gott og blessað en engum af þessum svokölluðu fb-vinum mínum datt í hug eitthvað fallegt sem tengist útliti, gáfum, gjörvileika eða rómantík, hvað þá Sundabraut sem verður nánast á hlaðinu hjá mér. Þessar hugmyndir bættust við, beint úr grjóthörðum huga mínum og ég píndi mig til að sleppa allri hógværð:
- Sætusnótarsögur við sæinn
- Hamagangur á hæð sex(í)
- Ástir í Austurbænum
- Vottðefokk í Vogunum
- Víti í Vogahverfi
- Krúttlegheit á Kleppsvegi (not)
- Stuðsögur af Sundabraut
- Hrefnukrúnk við úfið haf
- Skálmaldað í skýjahöll
- Sætaspæta við sundin blá
Þetta verður ekki auðvelt val, hugmyndir mínar eru enn hræðilegri ef ég á að vera hreinskilin ... ég vel eitthvað þrennt af því besta, skrifa á miða og dreg ... nema einhver fái enn fleiri hugmyndir eftir að sjá þessa snilld hér fyrir ofan.
Ég lauk spennandi verkefni um miðjan dag í dag og í leiðinni kom ég nokkrum fínustu tertubökkum og -fötum í eigu félags sem heldur senn upp á stórafmæli sitt á árinu og þarf einmitt á svona fínheitum að halda undir veisluföngin. Fínheitin hafa verið inni í skáp árum saman og um að gera að koma sem flestu núna í betri hendur. Þeim mun léttara og einfaldara að flytja. Ég þarf að losna við kommóðu (úr Ikea) og fínustu bókahillur, ásamt alls konar eldhúsdóti þegar ég fer að flokka þar (næstu dagana). Miðað við djöfulganginn í mér grunar mig að það verði bergmál í nýju íbúðinni og það er stórkostlegt. Búin að gefa gráa tungusófann og aukarúmið í stráksaherbergi, skil eftir uppþvottavélina (ekki pláss), ísskápinn (kaupi nýjan), þvottavél og þurrkara (fæ fínasta þvottahús með iðnaðarvélum niðri). Það léttir mjög á flutningunum.
Mynd 3: Þau sem halda að ég bulli út í eitt á blogginu ... sjáið hér leynilega ljósmynd af síðu úr óútkominni bók!!! Nánari skýring hérna fyrir neðan:
Nokkrum mínútum eftir að ég ýtti á play eftir að hafa skrifað næstsíðasta blogg, bárust mér dulkóðaðar sannanir um notkunina á Kaffi-Gurrí í sakamálasögu. Birti hér það sem ég fékk sent en bendi á að Kaffi-Gurrí skiptist á milli lína, til að gera þetta enn dularfyllra. Ég róaðist við það sem ég sá, þetta er mjög sakleysislegt allt saman en ég þarf auðvitað að lesa alla bókina til að verða örugg um að fortíð mín ógni mér ekki ... Svo fylgdi með að bókin væri ekki enn komin út! Vonandi er bókabúð við Kleppsveg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2024 | 21:18
Helgarævintýri í borginni og nýtt nafn óskast
Helgarferðin mikla yfirstaðin en mikið (brjálað) var að gera í samkvæmislífinu, fyrir utan sitt af hverju sem fasteignamógúlar þurfa að standa í. Úkraínski kattahvíslarinn hélt köttum himnaríkis selskap svo þeir rétt litu upp úr fegurðarblundi síðdegisins í dag, til að sýna hún komin-augnaráðið, áður en þeir steinsofnuðu aftur.
Hér var vaknað fyrir allar aldir á föstudaginn til að ná strætó í bæinn, síðan skrifað undir samþykki þess að lánið mitt flytjist á nýju íbúðina. Enn var ég fasteignamógúll á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi ... en upp úr klukkan þrjú var enn skrifað undir skjöl svo nú á ég bara eina íbúð. Ég er virkilega þakklát öllum þeim fasteignasölum og lögmönnum sem hafa komið að þessu. Daníel í Hákoti sem hóf ævintýrið ... Erlu Dröfn hjá Lind, Kristjáni hjá Gimli og gef þeim öllum mín allra bestu meðmæli fyrir fagmennsku og vingjarnlegheit. Það er virkilega stór ákvörðun að flytja búferlum eftir hátt í 20 ár og yfirgefa yndislegt samfélag sem Akranes er - en að sjálfsögðu mun ég viðhalda fullu stjórnmálasambandi við Skagann minn góða.
Myndin er af Rostyk kisuguði og var tekin ekki löngu eftir að þau mæðgin fluttu í himnaríkishúsið. Þarna sést hversu dáður og dýrkaður drengurinn var (og er).
Brúðkaup mánaðarins
Brúðkaupið á Siglufirði í ágúst sl. var stórkostlegt og líka brúðkaup septembermánaðar sem var haldið í gær. Brúðhjónin voru gefin saman við skemmtilega athöfn í frekar stórri kirkju á stór-Hafnarfjarðarsvæðinu. Við borguðum fyrir aukapláss fyrir fæturna eins og sést á myndinni. Við fengum mögulega fjórfalt pláss á við aðra kirkjugesti. Mættu ýmis flugfélög taka sumar kirkjur sér til fyrirmyndar. Ég kannaðist strax við einn gestinn; stjörnulögmann sem deilir afmælisdegi með okkur Ásdísi Rán og Halldóru Geirharðsdóttur og það gaf aldeilis tóninn fyrir veisluna sem haldin var á Grand-hóteli við Sigtún. Í sama flotta salnum og brúðkaup ungu konunnar sem hefur skipulagt líf mitt á mikilvægum stundum (háskólanám 1998, íbúðaleit 2024, kannski eiginmannsleit 2025?). Þvílík fagmennska hjá starfsfólki hótelsins, hviss bang, forréttur á öll borð (ekki hlaðborð), aðalréttur og svo eftirréttur (hnetulaus). Svo var sérlega vel valið saman fólk á hvert borð. Ég fékk sjúkraþjálfara og fiðluleikara í Sinfó mér á vinstri hönd, mikið kórfólk líka, og svo systur og frænku (ömmu brúðarinnar) hægra megin, foreldra móður brúðarinnar á móti ... og þetta var víst fjörugasta og fallegasta borðið. Sú sem sat við hlið mér til vinstri var ákaflega skemmtileg og hafði eitt sinn komið í útvarpsviðtal til mín á síðustu öld vegna tónleika hjá Mótettukórnum og einhvern veginn barst svo í tal að ég byggi við sjávarsíðuna á Akranesi en væri að flytja þaðan. Í ljós kom að sonur hennar býr í sömu blokk og ég, er einn þeirra sem hefur þurft að þola heilu þungarokkstónleikana af efstu hæð án þess að kvarta. Heimurinn er svo lítill.
Ég játa á mig heigulsskap og þorði ekki að smakka kaffið í veislunni. Fannst eiginlega ósmekklegt af mér að bíða eftir að liði yfir fólk af hryllingi yfir vondu kaffi svo ég horfði bara stjörf fram fyrir mig á meðan sumir fengu sér kaffi. Ótrúlegt hvað lítið er hugsað út í val á kaffi, svona almennt, og furðulegt að vilja ekki hafa kaffið fullkomið eins og allt hitt. Kannski var hið fullkomna kaffi á boðstólum á Grand hótel, það væri þá bara gott á mig að hafa ekki einu sinni lagt í að smakka en reynsla mín er frekar slæm af hótelkaffi. Maturinn var verulega góður.
Sitt af hverju stórmerkilegt kom fram í ræðum ... þarna voru víst alla vega tveir dómarar og fullt af löggum (brúðguminn lögga).
Okkur gestunum var ráðlagt að reyna að koma okkur vel við þetta lið, löggur og dómara, og ég lét ekki segja mér það tvisvar þótt ég vissi ekkert hvernig þeir litu út. Mér gekk nú samt mjög vel að vefja löggum um fingur mér (til að sleppa við hraðasektir) en til öryggis bræddi ég dómarana algjörlega, svo ef löggan klikkaði myndi dómstóllinn sjá um að hlífa mér. En svo mundi ég eftir því að ég á ekki bíl og get því ekki ekið of hratt! Skrambans!
Fyndnustu og skemmtilegustu ókunnu mennirnir þarna voru þó slökkviliðsmaður og golfari, fyrstu tveir mennirnir sem ég sveif á þegar ég leitaði að löggum og dómurum. Þetta var stórkostlega dásamlega skemmtileg veisla og hver einasti gestur sem ég talaði við var ferlega skemmtilegur. Nú bíð ég spennt eftir að mér verði boðið í brúðkaup í október.
Sverrir Bergmann kom, sá og sigraði, söng nokkur rómantísk og falleg lög við undirleik eins fallegasta gítarleikara landsins. Svo tók plötusnúður við. Við systur sátum frammi og spjölluðum við skemmtilegt frændfólk, farnar að huga að heimferð, þegar ég heyrði að tónlistin var orðin fáránlega skemmtileg. Og allt brjálað á dansgólfinu (ég dansa bara við lagið Luftgitar svo ég hélt mér til hlés). Haldið að einhver dýrðin og dásemdin (eiginmaðurinn?) hafi ekki komið brúðinni algjörlega á óvart og fengið Herra Hnetusmjör í veisluna. Hann fór á kostum. Vér systur stóðum til hliðar við sviðið þegar hann var búinn, hann rak augun í systur mína og réðst á hana með miklu knúsi. Hún rak sumarbúðir í denn og hann kom nokkrum sinnum þangað á barnsaldri. Ekki svo auðvelt að gleyma sumarbúðastjóranum sínum. Svo fékk ég, sem hef þekkt konuna hans frá fæðingu (hennar) og unnið með pabba hans, líka þétt faðmlag svo það verður víst ekkert farið í bað á næstunni.
Svo gerðist undarlegur atburður. Upp úr kl. 22 hringdum við á leigubíl. Í kjölfarið hófst nokkur bið. Ég fór nokkrum sinnum út: Guðríður? spurði ég tvívegis án þess að bílstjórarnir könnuðust við pöntun mína, en sá þriðji sagði: Já, einmitt, Gurrí, eða það heyrðist okkur. Eftir að við vorum sestar inn sagði systir mín heimilisfangið í Kópavogi og bílstjórinn bætti við: ... og Akranes á eftir? Þetta var orðið mjög grunsamlegt og spúkí. Svo sneri hann andlitinu ögn til hliðar svo ég sá hann og þekkti: Aha, er þetta kannski litla sæta krúttið mitt?
Rígfullorðinn bílstjórinn kinkaði kolli ... Þegar ég var unglingur, nýflutt í borgina, passaði ég stundum á Njálsgötunni eitt fallegasta ungbarn í heimi, sem óx úr grasi og varð að fallegum leigubílstjóra sem ég var svo heppin að lenda á í gærkvöldi. Jú, jú, við erum vissulega feisbúkkvinir sem auðveldaði mér að þekkja hann aftur, og svo var hann í vinnu í Kattholti þegar ég fór í opinbera heimsókn þangað sem blaðamaður fyrir eflaust 20 árum. Frábær endir á góðu kvöldi að hitta elsku Danna.
Mynd: Ég reyndi að ná mynd af tunglinu sem blasti við á heimleiðinni úr leigubílnum ... það var risastórt og flott en neitaði að sýna sig almennilega á mynd. Það er fyrir miðri mynd, hvítt ... en virðist ekki vera kringlótt ...
Dagurinn í dag innihélt líka veislu ... en samkvæmislífið í höfuðborginni er orðið fullfjörugt fyrir utanbæjartúttuna sem ákvað þess vegna að flytja í bæinn til að auðvelda djammið. Það var sem sagt haldið fjörugt og skemmtilegt 12 ára afmælispartí í dag heima hjá góðri frænku sem svo heppilega fyrir mig á tengdaforeldra frá Akureyri sem akkúrat voru á heimleið eftir veisluna og lögðu lykkju á leið sína til að koma mér upp á Skaga. Ég var búin að ráðleggja þeim að fleygja mér út á ferð til að hjólkoppunum yrði ekki stolið en Akureyringar eru öllu vanir af utanbæjarfólki, eins og við Skagamenn, og stöðvuðu bílinn fyrir utan himnaríki án þess að blikna.
Dásamleg helgi, kvefið næstum alveg búið, þriðja og síðasta verkefnið líka, sem verður klárað áður en ég dett í niðurpökkunargírinn. Það tekur ekki mjög langan tíma að pakka eftir að ég hef flokkað, gefið og hent. Þrjár vikur til stefnu ... og ég auglýsi enn og aftur eftir nýju nafni á þetta blogg. Að vísu verð ég enn hærra uppi en hér í himnaríki ... en nafnið Sögur úr himnaríki tengist eiginlega bara íbúðinni hér við hafið, finnst mér. Það væri mjög gaman að fá tillögur af nýju nafni. Kleppur-hraðferð kemur ekki til greina þótt íbúðin sé við Kleppsveg, ég sé tryggur strætófarþegi (gömul strætóleið bar þetta nafn) og mamma hafi unnið á Kleppi sem hjúkka árum saman. Takk samt fyrir þá tillögu, ónefndur ættingi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2024 | 14:23
Meintir kossar, flokkun og ... símtal
Fasteignaheimurinn nötrar, skilst mér, og smávegis uppnám er hjá sómakærum prófarkalesurum, frétti ég í fyrradag. Síðarnefndi hópurinn er þó öllu vanur og hefur oftar en einu sinni þurft að leiðrétta villur í umfjöllun um ilmvötn þegar ítrekað er notað orðið limur í stað ilmur, svo dæmi sé tekið. Hún-sæðisstofnun kom ítrekað fyrir á sínum tíma í alls konar skjölum, svo það þurfti að breyta nafni stofnunarinnar tímabundið í Íbúðalánasjóð. Ég var að vinna þar þá, svo ég veit þetta. Ástæðan fyrir öllu nötrinu um þessar mundir er sú að ég og fasteignasali Kleppsvegarins erum með nákvæmlega sama kvefið, vorum bæði að verða slöpp og skrítin 29. ágúst sl. þegar við hittumst fyrst, og erum rétt núna fyrst að verða sæmileg. Öllum dettur að sjálfsögðu það allra versta (skemmtilegasta) í hug ... djúpir kossar í hægfara litlu lyftunni upp á sjöundu hæð. Það er algjörlega af og frá. Það ýtir EKKI undir réttmæti sögunnar að í seinni skoðun á íbúðinni höfum við bæði borið andlitsgrímu, sagan segir, til að reyna að koma í veg fyrir stjórnlaust kyssirí fyrir framan alla ... nei, við vorum að hlífa ungbarninu á heimilinu við smiti. Annað sem virðist kannski grunsamlegt, er að enginn í kringum okkur hefur smitast af okkur, þetta einskorðast við okkur - en alveg sama, ég er kannski ekki læknismenntuð en ég er dóttir hjúkrunarfræðings og ég fullyrði að þetta er ekki mögulegt, bara enn ein tilviljunin sem virðist ætla að tengjast nýju blokkinni minni.
Himnaríki er frekar mikil rúst núna, enda hef ég verið að myndarskapast og flokka dót, svona þegar heilsan leyfir og hún er öll að koma. Glerhörð í flokkuninni ... nánast allir krimmarnir sem ég hef safnað í gegnum tíðina, fara beint til hirðrafvirkjans sem, ásamt vinunum, á eftir að elska mig í nokkur ár í viðbót, eða gömlu bækurnar mínar. Ég er farin að njóta þess svo vel að láta lesa fyrir mig (Storytel) og gera eitthvað að gagni á meðan, eða bara ekki neitt, að það er algjör óþarfi að hafa tvöfaldan aðgang að þeim. Nógu mikið á ég samt af bókum sem ég mun taka með mér í bæinn, mér líður best að vera með nóg af bókum í kringum mig.
Frábær kona sem ég þekki, er að flytja ásamt því að gera fleiri stórbreytingar í lífi sínu. Ég sendi henni kveðju í gegnum Instagram í gær og óskaði henni alls góðs, spurði í leiðinni hvort hún ætlaði að halda sig í sama bæjarfélagi. Hún ætlar að gera það og talaði um spenning og gleði en líka alls konar blendnar og miserfiðar tilfinningar. Hún sagði að búferlaflutningar skoruðu hátt á listanum yfir það sem ylli streitu, þetta væri svolítið eins og áfall - og þannig líður mér einmitt þessa dagana. Ég sé ekki eftir að hafa sett á sölu, selt elsku himnaríkið mitt, ekki þannig, en er að mörgu leyti skíthrædd við þessar breytingar. Það var ansi gott að vita að ég væri ekki að fara yfir um yfir einhverju "smávægilegu" á borð við flutninga, MÉR ÆTTI að þykja þetta frábært og spennandi, ekkert annað. Þannig hef ég skammast í sjálfri mér - en ætla að hætta því. Það er nóg að ég berji mig stundum í andlitið með blautu handklæði þegar ég finn innsláttarvillu í blogginu mínu. Eða bara villu.
Ég er búin að flokka allt inni á baði. Ég píndi mig til að nota heimatilbúnu aðferðina mína, velja það sem ég vildi eiga og taka með mér í bæinn, losa mig við allt hitt í gefa/henda. Nú þegar eru tveir pappakassar (ekki svo stórir) farnir á nýtt heimili, t.d. sjampó (verulega góð en hársvörðurinn á mér þolir núorðið bara þau allra mildustu) og skartgripir - og allt þar á milli. Það er ekki leiðinlegt að flokka, ekki þegar ég veit að ég hef einhvern sem losar mig við dót. Svo ætla ég að biðja þau í antíkskúrnum að taka fyrir mig eitthvað af dóti, meðal annars ljósakrónur sem hafa flestar fylgt mér í langan tíma. Þær voru yfirfarnar af hirðrafvirkjanum árið 2020. Ég ætla ekki að gera sömu mistökin og þegar ég flutti frá Hringbraut í himnaríki, og taka bara allt með mér ... það tók mig langan tíma að fara yfir það allt og sumt dagaði uppi í þvottahúsinu en hillurnar þar voru fín geymsla. Flokkunin mikla 2020 með aðstoð Ingu, Hildu systur og Davíðs frænda, mun gera þetta allt, og hefur nú þegar, svo miklu auðveldara. Að geta flutt inn og vera ekki í vandræðum með neitt dót - er takmarkið. Að sjálfsögðu geymi ég sumt sem hefur tilfinningalegt gildi.
- - - - - - - -
Ég fékk símtal úr leyninúmeri áðan og svaraði þótt ég byggist allt eins við að þetta væri einhver að reyna að svindla á mér. En þetta var nú bara grjóthörð fortíðin. Hún á það til að elta mann.
Rödd: Er þetta Kaffi-Gurrí?
Ég: Ja, það má segja það, ég var einu sinni með útvarpsþátt sem hét það, auglýsingadeildin bjó sko til nafni-
Rödd: Vott ever. Það má alveg lesa á milli línanna hjá þér á blogginu að þú hafir verið í Leyniþjónustu Íslands, núverandi vinnustað mínum eftir endurreisnina, þannig fann ég þig, og nú þarftu heldur betur að hysja upp um þig brækurnar. Gyrða þig í brók, blaðurskjóðan þín!
Ég: Almáttugur, ég hélt að deildin hefði verið lögð af, sko Björn Bjarna, úff, ohh, ég get verið svo hvatví-
Rödd: Vott ever. Það er að koma út bók, frétti ég, mögulega komin út, glæpasaga, og nafn þitt kemur fram, tilvísun í þáttinn sem var okkar stærsta yfirskin þegar þú starfaðir þarna. Ertu enn hæf til að koma fólki úr jafnvægi? Eða orðin ryðguð, eins og getur gerst með aldrinum?
Ég: Ja, ekki kannski beint ryðguð, ég gæti kannski enn talað fólk í hel ef é-
Rödd: Vott ever. Þú þekkir þessa útgefendur svo vel, það var á þinni könnu að halda þeim góðum. Geturðu ímyndað þér hver gæti mögulega haft ávinning að því að koma upp um okkur? Eða hvaða rithöfundur telji sig geta, með góðri samvisku, opinberað eitt stærsta leyndarmál Íslands, Óperasjón-Kaffi?
Ég: Þetta var allt mikið sómafólk en ... ég veit auðvitað ekki hversu vel er hægt að treysta rithöfundum sem skilja eftir sig blóðuga jörð í bókum sín-
Rödd: Já, já, vott ever. Ég fékk leyniskeyti í rakvélina mína í morgun og sagt að á blaðsíðu 47 væri að finna eitthvað sem gæti opinberað allt og þá mun ekki einu sinni þessi ríkisstjórn, þótt ég hafi hana í vasanum, geta bjargað stofnuninni!
Ég: Í hvaða bók, eftir hvern?
Rödd: Það er nefnilega málið, ég er viss um að einhver bófinn hefur tekið hana úr sambandi, allar upplýsingar duttu út þegar það slökknaði á henni. Ég gleymi ALDREI að hlaða hana.
Ég: Ertu þá að meina að ég þurfi að lesa alla jólakrimm-
Rödd: Já, þú ert vön því hvort sem er.
Ég: Ja, ég stend í flutnin-
Rödd: Vott ever. Láttu mig svo vita þegar þú finnur þetta. Ég hef Jónínu Leósdóttur sterklega grunaða. Það er ekki alltaf dyggð undir dökkum hárum, get ég sagt þér, þegar þarf að opinbera leynilegar stofnanir! Hún skrifaði grunsamlega bók, Konan í blokkinni, í ljósi þeirra tíðinda að þú ert að fara að flytja í háa blokk. Hefurðu heyrt talað um Sovétblokkina? Veistu hvar á Kleppsvegi hún er? Enginn virðist vita það en ég óttast að þú hafir lent í miðju risastóru samsæri, vinan, þar sem njósnir, kaffi og búferlaflutningar koma við sögu. Hafðu góðar gætur á nágrönnum þínum, mjög góðar! Lestu, og hafðu svo samband!
Ég: Ókei, ókei, en hvernig næ ég svo í þi-
Sambandið slitnaði ... kannski gleymst að hlaða? Ég er farin út í bókabúð. Það er ábyggilega hægt að lesa OG FLYTJA á sama tíma!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2024 | 18:46
Draumur um pínu og besta megrunin
Vælubíllinn kemur sér stundum vel og ég hringdi í hann (113) í morgun því ofan á kvef sem vill ekki fara (vegna skorts á hvíld og slökun) bættist við hrikaleg tannpína ... sem gat samt ekki passað því ég á að vera með allar tennur heilar. Sennilega hafði ég gníst tönnum í svefni, svona líka harkalega að hún brotnaði í tvennt! (Þá nótt dreymdi mig að ég væri nýkomin í vinnu hjá Morgunblaðinu og sjálfur ritstjórinn kom og heilsaði mér, samt með undarlega máttlausu handabandi. Í nótt var ég flutt á Kleppsveginn og þar var ekki bara ein lyfta sem stoppaði bara á annarri hverri hæð, eins og í raunveruleikanum, heldur voru margar mismunandi lyftur þarna og ótrúlega margar hæðir á húsinu! Hvað ætli hirðdraumaráðendur himnaríkis segðu við þessu?)
Gat það virkilega verið að ég hafi brotið rótfylltan jaxl með gnísti - sem er ekki vani minn. Gærdagurinn leið, hlutirnar lagast voða oft, en þetta versnaði bara, ekkert borðað í gærkvöldi, ekkert í morgun eða hádeginu en kl. 14.20 í dag fékk ég neyðartíma. Tönnin reyndist ekki brotin, bara sýking, takk fyrir, og apótek, pensílín og læti. Jaxlinn verður skilinn eftir á Akranesi, fjarlægður eftir tíu daga. Og jú, gamla Arionbankahúsið hýsir nú sýslumann, skattstofu og ýmislegt fleira flott, fyrir utan tannlækninn. Núna líður mér eins og ég sé albata og það eina sem vælir og vorkennir sér á þessu heimili er Mosi, þegar hann vantar athygli. Aðaláhyggjur dagsins snerust þó um Eldum rétt-bílinn. Hann kemur voða oft á milli 14 og 15 og ég fjarri góðu gamni. Tíu mínútum eftir að ég kom heim úr apótekinu kom svo Eldum rétt. Í apótekinu eru allir beðnir um skilríki sem er svo innilega sjálfsagt. Eldri maður missti sig yfir því, sagði að starfsfólkið gæti bara lært að þekkja viðskiptavinina í sjón. Við erum ekki nema átta þúsund og kannski rúmlega helmingur þeirra þarf stundum að fara í apótek, pís of keik.
Ég pantaði nauðsynjar úr Einarsbúð og ákvað að láta tvo venjulega lauka fylgja með. Hafði heyrt það húsráð að gott væri að skera lauk í tvennt, geyma hann á skál, helst á náttborði þess kvefaða ... og laukurinn myndi soga í sig allar kvefbakteríur og veiku manneskjunni batna fyrr ... Gef skýrslu um árangurinn.
Mér var skutlað til tannsa, svo sótt og keyrð í apótek af vini mínum sem kemur frá fjölmennu landi (22 milljónir) sama landinu og ofbeldismaðurinn sem hótaði vararíkissaksóknara en Helgi yfirfærði þá glæpi yfir á alla í því landi, og rasistarnir ofsaglaðir yfir því að loksins þyrði einhver að segja sannleikann ... Nú hefur Helgi fengið grænt ljós á að halda áfram í embætti (ég er endanlega hætt að kaupa Kjörís) og sumir í kommentakerfinu halda í alvöru að nú eigi bara að fara að henda þessu fólki úr landi - því orðræða Helga gerir auðvitað ekkert nema auka fordóma. Mér finnst mjög mikilvægt að vera hlutlaus í svona starfi, annars missir maður traustið og ég ber ekki traust til fólks sem tjáir sig svona og sér ekkert athugavert við það. (Ég fordæmi hótanir ofbeldismannsins sem ógnaði vararíkissaksóknara og fjölskyldu hans).
Ef marka má Feng Shui gætu fyrirhugaðar breytingar á heimili og þar með tilfæringar á húsgögnum verið sökudólgurinn í þessum veikindum mínum og sýkingu.
Tíu mínútum eftir að ég kom heim úr apótekinu með lyfin og asídófílus, hringdi dyrabjallan, Eldum rétt með matarpakkann minn. Það var auðvitað engin tilviljun, ef ég er upptekin milli tvö og þrjú, seinkar ER-bíllinn bara komu sinni ... Annars er ekki ólíklegt að hviðurnar á Kjalarnesi hafi seinkað bílnum sem var samt ekki seinn, þarna eftir þrjú, mega afhenda alveg til sex.
Það er kannski ekki skrítið að mér batni ekki kvefið. Þrjár ferðir í bæinn á einni viku, tvær fasteignatengdar en menningin átti hug okkar allan á laugardeginum þegar tvær vinkonur voru heimsóttar, eða myndir þeirra, á Skólavörðustíg.
Önnur sýningin var í Gallerí Grásteini (Anna) og gjörsamlega ótrúlegt hvað hægt er að búa til mikla fegurð með vatnslitum. Hefði gjarnan viljað taka fleiri myndir, en það var einhvern veginn alltaf fólk fyrir á meðan við vorum þarna. Sýning Önnu var opnuð fyrir rúmri viku en þá komst ég ekki. Geggjaðar myndir.
Hin (Ellý Q) var hinum megin við götuna, í Listhúsi Ófeigs (fyrir ofan skartgripabúðina). Bæði galleríin mjög skemmtileg og sýningarnar alveg frábærar - ég hvet fólk endilega til að fara. Anna er með viðveru á laugardögum á meðan sýningin hangir uppi, en ég gleymdi að spyrja frú Elínborgu. Gaman að hitta dætur Ellýjar, svo hrikalega langt síðan eitthvað ... allar á kafi í langskólanámi eða búnar, bara ferlega flottar og klárar stelpur.
Ég er kannski svona hrifin og ánægð yfir þeim því sumt fólk heldur því fram að börn einstæðra foreldra eigi margfalt minni von en börn giftra, um að geta menntað sig. Mögulega átti þessi kenning betur við hér áður fyrr. Ég, dóttir einstæðrar móður, var sjálf orðin fertug þegar ég komst loksins í framhaldsnám, í hagnýta fjölmiðlun í HÍ. Systkini mín hafa öll gengið menntaveginn, en við þurftum vissulega tilhlaup, tvær okkar, áður en við gátum látið vaða.
Það var einstaklega gaman að koma í miðborgina, ég þekkti aðra hverja manneskju og spjallaði við ótal marga þannig að meðreiðarsveinar mínir til miðborgar þurftu á allri sinni þolinmæði að halda ... ég kíkti á Ingu Elínu en hún er með flotta galleríið sitt með leirverkum þarna á besta stað. Flottir veltibollarnir.
Við reyndum að fara á Mokkakaffi en það var alveg troðið, ansi hreint langt síðan síðast hjá okkur en við enduðum í Te og kaffi í Hamraborg í ansi góðum bolla og meðlæti. Það hefði orðið hverfiskaffihúsið mitt ef Kópavogur hefði ekki hafnað mér svona grimmdarlega ... hefði þurft að vera búin að selja himnaríki þegar girnilegar íbúðir þar voru á sölu.
MYND: Ellý sýnir olíumálverk og leitar í heim ævintýranna, kunnugleg andlit barna og barnabarna er að finna í sumum þeirra.
Það verða ansi mikil "læti" um helgina, frá og með föstudeginum 13. sept. hætti ég að vera fasteignamógúll því þá verður gengið frá og skrifað undir vegna himnaríkis, þá á ég bara eina íbúð, skrambans. Svo verður enn eitt spennandi brúðkaupið á laugardeginum hjá yndisfrænku og að síðustu barnaafmæli á sunnudeginum. Samkvæmislíf vetrarins hófst svo sem með látum á afmælinu mínu í ágúst, en það hefur ekki verið svona mikið fjör um margra ára skeið. Svo er ég farin að hita upp fyrir Skálmaldartónleikana, búin að leðra mig upp og á kolsvartan hárlit inni á baði, verð með leðurblökuvængi sem eyrnalokka og alls konar fleira sem mér á eftir að detta í hug, ég ætla að vera við öllu búin.
Ég er búin að uppgötva besta megrunarkúr í heimi.
1. Koma sér upp sýkingu í tönn.
2. Of sárt að borða.
3. Lystarleysi vegna verkja, t.d. í tönn eða höfði.
4. Gott er að vera líka slöpp, að drepast úr kvefi.
5. Ein skyrdolla og góð saga í Storytel, þarf ekki meira.
Ekkert að þakka.
Jæja, ég byrjaði loksins á bókinni Atlas - sögu Pa Salt, síðustu bókinni í flokknum um systurnar sjö. Hún er ekki nema hvað ... 27,5 klukkutíma löng. Svona slappheit hægja á einbeitingu svo ég tími ekki að hraða henni, mun fúslega afplána alla þessa klukkutíma. Ég byrjaði sem sagt upp á nýtt, því hún stoppaði án skýringa í miðjum klíðum fyrir mánuði og útgáfu hennar virðist hafa verið frestað. Eins gott því ég var búin að gleyma ýmsu. Mig langaði fyrst að klára Sjöwall og Wahlöö-bækurnar sem var mjög gaman að hlusta á. Velferðarkerfið í Svíþjóð var sannarlega ekki komið til sögunnar þegar þær voru skrifaðar, mikil fátækt og eymd, miðað við það sem maður heyrir núna. Vinkona mín býr þar og er alsæl. Virkilega passað upp á að þegnar landsins hafi það gott, ekki bara kíkt á hagtölur og horft á meðaltalið sem dæmi um sérdeilis góða stöðu alls almennings, eins og í sumum nágrannalöndum ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2024 | 21:42
Ríkisbubbi í bili, of stór skápur og skrítnir söfnuðir
Kaupsamningur var undirritaður í dag svo ég á formlega tvær íbúðir í augnablikinu, himnaríki og Kleppsvegsdýrðina. Slíkt hefur aldrei gerst áður, ég hef alltaf verið sátt við að eiga bara eina. Þetta ríkidæmi stendur væntanlega fram yfir helgi svo ég ætla að njóta þess. Já, addna, íbúðin mín í bænum ... bla, bla, en aftur á móti íbúðin mín á Akranesi, bla, bla, ég mun hljóma eins og sannur milli. Líka hægt að segja íbúðirnar mínar - þarf ekki að minnast á að það séu bara tvær, það væri gaman að eiga eins og eina blokk, eins og Silli eða Valdi (eða afkomandi) sem átti víst heila blokk í Hátúni, segir sagan, en stundaði alls enga okurleigu, það fylgdi líka með. Kjaftasaga kvöldsins var í boði einhvers sem sagði mér þetta fyrir áratugum. Ef þetta er bara bull, biðst ég afsökunar.
Pantaði flutningabíl í morgun. Hann kemur 5. október -stundvíslega klukkan níu um morguninn, ég reyndi að seinka til tíu, en sennilega vaknar venjulegt fólk fyrr en ég. Svo heppin er ég að hafa nokkra burðarmenn hér og einnig nokkra sunnan rörs. Pökkunarstarf hefst á mánudaginn. Fæ afhent 1. okt. og ætla að láta mála, kaupa eitt stykki ísskáp (mælið þið með einhverjum?) og flytja inn. Þarf að spyrja frænku hjá Smith og Norland, hún veit allt. Ég verð líka að muna að mæla hæð og breidd á lyftunni, þessari litlu fjögurra manna sem stoppar bara á annarri hverri hæð, ekki minni ... því ég óttast svolítið að svarti antíkspeglaskápurinn komist ekki inn í hana og þurfi að halda á upp á sjöttu! Jafnvel rúmið mitt líka. Annar fasteignasalinn í dag býr í grenndinni, líka í svona gamalli hárri blokk, efst þar og þar er oggulítil lyfta, eins og í minni, greinilega hátískan í lyftum á sjöunda áratug síðustu aldar. Meira að segja of gott fyrir fólk að láta þær stoppa á hverri hæð. Þetta er ekkert annað en stórfínt, nema kannski þegar maður flytur inn eða út.
Kjúklingarétturinn lokkaði og laðaði svo stráksi kom í mat nú í kvöld. Hann hefur fundið á sér að ég nennti ekki að elda í gær sem hefði þýtt afganga í dag. Ég hafði einmitt áhyggjur af því að ef ég eldaði nú í kvöld fyrir mig eina og ætti rúmlega helminginn eftir ... og væri að fara í bæinn á morgun og borða þar ... já, þau eru svona stórvægileg vandamálin í himnaríki. Stráksi hafði samband og vandamálið leystist. Hann hafði séð bæði Eldum rétt-spjöldin (uppskrift og mynd) þegar hann kom í mat síðasta mánudag. Séður strákur. Frekar flókinn réttur í kvöld, ofnbakað brokkolí og gulrætur, hrísgrjón, nokkuð flókin sósa, kjúklingur steiktur eins og nautasteik - en ég fór létt með þetta. Samt bara með einn tímamæli, en notaði reyndar gemsann (var að hlusta á storytel við eldamennskuna) til að mæla þessar 2,5 mínútur sem þurfti að steikja kjúklinginn á hvorri hlið, svo smjördreypa seinni tvær og hálfu.
Mynd: Hvað hef ég afrekað sem fær fb til að halda að ég deili áhugamálum með Kevin Costner?
Hvað hljómar eins og sértrúarsöfnuður og er það í raun?
Ansi margir nefndu skipulögð trúarbrögð, t.d. mormóna, kaþólikka og fleiri en hér eru fjölbreytileg svör. Ég er sammála sumu en öðru alls ekki, er hreinlega móðguð yfir sumu en er nógu þroskuð andlega til að láta þetta allt flakka. Hrmpf ...
- Vísindakirkjan
- Keppnisíþróttir
- Byssueign
- Ilmkjarnaolíur
- Ameríski fótboltinn
- Stjórnmálaflokkar
- Crossfit
- Fox-fréttastöðin
- MAGA (Make America Great Again/Trump)
- Kardashians
- Bandaríski herinn
- Fótboltamömmur
- Kattafólk
- Hundaeigendur
- iPhone-eigendur
- Veganistar
- Friends-aðdáendur
- Íþróttir
- Disney
- Aðdáendur Grateful Dead
- Waldorf-skólar
- Trúleysi
- Star Wars-aðdáendur
- Ananas á pítsu-fólk
- Sjálfshjálpariðnaðurinn
- Jógaiðkendur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2024 | 21:54
Kvefi frestað, eilíft skrepp og vel valin lokaorð
Glæpadagurinn mikli rann upp bjartur og fagur, kvefskrattinn á undanhaldi svo plan B var ekki nauðsynlegt á bókasafninu, eða að fá einhvern annan til að kynna glæpakvissið. Mig langaði ógurlega að bæta slíkum heiðri á ferilskrá mína en var svo ótrúlega stressuð ... myndi ég geta þetta skammlaust, eða myndi ég hósta út í eitt, vera viðurstyggilega rám, líða þokkafullt niður á gólf eða þurfa að snýta mér endalaust? Það er nefnilega ekki gaman að þurfa að hlusta á rótkvefað fólk og ekki hægt að bjóða þátttakendum glæpakviss upp á slíkt. En ... sú sem á útrunnin amerísk flensulyf úr Walmart þarf ekki að óttast slíkt, ég tók einn skammt klukkutíma fyrir viðburð og leið bara þokkalega vel. Inga skutlaði til bókasafns, Ásta skutlaði mér heim. Í gær bauðst mér tvisvar far, með fimm mínútna millibili, eftir klippinguna en ég beið þá einmitt eftir að vera sótt af Skagakonu. Svona er að búa hérna. Skyldu íbúar Reykjavíkur vera svona dásamlegir? Kostirnir við minni staði eru margir.
MYND: Hér sést hluti af góðmenninu í glæpasal dagsins, okkur var sagt að allt hefði pottþétt fyllst af glæpabókalesandi Akurnesingum ef kvissið hefði verið haldið t.d. kl. 20 - en þar sem sömu spurningar voru bornar upp á bókasöfnum um allt land þótti réttast að hafa sæmilegt samræmi á þessu. Okkar kviss hófst kl. 16.30 eins og hjá flestum hinum, en þá voru auðvitað allt of margir í vinnunni. Samt er sumt fólk sem vill frekar verja kvöldunum heima - svo maður veit ekki. Þetta var alla vega alveg rosalega skemmtilegt. Þvílíkur léttir að vera spyrill því ég hefði annars mætt á kvissið sem þátttakandi og gert mig að algjöru fífli fyrir að vita minna en ég ætti að vita ... þetta var ekkert rosalega létt.
Ég kom við í dýrabúðinni góðu í gær sem nú er flutt úr göngufæri í strætófæri en þarna er allt rúmgott og bjart - og ég keypti kattamat handa Krumma og Mosa. Þeir hafa þurft að "sætta sig við" rándýrt sjúkrafæði sem hélt Kela frískum öll árin en nú er óhætt að slaka aðeins á því, hvorugur er lasinn. Keypti litla poka af mat, tvær tegundir og mér sýnist þeir hafa lyst á báðum tegundum sem ég blandaði þó saman við sjúkrafæðið. Ég þarf að velja vel, hollt og gott við gamlingjana mína. Ágætis rapplag hljómaði úr græjum dýrabúðarinnar, ekkert samt sem toppaði Skálmöld hjá hárstofunni, það er ekkert sem getur það!
MYND: Úkraínski kattahvíslarinn minn hélt svo mikið upp á Kela og hann upp á hana. Sjáið hvað þau eru sæt og flott. Myndin var tekin örfáum vikum áður en Keli kvaddi.
Á morgun verður annað skrepp vikunnar til höfuðborgarinnar og þá verður skrifað undir. Þegar dásemdarfólkið hjá Húsnæðis-og mannvirkjastofnun aðstoðaði mig við að flytja lánið mitt á nýju íbúðina, þurfti ég að sanna að ég gæti greitt mismuninn, það munaði vissulega á himnaríki og Klepps, mér í óhag þótt ég væri að fara í minni íbúð. Tók bara ljósmynd af seðlabúntunum undir dýnunni og sendi þeim. Það sparast mikið við að hætta að reykja! Ég þurfti líka að svara spurningum frá báðum fasteignasölunum, svona áreiðanleikakönnun. Nei, enginn píanókennari í ættinni, hvað þá sálfræðingur ...
Vissulega reyndi ég ákaft að kaupa íbúð í Kópavogi en Kópavogur bara vildi mig ekki. Katalína ... bókasafnið, kaffihúsið, tattústofan ... bless, bless, þið missið af svo miklu! ;) Nýja blokkin mín er ljómandi vel staðsett og ég er ótrúlega sæl með valið. Komst að því að það er heilt bakarí hinum megin við götuna, svo ég get stokkið og keypt gott með kaffinu handa gestum. Kannski er bananarúllutertan farin að fást aftur! Hún var svo vinsæl að bakaríið hætti að vera með hana til sölu! Held ég.
Það kom smávegis viðbót við verkefnið mikla sem ég kláraði um síðustu helgi, síðan eitt pínkuponsu yfirles og að síðustu annað MIKLU stærra, útprentað og klárast vonandi á sunnudaginn. Það er ekki hægt að pakka niður á meðan verkefnin bíða, svo ég byrja bara í næstu viku. Vonandi þiggur Búkolla bókahillur frá mér, vel með farnar, og fleira dót, eins og fínustu skólatöskur sem stráksi vildi ekki taka með sér þegar hann flutti, og ég hefði auðvitað átt að fara með áður en skólarnir hófust en hér er stundum erfitt að losa sig við hluti úr húsi, nema níðast á bílandi vinum og vandamönnum. Ég er komin með einn sem segist til þjónustu reiðubúinn þegar pakkerí hefst.
Þriðja bæjarferð vikunnar verður farin á laugardag, við stráksi ætlum, og það eina sem við höfum ákveðið er að heimsækja tvær ótrúlega spennandi málverkasýningar vinkvenna sem sýna báðar á Skólavörðustíg, önnur er opnun (Ellý Q) og hin er viðvera (Anna Bj) hinum megin við götuna. Mjög hentugt. Mikið hlakka ég til.
Spurningar og svör
Blogginu berast stundum spurningar af viti. Hef ekki tíma til að svara nema þremur í dag. Það má líka alveg spyrja mig um eitthvað annað en strákamálin.
- Getur verið að bílstjórarnir séu að gefa þér kynþokkaafslátt þegar þeir rukka þig um of lítið í strætó? Já, það gæti alveg verið, mér hafði ekki dottið það í hug, en þetta er brilljant spurning, svo rökrétt. Langt er síðan ég bað um slíkan afslátt síðast. Mér brá svo í Bóksölu stúdenta árið 1999 þegar maðurinn gaf mér bara 5% afslátt, það var áfall þótt Háskólinn hafi látið reka hann.
- Ertu að flytja frá Akranesi af því að karlarnir hérna eru ekki nógu sætir fyrir þig? Nei, alls ekki. Karlar hér á Skaganum bera af og eru á heimsmælikvarða, líka þótt Ítalía sé tekin inn í dæmið. Eftir að hásinin fór að vera með leiðindi átti ég sífellt erfiðara með að mæta í "hlaðborðið" við ávaxtastandinn í Einarsbúð á föstudögum kl. 18 og það má segja að hallarbylting hafi verið gerð í fjarveru minni. Löng og átakamikil saga sem mun birtast í jólahefti Sérstæðra sakamála.
- Hver er uppáhaldskaflinn þinn í Stabat Mater eftir Pergolesi? Sá áttundi.
Ef þú gætir valið lokaorð þín í lífinu, hver væru þau?
- Mér er svo kalt, brrrrr ... eins og í bíómyndunum.
- Hlustaðu vel, ég faldi fjársjóð á leynistað sem er-
- Mig langar að benda á einhvern og segja: Hvað hefurðu gert?
- Hei, ekki ýta á þennan takka.
- Haltu á bjórnum mínum.
- Leyndardómur lífsins e-
- Ég sagði þér að ég væri veikur.
- Gefðu líffærin úr mér.
- Njóttu hússins. Gott að þurfa ekki að sjá þig aftur.
- Fjársjóðurinn er grafinn undi-
- Slappaðu af, ég hef gert þetta milljón sinnum.
- Sjáðu um hestana mína.
- Ég skal keyra.
- Ég elska þig.
- Sagði þér það.
- Loksins frjáls.
- Ég gerði mitt besta.
- Fokk.
- Úps.
- Takk.
- Vá. Guð er kona!
- Hvað ætli þessir takkar geri?
- Bless.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 27
- Sl. sólarhring: 41
- Sl. viku: 854
- Frá upphafi: 1515949
Annað
- Innlit í dag: 16
- Innlit sl. viku: 716
- Gestir í dag: 14
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni