Færsluflokkur: Bloggar

Hitapokamissir, smellubeitumorð og móðgandi afmæliskveðja

Keli á hitapokaHappdrætti Háskóla Íslands sendi mér SMS í gær og óskaði mér hjartanlega til hamingju með vinninginn. Það munar um allt, mér finnst æðislegt að hafa unnið 15.000 kall - fyrsti vinningurinn minn í alla vega áratug. Fyrir þessa fjárhæð fæ ég alveg 68 lítra af mjólk (218 kr. lítrinn) og kúlur fyrir afganginn.

 

 

Samt ríkja áhyggjur í himnaríki, áhyggjur af Kela. Það er kominn upp vítahringur hjá honum. Hann finnur fyrir gigtarverkjum af því ég hef ekki getað gefið honum lyf (hann hefur enga matarlyst, ég hef laumað í hann verkjalyfi í matnum hans) og hefur að auki verið með kvef, hnerrað mikið en ... minna í dag. Kemur sér tvisvar á dag upp á eldhúsbekkinn og bíður þar við vaskinn þar til ég skrúfa frá vatninu. Þar situr hann í korter og fær sér sjúss annað slagið (sjá allt um kranavodka í síðasta bloggi). En í dag samþykkti hann að láta mata sig á þurrmat, át fjóra litla bita sem er gríðarleg framför. Ég fann enga leið í gær til að koma ofan í hann verkjalyfjum svo ég klíndi tveimur eða þremur dropum á loppurnar á honum, í þeirri von að þessi þrifni köttur nái smá verkjó í sig í þrifunum. Sem hann sennilega gerði. Núna liggur hann marflatur á bláa hitapokanum mínum á gólfinu fyrir framan rúmið mitt, ekki með stillt á 3 sem er helst til of heitt, heldur á 2 sem er notalegt. Ég klíndi ögn meira af verkjalyfjadropum á fætur hans (skíthrædd við að gefa of mikið, svo ég gef kannski of lítið). Annars held ég að ég verði að skreppa með hann suður til dýralæknis fyrr en síðar. Ég lofa að giftast þeim sem skutlar mér - eða það sem er kannski sterkara hjá konu sem er komin á minn aldur ... ég lofa að giftast viðkomandi ekki! Held að slíkt loforð sé árangursríkara. Svo eru flestar vinkonur mínar svo innilega gagnkynhneigðar eitthvað, jafnvel giftar körlum, svo ekkert svona loforð/hótun virkar á þær. Held að Keli (14) geti átt góðan tíma eftir, á verkjalyfjum, ég þarf bara aðstoð við að snúa þessum ruglingi við, þessum vítahring hjá honum.

Ný íbúð í bænum ... einn stærsti kosturinn við hana væri nálægð við dýralækni. Ég stefni á það. Sá eina í Garðabæ meira að segja, og þar er bæði gott kaffihús (Te og kaffi) og dýralæknir í grennd - aðeins of mikill gróður þó. Fram undan er skurkur í þessum málum því þótt ég þurfi að hafa fyrirvara á mínu tilboði eru fleiri en ég í keðjunni búnir að selja sko ... jebbs, þetta mjakast.

En ... ég þarf að kaupa annan hitapoka, mér finnst notalegt, eða bakinu á mér, að leggjast á hitapoka í svona hálftíma og mýkja bakið fyrir svefninn ... Sjúklingurinn Keli gengur samt fyrir. Hiti linar gigt. Ef hann verður ekki farinn að éta almennilega (með verkjalyfsdropum í) á morgun, verður hann að hitta dýralækni - með öllum ráðum. Að það skuli ekki vera dýralæknir hér í svona stórum bæ. Það eru vaktir í hesthúsahverfinu og úrvalsdýralæknar þar, en hér þyrfti að vera stofa, inni í bæ. Mörg gæludýr og flestir þurfa að fara í bæinn sem er hvorki gott fyrir bílhrædd dýrin né umhverfið. 

 

Svona kveðjur ...Fuglar himnaríkis fengu vænan kökuskammt í dag, annan daginn í röð, eða restina af leifunum, og þeir görguðu hástöfum af gleði yfir öllu kolvetninu sem ætti að gefa þeim orku fyrir flugið til Tene í haust (Spánar, Portúgals og Vestur-Afríku), það eru þó tvær tegundir máva sem treysta sér til að búa hér á landi allt árið um kring. Þarf að gúgla hvaða tegundir það eru.

 

Hitti frábæru Kristínu Grænlandsfara í strætó í dag og það kjaftaði á okkur hver tuska. Hún, eins og Bára í Hekls Angels, á ekki orð yfir hvað bílstjórinn á innanbæjarstrætó er mikið æði. Hjálplegur og dásamlegur á allan hátt. Hann hleypir þeim alltaf inn í vagninn að framanverðu, mér bara þegar ég er nýkomin úr klipp og lit ... hmmmmmm.

 

Nýlega var stofnaður hópur á Facebook, Smellubeitumorðin, og þar er fólki sagt hvað er á bak við sumar dularfullu fyrirsagnirnar sem kallast smellubeitur því þær fá fólk stundum til að gabbast til að lesa eitthvað sem stendur svo ekki undir nafni. 

Dæmi um fyrirsögn: „Pissaði á sig í mátunarklefa“ (og mynd af fallegri ungri konu)

SmellubeitumorðÞegar hún var þriggja ára.

 

MYND NR. 2: Svona afmæliskveðju mátti ég nú þola frá vissum frænda (fjanda) sem gerir mig ALLTAF miklu eldri en ég er. Þegar við kynntumst var ég 38 ára - og hann hélt lengi vel að ég væri 44 ára og trúði mér ekki fyrr en ég hélt upp á fertugsafmælið mitt átta árum seinna. Hann hefur oft mátt þakka fyrir að búa í útlöndum.

 

Bleikar og bjútífúlHef séð verri smellubeitur - á einum miðlinum á feisbúkk kemur eitthvað ægilega spennandi sem fyrirsögn og þegar maður smellir bíður bara myndband á ensku ... sem er ansi léleg blaðamennska og ég nenni aldrei að horfa á og þess vegna er ég löngu hætt að skoða nokkuð á þeim miðli, sama hversu spennandi fyrirsögnin er. Hef reyndar staðið sjálfa mig að því í gegnum árin að nenna bara að lesa texta, og þegar vitnað er í útvarpsviðtöl á Bylgjunni er bara birtur hlekkur á viðtalið og ég hef ALDREI nennt að hlusta, en ef viðtalið væri skrifað upp líka væri það allt annað og fljótlegra* fyrir mig og fleiri, RÚV gerir það alltaf.

 

*Jóhanna, vinkona mín hér á Vesturlandi, kíkti í heimsókn í gær. Mér fannst athyglisvert þegar hún talaði um að það dýrmætasta sem hún ætti væri tíminn og hún vildi ekki verja honum í hvað sem væri, hún væri pirruð á því að þurfa t.d. að eyða tíma í að berjast gegn vindmyllum í Borgarfirði. Nú upplifi ég t.d. sjónvarp nákvæmlega þannig að nenni mjög lítið að eyða tíma í horfa á það. Og hvað geri ég á meðan aðrir horfa á sjónvarpið? Jú, ég les, kíki á Instagram og snappið, tek til, blogga ... eitthvað sem öðrum finnst eflaust tímaeyðsla og kjósa sjónvarpið frekar. 

 

Blaðamönnum er kennt að búa til fyrirsagnir sem vekja forvitni (og selja blöð og fá smelli) en segja samt ekki innihald fréttarinnar það nákvæmlega að lesandi láti fyrirsögnina nægja. Umferð um netsíðuna/sala blaðsins ræður svo úrslitum um hvort auglýsendur vilji verja fé sínu þar - svo þetta er snúið. Oft er æðisleg frásögn á bak við krassandi fyrirsögn. Afvegaleiðandi og pirrandi smellbeitur eru eitt en smellnar og skemmtilegar allt annað.

 

MYND NR. 3: Ég fékk líka bleika og fallega kveðju í tilefni afmælisdagsins frá elsku Hjördísi (mömmur.is) og Petu, mæðgunum mögnuðu. Mig minnir að myndin af okkur hafi verið tekin þegar kökuskreytingakeppni var haldin úti í íþróttahöll á Írskum dögum eitt árið og við vorum dómnefndin. Bleikur er uppáhaldsliturinn hjá mömmunum en ég man samt ekki hvort ég kom svona klædd alveg óvart eða viljandi ... ég var svo sem alltaf í þessum rúllukragabol, alveg misserum saman, og fékk að heyra: „Gurrí, þú nærð þér aldrei í mann svona klædd,“ frá konu sem veiddi eintómar ástarsorgir á eigin hálfbera bringu. Hún vissi auðvitað ekki hversu oft ég hef verið gift, það eru bara síðustu árin sem hafa ekki verið svo gjöful þegar kemur að körlum. Það verður pottþétt breyting á þessu öllu við flutningana í bæinn og þá geta systur mínar, frænkur, frændur og vinir farið að kalla mig aftur raðgiftarann ógurlega! Ég hlakka svo til.   


Velheppnað allt nema veðrið - og svalur svalamávur ...

Tertu tertuAfmælisveislan gekk ákaflega vel og sérlega skemmtilegt og gott fólk mætti. Þau sem ekki komust eru auðvitað líka fín. Ég var búin að gefa í skyn að gjafir væru ekki velkomnar en ekki nokkur manneskja hlýddi því nema Erla Hlyns, hún færði kisunum kattanammi ... og Keli, síhnerrandi stórsjúklingur, kom hlaupandi, og fékk nokkur stykki. Enn lítur hann ekki við blautmatnum en ég heyrði hann bryðja þurrmat í gærkvöldi eftir að ég var komin upp í og hann drekkur vatn af miklum móð sem róaði dýralækninn sem ég talaði við í gær.

 

Dagurinn byrjaði hreint ekki vel ... haldið ekki að sólin hafi skinið eins og brjálæðingur beint á gluggana og reyndi af alefli að hita upp himnaríki ... en sem betur fer var sæmilega röskleg norðanátt svo ég gat lokað Mosa inni (ekki treystandi), opnað svaladyr og norðanglugga og það kældi svo mikið að systir mín sem kom snemma, kvartaði yfir kulda. Viftur léku þó stórt hlutverk; ein sem blés yfir terturnar, önnur á gestina inni í stofu, þriðja var í fatahenginu og blés í átt að stofunni - og veitti ekkert af þeim öllum.

 

 

Klukkan var orðin fimm mínútur YFIR þrjú þegar fyrsti gesturinn mætti í "frystikistuna" og svo komu þeir hver af öðrum. Það er sniðugra að láta afmælið hefjast klukkutíma fyrr, eins og ég gerði núna - gestir komu í hollum, kl. 3-5, 4-6, 5-7 o.s.frv. Og tvö herbergi dugðu vel til að allir fengju sæti. Það skilyrði var sett að fara þyrfti fjórar ferðir að veisluborðinu. Held að flestir hafi hlýtt - því ísskápurinn var ekki troðfullur af afgöngum núna daginn eftir. Nóg til samt handa þeim sem mættu í annan í afmæli. Ég var ekki nógu dugleg að taka myndir ... samt skárri en í fyrra. Takk, öll, fyrir komuna og líka fyrir fallegar kveðjur á Facebook. 

 

KisustrákurEinhverjum í afmælinu tókst að setja uppþvottavélina í gang með rassinum ... nú skil ég vinsældir uppþvottavéla sem hafa rofana ekki að framanverðu ... sýnist nú samt að diskarnir þrír og glasið hafi fengið venjulega þvottaprógrammið, án sápu þó, svo þetta var verulega snjall afturendi. Þetta gerðist líka í afmælinu í fyrra en þá ætlaði ég að fara að ganga frá öllu þegar gestirnir voru farnir og setja í uppþvottavélina ... sem sýndi þá ósvífnislega að hún ætti rúman klukkutíma eftir ... galtóm.

 

Svo gætti ég þess að vera með fótboltaleik á hlaðinu. Auðvitað Bestu deildina. Ég hafði samið við gestina að hlaupa út á svalir ÞEGAR ÍA skoraði mark og öskra úr sér lifur og lungu ... svona villt gleðiöskur. Ég er með appið FotMob í símanum en heyrði samt ekki neitt í því þegar eina mark leiksins (ÍA, jess) kom, enda hávært skvaldur og mikill glaumur.  

Á meðan aðrar konur heyra BLING í símanum sínum, opna og sjá: „Hæ, sæta, eigum við að skreppa út að borða í kvöld?“ fæ ég BLING sem segir: „ÍA Akranes-Fram Reykjavík kl. 18.15.“ Þessi forgangslisti minn skýrir sennilega af hverju ég hef gift mig svona sjaldan síðustu árin. 

 

Einar strætóvinur var einn þeirra fyrstu, kom auðvitað á Skagann með strætó, hálftíma fyrir opnun hússins, svo hann dreif sig í Guðlaugu og sjósund til að vera sem ferskastur. Í fyrra mætti hann klukkan þrjú en veislan hófst fjögur, og kom að mér berhandleggjaðri! að setja samanbrotin föt ofan í skúffu, það var nú alveg klukkutími í gestina og ég hafði hreinlega gleymt þessum þvotti. Eitthvað sem enginn hefði vitað af, nema sá sem kom of snemma ... Ég fer enn hjá mér við tilhugsunina. Berleggjuð/berfætt hefði verið skárra.

 

Mynd: Ungur maður mætti í afmælið ásamt móður sinni og ömmu. Ég er löngu hætt að hafa það bannað börnum. Elstu bönnuðu börn fyrri afmæla eru komin á fimmtugsaldur, svo ég hef þetta nokkuð valfrjálst núorðið, veit þó að þeim yngstu dauðleiðist oft, enda engin sérstök skemmtiatriði hjá mér, nema fótboltaleikurinn á hlaðinu. Kettirnir höfðu reyndar talsvert skemmtanagildi, fannst drengnum, og þarna er hann að knúsa Kela, hinn lasna gigtar- og kvefsjúkling sem elskar börn og hunda. Mosi stendur vörð. Skömmu síðar fékk drengurinn sér sopa úr vatnsbrunni kattanna og fékkst ekki til að hætta því fyrr en ég bauð honum vodka. Þegar ég var búin að hella "vodka" í glas fyrir hann var hann horfinn á vit nýrra ævintýra í himnaríki.

 

Svita- og rauðkinnaforðunin gekk bara ágætlega. Ég óttaðist þó að allt hæglætið væri unnið fyrir gýg þegar ég hafði skoppað niður stigana til að sækja og bera upp kræsingar sem systir mín kom með úr bænum. Fyrr um morguninn hafði ég nefnilega þurft að gera um það bil hundrað handtök sem ég hefði auðvitað átt að gera daginn áður. Samt er ég ekki með frestunaráráttu, misreiknaði mig bara varðandi handtök. Viftur komu sannarlega að góðum notum og ég lét tertuviftuna blása á mig meðan ég vesenaðist í eldhúsinu. Svo náttúrlega missti sólin flugið þegar leið á daginn og allt skánaði. Fjóla í bókabúðinni tímdi varla að fara: Má ég koma aftur í kvöld ef fer að gjósa? spurði hún. Auðvitað, auðvitað, en gosið lætur enn bíða eftir sér. Jón Frímann heldur að það komi sennilega ekki fyrr en eftir 20. ágúst, ég man ekki hvers vegna, en hann hefur viðað að sér mikilli þekkingu og hefur verið sannspár. Eins og það hlýtur að vera erfitt að spá fyrir um þetta þar sem 800 ár eru frá síðasta gostímabili þarna. 

 

Þótt enginn segði neitt sá ég greinileg vonbrigði í augnaráði gestanna þegar þeir sáu hvernig ég var klædd. Því miður hafði ég ekki tíma til að hekla mér skírnarkjól. Ég reyndi þó að vera bleik og glaðleg, á mér sannast hið fornkveðna, hef ég heyrt; pretty in pink. 

 

Mávur í heimsóknAfmælisgjafir voru sjúklega flottar að vanda, handsápur, kisu-og hundsbollar (espressó), kerti, heyrnarlúppur (æði fyrir Skálmaldartónleikana, of hávært brenglar heyrnina, snökt), vellyktandi baðvörur og ýmislegt geggjað æðislegt, gullfallegt hálsmen frá Jens er leyndardómsfulla gjöfin í ár, ekkert kort með ... Hjálp!

 

Eitthvað er meira er komið í gang í himnaríkismálum sem gefur enn frekar til kynna flutninga fyrr en síðar til borgarinnar, fékk tölvupóst í morgun varðandi það. Svo nú verð ég að setja fullan kraft í leitina að íbúð í bænum. Óskir og draumar: Rúmlega sjötíu fermetra, helst þriggja herbergja, alls ekki á okurverði, alls ekki í grónu úthverfi, helst að sem flest sé í göngufæri, leyfi fyrir innikisum, þolinmæði granna gagnvart einu afmælispartíi á ári og þol granna fyrir þungarokki og sinfóníum.

 

MyndJónatan IX mætti á handrið litlu svalanna í dag, núna annan í afmæli - klanið hans er búið að læra að á þessum árstíma, eða í kringum 12. ágúst, gefur himnaríki himneskar kræsingar ... Brauðtertuleifarnar eftir gestina á annan í afmæli, og poka sem ég hafði safnað saman leifum af diskum gærdagsins, skoppaði ég með út og er nú vinsælasta manneskjan hér við hafið. Jónatan sá eflaust marenstertuna (sem grillir í) inn um gluggann, tertuna sem Inga tók með sér áðan til að skella í frystikistuna hjá sér, þar til ég hef pláss í litla frystinum mínum. Það er fínt að eiga svona fína köku í frysti. Ef ég flyt og gleymi henni, verður Inga bara að borða hana. Ef ég flyt innan tíðar og engin Gurrí í himnaríki, verð ég bara að senda Ingu matarleifar handa fuglum, held að við séum þær einu sem fáum mávana á sumrin, og krummana yfir vetrartímann til að hjálpa okkur með lífrænan úrgang. Aðrir fuglar njóta vissulega góðs af.   


Ótraustar veðurspár og frægt fólk sem missir vitið

Er komið eldgosKötturinn Keli (14) er í aðalhlutverki þessa dagana þótt hann eigi ekki afmæli fyrr en eftir rúma tíu mánuði. Hann neitar að éta, líka uppáhaldsmatinn, svo hann finnur greinilega til. Eitt ráðið fyrir gigtarsjúklinginn var að blanda verkjalyfjum í sósuna af uppáhaldsblautmatnum sem hann lítur ekki lengur við, en kannski er þetta bara kvefið. Hann hnerrar svolítið en drekkur mikið vatn svo ég er aðeins minna kvíðin. Hann hafði fitnað svolítið eftir að ég fór að kaupa aðra urinary-tegund af blautmat (Hill), sem hann græðir vonandi á, meðan ég bíð eftir að morgundagurinn renni upp og ég geti hringt í dýralækninn. Ég tróð einum bita af mat upp í Kela áðan, sem hann kyngdi og var ekkert fúll yfir því, svo ég kannski treð meiri mat í hann á eftir. Ömurlegt þegar dýrin manns veikjast. Keli I sem ég átti á Hringbrautinni veiktist illa af flensu og þurfti að læra upp á nýtt að éta, þá tróð ég í hann fiski og hrísgrjónum sem ég stappaði saman. Svo gerði hann sér lítið fyrir, kannski ári seinna, og fékk krabbamein, aðeins sex ára, og ekkert bauðst nema að láta lóga honum. Ekki svo löngu seinna kom Tommi á heimilið, flutti með á Skagann og dó í frekar hárri elli (15 ára) og mánuði seinna kom Keli II, sem áhyggjur mínar beinast að núna.

 

MYND: Fyrr í dag hélt ég að eldgos væri byrjað á Reykjanesskaga. Svo var þetta bara skemmtiferðaskip! Skýin hjálpa nákvæmlega ekkert, hvorki séð með berum augum eða í gegnum vefmyndavél. Sjá mynd. 

 

Engin hætta ...Fjölmenningin mun sjá til þess að afmælið á morgun verði með besta móti. Önnur sýrlenska fjölskyldan mín skutlaði mér í búð í dag til að kaupa gosið og eitthvað smotterí annað sem ég gleymdi að panta í Einarsbúð á föstudaginn, jarðarber ekki til, en það verður bara að hafa það. Hin fjölskyldan mín (í næsta húsi) kom með kúfaðan disk af mat sem eiginmaðurinn eldaði, verulega gott ... eins og þau hafi vitað að ísskápur himnaríkis væri tómur (það þarf að hafa pláss fyrir tertur og gos) og hér væri bara skyr á boðstólum. Dásemdin mín frá Litháen mætti svo með marensrúlluterturnar áðan ... svo allt er nánast tilbúið hérna megin hafsins. Inga og Hilda taka svo við hjálparkeflinu á morgun. Elsku yndin.

 

Hættulegt veðurÉg biðst innilega afsökunar á veðrinu á morgun. Ég bað alls ekki um gula veðurviðvörun á Austurlandi ... heldur vonaði bara (mjög heitt) að það yrði ekki of heitt á Akranesi. Mögulega er einhver á Austurlandi með svipaða ósk og er í meiri klíku en ég. Mér hefði seint verið fyrirgefið ef ég hefði fært Skagamönnum vont veður. Myndin af veðurfræðingnum er reyndar ekki ný en sýnir mjög vel hversu mikil dramatík ríkir í veðurheimum. Maður skyldi aldrei ögra veðrinu, heldur sýna auðmýkt ... sem ég hef þurft að gera allt of oft þegar hitinn ætlar allt lifandi að drepa og sólin sýnir enga miskunn.

 

P.s. Kíkti á veðurspár morgundagsins í lokin. Er í losti, yr.no sýnir sól á morgun, á köflum reyndar. Ekki mjög heitt, 10-13 gráður ... Vedur.is hótar ekki sól en ögn hærri hita. Er engu að treysta?     

---

 

Hvað er í gangi á Facebook?

Fræg manneskja sem hefur í raun og veru misst vitið?

 

Þessi voru oftast nefnd:

- Elon Musk

- Russel Brand

- Rosanne Barr

- J.K. Rowling

- Kanye West

- Tom Cruise

- Joe Rogan og Jordan Peterson

- James Woods

- Hulk Hogan og Gary Busey

- Donald Trump

- Rudy Guiliani

- Charlton Heston

- Jon Voight

- Mel Gibson

- Madonna og Britney Spears

- Robert Kennedy Jr.

- P. Diddy 


Stressandi veðurspár - gagnsókn virkjuð

vedur.is og yr.no í dagVeðrið á mánudaginn næstkomandi hefur valdið mér ómældum áhyggjum um hríð. Undanfarna daga hef ég horft með vantrú og hryllingi á spána á yr.no og séð bæði sól og 11-12 gráðu hita sem táknar óbærilegheit í himnaríki, að minnsta kosti fyrir tertur og afmælisbarn. En ... óskir mínar, vonir og þrár, eru ótrúlega oft teknar til greina, hef ég upplifað í gegnum tíðina, og bæði í dag og gær er eins og yr-ið, norska veðursíðan, vilji að ég hljóti draumaveðrið mitt, eða smávegis norðlægan vind og smárigningu og þar með verður lífvænlegt fyrir gesti og gangandi.

 

 

Í fyrra var 12. ágúst næstheitasti dagur ársins, sól og steikjandi hiti, mögulega í kringum 16 eða 17 gráður. Hitinn gerir marga kærulausa og Helga Olivers lagði frá sér disk með brauðtertu á svalahandriðið ... sem Jónatan IX, sérlegur mávur himnaríkis, leit á sem boð og fékk sér, auðvitað. Tertur, hvort sem eru brauðkyns eða marens, smakkast ekkert ógurlega vel með "svita" síns andlits ... Íslenska veðurstofan er orðin nokkuð sammála þeirri norsku, nema engin bleyta enn sem komið er. Ef þetta tekur U-beygju að hita og mollu hef ég þó ýmis ráð í pokahorninu, eins og að setja litla hrífu með gaddana upp út í glugga (það hefur virkað) ... og jafnvel regndans. Veit einhver hvaða lög eru best til að dansa við? Luftgitar er alltaf í uppáhaldi sem danslag en þarf ekki textinn að passa við galdur?

 

 

Vifta um hálsinnEn, ég hef líka lært ýmislegt, varð sennilega fullnuma í fyrra, til að vera ekki í svitabaði: Til dæmis að fara í sturtu um morguninn (ekki t.d. kl. 14) og ekkert endilega hafa vatnið í sturtunni mjög heitt, já, og drekka kalt vatn annað slagið, ekki bara kaffi, hlaupa alls ekki of hratt til dyra þegar bjallan hringir (uppvakningagönguhraði fínn) OG ... það besta: nota jólagjöfina (jól, 2023) frá Hildu systur, viftu sem maður setur utan um hálsinn á sér og hún blæs köldu lofti. Ég hef prófað viftuna mína, hún virkar en ég gæti þurft að hlaða hana fyrir mánudaginn, bara til öryggis, ef sólin dirfist að láta sjá sig á milli kl. 15 og 20.

 

 

Ég hefði aldrei vogað mér að viðurkenna ósk mína um smárok og regn ef um helgi hefði verið að ræða, það hefðu verið talin landráð og ég réttdræp. Í fyrra börðust bæði Gleðigangan og Fiskidagurinn mikli við mig um gesti.

Staðalbúnaður vegna afmælisMér tókst að láta leggja Fiskidaginn niður, sjúkk, og í dag, 10. ágúst, daginn sem ég hefði átt að fæðast, skv. lækni mömmu, og á afmælisdegi Guðríðar ömmu og Ians Anderson úr Jethro Tull, hef ég verið að fylgjast með gleðigöngunni í gegnum livefromiceland.is, Reykjavíkurtjörn. Einn af kostunum við að flytja í bæinn er að geta farið í eigin persónu í bæinn á svona dögum og verið með.

Neðsta myndin er einmitt frá Gleðigöngunni í ár, rammstolin af snappi Ingu vinkonu.

 

Himnaríki er orðið afmælisfínt - það verða innkaup á morgun (önnur sýrlenska fjölskyldan mín heimtar að skutla mér í búð og hjálpa mér að bera allt upp, svo kemur litháíska vinkonan færandi hendi með nýbakaða bestu marensrúllutertu heims, sem verður hópi kræsinga. Er ekki fjölmenningin dásamleg?) Hilda frá Íslandi hjálpar mér síðan með rest og kemur færandi hendi með ýmislegt gott, svo verið ekki að þvælast mikið að óþarfa á Kjalarnesinu upp úr hádegi á mánudaginn, elskurnar.

 

Gleði 2024... afsakið hvað ég tala mikið um afmælið ... en þetta er eina partíið sem ég held á ári, fyrir utan mjög, mjög lítið hangikjötspartí á jóladag. Þess á milli ríkja leiðindin ein svo ekki nema von að þetta sé ofarlega í huga ... fyrir utan auðvitað komandi eldgos. Fékk skilaboð áðan: „Gerir þú þér grein fyrir því að það er fræðilegur möguleiki á því að þú fáir bæði Kötlu- og Sundhnúkagígagos í afmælisgjöf?“

 

Talandi um afmælisgjafir: Frændi minn átti von á barni á afmælisdaginn minn, en litli krúttmolinn valdi að koma 7. ágúst sl.. Flott hjá honum og höfðingleg ákvörðun, það er nógu erfitt fyrir mig að eiga afmæli sama dag og Ásdís Rán og Sveinn Andri ... já, og Krossinn. Hvar er samkeppniseftirlitið í svona tilfellum? 

 

Með allan þennan lærdóm og tæki til hitalækkunar á heimili í farteskinu gæti ég meira að segja íhugað að vera förðuð sem ég hef ekki getað veitt mér vegna hita. Alltaf notalegt að heyra aðdáunaröskur vina og vandamanna. Ég er orðin svo vön kulda heima hjá mér (viljandi, lána hlýjar peysur og teppi í sumum tilfellum) að það sem langflestum finnst notalegur stofuhiti finnst mér ansi hreint ólífvænlegt. Vinafólk mitt frá heitari löndum veit að það þarf helst að hafa úti- og svaladyr opnar ef ég á að haldast innandyra í heimsókn hjá því.

 

Ég hef sagt frá þessu áður, en ég var stödd í Búdapest í október 2000 í árshátíðarferð fyrirtækisins og mátti varla hreyfa mig án þess að svitna og verða eldrauð í framan, það var nefnilega hitabylgja í gangi. Eftir tvo, þrjá daga slysaðist ég til að fá mér jarðarberjasjeik frá McDonald's - og það var eins og við manninn mælt, eitthvað gerðist innra með mér í kjölfarið og hitastig líkamans komst í jafnvægi, vandist 20 stiga hitanum. Ég gat hreyft mig að vild, gengið langar leiðir án þess að verða of heitt. Kalt vatn eða gos hefur sömu virkni svo það þarf auðvitað ekki mín vegna að opna McDonald's aftur hér á landi. Ég kýs að fara varlega með óskir mínar, velja rétt.  

 

Hvað er í gangi á Facebook?

Hvað er það skelfilegasta sem þú getur hugsað þér í heimi hér?

Hér eru helstu svörin, ansi margir nefndu Trump og Harris sem það skelfilegasta:

 

- Þriðja heimstyrjöldin.

- Fljúgandi kóngulær.

- Þögn í herberginu þar sem börnin mín eru að leika sér ...

- Hafið.

- Loftslagsbreytingar; veðurhörmungar, flóð, eldar.

- Seinna kjörtímabil Trumps.

- Að Kamala Harris verði forseti.

- Samkvæmt gervigreindinni erum við mannfólkið vandamálið.

- Trúarbrögð.

- Að fæðast brúnn. 


Svikin af bók, tertupælingar og góð grannaskipti

FlamingoFlamingo er svakalega góður veitingastaður hér á Akranesi, og við stráksi fórum þangað í gær! Verði er stillt í hóf svo það er hægt að kíkja þangað oftar en á ýmsa aðra staði. Ég fæ mér yfirleitt rétt nr. 10, af númeruðum réttum fyrir ofan afgreiðsluborðið, kjúkling með hrísgrjónum, bita af sætri kartöflu og salati (mæli hástöfum með). Stráksi fær sér það sama, eftir að ég kom honum upp á bragðið. Svo í kvöld var það bara mexíkósk ýsa, að hætti hússins (Eldum rétt), rest hituð upp á morgun. Vinkona mín kíkti í heimsókn fyrr í dag og dáðist að mér fyrir að nenna að elda handa mér einni en það er æði að vera með hollar fjórar máltíðir í viku (tveir réttir fyrir tvo á viku, elda og hita upp til skiptis), annars færi ég bara út í endalaust snarl. Án þess að vera í megrun er ég óðum að verða eins og fyrir hætt-að-reykja gjörninginn góða 2020, finn það best á sífellt minna magni sem ég þarf af sturtusápu ... 

 

afmaeli_2008_005Mér datt nákvæmlega ekkert í hug sem áletrun á afmælistertuna sem var pöntuð í dag. Viss fjandi kom með góðar hugmyndir að vanda en ég sá að ég myndi svekkja og móðga miklu fleiri en sjálfa mig ef ég færi eftir þeim. Kannski breytist maður í heigul með árunum. Mig langaði eitt augnablik í smáblekkingu: Allt er fertugum fært (Er Gurrí ekki eldri? myndu gestir hugsa en ekki þora að segja) en það er svo klisjulegt. Sjaldan fellur eggið langt frá eikinni, væri snjallt (fékk þá tillögu eitt árið frá vinkonu) ef ég væri eggjabóndi eða í trjárækt ... kattahvíslarinn minn er vissulega skógfræðingur en langsótt samt. 

Tertan verður alla vega með jarðarberjafrómas, sem er huggun í sjálfu sér. Það var ansi fátt í gangi sem bauð upp á Ég-fékk-hana-ódýrt ... eins og Til hamingju með nýja starfið, Runólfur (fyrir löngu) svo kom Láttu þér batna, elsku Þrúða - Dofri Hvannberg, til hamingju með fyrsta fallhlífarstökkið, 10. ágúst ... Myndin sýnir að bakarar geta gert mistök ... 12. ágúst er alþjóðlegur dagur UNGA fólksins!

 

Vinkona mín, amman snjalla með sniðugustu gjafir í heimi handa barnabörnunum, bauð einum stráknum í kajaksiglingu í flottri ævintýraferð nýlega, hann var alsæll á eftir. Ömmur mínar voru æði, en þeim hefði varla þótt viðeigandi að príla upp um fjöll og firnindi með mér. Önnur þeirra hafði gaman af því að spila Manna og lesa bækur eftir Elínborgu Lárusdóttur, man ég. Hefði viljað kynnast þeim báðum svo miklu betur.      

 

Atlas Pa Salt„Þú lifir ótrúlega spennandi lífi í gegnum Storytel,“ fékk ég að heyra um daginn ... þá var mjög nýlegt (22 tíma) næturævintýri mitt ekki meðtalið. En á miðnætti 6. að hoppa yfir í 7. ágúst opnaðist fyrir bókina Atlas, saga Pa Salt, þá síðustu í flokknum um systurnar sjö. Ég hafði hlakkað til, eins og fleiri aðdáendur bókanna. Ég byrjaði auðvitað að hlusta þarna strax á miðnætti og líka eitthvað í gærdag yfir þvottastandi og einnig leti, og svo sl. nótt þegar ég lét í sakleysi mínu bókina malla til að svæfa mig, með stillt á að lestur hætti eftir hálftíma. Allt í einu, eftir kannski korter og í miðri setningu, gerðist eitthvað, lesturinn þagnaði og eldri bók úr flokknum birtist á skjánum (ég reis upp úr kómanu og kíkti) eins og hún væri ólesin ... Atlas-bókin hvarf en með fádæma snilli fann ég út að útkomu hennar hafði verið frestað til 28. ágúst, en gleymst að sleppa því að opna fyrir hlustun þann 7. ágúst. Hver sýnir svona grimmd af sér? Hvernig á ég að gera afmælisfínt í himnaríki ef ég hef ekki bók sem setur mig á sjálfstýringu? Hver er ábyrgð Storytel í svona málum? Skaðabætur? Háar? Kemur teymi sem gerir allt extra-fínt hjá sviknum lesendum? Þetta var ekki martröð, ég kíkti í morgun. Vissulega er þetta 27 klukkutíma löng bók og rúmlega það, og tekur sinn tíma að lesa hana inn ... en alveg sama. Fresta ég afmælinu? Nei, ég býð heldur ekki fólki og leyfi því að smakka eina brauðtertusneið og rek það svo út, eins og tíðkast greinilega að gera á sumum bæjum ... Átakanleg myndin sýnir að enn eru 20 klst. eftir af bókinni sem verður ekki aðgengileg fyrr en í lok ágúst!!!

 

Facebook-minningar dagsins:

Fyrir 14 árum, og enn á sama máli:

„Er sérlega þakklát sjálfri mér fyrir að hafa skipt út nágrönnum árið 2006 og fengið máva í stað geitunga.“

 

Fyrir 15 árum. Ábyggilega Lærlingurinn:

„Donald Trump var með í verðlaun fyrir sigurlið þáttarins heimsókn á Playboy-setrið þar sem margar af fallegustu konum heims ganga um hálfberar, sagði hann. Konurnar í sigurliðinu urðu örugglega rosaglaðar, enda stórkostlegur heiður að hitta Hugh Hefner og kærusturnar hans; Bridget, Holly og Kendru. Jamm.“ 


Alveg óvæntar fyrirsætur ...

Keli og SvitlanaKettirnir fögnuðu mér mátulega vel þegar ég kom þreytt en samt dásamlega endurnærð eftir dvöl í sumarbústað. Þeir höfðu haft það verulega gott, eins og myndir sem ég fékk sendar bera vott um. Mosi er betri fyrirsæta en ég hélt og Keli kemur líka rosalega á óvart (kossamyndin). Ég get farið að mokgræða á að bjóða þá fram í hin ýmsu verkefni í auglýsingageiranum. Kela líður svo greinilega miklu betur og farinn að daðra við úkraínska kattahvíslarann sinn. Blautmatur og verkjalyf gera greinilega kraftaverk á gigtveikum.

 

-------

Mosi og Svitlana

Þreyta mín í gær stafaði af nokkuð langri setu í bíl í bæinn og svo fljótlega strætóferð í mestu rigningu sem ég hef upplifað (við Esjurætur), en mér tókst einhvern veginn eftir sýrlenskt kvöldmatarboð að búa til fb-síðu til að bjóða í afmælið á mánudaginn. Það vantar örugglega helminginn af þeim sem ég þekki og vil fá ... ég reyndi samt að draga úr fjöldanum ... ja, þessum er alltaf boðið en ekki mætt í tíu ár, gefa honum einn séns enn? Jaaaa ... eða hvað? Þreytan og syfjan sáu til þess að ég varð að fara aðra umferð og í kvöld fer ég þá þriðju yfir fb-vinahópinn. Held að ég hafi í einhverjum tilfellum bara boðið öðru hjóna, jafnvel því sem ég þekki minna ... Það er alveg hægt að móðga og svekkja fólk þótt maður ætli sér það ekki. Svo eru auðvitað ekki allir á fb ... og ekki næstum því allir sem sjá svona boð þótt það berist ... og enn er fólk á ferð og flugi, sérstaklega í útlöndum, held ég. Það væri mun hentugra að eiga afmæli til dæmis í september.   

 

Mosi og frændiMosi kom aftur við fyrirsætusögu eftir að ég kom heim, ég heyrði óhljóðin í frænda mínum sem hringdi frá útlöndum og Mosi stal senunni, ég hafði tyllt gemsanum þannig á borðið, upp við risabolla með pennum, að það var athyglissjúka kettinum í vil. Frændi kvartaði yfir því á eigin fb-síðu með því að taka skjáskot af símtalinu ... ef þetta er ekki lýsandi mynd fyrir kött sem þráir heitast að myrða vissan frænda.

 

Sumarbústaðaferðin var ekkert annað en brilljant, við vorum bara þrjú, stráksi, ég og systir mín. Rólegt og ljúft. Það var ekkert verið að stressa sig á að elda endalaust mat, grilla og slíkt, heldur fórum við út að borða (tvisvar), einu sinni á Mika í Reykholti og svo á stað á Flúðum þar sem mjög vel var fylgst með ÓL 2024, sýnt á tveimur tjöldum og hljóðið á hæsta ... sem fældi alla vega tvo ferðamenn frá. En kjúklingaborgarinn var fínn þarna. Svo skruppum við stráksi í kjörbúðina og ég gaf honum spilastokk ... og varð fyrir ferðamannaráni, það var mynd af eldgosi framan á pakkanum sem stýrði verðlagningunni. Hefði drengurinn ekki verið með sársaukafullan bambasvip hefði ég skilað stokknum sem kostaði yfir 3.000 krónur (venjuleg spil). Mér tókst að bjarga þremur bandarískum konum úr New York-ríki frá því að kaupa áfengislausan bjór í einhverri búð þarna og við tókum spjall saman. Ég sagði þeim að í fyrstu ferð minni til New York-borgar hefði sjálfur Dustin Hoffman gengið fram hjá kaffihúsinu þar sem ég var. 

Ólæti„Sjúkk, gott að þú sagðir ekki Donald Trump,“ sagði ein konan, greinilega ekki aðdáandi annars forsetaframbjóðandans westra. Stöllur hennar voru sammála henni og sögðust vongóðar um að Kamala næði sigri. Þær ferðuðust ódýrt, virtist vera, gistu á tjaldstæðum og borðuðu mat sem þær keyptu í sem ódýrustum matvöruverslunum og elduðu í tjaldinu. Þær höfðu þó borðað í Mika og voru ánægðar með matinn þar, og hrósuðu líka einhverjum veitingastað í Vík í Mýrdal. Þeim fannst verst að vera að fara heim aftur fljótlega og missa þannig af eldgosi. Hvernig ætli mér hafi þá liðið ... að vera í sumarbústað á Suðurlandi og geta ekki fylgst með Reykjanesskaga frá höfuðstöðvunum í himnaríki, séð út um gluggann minn hvort væri komið gos eða ekki ... Mér leið alveg ágætlega reyndar og mjög hefur dregið úr sumarbústaðaandúð minni og -fordómum eftir þessa ljúfu daga. Rigningin sá til þess að lúsmýið lagði ekki í okkur sem var af hinu góða. Ég veit ekki hvort ég hef sætt blóð sem lokkar þær að, því ég hef hreinlega aldrei gefið færi á mér.

 

Facebook:

- Víst er hún karlmaður. (ÓL 2024)

- Víst var þetta hælisleitandi. (Bretland)    


Pönnukökur mikilvægari en fjölskyldan ...eða hvað ...

TransumræðanSamfélagsmiðlar voru ótrúlegir í gær, margir hneykslaðir á því að trans kona hafi fengið að boxa við konu. Þetta var leiðrétt, enda er þetta ekki trans kona (reyndar tekur hormónameðferð trans kvenna frá þeim allt líkamlegt forskot, að mig minnir, á átta mánuðum). Konan, sem ýmsir sögðu hreinlega vera karl, hefur tapað í níu bardögum gegn konum í sínum þyngdarflokki. Þau allra æstustu neita að trúa sannleikanum, segja að þetta sé fölsun og lygi. Auðvitað fúlt ef eitthvað sem maður vill trúa reynist ekki vera satt. Mér datt satt að segja ekki í hug að fordómarnir út í trans fólk væru svona útbreiddir og kannski gott að það kom upp á yfirborðið svo hægt verði að gera eitthvað í því. 

Ég er ógeðslega svekkt út í J.K. Rowling, hún má hafa sínar skoðanir en af því að hún er hún, hefur hún miklu, miklu sterkari rödd en flest annað fólk ... og sama má segja um Helga vararíkis, það halda ábyggilega allir (ég geri það svo sannarlega) með honum í baráttunni við siðlausa glæpamanninn, en Helgi, í þessu starfi, ætti ekki að heimfæra brot eins manns yfir á hóp fólks sem hefur nákvæmlega ekkert með málið að gera, hann hvetur bara til fordóma með því. Í hans embætti og öðrum álíka verður að fara varlega og alltaf sýna hlutleysi.

 

HimnaríkisfrúinHnefaleikakonan alsírska er kannski ekki sérlega kvenleg í útliti á þessum myndum sem hafa fylgt "fréttunum", miðað við staðalímyndina, heldur er hún hávaxin og kraftaleg. Sumir segja að með aldrinum fari kynin að líkjast hvert öðru, konur verði karlalegri, karlar konulegri. Fólk segir við mig að ég sé alveg eins og pabbi, á meðan Hilda systir er oft sögð líkjast mömmu sífellt meira?

 

Aðalfréttin alls staðar í gær var innsetning Höllu Tómasdóttur í embætti forseta Íslands, bein útsending og allt, flott viðtal við hana um kvöldið, en af því að "fréttin" um það var ekki fyrsta frétt RÚV klukkan níu í gærkvöldi, fauk í einhverja og sumir segja að RÚV hafi viljað Katrínu í embætti forseta og sé í fýlu út af því að Halla hreppti hnossið ... Dæs!

 

Mér finnst reyndar sumir fjölmiðlar gera út á að setja fram efni til þess eingöngu að æsa upp fólk. Einu sinni sá ég fb-vinkonu deila enskri æsifrétt um Subway, að múslimar væru svo frekir í vissu hverfi í ákveðinni borg á Englandi, minnir að það hafi ekki verið London, að sumir staðirnir væru hættir að bjóða upp á svínakjöt, þyrðu það hreinlega ekki. Ég gúglaði og fann að þetta var satt upp að vissu marki ... Í hverfi þar sem margir múslimar búa ákvað markaðsfólk hjá Subway að gera þetta og það sló í gegn. Allir unnu - nema auðvitað rasistarnir.

 

Mikilvægara en fjölskyldanÞað eru sennilega svona falsfréttir sem Facebook reynir af öllu afli að forðast og blokka, sem bitnar á fleirum, t.d. þannig að ég get stundum ekki deilt blogginu mínu, saklausa sæta Moggablogginu mínu, ekki sett beint hlekk á það á fb-síðuna mína, heldur þarf ég stundum að skrifa eitthvað og setja svo hlekkinn í fyrsta komment, eins og fréttamiðlar gera reyndar gjarnan vegna þessa vandamáls.

 

 

Jú, ég plata stundum og ýki á blogginu mínu, það tengist aðallega meintum ástamálum mínum, og Facebook kannski að bregðast við því?!? Mikið vildi ég að það væri tekið jafnalvarlega á alvörufalsfréttum sem dynja stöðugt á okkur, það er jú reynt að klaga og kæra þær, en fb neitar samt að fjarlægja. Eða gervimennið sem sér engan mun á gríni og alvöru og aðvaraði mig alvarlega um daginn vegna myndbands sem ég birti á fb af því hvernig loftsteinn rakst á tunglið (svo greinilega tilbúningur) ... og ég deildi með orðum um að þannig hefðu risaeðlurnar á tunglinu dáið út ... Mér var hótað öllu illu og ég eyddi færslunni.

 

Það er svo miklu skemmtilegra að blogga um eitthvað allt annað en mál málanna ... en ég gat ekki stillt mig núna, þetta hefur verið svo yfirgengilegt og erfitt að fylgjast með þessu.

 

Mynd 3: Þetta er kannski ekki beint falsfrétt en þetta eru afskaplega villandi skilaboð ... ég var farin að sjá fyrir mér að ef ég gæti ekki flutt í bæinn þar sem vel rúmlega helftin af ættingjum, vinum og öðrum vandamönnum býr, ætlaði ég að snúa mér að pönnukökum. Með tímanum hefði ég eðlilega ekki komist út úr himnaríki svo það hefði verið sjálfhætt við flutninga.   

 

KattahvíslariKattahvíslarinn minn knái mætir í dag svo við stráksi látum vaða í bæinn á eftir með strætó, á föstudegi um verslunarmannahelgi, og ef það er ekki hetjudáð, veit ég ekki hvað. Það gæti seinkað okkur eitthvað en ekki mikið, ef ég miða við síðustu átján ár - hef sennilega setið í strætó fímmtán föstudaga um versló, svo ég hef reynsluna. Veðurspáin er ekki sérlega "góð" fyrir helgina (rok og rigning víða) en veður er eins og aldur, bara tala (vindstig, hitastig, hviðustig, háþrýstingur, millibör og hvað sem þetta heitir allt).

 

Ég kann ekki að blogga í gegnum gemsann þannig að ég safna bara saman ævintýrum af Suðurlandi og flyt sérvaldar sögur þaðan á bloggi í helgarlok. Ég er vissulega ekki mikið fyrir sumarbústaðarferðir, eins og allir sem þekkja mig vita, finnst bara vesen að færa mig á milli staða og gera mig jafnvel að fæðuuppsprettu lúsmýs ... EN það getur ekki orðið annað en gaman með því skemmtilega úrvals- og uppáhaldsfólki sem ég fer með. Lítil þörfin fyrir hvíld í sveitasælu skýrist kannski af því að mér finnst ég svo nálægt náttúrunni hvern dag hér við tölvuna í himnaríki, þar sem ég hef sjóinn minn fallega, á kvöldin ljósin í borginni ... og stöku eldgos á Reykjanesskaga.

 

Óska ykkur öllum gleðilegrar, skemmtilegrar og slysalausrar verslunarmannahelgar. Og verið dugleg að hleypa strætó nr. 57 inn á þjóðveginn á Kjalarnesi í dag, elskurnar.   


Faðmlag í ísbúð og brúsavél óskast

Enginn skjálftiEftir að stráksi flutti að heiman, í apríl, varð mataræðið nokkuð sérstakt - oft bara skyr og stöku tilbúinn réttur til að hita - og tilgangsleysið ríkti í þeim málum. Tveggja ára fínasta hollusta í boði Eldum rétt hafði gert mig kröfuharðari á hollt og gott svo eftir smátíma hélt ég áfram, nema panta bara tveggja daga skammt sem dugir í fjóra til fimm daga. Í kvöld eldaði ég mér auðveldan og fljótlegan pastarétt með hvítlauksbrauði ... afsakið formálann, mér hættir til að hafa allar mínar sögur allt of langar og stundum neimdroppa ég óþarflega, svo ég kem illa út en ... þar sem ég sat og naut þess að borða aðeins of lítið soðið pastað (al dente grande) fann ég snöggan hristing, sennilega jarðskjálfta, þann fyrsta sem ég hef fundið fyrir síðan 10. nóvember í fyrra, þegar ljósmynd datt úr hillu hjá mér og ramminn brotnaði (Ljósmyndin var af Kór Langholtskirkju að túra í Flórens 1985).

Þetta stenst nú ekki, hugsaði ég greindarlega, við bíðum eftir eldgosi, ekki jarðskjálfum. Hristi þetta af mér sem rugl og ímyndun. Tíu sekúndum síðar heyrðist bling í gemsanum mínum. Ég stóð upp og sótti hann. 

„Jarðskjálfti?“ spurði vinkona mín úr Kópavogi.

„Já, ég fann eitthvað,“ svaraði ég.

Við ræddum þetta á Messenger, ég sagði henni að ég fyndi sjaldnast skjálfta frá Reykjanesskaga nema þeir væru fjórir eða meira. Þessi hefði verið örstuttur en samt finnanlegur. Ekki ein einasta hræða á Facebook virtist hafa fundið skjálftann, yfirleitt hikar fólk ekki við að tjá sig um skjálfta þar. 

Hálftíma seinna mundi ég eftir þessu og kíkti á vedur.is. Ef ég fæ ekki tölulega upplifun af atburðum, líður mér illa. Þar var nákvæmlega ekkert að finna um skjálfta yfir þrjá, nær fjórum sem kona í Kópavogi og kona á Akranesi fundu fyrir á sama tíma ... Ég spurði einka-jarðskjálfta- og eldgosahópinn minn klára sem veit þúsund sinnum meira en ég um jarðfræði og það allt. Ekkert þeirra hafði orðið vart við neitt um hálfáttaleytið í kvöld. Mjög, mjög dularfullt. Mér líður eins og geimveru, alla vega á annarri tíðni, mögulega með heilanotkun á hærra stigi en sótsvartur almúginn (sjá ýmsar skerí bíómyndir) ... ásamt vinkonu minni (líkur sækir líkan heim) ... Þetta segir mér að svona næmar konur ættu betur heima á Veðurstofu Íslands en á öllum öðrum vinnustöðum, næmur rass alltaf betri en einhverjir skjálftamælar. Svo er vinkonan ansi klár að prjóna og gæti eflaust fengið uppskriftir að öllum flottu peysunum sem eldgosafræðingarnir okkar sýna reglulega í sjónvarpinu, og skúbbað í Handóðum prjónurum (vinsæll fb-hópur). Ég hef alltaf verið veik fyrir veðurfræðingum og myndi vera óð í að tala við þá um til dæmis gott kaffi, spennandi bækur, nýjustu uppátæki kattanna minna, götuheiti sem ergja útlendinga (Rósarimi, Kalkofnsvegur) því fátt finnst veðurfræðingum leiðinlegra, grunar mig, en að tala sífellt um veðrið - sem er uppáhald Íslendinga.  

 

sjalfsafgreidslaÉg mun hugleiða vandlega hvort ég nenni að kaupa mat í Prís, nýjustu lágvöruversluninni sem opnar í Smáratorgi í ágúst ... Þar verður bara tekið við kortum sem greiðslumáta og fólk á að afgreiða sig sjálft ... sem er léleg þjónusta, að mínu mati. Oft er þetta auglýst sem tækniframfarir, en framfarir fyrir hvern þá? Sennilega bara fínt fyrir þá sem eru á hraðferð og þurfa ekki nótu á kennitölu. Walmart úti í USA hætti með sjálfsafgreiðslu vegna gríðarlega mikils þjófnaðar, ágóðinn af starfsfólkssparnaði hvarf algjörlega og rúmlega það. Skil ögn betur þetta með reiðufé, hver vill leyfa mafíuglæpónum að þvætta beinharða peninga í búðinni sinni? Hmmm. Þegar Bónus hóf reksturinn (já, ég er orðin þetta gömul) var ekki tekið við kortum, bara reiðufé. Svo gafst Bónus upp á því og viðskiptin blómstuðu enn meira. Dominos vill að fólk panti í gegnum app og gerir önnur fjarkaup (heimsent) ómöguleg, svo þau geta bara hoppað upp í óliðlegheitin í sér. Ég hef alla vega ekki keypt pítsu af þeim síðan í kóvíd þegar fyrirtækið neitaði að leyfa mér þrælsprittaðri og með grímu að borga með korti í posa hjá sendlinum (eins og Galito gerði hiklaust) og vísaði til persónuverndar þegar ég mátti ekki gefa upp kortanúmerið mitt í síma. Ég er kannski gamall þrjóskupúki, svo ég hætti bara að versla við Dominos.

 

GluggakettirÉg ætla að skreppa í stutta bústaðarferð um komandi helgi, og elsku dásamlega Svitlana mín, kattahvíslari frá Úkraínu, ætlar að flytja inn í himnaríki, eða því sem næst, kettirnir fá svo mikla ást og góða umönnun frá henni og syninum sem þeir dá líka, að þeir verða nánast spældir þegar ég kem aftur heim. Það væri alveg eftir öllu að það byrjaði eldgos akkúrat á meðan og ég ekki á vaktinni ... ekki í fyrsta sinn. Svitlana lofaði mér því að taka myndir ef svo færi. Svo er ég með ýmsar vefmyndavélar aðgengilegar í gemsanum.

 

Keli (14) varð frekar skyndilega gigtarsjúklingur í fyrra, hætti að geta stokkið upp á bekki og gluggakistur, reyndi án árangurs um tíma og er þakklátur fyrir lága stóla og kolla við mikilvæga staði eins og skrifborðið mitt sem hann notar til að komast út í glugga en áhyggjur mínar snerust mest um  það hvað hann grenntist hratt. Ég fékk góð ráð hjá dýralækninum í Kópavogi, verkjalyf næst þegar ég keypti urinary-matinn ofan í hann (sem hinir verða að fá líka). Svo datt mér í hug að gefa Kela oftar blautmat (Royal Canin, eins og þurrmaturinn) en svo prófaði ég Hill-eitthvað-matinn þar sem er enn meiri sósa og þá fór Keli heldur betur að braggast. Hann verður eflaust aldrei feitur, hann hefur aldrei verið það, en er ekki lengur svona rosalega horaður. Kettir sem finna til hætta að borða ... sagði dýralæknirinn, Keli borðaði meira eftir að hann fékk verkjalyfin og núna enn meira sem gleður mig mjög. Hinir njóta góðs af. Krummi (13) horfir mjög sár á mig ef hann fær ekki smávegis blautmat og Mosi (10) hreinlega veinar en hann hefur alltaf verið dramatískur. Þeir tveir eru ágætlega vænir á skrokkinn. Það sem heldur Mosa frá algjörri offitu er að þeir Keli (gigtarsjúklingur) leika sér oft og hlaupa þá eins og brjálæðingar um himnaríki ... Elsku grannarnir á hæðinni fyrir neðan, sverja að þeir heyri aldrei neitt hljóð úr himnaríki, ekki einu sinni Skálmöld á hæsta, en ég ryksuga stundum pallinn þeirra í þakklætisskyni fyrir að vera svona góðir og þolinmóðir nágrannar.

 

Það er mikil eftirsjá að Guðna Th. forseta og Elizu Reid. Þau eru alveg einstök og Guðni sérlega góður forseti. Ég hef fulla trú á því að nýi forsetinn okkar, hún Halla, eigi eftir að standa sig í starfi. Ég kaus reyndar eina frambjóðandann sem faðmaði mig og það í ísbúð á Akranesi, svo ég er til í hvað sem er á meðan ég fæ eitt faðmlag en það verður að vera í ísbúð. Fannst þau mörg mjög frambærileg en vildi ekki ógilda kjörseðilinn með að kjósa fleiri en einn. Við stráksi kolféllum fyrir Jóni Gnarr, auðvitað, húmorinn er það sem mestu máli skiptir í lífinu, fyrir utan tölur, auðvitað. Bílasalinn var klaufskur en ég nenni ekki að hneykslast á því, líklega orðin svo meyr af því að hlusta á bókina Vatn á blómin eftir Valérie Perrin í frábærri þýðingu Kristínar Jónsdóttur Parísardömu. Þetta er bók sem er svo margt; hrífandi, svo sorgleg að það er hægt að hágráta yfir henni (ég gerði það), óvænt og margslungin, og sögur margra sagðar.

BrúsavélÉg næ að klára hana í kvöld og svo tekur bara tómið og tilgangsleysið við, eða þar til 2. ágúst rennur upp og bókin Vistaskipti dettur í bókahilluna. Mikið vona ég að þetta sé ekki enn ein grafíska kynlífsbókin en miðað við fyrri bók höfundar, Meðleigjandann, er þetta bara eitthvað krúttlegt. Svo þann sjöunda ágúst kemur síðasta bókin um systurnar sjö og fjallar um pabba þeirra, heitir Atlas: Saga Pa Salt. Ég á vinkonu sem hefur margoft reynt að detta ofan í þessar bækur en getur það ekki ... ég féll strax fyrir þeim, og ef ég dæmi bækur eftir dáleiðsluhæfileikum þeirra til að fara viljandi að brjóta saman þvott þá fá þessar bækur hæstu einkunn hjá mér, alveg fimm þvottakörfur. Ef ég hraða ekki lestrinum upp í 1,2 sem ég geri oft, mun sú nýja duga mér í 27 klukkutíma og 26 mínútur. Veisla, krakkar mínir. Talandi um veislu ... vona að vini og vandamenn verði ekki í ógeðshita í útlöndum eða óþægilegri útilegu þann 12. ágúst, þá verður haldin vegleg skírnarveisla með afmælisívafi og mögulega kveðjutengingu ef íbúðamál ganga upp ... reyni að stofna einhvers konar afmælisboðssíðu en bara helmingurinn tekur eftir slíkri boðssíðu, er reynsla mín, vonandi sá helmingur sem les þetta blogg ... og annað: á einhver stóra kaffikönnu, svona brúsavél, til að lána mér, þyrfti þá tvo til þrjá brúsa líka ... sjá mynd.

 

Væntanlegar á Storytel eru bækur Colins Dexters um Morse og einnig bækur Kens Follett, Lykillinn að Rebekku og Nálarauga ... minnir að þær hafi komið út í öfugri röð á sínum tíma. Nálarauga var æði, fannst mér, man ekki eftir Rebekku. Virkilega gaman að rifja upp gamlar bækur, sumar hafa elst ágætlega, vonandi þessar líka. Svo skilst mér á Bókagulli á Facebook að ég hafi misst af miklu með að hafa ekki hlustað á bækur eftir Torill Thorup, eða bókaflokkinn hennar; Skuggar fortíðar, Rætur, Vængstýfð ... og svo Í þjónustu hins illa sem kemur ekki fyrr en 9. okt., sá langi biðtími angrar suma spennta lesendur. Kannski prófa ég ... en ekki fyrr en í október.      


Leitin að rétta húsinu víkkuð út

Eitthvað svonaKlukkutíma eftir að ég hafði ýtt á vista og birta á síðasta bloggi þar sem óvissan í fasteignamálum var tíunduð, hringdi fasteignasalinn. Hún er komin úr fríi og búin að setja allt á fullt. Möguleg sala á einni íbúð í keðjunni og annar áhugasamur kaupandi að himnaríki á kantinum. Ég sem var búin að sameina Akranes og Reykjavík í huganum við tilkomu Sundabrautar, og að það tæki því ekki að flytja ...

 

Ég hafði einsett mér að finna þriggja herbergja íbúð, helst í Kópavogi (nálægt Hildu og kó) og var sem bíllaus lúser spennt fyrir að komast nálægt t.d. Hamraborginni (Katalinu!) þar sem stutt er í alla þjónustu (tattústofu, bókasafn, dýralækni, kaffihús, matvörubúð og fleira áríðandi) en ekki svo mikið framboð af réttum íbúðum. Tíminn hafði þó af mér skemmtilega íbúð þar sem nú er seld öðrum eftir að tilboð mitt rann út, en önnur girnileg var þó til staðar, hafði verið mánuðum saman á sölu og frekar hátt verðlögð. Ég skoðaði hana aftur nýlega (í vor í fyrra skiptið), eftir að verðið var lækkað, en af því að ég var með smið með mér og rósrauðu gleraugun skilin eftir heima, sá ég mér til skelfingar að það þyrfti að taka hana algjörlega í gegn ... Verðið allt of hátt miðað við það þrátt fyrir lækkun.

 

Svo ég fór að kíkja betur í kringum mig, en ekki fyrr en í gærkvöldi. Það kom eiginlega allt til greina nema vel gróið úthverfi - ég skrollaði öskrandi fram hjá öllum slíkum íbúðum, ég setti líka 2 herbergja íbúðir sem möguleika, hafði verið föst í ósk um stærri, og fullt af fínustu íbúðum komu upp, meira að segja frekar nýjar (takk, þétting byggðar). 

 

Í eitthvað svonaÉg fann eina í leitinni, ekki svo langt frá Hlemmi, hún er lítil en falleg, nýleg og með svalir sem snúa að götunni (og lífinu, ekki öðrum gluggum). Ég sá líka eina á Laugaveginum, hún var áður í útleigu til ferðamanna, en hún er kannski einum of miðsvæðis, svona upp á heimsóknir til mín, hvar gæti fólkið mitt lagt bifreiðum sínum? Það þarf að hugsa fyrir öllu. Ég sakna miðborgarinnar, það er mögulega í blóðinu, frumunum, að vera borgarstúlka, mamma ólst upp á Laugavegi 91. Unglingsárunum varði ég á Bollagötu, stutt niður í bæ, líka frekar stutt að burðast með 25 bækur frá bókasafninu við Þingholtsstræti. Svo bjó ég rétt fyrir ofan Hlemm, sirka 1982-1983, fín staðsetning og gott að hafa stutt í strætó, þurfti að skutlast með stráksa í pössun. Miðað við allar bæturnar sem sumt fólk hélt að ég fengi (þessar einstæðu mæður) hefði ég auðvitað getað tekið leigubíl á leikskólann og svo til baka í vinnuna, jafnvel þyrlu, og fengið mér styrjuhrogn í seinni morgunverð ... bara til að nota þessi gullhnífapör, áður en ég hélt til vinnu.

 

Myndirnar tengjast óbeint innihaldi þessa bloggs. Úr þessu í þetta væri jafnvel hægt að láta þær heita ... sjáum til.

 

Þetta kemur allt í ljós fyrr eða síðar. Mögulega fór ég í þetta brálaða fasteignastuð við að horfa á heimildamynd um forsetann okkar, bráðum fyrrverandi (snökt), á þungarokkshátíð í Þýskalandi ... svakalega skemmtileg mynd og ... ég sem hef ekki farið á útihátíð síðan ég veit ekki hvenær, er sjúk í að fara á Wacken, næsta ár eða þarnæsta. Ég Facebook-vingaðist við mann sem skipuleggur ferðirnar þangað og þar með er verkið hálfnað. Þangað til ... elsku Skálmöld núna 1. nóv. í Hörpu.          


Skuggapenni skandalíserar og óglaðir sumarsinnar

Hvað er ég að lesaStundum þarf ekki að fara út fyrir hússins dyr til að næla sér í reynslu, bæði jákvæða og neikvæða, jafnvel átakanlega. Það nægir jafnvel að hlusta á þríleik á Storytel eftir þekktan sænskan kvenkynsrithöfund (CL) sem mjög sennilega lánaði nafn sitt í því skyni að hækka sölutölur ... ég held að frekar óreyndur skuggapenni hafi skrifað megnið.

Sko ... Sérlega gáfuð kona kynnist sérlega myndarlegum og metnaðarfullum manni og þau fara að vera saman. Nánast frá upphafi er konan heimavinnandi skraut sem bætir því miður á sig nokkrum aukakílóum sem fallegi maðurinn hennar líður fyrir, hann verður svo vondur að hann bannar henni að hugga litla barnið sem vaknar í miðju fínu kvöldverðarboði ... já, og svo fleygir hann mæðgunum út þegar okkar kona kemur að honum með annarri en það var nú samt bara tímaspursmál hvenær það myndi gerast. Einn ríkasti maður Svíþjóðar á allar eigurnar aleinn (kaupmáli til að róa hluthafana í fyrirtækinu) en klára og bláfátæka konan fyllist hefndarhug og hættir ekki fyrr en hún hefur unnið sig upp úr engu (byrjar á launuðum gönguferðum með hunda), keypt fyrirtæki fyrrum manns síns, rekið hann og komið honum síðan í fangelsi fyrir morð á dóttur þeirra sem er nú samt sprelllifandi í felum. Þetta á að vera valdeflandi femínískt lesefni (þriggja binda ritröð)!!! Hjákonan flytur inn, eignast son með fyrri eiginmanni aðal og virðist byrja að visna smám saman í þóknunarhlutverkinu, alveg eins og okkar kona gerði. Pabbi aðal fór í fangelsi á unglingsárum hennar, fyrir að drepa mömmu hennar sem er nú samt sprelllifandi úti á Ítalíu og passar sprelllifandi barnabarn sitt.

 

Svo hroðalega vill til að þeir sleppa úr fangelsinu ... saman, fyrrum eiginmaðurinn og ofbeldisfulli faðir hennar sem báðir ætla að drepa hana. Sá síðarnefndi varð svo ofboðslega klár allt í einu, áður drykkfelldur og latur bjáni, að hann náði að finna fyrrum eiginkonu sína og óséð barnabarnið í litlum bæ á Ítalíu þrátt fyrir að hafa ekki einu sinni vitað í hvaða landi þær voru, honum tekst meira að segja að fjar-aftengja öryggiskerfið, það besta fáanlega, yfirbuga fjóra snjalla lífverði og myrða þá („ég vil aðeins þitt allra besta fólk til að vernda þær,“ sagði okkar kona við sænska öryggisfyrirtækið). Honum (fanga á flótta) tekst að auki að flytja ömmgurnar nauðugar frá Ítalíu til Svíþjóðar á æskuheimili aðal (hún hafði keypt það) sem stóð autt, heppilegt fyrir hefndarþorsta vonda pabbans! Aðalsöguhetjan varð að strjúka sjálf úr öryggisfangelsi til að geta bjargað dótturinni og múttu, en hún var dæmd fyrir morðið á fyrrum eiginmanni sínum þótt hálsnistið hennar hefði ekki fundist á vettvangi við fyrstu leit lögreglu, heldur síðar og komið fyrir þar, og var því dæmd á líkum (ef löggan hefði bara vitað hversu mörgum "líkum") ... Hún myrti hann reyndar en skildi ekkert eftir á vettvangi ... hún drap líka grimman bróður sinn og tvo vini hans á unglingsárunum, fyrsta alvörukærastann sinn sem las dagbókina hennar, gamlan (en vondan) mann á dvalarheimili ... ég er örugglega að gleyma einhverjum ...

 

Ókei, það sem hélt mér við efnið var að sagan var spennandi á köflum og ekkert annað sem beið mín, fyrr en í morgun. Ég gúglaði bækurnar og sá að höfundur (CL) hafði verið sökuð um að lána nafn sitt ... en harðneitað fyrir það, nýr stíll og allt það. Ég hef lesið yfir bækur þar sem persónur skipta um nöfn í miðri bók en að litli bróðir breytist í litlu systur er auðvitað ekkert annað en kraftaverk ... (er 95% viss um þetta, erfitt að spóla fram og til baka til að staðfesta). Svo benti ég systur minni á að lesa þessar bækur, þá var ég nýbyrjuð á númer tvö en ekki búin með allt eins og núna, sagðist reyndar vera pirruð á sumu en ... sorrí, systa, ég reyni að bæta þér þetta upp með stórum peningagjöfum, bifreiðum eða utanlandsferðum ...

 

Ég sé líka fyrir mér excel-skjal höfundar þar sem djörfum kynlífssenum er dreift mjög svo reglulega, ég beið "spennt" eftir að vita hvernig það yrði leyst þegar okkar kona var komin í fangelsi, en það var auðvitað annar fangi, bráðhugguleg kona sem gat meira að segja reddað titrara (gmg). Okkar kona tók skömmu áður fasteignasalann sinn á löpp eftir að hún hafði fróað sér í fína húsinu sem hún var að spá í að kaupa og keypti, og svo hina ýmsa þjóna á veitingahúsum, kom fram við þá eins og karlrembur koma stundum fram ... hún var sem sagt bara ruddaleg við ungu mennina og hvað er femínískt við að haga sér eins og karlarnir sem hún reynir að hefna sín á? Hmmm. Kynlíf er æði en vá, hvað það er hægt að gera það óspennandi í sumum bókum. Hún tók ungt par á löpp líka en ég var farin að hraðspóla yfir senurnar sem áttu að vera svo ögrandi um svo frjálsa konu sem vissi hvað hún vildi og tók það ... afsakið á meðan ég hraðspóla.

 

Haustlegt hvaðÁhugavert líka að vita að einhverjum (höfundi) þyki femínískt að hefna sín og drepa ... og að svona klár kona, sem hún átti að vera, skyldi svo kolfalla fyrir öðrum manni í miðbókinni og ætlaði að fara að búa með honum eftir aðeins mánuð, keypti fokdýrt úr handa honum (ég sé enn eftir því), hafði aðeins hans orð fyrir því að hann ætti klikkaða konu sem vildi ekki skilja við hann og héldi dætrunum frá honum ... sem var allt lygi. Allar þessar konur; ástkonan sem eignaðist son sem breyttist í dóttur, þessi klikkaða þarna og mun fleiri konur, tóku höndum saman og hjálpuðust að við að klekkja á þessum ömurlegu karlmönnum. Dæs. Hef hvergi séð hrós/umfjöllun um þessar bækur, eiginlega ekkert nema fréttagrein á íslensku, þar haft eftir Guardian að um meintan skuggapenna væri að ræða en þessar bækur seldust víst eins og heitar lummur í Svíþjóð. Ég bara svona vanþakklát. 

 

Strákar/karlar! Ég er femínisti en ekki vera hræddir, mér dettur ekki í hug að myrða ykkur! Þið sem segið VINAN eða DÖMUR MÍNAR, farið samt varlega.

 

Í morgun mætti ný bók í bókahilluna, frönsk, og ég er aðeins byrjuð að hlusta. Vatn á blómin, heitir hún og trú mín á lífið hefur strax vaxið til muna.

- - - - - - - - -

Það er enn júlí en sjáanleg veður-örvænting hefur gripið um sig á Facebook og víðar. Matgæðingar elda kjötsúpu og annað vetrarlegt og ég verð að viðurkenna að þótt ég kjósi svona svala miklu frekar en kæfandi hita (13°C plús) er þetta farið að bitna frekar leiðinlega á okkur kúl fólkinu, ég sé til dæmis fram á verri mætingu í afmælið mitt um miðjan ágúst, því allir verða annars staðar að elta sólina. Sjórinn minn er meira að segja frekar grár í dag (en flottur, alltaf flottur) ... eiginlega þrútið loft og þungur sjór. Þetta sparar vifturnar mínar og þar með rafmagn, alltaf hægt að finna jákvæðar hliðar.

 

Sjó- og kisumynd: Haustlegt hvað? Sjáið bara hvað grasið er grænt, og fólkið sumarlegt sem situr við borð og drekkur kaffi fyrir aftan rauða bílinn vinstra megin ... en rykfallna viftan gæti útskýrt örvæntingu sumra. 

 

P.S. Það er svo sem ekkert að frétta í fasteignamálum, sumarfrí í fullum gangi hjá öllum og ég veit ekki neitt. Þannig að mögulega breytist nafnið á afmælisveislunni minni í afmælis- og skírnarveislu (nýja millinafninu þarf að fagna) en átti að vera afmælis-, skírnar- og kveðjuveisla. Þegar Sundabrautin kemur verður Akranes sennilega innlimað í höfuðborgina (ódýrara í strætó, húrra) og þá tekur því varla að flytja.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 43
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 870
  • Frá upphafi: 1515965

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 726
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband