Færsluflokkur: Bloggar
19.6.2024 | 15:53
Framhjáhald, hlaupabóla og fjöldaslagsmál ...
Auðvitað hefði ég átt að sitja úti á austursvölum um kvöldmatarleytið í gær og fylgjast með ÍA-KR (við unnum! 2-1) en taugarnar hreinlega leyfðu það ekki. Því varð skrifborðsstóllinn í vesturhluta himnaríkis fyrir valinu með Portúgal - Tékkland í sjónvarpinu en ég á í ástar- og haturssambandi við Ronaldo alveg síðan 2016 (langrækni kannski vegna viðbragða hans við úrslitunum, 1-1, Iceland of all places!) Fyrir leikinn eldaði ég stórgóðan Perú-kjúklingarétt frá Eldum rétt. Hitaði upp afganginn í hádeginu í dag sem var alveg súpergóður líka þá. Mikið var leikurinn Króatía-Albanía spennandi, sá bara seinni hálfleik, ekki hægt annað en að samgleðjast Albönum með jöfnunarmarkið.
Nokkrir góðir gestir heimsóttu mig á sautjánda júní og komu með mér á hið árlega kirkjunefndarkaffi sem er orðið ómissandi innan bæði ættarinnar (nánast) og hluta vinahópsins. Held að kirkjunefndin hafi toppað sig enn einu sinni í ár í gómsætum flottheitum. Hvað er íslenskara en pönnukökur, brauðtertur, kleinur og alvöruhnallþórur?
Ég fylltist í það minnsta stolti og föðurlandsást, vonandi verður Akratorg aldrei víggirt til að losna við almúgann. Hér eru alltaf allir í einni kássu sem hefur virkað stórvel. Mamma fékk enga öryggisgæslu þegar hún var fjallkona á Akranesi fyrir nokkrum árum. Og þó, kannski fékk Stefanía frænka greitt fyrir að fylgja henni yfir götuna og út á Akratorgið, jafnvel með rafbyssu eða piparúða í veskinu. Skemmtileg mynd af frænkunum sem sýnir Skólabrautina í baksýn og eldgamla Landsbankahúsið sem var á undan gamla Landsbankahúsinu sem stundum er rifist yfir.
- - - - - - - -
Innan ættbálksins (vinir og vandamenn) hef ég stundum verið kölluð raðgiftari, enda gift mig svo oft en núna seinni árin hef ég verið ótrúlega róleg í tíðinni. Seint verður hrukkum kennt um því aðdáendurnir eru sjálfir misjafnlega krumpaðir í framan. Svo laust því niður í gærkvöldi þegar ég hékk í gemsanum og las gáfulegar greinar af álíka gáfulegum netsíðum. Já, ég er að breytast í giftingarheigul.
Óttast fyrst og fremst brúðguma (úlf undir sauðargæru), misheppnaðar brúðkaupstertur (með hnetum, döðlum, möndlum), vandræðalegar ræður, daðrandi og duflandi svaramenn eða brúðarmeyjar, óheppilegar uppákomur (sjá brúðkaupssögur hér fyrir neðan) og jafnvel (ólíklegt samt) erfiða tengdaforeldra.
Ég var ekki svona sem kornung kona um fertugt, þá giftist ég án nokkurrar miskunnar nánast öllu sem hreyfðist og var auðvitað huggulegt, heiðarlegt og skemmtilegt (húmor skiptir máli) og elskaði mig auðvitað út af lífinu.
En ... þessar brúðkaupssögur sem ég hef verið að lesa upp á síðkastið draga eflaust kjarkinn úr öllum, líka hörðustu rómantíkerum. Ég vara þess vegna við textanum hér fyrir neðan þótt vissulega hefði verið gaman að vera fluga á vegg í t.d. framhjáhalds-hlaupabólu-slagsmálabrúðkaupinu:
Frænka brúðarinnar velti um glasi og drykkurinn slettist yfir skó brúðarinnar sem snöggreiddist og gaf frænku sinni vænt olnbogaskot fyrir framan hina gestina. Það varð allt vitlaust og slagsmál brutust út. Brúðguminn lét sig hverfa.
Brúðurin, frænka mín, dansaði of mikið í veislunni, að mati nýbakaðs eiginmanns hennar, svo hann sló hana. Föðurbræður mínir skutluðu honum upp á spítala (sem hann þurfti sárlega á að halda um það leyti sem þeir komu þangað). Hjónabandið gert ógilt stuttu síðar.
Brúðguminn og barstúlka í veislunni fengu sér sjortara og á trúnó við aðalbrúðarmeyna kom brúðurin út úr skápnum sem samkynhneigð. Meira og minna allir gestirnir smituðust af hlaupabólu en hringberinn var greinilega veikur og með hita. Maturinn var einstaklega vondur og þegar gestir voru farnir að drífa sig heim brutust út æsileg fjöldaslagsmál á bílastæðinu.
Brúðguminn klessti kökusneið (sjá mynd) í andlitið á brúðinni þrátt fyrir að hún hafi sagt honum að hún vildi það alls ekki. Hún sendi honum það reiðilegasta augnaráð sem ég hef séð, strunsaði út og reif giftingarvottorðið.
Öllu var aflýst og hjónabandið gert ógilt. Það var sitt af hverju í fari brúðgumans sem hafði hringt viðvörunarbjöllum en þetta var það sem fyllti mælinn hjá brúðinni. Ég er ánægður fyrir hennar hönd, mér leist aldrei á þennan mann.
Aðalbrúðarmærin settist við borðið hjá okkur. Þambaði skot og sagði svo: Ég gef þessu þrjú ár. Hjónabandið entist í tvö ár og átta mánuði.
Frænka vinar míns var að gifta sig. Brúðguminn drafaði þegar hann fór með heitin í athöfninni, hringurinn sem hann reyndi að setja á fingur brúðarinnar passaði ekki. Síðan hélt hann ræðu í veislunni, orðinn mjög drukkinn, þar sem kom fram að ef hann hefði ekki klúðrað lífi sínu með því að halda fram hjá fyrrverandi, væri hann hjá henni núna, ekki þeirri nýju. Í ræðunni kom einnig fram að hringurinn væri sá sem hann hafði keypt fyrir þá gömlu. Hann fór að gráta og yfirgaf svæðið. Brúðurinn lét ógilda hjónabandið. Brúðguminn reyndi víst að taka upp þráðinn með sinni fyrrverandi en hún vildi hann ekki, var komin með nýjan. Þá reyndi hann að fá frænku vinar míns aftur en hún gat ekki hugsað sér það. Hún er gift frábærum manni í dag og þau eiga þrjú börn. Brúðguminn í sögunni er enn á lausu, svona ef einhver vill hann ...
Örfáum dögum eftir mjög flott brúðkaup sem okkur hjónum var boðið í, komst brúðurinn að því að eiginmaður hennar hafði haldið fram hjá henni með aðalbrúðarmeynni, bestu vinkonu hennar. Þau voru í brúðkaupsferðinni þegar hún sá SMS frá vinkonunni sem tjáði hinum nýgifta ástmanni sínum að þau ættu von á barni.
Ég fór í tvö brúðkaup sem voru með Disney-þema en bæði pörin höfðu trúlofað sig í Disney-garði. Þau eyddu miklum peningum í Disney-skreytingar og fóru auðvitað í Disney-skemmtigarð í brúðkaupsferðinni. Í báðum tilfellum voru það konurnar sem vildu draumabrúðkaupið sitt í prinsessukjól en svo þegar grár hversdagurinn tók við varð lífið ekki jafnskemmtilegt og ævintýraríkt og væntingar voru um. Hjónaböndin entust ekki lengi, eða innan við tvö ár. Svo á ég vini sem létu gefa sig saman í ráðhúsinu og hafa verið lukkuleg í að verða tíu ár.
Ég vann á barnum í brúðkaupsveislu og brúðguminn drakk sleitulaust. Ég var farinn að láta hann fá áfengislausa drykki en hann tók ekki einu sinni eftir því. Svo sá ég hann úti á dansgólfinu með einni af brúðarmeyjunum og í hörkusleik við hana. Nýi tengdapabbinn var ekki sáttur og fleygði honum út. Hjónabandið gert ógilt.
Brúðguminn kom að konu sinni ásamt svaramanninum í brúðkaupsveislunni og komst að því að sambandið hafði staðið yfir mánuðum saman. Þessu var haldið leyndu svo veislan gæti farið fram. Þau ákváðu að reyna að halda saman en það tókst bara í þrjá mánuði.
Brúðurin vildi sannkallað samfélagsmiðla-brúðkaup sem fór svolítið yfir mörkin. Sá sem tók myndbandið lét allt líta út fyrir að vera bíómynd. Svo kom í ljós að aðalbrúðarmærin og brúðguminn höfðu verið í sambandi síðustu sex mánuðina sem kom í ljós þegar brúðarmærin kjökraði í veislunni: Þetta hefði átt að vera ég. En kakan var þó algjört lostæti.
Vinkona mín er brúðkaupsljósmyndari í Ástralíu og sagði mér eitt sinn frá bráuðkaupi þar sem brúðguminn forðaðist brúðina allan tímann, hrökklaðist undan henni og erfitt að ná góðri mynd af þeim saman, eða þar sem honum virtist líða vel. Hún vissi ekki hvað gekk á en frétti að hjónabandið hefði ekki staðið lengi.
Þau voru bæði 35 ára, höfðu gert það mjög gott, hann sem lögmaður, hún sem læknir. Þau höfðu aldrei varið nótt á heimili hvort annars. Eftir brúðkaupið gátu þau ekki komið sér saman um hvort ætti að flytja til hins og þremur mánuðum seinna sóttu þau um skilnað. Enginn hefur hugmynd um hvernig stóð á því að þau giftu sig en mögulega hefur þeim fundist það tímabært miðað við aldur þeirra.
Einn besti vinur minn gifti sig um árið. Enginn okkar strákanna hafði hitt brúðina en við hlökkuðum þeim mun meira til að hitta vin okkar sem við höfðum ekki séð árum saman. Þetta var flottasta brúðkaupsveisla sem ég hver farið í. Kjólföt, ólýsanlega góður matur í sal sem minnti á matsalinn í Harry Potter-myndunum, óperusöngur og svo flutti strengjasveit uppáhaldsrapplögin hans. Þetta var stórkostlegt en samt ekki í anda vinar míns. Við fórum að spjalla við vini brúðarinnar sem sátu við borðið og komumst að því að þeir þekktu hana voða lítið.
Móðir brúðarinnar hélt ræðu og sagði afskaplega meinlausan brandara um að dóttirin hefði verið óþekk í æsku. Það varð til þess að brúðurin strunsaði út, læsti sig inni, drakk og sagði svo ljóta hluti um hann og gestina sem höfðu margir flogið langar leiðir til að mæta. Það var greinilega eitthvað mikið að, gestirnir skynjuðu straumana og yfirgáfu samkvæmið löngu áður en því átti að ljúka. Við vorum bara átta eftir af 150 gestum ... því að láta allan góða matinn fara til spillis? Vini okkar tókst að róa konu sína, afsakaði sig síðan við okkur og þau fóru. Sex vikum seinna hringdi hann í mig og allt var búið á milli hans og konunnar.
Systkini mín eiga það sameiginlegt að hafa gifst en hjónabandið ekki enst.
Systir mín: Maðurinn hennar mætti í krakk-vímu til vígslunnar. Hún varð ástfangin af öðrum.
Bróðir minn: Náttúrulegt brúðkaup á fjallstoppi og það tók gestina hálfan daginn að príla fjallið og pabbi er ekki með hnéskel. Þetta var svokallað opið hjónaband þar sem eiginkonan stakk af með hinum gæjanum og tók köttinn með.
Þetta með köttinn er verst, þvílík grimmd!
----
Í tilefni dagsins endurbirti ég frábæra tillögu sem ég sá fyrir 11 árum um að breyta orðinu HANNYRÐIR í HÚNYRÐIR.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2024 | 22:53
Síðbúin skírnargjöf og sjóðheit ferð
Ferðalagið okkar stráksa hófst í gærmorgun kl. 10.15 þegar við tókum okkur far með strætisvagni númer 57, mikil gleði af því ég splæsti! Hilda sótti okkur og fyrsti viðkomustaður var Te og kaffi í Hamraborg, kaffinesti mjög áríðandi fyrir komandi keyrslu á Suðurlandi þar sem spáin hafði verið upp á hroðalegar 17 gráður á Celsíus. Kældur bíll sá til þess að kaffidrykkja og spjall fór fram á þægilegum nótum og svo var ágæt tónlistin hjá Útvarpi Suðurlands. Það var engin rauð viðvörun í gangi þrátt fyrir að hitinn væri hár, við þurftum bara að bjarga okkur sjálf með því að skjótast hratt úr bíl í búð. Fyrsta stopp var á Selfossi, í Skalla, ís (úr vél ekki til samt) en allt var fyrirgefið af því að kveikt var á sjónvarpinu og leikur í gangi, meira að segja ofurlágt klósett, sem hæfði c.a. fjögurra ára barni sem hefði þó aldrei fengið að fara eitt, svo tilgangurinn með hæðinni var bara að vonast eftir bakveikri kerlingu sem myndi mögulega fá þursabit við að standa upp af því eða setjast niður, það myndi nú orsaka fjör og læti í sjoppunni, kannski kæmi sjúkrabíll ef hún argaði nógu mikið. Afsakið beiskjuna. Við erum hávaxin þjóð og allt svona ætti að miðast við það, lítil börn eru ekki send ein á salernið svo þeim er hjálpað upp á klósetti, há sem lág. Skalla var sem sagt fyrirgefið vegna sjónvarpsins. Þarna var hitinn orðinn 21 gráða. Óvænt.
Það getur verið fokdýrt að leita skjóls í verslunum nema maður búi yfir sjálfstjórn, eins og við systur. Við hrifumst reyndar mjög af handverksverslun við hliðina á Skalla (í sama húsi og apótek) þarna við aðalgötuna og keyptum skemmtilegar og litríkar fígúrur búnar til úr pappa. Ég keypti líka hálsmen þar sem fleygar setningar úr Andrésblöðum eru klipptar út og skellt á bak við gler Sjá myndina efst af listakonunni við hlið stráksa. Það sem ég ber nú stolt hefur setninguna: Komstu nokkuð með spilastokk? Mikil gróska á Selfossi og í næstu ferð stoppum við eflaust lengur í þeim skemmtilega bæ.
Það var ekki fyrr en við komum í Árnes á handverksmarkað þar sem systir mín hélt að væri jafnvel búið að aflýsa (óskýr skilaboð á Facebook) en þrjóskaðist samt til að tékka á því, sem ég fann það sem ég hafði leitað að, án þess að ég áttaði mig á því. Í Árnesi var sérdeilis skemmtilegur handverksmarkaður í gangi - og þar keypti ég mér litla krummastyttu, eiginlega í skírnargjöf handa sjálfri mér fyrst ég lét bæta Hrefnu við sem millinafni fyrir skömmu. Hilda minnti mig á skírnarveisluna sem ég talaði um að halda innan tíðar en ég finn ekki skírnarkjól í minni stærð. Nenni ekki að hekla hann, enda á ég bara plötulopa, ekki á hitann bætandi. Í Árnesi sýndi hitamælir bílsins að hitinn úti var 22 gráður! Enn óvæntara.
Neðri myndin sýnir móttökurnar sem nýju gripirnir (mest fuglar) fengu hjá köttunum seinnipartinn í dag (kom snemma heim til að ná Englandsleiknum). Keli sýndi furðufuglinum mikla blíðu, eins og öllu og öllum, krummastyttan fékk ekki síður athygli en hálmenið var varla virt viðlits, enda ekki fugl.
Ekki varð ég vör við að nýja klippingin vekti lukku, eins og oft gerist, sbr. strætóbílstjórann minn, sennilega lamandi hitanum á Suðurlandi að kenna, náði hæstu hæðum rétt hjá Flúðum þar sem við stoppuðum í kaffi og sítrónuköku hjá heittelskuðum ættingjum.
Kvöldverðinn snæddum við systur og stráksi í Skyrgerðinni, veitingastað sem systir mín hafði hælt í hástert, enda mun sigldari en ég í ferðalögum innanlands og marga fjöruna sopið, enda á hún bíl. Engin vonbrigði þar, virkilega góður matur en ... mjög stór vinnustaður í aftari salnum var svo hávær að mörgum þótti nóg um og létu færa sig yfir í okkar sal. Svo voru þetta bara þrjár eða fjórar konur, í brjáluðu stuði. Við vorum eins og algjörir leiðindapúkar miðað við þær ... og hinir gestirnir líka.
Ég hætti vissulega við að vera nakin í gær, enda bara vesen, og klæddi mig meira að segja í náttföt áður en ég lagðist til svefns í gærkvöldi í Hilduhúsi. Stráksi bjargaði mér um klakavatn til að kæla líkamann innanfrá svo hægt væri að ná að sofna, það var svoooo heitt. Sæng? neibbs, örþunnt teppi var nánast of mikið. Klukkan sex í morgun vaknaði ég í hávaðaroki og tíu stiga hita (með vindkælingu = 3 gráður?) með aðeins örþunnt teppi yfir mér ... Úr því var hægt að bæta í hvelli en nokkrum tímum seinna keypti ég lauk til öryggis því einhverjar kerlingabækur segja að það að hafa hálfan lauk í skál í svefnherberginu, sé allra meina bót við kvefi, svona ef mér slær niður - sem ég held samt að gerist ekki, því ég náði Danaleiknum í strætó (Áfram Danmörk) á heimleiðinni og fylgist spennt með elsku Englendingum. Já, ég er alltaf veik fyrir þeim. Harry Kane var uppáhaldið hans sonar míns, svo ég held alveg tvöfalt með honum. Það er samt afskaplega vinsælt að tala illa um enska liðið ... hrmpf!
Ég verð sterkari með hverju árinu. Að bera 10 þúsund króna matarpoka heim úr búðinni í dag er svo miklu auðveldara en í fyrra.
- - - - - - - - - - - - - -
Hvernig veistu þegar einhver er algjör bjáni?
Ýmsir höfðu skoðun á því og svöruðu:
Þegar hann opnar á sér munninn.
Orðaforðinn ... og rauð derhúfa* (*heldur með Trump).
Sá sem kýs Biden er bjáni!
Fólk sem segir þér endalaust hversu mikilvægt og klárt það er, er það ekki.
Þegar hann virðir ekki skoðanir annarra nema þær passi við hans eigin.
Sá sem sleikir á sér fingurinn og stingur honum upp í perustæði.
Þegar hann getur ekki einföldustu hluti eins og að nota stefnuljós.
Húmorsleysi hans.
Þegar hann sýnir ókurteisi.
Hroki er tákn um heimsku.
Trú á samsæriskenningar.
- - - - - - - - - - - - - - - - - -
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2024 | 23:54
Keppt á lasleikunum og hræðilegur leigjandi
Fótboltinn á heiðurinn af því að hafa læknað krankleikann sem hér hefur herjað á himnaríkisfrúna. Ekki spurning. Í gær fullyrti vinkona mín nánast að ég væri með covid, það væri í mikilli sókn núna, mörg smit ... og alvarleg veikindi, sagði hún umhyggjusöm. Ég ætlaði á sumarhátíð á leikskóla í hádeginu í dag, með einu ömmubarninu sem ég hef rænt hér á Skaga, en ákvað að hósta bara heima í einrúmi og nú er ég hætt að hósta. Svo seinnipartinn spurði úkraínska grannkonan hvort ég vildi ekki fá far í búð og ég þáði það, vantaði eitthvað almennilegt að drekka (ég er með æði fyrir innocent-ávaxta- og grænmetissöfum) og maula yfir leiknum. Kaus froska (Frakkland samt ekki að keppa) fram yfir bananastangir þótt ég ætti auðvitað að halda mig í ávaxtadeildinni og fá mér þær eða appelsínusúkkulaði. Svo ætlum við stráksi í smáferðalag á morgun með Hildu sín. Fyrir austan Fjall bíður okkar vissulega algjör hryllingur - eða 20 stiga hiti sem fær nú samt ekki að skemma neitt, það er kaldur blástur í Hildubíl og ég ákvað að auki að vera bara nakin á morgun til að lifa þetta af. Ef fólk þolir það ekki, getur það bara haldið sig heima hjá sér!
Myndin sýnir og sannar að ást mín á fótbolta hefur staðið nokkuð lengi. Og líka að ég hafi verið forsíðustúlka Alþýðublaðsins eitt skiptið sem ég er mjög hreykin af.
Þessi nýi tími á aðalfréttum RÚV er bara fínn. Ekki klesstur fyrir aftan Stöðvar 2-fréttir og sexfréttir útvarps þar á undan. Ég missi af öllum leikjum á morgun vegna ferðalagsins og finn á mér að þeir verði ömurlega leiðinlegir, svo mér er sko slétt sama. Kíki kannski rétt á þá í gemsanum þegar færi gefst, til að sjá stöðuna og svona. Oft hef ég haldið með Þýskalandi, svo féll ég endanlega fyrir Skotlandi í fyrra
Fyrri hluti hárfegrunaraðgerðarinnar á mér fór fram á miðvikudaginn, sennilega aðeins of snemma í lasleikunum (eða ekki-covidinu) því mér sló aðeins niður. Hárið var klippt af mikilli list og augabrúnir litaðar ásamt augnhárum, en litur í hár kemur eftir mánuð og það verða gerðar breytingar. Mögulega verð ég ljóska eftir 11. júlí, ég legg ekki meira á samferðafólk mitt, við háró funduðum stíft á meðan klipping fór fram og ég get vart beðið eftir útkomunni. Þessum örfáu gráu hárum hefur fjölgað nokkuð og ef tekið er fullt tillit til umhverfissjónarmiða væri snjallt að breytingin úr ljósku yfir í gránu færi fram á frekar löngum tíma til að sjokkera engan, þá síst háreigandann. Þegar gömul vinkona mín giftist 25 ára algráhærðum manni, fannst öllum það svo sætt (það klæddi hann reyndar rosalega vel) en þetta er erfiðara hjá okkur stelpunum. Við þykjum ekki reffilegar með grá hár fyrr en við erum orðnar talsvert eldri en 25 ára.
Mynd: Úti á stoppistöð: Hárið svo hræðilegt að mér var hleypt inn í innanbæjarstrætó að aftan - en það gerðist ekki eftir klippingu! Ég hef mælt fegurð mína algjörlega eftir þessu.
Gömul og góð vinkona kíkti á mig þegar ég hélt ég væri orðin frísk, daginn fyrir klippingu. Hún tók með sér mikinn uppáhaldsrétt í fjölskyldunni, eða hráefnin í hann, sérstakt kringlótt kryddbrauð úr Mosfellsbakaríi - skar það í tvennt (tertuskurður), smurði botninn með grænmetissósu, setti salatblöð ofan á, raðaði svo tómatsneiðum, gúrkusneiðum og soðnum eggjum, efst kom aftur grænmetissósa (hún er í samskonar umbúðum og t.d. pítusósa) og síðan brauðlokið ofan á. Vá, hvað þetta var ferskt og gott, stefni að því að gera nokkrar svona fyrir afmælið mitt í ár. Fljótlegt og hrikalega gott. Gestir þurfa alls ekki að taka með sér nesti þegar þeir heimsækja mig en eftir að stráksi flutti út, á ég voða sjaldan eitthvað með kaffinu, svangir vinir mínir kunna að bjarga sér.
Mynd: Hér sést vinkonan í eldhúsi himnaríkis við að búa til þetta dásamlega kryddbrauðæði.
------
Önnur vinkona ákvað eitt haustið að leigja út herbergi í íbúðinni sinni, með aðgangi að eldhúsi og baði. Þetta átti að vera út veturinn. Bandarískur eða breskur maður, mikið menntaður og í voða fínu starfi hér á landi, tímabundið þennan vetur svo allt passaði, fékk herbergið. Allt gekk vel fyrstu dagana en svo fór maðurinn að breiða sífellt meira úr sér í íbúðinni, sat með tölvuna á kvöldin og um helgar og vann jafnvel í stofunni sem hann hafði ekki aðgang að, líka inni í eldhúsi utan þess tíma sem hann átti þar, og það fór líka frekar mikið fyrir dótinu hans inni á baði þótt hann vissi að hann hefði bara takmarkað pláss þar, enda baðherbergið lítið.
Vinkona mín reyndi að tala við hann um þetta og skrifaði svo niður reglurnar sem hún var búin að segja honum að giltu, en hann fór ekkert eftir þeim, bara versnaði og henni leið sífellt verr inni á eigin heimili, hann bar enga virðingu fyrir henni og sat sem fastast þar sem honum sýndist og fór fram á t.d. meira pláss í ísskápnum og fleira. Þessi vinkona er mjög ljúf en getur alveg verið ákveðin en ekkert virkaði á manninn.
Eftir einhvern tíma og allt versnaði frekar en hitt, sagði hún að best væri að hann flytti, hún treysti sér ekki til að leigja honum fyrst hann gæti ekki farið eftir einföldum húsreglum. Hann hló bara og neitaði að fara svo hún hringdi á lögregluna. Maðurinn sýndi lögreglunni tölvupóstssamskipti milli sín og vinkonu minnar, sem sönnuðu að hann væri leigjandi hjá henni, svo löggan kvaddi bara, hann var í rétti. Skömmu seinna hafði hún samband við vinnuveitanda hans og þá loks gerðist eitthvað. Yfirmaðurinn mætti í íbúðina, bað manninn um að pakka saman, hann gæti geymt dótið sitt á vinnustaðnum en hann yrði sjálfur að útvega sér nýtt húsnæði, fara á hótel þarna um kvöldið ef hann fyndi ekkert, en út færi hann, svona hegðun væri ekki hægt að líða. Og þannig losnaði vinkona mín við manninn sem virkaði svo ágætur í upphafi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2024 | 19:08
Sunnudagur sem hvarf, tepruleysi og draumfarir
Veikindum var hrundið harkalega með góðum og miklum svefni, C-vítamíni, ColdZyme (fæst í apótekum) og óþolinmæði gegn slappheitum ... og það virkaði svona líka vel. Held líka að sterki maturinn frá sýrlensku vinum mínum í næsta húsi hafi gert mikið gagn. Chili er allra meina bót. Flensutöflurnar (í þann veginn útrunnar Tylenol cold+flu) tóku óþægindin að mestu svo ég missti bara einn sunnudag úr tilverunni, en kvarta ekki.
Fór að hlusta á ástarsögu milli meðvitunarleysiskafla í gær, til að minnka álag á ónæmiskerfið sem glæpa- og spennusögur valda örugglega. Að elska Jason Thorn, heitir sagan. Sárasaklaus í upphafi en svo skellur á svona líka erótík sem er vissulega holl fyrir piparjúnkur - en það er ömurlegt samt að detta í flensumeðvitundarleysi í miðjum lýsingum (og þurfa að spóla til baka). Ég hætti reyndar að vera tepra eftir að hafa þurft að útskýra allt um blóm og býflugur fyrir þrettán ára strák sem var byrjaður í kynfræðslu í skólanum og þurfti betri útskýringar. Þá þýðir ekkert að vera tepra.
Heilmiklar draumfarir fylgdu lasleikanum. Ég var kölluð á vakt hjá Aðalstöðinni til að sjá um útvarpsþátt en var ekki nógu vel undirbúin, þetta bara svo brátt að, og það komu stundum þagnir á meðan ég var að leita að músík (músíkin var nú samt komin í tölvur á meðan ég var í útvarpi) en draumar fylgjast ekki nógu vel með svo ég leitaði að geisladiskum ... en ég fékk útborgað í stórum pakka af úrvalskaffi ... og vitneskju um að ég yrði ekki kölluð út á fleiri vaktir út af öllum mistökunum. Svo í fyrrinótt heimsótti ég vinkonu mína til Berlínar (hún vann um hríð í Hamborg), í alveg ótrúlega lélegt húsnæði sem var þó mun betra að innan en utan, aðallega furðuleg aðkoman miðað við fínt fyrirtækið í raunveruleikanum.
Meira bullið. Veit ekki hvort flensulyfin orsaka drauma en þegar ég tók inn hættuaðreykja-lyfin árið 2020 hófust ofsafengnar draumfarir ... og því miður bara eitthvað svona bull.
Mynd: Keli á trefli. Myndin á veggnum er úr himnaríki, eftir Bjarna Þór listamann, sýnir einmitt Kela til vinstri og Krumma til hægri - skopmynd af ykkar einlægri, í afmælisgjöf eitt árið. Hún var gerð áður en Mosi kom til sögunnar.
Elsku dásamlega Bogga vinkona á afmæli í dag, en við kynntumst þegar við vorum fimm ára, bjuggum báðar í Nýju blokkinni á Akranesi. Himnaríki tilheyrir Gömlu blokkinni sem var fyrsta blokkin byggð hér, Nýja blokkin var sú næsta sem kom og nánast við hliðina á þeirri gömlu. Engan skugga hefur borið á vináttuna og þótt líði mánuðir á milli símtala og hittinga, skiptir það engu máli. Alltaf eins og við höfum hist í gær.
Eldum rétt mætti stundvíslega einhvern tíma eftir hádegi í dag. Ég var enn í svörtu náttfötunum sem gætu misskilist sem kósíföt og skellti peysu yfir - og ungi sendillinn sjokkeraðist ekki neitt. Eftir að ég sagði einu sinni við einn: Vá, eins gott að ég var búin í sturtu! ég búin að gleyma að ER var væntanlegt, og hann setti upp skelfingarsvip, hef ég ekki minnst á náttföt, baðfarir eða neitt slíkt, það fyrirfinnast greinilega svokallaðar horní hás-væfs (er að reyna að dulbúa ef börn lesa þetta blogg) og blaðrið í mér stundum hefur án efa hrætt suma. Ég fæ ekki lengur votta eða biblíusölumenn, hef ekki séð stefnuvotta áratugum saman og handrukkarar leggja ekki í mig, vissulega engin þörf ... en samt! Jú, ég fékk einu sinni stefnuvott þegar var farið í mál við mig vegna viðtals sem ég bar ábyrgð á þótt ég hefði ekki skrifað það - og óvinalögfræðingurinn hótaði (með stefnuvotti) að taka af mér himnaríki, án þess að nokkur málflutningur væri hafinn, og fékk fyrir það ákúrur frá dómara ... sem hataði mig samt því hann dæmdi mig nánast til dauða sem hæstiréttur gerði ögn manneskjulegra. Lengi vel var ég kölluð glæpakvendi af einum ættingja mínum. Sannanir fyrir því að allt hefði verið rétt í viðtalinu komu fram EFTIR réttarhöld og dóm sem fékk lögmann minn næstum til að gráta. Enn finnst mér furðulegt að hafa dómstólinn í Borgarnesi (2.000 íbúar) en ekki á Akranesi (8.000 íbúar). Sennilega af því að Skagamenn gera nánast aldrei neitt af sér - Borgarnes er auðvitað meira miðsvæðis sem þýðir þó samt að fleira fólk sem þarf að fara langt - eða færra fólk sem þarf að fara lengra ef yrði flutt á Skagann ... Allt breyttist reyndar þegar Friðrik Ómar flutti til Borgarness. Ég fylgi Friðriki á Instagram og hann er næstum því með flottara útsýni en ég, og þá er mikið sagt.
Mynd: Fína eldhúsið mitt í himnaríki, þar sem himneskar máltíðir verða til með aðstoð Eldum rétt. Vaninn er svo sterkur að ég sker allt grænmeti niður á pínulitla plássinu við hliðina á ísskápnum, þar sem örbylgjuofninn er núna, vinstra megin við vaskinn.
Já, ég var víst að tala um Eldum rétt þegar ég fór út í annað. Hér verður eldaður lúxusplokkfiskur í kvöld og svo á miðvikudag Tortilla-turn (mexíkóskt lasagne) ... hef prófað báða rétti og get svo sannarlega mælt með þeim.
Evrópukeppnin í fótbolta hefst á föstudaginn og nú eru sumir fúlir yfir því að RÚV ætli að færa aðalfréttatímann til kl. 21. Þegar ég bjó í London (au pair-stúlka) var aðalfréttatíminn á BBC alltaf kl. 21 sem var ansi fínn tími. Matartíminn og uppvaskið að baki og börnin komin í rúmið. Held að hann sé enn á þessum tíma. Ég er hissa á Kollu minni Bergþórs sem segja má að hafi komið mér upp á að fara að horfa á fótbolta fyrir ótalmörgum árum. Plataði mig m.a. með sér á Glaumbar þar sem úrslitakeppnin var á milli Brasilíu og Ítalíu ... Kolla sagði að við ættum að halda með Brössum svo ég gerði það auðvitað. Þetta fór út í vítaspyrnukeppni ... og Baggio klúðraði sinni spyrnu fyrir Ítalíu og þar með unnum "við". Gleymi aldrei ítalska parinu sem kom sér fyrir þarna við eitt borð með ítalskan fána og annað til að skapa stemningu og hafði óvart rambað inn á bar þar sem ALLIR hinir héldu með Brasilíu. Þau voru voða ljúf og allir góðir við þau. Nú er Kolla, samkvæmt nýjasta pistlinum, orðin nánast andstæðingur fótbolta ... nema það sé vegna breytinga á fréttatíma RÚV? Hún talar um íþróttaofríki en hlýtur bara að meina Ólympíuleikana, það skil ég betur.
Þessi nýi tími á fréttum verður til þess að fréttafólk þarf að mæta tveimur tímum seinna til vinnu og vinna tveimur tímum lengur sem er auðvitað hundleiðinlegt. En þessu lýkur 11. ágúst, daginn fyrir afmælið mitt.
Líf mitt snerist einu sinni um fréttir kl. 18.30 og svo aftur kl. 19, svo kl. 22 ... og á klukkutímafresti allan daginn í útvarpinu ... en ég nenni ekki lengur að festa mig yfir slíku, mögulega aukinn eða minnkandi þroski sem veldur því, alla vega breyttar áherslur - en að sjálfsögðu fylgist ég með fréttum, er bara ekki lengur fréttafíkill. Allt í einu fékk ég bara nóg og á sama tíma minnkaði sjónvarpsgláp niður í næstum ekkert. Mun bæta það upp með látum þegar ástkær fótboltinn byrjar á föstudaginn og stendur í mánuð!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2024 | 23:17
Allt gefið í botn, heimsóknir og hótun um kvef
Gestagangur hefur heldur betur lýst upp helgina. Eins og það er gott að vera ein er líka rosalega gaman að vera það ekki. Stórasystir kíkti í gær með eitt af sætu barnabörnunum, fyrirvari það góður að ég hafði náð að kaupa brauð, salat og eplaköku sem gladdi ömmgurnar mikið. Það var allt rosalega fínt, eiginlega eins og enginn byggi í himnaríki en það var ástæða fyrir því. Ég var búin að undirbúa bloggaðdáendur mína, um að í stað þess að bíða um hríð með sölu, sem var einn möguleikinn, ætlaði ég að gefa allt í botn varðandi höfuðborgardrauminn, fá "hákarl" í bænum (hákarl er hrósyrði) til að sjá um húsnæðismál mín frá A til Ö, selja himnaríki og finna nýtt ... og fyrsti hluti þess gerðist um morguninn þegar ljósmyndari mætti hingað vel græjaður af tækjum og hæfileikum. Sjá mynd (og fleiri hjá Lind). Það verður opið hús í himnaríki á miðvikudaginn (12.6.) kl. 18. Vissulega nánast tvíbókun, að vanda, en hár mitt verður klippt fyrr þennan sama dag ... en ég næ heim í tíma af því að fegrunaraðgerðin verður svo umfangsmikil að hana verður að taka í tveimur skrefum. Fyrst klipp (þann 12.) og svo lit (síðar). Aldurinn?
Ég bað sérstaklega um að opna húsið yrði ekki á föstudaginn því þá hefst EM í fótbolta. Sennilega skreppum við litlasystir austur (á Suðurland) daginn eftir, geymum okkur Norðurland þar til seinna í sumar. Maður fórnar án hiks þremur fótboltaleikjum fyrir bestu ferðafélagana.
Í dag kom einmitt ferðafélaginn besti í heimsókn ásamt Herkúlesi og Golíat, frændhundum mínum knáu sem óttast ekkert ... nema Krumma, svarta og hvíta óargakött himnaríkis sem reynir með kinnhestum (engar klær samt) að þagga niður í hressum hundum sem gelta stundum af gleði einni saman. Mér sýnist samt að ætlunarverk hans sé eiginlega frekar að vernda okkur mannfólkið fyrir þessum hvítu, hættulegu og háværu dýrum sem H og G eru, að hans mati. Keli og Mosi elska hvítu hundkrúttin og sennilega finnst Krumma það furðulegt háttalag katta um hábjartan dag. Svo kíkti elskan hún Hjördís (mömmur.is) og prufukeyrði ofboðslega góðan heitan brauðrétt á okkur systrum. Hjá mér fékk hún nýþiðnaða súkkulaðibananatertu til að smakka (sjá uppskrift í síðasta bloggi). Síðan héldum vér systur í fyrirhugaðan ísbíltúr með stráksa sem fékk nú bara heimsendan jarðarberjasjeik vegna annríkis hans og hrifningar á grilluðum hamborgurum, löng saga (allt of góður matur þar sem hann býr). Ég drakk þennan fína latte í ísbúðinni og Hilda fékk sér pínkulítinn bragðaref. Nýr eigandi Frystihússins kann að velja starfsfólk, strákarnir tveir sem voru að vinna í dag, voru ferlega fínir og annar þeirra gerði hinn fullkomna latte handa mér. Nóg að gera, og kaffihússviðbótin við ísinn er ansi fín, ekki mikið af bakkelsi kannski, en alveg nóg, finnst mér. Gott kaffi er aðalatriðið.
Hálsbólga herjar svolítið frekjulega á nú í kvöld svo það verður skriðið upp í rúm (bók: Svört dögun, búin með 9 klst. og 20 mín ... eftir eru 3 klst. og 10 mín. Mjög fínar bækur eftir Cillu og Rolf Börjlind). Er búin að spreyja hálsinn með ColdZymé sem er markaðssett gegn algengum kvefveirum og fólk segir að það virki. Minnir að það hafi virkað vel síðast þegar ég fékk hótun um komandi kvef því ekkert varð úr neinu. Tók að auki amerískt flensulyf áðan sem læknar ekki eitt eða neitt en líðanin verður svo miklu, miklu betri. Bandaríkjamönnum (330 millj.) er treyst til að óverdósa ekki á flensulyfjum en Íslendingum (380 þús. plús) er ekki treyst. Blessuð hjartans forsjárhyggjan - nema auðvitað yfirvöld í USA séu markvisst að reyna að fækka fólki á svona lymskulegan hátt.
Yfir og út í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2024 | 20:34
Klikkaðar kenningar og uppskrift að dásemdarköku
Eldsnemma í morgun, alveg um tíuleytið, stökk ég á fætur, hress eins og kornfleksauglýsing, og tók þá skynsamlegu ákvörðun að snúa mér ekki á hina hliðina til að lúra bara í klukkutíma í viðbót. Mér hættir til að taka unglinginn á þetta þegar ég þarf ekki að mæta neins staðar snemma á morgnana. Það var auðvitað dýrleg sturta, síðan sett í þvottavél og sitt af hverju sem ákveðið hafði verið ... en svo fór allt í rugling. Ég setti dropa í hægra eyrað þar sem ég sat við skrifborðið og tók eftir því að lyklaborðið var orðin ansi rykugt, sem og tölvuskjárinn, svo ég fór fram til að sækja bæði ryksugu og hreina tusku. Þegar ég kom inn í eldhús tók ég eftir því að bananarnir fjórir voru orðnir vel dökkir allt of þroskaðir. Væri ekki snjallt að baka bananaköku úr þeim? Ég hafði fundið brilljant uppskrift á netinu í gær, dökka, silkimjúka formköku, og skrifaði uppskriftina niður. Ég hófst handa við það, stökk þó fram á bað til að setja í þurrkarann og mundi þá eftir því að ég var ekki enn búin að ryksuga lyklaborðið en vildi klára fyrst að setja kökuna inn í ofn ... Rétt á meðan ég man áður en ég rýk í annað, hér er uppskriftin:
Súkkulaði-bananakaka
3-4 vel þroskaðir bananar (300 g)
200 g sykur
2 stór egg
125 ml olía
1 tsk. vanilludropar (ég átti bara vanillusykur)
190 g hveiti
50 g kakó
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. natron
1 tsk. salt
240 ml heitt vatn (1 bolli)
Stappið bananana og setjið í skál. Bætið sykri út í, eggjum, olíu og vanilludropum. Hrærið vel saman (í höndunum, ekki í hrærivél) Setjið í aðra skál þurrefnin; hveiti, kakó, lyftiduft, natron og salt og sigtið yfir bananablönduna. Blandið vel saman og setjið að síðustu heita vatnið út í. (Þetta er ansi þunnt deig og ég hélt að vatnsmagnið væri of mikið, minnkaði það oggulítið ...) Hellið deiginu í smurt form (frekar stórt) og bakið við 170°C í 40-45 mín. Eftir 43 mínútur var kakan langt frá því bökuð, prjónninn kom löðrandi út, svo ég setti á blástur og bakaði í 10-15 mín. í viðbót, þá varð hún líka æðisleg. Látið kökuna kólna alveg og búið til "kremið" á meðan ...
Ganache ofan á
160 g súkkulaðidropar (ég notaði Síríus-suðusúkkulaði, skar í bita)
120 ml heitur rjómi
Setjið súkkulaðidropana í skál, hitið rjómann í potti og hellið honum heitum yfir súkkulaðið og bíðið í þrjár mínútur. Hrærið síðan saman þar til súkkulaðið hefur allt bráðnað. Geymið í ísskápnum þar til kakan er orðin köld.
Mynd: Eins og sjá má heppnaðist kakan virkilega vel. Ganassið varð mun mattara hjá mér, eftir ísskápsveruna, enda kólnaði kakan sjálf mjög hægt, ég þurfti að skella henni út í norðurglugga, alveg við opnu rifuna svo norðankuldinn sæi um verkið. En góð er hún, virkilega góð.
- - - - - - - - - - -
Kakan fór inn í ofn, ég þreif eftir atganginn, mundi eftir að fara með ryksuguna inn í herbergi til að þrífa lyklaborðið, gerði það og setti síðan dropa í vinstra eyrað. Fór fram í eldhús til að sækja tusku til að þrífa skjáinn og strjúka yfir ryksugað lyklaborðið en rak augun í smádót inni í stofu sem þurfti að taka ...
Ég er ekki með athyglisbrest þótt ég taki alveg eftir gulum bílum, en ansi oft sé ég eitthvað sem þarf að gera og ræðst í það þótt eitthvað annað sé hálfklárað. Síðan, eftir einhvern tíma, er allt komið á sinn stað í öllum herbergjum íbúðarinnar og skrefafjöldinn mun meiri en hann hefði þurft að vera, sem er auðvitað ekkert annað en stórgott, finnst mér. Eins og ég get samt verið skipulögð. Það er kannski meira þegar kemur að vinnu.
Í nokkur ár hef ég verið með veglega kattaklóru í skotinu í fatahenginu, þar sem sópur, skúringarkústur, moppa og ruslafata undir flöskur og dósir hafa haft einnig haft aðsetur (svolítið í felum) en kettirnir líta ekki við klórunni, finnst sófar og rúm mun betri staðir til að brýna klærnar á. Hvað er þetta þá að gera hérna og það í nokkur ár? spurði ég sjálfa mig, pirruð og örg, ein lengi að fatta.
Ég er vinkona Villikatta Vesturlands, þess dásamlega félags, og spurði konuna sem varð fyrir svörum á fb-síðu félagsins hvort hún vildi klóruna og einnig mjög fínt og nánast ónotað bæli sem kattarassgötin mín líta ekki við, sennilega of háir "veggirnir" - sést ekkert þaðan nema standa upp ... og kannski missa af öllu fjörinu, svo Villikettir fengu það líka, enda eflaust einhverjir kettir hjá þeim sem kunna vel við meira prívat. Svo kom Inga darling áðan og sótti kringlótta borðið sem er eiginlega dottið í sundur, við efuðumst báðar um að Búkolla nytjamarkaður vildi það í gáminn ... Borðið þarf ekki bara ást og umhyggju, heldur smíðakunnáttu, gott lím og alls konar tæki og tól, held ég. En það hefur þjónað mér vel í áratugi.
Myndin sýnir kattaklóruna, bælið og borðið samankomið á ganginum í himnaríki. Þarna má sjá Krumma sem er skítsama um þetta allt saman.
Eins og sumir vita er ég mjög veik fyrir samsæriskenningum þótt ég hafi svo sem aldrei nennt að kafa mjög djúpt í þær. Ögn betri enskukunnátta myndi kannski breyta því eitthvað ... en á Facebook mátti sjá spurninguna:
Hver er klikkaðasta samsæriskenning sem þú hefur heyrt og veist að sumir trúa samt? Svörin voru nokkuð amerísk, enda fb-síðan svo sem þaðan, en bráðskemmtileg sem er það sem skiptir máli. Mjög mörg svör tengd Trump bárust, bæði með og á móti honum, og þá um að Biden hefði unnið kosningarnar síðast ... en hérna eru alla vega nokkur svör og örfá ættuð annars staðar frá:
- Að Trump muni vinna kosningarnar (úr fangelsi?)
- Að jörðin sé flöt.
- Að covid-bóluefnið hafi drepið fleiri en það bjargaði.
- Að vindorka og rafbílar séu góð fyrir umhverfið.
- Að flokkun rusls sé aðferð stjórnvalda til að stjórna fólki.
- Að bílstjóri J.F. Kennedys hafi skotið hann.
- Að breska konungsfjölskyldan sé í rauninni eðlufólk.
- Að Rússar hafi hjálpað Trump til að sigra 2016.
- Að Elvis sé enn á lífi og búi í Kentucky.
- Að við séum í raun bara tölvuleikur inni í tölvu.
- Að J.F. Kennedy sé enn á lífi.
- Að Jesú hafi verið hvítur.
- Að geimurinn sé ekki til.
- Að Bandaríkjastjórn hafi staðið fyrir árásunum 11.9 2001.
- Að ný sól hafi tekið við eftir síðasta sólmyrkva.
- Að Michelle Obama sé karlmaður.
- Að karlar vilji verða transkonur til að sigra í íþróttum.
Ef við gefum okkur að þeir tveir séu enn á lífi, þá verður Elvis Presley níræður í janúar á næsta ári og J.F. Kennedy er nýorðinn 107 ára.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2024 | 15:57
Spennandi óvissuferð og besta ryksugutónlistin
Æðisgengin vinkvennaferð verður farin núna í lok október, til að stytta veturinn, eins og vinkona mín orðaði það í símanum í gærkvöldi - og ég hoppaði á þetta. Við förum á hlýrri slóðir - í vel planaða vikuferð, með nýrri og víst mjög frumlegri og sniðugri ferðaskrifstofu, sagði hún. Þetta er eiginlega óvissuferð sem æsandi tilhugsun, og mér líst ágætlega á dagskrána eftir samtalið við vinkonuna. Rúta fer með okkur frá BSÍ og svo verður bundið fyrir augun á okkur áður en við stígum inn á Leifsstöð til að auka á spennuna, flugið tekur 8-28 tíma, er það eina sem var gefið upp, við fáum ekki að vita meira um áfangastaðinn. Stundum verður bara að fara út fyrir þægindarammann til að staðna ekki og hvaða kona vill vera kölluð gömul og huglaus?
Ég er að reyna að hlaða niður appi ferðaskrifstofunnar, eins og vinkonan ráðlagði mér, til að sjá betur dagskrá vikunnar okkar, 30. okt. til 5. nóv. en í símtalinu í gærköldi sagði hún mér af þessu sem mér líst mjög vel á:
-Geitaskoðun fyrsta heila daginn - sennilega hægt að kaupa sér geitaullarpeysur og klappa kiðlingum. Hljómar unaðslega.
-Nasahlaup, veit ekki hvað það er, en vinkonan hélt að það gæti verið skyndi-hraðheimsókn í geimferðasafn sem er geggjað! Mögulega er óvissuferðin til Bandaríkjanna. En ég tími ekki að giska.
-Búðaferð, ég lifi það af og það er alveg gaman í sumum búðum þar sem hægt er að sitja í loftkælingu og hanga í símanum. Væri samt auðvitað alveg hægt að kaupa nokkrar jólagjafir.
....
Ég er eiginlega búin að þríbóka föstudaginn en ekki allt á sama tíma, eins og mér hættir stundum til. Heimsókn til mín kl. 10, ég fer sjálf í heimsókn út í bæ að henni lokinni og svo önnur heimsókn í himnaríki kannski um tvöleytið. Svo ætlar stráksi mögulega að kíkja líka nema hann komi á morgun. Ég er í grisjunarskapi í dag, veit samt varla hvar skal byrja og íhuga hvort ég eigi að hlusta á háværa og hressa ryksugutónlist eða spennandi Ann Cleeves-sögu (Eldhiti) sem ég á rúma fimm klukkutíma eftir af. Ég spæni í mig bækur þessa dagana.
Nýlega sá ég á Facebook (erlendri síðu) spurninguna: Hvaða ryksugutónlist er best? Ágætis svör bárust. Það íslenska væri vitanlega hið stórgóða og hressa lag: Ryksugan á fullu. Svo eru líka lög á borð við Livin´La Vida Loca (Ricky Martin), Uprising (Muse), Luftgitar (Sykurmolarnir), Stun Gun (Quarashi), Cleaning out my Closet (Eminem), Smells like Teen Spirit (Nirvana), No One Knows (Queens of the Stone Ages) og fleiri og fleiri ... en hér er útlenski listinn, frekar stuttur, en svo margir sögðu það sama:
- Allt með Zeppelin og Metallica
- Another one bites the dust
- I want to break free
- 80s
- Salsa, latin, cumbia
- Chuck Berry
- 90s
- Abba-lög
- Dust in the wind
Ef maður er í vafa er kannski best að gera bæði, eins og strákurinn orðaði það um árið. Ég ætti að búa til hressan lagalista úr mínum eigin lista sem heitir Ýmis lög og inniheldur alls konar lög, róleg, hress, klassík, rapp, rokk, popp ... og vera svo með gemsann í vasanum, svolítið hátt stilltan og hlusta á sögu líka. Það gæti tvöfaldað afköstin. Ef ég þykist ætla að flytja einn góðan veðurdag myndi það auðvelda til muna að flytja færri hluti. Elsku Inga ætlar að taka fína kringlótta skákborðið og nokkra kassa fyrir mig á morgun upp á hauga, svo tekur elsku Hilda mín alltaf það sem ég þarf að losna við, hún er dugleg að fara í Sorpu.
VIÐBÓT. Vó! Ég komst inn á app ferðaskrifstofunnar núna rétt áðan, og þetta verður svolítið öðruvísi ferðalag en vinkona mín hélt.
Geitaskoðunin er víst geitungaskoðun ...??? Nasahlaupið virðist vera hlaup undan nashyrningum (svipað og nautahlaupið í Paloma). Ég finn ekki með gúgli hversu hratt nashyrningar geta hlaupið en þeir hlaupa varla hraðar en ég (fer þó eftir ástandi hægri hásinar). Búðaferðin virðist vera löng gönguferð í gegnum þéttan regnskóg að tjaldbúðum, eða rjóðri þar sem við þurfum að tjalda sjálfar úr efni sem við spinnum og heklum tjald úr, og veiða okkur til matar - með vopnum sem við búum til úr einhverju í náttúrunni! Mér finnst ég ekki geta hætt við ferðina þótt hún sé ekki alveg sú ferð sem ég borgaði stórfé fyrir í gærkvöldi og samkvæmt appinu er ekki hægt að fá endurgreitt. Að veiða sér vopnlaus til matar í frumskógi í 50 stiga hita er auðvitað meira ögrandi en t.d. Costco-ferð.
VIÐBÓT 2: Hver vill kaupa einn miða á besta stað í Hörpu, á Skálmaldartónleika 1. nóv?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2024 | 16:42
Að ýta Harry Potter til hliðar ... stutt í EM og séður stráksi
Bloggvinir mínir hafa ráð undir rifi hverju og það er fátt sem þeir ekki vita, eins og hefur margoft komið í ljós. Ég fékk skilaboð, alla leið frá Spáni, frá dásemdunum sem aka um á húsbíl og sýna okkur frá daglegu lífi sínu. Þau eiga alla mína samúð vegna hitans sem er að fara með þau. Þá er Ísland nú betra. Stóra Storytel-málið minnkaði hratt í kjölfarið á skilaboðunum og nú er svo komið að ég veit hvernig ég finn nýjar bækur og væntanlegar bækur. Eða allra, allra neðst þegar maður skrollar, og það þarf að ýta til hliðar.
Neðst hjá mér stóð Harry Potter (sjá lýsandi mynd) sem eru bækur sem ég hef margoft lesið og kannski frekar langt í enn einn endurlesturinn, EN þegar ég ýtti þeim ferningi til vinstri fann ég það sem ég þráði. Mér finnst ég svo heimsk, auðvitað hefði ég getað sagt sjálfri mér að ýta Harry Potter til hliðar, til að töfrarnir gerðust. Ég hef aldrei þorað á Tinder-stefnumótaappið, svo ég hef enga æfingu í að ýta til hliðar, sem mér skilst að þurfi að gera þar. Það nægir mér alfarið að fá Sælinú annað slagið á Facebook frá villtum, ævintýragjörnum, áhættusæknum, ókunnugum aðdáendum, þykjustuofurstum eða hjartaskurðlæknum á virðulegum aldri. Ég þarf engu að ýta til hliðar þegar ég eyði þeim án nokkurrar miskunnar.
Ég var líka að verða vitlaus á Eldum rétt fyrst (áður en mér var sagt til), það átti ekki að ýta á Matseðlar, heldur Veldu rétt, og síðan Þú getur Veldu rétti ... og svo mátti alls ekki taka mark á því þegar kom að engin heimsendingarþjónusta væri í mínu póstnúmeri. Auðvitað! Mjög fínn matur en nokkuð mikil hrifning á hnetum hjá kokkunum. Einu sinni datt mér í hug að panta hátíðarpakka og bjóða góðu fólki til mín á Skagann einhvern páskadaginn, en svo var einhver jarðhnetueftirréttur. Jarðhnetur eru annar mesti og hættulegasti ofnæmisvaldur heims, ef marka má gúggl og nú verð ég að vita hver er mesti ofnæmisvaldurinn ... ég giska á gróður ... bíðið aðeins.
Hlé ...
Sko ... sem ofnæmisvaldur er það mjólkin sem er algengust!!! Kúamjólk! En gróðurofnæmi er ansi víðtækt líka. Engin leið fyrir mig að finna almennilegan lista yfir allt ofnæmi í hætturöð, enda mætti ég vera betri í ensku til að geta leitað almennilega. Munið, ég er manneskjan sem hélt hálfa ævina að það væru mjög margir dýralæknar í hernum ... Ég les reyndar mjög, mjög hratt.
Veteran: uppgjafahermaður, stytting: vet
Veterinarian: dýralæknir, stytting: vet
Evrópukeppni karla í fótbolta, EM 2024, stendur frá 14. júní til 14. júlí. Ég hafði einsett mér að gera nákvæmlega EKKERT á þessum tíma nema horfa á fótbolta, eða þannig. Stóð ég við það, eða ætlum við systur kannski að skreppa dagsferð norður á land (innan NV-kjördæmis) þann 15. júní? Mundi ég eftir EM þegar ég sagðist auðvitað vilja koma? Nei. Verða mikilvægir leikir þarna á laugardeginum? Ja ...
Kl. 13: Ungverjaland - Sviss
Kl. 16: Spánn - Króatía
Kl. 19: Ítalía og Albanía
Verð bara að muna að þegar líður á keppnina að svara hvorki síma né netspjalli, en ef næst í mig: gera mér upp veikindi sem halda mér heima. Gubbupest, Covid, matareitrun, bráðsmitandi kvef, þursabit. Eitthvað samt sem kemur mér strax á fætur eftir leik og fram að þeim næsta. Hugmyndir vel þegnar.
Mynd: Frá HM 2018 þegar Hannes varði víti frá Messi!!! Þá var ég pottþétt stödd í Stykkishólmi og bara heppni að það hafi verið sjónvarp þar.
Ég er líka smeyk við að ég ákveði kannski í bríaríi að skreppa til útlanda í helgarferð í vetur. Vera búin að borga ferðina og hótelið og komin út á flugvöll, kannski 31. október, jafnvel sest inn í flugvélina þegar ég man eftir því að ég á miða á Skálmöld, tónleika í Hörpu 1. nóvember. Ég veit að það er gáfumerki að vera utan við sig og gleymin ... en samt. Að vera vel á verði, hafa ákveðið eitthvað löngu fyrirfram, setja það í rafrænu dagbókina ætti að vera nóg.
Ég er viss um að fótboltaleikirnir þarna laugardaginn 14. júní verða verulega óspennandi, þeim jafnvel frestað vegna leiðinlegheita ... Ekki gaman að að horfa á þá eftir á - frekar þátt á eftir með því besta úr leikjunum, ég lifi það alveg af. Og hver vill ekki skreppa norður í góðum félagsskap í góðan félagsskap?
Mynd: Mínir allra bestu menn.
Stráksi er kominn heim úr sumarbúðunum í Reykjadal, kom við í himnaríki núna rétt áðan á heimleið, bara rétt til að knúsa Gurrí sína og kettina. Ohh, hvað ég vildi að ég hefði mátt vera viku lengur, sagði hann. Það var svooooo gaman! Hann lofaði að hringja í kvöld og segja mér allt um dvölina. Ég er enn skráður greiðandi fyrir síma og net hjá honum, skv. þakklæti þjónustugjafa fyrir greiðsluna, þrátt fyrir að við höfum farið og látið breyta því í apríl. Honum finnst þetta eiginlega mjög hentugt og algjör óþarfi að vesenast eitthvað í þessu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2024 | 18:19
Storytel-breytingar, ástarsvör og batnandi sýn
Transistorútvarp, tékk - vatnsbirgðir, tékk - niðursuðumatur, tékk ... hér er reyndar enn mjög gott gluggaveður, enda aðeins ASA 6 m/sek núna en á eftir að aukast í dag og næstu daga, eins og alþjóð veit vonandi. Eldum rétt mætti stundvíslega upp úr kl. tvö og engan fokskaða var að sjá á léttfættum bílstjóranum. Þegar ég tók máltíðirnar tvær (fyrir tvo, dugar í fimm daga) upp úr kassanum horfði ég á bláa pokann sem fylgdi og var hálffrosinn eftir ferðina úr bænum, hann hefur það hlutverk að kæla matvælin. Svo fór ég að hugsa um hásinina sem hefur haft mig hálfhalta og hreyfingarlausa rosalega lengi.
Skyldi ég geta notað þennan poka á hásin hægri fótar? hugsaði ég. Eiginlega þurfti ég ekki að kíkja í spegil til að vita að greindin skein úr augum mínum en ég hoppaði nú samt fram á bað á annarri til að fullvissa mig um það.
Á meðan ég var að skrifa bloggið hafði frænka mín (í föðurætt) samband, með áhyggjur af hásin ykkar einlægrar, eins og þið öll auðvitað. Nú veit ég að þetta stafar ekki endilega af gömlum íþróttameiðslum sem tóku sig upp eða óvæntum hlaupum út á strætóstoppistöð ... hásinar geta verið ólíkindatól og frænkan þurfti í uppskurð á báðum um árið, sjúkraþjálfun á eftir og er orðin góð. Ég tékka á þessu. Frænkur eru frænkum bestar.
Myndin samsetta er vissulega átakanleg, enda tókst mér ekki að hafa rétta röð á myndunum, reyndi það samt. Fyrri myndin sýnir MJÖG bólgna hásin ... en myndin ætti að vera sú seinni, og sýnir fótinn eftir að ég tróð ískalda pokanum ofan í sokkinn. Jú, það sést í bert hold (afsakið) og ég er svolítið eins og undanrenna á litinn, brúnkukrem keypt í hittiðfyrra en enn óopnað, er það alveg í lagi?
Hvar er klíkan þegar mest er þörfin? Það er rúmur mánuður í að ég geti fengið allsherjaryfirhalningu á hárgreiðslustofunni minni. Ég þarf alltaf að bíða þangað til karlar hætta að stara á mig með vonarblik í augum og verða flóttalegir til augnanna, þá panta ég tíma og þarf oft að bíða og bíða. Og buffin að komast úr tísku og fínir silkiklútar um hálsinn komnir í staðinn SEM HENTAR MÉR MJÖG ILLA núna. Mín hár-kona veit hvers konar umhverfisskaða ég er farin að valda og bauð upp á drög að fegurðarauka ... eða klippingu án litar og einnig andlitsframköllun (augabrúnir og augnhár lituð). Eftir rúma viku ... sem er miklu betra en allsherjar sem ég gæti annars fengið 12. júlí. Svo leggjum við á ráðin með restina í næstu viku.
Í dag sést eldgosið handan Faxaflóa mun betur en áður (sjá mynd) - hingað til hefur útsýnið á gosstöðvarnar ekki verið sérlega gott. Ekki einu sinni á kvöldin. Sjórinn er líka mjög flottur - þegar blæs að norðan stækka öldurnar stundum og verða voða fínar og tærar sem er ekki síður æðislegt en brimið. Það verður erfitt að slíta sig frá himnaríki og sjónum mínum þegar ég flyt í bæinn. Kannski ég biðji tæknisnjallan frænda minn um að búa til samhangandi sjódagskrá úr öllum myndböndunum mínum frá Langasandi sem ég gæti látið ganga í lúppu í sjónvarpinu þegar söknuðurinn sækir að.
Ég nota Storytel mjög mikið. Nýlega urðu ákaflega fúlar breytingar þar. Eða búið að gera flóknara (ómögulegt?) að finna VÆNTANLEGAR BÆKUR og NÝÚTKOMNAR BÆKUR sem ég notaði allra, allra mest. Ég fór minnst vikulega í fyrrnefnda flokkinn og skellti stjörnu á þær bækur sem vöktu áhuga minn og svo var ég látin vita þegar þær mættu á vettvang, volgar og safaríkar úr upptökuklefanum. Of mikilvægir flokkar til að gera þá að undirflokkum sem flókið er að finna. Núna sé ég bara Haltu áfram að hlusta, Mælt með fyrir þig, Af því að þú last, Bara á Storytel, Topp 50 bækurnar á Íslandi í dag!, Nýjar fyrir þig, Glæpasögur, Bækur sem leitað er að, Bókagull mælir með, Vegna þess að þú settir í bókahilluna, Vinsælar glæpasögur, Uppgötvaðu eitthvað nýtt, Hlustaðu eða lestu, Af því að þú last.
Svo þegar farið er inn í Seríur, einhvers staðar þarna í miðjunni, koma Nýjar og Væntanlegar. Og í Væntanlegar-flokknum eru bara erlendar bækur, lesnar á ensku. Ef þessir mikilvægu flokkar fyrirfinnst einhvers staðar, vill þá einhver láta mig vita hvernig ég finn þá. Þetta eru skelfilegar breytingar ... fyrir manneskju sem notar langmest Væntanlegar-flokkinn - til að geta hlakkað til einhvers í þessari voluðu veröld ...
Fannst á Facebook:
Misskilningur í gangi hjá sumum fjölmiðlum ... Eins gott að ég get leiðrétt þetta. Þau voru alls ekki að eignast 26. stúlkuna, heldur þá þriðju. Minnir á langalangafa minn (Jónas frá Hróarsdal, Skagafirði) sem átti einmitt 26 börn, bæði stráka og stelpur, innan hjónabands, börnin hans urðu alls 32, nokkur fæddust milli hjónabanda hans. Jósteinn langafi, pabbi hennar Mínervu ömmu var einn af þeim.
Þjóðin stendur frammi fyrir stóru vandamáli núna. Hvað köllum við manninn hennar Höllu, tilvonandi forseta? Hann er fyrsti karlkynsmakinn á Bessastöðum. Nú er hefð fyrir því að kalla konur herra, sbr. ráðherra, svo kannski gætum við haldið okkur við forsetafrú? Bragi Þór, stórfeisbúkkvinur minn, veltir þessu fyrir sér og segir í lok hugleiðinga sinna: Ef ekki getur orðið sátt um "forsetafrú" er ég kominn með frábæra lausn sem er sú sama og noruð var um breytinguna á titlinum "hjúkrunarkona". Hér með verður maki forseta (og þetta gengur fyrir bæði kyn) kallaður "forsetafræðingur"!
Myndin tengist umfjöllunarefninu óbeint, en hún fannst nú samt á Facebook ...
Hvaða svar við Ég elska þig veldur mestum vonbrigðum?
Takk.
Ást er ekki nóg.
Mér finnst þú sérstök/sérstakur.
Við ættum að hitta annað fólk.
Ég elska mig líka.
Ég veit.
- Þögn
- Hlátur
Hver er þetta?
Mér þykir vænt um þig.
Bíddu, ert þú ekki í nálgunarbanni?
Vó, þú ert þriðja manneskjan sem segir þetta við mig í dag.
Viltu gjöra svo vel að sýna mér ökuskírteinið þitt!
Þú ert ekki svo slæm/ur!
Má bjóða þér að panta núna?
Hver ertu og hver opnaði fyrir þér?
Þú líka?
Sömuleiðis.
Og?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2024 | 15:04
Klístrað óhapp og útgöngulagið loks fundið
Vaknaði fyrir allar aldir í morgun um níuleytið. Nú skyldi gengið til kosninga, ekki þó gengið, heldur farið á hvítri drossíu, Teslu ... Reyndar ekki með riddaranum á hvíta, heldur dásamlegri vinafjölskyldu. Þau komu stundvíslega kl. 10.35 eins og samið hafði verið um, svo ég kaus í fyrsta sinn á ævinni fyrir hádegi. Nýr kjörstaður að þessu sinni, kosið í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Yfirleitt hefur það verið gamli skólinn minn, Brekkubæjarskóli, en síðast reyndar, eða í alþingiskosningunum, var íþróttahúsið hér á hlaði himnaríkis notað.
Kjördeild 2 var vingjarnleg - og setti ekki út á að í vegabréfi mínu stóð bara Guðríður Haraldsdóttir, ekki millinafnið Hrefna en svo stutt er síðan ég fékk millinafnið að kjörgögn eru sennilega enn með gamla nafnið mitt, sjúkk. Til öryggis var ég reiðubúin að heimta að tala við kjörstjórn og sýna henni bréfið frá Þjóðskrá um nýja millinafnið. Fagmannlega fólkið sem gætti þess að allt færi rétt fram, leit á ófalsað vegabréf mitt, leit svo upp og horfði á fegurðina sem hafði lítt dvínað frá því vegabréfsmyndin var tekin - en eina fölsunin var að ég hafði skellt farða í andlit mitt - svo ég leit ekki út fyrir að vera deginum eldri en svona 45 ára, fannst mér svipur fólksins segja. Ég var auðvitað búin að ákveða mig og setti X-ið á þann stað sem mér fannst réttur. Ekkert taktískt en ég vona að minn frambjóðandi hljóti góða kosningu sem hann á skilið. Það verður svo sirka óhætt að fara á feisbúkk á þriðjudag, miðvikudag - og þá getum við farið að tala um ketti, kaffi og annað skemmtilegt.
Myndin: Það á ekki að bakka á myndum, heldur eins og taka skref áfram, beina sér fram á við, ekki aftur á bak, sagði eitt sinn klár atvinnuljósmyndari sem var að mynda viðmælanda minn (Katrínu Fjeldsted lækni) fyrir nokkrum árum. Þessi mynd er framávið-mynd - sem var betri en þær fyrri og þarna var ég að reyna að stilla mig um að hlaupa ekki til sætu hundanna hægra megin, uppstillt eins og fyrirsæta. Samt í fk. Cartman-jakkanum sem er 10-15 cm of stuttur ...
Ættum við ekki að kíkja í Kallabakarí og halda aðeins upp á þetta, spurði vinkona mín, maður hennar og sonur kinkuðu kolli og ég auðvitað líka. Hafði lagt svo mikið upp úr fegurðinni að ég borðaði bara mína súrmjólk, kornfleks og púðursykur, og gleymdi kaffibollanum. Lagði þó bara í kakóbolla í bakarínu þótt kaffið þar sé ekkert vont. Það átti eftir að reynast örlagaríkt. Ég er ekki vön því að hella niður eða detta og fá á mig gat (á 40 ára fresti) og slíkt, en á meðan við vorum að tala um hótelið sem kemur kannski við hliðina á himnaríki, og ég var að tala um andstöðu margra Skagamanna við það, þegar ég rak mig í kakóbollann sem skvettist yfir mig, töskuna mína í stæinu við hliðina og bjó til stóran kakópoll á gólfið. Kaffi hefði aldrei gert þetta óhapp svona klístrað því ég nota aldrei sykur eða bragðsíróp ... en elskuleg stúlka kom og bjargaði mér, þreif allt mjög vel. Við drifum okkur út áður en hún skellti mér í bað ... Þetta gerði einhver hóteldraugur, sagði ég spámannslega, þetta var fyrir því að annaðhvort komi hótel þarna eða ekki, bætti ég greindarlega við.
- - - - - - - -
Facebook er full af kosningaáróðri núna en Halldór fjandi skrifaði áðan: Ætli fólk sem skrifar kostningar stundi samtfarir?
Ég kveð frábæra forsetann okkar, Guðna Th., með miklu þakklæti (hann dýrkar og dáir Skálmöld) og óska nýjum forseta alls hins besta frá og með morgundeginum.
- - - - - - -
Eftir að hafa sest á rökstóla, aðallega með sjálfri mér, ákvað ég að halda áfram að reyna að selja himnaríki og sóttist eftir aðstoð fasteignasala úr bænum sem þarf þá að finna íbúð við hæfi handa mér í staðinn. Hún ætlar að kíkja á mig í næstu viku og henni finnst himnaríki gjörsamlega geggjað! Ekkert rosalegar kröfur sem ég geri um nýtt himnaríki í bænum, ég vil vera þar sem er líf og fjör, góð en "ódýr" íbúð, stutt í allt og sem minnst af gróðri í kring. Við erum nokkur sem teljum lífshamingju okkar ekki ógnað með steinsteypu.
Einstaklega falleg tónlist hljómar undir auglýsingu frá RÚV um menningarþátt ... og ég hef ekki munað eftir eða kannski ekki kunnað við að opinbera vanþekkingu mína en lengi langað til að vita hvaða tónlist þetta er. Var í tónlistarskóla í þrjú ár, þá sjö, átta og níu ára, og ætti að vita eitthvað. Lærði t.d. að það ætti að bera Chopin fram sem Sjópeng, ekki Tjópin, eins og einn lesarinn hjá Storytel gerir. Fannst aðeins of langt gengið að hringja í RÚV og spyrja, gerði það nú samt einu sinni fyrir langalöngu, upp úr tvítugu, minnir mig, og með góðum árangri, þá var það Ófullgerða sinfónían (nr. 8) eftir Schubert, og keypti mér plötuna í kjölfarið. Nú er ég minni óhemja og vonaði bara að þessa tónlist ræki á fjörur mínar einhvern daginn. Ég var búin að vígbúast með appi í símann minn, appi sem ber kennsl á alla tónlist, þarf ekki að heyra nema smáhluta úr lagi. Svo var ég að hlusta á Krýningarmessu Mozarts, eins og maður gerir annað slagið, og leyfði svo YouTube-veitunni að velja eitthvað svipað þegar henni var lokið ... og þannig fann ég þessa dýrð. Myndbandið er mjög áhrifamikið líka. Spurning um að biðja ættingja mína um að hafa þetta frekar útgöngulagið í útför minni, í staðinn fyrir Hel með Skálmöld, eins og ég var búin að fá samþykkt. Spila Hel frekar í erfidrykkjunni ...
Þetta er verk eftir Christopher Tin (f. 1976) og heitir Sogno di Volari (The Dream of Flight). Ég læt lagið fylgja með til að þíð fáið notið, elsku bloggvinir, þið sem ekki hafið nú þegar uppgötvað þessa snilld. Þetta hristir upp og hrærir í tilfinningum. Nú langar mig í kór aftur og fá að syngja þetta og fleira eftir þetta stórkostlega tónskáld. Um leið og ég hætti að reykja varð röddin svo miklu hreinni.
Bloggar | Breytt 3.6.2024 kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 25
- Sl. sólarhring: 115
- Sl. viku: 688
- Frá upphafi: 1516038
Annað
- Innlit í dag: 25
- Innlit sl. viku: 566
- Gestir í dag: 25
- IP-tölur í dag: 24
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni