Færsluflokkur: Bloggar
12.7.2024 | 15:04
Að finna milljón, flottar strípur og fallandi ungdómsvíg
Nýlega barst mér launagreiðsla sem er ósköp eðlilegt í lífi vinnualka, ég sá það í gemsanum, er tiltölulega nýbúin að hlaða niður bankaappinu án þess endilega að ætla að gera bankaviðskipti mín framvegis í gegnum síma! og ákvað að tvítékka á málinu. Svo ég vippaði mér þangað inn. Sá að greiðslan hafði farið á reikninginn og svo fór ég að skoða mig um ... Hei, bíddu, hvað var þetta? Lífeyris-eitthvað, svona séreignardæmi sem ég hafði ekki hugmynd um? Nei, þetta hlaut að vera fádæma grimmdarleg auglýsing um að ef ég ætti þessa upphæð fengi ég x-mikið í vexti ... Hvað er verið að vekja vonir hjá fólki, blekkja það - og það í þess eigin heimabanka? Mig sem vantaði sárlega pening til að geta með góðu móti keypt sjúskuðu íbúðina á draumastaðnum og gert hana heimilishæfa, þetta var allt of gott til að vera satt. Ég sagði vinkonu frá þessu í símtali og hennar viðbrögð voru: Ekki ýta á neinn hlekk! Ég urraði innra með mér en útskýrði að ég hefði ekki fengið neitt sent, engin gylliboð, og langaði að minna hana á að ég hefði náð 85 í greindarvísitölu, tekið greindarpróf á ensku um árið og ekki skilið allt, misskilið sumt, svo ég næði sennilega 150 á íslensku. En hún trúði mér í fyrsta. Það er svolítið eins og að vinna í lottói að lenda í svona. Hjálpar mikið og minnkar áhyggjur.
Myndin sýnir bæði gemsann góða OG stórkostlegar strípur sem koma við sögu hér ögn neðar.
Daginn eftir kíkti ég í heimabankann (með von í hjarta en fullvissu um að þetta gæti ekki staðist) og ... þetta var rétt, engar skrilljónir en samt, ég gæti keypt þessa íbúð (sem ég gat svo sem með herkjum þó) OG látið gera við það helsta sem kostar sennilega hátt í milljón. Ég var eiginlega búin að gefa íbúðina frá mér því það er ekkert gaman að flytja úr himnaríki í ja ... hreinsunareld. Sá fyrir mér litla kjallaraíbúð þar sem skordýr ættu greiðan aðgang og ég í sífelldu taugaáfalli ... það er talsverður munur á verði íbúða eftir hverfum, hvað þá milli landshluta. En í dag verður gert tilboð, akkúrat mánuði fyrir afmælið mitt, og svo er bara að krossa fingur að keðjan gangi upp sem fyrst. Þá er það Kópamaros, kannski með haustinu ef allt gengur vel.
Það varð allt vitlaust á Akranesi í gær ... sem betur fer er hárgreiðslustofan mín í útjaðri bæjarins, í verslanamiðstöð (þær eyðileggja miðbæi, segja sum) því elskan hún Anna Júlía gerði mig svo fína og sæta ... nú er ég með strípur, ég legg ekki meira á ykkur, hef ekki verið svona ljóshærð í áratugi. Guðrún vinkona kíkti óvænt á Skagann, og beið á meðan strípuathöfnin kláraðist, síðan fórum við að dingla okkur sem er svo gaman á Skaganum. Hún elskar Einarsbúð, eins og ég, þar gat ég keypt inn fyrir helgina ... og svo keypti hún sér fínan kjól í Bjargi, þeirri æðislega flottu og fínu fatabúð, skáhallt á móti hinni verslanamiðstöðinni (sem átti að verða nýi miðbærinn).
Ég þurfti eiginlega að endurhugsa minn gang eftir strípurnar, flytja eða ekki flytja. Ef ég lauma að þér 50 krónum, ertu þá til í að flytja í bæinn með stofuna, langaði mig að segja við hárgreiðsluséníið mitt en svo komst ég að því að hún fær kúnnana sína alls staðar að af landinu, ein kemur alla leið frá Patreksfirði ... hvað er þá einn Kópavogur á milli vina? Sjórinn minn hefur líka verið mjög flottur í sunnanáttinni og rokinu, verður sárt saknað. Þetta er vissulega draumasumarið mitt, ég þori að segja þetta af því að ég er alltaf með læst hjá mér, viftan hefur bara einu sinni farið í gang í allt sumar, EN ... ég hef samt innilega samúð með sóldýrkandi fólki sem er orðið eins og undanrenna á litinn, svo ég sker mig ekki lengur úr.
Mér líður rosalega vel af þessum háþrýstingslyfjum sem ég hef tekið í tólf daga, hugurinn miklu skarpari (sem kemur sér aldeilis vel við yfirlestur), líkaminn líka en ég bíð samt, ekki svo spennt, eftir því að ungdómsvígin falli hvert af öðru. Um leið og ein kýrin byrjar ... þið vitið.
Í byrjun júlí féll fyrsta vígið, ég fór á lyf í fyrsta sinn á ævinni (fyrir utan auðvitað verkjalyf, pensillín og slíkt). Í kjölfarið hljóta endajaxlarnir að fara að láta sjá sig ... og mögulega líka ellifjarsýnin sem hefur enn ekki látið á sér kræla. Já, ég er vinkonan sem var látin lesa textann aftan á vídeóspólunum í gamla daga, en ... reyndar sé ég illa frá mér þótt ég sé með gleraugu, og vinka bara öllum sem ég held að séu að veifa mér þótt ég sjái ekki hver þetta er eða hvort viðkomandi er bara að klóra sér í hausnum. Það getur örugglega valdið misskilningi í sumum tilfellum en ég sé eða veit það hvort eð er aldrei. Lítið breyst í áratugi, í hugum sumra er ég kannski skrítna konan sem er alltaf að veifa (reyna við manninn minn, reyna að húkka sér far ... o.s.frv.)
Facebook-spurningin
Hvað gerum við sem við myndum aldrei viðurkenna fyrir öðrum?
Frekar mörg svör bárust, og það "vinsælasta" var:
- Pissa í sturtu!!!
Svo kom:
- Bora í nefið.
- Borða níu dósir af ravioli í einu.
- Prumpa á almannafæri.
- Dæma annað fólk.
- Gleyma að nota tannþráð.
- Þefa úr eigin armkrikum.
- Drekka mjólk beint úr fernunni.
- Kíkja á nágrannana milli rifa á gardínunum.
Að sjálfsögðu er þetta erlend rannsókn enda myndi ekki nokkur hræða búsett hér á landi gera neitt á borð við þetta ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2024 | 23:46
Stutt bæjarferð, vandræðalegt símtal og kökuvarúð
Fínasta bæjarferð farin í gær og svo flýtti ég mér rosalega heim aftur til að ná Englandsleiknum í dag ... sem verður svo ekki fyrr en á morgun. Dæs. Hefði viljað sjá England og Holland í úrslitum. Ég skoðaði íbúð sem ég hafði haft augastað á og var hálfleið á eftir, svo mikið þarf að gera fyrir hana; baðið þarf að gera mikið fyrir og sitt af hverju annað sem þarf virkilega að snurfusa sem er kannski eðlilegt, en auðvitað erfitt að fara úr fullkomna himnaríkinu sínu í gamla og lúna íbúð sem hefur verið í útleigu lengi, samt 20 árum yngri en himnaríki.
Himnaríki var svo sem ekki sérlega fínt og flott þegar ég flutti inn í það árið 2006, enda keypti ég útsýnið, en íbúð og súpergóðir nágrannar fylgdu. Parketið í stofunni var ljótt, það fraus í leiðslum eldhúsmegin ef fór niður fyrir mínus fjórar gráður, nema ég léti vatnið renna í eldhúsvaskinum sem forvörn, bara í smábunu á meðan frostið varði (fraus tvisvar, slapp við afleiðingar, lagað 2020). Þessi íbúð sem ég skoðaði í dag getur orðið svakalega flott ef ég vinn í happdrætti, eða verð jafndugleg að vinna næstu árin og ég hef verið undanfarin ár - þrjú störf hið minnsta. Kannski ekki alveg öll á nákvæmlega sama tíma.
Ég sat á kaffihúsi í gær þegar ónefndur ættingi hringdi frá vissu útlandi.
Ertu búin að selja? spurði hann.
Já, ég er komin í keðju, svaraði ég lágmælt, vil ekki vera týpan sem öskrar í síma á almannafæri.
Nú? Ertu byrjuð í BDSM aftur? spurði hann hárri röddu svo systir mín (sem sat við hlið mér) heyrði hryllinginn. Miðað við herptan-handavinnupoka-munnsvipinn verður mér ekki boðið í jólamat hjá henni í ár, kannski aldrei aftur. Ég var reyndar enn herptari af hneykslun. Svo finnst mér merkilegt að komast að því að frændinn viti hvað BDSM er. BDSM gæti auðvitað alveg verið spennandi klúbbur: Beiskar dömur sem mjálma. Kannski Bersöglir dónar sem múna ... og svo framvegis. Þessi frændi bjó reyndar til nýyrðið hlekkjalómur sem er þó engan veginn lýsandi fyrir stöðu mína núna í íbúðamálum. En keðja segir samt allt.
Héðan í frá harðbanna ég öllum sem ég þekki að draga mig í Costco ... Þar fæst nefnilega stórhættulegt fínmeti, eða súkkulaðikornfleksbitar sem ég keypti reyndar í Einarsbúð nýlega, eða fyrir Írska daga, handa gestunum sem kæmu eflaust til mín. Hmmm Sjötíu litlar kökur - ekkert hnetudrasl, bara mjólkursúkkulaði ... ég mjög upptekin í að lesa yfir skemmtilega bók, svo gott að fá sér kaffi og bara nokkrar, eiginlega örfáar kornflekssúkkulaðikökur til að maula með. Á innan við viku kláraðist kassinn og ég veit ekki hvernig. Mig minnir að einhver hafi komið í heimsókn en held að það sé bara óskhyggja því þessar sjötíu litlu kökur (bitar) eru einhvern veginn horfnar, plastkassinn meira að segja kominn út í plast- og pappatunnu. Það getur ekki hafa verið ég ein ... búálfar eru vitlausir í kornflexkökur, minnir mig að ég hafi heyrt. En til öryggis, ekki ræna mér í Costco. Veit að kaupmenn í Einarsbúð afgreiða mig ekki aftur með þetta, ég er búin að senda beiðni um það. Varúð, elskurnar. MYNDIN er rammstolin af netinu. Síðan mömmur.is gerði þessar kökur sem eru án efa jafnofboðslega hættulega góðar og þessar úr Costco.
Internetið spyr:
Hver er fljótlegasta leiðin til að missa alla vini þína? Hér eru helstu svörin ... og ekki einn einasti Íslendingur sem svarar, svo hér er auðvitað bara stórmerkileg innsýn í hugarheim útlendinga!
- Verða edrú.
- Verða heimilislaus og fá að gista hjá þeim í nokkra daga.
- Segja þeim að þú hatir The Princess Bride.
- Segja þeim að þeir virki svo miklu hraustari eftir að þeir bættu svona miklu á sig.
- Pólitík og trúarbrögð.
- Reyna að selja þeim líftryggingu.
- Byrja að tala um guð.
- Fara með þeim í langt ferðalag.
- Tala hreint út, það virkar vel hjá mér.
- Ljúga endalaust að þeim.
- Kaupa hús í öðru landi, flytja og skipta um símanr. og nafn.
- Gerast repúblikandi.
- Setja þeim mörk.
- Hætta að bjóða á línuna.
- Fá sífellt lánað hjá þeim, gleyma að skila því.
- Barnlausir vinir sem reyna að kenna þér að ala upp barnið þitt ...
- Segja trúuðu vinunum að þú sért trúlaus.
- Segja: Ég er ekki rasisti en ...
- Sofa hjá maka þeirra.
- Gleyma því hvað þeir heita.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2024 | 18:23
Góss dagsins og kona með ökklaband ...
Gífurleg heppni að hafa misst af fyrri hálfleik, skilst mér (England-Sviss), svo leiðinlegur á hann að hafa verið. Ég var stödd niðri í bæ í vöfflu hjá Slysavarnarfélaginu þegar hann byrjaði og ég laumaðist til að skella honum á í gemsanum en ætlaði bara að horfa ef ég heyrði öskur í þulinum. Það var eftir ráp um svæðið, ég heimsótti t.d. alla þrjá markaðina og kom heim með góða græðikremið (Fjólu-smyrslið) hennar Þuríar og sérlega fallegan margnota poka undir ýmislegt til að druslast með á markaðinum hjá Báru, einnig flott eldgosskort eftir Hrönn snilling, keypti svo í Jónsbúð fallegt silfurhálsmen með steini, grænum steini sem var sennilega einu sinni glerflaska (brennivín, Fresca?) og fannst á Langasandi, ansi hreint vel sorfinn af hafinu. Friðrik Ómar, nýi Borgnesingurinn, söng nokkur lög á Akratorgi á meðan ég var þar, og er sérlega fínn söngvari ... húmorinn hans er jafnvel enn betri.
Við stráksi áttum stefnumót um hálftvö í dag og ætluðum að hittast fyrir utan Einarsbúð en ekkert bólaði á honum þar þegar ég mætti þangað, svo við færðum hittinginn að húsinu þar sem tannlæknirinn okkar er með stofu og Arion banki með bankaþjónustu í formi hraðbanka. Mikið líf og fjör í miðbænum og ég náði að faðma nokkra menn (jessss) og líka kjeddlíngar auðvitað, klappa sætum hundum og gleðjast almennt. Það skyggði á gleðina hjá stráksa að finna hvergi kjúklingaborgara, ég ætlaði að splæsa, en matarvagnarnir voru færri en stundum áður. Vaffla m. sultu og rjóma + kakó (500 kall á mann) bjargaði okkur alveg og var alveg stanslaus umferð þangað, svo lágt verð trekkir að, eitthvað sem Skagamenn kunna og aðrir mættu draga lærdóm af. Skilst að hringekjan á hafnarbakkanum í Reykjavík sé alltaf tóm því það kostar 3.000 kall ferðin ... Skagamenn myndu rukka um þúsundkall og allt myndi fyllast og allir græða.
Í kvöld verður brekkusöngurinn, ég hef aldrei farið þangað (á mínum 18 árum hér ...) bara opnað glugga. Kannski kíki ég í kvöld með stráksa. Miðað við að himnaríki sé selt (með fyrirvara) og ég komin í keðju, er fremur ólíklegt að ég verði hérna á næsta ári. Kannski get ég faðmað fleiri karla í kvöld ef ég fer út, mér skilst að slíkt sé líklegra ef ég geri það.
Bloggvinir mínir vita að ég er ekki mikið "sólskinsbarn", forðast sól og hita og er langtum meiri áhugamanneskja um innivist en útivist sem orsakar alltaf sama vandamálið ef ég neyðist til að fara út á góðviðrisdögum ... í búð, á Írska daga, bara eitthvað. Ég á engan sumarjakka, bara cartman-jakkann minn, þennan breiða og stutta sem ég þoli ekki en hann er hlýr í svala og ég gæri verið í lopapeysu innan undir í kulda. Í dag var ég í þunnum bol innan honum, nánast kynæsandi bol, svo þröngur er hann með vítt hálsmál, svipaður og kynþokkabolurinn sem mamma gaf mér eitt árið þegar hana langaði í tengdason ... löng saga. Ég var sem sagt eina manneskjan á Akranesi sem gladdist innilega þegar smávegis hafgola mætti á svæðið og þunn ský drógu úr vítishita sólarinnar - ég reyndi að hanga í skugga en það var ekki alltaf hægt. Eitt árið gekk ég bara í regnkápu (það var hræðilegt, lítil öndun) en með því tryggði ég Skagamönnum nánast þurrt sumar. Strax í haust verð ég búin að steingleyma sumarjakkaskortinum ... svona hefur það verið í mörg ár.
Ég náði rúmlega fimm þúsund skrefum og dagurinn ekki búinn. Síminn minn ræður sér ekki fyrir kæti. Eftir að ég tók hásinar-lækninguna föstum tökum, kældi, íbúfenaði, hælhækkaði og hvíldi, hrapaði meðalskrefafjöldi niður í um 800 skref á dag.
Fyrir gönguna niður í bæ skellti ég vissulega íbúfeni í mig, þrátt fyrir undarlega mikinn bata á örfáum dögum, setti frosinn poka við hásinina og sokkinn yfir, fór í skóna með hælhækkuninni og tölti frekar rólega af stað. Ég sá stöku óttablik í augum sumra sem ég mætti og það var ekki fyrr en á heimleiðinni að ég áttaði mig á því að litli pokinn við hásin hægri fótar leit út eins og ökklaband sem fylgist með ferðum glæpóna. Mér fannst það nú bara töff. Þegar ég gúglaði mynd af hásin áðan, sá ég nýtt orð sem ég hef ekki heyrt áður, hásinarbólga. Ætla þó ekki að sjúkdómsgreina mig með hana, hef lært nógu mikið síðustu daga til að vera ekkert að því. En ég ætla að lesa mér til samt. Getur verið að ég hafi verið að gera stóra vísindauppgötvun, að háþrýstingslyf séu góð við hásinarbólgu? Hlutirnir gerast hratt þessa dagana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2024 | 20:20
Tvennt mjög mikilvægt og hitt himnaríkið á Akranesi
Fótboltinn verður eiginlega óáhorfanlegur þegar fer í framlengingu, hvað þá vítaspyrnukeppni, stundum slekk ég, sem hefur eflaust haldið blóðþrýstingi mínum lágum allt þar til nú. Að skjóta fram hjá er líka streituvaldandi hér í himnaríki, svo ég settist við bloggskrif til að dreifa huganum. Ég þurfti ekki annað en að hugsa sólarhring aftur í tímann til að fyllast hugarró og hamingju. Ég lenti nefnilega fyrir tilviljun í hinu himnaríkinu á Akranesi, pallinum fyrir framan æskuheimili mitt bak við Einarsbúð þegar við Inga vorum að koma frá því að skoða geggjuðu sýninguna hennar Tinnu Royal þar. Inga átti heima á neðri hæðinni áður en ég flutti þangað, það voru svo fá hús á Akranesi í gamla daga ...
Tvær ungar og óþekkar tíkur reyndu að fara á flakk en við Inga komum í veg fyrir það og lentum á spjalli við húsráðendur, sem einmitt rækta labrador-hunda. Ef ég byggi á jarðhæð, væri ég komin með brúna hvolpinn á fóðursamning, ég ætti hann í raun ekki en hann byggi samt hjá mér, ég bæri kostnað af honum og lánaði hann stundum til eigendanna, í undaneldi kannski, á sýningar og slíkt, enda allt miklir verðlaunahundar. Og öll dýrðin sem þarna fyrirfannst í gær, fæddist í húsinu þar sem ég varði stórum hluta æsku minnar. Ég náði meira að segja í D-vítamínkorterið mitt sem ég reyni að næla mér reglulega í eftir hryllinginn á Akratorgi um daginn þar sem gráblámi handleggja minna olli gríðarlegu uppnámi, vona bara að búið sé að reisa við styttuna af sjómanninum sem fleygði sér af steini sínum í algjöru sjokki. Ég er glæpsamlega hvít og svo vel innan marka þegar miðað er við t.d. litaspjald Útlendingastofnunar, að ég fengi hreinlega ekki að yfirgefa landið.
Við stoppuðum ábyggilega í klukkutíma á pallinum framan við tvílyfta gamla húsið mitt sem nú er einbýlishús og nutum þess að knúsa hunda á öllum aldri (tíkur) og köttinn, læðuna fögru sem lét sér vel líka lætin í yngri voffunum. Við erum orðnar miklar vinkonur, líka við tíkurnar. Hvolparnir eru strákar og þessi brúni er svo ótrúlega rólegur og yfirvegaður, ég hef bara aldrei kynnst svona hvolpi! Alveg einstakur.
Hélt með Þýskalandi í dag en samt þakklát fyrir að sleppa við vítaspyrnukeppni ... Seinni leikurinn mun ekki hreyfa mikið við mér, en ég hef áhyggjur af heilsu minni á morgun þegar England mætir Sviss. Reyni að vera ekki komin heim af djamminu á Akratorgi ... gleymi mér á markaðnum, fæ mér eitthvað gott í gogginn úr matarvagni og passa að hugsa ekki um ísbjörn. Þá verður allt í lagi.
Tvennt mjög mikilvægt og æðislegt sem ég þarf að mæla með, annað fyrir andann, hitt líkamann:
Það fyrra: Það verður markaður í gamla Landsbankahúsinu við Akratorg á morgun í tilefni Írskra daga. (Sjá mynd af bréfi) OG ...
... elskan hún Þurí verður með vörurnar sínar til sölu, græðikremið góða sem er NOTAÐ með góðum árangri á brunadeildinni á LSH og á barnaskurðdeild, jafnvel víðar. Ég brendist í andliti eitt árið (2008), sat í sakleysi mínu úti á svölum og spjallaði við soninn, alls ekki í sólbaði en þetta gula réðst samt á mig, en ég hafði hreinsað farða (eftir staffamyndatöku) af andlitinu og sett feitt krem á eftir ... sem virkaði alveg eins og steikarolía. Vá, hvað það er sársaukafullt að sólbrenna. Annars stigs bruni, sagði læknirinn sem veitti mér leyfi til að nota græðikrem Þuríar eftir að hafa haft samband á Landspítalann og spurt. Ég vissi að það hafði virkað mjög vel á son Þuríar eftir að hann brenndist illa sem barn. Margar góðar sögur af þessu ótrúlega smyrsli. Andlitið á mér greri hratt og vel, og húðin undir var slétt og fín þegar sú gamla flagnaði af - og á þeim tímapunkti hefði ég átt að hætta að reykja og einbeita mér að hrukkulausum lífsstíl ... en ég er þó samt ögn skárri til húðar en sumt sólbaðssjúkt og enn reykjandi fólk á mínum aldri. Hilda systir notaði smyrslið á börnin í sumarbúðunum sem hún rak, setti krem í plástur ef börn duttu og hrufluðu sig, kremið sá um að hreinsa sárið og græða það. Jamm, ég mæli af alefli með Þurí og jurtasmyrslinu hennar á Akranesi á morgun.
Það seinna: Ef ykkur vantar endorfín og slíka gleðistrauma mæli ég með tryllingslega skemmtilegri konu á Instagram sem sýnir þessa dagana frá Ítalíuferð fjölskyldunnar, 17 meðlimir á öllum aldri saman og ýmislegt miserfitt drífur á dagana. Sagan er jafnóðum sett í "highlights" en "story-ið" í dag er líka ansi hreint fyndið. Konan heitir Þórdís og á Instagram: thordisbjork sjá mynd. Hvet ykkur til að læka síðuna hennar, byrjá á að horfa á "highlights" (hápunktana) og fylgjast svo með ferðalaginu daglega. Hef ekki hlegið svona mikið síðan uppistandið með Snjólaugu var sýnt á RÚV í kringum síðustu áramót, og þar áður (2019?) var það sjónvarpsþátturinn um hlaðvarpið: My dad wrote a porno ... sonur í sjokki yfir illa skrifuðum klámbókum sem pabbi hans, uppgjafasmiður og -verktaki, fór að skrifa ... úti í garðskúr því konan hans vildi engan subbuskap á heimilinu. Smiðurinn skein iðulega í gegn í bókunum því ýmsar æsandi athafnir áttu sér stað á sérlega vel lögðu parketi, svo dæmi sé tekið.
Það á að dreifa gleðinni, þetta er mín tilraun til þess, og Þórdís á mikið þakklæti skilið fyrir að vera til, eiga svona skemmtilega fjölskyldu, og hafa þetta góðan húmor sem hún deilir með alþjóð. Og ítalska lagið sem hljómar aftur og aftur, gerir þetta allt enn skemmtilegra. Ef þið eruð ekki með Instagram, er alveg þess virði að ná sér í það.
P.s. Það verður annar markaður á morgun, rétt fyrir aftan gamla Landsbankahúsið, eða á hlaðinu heima hjá Báru ljósmóður á Suðurgötunni, á móti húsinu þar sem Kallabakarí stóð í áratugi.
Örugglega hægt að ganga á hljóðið, Bára er svo hláturmild og dásamleg, og hún verður ekki ein þarna, heldur ýmsir með ýmislegt, sem er svo skemmtilegt. (Myndin rammstolin frá Báru og er af Báru úti í garðinum sínum).
- - - - - - -
Það var akkúrat á markaði á Írskum dögum sem ég kynntist Fasta, afskaplega hollum og bragðgóðum safa frá Íslenskri hollustu. Fasti breytti lífi mínu, fyllti mig af orku og krafti, lét mér vaxa neglur á fingrum (ég gæti unnið fyrir mér sem naglafyrirsæta núna) og varð eiginlega til þess að ég fór að huga að vítamíni og passa mig á vítamínskorti ... en það síðarnefnda angraði mig í áratugi án þess að ég áttaði mig á því. Ég hafði nagað neglur alla tíð, og greinilega ekki af taugaveiklun eins og allir sögðu.
Það var alltaf ansi erfitt að finna Fasta, ég þurfti að eltast við Mjóddarmarkaðinn á föstudögum, ýmsa útimarkaði þar sem t.d. geitungar réðu ríkjum út af sultunum, en svo hætti ég einfaldlega að finna Fastann minn sem hafði verið fastur vinur minn árum saman. Hann hætti fljótlega í framleiðslu af því að hann ... seldist ekki! Og ég hringdi og spurðist fyrir og gat ekki stillt mig um að segja að það væri ekkert skrítið að hannn seldist ekki, hann væri ófinnanlegur, meira að segja fyrir "fastakúnna". "Nei, hann fékkst í Fjarðarkaupum," var svarið, og hann leyndist víst þar í einhverri neðstu hillunni, algjörlega ósýnilegur, áður en framleiðslu var hætt. Ég borða hollan mat (Eldum rétt og minnka saltið), spreyja vítamínum í mig og eftir að ég fór að taka pilluna góðu á morgnana (í fimm daga), er bþ kominn í eðlilegt stand. Meira að segja hásinin hefur ekkert verið með vesen í dag, ég gekk óhölt út í Malíbó, hollustustaðinn fyrir ofan Guðlaugu hér við Langasand, í dag án afleiðinga (kæli reyndar vel 3x á dag, takk, elsku Apótek Vesturlands) ... fékk þar virkilega góða beyglu með avókadó o.fl. og geggjaðan grænan heilsudrykk. Skammaðist aðeins yfir kaffinu sem hefði mátt vera fínna en eitthvað ódýrt innflutt heimiliskaffi en eigandinn sagði að fólk væri ánægt, afi hennar drykki helst ekki kaffi en gæti drukkið þetta. Og þá er það bara í fínu lagi. Þetta er hollustustaður en ekki kaffihús - og ég mun mæta aftur og aftur, virkilega vel heppnaður staður og yndislegar ungu konurnar sem afgreiddu mig.
Þarf að hrósa meira fyrst ég er byrjuð, hringdi í Tryggingastofnun ríkisins í dag. Þvílíkt ljúf og hjálpleg kona sem ég talaði við og gat leiðbeint mér svo visst mál sem hefur tafist, klárast mögulega strax eftir helgi, mér og þeim sem ég er að aðstoða, til mikils léttis. Það er til svo gott fólk þarna úti ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2024 | 23:58
Írskir að byrja, gamall hrekkur og bækur sem eldast illa
Vítamínhrúgurnar inni í eldhúsi eru nú minnisvarði um þá áráttu mína að stunda sjálfslækningar, heimalækningar, DIY í læknisfræði og sjúkdómsgreina mig sjálf ef einhver kvilli hrjáði. Undanfarið orkuleysi og þreyta og hálfgerð depurð í nokkrar vikur, hlaut bara að vera vítamínskortur. Hvað annað? Ég gúglaði og jú, þessi einkenni stóðust heldur betur. Tók þó bara rétta skammta af þeim en fussaði yfir því að þau virkuðu ekki. Svo tek ég "pilluna" mína í þrjá daga við háum blóðþrýstingi og myndi eflaust hoppa og skoppa um allt ef ekki væri fyrir verkjaða hásin (í nokkra mánuði, skamm). En ... læknistími eftir tvær vikur og þá verður tekið á því. Þetta var lærdómsríkt, nú veit ég að læknar eru til af ástæðu og í mínu tilfelli hefði ég átt að kveikja mun fyrr á perunni. En hva, hér ríkir eintóm gleði og bara ef einhver þarf að láta leggja fyrir sig parket, þrífa sameignina eða baka fyrir ferminguna, hóið bara í mig. Eða kannski ekki ... kannski fór ég illa út úr covid-bólusetningunum fyrir þremur árum án þess að átta mig á því ... og er ekki einu sinni ofanjarðar, allt bara blekking gerð með speglum ... Sjá mynd ofar.
Á morgun ætla ég á listsýningu í Einarsbúð, hún Tinna Royal, algjört uppáhald, er með sýningu á verkum sínum í uppáhaldsbúðinni minni! Ég tek strætó þótt það sé skammarlega stutt að ganga (10 mín.) en hlífi hásin þar til annað kemur í ljós. Flestar jólakúlurnar mínar eru gerðar af henni, ópalpakki, dós af grænum baunum, þið munið ... (sjá mynd) er mjög spennt að sjá sýninguna. Get þá keypt í matinn fyrir helgina í leiðinni, fengið heimsent og náð heim með strætó (síðasti um kl. 18) því það verða tónleikar á hlaðinu hjá mér kl. 19.30, klósettin komin og veðurspáin fín. Ég þarf bara að opna gluggana eða setjast út á svalir. Þetta eru fjölskyldutónleikar með Stuðlabandinu, thank you very many* ...(*Þakkarorð finnsku hljómsveitarinnar Leningrad Cowboys)
Á Wikipediu má lesa: Stuðlabandið er íslensk ballhljómsveit frá Selfossi. Hljómsveitin var stofnuð árið 2004 og æfði fyrst um sinn á bænum Stuðlum í Ölfusi og dregur nafn sitt þaðan. Mér líst ofsavel á þetta.
Á föstudeginum ... Jaðarsbrautin er aldrei með götugrill. Ég naga bara fiskbein og japla á gömlu kartöfluhýði ... En tek gleði mína á laugardeginum því þá verður Brekkusöngur, líka á hlaðinu hér og líka kl. 19.30, svokallað fyrirpartí fyrir Lopapeysuna, ball ársins ... aldrei fór ég á Lopapeysuna, þessi 18 ár mín hér, ég á ekki einu sinni lopapeysu sem er hneyksli!
Það var virkilega gaman að rifja upp minningar þessa dags, 3. júlí fyrir XX mörgum árum ... en í dag eru til dæmis nákvæmlega tíu ár síðan viss "fjandi" komst í tölvuna mína í vinnunni og skrifaði á fb-síðu mína:
Fann tíu krónur í morgun undir sófanum þegar ég lá á gólfinu og gerði grindarbotnsæfingar. Það var þá sem ég vissi að þetta yrði góður dagur.
Fb-vinir mínir réðu sér ekki fyrir kæti, jafnvel eftir að ég kommentaði sjálf fyrir neðan með sannleikann um þennan hrekk. Einn sem neitaði að trúa leiðréttingu minni eða sá hana ekki, skrifaði þurrlega:
Þú hefur þá getað haldið þvagi vegna fagnaðarláta.
Sami fjandi skrifaði í dag á Facebook-síðu sína:
Hefur einhver séð Kristján Hreinsson og Gylfa Ægis báða á sama tíma? ... hélt ekki.
Fyrir 14 árum endurlas ég greinilega fjölmargar Theresu Charles-bækur, var að undirbúa mig fyrir að skrifa grein í Vikuna um þessa skáldkonu ... sem reyndist svo vera ... hjón, minnir mig, sem skrifuðu undir þessu nafni. Eins og ég hélt mikið upp á þessar bækur í denn brá mér nú svolítið við endurlesturinn á sumum þeirra. Það spunnust auðvitað umræður um bækurnar og ég hef einhverjum svarað með: Ég er í losti yfir kvenfyrirlitningunni: Honum þótti nú ósköp vænt um barnabörnin þótt þau væru bara stelpur.
- - - - - - -
Það sem ætti ekki að hafa hátt um eða hrópa í hjónavígslu:
- Ég hef prófað þau bæði.
- Þetta er konan MÍN.
- Þú veist að ég er rétti faðir barnsins.
- Allt er þá þrennt er.
- Ég gef þessu sex mánuði.
- Hún er systir þín!
- Veit konan þín af þessu?
- - - - - - -
Í lokin
Ég fann og þýddi brandara fyrir Vikuna í einhver ár. Notaði ansi oft nafnið Guðmundur (til að stríða samstarfsmanni) ... staðfærði brandara og lét þá stundum gerast í V-Húnavatnssýslu því ég vissi (systir mín bjó þar) að við ættum marga áskrifendur þar. Sumir brandarar gerðust sem sagt í Kaupfélagi V-Hún eða í sveitinni í kringum Hvammstanga, bændabrandarar. Já, og sem algjör kvenremba, auðvitað, breytti ég ljóskubröndurum þannig að þeir fjölluðu um ljóshærða karlmenn, ekki spurning, og þeir versnuðu ekkert við það.
Það hefur verið gaman að sjá brandarana "mína" fara á flug í gegnum tíðina, ég veit þegar þeir eru mínar þýðingar, t.d. út af Guðmundi ... og svo líka t.d. götunöfnum sem ég þurfti að finna íslenskt heiti á. Sumir brandararnir voru frekar svartir en ég fann einhvers staðar á netinu ansi hreint góða uppsprettu fyrir mig að ganga í, minnir að ég hafi getað gerst áskrifandi og fengið Brandara dagsins senda ókeypis í pósthólfið mitt, ef ég man rétt, þrjú til fimm þannig bréf á viku, eða þar til það þótti of gamaldags og við gátum farið að gúgla ALLT, en þá voru brandararnir hættir hjá Vikunni sem mér fannst algjör synd en þeir voru svo sem bara börn síns tíma. Held að Séð og heyrt hafi endurnýtt þáseinna sem er hið besta mál því þar sem ég rakst á þá núna, kom fram að þeir hefðu verið í Séð og heyrt.
Ég rakst á þrjá frá mér um daginn:
Gunna gamla dó og Jón maðurinn hennar hringdi í lögregluna.
Hvar býrðu í bænum? spurði lögreglumaðurinn.
Við syðri endann á Kalkofnsvegi, sagði Jón.
Kakkoffs ... úps, gætirðu stafað þetta fyrir mig?
Eftir langa þögn sagði Jón: Hvernig líst þér á að ég dragi Gunnu bara niður á Sæbraut og þið sækið hana þangað?
Tveir ljóshærðir menn leigðu saman litla íbúð. Eldur braust út í íbúðinni eina nóttina og þeir hlupu út á svalir.
HJÁLP, HÁLP! kallaði annar þeirra
Kannski hjálpaði það ef við kölluðum saman, sagði hinn.
Góð hugmynd, sagði sá fyrsti og þeir kölluðu í kór:
SAMAN, SAMAN ...
Guðmundur var að spjalla við Tom, kunningja sinn í Kaliforníu.
Ég er að fara til La Jolla í næstu viku, sagði Guðmundur.
Þú átt að segja La Hoj-a! greip Tom fram í.
Ó, ég skil. Við hjónin ætlum að dvelja á El Cajón-hótelinu.
Þú meinar El Ca Hóne-hótelinu, leiðrétti Tom aftur.
Úps, ég skil.
Hvenær ferðu svo aftur til Íslands? spurði Tom.
Guðmundur hugsaði sig um í smástund og sagði svo varfærnislega:
Veit ekki, annaðhvort í húní eða húlí.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2024 | 17:19
Óvænt klúbbinnganga og komin á pilluna
Júlímánuður hófst með látum og síðdegi gærdagsins var varið á spítalanum góða hér á Akranesi. Ég hef löngum glaðst yfir góðri heilsu minni og að þurfa ekki að taka nein lyf en það var í júní. Júlí var á öðru máli.
Í fyrradag fann ég smáþrýsting í höfðinu, sérstaklega við gagnaugun og bak við augun, vaknaði líka með höfuðverk og ég fæ aldrei höfuðverk! Gæti þetta verið hár blóðþrýstingur? hugsaði ég, en samt tæplega ... varla hjá svona heilsuhraustri manneskju. Átti ég ekki voða fínan blóðþrýstingsmæli inni í skáp, mæli sem ég var neydd til að kaupa dýrum dómum þegar grunur vaknaði (hjá mér) um háþrýsting um árið en var svo alls ekki fyrir hendi? Jú, jú, þarna var hann og batteríin enn virk eftir notkunarleysi síðustu ára. Ég mældi eftir kúnstarinnar reglum, 173/98 sem var hærra en eðlilegar tölur sem ég hafði séð á gúgli mínu um háan blóðþrýsting. Þrátt fyrir að reyna að gúgla: Hvernig nær maður háþrýstingi niður hratt og vel, heima hjá sér? fann ég ekkert nema eitthvað langtíma. Borða hollt (tékk), drekka ekki/lítið áfengi (tékk), hreyfing (ekki tékk, með þessa hásin) og svo framvegis. Ég yrði að læra að gúgla almennilega. Var búin að gleyma að Davíð frændi hafði í síðustu heimsókn komið á beinu sambandi milli mín og gervigreindar sem gæti svarað ÖLLU!
Inga vinkona veit reyndar allt, eða næstum því, og ég spurði hana aðeins út í þetta. Hún sagði að réttast væri að láta tékka á þessu ... Í gærmorgun undir hádegi vaknaði ég ótrúlega hress og mældi mig, að ráði Ingu (og Hildu) bara til öryggis, þá komin upp í rúmlega 200 í efri. Inga, sem verður héðan í frá aldrei kölluð annað en heilög Inga, dýrlingur af Akranesi, hringdi áhyggjufull nokkur símtöl, skutlaðist svo með mig upp á spítala og þar var aldeilis vel tekið á móti mér. Hjartalínurit, blóðprufa og alls konar. Það tókst á þremur tímum að fá bþ niður fyrir 170 í efri, svo ég eldaði dýrðarinnar kjúklingarétt ofan í okkur Ingu og fór svo snemma upp í, útkeyrð eftir þetta allt saman.
Ég hafði átt von á þreytulegum heimilislækni sem myndi mæla bþ og skrifa síðan lyfseðil ef þyrfti, svo ég gerði ekki ráð fyrir bið, tók ekki með mér bók. Var nýbúin að velja hnausþykka ástarsögu á Storytel (ekki með heyrnartól á mér) og hafði hugsað mér að hlusta á hana, mjög lágt, í biðinni sem var í einrúmi. Þá rak ég augun í lýsingu á bókinni: Erótísk! Væri það ekki helst til of æsandi í miðri bþ-lækkunarmeðferð? Þó ekki væri nema tilhugsunin um að einhver kæmi að mér að hlusta á svona dónaskap? Svo ég hékk bara í símanum.
Er búin að hlusta á fjóra tíma af þessari bók (mest í gær yfir eldamennsku, svo uppi í rúmi og líka aðeins í morgun) og enn allt mjög siðsamlegt. Bókin er tólf tímar og korter og miðað við fyrri reynslu eru fyrstu átta tímarnir að mestu kynlífslausir en svo þarf að hlusta á restina inni í fataskáp með vasaljós og tíu hljóðeinangrandi teppi yfir sér. Hvernig ætli plötulopi virki?
Um fimmleytið í gær mátti ég sem sagt fara heim og var útskrifuð með þeim orðum að þetta væri ótrúlega smart allt saman hjá mér, tölurnar mínar gengju allar upp í fimm og það fengi stærðfræðihjörtu hjúkrunarfólksins til að kippast við af gleði, flottustu bþ-tölur sem höfðu sést síðan Ísland-England á EM 2016, bættu þau við ... eða þannig ... Það gladdi mig mikið að sjá nemanda minn úr Íslensku I vera komna í vinnu á spítalanum ("þetta fólk kemur bara til að leggjast upp á velferðarkerfið okkar" ... eða kannski ekki?) Fagnaðarfundir og líka mikið stolt þegar hún spurði á fínni íslensku: "Hvenær verður Íslenska II?" Ég sagðist halda að það gæti orðið í haust, ég vonaði það alla vega. Önnur sem ég þekki, frá öðru landi, var með henni og báðar sögðu þær að ef þær gætu eitthvað gert fyrir mig, bara nefna það. Elsku yndin.
Orsök og afleiðing ...
Ég keypti vissulega lakkríspoka (stóran) fyrir opna húsið fyrir rúmri viku og kvartaði yfir því á þessum vettvangi að enginn hefði þegið mola, ég yrði að fórna mér og borða sjálf - sem tókst á nokkrum dögum. Þau á spítalanum vildu nú ekki meina að lakkrísinn hefði orsakað þetta, frekar að hækkunin hefði laumað sér lævíslega inn í líf mitt á lengri tíma en best að forðast lakkrís í framtíðinni. Ég jók reyndar saltnotkun um leið og ég fór að kaupa mat frá Eldum rétt, stráði yfir ofnbakaðar kartöflur, smávegis í sósur og jafnvel salöt. Nú hætti ég því alfarið, þar segir auðvitað: Eftir smekk, og smakkið til með salti. Þarf nefnilega ekki mikið salt. Vinkona mín í H-klúbbnum benti mér á fínt salt sem fæst í Krónunni, Lífsalt, sem hún mælir með. Ég er reyndar ekki mikið fyrir salt, svo þetta verður ekki erfitt. Ætla líka að létta mig, minna álag á hásin er einn plúsinn við það líka, en mér var reyndar tjáð í gær að hið grennsta fólk glímdi við háþrýsting. Einbeitingin hjá genginu góða á spítalanum fór svo sem í að lækka bþ, ekki leita orsaka. Jú, og svo er þetta í ættinni hjá mér.
Sjúkrahúsið hér á Skaga fær algjöra toppeinkunn eftir gærdaginn. Þegar ég mæti svo í eftirfylgni um miðjan júlímánuð verð ég vopnuð tölum og sýni lækninum. Tölur eru undirstaða alls, eins og ég hef alltaf sagt. Talan í dag sýnir gríðarlega mikla lækkun frá því í gær, svo lyfið virkar greinilega ansi vel. En nú get ég ekki lengur montað mig af fullkominni heilsu og ... verð að muna að taka pilluna við hbþ á hverjum morgni og mæla þrýstinginn reglulega! Dæs.
Nú er ég löglega komin í klúbb háþrýstingsfólks, H-klúbbinn, og í næstu partíum væri hægt að metast um hver hefði mælst hærra. Er hægt að fara upp í 300? Spyr af forvitni ...
Húsnæðismálin:
Ég á mér einn draumastað í bænum og missti af íbúð þar því himmnaríki seldist ekki nógu hratt. Önnur íbúð þar nálægt er til sölu og ég er byrjuð að undirbúa tilboð. Það fer auðvitað allt eftir því hvernig kaupendum mínum gengur að selja - svona eru þessar keðjur. Leyfi ykkur að fylgjast með.
Afsakið þessa fyrirsögn, þessa smellbeitu. En hún er samt rétt ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2024 | 01:48
Grín eða glæpur - hótandi gervigreind
Bjargræði dagsins var í boði Ingu sem hafði samband og vildi viðra vinkonu sína. Fara í bæinn táknaði ekki ferð í bæinn (Rvík), heldur miðborg Akraness þar sem nýbúið var að mála hluta Kirkjubrautar í regnbogalitunum.
Mig grunar að aðalfjörið hafi verið í Borgarnesi (Hinsegin dagar á Vesturlandi voru haldnir þar í ár) en samt var gaman að upplifa sólarfjörið á Akratorgi þar sem ég fékk mér kaffi og Inga fékk sér ís, áður upplifa fallegu hlutina í antíkskúrnum hennar Kristbjargar þar sem ég fékk að skila risastóru djúpu diskunum og fá öðruvísi djúpa diska í staðinn. Þeir nýju er úr allt öðru stelli en af góðri stærð og bara allt í lagi að grunnu og djúpu séu ekki í stíl. Veit ekki af hverju risastórir djúpir hafa alltaf pirrað mig. Kannski af því að ég er ekki mikil súpukona og held frekar hnallþórupartí en virðuleg matarboð sem krefjast þess að maður eigi stell. Mig langar alveg í mávastellið samt og á tvö þannig bollapör.
Gemsinn minn er glaður eftir daginn og þegar ég ýtti á HJARTAÐ sá ég setninguna: You´re walking more than you usually do by this point. Eða 1.162 skref í dag. Sem er brjálæðislega lítið - EN hásinin er að skána, held ég, eða þegar ég geri sem minnst er allt í lagi, hún lætur vita af sér með verkjum þegar ég þramma of mikið ... þetta er ansi langdregið að verða, kannski þarf að leita ráða hjá lækni, komnir svolítið margir mánuðir af helti og aumingjaskap og heimalækningum (kaldir bakstrar, fæti hlíft, voltaren-krem, íbúfen ... en ekkert reglulega nema köldu bakstrarnir).
Spjallaði við Bjössa Lú fyrir utan Frystihúsið í sólinni í dag og komst að því að hann er bróðir æskuvinkonu minnar sem lést fyrir nokkrum árum, ekki hafði ég hugmynd um það. Ég sagði honum að ég hefði mætt (kannski 14 ára) í heimsókn á Skagann til hennar, með Pink Floyd-plötuna Umma Gumma undir hendinni, klædd eins og hippi enda Karnabær aðalbúðin á þeim tíma, og leyft henni að hlusta á dýrðina. Það var eitthvað svo auðvelt að skreppa í dagsferðir á Skagann þegar Akraborgin var og hét ... samt fer strætó nokkrar ferðir á dag - en það er bara allt öðruvísi. Fjóla systir Bjössa sat á næsta útiborði og ég fékk að sjá ansi hreint sæta mynd af Hildu systur sem var tekin í eldgamla daga - og fékk loforð um að fá hana senda, það er skammarlega lítið til af myndum af okkur systkinunum síðan við vorum lítil. Hilda verður glöð að sjá þessa.
Himnaríki er selt ... með fyrirvara auðvitað, vonum það besta.
Var að klára bókina Auga Evu eftir Karin Fossum. Hún byrjaði svolítið rólega, ég þurfti stundum að spóla til baka því hugurinn hafði reikað (kannski mín sök, ekki bókarinnar), en svo allt í einu var allt komið af stað og mjög spennandi atburðarás fór í gang. Jú, jú, þessi bók er til uppi í hillu hjá mér, en ég algjörlega búin að steingleyma henni, næsta bók (sem ég á eflaust líka) kemur í júlí og sú þriðja eitthvað seinna ... í september, held ég. Ný bók eftir Ann Cleeves, Fuglinn í fjörunni, var í tækinu á undan. Ég er frekar hissa á nokkrum nískulegum stjörnugjöfum á hana á Storytel, því þetta er hin fínasta bók sem á betra skilið, nýjar aðalpersónur sem var virkilega gaman að kynnast. Þegar gefin er ein stjarna sem nöldur fyrir t.d. lágan hljóðstyrk (tveir gáfu eina stjörnu fyrir það, ég varð ekki vör við það) lækkar það meðaleinkunnina á ósanngjarnan máta, en ég mæli með henni og hlakka til að fá fleiri um þessar nýju persónur.
Facebook tók mig á teppið í gær og hótaði mér öllu illu (dregið úr virkni síðu minnar, hún gerð hægvirk, ég get ekki kommentað eða eitthvað) ef ég eyddi ekki myndbandi sem ég birti fyrir skömmu, mjög greinilega falsað grínmyndband - en blessuð gervigreindin (independent fact-checkers) sem leitar uppi falsfréttir og fleira rusl, þekkir ekki muninn á gríni og glæp. Bréf Metu hljóðaði svo: Your post has the sama missing context as a post checked by independent fact-checkers.
Svo voru annars staðar hótanirnar um hörð viðurlög en mér láðist að taka skjáskot af þeim, en ég tók skjáskot af myndbandinu (kyrrmynd vissulega), held (vona) að fb hafi ekki lögsögu á Moggablogginu. Myndbandið sýndi loftstein/smástirni lenda á tunglinu og mikla sprengingu í kjölfarið ... Eins gott samt að ég skrifaði ekki orðið heillin sem sendi einn ættingja minn rakleiðis í svartholið utan við fb - því fyrstu fjórir stafirnir í því orði eru auðvitað argasti nasistaáróður, hef áður sagt frá því hér.
Ég grínaðist sem sagt með að það hefði náðst myndband, með aðstoð tímavélar, af því þegar risaeðlurnar dóu út á tunglinu ... en get auðvitað ekki ætlast til þess að óháði staðreynda-sannprófarinn kunni íslensku. Er nú samt ánægð með að tekið sé á falsfréttum sem hafa tröllriðið öllu, sem bitnar voða oft á sárasaklausu fólki eins og aðgerðir bankanna gegn peningaþvætti gera (Ert þú, eða náinn ættingi þinn, ráðamaður í þjóðfélaginu, ef þú svarar ekki færðu ekki þjónustu í heimabankanum-hótanir). Fb-vinir mínir eru upp til hópa sæmilega klárir og trúa ekki bullinu í grínmyndböndum á borð við þetta svo ég held að ég hafi ekki hrætt neinn eða sannfært nokkra manneskju um eitt eða neitt skelfilegt.
Því miður gleymdi ég líka að taka skjáskot af því þegar fb otaði að mér Vilhjálmi prinsi í Bretlandi, eða Facebooksíðu "hans", undir þeim formerkjum að ég gæti mögulega þekkt hann. Ég hef fengið fjölbreytilegar og óvæntar tillögur (sjá samansetta mynd). Ég á 336 sameiginlega vini með dómsmálaráðherra sem vekur mér eiginlega meiri furðu en einn sameiginlegur vinur með sjálfum Mark Harmon leikara.
Man ekki vinafjöldann með JBH eða SDG. Vissulega hefur fb otað að mér fólki sem ég hef hugsað: Aha, þessi var með mér í skóla, langt síðan ... úps, einn af fyrrum eiginmönnum mínum eða ahh, elskhuginn góði af Borginni, tengdamamma frænku fyrrum mágs míns og alls konar, og notfæri mér stundum gott boð fb. En yfirleitt er þetta fólk sem ég þekki nákvæmlega ekki neitt og á jafnvel ekkert sameiginlegt með ... nema kannski í einu tilfelli; kalið hjarta og ískalda grimmd sem ég stunda í hálfleikjum á EM ef barnasáttmálinn dúkkar upp í huga minn.
Ég sveik Ítalíu illilega í dag þegar ég fór út með Ingu og náði bara síðustu mínútunum - en ég var vissulega spenntari fyrir kvöldleiknum kl. 19 þótt ég héldi með báðum liðunum þar. Á morgun verða líka leikir sem ég hlakka til að sjá. England-Slóvakía kl. 16 og Spánn-Georgía kl. 19. Nammi namm.
Það er ekki bara fólk sem fb vill að ég kynnist, vingist við, heldur að ég gangi í alls kyns grúppur ... flestar núorðið tengdar gömlu og hrumu fólki, sýnist mér, alveg fertugu jafnvel (sjá mynd). Hver ætli skrifi svona texta, eins og um svona háaldrað fólk eins og 40, 50, 60 og 70, að það geti líka átt VINI OG JAFNVEL ELSKHUGA!!! VÁÁÁÁÁ!
Ein af uppáhaldssíðunum mínum (ótengd aldri) spurði fólkið sitt nýlega:
Hvað þolir þú ekki sem öðrum þykir vera í góðu lagi?
- Reggítónlist.
- Snemma að sofa, snemma á fætur.
- Létt spjall.
- Sumarleyfi með allri fjölskyldunni.
- Að þurfa að heilsa fólki með handabandi.
- Börn.
- Jólatónlist.
- Þegar fólk segir: "Guð hjálpi þér" þegar einhver hnerrar.
- Íþróttir.
- Fólk sem gengur í náttfötum utandyra.
- Þau sem halla flugvélarsætinu alla leið niður.
- Trúarbrögð.
- Að veiða dýr og kalla það sport.
- Stafsetningarvillur!
- Húmor sem gerir lítið úr öðrum.
- Hávært smjatt/hlátur/tal.
- Að vera kölluð elskan af ókunnugum.
- Þjórfé.
- Fólk með tyggjó.
- Grasflatir og sú gríðarlega þörf sem þær hafa fyrir vatn og umönnun.
- Fyllirísmenning.
- Þegar einhver segir: Ég bið fyrir þér.
- Kynjaveislur (stelpa eða strákur?)
- Fólk sem tekur litlu börnin sín með hvert sem er.
- Að það þurfi alltaf að vera vín þegar fólk hittist.
- Áhrifavaldar, sérstaklega í ræktinni.
- Vinna í átta tíma á dag fimm daga vikunnar.
- Berfætt fólk (annars staðar en á ströndinni).
- Þau sem nota rakspíra eða ilmvatn.
- Fólk sem hrækir á almannafæri.
- Poppkornsétandi fólk í bíó þegar ég reyni að njóta myndarinnar.
- Þegar fólk spyr: Áttu börn? Það hugsar fæst út í hve viðkvæmt það getur verið, hvort það er ófrjósemi, fósturmissir eða barnsmissir sem liggur að baki - best að spyrja ekki.
Ég er sammála mörgu hérna og svo sannarlega því síðasta. Þekki fólk sem glímir við ófrjósemi og óþolandi spurningar og óumbeðin ráð í tengslum við það, og sjálf hef ég svarað þessari spurningu neitandi (við ókunnugt fólk sem ég mun jafnvel ekki hitta framar), ef ég treysti mér ekki til að tala um son minn, þótt séu komin sex og hálft ár síðan hann dó.
Ekki heldur sammála þessu um létt spjall, mér finnst það oft vera skemmtilegt ... fátt verra en þegar algjörlega ókunnugt fólk vill fara út í djúpar trúnaðarsamræður um einkamál sín. Létt spjall þarf ekki að vera um eitthvað ómerkilegt, yfirborðskennt eða leiðinlegt, er fínt á meðan fólk er að kynnast. Svo er hægt að fara í meiri dýpt ef stemning er fyrir því.
Já, svo er það jólatónlistin sem mér finnst dásamleg, hvaða skröggur svaraði þessu? Ummmm ... Ég hlakka svo til, Jólin koma, Jólasveinninn minn, Jólaóratórían, Kósíheit par Exelans, Hátíð í bæ, Heima um jólin, Dansaðu vindur, Jólahjól, Hvít jól, Do they know ...
Ég fletti upp nöfnum ofantalinna jólalaga og þótt sum séu orðin þreytt eftir MIKLA spilun eru þau ómissandi hluti af aðventunni, mest kannski í bakgrunninum. Og lélegar jólamyndir, nammmm. Jólin finnst mér skemmtilegri árstími en sumarið, en ég þarf reyndar heldur betur að gera breytingar varðandi sumar-húðlit minn eftir atburði dagsins. Ég sat berhandleggjuð á Akratorgi í dag í svona tíu mínútur og ... undanrennubláminn á handleggjunum setti annarlegan blæ á allt umhverfið og þögn sló á mannskapinn, mátti lesa svolítið áfall úr svip fólks. Ég ætla að vinna í þessu, líka upp á D-vítamínið að gera. Mögulega sest ég út á svalir næstu sólardaga ... en það er reyndar spáð talsverðri rigningu núna í helgarlok, alla vega hér suðvestanlands, sýnist að bara Austfirðir og norðaustanvert landið missi af vætunni.
- - - - - - - - - - -
Fyrir nokkrum vikum bað kennarinn nemendurna um að skrifa ritgerð með heitinu: Ef ég væri milljónamæringur. Krakkarnir settust við skriftir nema stúlka sem hallaði sér aftur í stólnum með hendurnar krosslagðar.
Hvað er í gangi? spurði kennarinn. Af hverju ert þú ekki að skrifa?
Ég er að bíða eftir ritaranum mínum, svaraði stúlkan.
Hún fékk tíu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2024 | 23:07
Aldrei vanmeta lakkrískonfekt
Lakkrískonfekt ætti aldrei að vanmeta ... Ég keypti einn poka af Andreu, okkar allra á Akranesi, síðasta föstudag, lét vita opinberlega að ég byði upp á það á opnu húsi ... og það varð nánast fullt hús. Eitt sem ég hef þó ekki alveg fengið til að ganga upp í huga mínum er að þegar ég rétti fram skálina og bauð, sögðu þau öll nei takk! Samt grönn. Og bara tvö þáðu kaffi! Ég þarf að hugsa þetta.
Kettirnir voru í aðalhlutverki á opna húsinu, ég sem var búin að gefa þeim blautmat, reyna að leika við þá og þreyta en þegar himnaríki nánast fylltist af kattelskandi fólki urðu þeir að fara fram og heilsa ... og knúsa.
Ég er nú þegar búin með marglitu molana og giska á að lakkrísinn sjálfur, svarta gumsið, klárist um klukkan þrjú á miðvikudaginn, miðað við hve hratt gengur á lakkrískonfektið. Stundum þarf bara að fórna sér.
Mynd 1: Kettirnir taka alltaf æðiskast þegar ég fæ blóm, þessum vendi forðaði ég frá þeim um leið og ég var búin að mynda þá. Krummi svo fyndinn að stökkva upp til að taka þátt í partíinu. Þegar eru liljur í vöndunum og kettirnir narta geta þeir orðið veikir, jafnvel dáið, svo gerviblóm prýða allt í himnaríki. Svo eru þeir eiginlega alltaf með kattagras til að narta í.
Hvað segir Facebook gott?
Jón Gnarr birti áhugavert vídeó á fb-síðu sinni ... um ískalda blettinn í hafinu fyrir sunnan Grænland og Ísland, og spyr hvort leysingavatn frá Grænlandi valdi kólnun hér og búi jafnvel til hafstrauma sem svo renni í veg fyrir aðra hlýrri hafstrauma. Myndbandið á YouTube heitir The North Atlandtic´s Mystery Spot. Það kæmi sér nú samt nokkuð vel í allri þeirri bylgju ferðamanna sem leita uppi köld sumarleyfislönd eftir 50 gráða hita á heimalóðum þeirra, jafnvel bara 40 ... og svo er sagt að það sé bara tímaspursmál þangað til moskító fari að herja á okkur Íslendinga ...
Mér skilst á kommenti við færslu Gnarrs að þessi kuldapollur hafi verið talsvert í fréttum fyrir nokkrum árum.
- - - - - - - - - - - -
Þvottur er það eina sem ætti að flokka eftir lit.
- - - - - - - -- - - -
Hvernig hljómar nafnið þitt í stafrófsröð?
Fis: Sif
Deisy: Eydís
Ginsý: Signý
Annsu: Sunna
Aann: Lena
Adfhhilnrru: Hrafnhildur
Aíknrt: Katrín
Ðgnruú: Guðrún
Gírru: Gurrí
- - - - - - - - - - - - - - - - -
Sá nýlega grein á DV (feisbúkksíðu DV) um einkenni mikillar greindar, eitthvað sem ég hef stundum hugsað út í hvort sé ekki málið með sjálfa mig þegar mér tekst mjög vel upp í einhverju ... Hæ, Mensa!*
Hógværð: Þar skora ég hátt, eins og í svo mörgu.
Bölv og ragn: Stráksi þurfti stundum að skamma mig fyrir að blóta, ég segi stundum (oft) fokk og jafnvel íslensk blótsyrði sem eru þó miklu hræðilegri.
Samkennd: Ég er konan sem græt yfir flugum sem deyja í bíómyndum - af einskærri samkennd.
Sjálfstjórn: Hvatvísi mín er nánast komin niður í núll.
Forvitni: Já, óseðjandi þekkingarþrá mín er alræmd innan ættarinnar og víðar.
Lítið fyrir félagslíf: Ég fann engan mun á lífi mínu í samkomubanni á covid-tímum. Engan. Sjá fjölmargar bloggfærslur mínar um þetta á árunum 2020-2022.
Allt á hvolfi: Sennilega átt við drasl. Það var oft drasl hjá mér þegar ég átti of mikið dót og var ekki búin að uppgötva kosti vítamíns. En ég á styttu af stelpu á hvolfi (frá Sólheimum). Storytel er sennilega forheimskandi á sinn hátt því ég tek til og þríf á meðan ég hlusta á sögur.
Nátthrafn: Mér þykir stórkostlega furðulegt að nokkur manneskja nenni á fætur eldsnemma á morgnana nema hún þurfi að mæta í vinnu. Og ég fell ekki fyrir bulli á borð við að maður sofi best þegar maður nær því að sofna fyrir miðnætti, hvað þá ruglinu um að morgunstund gefi gull í mund!
* Ég tók reyndar eitt sinn greindarpróf aftan á kornflexpakka og fékk alveg 84 stig. Þetta dæmi hér að ofan finnst mér miklu snjallara og auðveldara, ég samsama mig við þetta allt! Verð sennilega að segja upp áskrift minni að Storytel ef það lætur mig taka of vel til!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.6.2024 | 15:20
Göngutúr, góðgrannar og sjónvarpsþættir sem súrna
Vonandi mæta margir á opna húsið í dag kl. 16 því varla vill fólk að ég borði allt lakkrískonfektið sjálf! Veðrið hefur lagast, rigningin hætt, mátulega því Norðurálsmótið er alveg að verða búið... stöku sólarglæta rífur sig lausa sem er ekki verra.
Það var mikill dugnaðardagur í dag, ég reif mig upp fyrir kl. 11 í morgun og er búin að brjóta saman þvott (vá, hvað allt svona umstang hefur samt minnkað eftir að stráksi flutti), gera eldhúsið geggjað en leynitrikkið (takk, Sólrún Diego) til að hafa eldhúsvaskinn alltaf gljándi fínan er að þvo hann, þurrka og bera síðan smávegis matarolíu á hliðarnar, bara með eldhúsbréfi. Minn gljáir alla vega nokkuð oft, fyrst ég kann leyndardóm eldhúsvaskanna.
Þegar ég var búin að þessu öllu saman ákvað ég að verðlauna mig með göngutúr (grín en samt ekki) út á Aggapall við Langasand og fá mér hollustugóðgæti sem síðbúinn hádegisverð. Nýi staðurinn, Malíbó, VAR LOKAÐUR! Sem þýddi að ég þyrfti mögulega að bleyta fína, fína eldhúsvaskinn minn með einhvers konar eldamennsku og skola disk á eftir.
Vonbrigðin voru svo sem ekki mikil, þetta var hressandi gönguferð, ég gekk samt hægt til að ögra ekki duttlungum hásinar hægri fótar, fylgdist bara með hálfberum útlendingum (sjá mynd 1, lengst til hægri) fara skrækjandi úr búningsklefum Guðlaugar út í laugina sjálfa og það var ekki laust við að mig langaði að hlýja mér þar með þeim. Mundi svo að ég hef ekki átt sundbol í 40 ár af því að ég er ekki sérlega hrifin af neinu svona blautu "dekri". Það fyrsta sem ég gerði við heimkomu var að fara í tölvuna, alls ekki til að panta sundbol, heldur athuga með Malíbó. Jú, jú, þar var auglýsing frá staðnum sem verður lokaður í vikur, eða frá 22. júní til 29. júní. Það gladdi mig að hann lagði ekki upp laupana vegna veðurs - það er alltaf slatti af fólki sem gengur á sandinum eða stígunum fyrir ofan, í hvaða veðri sem er. Svo getur vont veður í sumra augum verið gott veður í augum annarra! Nefni engin nöfn. En það var akkúrat svona sumarið þegar ég ögraði alheimsorkunni (eða hvað sem þetta kallast allt, karma og það allt) með því að kaupa mér ódýra sumarsæng hjá Jysk. Ég, þessi heita kona, skalf undir henni allt sumarið og varð til þess að sólarunnendur kvöldust, held að það hafi komið fárviðri á Írskum dögum, man eftir kolsvörtum himni og klikkuðu roki. En ég hef aldrei vogað mér að gera þetta aftur. Er með frekar svala heilsárssæng og hef þurft að nota teppi að auki allt þetta ár, nema daginn sem hitinn fór upp í 18 gráður og ég sótti viftuna. Þá nægði bara þunna rúmteppið sem sæng.
Þar sem ég sat og syrgði pínkulítið tímabundna lokun Malíbó fékk ég skilaboð í gegnum Messenger. Ertu heima? Ég er með mat handa þér, elskan. Dásamlegu nágrannarnir mínir eru ekki bara eina fólkið sem finnst ég mjó og færa mér reglulega mat, heldur lesa þau hugsanir á milli húsa. Tíu mínútum seinna kom elsku Fatima með fullan disk af gómætum mat sem eiginmaðurinn hafði eldað. Restarnar af kvefinu sem ég fékk um daginn munu nú endanlega hverfa með þessari miklu og góðu chili-veislu. Dugar vel í tvær máltíðir.
Mynd 2: Maturinn góði ... fjær má sjá grilla í lakkrískonfekt, eða aðra skálina. Hin er við hliðina á tölvunni og ég búin að smakka þrisvar ...
Þarna í covid-ástandinu þegar ég hætti að horfa á sjónvarp og er enn frekar stygg gagnvart því (nema á EM og HM, þegar kemur uppistand (árslok 2023) eða Gísli Marteinn) missti ég áhuga á því að fylgjast með þáttum sem ég hafði fylgst með, flestum af hálfum hug. Ég gafst fljótt upp á Lost, gat ekki nema eina þáttaröð af Prison Break (að teygja lopann er svo leiðinlegt), var orðin of meðvirk fyrir Dexter, hélt með honum en samt ekki og óttaðist að hann næðist, frétti að þættirnir hefðu farið út í mikla vitleysu, sá hálfa fyrsta þátt af Game of Thrones og treysti mér ekki meira þegar pabbi krakkanna ætlaði að láta drepa hundana (úlfana) þeirra. Eina þáttaröðin þar sem ég horfði á hvern einasta þátt og allar seríurnar var 24, twenty four - fyrir svo ótrúlega mörgum árum, alla vega tuttugu. Bjó enn á Hringbraut þegar þeir voru sýndir.
Nýlega rakst ég á spurningu á einni af síðunum mínum: Sjónvarpsþáttaraðir sem voru æðislegar fyrst en þú getur alls ekki horft á núna?
The Walking Dead voru nefndir oftast, þættir sem ég hef aldrei séð. Svo voru ýmsir nefndir, athugasemdir fylgdu með nokkrum og eru innan sviga:
House of Cards
Lost
Stranger Things
Desperate Housewives
The Black List
Under the Dome
Sex and the City
Grey´s Anatomy ("Þegar Sandra hætti tók hún það fyndna með og þá var bara Merdith næstum því dáin það eina þáttaröð eftir þáttaröð ...")
Glee
Dexter ("góður fyrst en á hraðri niðurleið, síðasta þáttaröð ömurleg")
Seinfeld ("einfaldlega ekki fyndnir þættir")
Frasier
The Man in the Hight Castle
Orange is the New Black
Weeds
The Handmaid´s Tale
Friends ("var mikill aðdáandi, get ekki horft á þá núna")
True Blood
Game of Thrones (síðustu tvær þáttaraðirnar svo miklu verri)
Manifest ("miklir möguleikar á góðum þáttum, tækifærinu klúðrað")
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2024 | 23:06
Tíramísú takk, nýja flokkunarkerfið og ein enn sagan
Fótboltadagur í dag með vinnunni, svolítið erfiður því ég hélt með báðum liðunum sem kepptu kl. 16 ... þulirnir virtust halda með Spáni núna í síðasta leiknum, sem þýðir að ég vil frekar að Ítalía sigri, enda má hvorki gleyma lasagne né tíramísú í svona ákvörðunum. Vissulega hef ég komið til Ítalíu en ekki Spánar sem spilar kannski inn í. Stórkostleg ferð með Kór Langholtskirkju vel fyrir aldamót. Flórens var æði, líka gaman að fara til Feneyja en ég var ekki sérlega hrifin af Riccione sem var síðasta stoppið okkar og frívika eftir velheppnaða tónleikaferð. Jú, ykkar kona hefur nefnilega túrað um Evrópu (Austurríki, Þýskaland, Ítalía ... seinna Finnland). Skálmöld hvað, segi ég nú bara. Riccione virtist vera algjör túristabær, rétt hjá Rimini, og ég man bara eftir hótelum, verslunum, börum, veitingahúsum og baðströnd. Leiddist mikið þessa lokaviku þar sem ekkert var sungið, bara sólbaðast, sennilega voru þarna lögð fyrstu drögin að sólbaðsóþoli mínu. Græddi þó San Marino-ferð með góðu fólki sem leið alveg eins og mér. Man að það fór nokkur tími í að kaupa gjafir handa fólkinu heima, eitthvað sem hefur nánast algjörlega lagst af hjá ekki bara mér, heldur þjóðinni allri, sem betur fer. Gamall arfur frá því þegar utanlandsferðir voru alls ekki á allra færi og utanfarinn bætti þeim sem heima sátu það upp með spennandi og framandi gjöfum. Minnir að ég hafi keypt nokkrar gauksklukkur í San Marino og gefið, beið alls ekki til jólanna, afhenti þær bara strax ... vantar í mig sniðugheitagenið. Vissulega eru enn stundaðar innkaupaferðir til útlanda, sem ég eiginlega laug upp á okkur systur síðasta ár þegar við fórum til Glasgow. Það fóru vissulega nokkrar tilvonandi jólagjafir með okkur heim en aðallega var þetta ofboðslega skemmtileg borgarferð ... þar sem ég náði mínum fyrstu og einu 10 þúsund skrefum, eftir að mælingar hófust. Labbið í New York í útskriftarferðinni 1999 fór pottþétt mjög vel yfir þann fjölda. Það blæddi úr fótunum á mér ... aha, þarna voru sennilega drögin lögð að gönguhatri mínu!
Staðan enn markalaus í hálfleik en Spánn ofan á, sagði þulurinn! Lánleysi yfir Spánverjum, sagði hann svo á 53. mínútu ... og ögn seinna skoruðu Ítalir fyrir þá (sjálfsmark) ... ítalski markmaðurinn ferlega góður samt og vissulega reyndi meira á hann en þann spænska. Sá hefði átt skilið að skora, um einn spænska leikmanninn sem brenndi af ... Sennilega myndi ég ekki heyra þetta ef ég héldi með Spánverjum sem áttu vissulega betri leik en kommon!
Ég hef verið að hlusta á bækur á Storytel, eins og bloggvinir mínir vita, og það heyrir til undantekninga ef fólk segir eitthvað annað en brjóstaRhaldari þegar sú flík kemur við sögu. Hélt fyrst að það væru bara karllesarar sem vissu ekki betur, en svo er nú aldeilis ekki. Verslanakeðjan Coop sem fyrirfinnst víða um heim (í 100 löndum, hví ekki á Íslandi?) kemur einnig (eins og brjóstaRhaldari) við sögu í bókinni sem ég er að hlusta á núna. Búðin er sögð heita KÚP þar sem virðist rétt ... en það á að segja kó op. Meira að segja ég, sem hef þó ekki ferðast mikið, vissi það. Mér finnst samt mun verra að tala um brjóstARhaldara ... get þó ekki sagt að þetta trufli tilveruna mikið. Ég þoli ekki orðið ungabarn, ekki á prenti allavega, og þegar lesari las þetta orð á Storytel í bók sem ég las yfir fyrir mörgum árum og hefði aldrei leyft UNGAbarni að flækjast með, áttaði ég mig á því að lesararnir sjálfir geta gert mistökin, og allt rétt í bókinni!
Fasteignamálin - bara læti ... það verður opið hús aftur núna á sunnudaginn kl. 16-16.30. Utanbæjarfólk: góður bíltúr á Skagann, gott kaffi hjá mér, flott íbúð, dásamlegt útsýni ... í leiðinni hægt að kíkja í Guðlaugu, fara í sund, kíkja í antíkskúrinn, á vitana, Langasand, ísbúðirnar og margt fleira.
Ótrúlegar þessar keðjur sem geta myndast í fasteignamálum. Þessi getur ekki keypt íbúðina sem hann gerði tilboð í því hann getur ekki selt sína eign og allt verður stopp hjá svo mörgum. Svo bara allt í einu gengur allt upp. Hjá einni sem ég þekki var það flott nýuppgerð íbúð á Hlemmi sem seldist loksins og þar með fór allt í gang og öll runan gat flutt, viðkomandi kona gat flutt í draumaíbúðina með fínasta útsýni yfir Fossvoginn. Ég kýs geitungaleysi, eins og ríkir hér í himnaríki, ýmsir kostir fylgja því nefnilega að búa við sjóinn og geitungaskortur er enn af þeim. Skordýrafræðingur kom eitt sinn í útvarpsviðtal hjá mér og ráðlagði geitungahræddu fólki að flytja á Suðurnesin, til dæmis, við sjóinn, sagði hann.
Ég leita ekki að íbúð í bænum (Kópavogi) með gróðursælum garði, eins og allir. Hér er vissulega gras og smágróður og sumir íbúarnir eru með fín blóm á svölunum en ekki ég. Jæks. Hingað, alla leið upp til mín í himnaríki, kemst ekki einu sinni flugan fljúgandi ... en það er auðvitað möguleiki að kettirnir veiði þær sem dirfast.
Akranes hefur verið nokkuð aftarlega á merinni þegar kemur að nýja sorpflokkunarkerfinu og það verður ekki fyrr en 1. september nk. sem nýju tunnurnar okkar koma. Við þurftum að finna út hversu margar tunnur við vildum fyrir blokkina og svo höfum við þrjá mánuði eftir það til að endurskoða fjöldann. Eftir það fer allt að kosta. Nú höfum við um tvenns konar ruslaílát að velja: pappi og plast ... og allt hitt. Mjög lítið lífrænt fer reyndar í ruslið hjá mér því fuglarnir fá nánast alla matarafganga.
Ég fékk þessa fínu viðbót, alíslenska og dagsanna, við brúðkaupssögur gærdagsins:
Organistinn fór í útreiðatúr og gleymdi að mæta í kirkjuna. Eftir langa mæðu og mörg símtöl náðist í annan organista sem gat komið strax. Hann spilaði brúðarmarsinn svo hratt að brúðhjónin hlupu við fót að altarinu til að vera í takt.
Þegar stóra stundin rann upp fyrir brúðina að segja hið langþráða JÁ ... tók hún eftir því að brúðarvöndurinn var iðandi og skríðandi af blaðlús. Hún rétt náði að stöðva öskrið: NEEEIIIIII og stillti sig um að henda vendinum frá sér í ofboði (hún er með pöddufóbíu). Úff, hvílík sjálfstjórn á ögurstundu að koma upp skjálfrödduðu jái með von um að restin af athöfninni væri á sama hraða og brúðarmarsinn. Eftir athöfnina, þegar hún þakkaði organistanum fyrir að spila, áttaði hann sig fyrst á því að hann þekkti brúðina aðeins og sagði að hann hefði spilað eitthvað alveg spes og fallegt ef hann hefði vitað að hún væri hlaupandi, ólétta brúðurin.
Um kvöldið fóru brúðhjónin út að borða með foreldrum sínum. Foreldrar brúðarinnar höfðu skilið fyrir 25 árum og móðirin hafði sýnt sínum fyrrverandi ískalda framkomu allan tímann, vildi ekkert af honum vita. Yfir kaffinu eftir matinn sagði hann nú samt við hana: Jæja, Sigríður mín, við vorum virkilega góð saman í kvöld. Það mætti halda að við hefðum aldrei verið gift! Allir við borðið skelltu upp úr, líka Sigríður.
Hjónabandið varði í sex ár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 16
- Sl. sólarhring: 106
- Sl. viku: 679
- Frá upphafi: 1516029
Annað
- Innlit í dag: 16
- Innlit sl. viku: 557
- Gestir í dag: 16
- IP-tölur í dag: 16
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni