Færsluflokkur: Bloggar
6.9.2024 | 21:42
Ríkisbubbi í bili, of stór skápur og skrítnir söfnuðir
Kaupsamningur var undirritaður í dag svo ég á formlega tvær íbúðir í augnablikinu, himnaríki og Kleppsvegsdýrðina. Slíkt hefur aldrei gerst áður, ég hef alltaf verið sátt við að eiga bara eina. Þetta ríkidæmi stendur væntanlega fram yfir helgi svo ég ætla að njóta þess. Já, addna, íbúðin mín í bænum ... bla, bla, en aftur á móti íbúðin mín á Akranesi, bla, bla, ég mun hljóma eins og sannur milli. Líka hægt að segja íbúðirnar mínar - þarf ekki að minnast á að það séu bara tvær, það væri gaman að eiga eins og eina blokk, eins og Silli eða Valdi (eða afkomandi) sem átti víst heila blokk í Hátúni, segir sagan, en stundaði alls enga okurleigu, það fylgdi líka með. Kjaftasaga kvöldsins var í boði einhvers sem sagði mér þetta fyrir áratugum. Ef þetta er bara bull, biðst ég afsökunar.
Pantaði flutningabíl í morgun. Hann kemur 5. október -stundvíslega klukkan níu um morguninn, ég reyndi að seinka til tíu, en sennilega vaknar venjulegt fólk fyrr en ég. Svo heppin er ég að hafa nokkra burðarmenn hér og einnig nokkra sunnan rörs. Pökkunarstarf hefst á mánudaginn. Fæ afhent 1. okt. og ætla að láta mála, kaupa eitt stykki ísskáp (mælið þið með einhverjum?) og flytja inn. Þarf að spyrja frænku hjá Smith og Norland, hún veit allt. Ég verð líka að muna að mæla hæð og breidd á lyftunni, þessari litlu fjögurra manna sem stoppar bara á annarri hverri hæð, ekki minni ... því ég óttast svolítið að svarti antíkspeglaskápurinn komist ekki inn í hana og þurfi að halda á upp á sjöttu! Jafnvel rúmið mitt líka. Annar fasteignasalinn í dag býr í grenndinni, líka í svona gamalli hárri blokk, efst þar og þar er oggulítil lyfta, eins og í minni, greinilega hátískan í lyftum á sjöunda áratug síðustu aldar. Meira að segja of gott fyrir fólk að láta þær stoppa á hverri hæð. Þetta er ekkert annað en stórfínt, nema kannski þegar maður flytur inn eða út.
Kjúklingarétturinn lokkaði og laðaði svo stráksi kom í mat nú í kvöld. Hann hefur fundið á sér að ég nennti ekki að elda í gær sem hefði þýtt afganga í dag. Ég hafði einmitt áhyggjur af því að ef ég eldaði nú í kvöld fyrir mig eina og ætti rúmlega helminginn eftir ... og væri að fara í bæinn á morgun og borða þar ... já, þau eru svona stórvægileg vandamálin í himnaríki. Stráksi hafði samband og vandamálið leystist. Hann hafði séð bæði Eldum rétt-spjöldin (uppskrift og mynd) þegar hann kom í mat síðasta mánudag. Séður strákur. Frekar flókinn réttur í kvöld, ofnbakað brokkolí og gulrætur, hrísgrjón, nokkuð flókin sósa, kjúklingur steiktur eins og nautasteik - en ég fór létt með þetta. Samt bara með einn tímamæli, en notaði reyndar gemsann (var að hlusta á storytel við eldamennskuna) til að mæla þessar 2,5 mínútur sem þurfti að steikja kjúklinginn á hvorri hlið, svo smjördreypa seinni tvær og hálfu.
Mynd: Hvað hef ég afrekað sem fær fb til að halda að ég deili áhugamálum með Kevin Costner?
Hvað hljómar eins og sértrúarsöfnuður og er það í raun?
Ansi margir nefndu skipulögð trúarbrögð, t.d. mormóna, kaþólikka og fleiri en hér eru fjölbreytileg svör. Ég er sammála sumu en öðru alls ekki, er hreinlega móðguð yfir sumu en er nógu þroskuð andlega til að láta þetta allt flakka. Hrmpf ...
- Vísindakirkjan
- Keppnisíþróttir
- Byssueign
- Ilmkjarnaolíur
- Ameríski fótboltinn
- Stjórnmálaflokkar
- Crossfit
- Fox-fréttastöðin
- MAGA (Make America Great Again/Trump)
- Kardashians
- Bandaríski herinn
- Fótboltamömmur
- Kattafólk
- Hundaeigendur
- iPhone-eigendur
- Veganistar
- Friends-aðdáendur
- Íþróttir
- Disney
- Aðdáendur Grateful Dead
- Waldorf-skólar
- Trúleysi
- Star Wars-aðdáendur
- Ananas á pítsu-fólk
- Sjálfshjálpariðnaðurinn
- Jógaiðkendur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2024 | 21:54
Kvefi frestað, eilíft skrepp og vel valin lokaorð
Glæpadagurinn mikli rann upp bjartur og fagur, kvefskrattinn á undanhaldi svo plan B var ekki nauðsynlegt á bókasafninu, eða að fá einhvern annan til að kynna glæpakvissið. Mig langaði ógurlega að bæta slíkum heiðri á ferilskrá mína en var svo ótrúlega stressuð ... myndi ég geta þetta skammlaust, eða myndi ég hósta út í eitt, vera viðurstyggilega rám, líða þokkafullt niður á gólf eða þurfa að snýta mér endalaust? Það er nefnilega ekki gaman að þurfa að hlusta á rótkvefað fólk og ekki hægt að bjóða þátttakendum glæpakviss upp á slíkt. En ... sú sem á útrunnin amerísk flensulyf úr Walmart þarf ekki að óttast slíkt, ég tók einn skammt klukkutíma fyrir viðburð og leið bara þokkalega vel. Inga skutlaði til bókasafns, Ásta skutlaði mér heim. Í gær bauðst mér tvisvar far, með fimm mínútna millibili, eftir klippinguna en ég beið þá einmitt eftir að vera sótt af Skagakonu. Svona er að búa hérna. Skyldu íbúar Reykjavíkur vera svona dásamlegir? Kostirnir við minni staði eru margir.
MYND: Hér sést hluti af góðmenninu í glæpasal dagsins, okkur var sagt að allt hefði pottþétt fyllst af glæpabókalesandi Akurnesingum ef kvissið hefði verið haldið t.d. kl. 20 - en þar sem sömu spurningar voru bornar upp á bókasöfnum um allt land þótti réttast að hafa sæmilegt samræmi á þessu. Okkar kviss hófst kl. 16.30 eins og hjá flestum hinum, en þá voru auðvitað allt of margir í vinnunni. Samt er sumt fólk sem vill frekar verja kvöldunum heima - svo maður veit ekki. Þetta var alla vega alveg rosalega skemmtilegt. Þvílíkur léttir að vera spyrill því ég hefði annars mætt á kvissið sem þátttakandi og gert mig að algjöru fífli fyrir að vita minna en ég ætti að vita ... þetta var ekkert rosalega létt.
Ég kom við í dýrabúðinni góðu í gær sem nú er flutt úr göngufæri í strætófæri en þarna er allt rúmgott og bjart - og ég keypti kattamat handa Krumma og Mosa. Þeir hafa þurft að "sætta sig við" rándýrt sjúkrafæði sem hélt Kela frískum öll árin en nú er óhætt að slaka aðeins á því, hvorugur er lasinn. Keypti litla poka af mat, tvær tegundir og mér sýnist þeir hafa lyst á báðum tegundum sem ég blandaði þó saman við sjúkrafæðið. Ég þarf að velja vel, hollt og gott við gamlingjana mína. Ágætis rapplag hljómaði úr græjum dýrabúðarinnar, ekkert samt sem toppaði Skálmöld hjá hárstofunni, það er ekkert sem getur það!
MYND: Úkraínski kattahvíslarinn minn hélt svo mikið upp á Kela og hann upp á hana. Sjáið hvað þau eru sæt og flott. Myndin var tekin örfáum vikum áður en Keli kvaddi.
Á morgun verður annað skrepp vikunnar til höfuðborgarinnar og þá verður skrifað undir. Þegar dásemdarfólkið hjá Húsnæðis-og mannvirkjastofnun aðstoðaði mig við að flytja lánið mitt á nýju íbúðina, þurfti ég að sanna að ég gæti greitt mismuninn, það munaði vissulega á himnaríki og Klepps, mér í óhag þótt ég væri að fara í minni íbúð. Tók bara ljósmynd af seðlabúntunum undir dýnunni og sendi þeim. Það sparast mikið við að hætta að reykja! Ég þurfti líka að svara spurningum frá báðum fasteignasölunum, svona áreiðanleikakönnun. Nei, enginn píanókennari í ættinni, hvað þá sálfræðingur ...
Vissulega reyndi ég ákaft að kaupa íbúð í Kópavogi en Kópavogur bara vildi mig ekki. Katalína ... bókasafnið, kaffihúsið, tattústofan ... bless, bless, þið missið af svo miklu! ;) Nýja blokkin mín er ljómandi vel staðsett og ég er ótrúlega sæl með valið. Komst að því að það er heilt bakarí hinum megin við götuna, svo ég get stokkið og keypt gott með kaffinu handa gestum. Kannski er bananarúllutertan farin að fást aftur! Hún var svo vinsæl að bakaríið hætti að vera með hana til sölu! Held ég.
Það kom smávegis viðbót við verkefnið mikla sem ég kláraði um síðustu helgi, síðan eitt pínkuponsu yfirles og að síðustu annað MIKLU stærra, útprentað og klárast vonandi á sunnudaginn. Það er ekki hægt að pakka niður á meðan verkefnin bíða, svo ég byrja bara í næstu viku. Vonandi þiggur Búkolla bókahillur frá mér, vel með farnar, og fleira dót, eins og fínustu skólatöskur sem stráksi vildi ekki taka með sér þegar hann flutti, og ég hefði auðvitað átt að fara með áður en skólarnir hófust en hér er stundum erfitt að losa sig við hluti úr húsi, nema níðast á bílandi vinum og vandamönnum. Ég er komin með einn sem segist til þjónustu reiðubúinn þegar pakkerí hefst.
Þriðja bæjarferð vikunnar verður farin á laugardag, við stráksi ætlum, og það eina sem við höfum ákveðið er að heimsækja tvær ótrúlega spennandi málverkasýningar vinkvenna sem sýna báðar á Skólavörðustíg, önnur er opnun (Ellý Q) og hin er viðvera (Anna Bj) hinum megin við götuna. Mjög hentugt. Mikið hlakka ég til.
Spurningar og svör
Blogginu berast stundum spurningar af viti. Hef ekki tíma til að svara nema þremur í dag. Það má líka alveg spyrja mig um eitthvað annað en strákamálin.
- Getur verið að bílstjórarnir séu að gefa þér kynþokkaafslátt þegar þeir rukka þig um of lítið í strætó? Já, það gæti alveg verið, mér hafði ekki dottið það í hug, en þetta er brilljant spurning, svo rökrétt. Langt er síðan ég bað um slíkan afslátt síðast. Mér brá svo í Bóksölu stúdenta árið 1999 þegar maðurinn gaf mér bara 5% afslátt, það var áfall þótt Háskólinn hafi látið reka hann.
- Ertu að flytja frá Akranesi af því að karlarnir hérna eru ekki nógu sætir fyrir þig? Nei, alls ekki. Karlar hér á Skaganum bera af og eru á heimsmælikvarða, líka þótt Ítalía sé tekin inn í dæmið. Eftir að hásinin fór að vera með leiðindi átti ég sífellt erfiðara með að mæta í "hlaðborðið" við ávaxtastandinn í Einarsbúð á föstudögum kl. 18 og það má segja að hallarbylting hafi verið gerð í fjarveru minni. Löng og átakamikil saga sem mun birtast í jólahefti Sérstæðra sakamála.
- Hver er uppáhaldskaflinn þinn í Stabat Mater eftir Pergolesi? Sá áttundi.
Ef þú gætir valið lokaorð þín í lífinu, hver væru þau?
- Mér er svo kalt, brrrrr ... eins og í bíómyndunum.
- Hlustaðu vel, ég faldi fjársjóð á leynistað sem er-
- Mig langar að benda á einhvern og segja: Hvað hefurðu gert?
- Hei, ekki ýta á þennan takka.
- Haltu á bjórnum mínum.
- Leyndardómur lífsins e-
- Ég sagði þér að ég væri veikur.
- Gefðu líffærin úr mér.
- Njóttu hússins. Gott að þurfa ekki að sjá þig aftur.
- Fjársjóðurinn er grafinn undi-
- Slappaðu af, ég hef gert þetta milljón sinnum.
- Sjáðu um hestana mína.
- Ég skal keyra.
- Ég elska þig.
- Sagði þér það.
- Loksins frjáls.
- Ég gerði mitt besta.
- Fokk.
- Úps.
- Takk.
- Vá. Guð er kona!
- Hvað ætli þessir takkar geri?
- Bless.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2024 | 00:04
Óskalag í klippingu og minnisstæðir kennarar
Veikindapési ertu að verða, frú Guðríður Hrefna, sagði ég illskulega við sjálfa mig í morgun, eftir hóst, snýt og almenn slappheit. Reis úr rekkju eftir langa mæðu og skánaði ögn í kringum hádegið. Ekki versnaði líðanin við tvær útrunnar flensupillur undir klukkan tvö. Almenn fegrun á hári beið mín í Classic-hárstofuhúsinu sem sumir kenna við apótekið eða Bónus. Ég fékk neyðartíma í klipp og framköllun á andliti svo líklega fara ungu strætóbílstjórarnir að okra á mér, í stað þess að gefa mér afslátt ...
Mynd: Svona held ég að ég hafi litið út eftir framköllun á andliti og klippingu á hári með undirleik Skálmaldar undir klukkan þrjú í dag. Svona getur nú gervigreindin komist nálægt sannleikanum. Nema hún gleymdi strípunum algjörlega.
Þetta var síðasta klippingin mín í Classic, sem íbúi á Akranesi, og ég spurði hvort ég fengi ekki óskalag í tilefni af því. Verulega angurvær og rómantísk lög óma vanalega um hárstofuna og ég spurði lævíslega í von um að hármeistarinn héldi að ég væri að biðja um eitthvað slíkt: Má ég kannski fá Hel með Skálmöld og Sinfó? Ég vissi að bara ég, mótorhjólalið og stöku smekkheitafólk á tónlist vissi hvers konar dásemd það lag væri. Jú, auðvitað, sagði Anna Júlía en ég vissi að hún gæti auðvitað ekki spilað það, viðkvæm dýrabúð þarna rétt við, einnig apótek og pítsustaður, það yrði allt vitlaust.
Þegar ég var komin með fínan lit á augabrúnir og augnhár skömmu seinna, og mál til komið að klippa, heyrði ég reyndar upphafstónana í óskalaginu mínu. Hármeistarinn hlustaði eitt augnablik og setti svo stúlknamet í töffaraskap þegar hún sagði: Það þarf að hækka þetta! Verslanamiðstöðin titraði svo sem ekki, það var ekki hægt að hækka nógu mikið til þess, því miður, en ég titraði þeim mun meira af gleði - ekki bara yfir tónlistinni, heldur sá ég svo sæta konu í speglinum. Nú grunar mig fastlega að ég fái afslátt á laugardaginn þegar við stráksi tökum strætó í bæinn.
Myndasyrpa: Annars er alveg ótrúlega misjafnt hvernig fólk myndast. Elsku Keli köttur virkaði stundum svo ótrúlega breiður á öllum myndum en var alltaf grannur og fitt. Við áttum það sameiginlegt. Ég sé gullfallega konu í speglinum og líka þegar ég tek sjálfu (eða fæ gervigreind í verkið), en ef önnur manneskja tekur myndina er ég óþekkjanleg, og finnst óþægilegt að ljósmyndarinn noti bæði víðlinsu og hrukkugerðarfilter, mjög sennilega samsæri til að brjóta mig niður, en það tekst nú samt ekki. Átakanleg myndasyrpa hér sýnir nákvæmlega hvað ég þarf að glíma við.
- - - - - - - - - - - - - -
Elsku frábæri Haukur Guðlaugsson, fyrrum söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, er látinn. Hann stjórnaði kirkjukórnum hér á Akranesi í eldgamla daga ... ég elti mömmu á kóræfingar og sem dæmi um metnað hans lét hann kórinn æfa Stabat Mater eftir Pergolesi. Það var uppáhaldstónverkið mitt þegar ég var átta eða níu ára. Kórinn tróð upp í sjálfu sjónvarpinu með verkið. Það finnst á YouTube og ansi hreint gaman að sjá mömmu svona kornunga og einbeitta. Þetta er reyndar ofboðslega hátíðlegt og trúarlegt, presturinn á Akranesi tók þátt í þessu í sjónvarpinu líka.
Við systkinin vorum send í tónlistarnám, Mía systir, verulega hæfileikaríkur músíkant, fékk Hauk sem sinn píanókennara og í dag kennir hún sjálf tónlist og músíkþerapíu. Mínir hæfileikar lágu svo sem ekki þarna, mig dreymdi um að verða leikkona, söngkona, dansmær eða ljósmóðir. Í tónlistarskólann skyldi ég samt fara og var svo heppin að fá ljúfa og eftirláta norska konu sem kennara, hún lagði sannarlega ekki þungar tónlistarbyrðar á mig ... en þegar Haukur leysti hana af í eitt skipti sem hún var veik, lét hann mig æfa þrjú alveg hræðilega þung lög fyrir næsta tíma (og ég bara níu ára!!!). Hefði sko frekar vilja lesa bækur en æfa mig á píanó og varð sérlega þakklát fyrir að hafa eftirlátu konuna sem fasta kennarann minn. Ég kann reyndar enn lögin þrjú sem Haukur lét mig læra og eflaust miklu fleiri ef Haukur hefði kennt mér oftar því seinna sá ég heilmikið eftir letinni og væri alveg til í að geta spilað almennilega. Það kom oft fyrir að við Haukur hittumst á förnum vegi löngu síðar, bæði á Akranesi og síðar í Reykjavík og alltaf jafngaman að hitta hann og spjalla við hann. Yndislegur maður sem skilur mikið eftir sig. Blessuð sé minning hans.
- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
Á Facebook:
Ég er að spá í að gerast veðurfræðingur erlendis. Er enn að velja hvort ég mun breyta nafni mínu í Dooolittle Væta eða Steve Sunnanátt. (PG)
Ógleymanleg orð sem kennarinn þinn sagði við þig ...
- Guðríður, helltu úr þinni andlegu ruslafötu og segðu okkur hvað andlag er. (Séríslensk sönn saga úr Vörðuskóla)
- Rithönd þín er óaðfinnanleg og útskýringarnar úthugsaðar. Ég vildi bara óska þess að svör þín væru rétt.
- Ég spilaði fótbolta í framhaldsskóla, var lágvaxinn og klaufskur en aldrei spilað áður fótbolta. Íþróttakennarinn kom fram við mig á sama hátt og hina leikmennina sem gaf mér mikið sjálfstraust, 25 árum seinna hugsa ég enn fallega til hans.
- Þú átt enga möguleika til þess, sagði kennarinn þegar ég talaði um hvað mig langaði að verða í framtíðinni. Tólf árum seinna er ég kominn þangað sem draumarnir báru mig og gott betur. Takk, frú S.
- Ég er með augu í hnakkanum! Hversu ógeðslega krípí.
- Þú getur orðið frábær kennari, sagði kennarinn við mig í grunnskóla. Nú hef ég starfað sem kennari í tólf ár.
- Hann reyndi að afhomma mig með því að segja: Ekki vera eins og stelpa. Þú ert fæddur til að pissa standandi!
- Freddy Mercury dó af því að hann var samkynhneigður. Guð var að refsa honum.
- Hvernig borðum við fíl? Jú, við tökum einn bita í einu. Kennarinn að segja okkur hvernig við ættum að fást við yfirþyrmandi verkefni.
- Farðu í framhaldsnám, þú hefur aldeilis gáfurnar til þess.
- Þú ert jafnþokkafull og óléttur fíll!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2024 | 20:40
Jæja, komið á hreint ... klæðileg gríma og glæpakviss
Vissulega var búið að vara mig við ... eða að þegar skriðan færi af stað gerðist allt mjög hratt ... og játs, svo sannarlega. Var svo heppin að góður vinur skutlaði mér í bæinn í dag (og til baka) svo ég gæti framkvæmt seinni skoðun á nýja heimilinu. Ég tók með mér alls konar fagfólk; smið, rafvirkja, félagsráðgjafa og fasteignasala. Ég og fasteignasalinn vorum alveg örugglega afar dularfull og spennandi, eiginlega ómögulegt að ráða í svipbrigði okkar þar sem við bárum GRÍMU ... ég fann grímuleifar ofan í skúffu eftir covid-19, tímann þegar ég upplifði svo rosalega miklu meiri viðreynslu en núna. Augnagoturnar voru rómantískastar í Einarsbúð ... En á staðnum, íbúðinni sem ég er að kaupa, var nýfætt barn svo við tvö (kvefuð) vorum með grímu og öll, líka þau ókvefuðu, vel sprittuð, einn fagmaðurinn var reyndar ein systir mín og hún átti spritt í bílnum. Nýbakaða móðirin sem sýndi íbúðina og mun flytja með manni sínum og barni til útlanda um mánaðamótin var afar sátt við grímurnar, þær virka nefnilega ... en vá, hvað mig langar ekki aftur í þennan tíma - þótt grímur fækki hrukkum og séu talsvert ódýrari en andlitslyfting.
Mynd, efst: Ég tók ekki mynd á vettvangi grímunotkunar en skellti þessari upp eftir heimkomu til að sýna að ég hef engu gleymt. Tælandi augaráðið er þarna enn.
Íbúðin verður keypt - eftir þessar seinni skoðun - ekki lengur bara 99% líkur, og gengið frá öllu saman á föstudaginn, svo það eru minnst þrjár bæjarferðirnar þessa vikuna. Mikið búið að giska á hvaða staður varð fyrir valinu í 104 ... aðeins einn giskaði rétt ... og jú, Kleppsvegur var það, heillin. Fínasti staður að komast á og stutt fyrir mig að taka t.d. strætó á tónleika í Hörpu, við erum nánast við sömu götuna (Sæbraut). Ég fæ alla vega einn áhugaverðan nágranna sem var búinn að fá sér aðeins of mikið neðan í því og reyndi að hlaða símann sinn í anddyrinu, fyrir neðan póstkassana ... elsku karlinn. Ég glími við eintók lúxusvandamál ... hvort ég eigi að fjárfesta í sambyggðri þvottavél og þurrkara á baðið (pláss þar) eða nota afar snyrtilega aðstöðu í kjallaranum þar sem eru iðnaðarvélar. (Með storytel sem félagsskap er ekkert mál að dúlla sér niðri í þvottahúsi - þar er meira að segja gamaldags strauvél! Hæ, straujuðu rúmföt, eller hvad.)
Þrír strætisvagnar stoppa þarna, leið 3, leið 12 og leið 14 (frá Lækjartorgi), ef marka má Klappið ... jafnvel bætast við leið 11 og 18 líka (frá Hlemmi). Í eldgamla daga var það leið 4, Kleppur hraðferð, ef ég man það rétt. Bjó um tíma á Rauðalæk og hoppaði þá út á Kleppsveginum - en er sennilega of ung til að muna hraðferðina, svo var eitt sinn leikrit með þessu nafni líka.
Hér á síðunni er smáinnsýn - eða tvær myndir. Önnur snýr í norður (blá), hin suður (græn). Þessi í suður vitnar um ofboðslega heppni mína að vera á endimörkum þessa gróna hverfis, en ekki inni í því miðju og myndin sem snýr í norður sýnir meiri hráslaga, eins og ég kann best við. Bak við þetta græna liggur Reykjavíkurborg en hún sést ekki fyrir trjám! Ég er kölluð landráðaherfa, drundhjassa og þaðan af verri ónefnum fyrir að vilja hafa trén úti í skógi þar sem þau geta verið frjáls og í sínu rétta umhverfi.
Á morgun fer ég í klippingu og litun á augabrúnir - og á laugardaginn kemur í ljós hvort þetta dugir til að mér verði ekki boðinn afsláttur í strætó. En á laugardaginn tökum við stráksi strætó í bæinn. Ég er að hugsa um að vera með grímuna fyrir andlitinu til öryggis, klæðast jafnvel hettupeysu og láta þungarokk eða rapp heyrast úr heyrnartólunum. Þetta er líka gríðarlegt tap fyrir strætó, ef sumir unglingarnir sem keyra þar sjá ekki muninn á t.d. 66 ára og 67 ára fólki.
Á fimmtudaginn verður svokallað glæpakviss í bókasöfnum um allt land (sjá mynd). Auðvitað í dásamlega Bókasafni Akraness líka. Þetta er spurningakeppni um íslenskar glæpasögur og haldin í tilefni af 25 ára tilvist Hins íslenska glæpafélags. Þrjátíu spurningar verða bornar upp, alveg eins og í pöbbkvissum ... en þessir viðburðir hefjast á sama tíma um allt land og taka um það bil 90 mínútur. Ekkert má nefnilega spyrjast út. Ef þetta verður ekki glæpsamlega skemmtilegt, veit ég ekki hvað. Fimmtudaginn 5. sept. kl. hálffimm. Vona að sem allra flestir komi.
Á Facebook
Íslendingar eru fáir en Færeyingar enn færri - birtist m.a. í því að poppstjarnan og Íslandsvinurinn James Olsen er bæði búinn að skjóta upp kollinum sem tæknimaður á ráðstefnunni og sem rútubílstjóri. (Stefán Pálsson)
Er púðrið úr flugvélunum undanfarin ár farið að virka? Auðvitað fyrst á vatnið, svo á jarðveginn. Það er rosalegt að svona skuli leyfast í boði elítunnar. (Komment við frétt um 50 veik skólabörn og sjö fullorða í Emstruskála Ferðafélags Íslands)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2024 | 00:30
Hraðar breytingar, Oasis-hremmingar og nafnasamkeppni
Núna klukkan 22.12 náði ég að klára verkefnið mikla sem hélt mér heima alla helgina, og senda það. Geggjað, það lá á því sem gerði mig stressaða en það náðist að klára. Ekki glæpsamlegt verk en samt er tenging.
Verð að viðurkenna að ég er enn svolítið skelfd yfir því hvað allt gerist hratt þessa dagana. Áður en ég veit af verð ég flutt í 104 Reykjavík með um það bil þrjá fjórðu af dótinu mínu, nýja íbúðin er um 75 fermetrar og ég vil alls ekki hafa ofhlaðið, þá er erfiðara að halda öllu fínu. Margir hafa giskað á Álfheima, Ljósheima og nýja Vogahverfið ... en, ef allt gengur upp verður ekki svo langt fyrir mig að fara á Klepp, fara í Sundahöfn og ... haldið ykkur, í vínbúð! Ég kom út úr skápnum sem bindindiskona fyrir nokkrum misserum af því það er svo langt fyrir mig að fara í ríkið á Akranesi. Á þó ekki von á miklum breytingum þar, kaffi er alltaf langbest. En gamli Mikligarður er þarna ekkert svo langt frá, og fullt af góðum búðum þar sem er ómetanlegt fyrir bíllausa kerlu.
Mér skilst að hússtjórn himnaríkishússins sé í losti (ýkt) yfir því að missa riddarann sinn úr stjórninni og ég er svolítið kvíðin að missa þær (formann og gjaldkera) og flytja í mun stærra hús ... og já, það er húsið með dagsetningunum (á yfirlýsingu húsfélags) sem varð fyrir valinu hjá mér, afmælisdegi mínum og afmælisdögum mæðgnanna sem komu með mér að skoða. Skemmtileg tilviljun en stjórnaði kaupunum að sjálfsögðu ekki, þetta var bara íbúðin sem hentaði mér best þótt hinar væru fínar líka.
Skelegg ung kona sem ég tek mikið mark á, sagði við mig í afmælinu mínu 12. ágúst sl.: Nú þarf að taka íbúðamálin föstum tökum, Gurrí, skoða íbúðir í bænum og endilega fara út fyrir 200 Kópavog til að fjölga möguleikum á því að þú finnir réttu íbúðina. Ég tek mikið mark á henni og hef gert síðan hún var ákveðið barn og það jókst bara þegar ég hóf háskólanám á fertugsaldri þegar hún gaf hún mér nokkur góð ráð sem nýttust mér ótrúlega vel. Sko, kauptu svona marglaga möppu fyrir hvert fag og þá geturðu sett alla pappíra á réttan stað, var eitt ráðið og ekki það sísta. Hún skipulagði nám mitt sem sagt og nú var komið að húsnæðismálunum. Ýmislegt, eins og dauði elsku Kela míns, tafði þetta aðeins, en þann 29. ágúst, á afmælisdegi Michaels Jackson, Herdísar Hallvarðs og Borghildar vinkonu, héldum við í skoðunarferðina sem bar þann árangur að ég er 99% búin að kaupa íbúð. Ég er jafnvel að hugsa um að biðja þessa ungu konu að finna handa mér góðan mann (sem kann að meta þungarokk, er góður að elda, fyndinn og skemmtilegur, ógeðslega sætur og fleira og fleira ... kannski bara nóg að hann andi. Kröfur eru bara fyrir aumingja.)
Það þarf ekki að ferðast mikið um lendur Internetsins til að sjá hversu mikil áhrif ég hef. Nú hef ég um hríð barist fyrir verra veðri, dásamað rigningu og rok, vegsamað kulda og garra og aðeins hatast við hálku en það er eðlilegt. Svo virðist sem þjóðin hafi tekið við sér og sér það jákvæða við gular og rauðar viðvaranir, lægðir, stórrigningar og önnur flottheit. Ég er hér með tvö dæmi, annað frá konu í Garðabæjarsýslu og hitt frá karli hér á Skaganum. Tek mark á þeim báðum og finnst dásamleg tilhugsun að ég hafi svona mikil áhrif. (Þessi bloggbútur er í boði Veðurstofu Íslands, eða ætti auðvitað að vera það).
Hef verið spurð um líðan kattanna minna, Krumma og Mosa, eftir að Keli dó. Þeir sofa mjög mikið og hafa ekkert sérstaklega góða matarlyst. Blautmatur sem þeir allir þrír voru brjálaðir í, þornar bara á diskunum og endar í mávsgoggi, og kisunammmi er ekkert svo sérstakt þessa dagana. Engin leið að fá þá til að elta leiserpunkt. Mosi hefur vælt voða mikið í dag. Ég vona að þeir taki gleði sína bráðum, ég sakna Kela voða mikið og þeir greinilega líka. Enda var hann dásamlegur karakter.
Einhverjir vinir og vandamenn hafa staðið í ströngu síðustu daga við að reyna að kaupa miða á Oasis-tónleikana á næsta ári. Ég var meira Blur en Óasis í gamla daga (kannski af því að Damon er Íslandsvinur hinn mesti) en hef færst til síðustu árin. Fannst ótrúlega skemmtileg og fróðleg heimildamyndin um Oasis sem ég sá á RÚV, minnir mig, fyrir nokkrum misserum. Er með eitt lag á einum Youtube-listanum mínum frá hvorri hljómsveit, Park Life og Don´t look back in Anger, þetta er svona best of-listi, en samt ansi hreint undarleg blanda margvíslegra laga úr öllum áttum. Meira að segja Dolly Parton er þarna en ekki kjafta í þungarokksvini mína. Þú ert númer 376 þúsund og eitthvað í röðinni, er bara eðlilegt í þessari klikkuðu leit að miðum (sjá mynd). Vona bara innilega að mitt fólk fái miða, þessa fokdýru miða. Vinkona mín fór með karli og sonum til Bandaríkjanna nýlega og sá í leiðinni flotta tónleika með Smashing Pumpkins og Green Day ... hljómsveitum sem ég dáði undir aldamótin og geri alveg enn. Er með When I come around með Green Day en vantar Smashing P-lag á listann minn, Ava Adore, verður sennilega fyrir valinu, hélt svo mikið upp á það. Minnir að sonur minn hafi gefið mér plötuna (cd) í afmælis- eða jólagjöf á sínum tíma.
Næstu tónleikar: Skálmöld 1. nóv. og svo jólatónleikar rétt fyrir jól. Jafnvel tvennir jólatónleikar ... Hljómeyki og Góðir grannar saman er eitthvað sem virkar spennandi. Það verður greinilega nóg að gera eftir flutninga.
Já, og þetta blogg heitir Sögur úr himnaríki - þar sem ég flyt á 6. hæð er ekkert endilega nauðsynlegt að skipta um nafn ... en kannski gaman ... Fréttir ofanfrá, Sögur úr efra ... þigg ýmsar hugmyndir með miklum þökkum. Vegleg verðlaun? Kannski. Eða jú, finn eitthvað flott í verðlaun fyrir besta nafnið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.8.2024 | 22:30
Annir, jólahúmor og ... tilboði tekið
Annasöm helgi fram undan ...svo vægt sé til orða tekið, verkefni sem þarf að klárast hratt og vel svo ég verð að sleppa því að skreppa á opnun vinkonu á myndlistarsýningu í miðborginni á morgun og barnaafmæli hjá litlum frænda í Kópamaros á sunnudag. Ekki skrítið að ég þurfi að flytja í bæinn, svo mikið að gera sunnan rörs. Annars var sjórinn minn svo glæsilegur í dag að mig langar helst til að taka hann með mér suður, eins og hann leggur sig. Ég seldi hann ekki með himnaríki svo sjáum til.
Myndin er tekin frá Nýju blokkinni á Höfðabraut og sýnir himnaríki og sjóinn minn.
Með smáoggulitlum fyrirvara gerði ég tilboð í eina af íbúðunum sem ég skoðaði í gær og það var samþykkt. Þannig að ég er 99% að verða eigandi að ágætri íbúð í Reykjavík, hún er vissulega á útjaðri gamalgróins hverfis ... og getið nú. Frábæra Guðný, hönnuðurinn sem gerði himnaríki svo fínt, ætlar að teikna upp eldhús fyrir mig á nýja staðnum, það gamla er orðið lúið en það nýja verður eflaust "bara" Ikea og reynt að halda kostnaði í algjöru lágmarki en fyrst mála og flytja inn, svo melta hlutina. Smiður í klani fjölskyldu minnar mun gera svalirnar kattheldar svo Mosi fari sér ekki að voða, hann flaug út um eldhúsgluggann hér um árið en varð ekki meint af, "nýja himnaríkið" (vantar nýtt nafn á bloggið?) er enn hærra uppi svo ég verð að passa hann einstaklega vel. Hann hefur ekkert fjarlægðaskyn, virðist vera, eða er bara glanni með þettareddast-heilkennið. Fyrri eigandi sagði fasteignasalanum að dýrahald væri leyft og það væru meira að segja hundar í húsinu. Það eru svo góðar fréttir, hundar gera allt betra. Geri ekki á milli katta og hunda, það þarf nefnilega ekki að vera annaðhvort fyrir kisur eða hunda ...
Önnur sýrlenska fjölskyldan mín ætlar að hjálpa mér við að pakka og losa mig við dót í Búkollu og á haugana, ef þarf, ásamt því að flytja, á meðan hin fjölskyldan sér um að gefa mér að borða ansi hreint reglulega, síðast nú í kvöld (sjá mynd af ömmustrákunum mínum). Íslenskan er tekin alvarlega á því heimili ... nema ég þurfti að benda húsmóðurinni á að það væri betra að segja TEPPI en tippi (ég nota viljandi ekki Y til að sjokkera ekki prúða bloggvini), jafnvel nota orðið motta ... Hún gargaði úr hlátri þegar ég þýddi dónaskapinn, og bætti um betur, sagðist hafa gert viss mistök í innkaupaferð nýlega þar sem hún kallaði köku kúk, voðalega góð kúka, sagði hún víst við gleði viðstaddra. Hún er algjör snillingur, bara búin með Íslensku I en fer í Íslensku II fljótlega ... kostar bara 52 þúsund ... og nei, þau borga allt sjálf, öfugt við það sem sumir segja. Ég væri að fara að kenna henni og fleiri yndum ef höfuðborgin hefði ekki togað svona fast í mig, samt sorglegt, það er svo gaman að kenna útlendingum íslensku.
Ég læri líka heilmikið af þeim og tala nú nánast öll tungumál heims. Huggulegi Spánverjinn á ónefndri bensínstöð sunnan rörs, næstum grét í gær þegar ég þakkaði honum fyrir viðskiptin á flottri spænsku ... gracias. Takk, elsku Venesúelafólk fyrir að kenna mér að segja takk á spænsku. Ég hef líka komist ansi langt á því að segja sjú tem við Frakka (ég elska þig), Sjúkran, habíbí við arabískt fólk (takk, elskan), Ich liebe Dich við Þjóðverja (ég elska þig) og hissi við Finna (lyfta). Tungumálakunnátta er algjör nauðsyn þegar heimurinn er orðinn svona lítill og allra þjóða kvikindi lífga upp á land og þjóð og bjarga manni án efa frá bæði innræktun og endalausum skyrhræringi.
Ég hef aldrei nennt á jólatónleika, bara alls ekki, nema með Kór Langholtskirkju lengi vel á meðan ég bjó í bænum. Söng auðvitað með kórnum um hríð og fór svo áfram á jólasöngvana eftir að ég var hætt. Geggjaðir tónleikar sem gáfu gott í hjartað svo ég keypti flottari jólagjafir en ella. Jú, annars, ég sá einu sinni Palla og Monicu í Háteigskirkju ... sem var mjög hátíðlegt og flott.
Mér finnst húmor eitt það allra mikilvægasta í lífinu og ég hef á tilfinningunni að tónleikar Friðriks Ómars og co séu óbærilega fyndnir - og músíkin flott líka. Við Hilda systir ætlum að fara 21. des, á afmælisdegi Löllu vinkonu og Frank Zappa. Vetrarsólstöður eru kl. 9.19 um morguninn. Vitringaranir þrír; Friðrik, Jógvan og Eyþór Ingi, einnig Selma Björns, Salka Sól og Regína Ósk ... held að þetta geti ekki klikkað, æðisleg öll.
Ég er enn hálfmóðguð út í Storytel út af sögunni um Atlas, æ, þarna systurnar sjö-bækurnar fyrir að biðja okkur grunlausu lestrarhestana ekki afsökunar, okkur sem vorum byrjuð á henni en þvinguð skyndilega og án skýringa í þriggja vikna pásu-dæmið, og því hjakkast ég enn (helsátt þó) í gömlu frábæru sögunum um Martin Beck, lögreglufulltrúa í Stokkhólmi. Ég ætlaði aðeins að hvíla mig á ofbeldinu þar, hún er nefnilega frekar rosaleg sú sem ég er með núna, Maður uppi á þaki, en ég fór kannski úr öskunni í eldinn um tíma (sjá þessa bleiku), las eiginlega bara byrjunina samt ... fór svo aftur í sjöwall & wahlöö en tók bara fyrir eyrun þegar lýsingar á kennslu mannsins (þess myrta) þegar hann var í hernum, á því hvernig eigi að drepa, verða hroðalegar, ég hef náð að hlífa sál minni nokkuð vel með því að neita að hlusta, og hef því ekki hugmynd um allan skepnuskap myrta mannsins og vil ekki vita. Hélt að ég væri bara viðkvæm þegar kemur að dýrum í skáldsögum, ekki mönnum, en ég ber greinilega einhverjar tilfinningar til skáldaðs mannfólks líka. Hin bókin (bleika) sem ég kíkti aðeins í ber heiti sem hefur sjokkerað alla mína ættingja og jafnvel ógnað tilveru þeirra, að þeirra mati. Það ríkir víst einskær feginleiki yfir því að ég komist ekki í afmælið á sunnudaginn í Kópavogi, en ég frétti reyndar af krísufundi sem var haldinn vegna fyrirhugaðra flutninga minna í bæinn eftir rétt rúman mánuð! Leyfi ykkur að fylgjast með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.8.2024 | 23:55
Þrjár íbúðir, undarleg tilviljun og ungleg starfstétt
Íbúðaleit fór fram í dag og heilar þrjár spennandi voru skoðaðar - svo ég geti hunskast úr himnaríki áður en nýir himneskir eigendur flytja inn. Sú fyrsta kom ánægjulega á óvart, er ansi lítil en vel staðsett í Reykjavík, á sjöttu hæð, og réttu herbergin voru minnst, eða baðið og svefnherbergið.
En ... kannski er innikattahald ekki leyft í húsinu, svona strangt til tekið. Gömlu jálkarnir mínir (10 og 13)sem voru ansi glaðir að endurheimta mig áðan úr helju (Reykjavík). Yndislegir fasteignasalar, hjón, sýndu íbúðina, konan vann með mér á DV í eldgamla daga og hefur ekkert breyst!
Það er greinilega afar gott fyrir útlitið að selja fasteignir því ég sagði við næsta fasteignasala í hressu spjalli okkar: ... þarna 1986, þú varst kannski ekki fæddur þá?
Jú, reyndar, elsta barnið mitt fæddist 1984, svaraði hann frekar glaður. Þetta sannar kenningu mína.
Íbúðin sem hann sýndi, líka á sjöttu hæð og með ágætu útsýni (gosútsýni yfir Hengilinn, ef fer að gjósa þar) var rúmlega 20 fermetrum stærri - ágætar verslanir í grennd, eins og matvöru-, fata-, húsgagna- og dýra-, einnig líkamsræktarstöð. Svolítið sérstök lyftan í húsinu, hrikalega lítil, veit ekki hvort svarti speglaskápurinn minn kæmist inn í hana en hann er svo þungur að ég myndi missa alla vini mína og ættingja á einu bretti ef ég bæði þá að halda á honum upp sex hæðir! Lyftan stoppaði á sjöundu hæð (bara á annarri hverri hæð) og það þarf að ganga hálfa hæð niður. En maður flytur svo sem bara einu sinni í hvert hús. Það er bara í bíómyndum sem bölvun hvílir yfir sumum hæðum (eins og þrettándu) og því ganga ekki lyftur þangað.
Þriðja íbúðin sem við skoðuðum var skammt frá þessari í miðið, ódýr en flott einstaklingsíbúð og troðfullt á opnu húsi. Við kíktum niður í sameignina sem var mjög snyrtileg og í þurrkherberginu voru bókahillur, fullar af spennandi reyfurum. Það munaði engu að ég hlypi upp í íbúðina og gerði tilboð í hana en ... ég held nú samt að ég eigi þessar bækur flestar, og hafi mögulega lesið þær allar - kæmi mér ekki á óvart.
Nú hef ég haft hálft kvöldið til að hugsa minn gang. Ef ég fer í mjög litla íbúð gæti það haft áhrif á sitt af hverju ... ég ætti erfitt með að hýsa vini og vandamenn (stráksa í heimsókn), gæti ekki tekið fósturbarn tímabundið ... en í stærri íbúð eru möguleikarnir fleiri, það hefur svo sem verið nóg að gera hjá mér við yfirlestur og ýmis verkefni. Mikið pælt og spekúlerað í dag og kvöld.
- - - - - - -
Ég skil hreinlega ekkert í fasteignasölum með eignir í Kópavogi að hafa ekki haft samband við svona girnilegan kaupanda (engin keðja), þar var draumastaðurinn, en eftir að bæði Hanna og Nanna sögðu að best væri að takmarka sig ekki um of í leitinni, komu þessar þrjár upp - staðsettar í Reykjavík, í 104 og 105 og allar alveg prýðilegar. Tvær á útjaðri gróins hverfis, ein inni í slíku miðju (og ekki verst) ... Sú fjórða sem ég ætlaði að fá að skoða í Kópavogi, var frekar vel staðsett en vissulega dýrust þeirra, var hreinlega ekki til sýnis í dag. Eigandinn fluttur til kærustunnar og hafði lánað íbúðina næstu daga ... og þar með missti hann af mögulegri sölu. En ... hverfið þar er svakalega gróið, æðislegt útsýni, EF gróðurinn væri ekki fyrir, ég sé alla vega ekki betur, íbúðin er á jarðhæð en samt í brekku svo það sæist út á sjó ef ekki væru þessi mikli gróður - sem veldur mér sterkri innilokunarkennd þegar hann er of mikill. Ég hafði gífurlega mikla samúð með frænku minni sem bjó árum saman í ónefndu þorpi, allt troðið af gróðri í garðinum hennar og þegar hún skrapp út í mjólkurbúð notaði ein af þúsund milljón kóngulóm hjá húsi hennar, tækifærið og spann svo rosalegan vef fyrir útidyrnar hennar, að hún þurfti nánast að flytja í annað hús þar til kóngulónni þóknaðist að leggjast í dvala um haustið. Nánast. Frænkan hafði samúð með mér yfir því að hafa svona berangurslegt útsýni, alveg beint til Reykjavíkur og yfir Reykjanesskagann og næstum til Ameríku, ef jörðin væri ekki hnöttótt (eða er hún það?) og ekki einu sinni eitt tré á milli.
- - - - - - - - - - -
Talsvert margir útlendingar keyra strætó, veit ég, meðal annars leiðina mína, Akranes-Reykjavík-Akranes. Einn er frekar geðillur en hinir hver öðrum dásamlegri ... Þetta var inngangur að hryllingssögu sem nú kemur, eiginlega tveimur sögum:
Það kostar 1.200 í strætó á milli Akraness og Reykjavíkur. Ódýrara fyrir börn, unglinga, öryrkja og aldraða skv. síðu Strætó bs. Þetta síðasta miðast líklega við 67 ára, ég veit það ekki, hef ekki kynnt mér það, enda bara 66 ára, enn vinnandi á fullu og ekkert á leiðinni að hætta því. Bílstjórinn sem ók mér í bæinn í gær setti 600 kr. upphæð á posann. Ég sagði blíðlega: "Ég er að fara í Mjódd, það kostar meira!"
Já, einmitt, sagði hann, álíka blíðlega.
Ég hef bara tæpar 50 vikur til að geta með sanni sagt: I am too young ... - nýtti mér það að sjálfsögðu í gær og harðneitaði að þiggja afsláttinn, bar við heiðarleika. Hélt að þetta væri einstakt tilfelli, sjóntruflanir bílstjórans eða að cartmann-jakkinn minn (sem gerir mig 3,5 m á breidd) væri orðinn svo snjáður, ég gleymi alltaf að kaupa góðan og klæðilegan sumarjakka, að hann vildi gefa mér afslátt ...
Nei, aldeilis ekki, svo vildi til að bílstjórinn sem ók mér heim á Skaga í dag er líka útlenskur og hann ætlaði einnig að rukka mig um 600 kall. Það fauk alls ekki í mig, ég er jafnlynd og læt allt yfir mig ganga, líka móðganir því lífið er of stutt fyrir vesen, en ég verð að játa að ég varð undrandi. (Ætla rétt að vona að Madonna, jafnaldra mín, næstum upp á dag, eigi aldrei eftir að upplifa að taka íslenskan landsbyggðarstrætó).
Höfðu kannski orðið óvæntar útlitsskemmdir á mér án þess að ég tæki eftir því? Vinkonur mínar á svipuðum aldri lenda aldrei í nokkru líku þessu, kannski sleppa þær af því að þær taka aldrei strætó. Ég leit gagnrýnin í spegil við heimkomu. Alltaf jafnsæt EN ... hárið vissulega úr sér vaxið og það sást hvorki í augabrúnir né augnhár, allur litur horfinn þaðan ... og þessi cartmann-jakki gerir nákvæmlega ekkert fyrir mig, og ekki einu sinni túrkísblái trefillinn gat komið í veg fyrir að ég lenti í þessu. Svo er alltaf sá möguleiki að gerast fasteignasali á meðan ég næ mér aftur á strik útlitslega. Ég sendi alla vega átakanlegt neyðarkall til Önnu Júlíu hjá Classic hárstofu og fékk neyðarklipp og -lit á miðvikudaginn. Ég gefst endanlega upp ef ég fæ afslátt eftir það. Þá þigg ég þennan 600 kall með þökkum.
Mér finnst eitt mjög undarlegt við stærstu íbúðina sem ég skoðaði í dag. Þessa í miðið. Í yfirlýsingu húsfélags frá fasteignasalanum komu fram þrjár dagsetningar ... ein í maí, önnur júní og þriðja í ágústmánuði ... þetta reyndust vera afmælisdagar okkar þriggja í þessari skoðunarferð, mæðgnanna sem eiga afmæli í maí og júní, og svo minn. Himnaríki fór til dæmis á sölu á afmælisdaginn minn 2005, fyrir rúmum 18 árum ... sem mér fannst sniðugt, ég er svo hrifin af svona tilviljunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2024 | 23:40
Óvissuferð farin, kvenmerkt WC en samt ... og hræðilegasti Bondinn
Óvissuferðin var farin í dag, eins og við gellur í Hekls Angels höfðum planað, og haldið beinustu leið til Borgarness á Landnámssetrið. Vanafestan ein stjórnaði því að við tengdum ferðina við óvissu, því í síðustu viku var leyndarmálið opinberað um áfangastað eftir að ferðin var stytt verulega í annan endann.
Við komum í hús það snemma að heilar sjö mínútur voru í að eldhúsið opnaði. Þær liðu mjög hratt og alls ekki mikið seinna vorum við komnar með fínasta mat á borðið. Ég valdi mér fisk dagsins sem var karfi og hann var alveg upp á tíu. Þjónustan svakalega góð og ljúf en pissiríið á tveimur okkar (2/3) var skrambi "spennandi" þarna í lokin. Minnug spræns síðan á sunnudag, þar sem nánast ómögulegt var að læsa (þrjú salerni, það í miðið bilað og næstum lögguborði fyrir því) svo ég valdi það fremra í kvöld. Það þurfti verulega krafta til að loka dyrunum að básnum en eftir að það tókst var auðvelt að læsa, ég vonaði að ég gæti opnað. Eftir virðulega bununa greip ég í tómt þegar ég ætlaði að teygja mig í pappír. Ég flissaði innra með mér, hahaha, reynið bara, hugsaði ég, fór ofan í Mary Poppins-töskuna mína og sótti hvíta bréfþurrku. Þegar ég var að þvo mér um hendurnar á eftir mætti hinn Hekls Angels-meðlimurinn sem var í spreng og ég benti henni á salernisklefann úti á enda. Ég myndi standa vörð þar sem hún gat ekki læst, og hrinda öllum hranalega í burtu, lofaði ég. Þegar hún var búin kom hávaxin gullfalleg útlensk kona sem við vísuðum beinustu leið á wc-pappírs-básinn en sögðum henni að ekki væri hægt að læsa. Hún var langleggjuð og taldi sig geta notað tærnar til að halda lokuðu.
Að svo búnu yfirgáfum við þennan annars frábæra stað sem þyrfti að láta laga kvennasalernin ... ekkert skítugt samt. Viss Sigmundur D.G. hefði átt að vera staddur þarna og sjá hremmingar á sérmerktu-konum-salerninu en í gær skrifaði hann pistil um hinar góðu Færeyjar þar sem enn væru sérmerkt salerni fyrir karla og konur - svo konur gætu notið þess að pissa í friði fyrir körlum, eitthvað slíkt ... Mig langaði svo að kommenta (við SDG erum ekki fb-vinir) ... segðu að þú sért transfóbískur án þess samt að segja það. Því þannig var færslan hans. Ansi hreint forpokað hjá þingmanninum sem er ekki einu sinni orðinn fimmtugur. Hvað ætli ég hafi oft pissað á bensínstöðvaklósettum fyrir öll kyn eða heima hjá vinum og vandamönnum og það er ekki oft sem ég verð vör við útpissuð klósett ... líklega bara einu sinni sem ég upplifði alvarlegt atvik, þegar ég þurfti að þurrka af setinu - í heimahúsi, einn pabbi, þrír nánast uppkomnir synir ... og húsmóðir sem hafði greinilega fulla stjórn á skapsmunum sínum eða var á róandi lyfjum, mögulega alltaf full þótt hún virkaði edrú í þessari einu heimsókn minni þangað. Ég hefði aldrei getað lifað við svona pissirískarlafruss. Kannski var heimilið nöldurlaust, það getur alveg verið.
Dagurinn hefur farið í að skoða íbúðir á netinu og á fimmtudaginn verður rokið í að skoða. Ég víkkaði út leitina, leyfði höfuðborginni að fljóta með, og ekki bara 101 og 107, heldur fleiri póstnúmerum. Mögulega er ég búin að finna draumaíbúðina ... hún er svolítið hátt uppi (6. hæð) og af því að hún er í fokkings grónu hverfi sést ekki yfir borgina, eins og ætti að gera, fyrir rosalega háum trjám!!! Úr hinum hluta íbúðarinnar, sem snýr í aðra átt, eldhús og svefnherb., er þetta fína útsýni og þar fæ ég mína heittelskuðu steinsteypu og svolitla bílaumferð sem bónus. Tré eru svo ofmetin. (Ókei, ég er mögulega að stríða minni gróðurelskandi Ingu vinkonu). Grænt er alveg flott stundum.
Tvær aðrar íbúðir, sæmilega hátt uppi, verða einnig skoðaðar og svo ætlaði ég að kíkja á eina skammt frá Hlemmi, algjöra miðborgaríbúð, pínkulitla samt, en það gengur nákvæmlega ekkert að ná í fasteignasalann! Prófa áfram á morgun. Sá sem sýnir mér mögulega draumaíbúðina á fimmtudag sendi mér SMS með staðfestingu á tíma núna upp úr kl. 23, þeir vinna ansi mikið, þessar elskur. Ég skila himnaríki af mér í október, þessi mest spennandi er laus 1. okt. en hinar eru, held ég, þegar lausar eða mjög stutt í það. Einn fasteignasalinn sem ég ræddi við í dag tjáði mér að sumir sem eru að selja, nenni ekki að leyfa fólki að gera tilboð nema það sé í mínum sporum, búið að selja og ekkert með fyrirvara. Ég mun samt örugglega skæla af söknuði eftir himnaríkisútsýninu ...
Ég er afskaplega þakklát DV fyrir að hafa gripið fasteignaauglýsinguna mína fyrir himnaríki og gert "er þetta frétt" í Fókus, undir Stjörnufréttir, held ég alveg örugglega ... um að gosútsýnisíbúð Gurríar væri til sölu. Það jók heldur betur áhuga fólks í þessari og íbúðin seldist í kjölfarið. Hægt væri að tala um klíku, vissulega, en munið nú samt að ég vann hjá DV árin 1982-1989 þegar DV var á fjórum hæðum í Þverholti 11 og síminn var 27022, en allir sem ég vann með þá eru hættir.
Fólk sem kemst í Stjörnufréttir er, held ég, aðallega "áhrifavaldar" eins og við sem bloggum eða dinglum okkur á Instagram. Ég veit með nokkurri vissu að fjöldi fólks hefur snúið sér að kaffi í stað annarra drykkja og mér dettur ekkert annað í hug sem skýringu en mitt eigið blogg sem hefur dásamað kaffi árum saman. Það er kannski enn sterkara og trúverðugra að ég fæ ekki krónu fyrir eitt eða neitt og hvorki skyr né snyrtivörur, eins og ég ætti samt skilið. Þess í stað, mögulega, fæ ég kannski aldrei að koma aftur til Borgarness af því að ég nöldraði yfir vel þrifnum en hálfbiluðum klósettum í Landnámssetrinu.
Að lokum ...
Fannst á Facebook
Jæja, nú skaltu velja þann hræðilegasta leikara sem þú gætir hugsað sér til að leika James Bond ...
Fjölmörg svör bárust og margt fólk um þann sama. Ég þekki ekki nöfn tveggja eða þriggja tilnefndra til hræðilegs Bonds (sá efsti var einn af þeim og ég fann mynd af honum) og athugasemdirnar með eru EKKI mínar, vonandi eru nöfnin rétt skrifuð:
- Sean Astin, samt elska ég hann. (SJÁ MYND)
- Danny DeVito þótt hann yrði rosalega skemmtilegur Bond.
- Will Ferrell.
- Tom Cruise, myndi ofleika, að vanda.
- Gilbert Gottfried heitinn, bæði frábær og hræðilegur Bond.
- Kirk Cameron.
- Woopie Goldberg.
- Nicholas Cage, en ég myndi samt horfa.
- Eliot Gould.
- Steven Seagal.
- James Corden.
- David Hasselhoff.
- Robin Williams.
- Adam Sandler.
- Rowan Atkinsson, þótt hann sé meiriháttar.
- Woody Allen.
- Tom Hanks ... ekki séns.
- Roseanne yrði sæmilega hræðileg sem Bond.
- Steve Buscemi.
- Kevin Costner.
- John Wayne.
- Meryl Streep, hún fengi samt pottþétt Óskarstilnefningu.
- Russel Brand.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sumarfríinu hér með lokið og hversdagslífið boðið velkomið. Nú mega jólin alveg fara að koma. Ég ákvað að nýta ferðina norður í brúðkaupið sem sumarleyfi með brúðkaupsþema og það gekk prýðilega. Við systur erum vanar að fara í stutt ferðalag saman á sumrin en gistingarmöguleikarnir sem við sáum voru óstjórnlega dýrir svo við slepptum því bara og einbeittum okkur að brúðkaupinu sem var, sem betur fer, haldið úti á landi. Vissulega var rigning VEL yfir meðallagi, vegalokanir, grjóthrun, lögguafskipti og rútubruni en að öðru leyti algjörlega áfallalaus ferð.
Við systur lögðum af stað norður degi fyrr en ella, á fimmtudegi um kvöldmatarleytið til að sleppa við snjóinn sem spáð hafði verið á Holtavörðuheiði en kom svo aldrei (svo ég missti af eldgossbyrjun úr stjórnklefanum í himnaríki en kisupassarinn var á vaktinni, sjá mynd). Fengum gistingu hjá dásamlegri vinkonu systur minnar á Hvammstanga og eftir staðgóðan morgunmat með leynigesti drifum við okkur áfram. Höfðum hlakkað til kaffisopa í Varmahlíð en kaffivélin þar var biluð! Bara uppáhelling í boði, hrmpf ... Ókum alla leið til Akureyrar og á eitt besta kaffihúsið þar, Ketilkaffi (í Gilinu) og fengum þennan fína latte úr Kosta Ríka-baunum frá Kaffibrugghúsinu. Það var alveg þess virði að leggja lykkju á leið okkar fyrir það. Við fórum svo sem lengri leiðina, vissulega brjálaðar í stráka, alla vega ég, en létum Strákagöng eiga sig og fréttum af grátandi brúðkaupsgestum sem höfðu valið þá leið því Vegagerðin sagði það í lagi en heilu hnullungarnir ultu þarna niður, keyrandi fólki til mikillar skelfingar. Mikið sem frændi var glaður þegar hann náði á okkur einmitt í kaffinu á Akureyri, en ekki laskaðar undir björgum. Veginum var lokað skömmu seinna. Svo snerum við við, fórum í átt að elsku Dalvík (sumarfrí í Svarfaðardal 2019?) og þaðan í gegnum þrenn göng áður en við komumst til Siglufjarðar. Það róaði okkur mjög í fyrstu göngunum (einbreið) að hlusta á góða sögu ... Hin útvalda eftir Snæbjörn Arngrímsson er fínasta glæpasaga sem við náðum að klára við komuna til Borgarness á heimleiðinni, vorum að sofna en vöknuðum hressar við kaffið í Landnámssetrinu.
Við gistum á Hótel Sigló og fengum auðvitað herbergi með útsýni yfir nánast nakið lið fara í heita pottinn ... Fínasti kvöldverður var snæddur þar og hásinin minnti illilega á sig þetta kvöld, kæmist ég í brúðkaupið, kæmist ég ekki? Setan í bílnum þessa löngu leið, engin frostkæling á kvikindið hjálpaði ekki til en næsta morgun vaknaði ég brúðkaupsfær. Hefði nánast getað gift mig sjálf ef út í það væri farið. Sýndist eitthvað til af sætum körlum þarna í 580.
Við komumst heldur betur í hann krappan þegar við ætluðum að fara í kirkjuna, gatan var lokuð í báða enda vegna flóða (í húsum) ... og löggan sem átti að passa að lokanir væru virtar, tók ekki eftir því að við ókum frá bílastæðinu við hótelið og smábátabryggjuna. Þeir (mjög sætir) komu á móti okkur með blikkandi ljós til að láta okkur vita af lokuninni ... en eldhressir samt, og þegar þeir áttuðu sig á því að við værum saklausar konur í háska, bentu þeir okkur á leynileið nær höfninni til að komast leiðar okkar til kirkju. Ég hafði, frá því um morguninn, smávægilegar áhyggjur af því að við systur værum of "erótískar" í útliti (í litavali) ... önnur okkar í bleiku, hin í bláu ... það muna kannski ekki allir eftir öllum tímaritum ... Ég held samt að systir mín sem keypti báðar flíkurnar (aðra í afmælisgjöf handa mér) hafi ekki gert þetta viljandi!
Glaðasti prestur í heimi gaf brúðhjónin saman, móðurbróður brúðarinnar, starfandi í Búðardal, skilst mér. Hann var virkilega fyndinn og gaf í raun tóninn fyrir daginn ... Þegar við systur gengum inn í kirkjuna sat fólk nánast bara vinstra megin svo ég spurði hann hvort mætti sitja hinum megin og hann hélt það nú og sagði svo mjög móðgandi:
Þú mátt sitja út um allt!
Út um allt? Eruð þér að gefa í skyn að ég sé feit? spurði ég illskulega. Manni getur nú sárnað ...
Veislan var afskaplega fjörug og skemmtileg og ég drakk mestmegnis vatn, ég veit ... og allt fljótandi í víni. Nú veit ég af hverju ég fæ aldrei þynnku! Jesssss. Það er sko hægt að skemmta sér edrú, og sérlega auðvelt nálægt hressu og skemmtilegu fólki sem vinir og vandamenn brúðhjónanna eru, við systurnar þar taldar með, að sjálfsögðu. Ekki margar ræður, en allar stuttar og skemmtilegar, öll atriðin þannig en vá, hvað tónlistarbingó er skemmtilegt! Við fengum að heyra hluta úr lagi, fundum það á lista sem hver hópur fékk og númer þess, þá var hægt að strika yfir númerið og bíða svo vonlaus eftir að fá bingó. Held að vinningar hafi mestmegnis verið drullusokkar því brúðguminn er pípari ... en ég er samt ekki alveg viss. Ég heklaði utan um minn drullusokk á sínum tíma og nota hann sem hurðarstoppara, þann besta!
Sætaferðir voru á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar (625) þar sem veislan var haldin ... eða áttu að vera. Óvænt fengum við systur bílfar frá hótelinu til Ólafsfjarðar sem var sennilega eins gott því rútan sem var á leiðinni var víst löglega afsökuð því það kviknaði í henni á Ólafsfjarðarvegi. Brúðguminn var í sjokki þegar bílstjórinn hringdi í hann, hélt fyrst að þetta væri grín. Skriður og grjóthrun við Strákagöng og kviknað í rútunni sem átti að flytja gestina. Önnur rúta átti vissulega að koma, alla vega til að flytja gestina heim á Sigló (eða hótel) aftur en vér systur fengum óvænt far með dásamlegum hjónum til baka. Hún mundi eftir okkur síðan í gamla daga á Akranesi en af því að það er smávegis aldursmunur (við þorðum ekki að horfa á eldri krakkana og fyrirlitum þá yngri) Honum kynntumst við skömmu eftir að við fluttum til Reykjavíkur, þá 12 og 13 ára gamlar. Hann var vinur bróður okkar - heimurinn er svo lítill.
100 árum seinna, í brúðkaupi á Siglufirði, hann skyldur brúðinni, við brúðgumanum, hann að fara að skutla okkur systrum:
Ég: Varst þú ekki svo góður í leikfimi?
Úlli: Jú, sá fyrsti í Austurbæjarskóla til að fá tíu í leikfimi!
Þynnkulausar systur að ljúka við að pakka niður eftir morgunverðinn í gær:
Systir 1, afar greind og þokkafull: Þetta er fínasta hótel.
Systir 2: Já, vantar bara skóhorn.
Systir 1: Líka ísskáp en það er auðvitað kalt vatn í krananum.
Systir 2, bæði fögur og jákvæð: Það var í fínu lagi að geyma appelsínflöskuna við opinn gluggann.
Þegar systurnar, nú kallaðar hinar sjónlausu, voru búnar að taka yfirhafnir, slár og kórónur úr fatahenginu sást ágætt skóhorn hanga þar á snaga. Þær höfðu ekki tíma til að leita að ísskáp en sá hefði þá verið vel falinn og sennilega undir öðru hvoru rúminu.
Leit mín að fasteign - nýju heimili - stendur nú sem hæst. Keðjan mín hefur gengið upp og ég get gert tilboð í fasteign án þess að setja fyrirvara um fjármögnun. Mig langar ógurlega mikið að komast á stað þar sem allt er í göngufæri. Ég missti af tveimur íbúðum í Hamraborg, sem eru sérdeilis algjörlega í göngufæri við allt ... tattústofu, Katalínu, bókasafn, dýralækni, kaffihús, matvörubúð, nuddstofu, sjúkraþjálfara (hásinin), Salinn, Gerðarsafn og STRÆTÓ! Gallinn við þann stað eru vissulega gífurlegar sprengingar fyrirhugaðar vegna framkvæmda, það á að byggja mikið upp þarna. Og ég yrði að kaupa lofthreinsitæki vegna umferðarinnar. Kostirnir vega þyngra fyrir bíllausa kjéddlingu og margir sem ég þekki eru mjög hissa á hrifningu minni á þessari staðsetningu, kjósa allt öðruvísi umhverfi - kannski ekki það fallegasta en það er hægt að gera sjálft heimilið fallegt.
Mér finnst Kópavogur fínn, þekki margt gott fólk þar, og gæti mjög vel hugsað mér að búa þar. Spennan hefur magnast mikið í þessum málum! Svo hafa verkefnin hlaðist upp hjá mér. Ég man eftir að hafa hér áður fyrr horft með samúð á gömlu, fertugu kerlingarnar sem kvörtuðu yfir því hversu erfitt væri fyrir þær að fá vinnu ... sökum aldurs. Nú er ég orðin vel rúmlega fertug en það heppin að vinnuóöryggi hefur ekki angrað mig síðan ég var vel yngri en fertug. Hefur kannski eitthvað með það að gera að endajaxlarnir eru enn ókomnir, ellifjarsýnin líka ... og það vaxa ekki hár á leggjunum á mér. Því miður var hrukkuleysi ekki inni í þeim annars góða samningi ...
Með aðstoð frábæru Hönnu minnar dríf ég mig af stað hið fyrsta og leita að hinu nýja himnaríki. Það er alls ekki sniðugt að einblína á eitthvað eitt, takmarka sig við einn stað ... en Hlemmur og miðborgin í Rvík eru því miður of dýr fyrir mig og á meðan þetta sem er í boði er ekki í mjög grónu úthverfi þar sem ekkert sést út um glugga nema tré, runnar og blóm, og talsvert styttri vegalengd en 400 metrar í næsta strætó - er ég sátt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.8.2024 | 20:23
Óvissuferð frestað, óvænt gjöf og misheppnuð brúðkaup
Óvissuferð Hekls Angels var frestað en hana átti að fara í dag, styttri útgáfa af henni reyndar, og upplýst í gærkvöldi að fara ætti til Borgarness og fá sér eitthvað að borða á Landnámssetrinu. Það hefði nú verið gaman - en aðalsprautan í hópnum ætlaði nú að fara eitthvað lengra með okkur upphaflega, eitthvað sem þýddi vakn fyrir allar aldir, (jafnvel kl. 9)! Held að veðrið í næstu viku eigi að vera betra til bíltúrs en það sem veldur vatnsleka úr himnum í dag. Kemur sér svo sem ekki illa, er með verkefni sem þarf að klára sem fyrst. Svo ákváðum við systur í gær að leggja fyrr af stað norður, eða fara annað kvöld og gista eina nótt á elsku Hvammstanga, þannig losnum við við snjókomu og læti á Holtavöruheiði á föstudag! Mér vitanlega er JÚLÍ eini sumarmánuðurinn sem hefur verið laus við snjó! Úkraínski kattahvíslarinn minn bætti hiklaust við aukadegi til pössunar, elsku yndið. Hún er virkilega leið yfir fráfalli Kela, hann var í miklu uppáhaldi hjá henni og hún hjá honum.
Það er vissulega svolítið tómlegt hjá okkur núna, Keli var svo mikill karakter. Svo finnst mér eigi ólíklegt að Mosi hlaupi í spik því nú er enginn til að æsa hann upp í kapphlaup og "gannislagi" (gamni-), ef ég reyndi það yrði hann bara skelfingu lostinn og færi í felur. Þeir keppa svolítið, Krummi og Mosi, um athygli mína og hafa gert um nokkurt skeið. Hér er passað vandlega að ekki sé gert upp á milli. Svo voru þeir alla tíð á sjúkrafæði (urinary) því Keli þurfti það en nú er hægt að vera örlátari á nammið og prófa fleiri tegundir af mat. Og ég læt þá bara, ef þeir halda sér nógu lengi vakandi, elta rauðan leiserpunkt um allt himnaríki svo þeir haldi spengilegum vextinum.
Í dag fékk ég skilaboð frá uppáhalds-Instagramfólkinu mínu ("verður þú heima í dag?"), hjónum sem ferðast um Evrópu á húsbíl með tvö börn sín. Ég dáðist nýlega að afmælisplakati sem þau framleiða, sýndu það á feisbúkk - en þar koma fram ansi hreint miklar upplýsingar um hvern dag ... svo 12. ágúst, afmælisdagurinn minn, er t.d. dagurinn þegar stöðumælar voru teknir í notkun í Reykjavík (fyrirgefið), Thomas Edison gerði sína fyrstu hljóðupptöku, Hawaii var gert að 50. ríki Bandaríkjanna, og fleira stórmerkilegt. Tek það fram að ég var að sjálfsögðu ekki fædd þá! Daginn sem ég fæddist kostaði mjólkurlítrinn 4,03 kr. og strætófargjaldið var 1,75 kr. Þetta hljómar nákvæmlega eins og ég sé 155 ára eða svo en svo er ALLS EKKI. Mér hefur alltaf þótt fyndið hvaða lag var vinsælast úti í USA á fæðingardaginn minn ... eða Poor Little Fool, sem á stundum vel við.
Plakat fyrir daginn minn er sem sagt komið í hús, sjá mynd, afmælisgjöf frá þessu frábæra fólki (gudnymatt á Instagram) sem ég vona að komist eitthvert árið í afmælið mitt, eða bara í kaffisopa á öðrum tíma árs. Hún blés ekki úr nös konan sem kom með plakatið, og þegar ég baðst afsökunar á því að búa á efstu hæð, sagðist hún vera vön, sjálf efst í sínu húsi. "Þetta heldur okkur bara grönnum og heilbrigðum," sagði ég og hún samsinnti því. Ég er tággrönn inn við beinið og nánast búin að losa mig við hætt-að-reykja-kílóin sem bættust við þarna 2020. Þótt ég flytji í lyftuhús í borginni hef ég lofað mér því að nota stigana sem mest. Annars verður Inga vinkona brjáluð (sjúkraþjálfari) og ég vil líka losna við að áhyggjufullir ættingjar láti mig eltast við rauðan leiserpunkt.
Nýlega heimsótti ég sýrlenska vinafólkið mitt í næsta húsi. Í fyrsta sinn. Ef einhver segir mér að koma endilega í heimsókn, ég sé alltaf velkomin, samþykki ég það en geri samt ekkert í því, svo þegar ég fékk "beina skipun" - eða boð í heimsókn á ákveðnum tíma - fór ég auðvitað. Íbúðin þeirra er beint fyrir neðan þá sem ég bjó í ung að árum, um nokkra hríð, og auðvitað alveg eins. Það var gaman að koma þarna inn svona löngu seinna. Ég hef sjaldan kynnst annarri eins gestrisni og hjá vinafólki mínu frá Mið-Austurlöndum. Þetta kvöld var mér boðið allt það besta og svo þegar ég gerði mig líklega til að kveðja eftir ábyggilega tvo tíma af dekri, var mér boðið meira og ítrekað hversu velkomin ég væri alltaf. Hvílíkt yndisfólk sem hefur auðgað líf mitt mikið (og fyllt magann í mér oftar en ég get talið), það sem mér þykir vænt um þau.
Myndin: Í bakgrunni sést sjórinn minn og himnaríki en þarna fyrir miðju sést kokkurinn minn sem ekki bara eldar góðan mat, heldur er hann snjall hárskeri líka (menntaður í því). Fremst sést krúttmolinn sem kallar mig alltaf ömmu Gurrí. Sá litli (að verða eins árs) á eftir að gera það líka, er ég viss um.
Því miður er eins og sumir einblíni á fólk frá þessum heimshluta sem ástæðuna fyrir háum kostnaði við málaflokkinn. Við ættum ekki að gleyma miklu og sjálfsögðu hjálpinni við flóttafólkið frá Úkraínu sem var boðið velkomið hingað, og fólkinu frá Venesúela sem var óvænt hætt við að leyfa að vera hér, því miður, svo "keyptar" voru heilu flugvélarnar undir það til baka, og það leyst út með háum peningagjöfum sem voru síðan hirtar af því við komuna heim. Gríðarlegur kostnaður bara þar. En orðalagið hjá "því opinbera" er kannski liður í að ræna atkvæðum frá Miðflokknum, svo stutt er í næstu kosningar. Það er alveg hægt að taka til í þessum málum án mannvonsku eða með yfirlýsingum sem fjölga rasistum - sem eru alveg nógu margir fyrir. Við eyðum líka STÓRFÉ í ýmsa hluti sem væri betur varið í annað.
Sko ... Helgi vararíkis hefur fullan rétt á að tala illa um glæpamanninn sem ofsótti hann og fjölskyldu hans, ömurlegt að lenda í slíku, en að setja samlanda glæpamannsins (22 milljónir) í sama flokk og ýta þannig undir fordóma, er ekki sæmandi manni í svona háu og valdamiklu embætti, það er líka bannað með lögum að mismuna fólki*. Við höldum öll með Helga gegn glæpamanninum en hann hefur áður sagt eitthvað sem hann hefur fengið ákúrur fyrir, um homma og konur, ég þarf að gúgla það við tækifæri, en hvað næst, Má þá segja: Húsgagnasmiðir eru allir fávitar af því að kommóðuskúffan mín er orðin stíf? Og Skagamenn (rúmlega 8.000) næstir? Einhver sem les bloggið mitt, myndi þá heyrast eitthvað um þetta heimska "góðafólk" á Skaganum? Sumir misskilja málið, viljandi eða óviljandi, og láta eins og einhverjir haldi með glæpamanninum!
*Í 65. grein stjórnarskrárinnar segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar ... o.s.frv.
Í afmælinu mínu fyrir mörgum árum sagði mamma um konu sem sat í hinum enda stofunnar og var með hvíta slæðu yfir hárinu: Af hverju aðlagast þetta fólk ekki? Ég minnti hana góðlátlega á að hún hafi sjálf oft verið með slæðu - þá var ég lítil stelpa. Þá var eins og mamma áttaði sig, hún sagði að henni hafi aldrei líkað við slæðuna en þetta var einhver tíska í gamla daga. Mömmu var samt alltaf svolítið illa við sumt fólk frá útlöndum, aðallega dökkt fólk, óttaðist það á einhvern hátt, hún hlustaði líka mikið á vissa útvarpsstöð. Ég sagði henni aldrei að elsku stráksi minn væri frá Palestínu (fæddur í Írak) því henni þótti svo vænt um hann og hefði fengið áfall, hann faðmaði hana alltaf þegar þau hittust og var svo góður við hana. Kona sem giftist inn í ættina okkar er dökk á hörund en mamma virtist aldrei taka eftir því, fannst konan bara æðisleg, sem hún er.
Rasismi er líklega oftar en ekki ótti við það óþekkta (falsfréttir hafa líka bæst við og hella olíu á eldinn). Heimurinn hefur breyst mikið, við verðum bara að sætta okkur við það, ég man þegar sást varla útlendingur á ferli hér og þeldökku hermönnunum á vellinum var hreinlega bannað að koma til Reykjavíkur svo þeir sjokkeruðu ekki landsmenn! Þegar ég fór til London 1976, til ársvistar sem au pair-stelpa í Acton Town, fannst mér mannlífið æðislegt í borginni, svo fjölbreytt flóra fólks frá öllum heimshornum og af öllum trúarbrögðum, í sátt og samlyndi, virtist vera. Ég fór í skóla úti og lærði ensku - og bekkjarsystkini mín endurspegluðu margbreytileikann vel. Enn er lífið í Reykjavík ekki nálægt því að líkjast stemningunni í London þegar ég bjó þar, kannski svo kalt hérna, og enn í dag sjást hér undrunarfullar fréttir af útlendingum sem slá í gegn af því að þeir eru svo duglegir að aðlagast ... sé ekki fyrir mér slíka krúttfrétt um Íslending sem aðlagast svo vel í Englandi (eða ekki, gleymdi þorrablótunum).
Jæja, útrás dagsins var í boði himnaríkis. Kannski svekkelsi eftir að hafa séð tvo hrædda karla á mínum aldri skrifa einhvern viðbjóð á fb-síðu sem hatast við fjölmenningu, sjá bara gallana, suma ímyndaða, aldrei kostina.
Mikið er gaman að endurlesa bækur Sjöwalls og Wahlöö, þar sem söguhetjurnar eru margar á aldur við mömmu eða eldri. Og hvað þessar bækur eldast vel, engir gemsar, engar tölvur, allt handskrifað og meiriháttar mál að ná í löggur utan vinnutíma, ef þær voru ekki heima með heimasímann nálægt sér. Er núna að hlusta á Brunabílinn sem týndist, nýbyrjuð á henni, góður lestur ... ég þarf samt að kíkja á Manninn á svölunum (ég á þessar bækur auðvitað uppi í hillu) til að athuga hvort börnin hafi virkilega verið að hoppa í Paradís ... en lesarinn segir það alltaf (nema einu sinni hoppa í París) Paradís hef ég aldrei heyrt. Sænska útgáfan af París? Ég trúi öllu eftir að hafa hlustað á bók sem ég prófarkalas og heyrði samt orðið UNGAbarn þegar ég hlustaði á hana löngu seinna, orð sem ég hefði aldrei hleypt í gegn (skárra í talmáli) en lesarinn sagði það ítrekað þrátt fyrir að það stæði UNGbarn í bókinni. Mér finnst það fallegra ritmál og held mig við það þrátt fyrir að UNGAbarn sé viðurkennt núna sem rétt. Hrollur!
Ljúkum þessu bloggi á hressandi brúðkaupssögum frá Ameríkunni, þeirri nyrðri, kannski vantar einhvern hugmyndir ...:
Eftir að hafa sagt já óku brúðhjónin um svæðið á sláttutraktor á meðan lagið She thinks my tractor is sexy var leikið aftur og aftur í hálftíma. Næstu fjörutíu mínútum eftir það vörðu þau í myndatöku þar sem þau stilltu sér upp í hinum ýmsu stellingum á sláttutraktornum. Á meðan sátu gestirnir úti og kvöldust, biðu veislunnar í steikjandi sól og hita og hvergi var skugga að finna. Ég var komin sjö mánuði á leið og þetta var ekki skemmtileg bið. Þau eru ekki einu sinni bændur eða með tengsl við sveitina, það var mamma hans sem lánaði þeim sláttutraktorinn og þeim fannst greinilega voða sniðugt að hafa svona sveitaþema.
Áður en athöfnin hófst var brúðguminn orðinn dauðadrukkinn. Eftir að hafa drafað heitin beygði hann sig niður og gubbaði á skóna sína. Brúðurin lét sér fátt um finnast, enda ansi drukkin sjálf. Allt lyktaði af ódýrum vodka og eftirsjá. Þetta var algjör hryllingur frá upphafi til enda.
Fyrrverandi kærasta frænda míns mætti óboðin í brúðkaupið hans. Hún var rauðklædd og glæsileg, og vildi endilega skála við hann. Í leiðinni lét hún þess getið að hún væri komin sex vikur á leið og hann væri pabbinn. Brúðurin reiddist og sakaði hinn nýbakaða eiginmann um framhjáhald, enda ár liðið frá skilnaði hans við fyrrverandi, og sex mánuðir síðan þau tvö kynntust. Reikningsdæmið gengi hreinlega ekki upp. Allavega skildu þau fljótlega og í næsta mánuði ætlar frændi minn að giftast sinni óléttu fyrrverandi.
Góður vinur minn giftist konu sinni eftir stutt kynni. Hann var 26 ára og hún bara 18 ára. Faðir brúðarinnar var mjög mótfallinn giftingurinni og það sást greinilega á svip hans þegar hann leiddi dóttur sína upp að altarinu. Í veislunni stóð hann upp til að halda ræðu. Hann sagði: Þegar við hittum brúðgumann fyrst líkaði okkur ekki við hann. hann sagði ekki meira, heldur settist niður. Brúðurin barðist við að fara ekki að gráta og vinur minn reyndi að halda brosinu þótt honum liði illa.
P.s. Elsku borgarstjóri ... "næsta stoppistöð í mest 400 metra fjarlægð" - er það ekki aðeins of langt fyrir íbúa á Íslandi yfir vetrartímann (og sumarið 2024). Hálka, stórhríð, rok, kuldi, brekkur ... of freistandi að fá sér bara bíl. Ekki fyrir mig, ég kaupi bara íbúð skammt frá stoppistöð, þá þoli ég öll veður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.9.): 12
- Sl. sólarhring: 20
- Sl. viku: 134
- Frá upphafi: 1533298
Annað
- Innlit í dag: 12
- Innlit sl. viku: 121
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni