Færsluflokkur: Sjónvarp

Bein útsending hvað ...

Í hádeginu fór Sigga á Húsum og híbýlum á kostum að vanda. Hún sagði m.a. frá skemmtilegum misskilningi hjá einni auglýsingastýrunni. Þegar Kaffi Rómans o.fl. brann á dögunum var þeirri konu ráðlagt að fara inn í matsal (þar er sko sjónvarp) ef hún vildi sjá þetta í beinni. Hún pikkaði samviskusamlega inn í tölvuna sína matsalur.is. Þetta þótti hinum alveg hryllilega fyndið og sögðu henni að hún að fara inn á visir.is. Hún hnussaði og sagðist sko ekki láta plata sig tvisvar sama daginn.

 


Kuldaleg meðferð - gæsahúð í himnaríki

Þetta gæti verið égMikið ofboðslega er gaman hjá einhverjum Orkuveitustarfsmanni núna. Þeir hljóta eiginlega að vera tveir, annar með kíki og hinn sem stjórnar heita og kalda vatninu. „Ahh, hún var að fara út af baðinu, skrúfuðu núna fyrir heita vatnið og láttu renna ísjökulkalt vatn í baðkerið, múahahhaha!“


Hraðsuðuketillinn er nú formlega fluttur inn á bað! Lífsgæðum mínum hefur hrakað til muna síðustu vikurnar og ég finn að gleðin víkur fyrir kvíða. Hvernig verður veturinn? En lyktin af mér? Festist gæsahúð á fólki?

Nick&BridgetÚtdráttur þáttarins í morgun:
Nick faðmar Bridget ástríðufullt en horfir samt dapur út í loftið. Hann hugsar um Brooke, mömmu hennar, sem hugsar líka um Nick en einbeitir sér að því að ráða Dante, nýbakaðan unnusta sinn og bjargvætt Taylor, í tískuhúsið til að sjá um mynstur og svona, enda er hann listamaður. Bridget er að reyna að „tengjast“ Nick en hann fer sífellt úr stuði, enda eru þau á skrifstofunni hans og þar er mynd af Brooke. Þau ætla að giftast um borð í skipi í kvöld, bara tvö ein, en það hlýtur eitthvað að koma í veg fyrir brúðkaupið enn einu sinni ...
Draumórar Brooke: Nick kemur inn á skrifstofuna hennar, 18 efstu tölurnar á skyrtunni hans eru fráhnepptar. Hún flettir af honum skyrtunni og þau fara að kela. Draumórum lýkur. Brooke andar ótt og títt.
Nick pantar skipstjóra til að framkvæma vígsluna, Bridget hoppar á Nick, alveg kynóð og hann segir: „Bíddu, bíddu, þarftu ekki að redda kjól fyrir kvöldið?“
Hey, Nick er kominn inn á skrifstofu Brooke og segir henni að hann geti ekki hugsað sér að Brooke mæti í brúðkaupið en Bridget bauð mömmu sinni í fljótfærni, þótt þau Nick ætluðu að vera tvö ein. „Þú mátt ekki koma í brúðkaupið, þá veit ég ekki hvort ég geti þetta!“ segir hann með ástríðuþrungnum dapurleika. „Heldur þú að mig langi að koma þótt ég viti þetta rífi úr mér hjartað?“


Ekkiboldhorf, einstæðar mæður og enski boltinn

Ridge á brúðarskónumÞarf að játa mig seka um að hafa „ekkihorft“ á boldið núna, það rúllaði í sjónvarpinu en ég hreinlega gleymdi að fylgjast með af athygli. Tók samt eftir því að Ridge horfði morðaugum á slökkviliðsmann eða löggu sem færði Taylor blómvönd en Taylor, geðþekka geðlækninum, tókst að tala mann nokkurn ofan af því að fremja sjálfsmorð. Hún er sem sagt farin að vinna aftur. „Er ég eina manneskjan sem vissi ekki að Taylor er byrjuð að vinna?“ spurði hann pirraður. Hefur Ridge alltaf verið svona rosalega leiðinlegur?
Ef ég á að giska á atburði undanfarinna þátta sem ég hef ekki séð, þá má vera að Eric faðir Ridge, ekki blóðskyldur, hafi gifst Jackie, mömmu Nicks og fyrrverandi eiginkonu Massimos, blóðföður Ridge. Já, og Brooke hafi gifst bjargvætti Taylor, þessum sem ég man aldrei hvað heitir. Já, og Nick og Bridget hafi gifst fyrir rest! Veit þó ekki, en mikil giftingarsýki ríkir í þessum þáttum.  

Einstæðar mæðurHeyrði umræður í dag, fremur neikvæðar, um „þessar einstæðu mæður“, svikarana sem þykjast vera einar á báti en eiga kærasta með tekjur og fá FULLT af meðlagi og mæðralaunum. Hér er misskilningur á ferð, þetta eru pör, ekki einstæðar mæður, svona ef einhver hefur ekki áttað sig á því! Einstæðar mæður eru einstæðar mæður og þær hafa það flestar skítt! Mikið hefði verið gott ef ég hefði áttað mig á því fyrr, þá hefði ég getað rifið kjaft á móti!

Enski boltinn verður á Sýn 2 í vetur. Veit einhver hvað það þýðir? Ég er með Stöð 2 og Sýn núna, ætli ég þurfi að borga meira til að sjá þann enska?


Bækur, karlar með kúlumaga, tiltektir og glæpónabílar

GlæpónabíllÁ heimleiðinni í gær benti ég Önnu á dæmigerðan glæpónabíl, svona skítugan og sjúskaðan sendiferðabíl en Anna sagði að nú notuðu glæpónarnir pallbíla. Það hafði ég ekki hugmynd um. Við ákváðum að fara göngin í stað þess að elta glæpabílinn inn í Hvalfjörð, líklega skynsamlegt ef þetta hefur verið gamaldags glæpamaður undir stýri.

Vor- og sumarhreingerningar standa yfir hjá mörgum bloggvinum mínum sem hika ekki við að fórna áhugalausari bloggvinum sínum til að búa til pláss fyrir nýrri og dugmeiri. Ég kíkti yfir bloggvinalistann minn og tími ekki að fleygja neinum. Þetta er samansafn bráðmyndarlegra manna og gullfallegra kvenna sem mér finnst bara skreyta síðuna mína.

desperateSettist hátíðlega fyrir framan RÚV kl. 21.10 í þeim tilgangi að horfa á þær aðþrengdu þar sem ég gleymdi þeim síðast. En ... það er bein fótboltalýsing og í þessum skrifuðu orðum eru stelpurnar okkar búnar að skora! Jess, en ég er samt akkúrat ekki í stuði fyrir fótbolta núna. Ætla líka að reyna að muna eftir House, þættinum sem Jenfo vakti áhuga minn á í gegnum bloggið sitt.

Sellebritts í VísindakirkjunniÉg er komin með svolítið af girnilegum nýjum bókum á náttborðið, ætla næst að lesa íslenska spennubók sem heitir Þrír dagar í október og er eftir Fritz M. Jörgensson. Búin með nýju teiknimyndabókina hans Hugleiks og veltist um af hlátri. Brandarinn um gay-skemmtiferðaskipið og Færeyjar ... ég gargaði. Húmorinn hans Hugleiks er kannski ekki allra en mér finnst hann æði. Hulli kenndi myndlist í sumarbúðunum hennar Hildu fyrir nokkrum árum og í einum kaffitímanum fræddi hann mig um Vísindakirkjuna þar sem meðlimirnir segja: „Tom Cruise minn góður, eða Tom Cruise sé lof,“ svona eins og Katrín Anna gerir stundum í bloggfærslum og fær mig til að flissa.

 

Óléttur maðurVeit einhver hvað auglýsingin um óléttu karlana á að tákna? Mig grunar að þetta sé auglýsingaherferð fyrir Gay Pride sem verður þá helgina, eða kannski fyrir enska boltann sem gæti mögulega hafist þá ... og ég er með Sýn ... gargggg úr gleði! Verð samt að benda á að 12. ágúst, er mun flottari dagsetning á allan hátt!

Fæ tvær þrusugellur í heimsókn eftir vinnu á morgun, frænku mína ástkæra og fyrrverandi svilkonu, líka ástkæra. Þær sendu mér tölvupóst í gærmorgun og vöruðu mig við Tomma bílstjóra, líst ekkert á þetta samband okkar á morgnana. Mig grunar að þær séu afbrýðisamar. Nú er u.þ.b. eitt og hálft ár síðan þær ætluðu að kíkja á himnaríki en þetta "bráðlega" er svo teygjanlegt hugtak. Mikið hlakka ég til að fá þær.

Jæja, Húsið er að hefjast. Megi kvöldið verða dásamlegt hjá ykkur og nóttin ekki síðri!


Annir, Sigþóra og Boldfréttir

Sigþóra og Gurrí á leið til vinnuÞetta var ansi annasamur dagur, vikan hefur eiginlega verið alveg svakaleg. Ritstjórinn veikur, ég í öðrum verkefnum (kemur bráðum í ljós ... úúúúú) og í ansi mörg horn að líta. Skil ekki hvernig blaðakonur Vikunnar fara að því að klæða sig á morgnana fyrir vængjunum, þessar frábæru hjálparhellur.

Hitti Sigþóru í “réttfyrirsex” strætó og plataði hana til að setjast hjá mér. Hef ekki séð hana í margar vikur, enda vinnur hún þannig að sumar vikur tekur hún fyrsta strætó á morgnana og aðrar vikur næsta vagn og ég auðvitað verið í fríi. Sagði henni að hún væri komin með göngufélaga upp brekkuna þar sem leið 18 kýs frekar að aka Árbæinn en Stórhöfðann! Við hlökkum ofboðslega til að labba þetta í trylltum veðrum í vetur og nú verð ég bara að festa kaup á góðum útigalla. Þvílíkar hetjudáðir sem við munum drýgja, bjarga fólki á leiðinni, ýta bílum úr sköflum, grafa okkur í fönn og svona. 

Nick virðist vera grautfúll út í gang mála, hann er allt í einu fastur við dóttur konunnar sem hann elskar, hina barnshafandi (eftir hann) Bridget! Hann snapar rifrildi við hana og hún er sífellt sakbitin. Bridget, ef þú ert að lesa þetta, hættu með Nick strax ... í framtíðinni á hann hvort eð er eftir að fara að deita geðlækninn geðþekka, hana Taylor inni í framtíðinni, ég njósnaði.
Brooke grætur Nick en ætlar greinilega að fórna sér fyrir hamingju (!) Bridget.
Mér sýnist að Jackie, mamma Nicks, og Eric, pabbi (en ekki blóðfaðir) Ridge, séu farin að draga sig saman. Já, þau eru að kyssast! Kræst, hvað segir Stefanía nú?


... heldur frelsa oss frá illu kaffi

Kaffi eða djöfladjúsFrétti að maður, kenndur við kross, beini nú spjótum sínum að drykkjufólki sem djöflar í sig ógeðsdrykknum kaffi. Mér finnst þetta frábært. Loksins er ráðist á þessa óhæfu sem kaffidrykkja er. Hversu margar fjölskyldur ætli hafi tvístrast og sundrast vegna kaffidrykkjusýki annars foreldrisins á heimilinu, jafnvel beggja? Hversu margir ætli eigi um sárt að binda vegna neyslunnar? Ég er ekki saklaus, ætla ekki að reyna að afsaka mig. Flest óhæfuverk sem ég hef framið í lífinu hafa verið undir áhrifum koffíns, m.a. fjölmargar bloggfærslur.

Viðvörunarmerkin voru alls staðar þegar ég fer að hugsa út í það. Í Dalalífi eftir Guðrúnu frá Lundi, sem ég las á unglingsaldri, kemur berlega fram hættan af því að drekka kaffi og var Ketilríður nokkur nefnd sérstaklega til sögunnar, en hún þambaði kaffi með hlóðabragði í lítravís og slúðraði í kjölfarið.
Erfðaprinsinn minn reyndi líka að vara mig við einu sinni og sagðist vera stórhneykslaður á því að hafa séð áhöld til kaffineyslu inni í eldhúsi hjá mömmu sinni.

Mér finnst frábært að loks hafi fundist gott málefni til að berjast fyrir, eða öllu heldur gegn. Hef einhvern veginn aldrei fundið mig í andúð á samkynhneigðum, hatri á rokktónlist, hneykslan á konum með stutt hár eða konum í buxum. Nú erum við laus við reykinn á kaffihúsunum, næst berjumst við gegn kaffi! Held að fólk geti drukkið te. 

Heiða í himnaríkiMikið var gaman að fá Heiðu í heimsókn. Henni gekk vel að rata til himnaríkis, enda held ég að Skaginn sé ekkert of flókinn fyrir utanbæjarfólk. Hún kom með djöflatertu með sér, svakalega góða, og ég bauð henni upp á djöfladjús (kaffi) með. Við skemmtum okkur djöfullega vel. Við horfðum með öðru á Djöfmúluna og nú er ég farin að óttast að maðurinn sem ég held með, Djöfmilton, verði nýr Djúmaker sem hrifsar til sín alla sigra og það hætti að vera gaman að horfa.

Fyrsti vinnudagur eftir sumarfrí er á morgun. Vona að ég muni eftir því að mæta! Svo er það matreiðslunámskeiðið annað kvöld.


Hátíðarhöld í himnaríki

17. júníVeðrið úti á svölum er guðdómlegt. Hvernig er það hjá ykkur? Kannski ég bara setjist þar í smástund. Verst að eina sólvörnin sem ég á er í meikinu mínu ... kann varla við að bera það á mig alla áður en ég fer í sólbað. Kannski ég setji bara ólífuolíu ... hehehhe.

Ströndin er stór og æðisleg núna, það er háfjara, en allt mannlaust vegna 17. júní-hátíðarhaldanna. Ég man eftir einni sekúndu úr draumi mínum sl. nótt þar sem var fjara og það sást varla í sjóinn, svo langt var hann frá ströndinni. Þetta táknar mögulega að Katla láti á sér kræla í sumar eða að skemmtilegur bloggvinafundur verði haldinn í Skrúðgarðinum í haust (þegar allir verða komnir úr fríi) og að Ridge í boldinu verði sérlegur gestur okkar bloggvinanna. Erum við ekki hinir sönnu aðdáendur?

Vaknaði á mínútunni 12 sem mér finnst flottur tími, ekkert fimm mínútur í eða yfir eða slíkt rugl, bara akkúrat. Þetta veit á góða næstu viku, fyrstu vinnuvikuna eftir sumarfrí!

Æsispennandi hátíðardagskrá er svo fram undan í dag. Það verður byrjað á glettilega góðu hátíðarbaði og síðan hefst bið eftir hátíðargestinum, bloggvinkonu sem ég hef aldrei hitt áður en finnst ég þekkja svo vel. Þetta veit á góðan dag.


Tjull, reykingabann og kattahöfnun

Hæfileikakeppnin æfingSkrýtið, ég fór frá himnaríki um hádegisbil í gær og kom upp úr ellefu í kvöld aftur heim. Samt er eins og ég hafi verið í heila viku í sumarbúðunum, svo mikið hefur verið um að vera. Ég afþakkaði boð um að vera dómari í söng- og hæfileikakeppninni í kvöld og hjálpaði Möggu minni að tjulla grindverkið við framhlið sumarbúðanna. (sjá mynd)

Tjullað grindverkSvo var klukkan allt í einu farin að ganga tíu, við Magga enn á Hellu og síðasti strætó heim frá Mosó eftir rúman klukkutíma. Við kvöddum hvorki kóng né prest, heldur rukum að stað og án þess að leggja okkur eða aðra í lífshættu komumst við í Mosó á réttum tíma. Lítil umferð og engir lestarstjórar á 80 km/klst. Kvöddum með tárum í gegnum gemsann minn. Ég virðist alltaf yfirgefa sumarbúðirnar á ljóshraða. Hafði bara fimm eða tíu mínútur síðast til að koma mér í veg fyrir rútuna vegna kolrangra upplýsinga á Netinu.

ReykingabannStrætóbílstjórinn í kvöld vinnur líka af og til sem dyravörður á vinsælum pöbb í Reykjavík (þar sem m.a. listamenn hanga) og var að vinna í gærkvöldi. Það var sæmilegt að gera, sagði hann, en um síðustu helgi mætti varla hræða. Hann spurði örvæntingarfullur: „Hvar er reyklausa liðið sem kvartaði svo mikið yfir reykmettuðum skemmtistöðum? Þessir fáu gestir sem komu um síðustu helgi reyktu allir (úti) ... og innkoman um kvöldið dugði ekki einu sinni fyrir laununum. Þetta reykingabann mun gera svo marga atvinnulausa,“ sagði hann spámannslega.

Ég var eiginlega viss um að allt væri fullt út úr dyrum af reyklausu, happí liði, þessu rosalega háværa sem hefur tjáð sig svo mikið um gleði sína yfir reyklausum skemmtistöðum. Var þetta bara forsjárhyggja eftir allt saman?

Kisurnar þekktu mig varla þegar ég kom heim, svo langur tími hafði liðið ... en samt var nægilegt vatn og matur hjá þeim. Áhugaleysi þeirra á mér er algjört, þær sofa!
Rifjaði bara upp ást mína á kaffinu góða í himnaríki og horfi nú með öðru á Geisha ... The birds hérna fyrir utan er aðeins meira spennandi. Engir kvenfuglar í hópnum sem líta á það sem heiður að vera þrælar karlfuglanna.


Skúbb - Ellý hætt í X-Factor!

Loksins komin á áfangastað. Við lögðum af stað seint um síðir, þurftum að gera mjög áríðandi hluti í Reykjavík, eins og að kaupa kaffi í Kaffitári, koma við á Stokkseyri og kaupa ís á Selfossi.
Að sjálfsögðu var skúffukaka í kaffitímanum, jess, og kjúklingur í kvöldmat. Sorrí þetta með matinn en ég h ef svo oft bara verið í kvöldmat á laugardögum og þá eru fj. pylsur, ekki matur fyrir dömur.

Fékk leyfi hjá Ellýju að skúbba með það að hún ætlar EKKI að vera með í X-Factor næsta vetur.
Ég skil hana vel og er fegin hennar vegna, þvílík vinna sem þetta var á henni sl. vetur, það minnsta var að sitja með hinum dómurunum í sjónvarpinu. Alltaf eitthvað samviskubit út af börnunum og líka myndlistinni!

Ellý er að æfa krakkana í karaókíinu og þau rosaspennt að fá svona stjörnu ... hehehehehe. Spurningar eins og: Fannst þér ekki leiðinlegt að þurfa að senda Alan heim? Ohhh, elskaðir þú ekki Hara-systur? dundu á henni.
Ellý er fín á krakkana, ströng en sanngjörn og kann sitt fag. Sem betur fer verður keppnin annað kvöld þannig að ég get væntanlega hlustað áður en ég fer heim. Davíð frændi er að aðstoða í karaókíinu og gat því ekki hent inn myndunum á sumarbudir.is. Verður gert í kvöld.

Hilda nálgast, best að halda áfram að vinna ...


Erfið þessi fréttamennska stundum ...

Smáblogg fyrir svefninn.

Það er ekki hlaupið að því að vera í sjónvarpsfréttunum …
http://www.youtube.com/watch?v=4HTUPv5zP5M&NR=1 

… eða veðurfréttunum …
http://www.youtube.com/watch?v=pSiWh1s0KCk&NR=1

Æ, ég er alveg að missa mig á youtube.
http://www.youtube.com/watch?v=WrpaCOb_BGk&mode=related&search=

Svít dríms, elskurnar.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 48
  • Sl. sólarhring: 50
  • Sl. viku: 243
  • Frá upphafi: 1527118

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 191
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Magpie Murders

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband