Gleðilegt kaffi og hamingjurík álfaleit ...

Drengur með spilSamferðakonan okkar góða mætti eldsnemma í gærmorgun til að sækja okkur. Mæður á Snæfellsnesi, læsið miðaldra syni ykkar inni ... hugsaði ég af gömlum vana, en mundi svo eftir einbeittum kaffitilgangi ferðarinnar. Við stráksi drifum okkur niður og klukkan sló einmitt tíu þegar við lögðum í´ann. Vissulega ætluðum við á álfaslóðir líka en helmingur íbúa Himnaríkis (að frátöldum köttum) hefur mikinn áhuga á þeim um þessar mundir.

Samkvæmt gúgli virðist allt á Snæfellsnesi heita nöfnum með bergmáli, endurtekningum ... Hólahólar (álfabyggð), Staðastaður, Vegamótamótamót og fleira sem kætir alls ekki Jón Gnarr, skilst, hann kvartar hástöfum yfir asnalegum íslenskum orðum á borð við bílaleigubíll, borðstofuborð og fleira. Ég stórefast um að hann fari nokkurn tíma á Snæfellsnes.

MYND I: Á einum staðnum þar sem við stoppuðum notaði stráksi tækifærið til að æfa sig með spilastokkinn - blindandi ... hann er fyrir löngu orðinn jafnoki bestu töframanna á þessu sviði og eflaust langbestu gjafara í stærstu spilavítum landsins.

 

KAFFFFFFIVið byrjuðum á Rjúkandaanda og snæddum þar hádegisverð. Alltaf gott kaffið þar og ég varð sannarlega ekki fyrir vonbrigðum með Gvatemalakaffið, mjúkt og sætt (ekki með sykri samt) og keypti mér að sjálfsögðu pakka af því og annan latte í götumáli. Við fórum áleiðis til Stykkishólms en þorðum ekki að koma við þar eftir ævintýri síðasta hausts þar sem ég hafði keypt (fengið gefins) af díler (gamalli vinkonu) lyf (við bbólgu) í hjólhýsagarðinum (tjaldstæðinu) þar. Við fórum beinustu leið í Grundarfjörð og leituðum um hríð að Valeria-kaffibrennslunni en húsið stendur lágt og það sást illa í það fyrir bílum sem lagt var fyrir framan það.

 

Það var einstök hamingja að drekka tvöfaldan latte þarna. Ótrúlega margvíslegt bragð, meira að segja örlítil sýrni og smá ávaxtabragð líka sem kaffiplebbinn ég kýs vanalega að láta brenna á brott (ekki samt Starbucks-misþyrmingar) ... en sannarlega ekki í þessu tilfelli - þetta var bragðupplifun og heit ást við fyrsta smakk. Mér til gleði komst ég að því að þau hjónin sem reka brennsluna og kaffihúsið stefna að því að selja kaffi í gegnum netið og senda um allt land. Kaffivélar eru mismunandi og ég þrái heitt að bæði Valeria-baunirnar og þær hjá Rjúkanda (frá Sonju Grant) komi vel út í vélinni minni.

 

Á álfaslóðum HólahólarÓlafsvík var mjög skemmtileg líka, flott hönnunarbúðin sem Guðrún dró mig inn í og skemmtileg sjoppan sem drengurinn dró mig inn í ... hann sá eitthvað flott þar sem hann langaði í en tímdi ekki að borga sjálfur. Snjall. Og sem viðskiptavinur þurfti ég ekki að borga 100 kall fyrir að pissa í sjoppunni. Mér skildist að það kæmu oft heilu rúturnar af fólki og allir í spreng. Með því að láta borga fá þau upp í pappír, sápu og þrif.

 

Þá voru það álfarnir næst og um að gera að drífa sig í Hólahóla í Beruvíkurberi (ef ég man það rétt) og skoða dýrlegar álfaborgir sem þar standa. Við fundum vissulega ýmsa flotta kletta en gott hefði verið að hafa einhvern staðkunnugan með. Held samt að giskið okkar hafi verið nokkuð gott í sjálfu sér.

 

Þetta var ekki bara skemmtileg ferð, heldur líka lærdómsrík. Nú veit ég að maður segir Í Grundarfirði, ekki Á. Og á heimleiðinni fengum við okkur kökur og meira kaffi. Ég fékk sjálf að velja magnið af mjólkinni út í latte-inn núna og kaffið varð ekki bara gott, heldur dásamlegt. Sumum finnst mjólk skemma. Of lítil eða of mikil skemmir fyrir mér - en mátulegt magn gerir þetta að besta drykk í heimi, að mínu mati.

 

Nettó í Borgarnesi sá okkur fyrir nauðþurftum (eins og mjólk og sokkum á drenginn (með hamborgaramynstri)) en matarupplifunin var sannarlega ekki búin. Í hádeginu var sem sagt fiskur og franskar á Rjúkanda en nú ætluðum við að prófa Lemon á Akranesi (útibú á bensínstöð OB) í kvöldverð. Ég er enn í skýjunum. Þvílík samloka (avókadó gerir allt betra) og þvílíkur dásemdar hollustuþeytingur (líka með avókadói). Ég mæli hástöfum með!

 

Snæfellsnes var frábært og líka gott að koma heim á elsku Akranes. Þetta var fimm kaffibolla dagur sem er algjört met og verður sennilega ekki jafnað fyrr en í næstu ferð á Snæfellsnes. Sem verður vonandi fyrr en síðar.    


Bloggfærslur 23. október 2022

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.7.): 92
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 233
  • Frá upphafi: 1529150

Annað

  • Innlit í dag: 83
  • Innlit sl. viku: 207
  • Gestir í dag: 83
  • IP-tölur í dag: 81

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband