Rifist um veður og grimmileg kaffihefnd

HitamunurNýlega rak ég augun í gífurlegan mun á hitastigi, frostinu sem hefur ríkt svo óralengi, á milli Kópavogs og Akraness. Ég benti systur minni á þessa mjög svo athyglisverðu staðreynd, í raun til að uppfræða hana um fjölbreytileikann sem ríkir, ekki síst á sviði veðurs hér á landinu fagra og ískalda. Ég hefði sennilega ekki tekið eftir þessu ef veðurappið mitt væri ekki stöðugt fast öðrum megin við Fossvogsdalinn, þar sem Hilda systir býr, í stað þess að sýna mér milt og fagurt veðrið á Skaganum. Viðbrögð systur minnar voru ólýsanlega fáránleg. Hún lét eins og ég væri orðin fimm ára og væri að stæra mig af því að það væri hlýrra á Akranesi en í bænum, ég hafði víst eitthvað minnst á færri tonn af snjó hér á Akranesi en ég hafði bætt við sögunni um Skagadrenginn sem fékk fínan sleða í jólagjöf og sleðinn var enn í skúrnum sjö árum seinna, enginn almennilegur snjór. Var ég að monta mig af betri búsetuskilyrðum á Akranesi en í kuldapolli í Kópavogi? Nei, alls ekki. 

„Þú ert nú meira %&&%%$# nautið,“ sagði systir mín brjáluð. 

„Ég er reyndar í ljónsmerkinu,“ svaraði ég róleg og sýndi talsvert meiri þroska en hún.

„Hvað heldur þú að mér sé ekki sama um mun á frosti eftir landshlutum, ormurinn þinn.“

„Gættu hófs í orðavali, kæra systir,“ sagði ég til að reyna að sefa óhaminn ofsa systur minnar. „Ég get að sjálfsögðu ekkert gert af því þótt það sé mögulega betra að búa á Akranesi,“ sagði ég og sýndi í fyrsta sinn smávegis grimmd.

SKELLT Á. Nú hefur ekkert samband ríkt í tvo daga. Ég sem var ekki búin að benda henni á að hjá henni væri pottþétt meiri hiti á sumrin sem henni finnst æðislegt en mér alls ekki.

 

Dagar helvítisReiðistraumarnir úr Kópavogi lentu illilega á Himnaríki í gær, grunar mig, þegar kaffivélin (keypt haustið 2017) neitaði að fara í gang. Einhver algjör heppni (innsæi, miðilshæfileikar, hugboð, greind) hafði séð til þess í fyrra því að ég keypti mér ódýra en góða rafmagnskvörn sem hefur bjargað kaffimálum mínum algjörlega. Ég er ekki sérlega tæknisinnuð en hef getað hreinsað kvikindið sómasamlega, nema ég harðneita að taka þátt í því að hreinsa kalk sem er mikil serimónía og hef ekki gert frá upphafi því það er ekkert kalk í íslenska vatninu, rauða ljósið hefur því blikkað í rúm fimm ár án þess að það hafi komið niður á gæðum kaffisins. Virkilega fín kaffivél en út af þessu blikkandi kalk-ljósi ákvað ég samt að kaupa ekki aftur sömu tegund.

 

 

Hvað er nú til ráða? Nenni ég pressukönnukaffi? Er Nespressó kannski eina vélin sem ég get keypt og tekið með mér heim í strætó? Kaffið í dökkbláu pökkunum er nú ansi gott. En hver á þá að halda uppi kaupum á kaffirjóma á Íslandi? Með Nespresso yrði það nýmjólk og mínir tveir eða þrír latte á dag. Þvílíkir örlagadagar sem ríkja nú í Himnaríki. Er ég kannski komin til helvítis án þess að skilja það? Ætti ég að bjóða fyrrum grannkonu í heimsókn? Þeirri sem finnur svör við öllu á YouTube? Það myndi gleðja kettina líka.     


Bloggfærslur 18. janúar 2023

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 301
  • Sl. sólarhring: 438
  • Sl. viku: 2628
  • Frá upphafi: 1457898

Annað

  • Innlit í dag: 267
  • Innlit sl. viku: 2192
  • Gestir í dag: 259
  • IP-tölur í dag: 252

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Íslendingar í útlöndum
  • Titanic
  • Elsku Tommi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband