Kaffiskorts-skyndihugdetta og leitin að Karlakaffi ...

RigningFljótlega eftir hádegi í gær lögðum við stráksi af stað í fjörið á Írskum dögum. Það dropaði úr lofti og ég sagði í spurnartón við drenginn: -Ættum við kannski að vera með regnhlíf? Nennir þú kannski að hlaupa upp og sækja hana?

Stráksi fullvissaði mig um að það væri og yrði engin þörf á regnhlíf svo við lögðum í hann. Á Kirkjubraut, þar sem Rauði krossinn er með aðstöðu og var að selja lopapeysur, fékk ég að nota snyrtinguna til að þurrka andlitið á mér, vinda trefilinn, pússa gleraugun og slíkt. Það er viss áskorun að þurrka rennblautt hár með bréfþurrkum af baðinu en þetta hjálpaði samt mikið. Ég þakkaði mínum sæla fyrir að hafa ekki klínt á mig farða. Konur á mínum aldri þurfa alveg klukkutíma eða tvo til að gera sig sætari og drengurinn beið ...

Niðri á Akratorgi ríkti ótrúlega góð stemning þrátt fyrir úrhellið og það dró úr regni jafnt og þétt. Ég fékk mér borgara hjá Silla kokki og drengurinn sinn vanabundna kjúklingaborgara - svo keypti ég kvöldmatinn, það voru mexíkóskar vefjur úr enn einum matarvagninum. Þegar við vorum að yfirgefa staðinn, orðin frekar slæpt, byrjaði Páll Óskar að þenja raddböndin og við tímdum ekki að fara nema hlusta á alla vega eitt lag og svo lögðum við í hann heim. Á móts við Gamla kaupfélagið og fyrrum Grjótið, sá ég kunnuglega konu sem brosti svo sætt. -Hæ, sagði hún. -Fyndið, við vorum að leita að kaffihúsi og kemur þá ekki Kaffi Gurrí gangandi. Það eru rúm 20 ár síðan ég var með útvarpsþátt undir því nafni ...

 

Írskir dagar 2023Jú, þetta var sjálf Sirrý og svo kom Kristján Franklín örskömmu síðar. Þau hjónin voru í kaffihúsaleit og ... ég neyddist til að segja þeim að það væri lokað hjá Café Kaju um helgar og reyndist vera korter í að lokaði hjá Kallabakaríi, eða Kallakaffi, eins og þau héldu að það héti. Mér tókst að læða inn þakklæti mínu til Kristjáns fyrir allar sögurnar á Storytel sem hann hefur lesið svo fallega. Þau báru fram ansi hreint flotta spurningu í lokin: -Hvort heitir þetta Kalla (kaddla/karla)-kaffi eða Kallakaffi? Við kvöddumst með kærleikum og ég fékk í kjölfarið skyndihugdettu sem reyndist vera afdrifarík og frekar óþægileg. Ég sá Bjórbílinn og hugsaði um Ríkið uppi í sveit á Akranesi og allan bjórskort minn í gegnum árin (er samt ekkert rosalega mikið fyrir bjór) og ákvað að kaupa mér einn lítinn og taka með heim, til að drekka með borgaranum sem ég hafði ekki treyst mér til að borða á Akratorgi vegna rigningar og aðstöðuleysis. Voru ekki Írskir dagar? Híhíhí? En það var ekki hægt að fá lítinn bjór.

 

Ég gekk Kirkjubrautina, aðalgötuna okkar, áleiðis heim og mætti nánast öllum sem ég þekki, fólki sem hefur haldið sig vita að ég væri fróm kaffidrykkjukerling ... og þarna kom ég arkandi með rosalega stóran bjór í glæru glasi, ekkert lok, ekkert til að leyna glæpnum, ein að yfirgefa hátíðarsvæðið til að drekka í koju, það var þannig svipurinn á fólki. Ég sá alveg að Skagamenn hvísluðust á en við því var lítið að gera. Svo spurði drengurinn: -Hvað er róni? og ég áttaði mig á því að hann heyrði betur en ég, enda 40 árum yngri. Eins gott að Sirrý og Kristján sáu mig ekki, hugsaði ég þakklát, there is a god ... Sagði svo við drenginn þegar við vorum komin að fyrrum Arion banka, núverandi sýsla og skattstjóra, húsi tannsa míns o.fl.: -Beygjum inn hér. Og við fórum inn Merkigerðið til hægri til að komast inn á Sunnubraut. Þar á horninu mættum við Sirrý og Kristjáni sem sáu á augabragði að átakanleg umræðan um skort á kaffihúsi hafði ýtt mér út í drykkju. Ég hafði verið of lengi að heiman, of langt frá eigin kaffivél. En að ég skyldi ekki hafa munað eftir að benda þeim á Galito, þar væri ágætt kaffi og hægt að fá sér eftirrétt, t.d. súkkulaðiköku. Man það á næstu Írskum. Ég óttaðist alls ekki þegar ég gekk Sunnubrautina að Gunna og Jonni sæu mig, þau hefðu haldið að kaffikerlan vinkona þeirra ætti sér tvífara ...

Þetta var svolítið eins og að ganga svipugöngin, walk of shame ... eins og við kölluðum það í denn, blaðakonurnar á Birtíngi, ef prófarkalesararnir þurftu að eiga við okkur orð. Þótt ég hafi líka stytt mér leið með sífullt bjórglasið, með því að fara Sandabrautina frá Skagabraut, náði ég að hitta nánast allan árganginn minn úr barnaskóla. Get ekki annað sagt en að ég hlakki til næsta árgangsmóts. Það er allt of langt síðan ég hef valdið hneyksli.

Krummi og Mosi (mynd 3) hlustuðu spenntir á mig segja frá ævintýrum dagsins en þegar ég fór að tala um bjórinn og þá arfaslöku hugmynd mína, stukku þær báðir á lappir og þutu inn í stofu. Bíði þeir bara þar til ég opna mig svona við þá næst, það verður löng bið á því. 

Stráksi fór einn á brekkusönginn (sjá stolna mynd 1, gaflinn á Himnaríki fyrir miðri mynd, fyrir innan gluggann til hægri er ég að baka inni í eldhúsi). Hann hafði sett mér fyrir verkefni heima sem ég sinnti vel, eftir að almennilegt kaffi var komið í allar æðar og frumur, eða að baka uppáhaldskökuna hans (ókei, ég hafði lofað að baka um helgina). Heiðurinn á vissulega Betty nokkur en ég lagði til egg, smjör og mjólk, rafmagn, kökuform og vinnuframlag. Hlustaði á fínustu sögu af Storytel (Margrét Örnólfsdóttir er líka svakalega flottur lesari) og heyrði samt sönginn óma. Held að ég hafi aldrei séð jafnmarga þátttakendur á brekkusöngnum. Veit að grannkona mín frá Úkraínu var þar og skemmti sér konunglega, og sá að grannkonan frá Sýrlandi sat úti á svölum hjá sér og drakk kvöldkaffið ásamt manni sínum og barni.

Þetta voru trylltustu Írskir dagar sem ég man eftir síðustu 17 árin, ansi blautir ... í öllum merkingum þess orðs. Ég var búin að gleyma því hvað það er gaman að djamma.


Bloggfærslur 2. júlí 2023

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 45
  • Sl. sólarhring: 197
  • Sl. viku: 1995
  • Frá upphafi: 1456748

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 1699
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 43

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Gardínukettir
  • Ostapítsa með sultu
  • Náttborð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband