Allt fyrir frægðina, líka gantast með ketti

Strætó á SkagannRosalega erum við Ásta búnar að ala hafnfirska bílstjórann vel upp. Þegar við renndum inn á Akranes sagði hann stundarhátt: „Það er bara alltaf sól á Akranesi!“ Löngu búinn að gleyma því að það var líka sól í Mosó og brjálæðislega blindandi sól þegar við ókum upp úr göngunum, ég hefði keyrt á vegginn ... en þar sem strætóbílstjórar eru kúl þá var okkar maður vitanlega með sólgleraugu. Hluti af heilaþvottinum er að svara honum alltaf eitthvað á þessa leið: „Já, og það er örugglega líka sól í Hafnarfirði!“

 
En ég held að ég sé að verða fræg! Þegar við Ásta lölluðum út úr verslanaklasanum í Mosó þar sem við biðum af okkur mesta kuldann stóð þar kona með kvikmyndavél. Hún leit ekki við Ástu en spurði mig hvort ég vildi svara spurningu. Ég hélt það nú.

Kattakerling„Hvað er kærleikur?“
„Hummm, ætli það sé ekki bara það að vera góður við alla, börn, dýr, já, bara alla!“
„Hver er kærleiksríkasta persóna sem þú þekkir?“
„UUUUUuuu, það er ábyggilega Tómas, kötturinn minn!“

 
Svo var þetta bara búið og mér hugkvæmdist ekki einu sinni að segja Móðir Theresa eða Hilda systir,  mamma eða hjartkærir bloggvinirnir mínir! Ég gætti þess að vera grafalvarleg og sá örla fyrir óttabliki í augum ungu konunnar. Fyrir ofan höfuð hennar, í svona teiknimyndabollu, birtist: „Kræst, klikkuð kattakerling!“ En það verður að hafa það.

 

Tommi ER kærleiksríkur köttur þótt hann geti verið uppáþrengjandi en það hefði verið ágætt að fá aðeins lengri umhugsunarfrest og jafnvel enn betra að venja sig af því að þurfa alltaf að djóka með alla hluti.

Þegar ég flaug til Ameríku innan við hálfu ári eftir 9/11 náði ég ekki að njóta ferðalagsins ... eða verunnar á flugvellinum því að ég minnti mig stöðugt á að grínast ekkert! Svo fékk ég sjokk þegar einn flugvallarstarfsmaðurinn gantaðist í mér ... ég þorði ekki einu sinni að brosa á móti svo að ég yrði ekki sett í eitthvert kvantamófangelsi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Eggertsdóttir

Tómas Einarsson er kærleiksríkasti köttur sem ég þekki.  Það er a.m.k. mikið kvartað undan því að heimilið sem hann deilir með fleirum sé allt útatað í kattarhárum, þegar ég hef verið í heimsókn í örfáar mínútur.  Fatahreinsirúllur seljast líka upp á svæðinu.  Hvenær var það bannað að klóra köttum þar til malið í þeim berst út um víðan völl?  Ég bara spyr. 

Bið kærlega að heilsa Tómasi vini mínum og öllu hans heimilisfólki!  Þú misstir af rauðmaganum!  Hann smakkaðist eins og til var ætlast.

Guðrún Eggertsdóttir, 5.2.2007 kl. 22:54

2 Smámynd: Guðrún Eggertsdóttir

Úff, ég vona að ég verði ekki áberandi „politically incorrect“ á meðan á dvöl minni stendur í Ameríkunni. Ég gæti átt það til

Guðrún Eggertsdóttir, 5.2.2007 kl. 22:57

3 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Kettir eru með allra kærleiksríkustu persónum sem fyrirfinnast. Matti er áreiðanlega einn blíðasti harðfisksjúklingur sem ég hef kynnst.

Steingerður Steinarsdóttir, 6.2.2007 kl. 08:55

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Steingerður! Þótt þú eigir tvo ketti eins og ég verður þú aldrei kölluð kattakerling! Þú átt nefnilega mann líka ... og til að toppa það áttu hund! Þú verður alltaf venjuleg, eðlileg, falleg og skemmtileg manneskja á meðan ég þarf að upplifa stöðuga tortryggni og stríðni ... kattakerling, piparjúnka osfrv. 

Já, Guðrún, ég missti af rauðmaganum ... ææ

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 6.2.2007 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.7.): 25
  • Sl. sólarhring: 33
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 1529611

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 500
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband