Fegurra göngulag og sumarbústaðaverð ...

FlutningarVanræksla stráksa hefur verið nokkur gagnvart mér og kisunum, miðað við fyrri yfirlýsingar, og með úkraínska hirðbílstjóranum mínum var farið í búð í dag, keypt eitthvað skemmtilegt og gott handa honum og gerð örstutt innrás til að afhenda gjafir og knús. Það er erfitt að keppa við nýja heimilið en ég fékk svo mörg knús á móti að það dugir mér vel fram í næstu viku. Svona í alvöru talað, hann er alsæll á nýja staðnum en mætti alveg koma oftar í heimsókn. 

 

Tíminn síðan hann flutti hefur verið notaður í svakalega vinnu, yfirlestur, tiltekt og þjálfun á göngulagi. Þetta síðasta er einna erfiðast. Ég hef haltrað í nokkra mánuði vegna verks í hásin sem hefur lagast mikið en ég geng samt enn eins og íþróttamaður sem hefur slitið hásin, nánast með staurfót án þess að þörf sé á. Ég tók því væna gönguæfingu í dag (og í gær) til að ná upp mínu gamla fjaðurmagnaða yndisþokkagöngulagi og þrátt fyrir nokkur eymsli hef ég góða von um að verða æðisleg. Svo náðist næstmesti skrefafjöldi vikunnar í dag, föstudag, en hvað gerði ég eiginlega á miðvikudaginn sem orsakaði að sá dagur ber höfuð og herðar yfir hina? Ahh, nú man ég, ömmukaffi og bakarísferð.

 

Himnaríki sjór„Ertu virkilega ekki búin að selja himnaríki?“ spurði systir mín hlessa þegar hún hringdi í dag. Hún hefði spáð klukkutímum en ekki dögum eða vikum, eins og kannski eðlilegra er þegar selja á íbúð. Ég hef horft girndaraugum á eina íbúð á Laugavegi, en hún er allt of lítil, allt of dýr og of hátt uppi til að ég geti gerst lattelepjandi 101-töffari í fúlustu alvöru. Hún hefur verið mjög lengi á markaðnum. Mjög lengi. 

„Nei, það liggur svo sem ekki lífið á, stráksi var að flytja og fínt að friður fékkst til þess,“ svaraði ég full bjartsýni. „Það verður líka ekkert grín að yfirgefa sjóinn minn, elsku himnaríkið, Einarsbúð, mömmur.is, Ingu, Símenntun, antíkskúrinn og fleira flott, en ... Katalína kallar,“ djókaði ég svo systir mín gjörsamlega veinaði af hlátri en hún hefur einmitt mælt með því við mig að ég flytji í póstnúmer 200. Ég er opin fyrir ýmsu. Ég sá í dag að það var að seljast sumarbústaður uppi í sveit, á 54.9 millur, á sama verði og sett er á himnaríki! 

 

Annars þarf ég að fara að deila dýrðinni (hlekknum frá fasteignasölunni) aftur á Facebook og minna á í leiðinni að í húsinu býr heimsins besta fólk (sem maður hittir þó allt of sjaldan), húsfélagið sjúklega vel rekið og heilu sjóðirnir sem við eigum í banka því við viljum safna fyrir því sem á að gera og erum líka varkár á víðsjárverðum tímum sem eru alltaf fyrir húsfélög. Hér er frábær formaður sem kann allar reglur, gjaldkeri með peningavit og riddari sem var eiginlega fengin í djobbið vegna útlitsins. Það sem ég skrifaði eitt sinn um að ég sem riddari húsfélagsins færi í siglingar um Karíbahafið fyrir sjóðina, með hinum í stjórninni, var orðum aukið, eiginlega bara lygi. Og það er heldur aldrei vodka í boði (til að fá hina íbúana til að samþykkja Karíbasjóferðirnar). Hér eru engir vortiltektardagar (hlaupið undan geitungum-dagar), það er aðili sem slær grasið og annar sem þrífur sameign. Svo ryksugum við sjálf, hver og ein íbúð, niður að næsta palli. Ég hef tvisvar ryksugað fyrir strákana hér fyrir neðan mig í þakklætisskyni fyrir að þeir kvarta aldrei undan háværri tónlistinni frá himnaríki (ekki hörpusláttur). Í sumum fjölbýlishúsum er ekki góður mórall, settar kannski glórulausar reglur eins og að banna börnum í húsinu að leika sér á lóðinni og bara allt svo hræðilega mikið bannað að það hlýtur að vera martröð að búa þar nema fyrir fólk sem vill banna allt. Hér þarf ekkert að banna, nema kannski að spila Mariuh Carey á hæsta, hlaupa upp stigana á skítugum vinnuskóm ... hér er aldrei neinn með skötu á Þorláksmessu sem er mikil gæfa, svo held ég að allir séu hættir að reykja, engir stubbar, enginn reykur um allt. Aldur íbúa: 0-65 ára.    

 

Draugar og uppeldiÞað eru auðvitað ástæður fyrir því að ég ákvað að setja á sölu og flytja svo í kjölfarið á mölina, tilfinningaríkar auðvitað, ættingjar, vinir, frændhundar og -kettir, fleiri bókasöfn, Katalína - en auðvitað eru gallar við höfuðborgina; meiri mengun, fleiri geitungar, meiri bílaumferð, lítill (enginn) séns á svipað geggjuðu útsýni ... en ég hef samt hugsað um þetta í einhver ár og af sífellt meiri alvöru, og núna hef ég búið hér í rúm 18 ár. Ég bíð samt eftir því að fólk segi: „Þú ert bara alltaf að flytja.“ Well. Átján ár hér, ef ég flyt í ár, áður átján ár á Hringbrautinni. Þar áður var ég vissulega alltaf að flytja. Leigjandi á ótryggum markaði ... Þegar ég fékk gat á hnéð (48 ára) vegna byltu á ógæfumölinni hér rétt hjá íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum, sagði einhver við mig: „Vá, hvað þú ert mikill hrakfallabálkur.“(Svipað og ef einhver segði að ég væri alltaf að flytja) Ég flissaði því akkúrat á því ári voru liðin 40 ár frá síðasta óhappi, nema þá fékk ég gat á ennið. Kannski leggur fólk mismunandi skilning í sum orð. Hrakfallabálkur er sá sem endurtekið dettur á hausinn, brýtur sig ... ahh, man eftir einu, þrettán mánaða datt ég niður stiga og lærbrotnaði, í Stykkishólmi. Mamma kenndi draugagangi um (sjá mynd) en Möllershúsið var víst þekkt fyrir draugagang. Kostgangari þar, mörgum, mörgum árum áður, hafði drukknað, en kom þann dag í húsið til að láta vita af sér, rennblautur og sagi ekki orð, og sáu hann fleiri en einn. Fúlt að hafa búið í svona spennandi húsi og vera nánast ungbarn og óviti. Eiginlega verra en að eiga pabba sem var bíóstjóri á þessum tíma.    


Sumargleði, möguleg landráð og lestrarþjáning

Sumardagurinn fyrsti 2024

Gleðilegt sumar, elsku bloggvinir, nær og fjær, og takk fyrir veturinn.

Það er svo sannarlega komið sumar. Í gær sá ég kappklædda hlaupara fara fram hjá en í dag voru þeir mjög fáklæddir. Lítill munur á hitastigi en dagsetningin gerði gæfumuninn. 

 

 

Jarðarberjakókostertan sem ég keypti í gær var allt í lagi, gestir þáðu þó ekki aðra sneið, svo ég sit uppi með hana, hún var nefnilega svolítið þurr. Mögulega vildi bakarinn ekki að hún yrði of blaut og sparaði rjómann - eða notaði g-rjóma sem bleytir ekki marens. Frekar mikil synd, kannski ég kaupi rjóma á morgun, bæti á hana og setji svo í frysti til að eiga handa gestum. Eða mér - ef kökusneið kallar á át.

 

Myndin ... sú efsta sýnir árlegan glaðning, þegar hestamenn ríða yfir Langasandinn. Hin sjávarmyndin var tekin í kvöld og sú þriðja af ömmustráknum mínum, 7 mánaða, sem lærir senn að segja amma. 

 

Ekki var möguleiki að sofa lengur en til tíu þótt ég hafi reynt. Það var einhver myndarskapur að malla í mér og ég sá hættumerkin alls ekki fyrr en allt of seint. Áður en ég vissi af var ég búin að skipta á rúminu, skipta um kattasand, setja í þvottavél, setja restina úr vaskinum í uppþvottavél og setja hana í gang, fara út með kattasandsruslapokana og ryksuga himnaríki - rankaði svo við mér þegar farið var að nálgast hádegi og stoppaði þetta rugl. Eru þetta ekki landráð, svona á þessum degi? Smávegis möguleiki að bókin sem ég er að hlusta á sé svona spennandi, hún heitir Ég ferðast ein og er eftir Samuel Björk. Hún er það vel og nógu hratt lesin að ég hef hana á venjulegum hraða en í einhverjum húsverkjalátum ýtti ég óvart á takkann sem eykur hraðann og það var bráðfyndið að heyra lesið á mesta hraða, alveg óskiljanlegt í raun.

 

HálkaÉg nefnilega lét símann elta mig, var ekki með vasa svo ég hélt á símanum á meðan ég ryksugaði - og á milli herbergja. Skrefin? Algjör vonbrigði en ég sá við þessum fjandans skrefamæli, hahahaha. Göngubrettið ódýra en góða, er komið inn í fyrrum herbergi stráksa og þegar farið er á það horfir maður út á sjó. Og sjórinn er svívirðilega fagur núna, flottar öldur en ekkert brim samt. Svo ég stökk upp á brettið, gætti þess vandlega að hafa símann í vasanum á peysunni svo skrefin myndu telja ... og hviss, bang, ég fór nærri 200 skrefum yfir meðaltal (þarf svo sem ekki mikið til). Náði meira að segja örsnöggu snappi án þess að detta af brettinu. Held að þetta bretti verði notað enn meira en áður, mig langar að setja met - jafnvel toppa metið í Glasgow, tíu þúsund skrefa "skreppitúrinn" úr miðbæ að hóteli og það var óvart farinn stór krókur, stórt og vítt U til að viðra okkur enn lengur, ég fer ekki ofan af því, sum öpp eru leiðindatól.

 

Mynd 2: Þessi hálkumynd er það eina sem fær mig til að fagna sumarkomu, og hitanum sem oft fylgir. Vifturnar eru klárar.

 

Sven-GöranOft læt ég framburð á nöfnum pirra mig þegar ég hlusta á bækur og í morgun var það Händel, einhver var að hlusta á tónlist eftir hann. Lesarinn sagði HAndel í stað HEndel. Ég hef t.d. aldrei komið til Svíþjóðar og kann ekki stakt orð í sænsku en engdist samt í gegnum heila bók yfir framburði á Göran ... sem var bara borið fram eins og það er skrifað, í staðinn fyrir Jorann. (Sjá mynd af Sven-Göran Eriksson, allir segja Sven-Joran). Áður en ég skrifaði þetta með Göran, fór ég á YouTube og lét sænska konu segja Jorann aftur og aftur. (How to pronounce Göran (Swedish)) Hafði þó pottþétt heyrt það í sænskum lögguþáttum eða fótboltafréttum í sjónvarpinu. 

En samt ... það getur verið mjög, mjög tilgerðarlegt að heyra ensk nöfn í íslenskum bókum með sterkum enskum eða amerískum framburði. Bjarkarframburðurinn er kannski of harður, en þarna mitt á milli er fínt. Svo leist mér ekki á blikuna með nýja bók sem ég ætlaði að fara að hlusta á en hætti við ... heill herskari af leikurunum les hana og eflaust lúðrablástur og söngur líka. Ég hlusta á storytel til að láta lesa fyrir mig. Það er meira að segja á mörkunum að ég nenni að hlusta á bækurnar um Erlend (eftir Arnald) því það eru nokkuð mikil leikræn tilþrif þar (sumir halda að það eigi að vera, að hlustendur elski það, svo er nú ekki hjá flestum).

Þau sem sofna með Storytel í eyrunum (ég stilli iðulega á korter eða hálftíma) hrökkva upp við lætin í Erlendi þegar hann hundskammar Sigurð Óla, og sofna svo aftur eftir langa mæðu. Er að skrifa þetta fyrir vin.

 

(hrað)Fréttir af Facebook,:

- Gleðilegt sumar - mest áberandi

- Óska eftir túbusjónvarpi.

- Svona leit ég út þegar ég fermdist 1974, mynd

- Þrir hundar lausir hjá Bíóhöllinni (voru sóttir)


Ömmukaffi, örmögnun og jakkahremmingar

Matur og ömmupartíÖmmubarnarán mín undanfarið náðu nýjum hæðum í dag þegar mér var boðið í ömmu- og afakaffi á leikskóla hér í grennd. Ég hef ekki svo sjaldan lofsungið vinahjón mín hér í næstu blokk sem færa mér mat minnst vikulega og þau eiga tvo stráka. Yfirleitt eldar hann og hún kemur - og í gær þegar hún mætti með mat færði hún mér boðsmiða í kleinukaffi fyrir ömmur og afa. Ég telst vera Gurrí amma hjá eldri syni þeirra og að sjálfsögðu þáði ég boðið. Yngri drengurinn er bara sjö mánaða en hann lærir innan tíðar að segja amma ...

 

Myndin sýnir litla boðsmiðann - og fyrir ofan hann má sjá dýrðarinnar matinn (pabbinn elskar chili og eftir nokkra góða skammta frá honum af sterkum mat hef ég öðlast eins konar drekahæfileika. Kveðja, mannlega eldvarpan í himnaríki. 

 

ÖmmukaffiAlveg er það merkilegt hvað við Íslendingar, sætindaþjóðin mikla, smitum marga af sykuræðinu, eins og minn kæra ömmudreng, sem kemur í sumarkaffi til mín á morgun ásamt foreldrum og litlabróður. Vissulega hafa þau tekið upp ýmsa íslenska siði en ég átti ekki von á þegar ég hvíslaði að honum í ömmukaffinu á meðan ég lagaði vaðmálstreyju hans: „Hvað á ég nú að gefa þér á morgun, snáðinn minn? Pönnukökur með kandíssykri, kleinur, flatkökur með hangikjöti og hamsatólg, vöfflur með súru slátri og rófusöppu?“

 

 

Svona taldi ég nú upp alls konar þjóðlegt góðmeti sem sjálfsagt er að halda að öllum sem eru svo hugrakkir að þora að flytja hingað til lands elds og ísa, hárra vaxta, Norðmannaþjónkunar ... svo fátt sé talið.

 

Drengurinn er vissulega alveg vitlaus í kleinur, veit ég eftir reynslu dagsins, en hann hvíslaði nú samt: „Mig langar í donuts!“ Svo ég staulaðist (fóturinn samt skárri) út í bakarí eftir að ömmukaffinu lauk. Fann þennan ljómandi fína ferkantaða kleinu"hring" en féll að auki fyrir sumarlegri jarðarberjatertu sem ég hef lúmskan grun um að sé útgáfa af þessari sjúklega góðu, kókosmjölsbotn og jarðarberjarjómi á milli. Ég er ekki að plata með ferkantaða kleinuhringinn, þetta er mjög flott hjá Kallabakaríi, vekur mikla lukku.

 

Mynd 2: Ömmustrákurinn sæti. Mjög, mjög sjaldgæf mynd af sjálfri mér sem ég bið ykkur um að vera ekkert að pæla mikið í, en mér hefur tekist að halda mér afar unglegri með því að leyfa ekki myndatökur síðustu misserin og birta bara gamlar myndir af mér á Facebook til að fólk segir Sæta spæta, þegar ég þarf á peppi að halda ...

 

Bara þessi göngutúr út í leikskóla - og svo ögn lengra út í bakarí og ekki endilega stysta leiðin heim ... og ég setti met í skrefafjölda, 2.000 fleiri skref í dag en í gær, ég er líka gjörsamlega örmagna og get kannski, mögulega, varla þó staðið upp úr skrifborðsstólnum undir miðnætti ... annað kvöld. Gott að súrtunnan er undir skrifborðinu og slátrið síðan í fyrra orðið svo girnilega morkið að ekki þarf að tyggja það eða melta.

 

CartmanSumardagurinn fyrsti er víst á morgun - ansi margt sem bendir til þess núna - en aldrei í æsku minni. Ég kíkti á veðurappið áður en ég fór út í dag og sá mér til hryllings að það voru 11°C og enn vetur. Ég yrði að fara í aðra yfirhöfn, því þykka heimskautaúlpan gæti skaðað heilsu mína alvarlega í svona hita. Ég blótaði upphátt og áttaði mig svo á því að ég hafði gert það í þessari snjöllu röð og alveg óvart: A-D-H-D, mjög gamaldags íslenskt blót sem endaði á -ull.

En ég hunskaðist inn í herbergið mitt og gramsaði í einum skápnum þar til ég fann þynnri jakka, samt allt of hlýjan. Það þynnsta og kaldasta sem ég á er regnkápa (samt stundum óheyrilega hlý) og sú er göldrótt. Ég gekk í henni hálft sumar og það rigndi ekkert allan tímann, mjög vandræðalegt fyrir mig, vantaði bara regnhlífina. Bændur í Árnessýslum höfðu loks samband og báðust vægðar, grasið þyrfti vætu. Þá fór ég í þessa eldgömlu flík sem hefur allt of lengi (sex-sjö ár) virkað sem vor-, haust og sumaryfirhöfn. Jakkinn er styttri en ég hefði kosið og minnir talsvert mikið á Cartman-jakkann minn (sjá mynd 3) sem ég átti í gamla daga og var silfurlitaður, þá hlýtur mér að hafa verið sama um útlitið. Gleymi alltaf að kaupa mér almennilegan vor-haust-sumar-jakka. Vó, vor-haust-sumar ... er VHS. Nú fékk ég gæsahúð.     


Köttur úti á svölum og sjokkerandi sögur af tengdó

Kamilla, Inga, GerryGestakomur eru að verða daglegt brauð en ... mögulega fréttist af sítrónukökunni úr Costco sem systir mín færði mér í gær og enn var góður afgangur af. EN ... góðu, skemmtilegu vinirnir, hin danska Kamilla sem starfaði hérna á spítalann sem fæðingarlæknir um hríð, og Gerry, hollenski maðurinn hennar, listamaður sem hélt myndlistarsýningu í galleríi á Skólavörðustíg, kíktu óvænt á Skagann í dag. Kamilla hafði verið beðin um að halda námskeið í Reykjavík og þar sem hún átti afmæli tveimur dögum seinna, fannst manni hennar ekki hægt að hún héldi upp á það ein ... svo hann mætti og þau skemmtu sér á ýmsum blús- og djasstónleikum, eins og þau voru dugleg að sækja þegar þau bjuggu hér. Það voru auðvitað þau sem drógu mig með á tónleikana góðu í Ölveri ... stað sem þau héldu að væri í miðborginni - svo það var eins gott að ég var með í bílnum og gat vísað þeim veginn. Ein brúðkaupsveislan mín, sennilega sú fyrsta, var einmitt haldin í Ölveri í Glæsibæ. Það var verulega gaman að sjá þau, en þau fluttu heim til Danmerkur í fyrrahaust (eftir um ársdvöl) og ég átti hreint ekki von á að sjá þau svona fljótt aftur. Þau eru afar hrifin af Íslandi og finnst Akranes æði, of kors. Inga kom líka og sat með okkur og Keli köttur tók talsverðan þátt í samræðunum með mali sínu um sitt af hverju kattatengt, eins og sést á myndinni. Ég trúði þeim fyrir því að eini tölvupósturinn sem ég hefði fengið í dag væri frá sjálfri mér. MUNA AÐ KELI ER ÚTI Á SVÖLUM. Það hefur verið ómögulegt að hafa opið út á svalir í nokkur ár, nema loka Mosa einhvers staðar inni, hann sér opinn glugga og fleygir sér út um hann, ef eru opnar svaladyr hafnar hann á næstu svölum fyrir neðan. Sannar hryllingssögur. Svo fannst hann ofan í bílvél sem kettlingur og enginn veit hvaðan hann kom. Aðeins sex líf eftir.

 

Ég hef nefnilega gleymt Kela á svölunum, honum er treystandi til að vera þar og fer sér ekki að voða. Svo starir hann svekktur á mig næst inn um gluggann þegar ég kem fram og sæki mér kaffi, jafnvel tveimur tímum síðar, hann mjálmar of lágt. Hann var tiltölulega nýkominn inn eftir mátulega langa útiveru þegar Kamilla og Gerry komu og svo þegar Kamilla rauk út á svalir og sagði að þar væri dásamlegt elti hann hana þangað.

 

 

Hálftíma eftir að þau hjónin voru farin fékk ég SMS frá Kamillu. MUNA, KELI ER ÚTI Á SVÖLUM (hún talar fína íslensku). Ég hló, hélt fyrst að hún væri að stríða mér ... kíkti samt og Keli sat á svölunum ögn móðgaður, greinilega búinn að mjálma lágt nokkrum sinnum. Nýi vaninn í himnaríki verður að kíkja út á svalir mörgum sinnum á dag, jafnvel þótt ég muni vel að hann hafi ekkert farið út á þær. Ég kíki nú samt til öryggis.

- - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Tengdamömmur

 

Tengdósögur: Ég heyri alltaf af og til góðar sögur og fékk margar slíkar þegar ég skrifaði stundum lífsreynslusögur fyrir Vikuna. Nýlega rakst ég á síðu á Facebook þar sem mátti finna frásagnir af samskiptum við tengdaforeldra. Hér eru nokkrar þaðan og líka eitthvað innlent sem ég lumaði á og vona að ég hafi munað rétt.

 

Ég hafði verið gift í yfir 20 ár þegar ég rakst á gulan límmiða inni á baði frá manninum mínum þar sem hann  skrifaði að hann væri búinn að fá nóg og hefði yfirgefið mig og börnin. Ég reyndi að ná í hann án árangurs og hringdi loks í mömmu hans. Hún gargaði á mig, vissi greinilega allt og sagðist skilja vel af hverju hann hafði gefist upp á mér, ég neitaði stundum að gefa honum heimalagaðan mat. Það var svo sem rétt, því hann kom oft svo seint heim á kvöldin að ég og börnin vorum sofnuð - það hafði hann þó ekki sagt mömmu sinni.“

 

Fyrrverandi maðurinn minn hafði verið giftur áður en við kynntust. Foreldrar hans voru með brúðkaupsmyndir af honum og fyrri konu hans upp á vegg inni í stofu. Ég spurði eitt sinn hvers vegna og fékk þá frá tengdamömmu: „Jú, við þekktum hana á undan þér og hún mun alltaf vera hluti af þessari fjölskyldu, er hún ekki falleg?“ Tengdamamma sá svo til þess að þessari fyrrverandi væri boðið í allar veislur og viðburði í fjölskyldunni þótt við værum þar líka.“ 

 

Tengdaforeldrar mínir voru lengi ósáttir við hvernig ég og sonur þeirra vildum hafa hlutina á heimili okkar, t.d. í skápum og -skúffum í eldhúsinu. Undir því yfirskini að hjálpa til við frágang í eldhúsi við ýmis tækifæri, reyndu þau lengi vel að raða í skápana eins og þeim fannst að ætti að gera það. Við breyttum alltaf til baka og loks hættu þau þessu. Þetta var bara fyndið.“

 

Foreldrar mannsins míns telja sig til fína fólksins, nógu rík eru þau. Alltaf flott klædd, heimilið óaðfinnanlegt og matarboðin þeirra bera af. Þau sýna mér kurteisi en góði smekkurinn þeirra er víðs fjarri þegar þau velja handa mér afmælis- og jólagjafir. Ég veit ekki hvar þau grafa upp allt þetta ljóta en oft dýra dót sem ég fæ frá þeim, ósmekklegt punt, ilmvötn sem ilma hræðilega eða kerlingalegan fatnað. Maðurinn minn sér þetta vel og saman skemmtum við okkur bara yfir þessu núorðið. Ég skil ekki ástæðuna og mun eflaust aldrei gera það.“

 

Sambýlismaður minn til þriggja ára á son frá fyrra sambandi sem kemur til okkar aðra hvora helgi. Tengdaforeldrar mínir vilja ekkert af mér vita, ég má ekki stíga fæti inn á heimili þeirra og þau heimsækja okkur aldrei. Ástæðan er sú að þegar maðurinn minn hætti með barnsmóður sinni sögðu þau honum að nú yrði hann að einbeita sér að barninu og hætta öllu kvennastandi. Þess vegna láta þau eins og ég sé ekki til.“

 

Eftir að tengdaforeldrar mínir mættu trekk í trekk óvænt í heimsókn bað ég þau um að gera boð á undan sér, svo það væri hægt að taka betur á móti þeim. Við vorum kannski að fara eitthvað út, eða allt í drasli og ekkert gaman að fá þau við slík tækifæri. Þau urðu nú samt svo móðguð að þau hættu að koma í heimsókn og litu mig ekki réttu auga næstu árin, eða þar til ég skildi við son þeirra.“      


Fjör í vetrarlok og aðalsamkvæmisleikurinn í dag

Gestir í dagSamkvæmislífið tók óvænt stökk í dag, eiginlega tvö sem hefðu getað orðið þrjú (heimsókn nr. 2) ef hraðklónun væri möguleg eða hægt að teleporta sig á milli staða. Litla systir brá sér í bíltúr upp á Skaga eftir hádegið (og það er mjög skemmtilegt, Erpur!) ásamt fylgikonu og tveimur mjög sætum hundum, og eftir smávegis kaffispjall í himnaríki kíktum við á stráksa þar sem hann lifir góðu lífi annars staðar en í himnaríki, ótrúlegt en satt. Hann bauð upp á sælgæti (hann lumar enn á nánast ósnertu páskaeggi) og við fengum líka nýbakaðar tebollur (með súkkulaði).

 

Myndin efsta sýnir gestina góðu stefna á Langasand sem var upp á sitt besta og fegursta í dag, sjórinn flottari eftir því sem leið á daginn og fullt af sjóbrettafólki í dag, skilst mér.

 

Við buðum stráksa í ísbíltúr en Frystihúsið hefur tekið nokkrum breytingum og nú er hægt að fá þar kaffi og bakkelsi (m.a. Langa-Jón). Staðfesta mín er einstök, einn latte, takk, hljóðaði pöntun mín. Stráksi var spenntur yfir meðlætinu, fékk sér safa og meððí, engan ís, og fékk að nota gjafakort sem hann fékk í afmælisgjöf í fyrra (það fannst í flutningunum). Engir stælar  þarna þótt meira en ár væri liðið, bara ljúfmennska OG fínasta kaffi frá Costa. Þarf að prófa drykkinn Langasand, sem ég hef heyrt gott um, er bara svo hrædd við sætt kaffi. Sumir óttast uppvakninga og blóðsugur, jafnvel geitunga, ég er hrædd við sæta kaffidrykki, geitunga og að festast í sumarbústað með drukknu og leiðinlegu fólki sem ég þekki lítið.

 

Áður en systir mín renndi í hlað, hafði mér borist spennandi boð ... á söngleik í Bíóhöllinni á Akranesi. Grease, hvorki meira né minna. Ég hef áður sagt frá grimmd örlaganna, þegar ég er á leið í sumarbústað þar sem er kannski jafnvel ekki sjónvarp og HM í fótbolta er að hefjast klukkan fimm. Svipað gerðist í dag, bæði leikur með Liverpool ytra og ÍA mun nær. Skvísa sem er með FOTMOB í símanum sínum nær samt að gleðjast þegar hún kíkir í hléinu á sýningunni ... Fulham 1-3 Liverpool ... og svo ÍA 5-1 Fylkir.

 

GreaseÉg er kannski ekki orðlaus yfir sýningunni sem elsku Hjördís (mömmur.is-snillingurinn) bauð mér á og Peta, mamma hennar, ásamt fullt af krökkum á öllum aldri í fjölskyldu þeirra, heldur skortir mig frekar nógu sterk lýsingarorð til að hrósa krökkunum úr Fjölbrautaskóla Vesturlands sem sungu og dönsuðu eins og þeir hefðu ekki gert annað, og hljómsveitin var æðisleg líka. Fyrir misskilning var ég komin hálftíma á undan Hjördísi og kó en áttaði mig samt ekkert á því að standa upp til að vera fremst í biðröðinni. Hefði samt verið vesen að hlaupa fyrst inn, ég var ekki með miða og er heldur ekki nógu þybbin til að taka frá ellefu sæti, alveg spurning hvað maður getur klætt sig úr mörgum peysum, treflum og úlpum eða reynt að flæða yfir sætin. Við sátum fjórar á öðrum bekk, hægra megin og barnabörn Petu tóku eiginlega allan fyrsta bekk, ég hætti að telja þegar ég var komin upp í fimm. Ég táraðist nokkrum sinnum af einskærri hrifningu ... þau voru, hvert og eitt einasta, virkilega góð. Vona bara að það verði jafngaman á Skálmöld núna 1. nóvember. Mínir menn þurfa heldur betur að bretta upp ermar, stilla sína strengi og vera í sínu besta formi til að jafnast á við Grease-gengið á Skaganum.

 

Samkvæmisleikurinn sem allir taka þátt í þessa dagana er að finna skyldleika við forsetaframbjóðendurna í ár. Mér til mikillar gleði er ég skyld þeim öllum. Hér eru nokkur sigurstrangleg, eitt af þeim verður pottþétt forseti - og sem frænku verður mér vonandi boðið á Bessastaði:

Frændfólk mitt

Arnar Þór Jónsson - áttmenningar

Ásdís Rán - sjömenningar

Ástþór Magnússon - skyld í tíunda og sjöunda lið, löng saga

Baldur Þórhallsson - sjömenningar

Guðmundur Felix - skyld í sjöunda og áttunda lið

Halla Hrund Logadóttir - skyldar í fjórða og fimmta

Halla Tómasdóttir - sjömenningar

Jón Gnarr - áttmenningar 

Katrín Jakobsdóttir - áttmenningar

Steinunn Ólína - áttmenningar

 

Veit ekki hvað ég á að gera við þennan skyldleika. Kjósa þá sem er mest skyld mér, Höllu Hrund - eða þann sem er minnst skyldur mér til að forðast klíkutengsl vegna skyldleika, Ástþór? Mér finnst samt mjög fúlt að vera ekki skyldari þessu fína fólki en ég er, það er samt blátt blóð sem rennur um æðar mér (spyrjið bara á sjúkrahúsinu, blóðprufudeild, s. 432 1000) einn forfaðir minn er norskur konungur - af hverju man ég ekki nafnið á honum. Svo er einn sona Jóns Arasonar líka skyldur mér, forfaðir ... Ég get reyndar montað mig af Kristjáni Jóhannssyni söngvara, ef hann hefði boðið sig fram til forseta hefði ég getað kosið hann, við erum þremenningar! 


Skerí talnaminni, móðguð Skagakona og ... eltihrellar

Fyrr í kvöldTalsverð vinnuafköst í dag þótt fótaferðartími væri nær hádegi en sjö, og það er enn fínt í himnaríki! Diskur og bolli dagsins í vaskinum af því ég nenni ekki að taka úr uppþvottavélinni, hreinn og þurr þvottur í körfu inni á baði en korterið sem þessi verkefni taka, verða unnin á morgun. Ég fer ekki einu sinni inn í stofu, ég þori varla að anda til að ryk fari ekki á ranga staði. Það er svo gaman að hafa allt fullkomið. Gestir eru auðvitað samt velkomnir. En þeir verða að sætta sig við að sitja ofan á plastpokum á gólfinu og drekka vatn úr pappaglösum.

 

Grannkonan góða frá Úkraínu fór í búðarferð seinnipartinn og tók Gurrí sína með þótt mig vantaði svo sem ekki margt. Við fórum þó fyrst í frískápinn, beint á móti Búkollu nytjamarkaði, þar sem grannkonan skildi eftir smávegis matarkyns. Allt brauðið sem var til í frysti í gær, var búið. Vildi að ég hefði vitað af því að við færum þangað, nú er stráksi fluttur og mataræðið orðið mun sykurminna svo ég þarf að gefa eitthvað af Royal-búðingi og fleira í þeim dúr, einnig frosnu nautahakki í nokkru magni, nema ég verði MJÖG reglulega (daglega) með lasagna á meðan frystirinn tæmist.

 

Fórum næst í húsið í enda bæjarins, sem hýsir Classic hárstofu, Apótek Vesturlands, pítsustað (sem ég er enn fúl út í vegna lélegrar þjónustu við app-lausa) og Bónus. Frábæra Andrea, góðgerðadrottning okkar Skagamanna, sat við borð á ganginum, eins og flesta föstudaga, og seldi lakkrís og sitt af hverju fleira, en allt rennur til góðra málefna, eins og að hjálpa veiku fólki. Sjálfstjórnin kom í veg fyrir lakkrískaup svo ég ákvað frekar að leggja inn á hana og sleppa fjandans lakkrísnum. Henni virtist brugðið þegar ég fór að þylja upp kennitöluna hennar (ekki síðustu stafina, ég er ekki klikkuð) en ég lagði inn á reikninginn hennar fyrir tveimur eða þremur árum (því ég var ekki pening á mér) og ég er minnug á tölur. Reyndar fæddist hún daginn sem ég átti að fæðast (tveimur dögum fyrir 12. ágúst) en er yngri, en ég tjáði henni það bara alls ekki, vonandi tilnefnir hún mig til Nóbelsverðlaunanna fyrir talnaminni en kannski varð hún of skelkuð, þótt hún liti svo sem ekki út fyrir það. Hún þekkir kannski fleiri nörda.

 

Gísli gerir Mart-einnRottweiler-Erpur móðgaði mig í kvöld í sjónvarpinu (hjá Gísla Marteini) með því að tala um það eins og einhvern hrylling að skreppa í bíltúr upp á Akranes - miðað við hvað það væri nú meira hipp og kúl að vera leiðsögumaður í Írak og í eyðimörkinni þar í grennd, þar sem sporðdrekar eru minnst hættulegu kvikindin. Hefur hann aldrei heyrt um antíkskúrinn, vitann, Langasand og Guðlaugu? Ein ísbúðin okkar er orðin Costa-kaffihús og ég ætla að prufukeyra kaffið þar á sunnudaginn, mjög spennt. Það er virkilega almennilegt hitastig utandyra á Akranesi núna, helst til of hvasst samt seinnipartinn. Erpurinn kýs frekar 45 stiga hita ... og ég er að tala um á Celsíus. Sko, 45 gráður á Farenheit væru reyndar mátulegur 7 stiga yndishiti á Celsíus. Sko, ég er Skagakona (alltaf í hjartanu þótt ég búi annars staðar) og hlusta mjög reglulega á Bent nálgast, sem er reyndar eina Rottweiler-lagið á Ýmis lög á tónlistarveitunni minni. Þar eru líka Valdimar, BG og Ingibjörg, Eminem, Red hot chilli Peppers, Hljómar, Pixies, Radiohead, Skálmöld, Rolling Stones og bara alls konar skemmtilegheit, gott við vinnuna. 

 

Ætla samt, svona móðguð, að halda Bent nálgast með Rottweiler inni á tónlistarveitunni. Þegar ég bjó á Hringbrautinni (101 Rvík núna, var 107) gerðu Rottweiler-hundar myndband með einu laginu, einmitt við stigaganginn minn í gömlu Verkó. Ég þorði ekki að anda, þarna uppi á annarri hæð. Rosalega stolt. Ég hlusta aldrei á texta svo ekki segja mér ef texti þess lags fjallar um hrylling við að búa við umferðargötu sunnanmegin og með geitunga inn um gluggana garðmegin.

 

Ove OttoYfirleitt þegar ég heimsæki Hildu og gisti horfum við á eins og eina bíómynd - sem er vinsælt af öðru heimilisfólki og heitir kósíkvöld. Þetta heldur mér upplýstri um það sem er í gangi í kvikmyndaheiminum. Þess vegna sé ég fleiri bíómyndir en ella, því ekki kemst ég í Bíóhöllina á Akranesi, enginn strætó á kvöldin eða um helgar. Í nýjum sáttmála, eitthvað slíkt, Akraneskaupstaðar, var talað um gott aðgengi fyrir alla að menningu - svo strætó mun sennilega fara að ganga oftar, nema bærinn kaupi undir mig bíl og bílstjóra. En Bíóhöllin er ógeðslega langt í burtu. Síðast horfðum við Hilda og fleiri á A Man Called Otto. Tom Hanks í aðalhlutverki. Amerísk og nýleg útgáfa af hinum geðvonda Ove ... Dásamleg bók og fín bíómynd ... sú nýja með Tom Hanks var sýnd á Stöð 2 áðan og ég horfði með öðru um leið og ég bloggaði. Skemmtilega nágrannakona Ottós sem dró hann upp úr geðillskunni er frá Suður-Ameríku, man ekki landið, en í sænsku myndinni og bókinni er sú hressa frá Íran. Áttaði mig ekki á þessu um daginn. Það má auðvitað ekkert jákvætt koma fram westra um fólk sem kemur frá Íran og löndunum í kring, nema einu. Ég meira að segja gúglaði muninn á myndunum og þar kom bara fram að sú ammríska gerðist í Bandaríkjunum og töluð væri enska - sú fyrri væri sænsk og allt það.   

 

baby reindeerFréttir af Facebook

Dásamleg kona sem ég þekki mælti með þáttum um mann sem lendir í heljargreipum harla óvenjulegs eltihrellis, eins og hún orðar það. Hún rifjaði upp, af því tilefni, að þegar hún starfaði sem sjónvarpsþulur um tíma á níunda áratug síðustu aldar, að stundum hafi karlmaður hringt inn í útsendingarstúdíóið þegar hún var á vakt. Í fyrstu hrósaði hann henni fyrir fatnað eða framburð en svo kárnaði gamanið ... Hann fór að segja henni að hann hefði fylgst með henni í búðinni sem hún fór alltaf í, hvað hún hefði keypt og hverju hún hafði klæðst. Undir það síðasta byrjaði hann að lýsa því hvað hann vildi gera við hana og þá hafði hún samband við lögreglu sem gat lítið gert. Tæknimenn á vakt fylgdu henni út í bíl eftir að vinnu lauk og hún fór ekkert ein og alls ekki í búðina sína næstu þrjá mánuði. Símtölin hættu svo alveg. Mjög óhugnanleg upplifun.

 

Nokkrir skrifuðu athugasemd og höfðu lent í svipuðu. Eins og fréttamaður sem sagði meðal annars: „Ég fór að fá símtöl ... og svo tugi smáskilaboða á dag frá sjúkri konu ...“

 

Kona sem vann í morgunútvarpi skrifaði að hún hefði átt tvo eltihrella á svipuðum tíma, annar var leigubílstjóri og lögreglumaður, hinn virtur lögmaður. Hún var bíllaus, strætó ekki byrjaður að ganga svo hún varð að taka leigubíl. Annar eltihrellirinn var bílstjórinn sem sótti hana einna oftast.

 

Þættirnir sem orsökuðu þessar umræður heita Baby Reindeer og eru á Netflix. Mögnuð sería, segir hún, vel skrifuð og leikin, djúp og bæði grátbrosleg og óhugnanleg. Byggð á reynslu höfundar sem leikur aðalhlutverkið. Ætla að sjá þessa þætti.


Hitabylgja í nánd og rúsínuraunir

Í kringum ljósastaurinnGífurleg sjálfstjórn var í gangi þegar pantað var í Einarsbúð áðan. Ekkert sætara en kolvetnaskert skyr var á innkaupalistanum; bara kotasæla, kaffirjómi, kattasandur og annað slíkt, eins og k-dagar himnaríkis kveða á um. Það þurfti líka að panta ksúrmjólk, sykurlaust kappelsín því viss systir ætlar mögulega að kíkja um helgina.

 

Ekki svo mjög góðar fréttir frá Veðurstofunni í dag og gær, eða að það muni snarhlýna á næstunni. Alveg upp í martraðarkennd tíu stig, jafnvel þótt enn sé bara apríl. Engu að treysta! Ekki einu sinni kulda á ÍS-landi. Svo nú verða vifturnar teknar fram, my biggest fans. Ókei samt, gott fyrir elsku verpandi fuglana að það hlýni. Áður en stráksi flutti bað ég hann um að dreifa um allt túnið hér fyrir framan, nánast við þyrlupallinn og þar í kring, korni sem ætlað er smáfuglum og ég keypti í Einarsbúð, ég elska ekki bara hrafna og máva. Inga vinkona sagði spámannslega þegar hún horfði á þessi gulu útlitslýti á grasbreiðunni á milli himnaríkis og íþróttavallarins: „Þeir líta ekki við þessu, vertu viss, þessir stóru hringir (af fuglamat) á túninu verða þér til eilífðar háðungar og fá börnin í unglingavinnunni til að urra!“ Hún sagði þetta kannski ekki svona, en vinafuglar hennar vilja almennilegar matarleifar, segir hún, meira að segja rúsínur! En viti menn, hér hafa sést ýmsir fuglar og nartað í þetta síðustu tvær vikur, þessir litlu, því þeir vita svo sem að rúsínur fá þeir ekki frá mér ... nema ég finni skrambans pakkann sem systir mín faldi einhvers staðar og ef fuglarnir fá þær ekki mun hún finna rúsínurnar heima hjá sér innan nokkurra vikna!

 

Á myndinni (frá 6. apríl) sést í "hringi" utan um ljósastaurinn sem mávurinn situr ofan á, allt of fínn með sig til að borða svona smáfuglamat. Öll ummerki eru nú horfin! Það gæti þurft að ýta á myndina til að sjá eitthvað.

 

Í Rauðakrosshittingnum í gær var einmitt talað um rúsínur. Ýmsir þar þóttust illa sviknir, ekki bara af Góueggjum, heldur líka Nóa þegar hellings rúsínurugl flæddi út úr eggjunum, líka magn af lakkrís og hlaupi, grét ein. Henni finnst súkkulaðirúsínur ágætar ... en ekki í páskaeggjum, lymskulega blönduðum saman við rjómakúlur. Á páskadag leið mér eins og ég væri í ógurlega fínu matarboði þar sem hafragrautur var í forrétt. En ég er svo sem manneskjan sem lækaði fb-síðuna Gamaldags íslenskur matur, bara til að minna mig á að lífið er ekki dans á rósum.

- - - - - - - - - - 

 

GrimmFréttir af Facebook:

Fyrir 11 árum skrifaði ég beiskan status:

 

„Smábömmer eftir Grimm-þátt kvöldsins. Gamla konan sem lést í lok þáttarins er fædd sama ár og við Madonna.“

 

Svo áttaði ég mig reyndar á því, eftir algjöran samúðarskort fb-vinanna, að auðvitað hafi hún ekki verið sérlega brött og sæt ... þarna í lokin sérstaklega ... eftir árás varúlfs! Meira að segja ég gæti ekki verið mjög falleg eftir að einhver hefði nánast rifið mig í tætlur.

 

Sama dag, sama ár, sama beiskja:

Elín kvaddi okkur með möndlutertu í gær. Í morgun kom Áslaug með rúsínubrauð í vikulega kaffifundinn okkar. Það hlýtur bara að gerast eitthvað í hnetu- og döðlumálum á morgun til að fullkomna þetta.

 

Og þarna loksins naut ég samúðar og stuðnings.

Dúa: „Reka fleiri?“ Sigga Ásta: „Það þarf nú bara að dáleiða þig.“ Inga: „Ohhhhh, aumingja Gurrí.“

 

Ljósmyndin þarf ekki endilega að vera af gömlu konunni sem ég var að tala um, man ekki einu sinni eftir því að hafa horft á þessa Grimm-þætti. 

 

Stundum, þegar maður rifjar upp gamlar fb-minningar, fer maður að trúa á að lífið sé bara svo geggjað og sumt fólk ansi gott. Ég kýs að trúa því að Sigga Ásta hafi lagt til dáleiðslu svo ég gæti gleymt þessu hmdr-ofbeldi.

(hdmr= hnetu, döðlu möndlu, rúsínu)    


Frambjóðendur, sögurnar og betri nýting heilans

Keli er víst lampiHimnaríkið svo súperfínt að ég þori varla að hreyfa mig, ef ég sest í sófann rek ég mig úr honum jafnóðum því ég vil ekkert drasl! Væri gaman að vita hversu lengi heimilið getur haldist svona eins og enginn búi hér ... en úps, hér á skrifborðinu er bolli sem á að vera í uppþvottavélinni. Afsakið hlé.

 

Mynd: Keli er víst lampi.

 

Stráksi kom í örstutta heimsókn í dag og gat farið út með smávegis af rusli fyrir mig. Hann tók líka sitt af hverju með sér sem ég hef fundið af eigum hans, eins og heilan þúsundkall og svo dýrlegt gjafakort í ísbúð.

Eftir að ég klára visst krefjandi verkefni sem ég hef verið óratíma að vinna meðfram öllu öðru, verður farið í að grisja af hörku og grimmd og henda og gefa og slíkt. Viss systir mín sem mér er tíðrætt um hér, hún er skipuleggjari ættarinnar, flutti eitt sinn á milli húsa. Hún tók gjörsamlega allt í gegn og grisjaði í burtu það sem hún vildi ekki taka með - og hafði aldrei áður verið svona rosalega snögg að koma sér fyrir í nýju íbúðinni. Algjörlega til eftirbreytni. Þegar ég flutti í himnaríki fyrir rosalega mörgum árum (18 árum og 2 og hálfum mán.) tók ég með mér alls konar dót sem var niðri í geymslu í kjallaranum - ég vissi ekkert hvað var í sumum kössunum ... tók upp úr þeim á löngum tíma hér, sumt alveg dýrmætt svo ég er ánægð með að hafa ekki hent þeim eins og mér datt fyrst í hug. Svo í stóru endurbótunum 2020 tókst mér næstum að gera eins og systir mín ... en ekki alveg, ég var orðin svo þreytt á grisjun að ég fór að setja hluti inn í skápa og skúffur þótt mig langaði ekkert endilega að eiga þá. Vonandi tekst það núna. Stundum er vont að eiga ekki bíl en ég á bóngóða vinkonu, þessa sem er líka sérlega ráðagóð þegar kemur að íþróttameiðslum ...

 

Rauði krossinnMatarklúbbur Rauða krossins var með dásamlegan kvöldverð kl. 18 í kvöld (einu sinni í mánuði) þar sem mættu allra þjóða kvikindi; Íslendingar, Rússi, Lithái, Úkraínufólk og Bandaríkjakona. Ofboðslegt fjör og góður matur; rjómalöguð kjúklinga-tortellinisúpa með hvítlauksbrauði og heimabökuð súkkulaðikaka í eftirrétt. Mjög skemmtilegur félagsskapur, mikið hlegið. Ein sem mætti (útlensk) vinnur með eintómum Íslendingum og bannaði þeim fyrir um þremur mánuðum að tala ensku við hana - svo hún hefur tekið stórstígum framförum í íslensku, gott hjá henni. Góð íslenskukunnátta kemur manni hratt inn í samfélagið og auðveldar allt. Þessir mánaðarlegu hittingar eru ekki síst til þess hugsaðir að tala íslensku - en líka hittast og gleðjast. Sú sem verður með matinn næst ... gerir besta eftirrétt í heimi, marensrúllutertu, bragðgóða og alls ekki of sæta ... Ég laumaði að henni 50 krónum og blikkaði hana. Held að hún hafi skilið mig, eða að hún komi með slíka tertu næst, helst eina á mann. Bára næstum kyssti mig fyrir, hún er brjáluð í þessa tertu líka. Held að íslenskir eftirréttir séu margir of sætir, flestir sennilega, og skemmtileg tilbreyting að fá eitthvað eins og það sem verður vonandi í boði eftir mánuð ...

 

Fyrr í dag kíkti ég á Ísland.is til að athuga hvort ég væri nokkuð ein af þessum hátt í hundrað sem eru að safna undirskriftum til að komast í forsetaframboð. Þótt ég sé ofurklár á ýmsan hátt, get ég verið klaufi á netinu, sérstaklega í sambandi við það sem ég kann ekki, hef ekki lært, eðlilega, og þótt það væri frekar ólíklegt að ég hefði skráð mig í einhverjum brussugangi þegar ég ætlaði að panta Eldum rétt, vildi ég samt fullvissa mig um að ég væri ekki í framboði. Það væri agalegt að verða kannski forseti án þess að ætla sér það! Ég reyndist ekki vera í framboði, sjúkk, og finn enga hvöt til að vera það, ekki einu sinni í gríni.

 

82 í framboðiIllskan og hatrið vellur og bullar um netið í garð sumra frambjóðenda. Einhverjir snúa hverri þúfu við til að finna eitthvað neikvætt ... en þetta er meðal þess sem ég fann á Facebook í dag: Jón Gnarr fór í viðtal hjá manni sem sumum finnst að hann hefði ekki átt að gera, ég sé samt að fleiri frambjóðendur hafa gert það, já, og hann hefði líka verið svona og svona borgarstjóri ... Katrín fær skítinn heldur betur yfir sig og það fallegasta sem ég fann er að einn í stuðningsliði hennar sé stjórnarmaður í fyrirtæki sem gerir skoðanakannanir ... svo hún verður örugglega alltaf í fyrsta sæti, kommon ... Arnar Þór er sagður of fallegur fyrir Bessastaði, ef ég las þetta rétt, og hafa meira vit á læknisfræði en læknar og eigi vís sín 10 prósent, eða verði forseti ef Útvarp Saga hefur rétt fyrir sér. Mynd af Baldri og Felix að kyssast hefur gengið án orða um fb og í kommentum hneykslast fólk, sama fólkið og hatar múslima - og hann er sagður vilja hervæða Ísland (sem er víst bara bull). Halla Hrund hefur fátt neikvætt fengið á sig, sýnist mér, nema að hún sé að yfirgefa starf sem hún gerir miklu meira gagn í en sem forseti, en aðrir segja að það starf verði reyndar lagt niður í sparnaðarskyni. Hún hefur ákafan stuðningsmann sem yrkir ekki bara vísur um hana sem besta kostinn, heldur líka ógeðslegar níðvísur um trans fólk ... Halla Tómasdóttir „skal sko ekki halda að hún sé eitthvað“ en hún svarar bara fullum hálsi þeim sem reyna að draga hana niður. Ásdís Rán þykir klárari en sumir héldu eftir útvarpsviðtal (enda fædd 12. ágúst), en hún fær pottþétt einhvern skít yfir einhvers staðar ... og hverjir eru fleiri? (Alls 82)

 

Flestir í kringum mig (FB) hafa sagst ætla að kjósa Gnarr, Baldur eða Katrínu svo ef eitthvað er að marka mína Facebook-síðu, ég er samt ekki þjóðin, gæti baráttan orðið á milli þeirra þriggja ... en allt getur auðvitað gerst og flottir frambjóðendur bæst við ... held samt að það verði erfitt, kannski ómögulegt að safna fleiri meðmælendum, eru ekki allir Íslendingar búnir? Það má bara mæla með einum frambjóðanda.

 

VigdísÉg efast ekki um að flest þetta fólk verði landi og þjóð til mikils sóma. Ég myndi vilja að kosið yrði á milli tveggja efstu ... eða vil ég það? Sigraði ekki Vigdís Finnbogadóttir með aðeins þriðjung atkvæða á bak við sig árið 1980? Það er eins og mig minni að hún hafi fengið 33,8%, Guðlaugur Þorvaldsson 32.3%, Albert Guðmundsson 19.8% og Pétur J. Thorsteinsson 14,1% ... Ef kosið hefði verið á milli tveggja efstu hefði Hera tekið þetta, eins og vanalega.

 

Ég verð að viðurkenna að ég hlakka til að sjá þau í sjónvarpinu þegar þetta fer allt á fullt. Heyra málflutning þeirra, kynnast þeim sem ég þekki lítið til. Íslendingar eru víst algjör ólíkindatól þegar kemur að forsetakosningum. Held að fáir hafi átt von á því að Kristján Eldjárn yrði forseti á sínum tíma, það var vitað að Gunnar Thoroddsen tæki þetta - og hvað þá Vigdís - sko kona! Og bæði tvö svona líka dásamleg. Já, ég er orðin spennt. Hvar er tímavél þegar maður þarf mest á henni að halda?

 

BaldursbrárÉg er byrjuð að hlusta á Baldursbrár á Storytel. Önnur bók Kristinu Ohlsson um Fredriku Bergman lögreglukonu, sú fyrri hét Utangarðsbörn. Vá, hvað Baldursbrár er spennandi. Hún er vissulega ein af þeim bókum sem ég á uppi í hillu og hef lesið (kom út á íslensku 2012) en svona hrað- og magnlesarar eins og ég, gleyma innihaldi bóka og geta því notið þeirra aftur og aftur, eins og ég núna, og í mjög góðum upplestri Sigríðar Eyrúnar Friðriksdóttur. Ég las Utangarðsbörn nú í janúar og minnir að hún hafi verið fín, það bara hlýtur að vera.

Of margar bækur, of lítill tími, of hreint og fínt himnaríki til að ég geti fundið afsökun til að hlusta (á daginn) ... en ég er svo sem að lesa yfir og laga krúttlega ástarsögu sem er fínt mótvægi við spennuna. En samt ... er nokkuð rosalega klikkað að þvo aftur hreinan þvott til að geta brotið hann enn betur saman, jafnvel strauja? Eyðileggst parket ef maður skúrar það of lengi?

Ætli sé hægt að hlusta á eina sögu með eyrunum og lesa aðra yfir í tölvunni með augunum? Mannfólkið er með tvö heilahvel! Hægra og vinstra. Það hægra er samþættandi og þar er m.a. rúmskynjun sem gæti komið sér vel við yfirlestur. Og vinstra heilahvelið er sundurgreinandi, þannig að ég skilji mælt mál, eða söguna sem Sigga Eyrún les á Storytel. Ef hægt væri að einangra hvort um sig og njóta tveggja hluta í einu, vinnutengdu ástarsögunar sem sagt og þurfa ekki að bíða til kvölds með þá æsispennandi, væri lífið nú fyrst almennilegt! Þá gæti ég unnið með öðru og notið spennubókar með hinu. Gæti þó þurft að þjálfa Wernickesvæðið í heilanum en það gegnir lykilhlutverki í málskilningi. Jamm, ég er á rangri hillu í lífinu. Vantar ekki alltaf heilaskurðlækna?  


Útsýnið sem brást ... en ekkert morð

Listfengur snjórFíniseraði hvern krók og kima í dag og bað kettina um að hegða sér almennilega, ekki eins og bestíur og óhemjur, því von var á múg og margmenni, heilu flokkunum af smekklegu, kröfuhörðu fólki til að skoða sallafína íbúð með heillandi sjávarútsýni; himnaríki. Opna húsið var vissulega ansi hreint góðmennt en ... fámennt, verður að viðurkennast. Fasteignasalinn sagði að það kæmi nokkuð oft fyrir að opin hús fengju ekki einn einasta gest, svo ég gæti nú aldeilis ekki kvartað. Hann horfði samt svolítið ásakandi á mig og gluggana til skiptis. Nánast á mínútunni hálfsex, þegar opna húsið hófst, fór nefnilega að snjóa á Akranesi og, eins og tjald hefði verið dregið fyrir, útsýnið varð frekar klént, svo vægt sé til orða tekið. Sannarlega ekki jafnsöluaukandi og það er flesta daga. Ég reyndi að segja honum að ég hefði reynt að gera sjóinn svolítið úfnari og stórfenglegri með hugarorkunni en fór eiginlega offari, svo þetta mistókst. Eldgosið á Reykjanesskaga, í gegnum vefmyndavélar, sætti sömu örlögum svo ekki var útsýnið þar sérlega söluvænlegt í dag, fremur en mitt útsýni. Ef ég þarf að hafa aftur opið hús mun ég lúslesa veðurspána áður og velja allt öðruvísi veður, svona veður eins og var fyrr í dag. Bendi þó á að það snjóar mjög skemmtilega og af mikilli list, hér við himnaríki, sjá mynd.

 

Mögulega er þetta allt saman eitt stórt samsæri til að halda mér hér á Akranesi. Hver önnur en ég gæti vakið þetta mikla athygli okkar dásamlega bæ, eins og mér hefur sannarlega tekist, íbúafjöldi eftir að ég flutti fór úr 5.700 í rúmlega 8.000, og geri aðrir betur. Samt fæ ég hvorki skyr né snyrtivörur, eins og aðrir áhrifavaldar. Óli Palli kallaði mig svikara nýlega, Hilmar í vitanum er víst á algjörum bömmer og kaupmannshjónin í Einarsbúð hafa ekki viljað láta hafa neitt eftir sér. Þetta með veðrið og samsærið í dag er ekki óhugsandi því Hervar veðurfræðingur er af Skaganum.

 

Allt spikk og spanHilda systir ráðlagði mér að baka eða elda, matar- eða kökuilmur gæti gert fólk sjúkt í íbúðina mína, það yrði bara að kaupa hana, berjast um hana, hugrenningartengslin virkuðu, en ég vil ekki vanmeta fólk, held að allir sjái í gegnum slíkar brellur. Yrði sjálf fúl að ganga inn í pönnukökulykt og vera ekki boðið að smakka. Hamingjusami stráksi á nýja staðnum, gleymdi að koma í heimsókn í dag til að henda rusli, eins og hann ætlaði að gera ... svo ég trítlaði niður sjálf. Var einmitt að hugsa um að gefa honum pönnukökur ... en mundi þá eftir að hér í himnaríki hefur ekki verið til mjólk í viku, og enginn saknar hennar. Ég hefði boðið gestum opna hússins pönnsu, ekki spurning. Hilda gagnrýndi mig (og fasteignasalann) fyrir að auglýsa himnaríki ekki sem 3-4 herbergja íbúð en svefnherbergin voru þrjú þegar ég keypti himnaríki fyrir 18 árum.

 

 

MYND: Þar sem flotta málverkið eftir eitt afmælisbarn dagsins, Ellý Halldórs, hangir, var veggur sem skipti stofunni í tvennt, frekar lítil stofa fjær, þar sem rauði sófinn er, en þar sem ég stóð og myndaði var áður fínasta svefnherbergi. Það kemur reyndar fram í lýsingunni á himnaríki að hægt sé að taka herbergi af stofunni.

 

Opið húsÞað er ekkert svo langt síðan ég las bókina Opið hús, glæpasögu um morð á opnu húsi svo ég var svolítið smeyk í dag, hljóp á milli herbergja til að sjá til þess að fólk færi ekki að rífast, bara til öryggis.

 

 

Bókin sem ég kláraði í gærkvöldi heitir Heimkoma og er eftir Lone Theils. Hún er ansi hreint spennandi en ég er á rangri hillu í lífinu, grunar mig stundum, og hefði átt að verða lögga því ég áttaði mig á einum vonda karlinum, löngu á undan Signe lögrelukonu, sem er þó skrambi klár. Vona að engum detti í hug að segja að höfundurinn hafi gefið lesandanum forskot á lögguna því svo var bara alls ekki. Ég hef áður bloggað um snilli mína á þessu sviði svo ég vona að íslenska löggan fari nú að vakna. Ég á alveg nokkur góð ár eftir á vinnumarkaði og vil endilega taka þátt í að leysa glæpi.

 

Íþróttafréttir:

Hásin hægri fótar (gömul íþróttameiðsl) er öll að koma til, þökk sé góðum ráðum Ingu sem mælti með verkja- og bólgueyðandi kremi og stuðningssokk. Hef notað kremið með nokkuð góðum árangri en við þvottafrágang í sokkaskúffu í morgun datt mér í hug að skoða sokkasafn mitt almennilega. Þar reyndust liggja miklar gersemar, eins og tvö pör af flugvélasokkum og eitt par af einhverju almennilega styðjandi ef maður hefur snúið ökklann. Það kemur fyrir besta fólk en greinilega langt síðan því ég mundi ekki eftir að eiga svona sokka ... ég á alllllt of mikið af sokkum. Mikið á Rauði krossinn eftir að græða af alls konar þegar ég ræðst í að grisja.

 

Vælubílshornið

Besta pestóiðÉg er ekki vön að væla hér og kvarta, minnir mig, en þarf að skammast yfir því að sjónvarpsstöðin Fine Living sé ekki lengur finnanleg á Íslandi. Það er ábyggilega rúmt ár eða lengra síðan Síminn hætti með hana á fjölvarpi sínu, en ég held að ég hafi ekkert kvartað, sem sannar mál mitt. Ég gat horft heilu kvöldin á fólk gera upp hús og íbúðir og fannst það mjög skemmtilegt.

 

Hitt sem ég verð að skammast yfir er skortur á Önnu Mörtu-pestói (sjá mynd) í Krónunni á Akranesi. Ég borða ekki pestó og hef aldrei gert - EN ... eftir að ég smakkaði það sem AM og Lovísa, tvíburasystir hennar, sem kom ögn seinna inn í fyrirtækið, búa til, borða ég pestó af bestu lyst, en bara frá þeim. Ég spurði um það eftir að ég sá fréttir um að sumar Krónubúðir seldu það. Fékk að vita að jú, það hefði verið í sölu um skamma hríð en haft í hillu, við hliðina á pestói Jamie Olivers, þá skil ég af hverju ég sá það ekki og keypti. Þetta er nefnilega kælivara og átti aldrei að fara í hillu sem gerði það bæði ósýnilegt og óætt. Ég leitaði bara í kælunum. Það kemur ekki aftur, var mér sagt - svo skilur fólk ekkert í því að ég skuli hugsa um að flytja frá Akranesi ... Vona innilega að Önnu Mörtu-pestó komi nú samt.

Skil samt ekkert í tvíburunum að framleiða þessa súkkulaðihringi (sjá mynd af Önnu og Lovísu) sem innihalda allir að minnsta kosti eitt af eftirtöldu; hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum ... og fólk elskar þetta ... Hvað með einn súkkulaðihring með fullt af hollustudæmi nema prófa að sleppa hmdr-hroðbjóðnum ... ja, eða kannski ekki, skilst að þetta sé ávanabindandi. Gaf einu sinni Ingu vinkonu einn svona hring, stærri gerðina (þessir litlu fást í Krónunni hér á Akranesi og eru hafðir á brauða- og kökusvæðinu ... hver hatar tvíburana þar?) hringur Ingu var með svona hnetudrasli á og hún er enn að tala um hann sem eitt allra besta súkkulaði sem hún hefur smakkað.      


Að halda illum öndum fjarri ...

Eldum rétt í kvöldDagarnir í himnaríki eru ótrúlega rólegir eftir að stráksi flutti að heiman og það tekur óratíma að safna í heila uppþvottavél, hvað þá þvottavél.

Ég nenni þó ekki að skipta um föt fyrir hádegismat og aftur kvöldmat, eins og sumt fólk gerir, alla vega í gömlum bíómyndum, en ég eldaði nú samt fínan kvöldmat í kvöld, frá Eldum rétt. Rest verður borðuð á morgun, enda matur fyrir tvo. Hinn rétturinn sem ég keypti verður eldaður hinn daginn og restin borðuð á fimmtudag. Svo finn ég eitthvað út úr hinum dögunum. Ég á eftir að horast einhver ósköp, borða mun minni mat eftir að stráksi flutti og svo er ekkert sælgæti til í himnaríki. Ég bannaði stráksa nammikarli iðulega að bjóða mér nammi en svo móðgaðist ég þegar hann gerði það ekki. 

 

Sennilega mun sú aukna eldamennska sem fylgir Eldum rétt fylla uppþvottavélina ögn hraðar EN ég var samt alls ekki að kvarta ... nema uppáhaldsbollarnir eru iðulega óhreinir í vélinni, virðist vera, og ég farin að nota ýmsa sparibolla - sem er samt allt í lagi. Þetta venst, þetta venst. Það ríkja rólegheit en samt er meira en nóg að gera vinnulega séð, eins og venjulega.

 

Mosi og skugginnMín frábæra grannkona frá Úkraínu kíkti í kaffi eftir vinnu í dag og kettirnir fjölmenntu inn í stofu til að fagna henni, hún átti ekki orð yfir fallegu móttökunum. Ég hálfskammaðist mín fyrir að segja bara „hæ,“ og „viltu kaffi?“ en ég veit samt ekki hvernig hún hefði brugðist við álíka fagnaðarlátum frá mér og kettirnir sýndu henni. Ég kann ekki einu sinni að mala! Þeir hafa saknað hennar en hún og sonurinn hafa heimsótt þá daglega, jafnvel oft á dag, ef ég bregð mér frá í t.d. jólafrí til Hildu í Kópavogi sem ég hef gert minnst árlega í mörg ár. Þau hafa líka gefið köttunum kattanammi og slíku gleyma þeir aldrei. 

 

Ég las grein í dag, um hvað liturinn á útidyrahurðinni táknar. Það segir heilmargt um fólk hvaða lit það velur, samkvæmt greininni, reyndar var löngu búið að mála hurðina á himnaríki þegar ég flutti inn. Og hún hefur verið máluð aftur og liturinn fengið að halda sér. Vér sem búum í fjölbýlishúsum ráðum oft litlu en ég ætla samt að sýna hússtjórninni hér þessa grein. Einn daginn verður húsið málað og þá hægt að breyta, ef vill.

 

Rauð útidyrahurðÚtidyrahurðin í húsi himnaríkis er eldrauð (tveir stigagangar og tvær hurðir). Ég er ekki trúuð á svona en eftir að hafa lesið mér til um rauðar útidyrahurðir og allt passar svo ótrúlega vel, er ég orðin gjörsamlega og endanlega og algjörlega sannfærð.

 

Rauði liturinn á útidyrahurðinni hefur löngum verið tengdur við höfðinglega gestrisni. Í gamla daga úti í Ameríku voru þær rauðu merki um að ferðalangar fengju næturgistingu í húsinu. Í Skotlandi er rauð útidyrahurð einfaldlega tákn um að húsnæðislánið sé uppgreitt og á Írlandi veit fólk að rauð hurð heldur illum öndum fjarri. Ef þú kýst þennan lit á þína hurð (eða kýst að kaupa íbúð í húsi með rauða hurð, viðbót: GH) hefðurðu fengið skemmtilegheitin í vöggugjöf og nýtur þess að opna dyr þínar fyrir óvæntum gestum (well) og skemmtanaglöðu (well, ef það þýðir djammsjúkt) fólki.

Þetta passar allt við mig og kettina hér í himnaríki, NEMA þetta síðasta um óvænta gesti og mögulega djammsjúka, kannski blindfulla ... kræst. 

 

Svört útidyrahurð ... smekklegt klassafólk, sígildur litur og allt bara elegant. Mikil gleði í appelsínugula litnum og væntanlega endalaust stuð á litríku heimilinu. Ljósblá hurð, allt afslappað og fínt, dökkblátt táknar skipulag og slíkt en fallega kóngablá hurð segir um eigandann: Sjáðu mig, ég er æði, komdu að leika. Viðarhurð er tákn um styrk og að vera jarðbundin og praktísk manneskja. Gul hurð er tákn bjartsýni og jákvæðni og eins og appelsínugula, litríkt innandyra. Græn hurð er tákn um velgengni, góða heilsu og öryggi. Túrkísblá hurð ... gleði, traust og rólegheit. Fólk í andlegu jafnvægi, vonglatt og veit að allt er mögulegt ... Hvít hurð er öruggt val sem stendur fyrir ferskleika, allt hreint og fínt og tekið til, einfalt og friðsælt. Fjólublár er konunglegur litur en hvort hann er ljós eða dökkur skiptir öllu upp á hver staða þín er í konungsfjölskyldunni. Lavender, frekar ljós sem sagt, tákn fágunar, dekkri táknar ákveðna þörf fyrir áhættu og mjög dökkur segir einfaldlega: Ég er rík/ur ... sem þú ert kannski ekki, en þú hefur dýran smekk.

Jæja ... en ég mun að sjálfsögu velja mér nýtt heimili í bænum eftir því hvernig útidyrahurðin er á litinn. Ætlu séu til marglitar útidyrahurðir? Mig langar í svoleiðis.  


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 83
  • Sl. sólarhring: 240
  • Sl. viku: 1564
  • Frá upphafi: 1454033

Annað

  • Innlit í dag: 78
  • Innlit sl. viku: 1315
  • Gestir í dag: 76
  • IP-tölur í dag: 74

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Draugar og uppeldi
  • Himnaríki sjór
  • Flutningar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband