Fjör í vetrarlok og aðalsamkvæmisleikurinn í dag

Gestir í dagSamkvæmislífið tók óvænt stökk í dag, eiginlega tvö sem hefðu getað orðið þrjú (heimsókn nr. 2) ef hraðklónun væri möguleg eða hægt að teleporta sig á milli staða. Litla systir brá sér í bíltúr upp á Skaga eftir hádegið (og það er mjög skemmtilegt, Erpur!) ásamt fylgikonu og tveimur mjög sætum hundum, og eftir smávegis kaffispjall í himnaríki kíktum við á stráksa þar sem hann lifir góðu lífi annars staðar en í himnaríki, ótrúlegt en satt. Hann bauð upp á sælgæti (hann lumar enn á nánast ósnertu páskaeggi) og við fengum líka nýbakaðar tebollur (með súkkulaði).

 

Myndin efsta sýnir gestina góðu stefna á Langasand sem var upp á sitt besta og fegursta í dag, sjórinn flottari eftir því sem leið á daginn og fullt af sjóbrettafólki í dag, skilst mér.

 

Við buðum stráksa í ísbíltúr en Frystihúsið hefur tekið nokkrum breytingum og nú er hægt að fá þar kaffi og bakkelsi (m.a. Langa-Jón). Staðfesta mín er einstök, einn latte, takk, hljóðaði pöntun mín. Stráksi var spenntur yfir meðlætinu, fékk sér safa og meððí, engan ís, og fékk að nota gjafakort sem hann fékk í afmælisgjöf í fyrra (það fannst í flutningunum). Engir stælar  þarna þótt meira en ár væri liðið, bara ljúfmennska OG fínasta kaffi frá Costa. Þarf að prófa drykkinn Langasand, sem ég hef heyrt gott um, er bara svo hrædd við sætt kaffi. Sumir óttast uppvakninga og blóðsugur, jafnvel geitunga, ég er hrædd við sæta kaffidrykki, geitunga og að festast í sumarbústað með drukknu og leiðinlegu fólki sem ég þekki lítið.

 

Áður en systir mín renndi í hlað, hafði mér borist spennandi boð ... á söngleik í Bíóhöllinni á Akranesi. Grease, hvorki meira né minna. Ég hef áður sagt frá grimmd örlaganna, þegar ég er á leið í sumarbústað þar sem er kannski jafnvel ekki sjónvarp og HM í fótbolta er að hefjast klukkan fimm. Svipað gerðist í dag, bæði leikur með Liverpool ytra og ÍA mun nær. Skvísa sem er með FOTMOB í símanum sínum nær samt að gleðjast þegar hún kíkir í hléinu á sýningunni ... Fulham 1-3 Liverpool ... og svo ÍA 5-1 Fylkir.

 

GreaseÉg er kannski ekki orðlaus yfir sýningunni sem elsku Hjördís (mömmur.is-snillingurinn) bauð mér á og Peta, mamma hennar, ásamt fullt af krökkum á öllum aldri í fjölskyldu þeirra, heldur skortir mig frekar nógu sterk lýsingarorð til að hrósa krökkunum úr Fjölbrautaskóla Vesturlands sem sungu og dönsuðu eins og þeir hefðu ekki gert annað, og hljómsveitin var æðisleg líka. Fyrir misskilning var ég komin hálftíma á undan Hjördísi og kó en áttaði mig samt ekkert á því að standa upp til að vera fremst í biðröðinni. Hefði samt verið vesen að hlaupa fyrst inn, ég var ekki með miða og er heldur ekki nógu þybbin til að taka frá ellefu sæti, alveg spurning hvað maður getur klætt sig úr mörgum peysum, treflum og úlpum eða reynt að flæða yfir sætin. Við sátum fjórar á öðrum bekk, hægra megin og barnabörn Petu tóku eiginlega allan fyrsta bekk, ég hætti að telja þegar ég var komin upp í fimm. Ég táraðist nokkrum sinnum af einskærri hrifningu ... þau voru, hvert og eitt einasta, virkilega góð. Vona bara að það verði jafngaman á Skálmöld núna 1. nóvember. Mínir menn þurfa heldur betur að bretta upp ermar, stilla sína strengi og vera í sínu besta formi til að jafnast á við Grease-gengið á Skaganum.

 

Samkvæmisleikurinn sem allir taka þátt í þessa dagana er að finna skyldleika við forsetaframbjóðendurna í ár. Mér til mikillar gleði er ég skyld þeim öllum. Hér eru nokkur sigurstrangleg, eitt af þeim verður pottþétt forseti - og sem frænku verður mér vonandi boðið á Bessastaði:

Frændfólk mitt

Arnar Þór Jónsson - áttmenningar

Ásdís Rán - sjömenningar

Ástþór Magnússon - skyld í tíunda og sjöunda lið, löng saga

Baldur Þórhallsson - sjömenningar

Guðmundur Felix - skyld í sjöunda og áttunda lið

Halla Hrund Logadóttir - skyldar í fjórða og fimmta

Halla Tómasdóttir - sjömenningar

Jón Gnarr - áttmenningar 

Katrín Jakobsdóttir - áttmenningar

Steinunn Ólína - áttmenningar

 

Veit ekki hvað ég á að gera við þennan skyldleika. Kjósa þá sem er mest skyld mér, Höllu Hrund - eða þann sem er minnst skyldur mér til að forðast klíkutengsl vegna skyldleika, Ástþór? Mér finnst samt mjög fúlt að vera ekki skyldari þessu fína fólki en ég er, það er samt blátt blóð sem rennur um æðar mér (spyrjið bara á sjúkrahúsinu, blóðprufudeild, s. 432 1000) einn forfaðir minn er norskur konungur - af hverju man ég ekki nafnið á honum. Svo er einn sona Jóns Arasonar líka skyldur mér, forfaðir ... Ég get reyndar montað mig af Kristjáni Jóhannssyni söngvara, ef hann hefði boðið sig fram til forseta hefði ég getað kosið hann, við erum þremenningar! 


Bloggfærslur 21. apríl 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 428
  • Sl. sólarhring: 487
  • Sl. viku: 2545
  • Frá upphafi: 1456495

Annað

  • Innlit í dag: 368
  • Innlit sl. viku: 2126
  • Gestir í dag: 359
  • IP-tölur í dag: 352

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband