Frambjóðendur, sögurnar og betri nýting heilans

Keli er víst lampiHimnaríkið svo súperfínt að ég þori varla að hreyfa mig, ef ég sest í sófann rek ég mig úr honum jafnóðum því ég vil ekkert drasl! Væri gaman að vita hversu lengi heimilið getur haldist svona eins og enginn búi hér ... en úps, hér á skrifborðinu er bolli sem á að vera í uppþvottavélinni. Afsakið hlé.

 

Mynd: Keli er víst lampi.

 

Stráksi kom í örstutta heimsókn í dag og gat farið út með smávegis af rusli fyrir mig. Hann tók líka sitt af hverju með sér sem ég hef fundið af eigum hans, eins og heilan þúsundkall og svo dýrlegt gjafakort í ísbúð.

Eftir að ég klára visst krefjandi verkefni sem ég hef verið óratíma að vinna meðfram öllu öðru, verður farið í að grisja af hörku og grimmd og henda og gefa og slíkt. Viss systir mín sem mér er tíðrætt um hér, hún er skipuleggjari ættarinnar, flutti eitt sinn á milli húsa. Hún tók gjörsamlega allt í gegn og grisjaði í burtu það sem hún vildi ekki taka með - og hafði aldrei áður verið svona rosalega snögg að koma sér fyrir í nýju íbúðinni. Algjörlega til eftirbreytni. Þegar ég flutti í himnaríki fyrir rosalega mörgum árum (18 árum og 2 og hálfum mán.) tók ég með mér alls konar dót sem var niðri í geymslu í kjallaranum - ég vissi ekkert hvað var í sumum kössunum ... tók upp úr þeim á löngum tíma hér, sumt alveg dýrmætt svo ég er ánægð með að hafa ekki hent þeim eins og mér datt fyrst í hug. Svo í stóru endurbótunum 2020 tókst mér næstum að gera eins og systir mín ... en ekki alveg, ég var orðin svo þreytt á grisjun að ég fór að setja hluti inn í skápa og skúffur þótt mig langaði ekkert endilega að eiga þá. Vonandi tekst það núna. Stundum er vont að eiga ekki bíl en ég á bóngóða vinkonu, þessa sem er líka sérlega ráðagóð þegar kemur að íþróttameiðslum ...

 

Rauði krossinnMatarklúbbur Rauða krossins var með dásamlegan kvöldverð kl. 18 í kvöld (einu sinni í mánuði) þar sem mættu allra þjóða kvikindi; Íslendingar, Rússi, Lithái, Úkraínufólk og Bandaríkjakona. Ofboðslegt fjör og góður matur; rjómalöguð kjúklinga-tortellinisúpa með hvítlauksbrauði og heimabökuð súkkulaðikaka í eftirrétt. Mjög skemmtilegur félagsskapur, mikið hlegið. Ein sem mætti (útlensk) vinnur með eintómum Íslendingum og bannaði þeim fyrir um þremur mánuðum að tala ensku við hana - svo hún hefur tekið stórstígum framförum í íslensku, gott hjá henni. Góð íslenskukunnátta kemur manni hratt inn í samfélagið og auðveldar allt. Þessir mánaðarlegu hittingar eru ekki síst til þess hugsaðir að tala íslensku - en líka hittast og gleðjast. Sú sem verður með matinn næst ... gerir besta eftirrétt í heimi, marensrúllutertu, bragðgóða og alls ekki of sæta ... Ég laumaði að henni 50 krónum og blikkaði hana. Held að hún hafi skilið mig, eða að hún komi með slíka tertu næst, helst eina á mann. Bára næstum kyssti mig fyrir, hún er brjáluð í þessa tertu líka. Held að íslenskir eftirréttir séu margir of sætir, flestir sennilega, og skemmtileg tilbreyting að fá eitthvað eins og það sem verður vonandi í boði eftir mánuð ...

 

Fyrr í dag kíkti ég á Ísland.is til að athuga hvort ég væri nokkuð ein af þessum hátt í hundrað sem eru að safna undirskriftum til að komast í forsetaframboð. Þótt ég sé ofurklár á ýmsan hátt, get ég verið klaufi á netinu, sérstaklega í sambandi við það sem ég kann ekki, hef ekki lært, eðlilega, og þótt það væri frekar ólíklegt að ég hefði skráð mig í einhverjum brussugangi þegar ég ætlaði að panta Eldum rétt, vildi ég samt fullvissa mig um að ég væri ekki í framboði. Það væri agalegt að verða kannski forseti án þess að ætla sér það! Ég reyndist ekki vera í framboði, sjúkk, og finn enga hvöt til að vera það, ekki einu sinni í gríni.

 

82 í framboðiIllskan og hatrið vellur og bullar um netið í garð sumra frambjóðenda. Einhverjir snúa hverri þúfu við til að finna eitthvað neikvætt ... en þetta er meðal þess sem ég fann á Facebook í dag: Jón Gnarr fór í viðtal hjá manni sem sumum finnst að hann hefði ekki átt að gera, ég sé samt að fleiri frambjóðendur hafa gert það, já, og hann hefði líka verið svona og svona borgarstjóri ... Katrín fær skítinn heldur betur yfir sig og það fallegasta sem ég fann er að einn í stuðningsliði hennar sé stjórnarmaður í fyrirtæki sem gerir skoðanakannanir ... svo hún verður örugglega alltaf í fyrsta sæti, kommon ... Arnar Þór er sagður of fallegur fyrir Bessastaði, ef ég las þetta rétt, og hafa meira vit á læknisfræði en læknar og eigi vís sín 10 prósent, eða verði forseti ef Útvarp Saga hefur rétt fyrir sér. Mynd af Baldri og Felix að kyssast hefur gengið án orða um fb og í kommentum hneykslast fólk, sama fólkið og hatar múslima - og hann er sagður vilja hervæða Ísland (sem er víst bara bull). Halla Hrund hefur fátt neikvætt fengið á sig, sýnist mér, nema að hún sé að yfirgefa starf sem hún gerir miklu meira gagn í en sem forseti, en aðrir segja að það starf verði reyndar lagt niður í sparnaðarskyni. Hún hefur ákafan stuðningsmann sem yrkir ekki bara vísur um hana sem besta kostinn, heldur líka ógeðslegar níðvísur um trans fólk ... Halla Tómasdóttir „skal sko ekki halda að hún sé eitthvað“ en hún svarar bara fullum hálsi þeim sem reyna að draga hana niður. Ásdís Rán þykir klárari en sumir héldu eftir útvarpsviðtal (enda fædd 12. ágúst), en hún fær pottþétt einhvern skít yfir einhvers staðar ... og hverjir eru fleiri? (Alls 82)

 

Flestir í kringum mig (FB) hafa sagst ætla að kjósa Gnarr, Baldur eða Katrínu svo ef eitthvað er að marka mína Facebook-síðu, ég er samt ekki þjóðin, gæti baráttan orðið á milli þeirra þriggja ... en allt getur auðvitað gerst og flottir frambjóðendur bæst við ... held samt að það verði erfitt, kannski ómögulegt að safna fleiri meðmælendum, eru ekki allir Íslendingar búnir? Það má bara mæla með einum frambjóðanda.

 

VigdísÉg efast ekki um að flest þetta fólk verði landi og þjóð til mikils sóma. Ég myndi vilja að kosið yrði á milli tveggja efstu ... eða vil ég það? Sigraði ekki Vigdís Finnbogadóttir með aðeins þriðjung atkvæða á bak við sig árið 1980? Það er eins og mig minni að hún hafi fengið 33,8%, Guðlaugur Þorvaldsson 32.3%, Albert Guðmundsson 19.8% og Pétur J. Thorsteinsson 14,1% ... Ef kosið hefði verið á milli tveggja efstu hefði Hera tekið þetta, eins og vanalega.

 

Ég verð að viðurkenna að ég hlakka til að sjá þau í sjónvarpinu þegar þetta fer allt á fullt. Heyra málflutning þeirra, kynnast þeim sem ég þekki lítið til. Íslendingar eru víst algjör ólíkindatól þegar kemur að forsetakosningum. Held að fáir hafi átt von á því að Kristján Eldjárn yrði forseti á sínum tíma, það var vitað að Gunnar Thoroddsen tæki þetta - og hvað þá Vigdís - sko kona! Og bæði tvö svona líka dásamleg. Já, ég er orðin spennt. Hvar er tímavél þegar maður þarf mest á henni að halda?

 

BaldursbrárÉg er byrjuð að hlusta á Baldursbrár á Storytel. Önnur bók Kristinu Ohlsson um Fredriku Bergman lögreglukonu, sú fyrri hét Utangarðsbörn. Vá, hvað Baldursbrár er spennandi. Hún er vissulega ein af þeim bókum sem ég á uppi í hillu og hef lesið (kom út á íslensku 2012) en svona hrað- og magnlesarar eins og ég, gleyma innihaldi bóka og geta því notið þeirra aftur og aftur, eins og ég núna, og í mjög góðum upplestri Sigríðar Eyrúnar Friðriksdóttur. Ég las Utangarðsbörn nú í janúar og minnir að hún hafi verið fín, það bara hlýtur að vera.

Of margar bækur, of lítill tími, of hreint og fínt himnaríki til að ég geti fundið afsökun til að hlusta (á daginn) ... en ég er svo sem að lesa yfir og laga krúttlega ástarsögu sem er fínt mótvægi við spennuna. En samt ... er nokkuð rosalega klikkað að þvo aftur hreinan þvott til að geta brotið hann enn betur saman, jafnvel strauja? Eyðileggst parket ef maður skúrar það of lengi?

Ætli sé hægt að hlusta á eina sögu með eyrunum og lesa aðra yfir í tölvunni með augunum? Mannfólkið er með tvö heilahvel! Hægra og vinstra. Það hægra er samþættandi og þar er m.a. rúmskynjun sem gæti komið sér vel við yfirlestur. Og vinstra heilahvelið er sundurgreinandi, þannig að ég skilji mælt mál, eða söguna sem Sigga Eyrún les á Storytel. Ef hægt væri að einangra hvort um sig og njóta tveggja hluta í einu, vinnutengdu ástarsögunar sem sagt og þurfa ekki að bíða til kvölds með þá æsispennandi, væri lífið nú fyrst almennilegt! Þá gæti ég unnið með öðru og notið spennubókar með hinu. Gæti þó þurft að þjálfa Wernickesvæðið í heilanum en það gegnir lykilhlutverki í málskilningi. Jamm, ég er á rangri hillu í lífinu. Vantar ekki alltaf heilaskurðlækna?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og nítján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 257
  • Sl. sólarhring: 310
  • Sl. viku: 1924
  • Frá upphafi: 1455126

Annað

  • Innlit í dag: 219
  • Innlit sl. viku: 1552
  • Gestir í dag: 210
  • IP-tölur í dag: 207

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Fíni sjórinn
  • Mosi og Keli 29.4
  • IMG_8477 (1)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband