Útsýnið sem brást ... en ekkert morð

Listfengur snjórFíniseraði hvern krók og kima í dag og bað kettina um að hegða sér almennilega, ekki eins og bestíur og óhemjur, því von var á múg og margmenni, heilu flokkunum af smekklegu, kröfuhörðu fólki til að skoða sallafína íbúð með heillandi sjávarútsýni; himnaríki. Opna húsið var vissulega ansi hreint góðmennt en ... fámennt, verður að viðurkennast. Fasteignasalinn sagði að það kæmi nokkuð oft fyrir að opin hús fengju ekki einn einasta gest, svo ég gæti nú aldeilis ekki kvartað. Hann horfði samt svolítið ásakandi á mig og gluggana til skiptis. Nánast á mínútunni hálfsex, þegar opna húsið hófst, fór nefnilega að snjóa á Akranesi og, eins og tjald hefði verið dregið fyrir, útsýnið varð frekar klént, svo vægt sé til orða tekið. Sannarlega ekki jafnsöluaukandi og það er flesta daga. Ég reyndi að segja honum að ég hefði reynt að gera sjóinn svolítið úfnari og stórfenglegri með hugarorkunni en fór eiginlega offari, svo þetta mistókst. Eldgosið á Reykjanesskaga, í gegnum vefmyndavélar, sætti sömu örlögum svo ekki var útsýnið þar sérlega söluvænlegt í dag, fremur en mitt útsýni. Ef ég þarf að hafa aftur opið hús mun ég lúslesa veðurspána áður og velja allt öðruvísi veður, svona veður eins og var fyrr í dag. Bendi þó á að það snjóar mjög skemmtilega og af mikilli list, hér við himnaríki, sjá mynd.

 

Mögulega er þetta allt saman eitt stórt samsæri til að halda mér hér á Akranesi. Hver önnur en ég gæti vakið þetta mikla athygli okkar dásamlega bæ, eins og mér hefur sannarlega tekist, íbúafjöldi eftir að ég flutti fór úr 5.700 í rúmlega 8.000, og geri aðrir betur. Samt fæ ég hvorki skyr né snyrtivörur, eins og aðrir áhrifavaldar. Óli Palli kallaði mig svikara nýlega, Hilmar í vitanum er víst á algjörum bömmer og kaupmannshjónin í Einarsbúð hafa ekki viljað láta hafa neitt eftir sér. Þetta með veðrið og samsærið í dag er ekki óhugsandi því Hervar veðurfræðingur er af Skaganum.

 

Allt spikk og spanHilda systir ráðlagði mér að baka eða elda, matar- eða kökuilmur gæti gert fólk sjúkt í íbúðina mína, það yrði bara að kaupa hana, berjast um hana, hugrenningartengslin virkuðu, en ég vil ekki vanmeta fólk, held að allir sjái í gegnum slíkar brellur. Yrði sjálf fúl að ganga inn í pönnukökulykt og vera ekki boðið að smakka. Hamingjusami stráksi á nýja staðnum, gleymdi að koma í heimsókn í dag til að henda rusli, eins og hann ætlaði að gera ... svo ég trítlaði niður sjálf. Var einmitt að hugsa um að gefa honum pönnukökur ... en mundi þá eftir að hér í himnaríki hefur ekki verið til mjólk í viku, og enginn saknar hennar. Ég hefði boðið gestum opna hússins pönnsu, ekki spurning. Hilda gagnrýndi mig (og fasteignasalann) fyrir að auglýsa himnaríki ekki sem 3-4 herbergja íbúð en svefnherbergin voru þrjú þegar ég keypti himnaríki fyrir 18 árum.

 

 

MYND: Þar sem flotta málverkið eftir eitt afmælisbarn dagsins, Ellý Halldórs, hangir, var veggur sem skipti stofunni í tvennt, frekar lítil stofa fjær, þar sem rauði sófinn er, en þar sem ég stóð og myndaði var áður fínasta svefnherbergi. Það kemur reyndar fram í lýsingunni á himnaríki að hægt sé að taka herbergi af stofunni.

 

Opið húsÞað er ekkert svo langt síðan ég las bókina Opið hús, glæpasögu um morð á opnu húsi svo ég var svolítið smeyk í dag, hljóp á milli herbergja til að sjá til þess að fólk færi ekki að rífast, bara til öryggis.

 

 

Bókin sem ég kláraði í gærkvöldi heitir Heimkoma og er eftir Lone Theils. Hún er ansi hreint spennandi en ég er á rangri hillu í lífinu, grunar mig stundum, og hefði átt að verða lögga því ég áttaði mig á einum vonda karlinum, löngu á undan Signe lögrelukonu, sem er þó skrambi klár. Vona að engum detti í hug að segja að höfundurinn hafi gefið lesandanum forskot á lögguna því svo var bara alls ekki. Ég hef áður bloggað um snilli mína á þessu sviði svo ég vona að íslenska löggan fari nú að vakna. Ég á alveg nokkur góð ár eftir á vinnumarkaði og vil endilega taka þátt í að leysa glæpi.

 

Íþróttafréttir:

Hásin hægri fótar (gömul íþróttameiðsl) er öll að koma til, þökk sé góðum ráðum Ingu sem mælti með verkja- og bólgueyðandi kremi og stuðningssokk. Hef notað kremið með nokkuð góðum árangri en við þvottafrágang í sokkaskúffu í morgun datt mér í hug að skoða sokkasafn mitt almennilega. Þar reyndust liggja miklar gersemar, eins og tvö pör af flugvélasokkum og eitt par af einhverju almennilega styðjandi ef maður hefur snúið ökklann. Það kemur fyrir besta fólk en greinilega langt síðan því ég mundi ekki eftir að eiga svona sokka ... ég á alllllt of mikið af sokkum. Mikið á Rauði krossinn eftir að græða af alls konar þegar ég ræðst í að grisja.

 

Vælubílshornið

Besta pestóiðÉg er ekki vön að væla hér og kvarta, minnir mig, en þarf að skammast yfir því að sjónvarpsstöðin Fine Living sé ekki lengur finnanleg á Íslandi. Það er ábyggilega rúmt ár eða lengra síðan Síminn hætti með hana á fjölvarpi sínu, en ég held að ég hafi ekkert kvartað, sem sannar mál mitt. Ég gat horft heilu kvöldin á fólk gera upp hús og íbúðir og fannst það mjög skemmtilegt.

 

Hitt sem ég verð að skammast yfir er skortur á Önnu Mörtu-pestói (sjá mynd) í Krónunni á Akranesi. Ég borða ekki pestó og hef aldrei gert - EN ... eftir að ég smakkaði það sem AM og Lovísa, tvíburasystir hennar, sem kom ögn seinna inn í fyrirtækið, búa til, borða ég pestó af bestu lyst, en bara frá þeim. Ég spurði um það eftir að ég sá fréttir um að sumar Krónubúðir seldu það. Fékk að vita að jú, það hefði verið í sölu um skamma hríð en haft í hillu, við hliðina á pestói Jamie Olivers, þá skil ég af hverju ég sá það ekki og keypti. Þetta er nefnilega kælivara og átti aldrei að fara í hillu sem gerði það bæði ósýnilegt og óætt. Ég leitaði bara í kælunum. Það kemur ekki aftur, var mér sagt - svo skilur fólk ekkert í því að ég skuli hugsa um að flytja frá Akranesi ... Vona innilega að Önnu Mörtu-pestó komi nú samt.

Skil samt ekkert í tvíburunum að framleiða þessa súkkulaðihringi (sjá mynd af Önnu og Lovísu) sem innihalda allir að minnsta kosti eitt af eftirtöldu; hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum ... og fólk elskar þetta ... Hvað með einn súkkulaðihring með fullt af hollustudæmi nema prófa að sleppa hmdr-hroðbjóðnum ... ja, eða kannski ekki, skilst að þetta sé ávanabindandi. Gaf einu sinni Ingu vinkonu einn svona hring, stærri gerðina (þessir litlu fást í Krónunni hér á Akranesi og eru hafðir á brauða- og kökusvæðinu ... hver hatar tvíburana þar?) hringur Ingu var með svona hnetudrasli á og hún er enn að tala um hann sem eitt allra besta súkkulaði sem hún hefur smakkað.      


Bloggfærslur 16. apríl 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 97
  • Sl. sólarhring: 107
  • Sl. viku: 1976
  • Frá upphafi: 1454850

Annað

  • Innlit í dag: 67
  • Innlit sl. viku: 1601
  • Gestir í dag: 57
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband