Köttur úti á svölum og sjokkerandi sögur af tengdó

Kamilla, Inga, GerryGestakomur eru að verða daglegt brauð en ... mögulega fréttist af sítrónukökunni úr Costco sem systir mín færði mér í gær og enn var góður afgangur af. EN ... góðu, skemmtilegu vinirnir, hin danska Kamilla sem starfaði hérna á spítalann sem fæðingarlæknir um hríð, og Gerry, hollenski maðurinn hennar, listamaður sem hélt myndlistarsýningu í galleríi á Skólavörðustíg, kíktu óvænt á Skagann í dag. Kamilla hafði verið beðin um að halda námskeið í Reykjavík og þar sem hún átti afmæli tveimur dögum seinna, fannst manni hennar ekki hægt að hún héldi upp á það ein ... svo hann mætti og þau skemmtu sér á ýmsum blús- og djasstónleikum, eins og þau voru dugleg að sækja þegar þau bjuggu hér. Það voru auðvitað þau sem drógu mig með á tónleikana góðu í Ölveri ... stað sem þau héldu að væri í miðborginni - svo það var eins gott að ég var með í bílnum og gat vísað þeim veginn. Ein brúðkaupsveislan mín, sennilega sú fyrsta, var einmitt haldin í Ölveri í Glæsibæ. Það var verulega gaman að sjá þau, en þau fluttu heim til Danmerkur í fyrrahaust (eftir um ársdvöl) og ég átti hreint ekki von á að sjá þau svona fljótt aftur. Þau eru afar hrifin af Íslandi og finnst Akranes æði, of kors. Inga kom líka og sat með okkur og Keli köttur tók talsverðan þátt í samræðunum með mali sínu um sitt af hverju kattatengt, eins og sést á myndinni. Ég trúði þeim fyrir því að eini tölvupósturinn sem ég hefði fengið í dag væri frá sjálfri mér. MUNA AÐ KELI ER ÚTI Á SVÖLUM. Það hefur verið ómögulegt að hafa opið út á svalir í nokkur ár, nema loka Mosa einhvers staðar inni, hann sér opinn glugga og fleygir sér út um hann, ef eru opnar svaladyr hafnar hann á næstu svölum fyrir neðan. Sannar hryllingssögur. Svo fannst hann ofan í bílvél sem kettlingur og enginn veit hvaðan hann kom. Aðeins sex líf eftir.

 

Ég hef nefnilega gleymt Kela á svölunum, honum er treystandi til að vera þar og fer sér ekki að voða. Svo starir hann svekktur á mig næst inn um gluggann þegar ég kem fram og sæki mér kaffi, jafnvel tveimur tímum síðar, hann mjálmar of lágt. Hann var tiltölulega nýkominn inn eftir mátulega langa útiveru þegar Kamilla og Gerry komu og svo þegar Kamilla rauk út á svalir og sagði að þar væri dásamlegt elti hann hana þangað.

 

 

Hálftíma eftir að þau hjónin voru farin fékk ég SMS frá Kamillu. MUNA, KELI ER ÚTI Á SVÖLUM (hún talar fína íslensku). Ég hló, hélt fyrst að hún væri að stríða mér ... kíkti samt og Keli sat á svölunum ögn móðgaður, greinilega búinn að mjálma lágt nokkrum sinnum. Nýi vaninn í himnaríki verður að kíkja út á svalir mörgum sinnum á dag, jafnvel þótt ég muni vel að hann hafi ekkert farið út á þær. Ég kíki nú samt til öryggis.

- - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Tengdamömmur

 

Tengdósögur: Ég heyri alltaf af og til góðar sögur og fékk margar slíkar þegar ég skrifaði stundum lífsreynslusögur fyrir Vikuna. Nýlega rakst ég á síðu á Facebook þar sem mátti finna frásagnir af samskiptum við tengdaforeldra. Hér eru nokkrar þaðan og líka eitthvað innlent sem ég lumaði á og vona að ég hafi munað rétt.

 

Ég hafði verið gift í yfir 20 ár þegar ég rakst á gulan límmiða inni á baði frá manninum mínum þar sem hann  skrifaði að hann væri búinn að fá nóg og hefði yfirgefið mig og börnin. Ég reyndi að ná í hann án árangurs og hringdi loks í mömmu hans. Hún gargaði á mig, vissi greinilega allt og sagðist skilja vel af hverju hann hafði gefist upp á mér, ég neitaði stundum að gefa honum heimalagaðan mat. Það var svo sem rétt, því hann kom oft svo seint heim á kvöldin að ég og börnin vorum sofnuð - það hafði hann þó ekki sagt mömmu sinni.“

 

Fyrrverandi maðurinn minn hafði verið giftur áður en við kynntust. Foreldrar hans voru með brúðkaupsmyndir af honum og fyrri konu hans upp á vegg inni í stofu. Ég spurði eitt sinn hvers vegna og fékk þá frá tengdamömmu: „Jú, við þekktum hana á undan þér og hún mun alltaf vera hluti af þessari fjölskyldu, er hún ekki falleg?“ Tengdamamma sá svo til þess að þessari fyrrverandi væri boðið í allar veislur og viðburði í fjölskyldunni þótt við værum þar líka.“ 

 

Tengdaforeldrar mínir voru lengi ósáttir við hvernig ég og sonur þeirra vildum hafa hlutina á heimili okkar, t.d. í skápum og -skúffum í eldhúsinu. Undir því yfirskini að hjálpa til við frágang í eldhúsi við ýmis tækifæri, reyndu þau lengi vel að raða í skápana eins og þeim fannst að ætti að gera það. Við breyttum alltaf til baka og loks hættu þau þessu. Þetta var bara fyndið.“

 

Foreldrar mannsins míns telja sig til fína fólksins, nógu rík eru þau. Alltaf flott klædd, heimilið óaðfinnanlegt og matarboðin þeirra bera af. Þau sýna mér kurteisi en góði smekkurinn þeirra er víðs fjarri þegar þau velja handa mér afmælis- og jólagjafir. Ég veit ekki hvar þau grafa upp allt þetta ljóta en oft dýra dót sem ég fæ frá þeim, ósmekklegt punt, ilmvötn sem ilma hræðilega eða kerlingalegan fatnað. Maðurinn minn sér þetta vel og saman skemmtum við okkur bara yfir þessu núorðið. Ég skil ekki ástæðuna og mun eflaust aldrei gera það.“

 

Sambýlismaður minn til þriggja ára á son frá fyrra sambandi sem kemur til okkar aðra hvora helgi. Tengdaforeldrar mínir vilja ekkert af mér vita, ég má ekki stíga fæti inn á heimili þeirra og þau heimsækja okkur aldrei. Ástæðan er sú að þegar maðurinn minn hætti með barnsmóður sinni sögðu þau honum að nú yrði hann að einbeita sér að barninu og hætta öllu kvennastandi. Þess vegna láta þau eins og ég sé ekki til.“

 

Eftir að tengdaforeldrar mínir mættu trekk í trekk óvænt í heimsókn bað ég þau um að gera boð á undan sér, svo það væri hægt að taka betur á móti þeim. Við vorum kannski að fara eitthvað út, eða allt í drasli og ekkert gaman að fá þau við slík tækifæri. Þau urðu nú samt svo móðguð að þau hættu að koma í heimsókn og litu mig ekki réttu auga næstu árin, eða þar til ég skildi við son þeirra.“      


Bloggfærslur 23. apríl 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 446
  • Sl. sólarhring: 494
  • Sl. viku: 2563
  • Frá upphafi: 1456513

Annað

  • Innlit í dag: 384
  • Innlit sl. viku: 2142
  • Gestir í dag: 374
  • IP-tölur í dag: 366

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband