Óvænt viðreynsla, páskaeggjarugl og strætósvik

Himnaríki mars 2024Tungumálakunnátta er ótrúlega mikilvæg, það sannaðist í gærmorgun svo um munaði. Við stráksi vorum á leið í strætó, fermingarveisla klukkan þrjú og svo páskamáltíð hjá Hildu daginn eftir. „Góðan dag,“ sagði ég við manninn sem kom út með rusl um leið og við. Stráksi henti poka frá okkur og sagði svo „Djin dobre“ við manninn - sem er góðan daginn á pólsku. Sá gladdist, enda pólskur, og til að gleðja hann enn frekar benti ég út á stoppistöð og sagði: „Átóbúss, Reykjavík,“ og benti á okkur stráksa og svo í áttina að strætóstoppistöðinni á Garðabraut. Glöggir blogglesendur átta sig sennilega á því að átóbúss er pólska orðið yfir strætisvagn.

„Ha! Eruð þið að fara til Reykjavíkur?“ spurði pólski frábæri granni minn til sautján ára. Við héldum það nú, Reykjavík, Kópavogur, skiptir ekki máli, hugsaði ég en minntist blessunarlega ekki á Kópavog. Við glöddumst óheyrilega þegar hann sagðist líka vera á leið í bæinn og hvort við vildum ekki fá far. Þegar leið 57 var að nálgast Mosfellsbæ ókum við eins og almennileg fólk á drossíunni að húsi systur minnar í Kópavogi ... þar sem granninn henti okkur stráksa út á ferð til að hjólkoppunum yrði ekki stolið. „Ránið var í Hamraborg!“ reyndi ég að hrópa, „alveg í sjö mínútna akstursfjarlægð héðan,“ en granninn hélt öskrandi beinustu leið í öryggið í Breiðholti, með allar dyr læstar. Ég reyndi að vara hann við hinni tiltölulega nýlegu sérsveit Ríkislögreglustjóra sem gasar, handtekur og gargar á allt útlenskt, ýmsar mæður, konur yfir sjötugt og suma á Toyotu, hefur mér skilist. En granninn uppfyllti svo sem bara tvennt af þessu. Og svo var örstutt í Breiðholtið svo hann slapp alveg örugglega.

 

„Gleymduð þið páskaeggjunum ykkar heima?“ sagði systir mín skelfingu lostin.

„Það koma samt alveg páskar,“ reyndi ég að ljúga ... en eftir frábæru fermingarveisluna sem fór fram nánast í Salalaug (efri hæðinni) stoppuðum við í verslun á heimleiðinni. Tvö páskaegg þurfti að kaupa til að kæmu páskar. Ég keypti mér rísegg númer fjögur og draumaegg númer fjögur handa stráksa. Þetta var annað páskaeggið mitt en fimmta hans stráksa sem hafði fengið tvö í afmælisgjöf og unnið eitt í bingói í skólanum. 

 

Dyggð er gulli dýrmætariÍ morgun þegar systir mín rétti mér páskaeggið mitt áttaði ég mig ekkert á því að þetta væri rísegg númer níu ... og hakkaði hluta þess í mig í morgunverð. Sjá mynd af málshættinum þar. Heimilismeðlimur á unglingsaldri átti víst að fá það páskaegg. Þetta var einn allra besti bröns sem ég hef fengið. Óborganlegur skelfingarsvipurinn á systur minni gerði þessi tilvonandi níu aukakíló mín alveg þess virði þegar hún uppgötvaði mistök sín. Betri gat páskadagur varla orðið. Svo biði mín hvítt páskaegg í himnaríki um kvöldið ... ef ég kæmist heim. Spáin var helst til of spennandi fyrir suðvesturlandið líka en þó engar gular viðvaranir.

 

Lambalærið í kvöld var ekki bara gott, heldur stórfenglega gott. Matur klukkan átján og strætó klukkan tuttugu, það var mergjuð áætlun. Ég fylgdist í laumi með rokkandi hviðum (32-37 m/sek) og tilkynningum á Klapp-appinu ... stressuð vegna kattanna. Maturinn myndi ekki duga þeim mikið lengur en út kvöldið, kattahvíslarinn minn fyrir vestan á Aldrei fór ég suður og Inga í sjóðheitu loftslagi (15-20°C, hugsa ég, aumingja hún, mætti ég frekar biðja um -2°C ... feels like -11°C).

 

Strætó bs kl. 22.31Davíð skutlaði okkur í Mjódd kl. 19.45. Ég hafði fylgst með leið 57 annað slagið akandi alla leið frá Borgarnesi og var því nokkuð viss um að áttavagninn færi, eða 19.59-vagninn. Engin tilkynning á klappinu um að fyrri kvöldferðin færi ekki vegna veðurs. Svona tíu mínútur í átta sá ég mér til furðu að leið 57 var komin í Mosó og stefndi nú til Akraness aftur ÁN VIÐKOMU Í MJÓDD!!! Og án okkar stráksa. Hviður voru vissulega í 37 m/sek þá en lækkuðu svo niður í 32 nokkru seinna. Þetta er ekki heigulsskapur hjá Strætó bs. Fyrirtækið er ótryggt ef eitthvað kemur fyrir vagn og farþega þegar hviður fara yfir 30 m/sek. Ég var samt mjög spæld. 

Hvað er þetta? sagði ég greindarlega við frænda, nú þyrfti ég sennilega að auglýsa eftir fari með einhverjum á leið á Skagann. Mér datt ekkert annað í hug. Dýravinurinn knái sagði: „Ég nenni ekki að bíða eftir vagni sem fer í öfuga átt,“ svo ók hann af stað áleiðis til Akraness. Við stráksi bókstaflega möluðum af feginleika fyrir hönd Kela, Krumma og Mosa. Það er vissulega ólíkt mér að vera ekki með plan B fyrir kettina, skilja eftir enn meiri mat en þarf og stóra skál fulla af vatni í eldhúsvaskinum ef rafmagnið færi nú af og stóri vatnsbrunnurinn myndi hætta að virka. Mögulega í fyrsta sinn sem ég gerði það ekki.

 

Myndin sýnir hvernig Strætó bs fór með okkur. Nákvæmlega ekkert að finna um að ferðin kl. 19.59 félli niður, bara gert ráð fyrir gáfuðum farþegum eins og mér, sem fyndi sjálf út úr þessu. 

- - - - - - - - - - - - 

Daðrað á snappiEf ég væri ekki svona fróm manneskja (sem ég varð eftir að ég hlustaði á Die Sieben Worte Jesu Christi am Kreuz eftir Heinrich Schütz sem feisbúkkvinur með þennan fína tónlistarsmekk deildi á föstudaginn langa) hefði ég flissað glaðlega en örlítið hlessa yfir algjörlega óvæntri viðreynslu á Snappinu aðfaranótt páskadags (skömmu eftir miðnætti). Sá að einhver maður, undir algengu íslensku föðurnafni, hafði sótt um snappvinskap við mig þar og ég samþykkti því þetta hlaut að vera bróðir vinkonu, gamall vinnufélagi eða skólabróðir - og átti ekki von á að birtist í hvelli eftir samþykkið: 

„Hæ, hvað ertu gömul?“

„Ég gæti verið amma þín.“ (Virkaði eins og spurning frá 14 ára strák og ég vildi bara losna við hann) 

„Láttu ekki svona, ég er þrítugur, en þú?“ 

„Ok, ég er xx.“ (Sagði réttan aldur minn sem sést eingöngu á prenti á afmælistertu minni í ágúst ár hvert, ég varð samt að fæla barnið frá)

„Ég er að leitast eftir eldri glæsilegum konum. Þær eru langbestar. Hvernig lítur þú út, ef mér leyfist að spurja? Ertu gift?“

„Ég er harðgift,“ hvæsti ég grimmdarlega með fingrunum.

„Ég er það líka. Hef gaman af því að leika mér.“ 

Svo tók ég skjáskot af samtali okkar, bara til að Hilda systir tryði mér, hún heldur að ég eigi ekki nokkurn einasta séns lengur, ég er svo miklu, miklu eldri en hún og á að auki þrjá ketti. 

„Mikið er lúalegt af þér að taka skjáskot!“ (Hann var samt ekki undir nafni svo ég hefði aldrei getað fundið hann (og kýlt)).

Mig langaði að svara: „Mikið er lúalegt af þér að svíkja konuna þína svona, farðu til fjandans!“ en nennti ekki að eyða tíma í að skrifa það á símann, henti ótrúa drengnum bara út og sendi konunni hans samúðarstrauma með hugarorkunni. Næsti gaur sem sótti um vináttu við mig, níu tímum síðar, fékk bara hnuss og nú í þessum skrifuðum orðum er einhver annar gaur sem vill verða vinur minn.

 

Er einhver „viðbjóðsvika“ í gangi þar sem atast er í siðprúðum kerlum? Og þetta „leitast eftir“ - sko, við leitumst við að t.d. svíkja ekki maka okkar með því að reyna við síðmiðaldra glæsikvendi. Og þetta „eldri“ glæsilegum konum, það myndi enginn mannlegur máttur geta veitt mig með slíku orði, „ég er trylltur í gamlar skrukkur, óður í kerlur krumpaðar í framan ...“ Falla konur fyrir slíku? Ég myndi falla kylliflöt fyrir manni sem segði að ég væri sjúklega sæt og svakalega gáfuð og heillandi og fyndin, vel lesin, kynni nánast öll póstnúmer, væri sannur matgæðingur (eða mjög lítið fyrir gamaldags íslenskan mat), héldi með réttu liði í enska, væri með svívirðilega góðan tónlistarsmekk og annað í þeim dúr. Hann hefði reyndar náð mér strax með „sjúklega sæt“.

 

P.s. Hvað er eiginlega í gangi? Það getur bara ekki verið að súkkulaðiRÚSÍNUR flokkist sem tilhlýðilegt og gómsætt innvols sem setja má í páskaegg?


Bloggfærslur 1. apríl 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 79
  • Sl. sólarhring: 180
  • Sl. viku: 1958
  • Frá upphafi: 1454832

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 1584
  • Gestir í dag: 43
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband