Skerí talnaminni, móðguð Skagakona og ... eltihrellar

Fyrr í kvöldTalsverð vinnuafköst í dag þótt fótaferðartími væri nær hádegi en sjö, og það er enn fínt í himnaríki! Diskur og bolli dagsins í vaskinum af því ég nenni ekki að taka úr uppþvottavélinni, hreinn og þurr þvottur í körfu inni á baði en korterið sem þessi verkefni taka, verða unnin á morgun. Ég fer ekki einu sinni inn í stofu, ég þori varla að anda til að ryk fari ekki á ranga staði. Það er svo gaman að hafa allt fullkomið. Gestir eru auðvitað samt velkomnir. En þeir verða að sætta sig við að sitja ofan á plastpokum á gólfinu og drekka vatn úr pappaglösum.

 

Grannkonan góða frá Úkraínu fór í búðarferð seinnipartinn og tók Gurrí sína með þótt mig vantaði svo sem ekki margt. Við fórum þó fyrst í frískápinn, beint á móti Búkollu nytjamarkaði, þar sem grannkonan skildi eftir smávegis matarkyns. Allt brauðið sem var til í frysti í gær, var búið. Vildi að ég hefði vitað af því að við færum þangað, nú er stráksi fluttur og mataræðið orðið mun sykurminna svo ég þarf að gefa eitthvað af Royal-búðingi og fleira í þeim dúr, einnig frosnu nautahakki í nokkru magni, nema ég verði MJÖG reglulega (daglega) með lasagna á meðan frystirinn tæmist.

 

Fórum næst í húsið í enda bæjarins, sem hýsir Classic hárstofu, Apótek Vesturlands, pítsustað (sem ég er enn fúl út í vegna lélegrar þjónustu við app-lausa) og Bónus. Frábæra Andrea, góðgerðadrottning okkar Skagamanna, sat við borð á ganginum, eins og flesta föstudaga, og seldi lakkrís og sitt af hverju fleira, en allt rennur til góðra málefna, eins og að hjálpa veiku fólki. Sjálfstjórnin kom í veg fyrir lakkrískaup svo ég ákvað frekar að leggja inn á hana og sleppa fjandans lakkrísnum. Henni virtist brugðið þegar ég fór að þylja upp kennitöluna hennar (ekki síðustu stafina, ég er ekki klikkuð) en ég lagði inn á reikninginn hennar fyrir tveimur eða þremur árum (því ég var ekki pening á mér) og ég er minnug á tölur. Reyndar fæddist hún daginn sem ég átti að fæðast (tveimur dögum fyrir 12. ágúst) en er yngri, en ég tjáði henni það bara alls ekki, vonandi tilnefnir hún mig til Nóbelsverðlaunanna fyrir talnaminni en kannski varð hún of skelkuð, þótt hún liti svo sem ekki út fyrir það. Hún þekkir kannski fleiri nörda.

 

Gísli gerir Mart-einnRottweiler-Erpur móðgaði mig í kvöld í sjónvarpinu (hjá Gísla Marteini) með því að tala um það eins og einhvern hrylling að skreppa í bíltúr upp á Akranes - miðað við hvað það væri nú meira hipp og kúl að vera leiðsögumaður í Írak og í eyðimörkinni þar í grennd, þar sem sporðdrekar eru minnst hættulegu kvikindin. Hefur hann aldrei heyrt um antíkskúrinn, vitann, Langasand og Guðlaugu? Ein ísbúðin okkar er orðin Costa-kaffihús og ég ætla að prufukeyra kaffið þar á sunnudaginn, mjög spennt. Það er virkilega almennilegt hitastig utandyra á Akranesi núna, helst til of hvasst samt seinnipartinn. Erpurinn kýs frekar 45 stiga hita ... og ég er að tala um á Celsíus. Sko, 45 gráður á Farenheit væru reyndar mátulegur 7 stiga yndishiti á Celsíus. Sko, ég er Skagakona (alltaf í hjartanu þótt ég búi annars staðar) og hlusta mjög reglulega á Bent nálgast, sem er reyndar eina Rottweiler-lagið á Ýmis lög á tónlistarveitunni minni. Þar eru líka Valdimar, BG og Ingibjörg, Eminem, Red hot chilli Peppers, Hljómar, Pixies, Radiohead, Skálmöld, Rolling Stones og bara alls konar skemmtilegheit, gott við vinnuna. 

 

Ætla samt, svona móðguð, að halda Bent nálgast með Rottweiler inni á tónlistarveitunni. Þegar ég bjó á Hringbrautinni (101 Rvík núna, var 107) gerðu Rottweiler-hundar myndband með einu laginu, einmitt við stigaganginn minn í gömlu Verkó. Ég þorði ekki að anda, þarna uppi á annarri hæð. Rosalega stolt. Ég hlusta aldrei á texta svo ekki segja mér ef texti þess lags fjallar um hrylling við að búa við umferðargötu sunnanmegin og með geitunga inn um gluggana garðmegin.

 

Ove OttoYfirleitt þegar ég heimsæki Hildu og gisti horfum við á eins og eina bíómynd - sem er vinsælt af öðru heimilisfólki og heitir kósíkvöld. Þetta heldur mér upplýstri um það sem er í gangi í kvikmyndaheiminum. Þess vegna sé ég fleiri bíómyndir en ella, því ekki kemst ég í Bíóhöllina á Akranesi, enginn strætó á kvöldin eða um helgar. Í nýjum sáttmála, eitthvað slíkt, Akraneskaupstaðar, var talað um gott aðgengi fyrir alla að menningu - svo strætó mun sennilega fara að ganga oftar, nema bærinn kaupi undir mig bíl og bílstjóra. En Bíóhöllin er ógeðslega langt í burtu. Síðast horfðum við Hilda og fleiri á A Man Called Otto. Tom Hanks í aðalhlutverki. Amerísk og nýleg útgáfa af hinum geðvonda Ove ... Dásamleg bók og fín bíómynd ... sú nýja með Tom Hanks var sýnd á Stöð 2 áðan og ég horfði með öðru um leið og ég bloggaði. Skemmtilega nágrannakona Ottós sem dró hann upp úr geðillskunni er frá Suður-Ameríku, man ekki landið, en í sænsku myndinni og bókinni er sú hressa frá Íran. Áttaði mig ekki á þessu um daginn. Það má auðvitað ekkert jákvætt koma fram westra um fólk sem kemur frá Íran og löndunum í kring, nema einu. Ég meira að segja gúglaði muninn á myndunum og þar kom bara fram að sú ammríska gerðist í Bandaríkjunum og töluð væri enska - sú fyrri væri sænsk og allt það.   

 

baby reindeerFréttir af Facebook

Dásamleg kona sem ég þekki mælti með þáttum um mann sem lendir í heljargreipum harla óvenjulegs eltihrellis, eins og hún orðar það. Hún rifjaði upp, af því tilefni, að þegar hún starfaði sem sjónvarpsþulur um tíma á níunda áratug síðustu aldar, að stundum hafi karlmaður hringt inn í útsendingarstúdíóið þegar hún var á vakt. Í fyrstu hrósaði hann henni fyrir fatnað eða framburð en svo kárnaði gamanið ... Hann fór að segja henni að hann hefði fylgst með henni í búðinni sem hún fór alltaf í, hvað hún hefði keypt og hverju hún hafði klæðst. Undir það síðasta byrjaði hann að lýsa því hvað hann vildi gera við hana og þá hafði hún samband við lögreglu sem gat lítið gert. Tæknimenn á vakt fylgdu henni út í bíl eftir að vinnu lauk og hún fór ekkert ein og alls ekki í búðina sína næstu þrjá mánuði. Símtölin hættu svo alveg. Mjög óhugnanleg upplifun.

 

Nokkrir skrifuðu athugasemd og höfðu lent í svipuðu. Eins og fréttamaður sem sagði meðal annars: „Ég fór að fá símtöl ... og svo tugi smáskilaboða á dag frá sjúkri konu ...“

 

Kona sem vann í morgunútvarpi skrifaði að hún hefði átt tvo eltihrella á svipuðum tíma, annar var leigubílstjóri og lögreglumaður, hinn virtur lögmaður. Hún var bíllaus, strætó ekki byrjaður að ganga svo hún varð að taka leigubíl. Annar eltihrellirinn var bílstjórinn sem sótti hana einna oftast.

 

Þættirnir sem orsökuðu þessar umræður heita Baby Reindeer og eru á Netflix. Mögnuð sería, segir hún, vel skrifuð og leikin, djúp og bæði grátbrosleg og óhugnanleg. Byggð á reynslu höfundar sem leikur aðalhlutverkið. Ætla að sjá þessa þætti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og nítján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 271
  • Sl. sólarhring: 381
  • Sl. viku: 2233
  • Frá upphafi: 1455936

Annað

  • Innlit í dag: 241
  • Innlit sl. viku: 1842
  • Gestir í dag: 233
  • IP-tölur í dag: 225

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ástarsaga
  • Sofandi köttur
  • 1. maí fyrir nokkrum árum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband