Dauðarokk, Evil Twin og svalakíkk vélstýrunnar

Dolly PartonDynjandi dauðarokk, eða svona næstum því, mætti mér þegar ég steig upp í strætó í morgun, frekar seint, tók alla vega ekki fyrstu ferð. Næsta lag á eftir var kúrekapopp með Dolly Parton, heyrðist mér. Jú, eftir smástund kom í ljós að þetta var Rás 2 ... hvar annars staðar fær maður svona fjölbreytni? Sannarlega uppáhaldsútvarpsstöðin mín.  

Nýr bílstjóri sat undir stýri, ágætlega huggulegt hönk! Kannski er búið að taka upp þá stefnu hjá strætó að ráða eftir útliti, eins og gert er í vinnunni minni ...
 

 
Vélstýran hafði í nægu að snúast í dag. Hún fór í langan göngutúr með bloggvinkonu og skutlaði síðan annarri heim, alla leið á Skagann! Hún vildi taka út nýju svalirnar mínar og ég held að henni hafi bara litist vel á, fannst þær reyndar heldur háar og skerða útsýnið óþarflega mikið. Nokkrir barstólar á svalirnar ættu að bjarga því ... þegar ég kemst út á þær! Ekki svarar Glerhöllin hringingum mínum enn um að nú þurfi ég nýja gluggann minn með svalahurðinni sem ég staðgreiddi fyrir nokkrum vikum með hjálp yfirdráttarheimildar. Vona bara að elsku bankamennirnir mínir nái að ferðast mikið fyrir vextina af henni áður en stóra svalalánið með meiru borgar hana upp!

 
Nú hefur dána konan sem lifnaði við í Boldinu fattað að ekkillinn hennar kvæntist ekki bara aftur, heldur eignaðist hann barn með nýju konunni sem hann hefur reyndar alla vega tvisvar verið kvæntur áður! Barnið hlýtur að breyta miklu. Nú getur sú nýlifnaða ekki stolið karlinum aftur með góðri samvisku. Tómas og tvíburarnir eru í skýjunum yfir að hafa endurheimt mömmuna.

En hvað er að gerast í Nágrönnum? Vondi þríburinn sem þykist vera betri strákurinn ætlar sér vonda hluti. Allir halda að Izzie hafi reynt að drepa sig á gasi með litla barn bróður síns í fanginu en vondi þríburinn skrúfaði frá gasinu ... Góði þríburinn liggur í kóma á sjúkrahúsi og þriðji þríburinn er stelpa.

Evil TwinÉg átti mér reyndar evil twin ... sem var skorinn úr mér sem teratoma-æxli fyrir rúmum tveimur árum. Sumir halda því fram að svona æxli séu krabbamein í eggfrumu og þess vegna finnist leifar af skjaldkirtli, bein, hár og fleira ... en aðrir segja að þetta sé alvörutvíburi sem þroskaðist ekki. Ég hefði átt að biðja um kvikindið og geyma það í formalíni í krukku ofan á arinhillunni. Eftir að við vorum aðskildar skrapp ég í eina bestu utanlandsferð lífs míns til hennar Katrínar minnar Snæhólm og upplifði mikið dekur og afar uppbyggjandi tíma.

Við skruppum í moll í nágrannabæ. Mig vantaði að kaupa íþróttatreyju fyrir erfðaprinsinn, Manchester United-treyju, og láta merkja hana númer 11, Giggs! Annað bílastæðahúsið var lokað, enda fullt, og löng biðröð í það næsta. Katrín segir við börnin sín í aftursætinu:

„Jæja, nú skulum við biðja bílastæðaenglana okkar að finna gott stæði við dyrnar að mollinu svo að Gurrí þurfi ekki að labba of mikið svona nýkomin úr aðgerð.“ Börnin samsinntu þessu. Nokkru seinna fengum við stæði, ekki það sem var gegnt innganginum, heldur við hliðina á því! Og ég fékk gæsahúð! „Það virkar alltaf að biðja bílastæðaenglana um hjálp!“ sagði Katrín töffari. Seinna sagði ég Hildu systur frá þessu en þá vorum við að keyra niður Laugaveginn áleiðis að Kaffitári í Bankastræti. „Prófum þetta,“ sagði ég við Hildu. Og sagði upphátt: „Jæja, kæru bílastæðaenglar, viljið þið finna gott stæði fyrir okkur í Bankastrætinu!“

Þegar við vorum komnar til móts við þar sem Skólavörðustígurinn mætir Laugavegi sáum við mann hlaupa út úr Kaffitári og fara inn í bíl beint fyrir utan, í stæðinu fyrir neðan merkta stæðið fyrir fatlaða. Hann ók út úr því og við beint inn, við þurftum ekki einu sinni að bíða.

Stundum hugsa ég um manninn sem var í stæðinu ... hvort hann hafi fengið óviðráðanlega þörf fyrir að rjúka út án þess jafnvel að klára kaffið sitt ...     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

He he. Hef aldrei verið kölluð töffari áður. Mér líkar þessi titill. Man líka eftir drekaflugunni við tjörnina semm elskaði þig. Gurrí sat undir tré að hvíla sig og hofa á fallegu vatnaliljurnar á tjörninni. Kemur þá undurfögur og risastór bláleit og silfruð dekafluga og hangir í loftinu beint fyrir framan nef Guðríðar. Guðríður var fremurr smeyk en gat sig hvergi hrært vegna saumanna. Þetta endutók drekaflugan nokkum sinnum. Allt í einu flaug hún niður að jörðu við fætur Gurríar krækti einhvernveginn halanum eða þesssu langa aftan á sér utan um skrælnað laufblað og flaug svo með það uppí tréð til lifandi laufblaðanna og tyllti því varlega  á greinina hjá þeim. Þetta var ótrúlegt. Ég held að drekaflugan fagra hafi þarna verið að segja Gurrí að henni myndi alveg batna og verða heil eins og lifandi laufblað. Já segiði svo að það gerist ekki ævintýri í kringum þessa konu hérna.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.2.2007 kl. 19:21

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Þetta var í fyrsta skiptið sem ég sá drekaflugu ... og saumarnir voru reyndar farnir! En þetta var skrýtin upplifun að vera elskuð að svona flottu skordýri, hélt að það væru bara geitungar og býflugur sem löðuðust að mér ...

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 8.2.2007 kl. 19:38

3 Smámynd: Guðrún Eggertsdóttir

Bílastæðaengillinn er alltaf til taks og virkar í hvert einasta skipti sem þjónustu hans er óskað.  Sjálf er ég nýbúin að nýta mér þjónustuna, skrapp í Smáralindina áðan á sama tíma og flestir höfuðborgarbúar, gerði mér lítið fyrir og sendi út ósk um bílastæði.  Það var eins og við manninn mælt (eða engilinn réttara sagt) það beið mín bílastæði beint fyrir utan Hagkaup!

Guðrún Eggertsdóttir, 8.2.2007 kl. 19:46

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Tvíburar og þríburar ... hvað næst?

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 8.2.2007 kl. 20:21

5 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

bwahahahaha :-D

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 8.2.2007 kl. 21:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 250
  • Sl. viku: 1881
  • Frá upphafi: 1493489

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1518
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Mia_litla
  • Eftirlaunaaldurinn
  • Hirðrafvirkinn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband