"Er að vorkenna" kennurum - nafnháttarsýkin breiðist út!

Bolla„Eru Íslendingar enn að borða svona mikið af bollunum?“ spurði fréttakonan, greinilega smituð af nafnháttarsýkinni sem tröllríður íslenskunni. Afsakið, „er að“ tröllríða íslenskunni ...

„Hvernig smakkast bollan þín?“ spurði hún þó barn á leikskóla. Hún hefði alveg getað sagt: „Hvernig er bollan þín að smakkast?“ Og fáir hefðu kippt sér upp við það!

KennariÉg er að hafa einlæga samúð með íslenskukennurum, þetta er að virðast vera vonlaust verk, meira að segja ráðherrarnir eru að tala svona!

Veit að ég er ekki fullkomin í íslensku sjálf ... en er þetta vonlaust verk, getum við snúið þessari þróun við?

Þegar ég var lítil heyrðist oft: „Það var gefið mér ...“ Þetta heyrist ekki lengur. Ég var vanin af því að segja SKE í skóla (erlendur málslæðingur, vart rithæft orð) en hvernig er hægt að kenna börnunum þetta ef allir tala svona? Er þetta eðlileg þróun málsins? Eru málfræðingar rólegir yfir þessu eins og þágufallssýkinni?   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ja, hérna, þetta er ótrúlegt.

Ég verð mömmu eilíflega þakklát fyrir að hafa hamrað inn í okkur systkinin að segja Ég hlakka til!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.2.2007 kl. 19:34

2 Smámynd: Hugarfluga

Jú, Gurrí mín. "Það var gefið mér" er enn við lýði hjá blessuðum börnunum. Er sjálf með tvo stráka á skólaaldri og "það var sagt þeim" hitt og þetta og "það var kennt þeim" annað o.s.frv. En þetta með nafnháttarsýkina er nokkuð, sem virðist komið til að vera. Ég tel sjálfa mig nokkuð vel máli farna, en fell gjarnan í þá gryfja að "vera að" nota nafnháttinn  

Hugarfluga, 19.2.2007 kl. 19:46

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Það gerði ég líka stundum, eða þangað til ég heyrði: „Hvar voruð þið að sitja!“ Þjónn á veitingastað sagði þetta við viðskiptavin! Þá vaknaði ég og nú finnst mér þetta ömurlegt, málið gjörbreytist svo hratt núna, snökt, snökt!!!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.2.2007 kl. 19:50

4 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Nýja þolmyndin (Það var gefið mér, o.s.frv.) er málbreyting sem hófst úti á landi, líklega um 1965 (þetta heyrðist oft á Króknum um 1968) og er mun lengra komin á landsbyggðinni en í Reykjavík - reyndar held ég að elstu dæmin sem þekkt eru með vissu séu frá Akranesi. Samkvæmt nýlegri rannsókn virðist þessarar breytingar minnst vart í Reykjavík vestan Elliðaáa - þú hefur búið of lengi í 101 ef þú heldur að þetta sé horfið, þessi málnotkun fer þvert á móti vaxandi.

Ég sé ekkert athugavert við að nota ske, það er tökuorð sem hefur verið algengt í íslensku frá 16. öld (kemur t.d. oft fyrir í Nýjatestamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar) og hæpið að kalla það málslæðing.

Nanna Rögnvaldardóttir, 19.2.2007 kl. 20:14

5 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Þetta SKE-hatur hefur eflaust komið frá kennara sem hafði mikil áhrif á nemendur sína.  Og já, ég hef ekki heyrt þetta mjög lengi ÞAÐ VAR GEFIÐ MÉR! Vissi ekki að það lifði góðu lífi enn. Maður lærir alltaf eitthvað nýtt

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.2.2007 kl. 20:26

6 Smámynd: gua

Getir þú sagt mér frú Guðríður hvernig ég set inn myndir á bloggið þá meina ég frá google.is, mér er ekki gefin sú himneska þolinmæði sem þarf til að gera svona tæknilegt dót án þess að missa mig í bölv og ragn  sé að þú er ótrúlega fínk

gua, 19.2.2007 kl. 20:43

7 Smámynd: Guðrún Eggertsdóttir

Á leiðinni í vinnuna í morgun heyrði ég auglýsingu á Gullbylgjunni sem hófst svona: „Vantar fyrirtækinu þínu ekki.....“ eitthvað sem ég heyrði ekki fyrir ekkasogunum í sjálfri mér! Þágufallssýkin er ekki liðin undir lok

„Vantar fyrirtækið þitt ekki auglýsingastofu, skipaða fólki sem kann tungumálið?“ valt upp úr mér. Þá var auglýsingatímanum lokið og ég fór að syngja hástöfum með einhverjum ellismellinum sem verið var að spila.............

Ég er ekki heldur fullkomin í  íslensku en þessi villa er orðin svo gömul!

Guðrún Eggertsdóttir, 19.2.2007 kl. 20:44

8 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Gua, ég vista mynd af google á "desktop", síðan býður bloggið upp á að þú sækir hana þangað. Fínt er að láta myndina heita eitthvað (sem ferlið leyfir) og þá finnur þú hana strax. Gangi þér vel!

Guðrún, já, það eru rosalega margar villur í auglýsingum, bæði útvarps- og blaðaauglýsingum, maður sér slíkt á hverjum degi, þetta sem þú heyrðir er frekar slæmt dæmi ... 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.2.2007 kl. 20:51

9 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Þágufallshneigð er málbreyting sem er svo langt komin að það er trúlega útilokað að berjast gegn henni.

Nanna Rögnvaldardóttir, 19.2.2007 kl. 21:15

10 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Já, ég held að það sé rétt hjá þér!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.2.2007 kl. 21:32

11 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Óskaplega gerast menn nú spakir með spökum. Ég HATA vitlausa íslensku og hananú. Ég gef engan afslátt og vil rétt talað og rétt skrifað mál. Mín fortakslausa víðsýni er í boði sjálfrar mín og þeinkjúverímöts.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 19.2.2007 kl. 23:09

12 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Heheheh, ég hata líka ranga íslensku en ég held að það sé afskaplega erfitt að taka á þágufallssýkinni, sérstaklega ef sumir íslenskukennarar eru með hana!!! Meira að segja jólalagið: Ég hlakka svo til! gerði ekki nógu mikið gagn, eitthvað þó, held ég. Spurning um að Latibær, eða eitthvað vinsælt dæmi hjá litlu krúttunum, verði með átak ... hmmm, hugs, hugs! Röng íslenska á ekki að heyrast í fjölmiðlum, þar finnst mér í lagi að draga mörkin án miskunnar! Erum við kannski að berjast við vindmyllur? 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.2.2007 kl. 23:18

13 Smámynd: Svava S. Steinars

Það er mörg sýkin sem þarf að varast. Verst þykir mér þó að stafsetningarkennslu hefur greinilega hrakað.  Kíktu bara inn á Barnaland, þar sérðu óteljandi skelfileg dæmi (einnig um allskyns málfarssýki).  Það eru ófáar síðurnar sem í fyrstu heita óskýrð Jónsdóttir eða óskýrður Jónsson.  Hef íhugað að skrifa athugasemd og skýra fyrir fólkinu hvernig það fór að því að eignast þessi börn !

Svava S. Steinars, 20.2.2007 kl. 01:05

14 Smámynd: www.zordis.com

Kanske er íslenskan að þróast út í það að vera danska.  For helvede!  Nei, nú er "mín" að gantast!  Eigðu ljúfan dag

www.zordis.com, 20.2.2007 kl. 08:10

15 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

yngri dóttir mín notar nýju þolmyndina grimmt, en ég held að hún rjátlist af fólki með aldrinum.

Ég er ekkert viss um að stafsetningarkennslu hafi hrakað í landinu, málið er bara að þeir sem áður kunnu illa stafsetningu skrifuðu ekki svona mikið opinberlega. Lesendabréf í blöð og tímarit voru prófarkalesin og leiðrétt. Núna kemur þetta bara beint fram eins og það kemur af skepnunni.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 20.2.2007 kl. 08:51

16 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Það er alveg með ólíkindum hvað þessi nafnháttarsýki er lúmsk. Ég er að standa mig að því að falla í þessa gryfju af og til.

Steingerður Steinarsdóttir, 20.2.2007 kl. 09:49

17 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Heheheheh

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.2.2007 kl. 13:16

18 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Ég er ekki að ná þessari nýju íslensku, hún var ekki kennd mér þegar ég var barn. En ég er nottla doltið gömul en þó ekki orðin blynd né heldur heirnarlaus.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 20.2.2007 kl. 20:45

19 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Heheheheh, ég talaði einu sinni um þetta við íslenskufræðing og mér fannst hann vera spenntur fyrir þessari þróun málsins, enda vísindamaður í þessu, hann taldi aftur á móti alveg vonlaust að laga þágufallssýkina.

Hann vildi meina að stéttaskipting á landinu tengdist tungumálinu, "hjólhýsapakkið" talar þá rangt mál, samkvæmt því .... en svo veit ég um algjör gáfustórmenni sem eru lesblind og rithöfunda sem hafa aldrei heyrt um Yfsilon ... Úff, þetta er erfitt. Við skulum bara halda áfram að reyna að tala gott mál, kæra GAA og hætta þessu nöldri. 

Þú hefðir átt að segja: heirnAlaus ... það hefði verið flottara, múaahahhahah! 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.2.2007 kl. 21:21

20 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég kann ekki við að fólk skuli vera farið að kalla þetta nafnháttasýkingu. Það sem er að gerast er að við notum framvinduhorf þar sem í raun ætti að vera einföld nútíð/þátíð. Framvinduhorf (er að X, sbr. ég er að borða) var aldrei notað með svokölluðum ástandssögnum (elska, vita, sitja, þekkja, o.s.frv.) en eitt af því sem við sjáum núna er akkúrat sú notkun: Ég er ekki að skilja þetta, Hann er að halda að.... Einnig var aldrei hægt að nota svokallað venjuhorf í framsöguhætti en það er gert núna: ég er að heyra þetta lag alls staðar. Ég er að taka eftir þessu víða. Sem sagt, málið er ekki að nafnháttur sé að troða sér fram (þó svo nafnháttur sé hluti af setningagerðinni) heldur er það framvinduhorfið sem er notað í nýrri merkingu. Þannig að eðlilegast er að kalla þetta útvíkkað framvinduhorf, eða hið nýja framvinduhorf.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.2.2007 kl. 22:25

21 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Vil svo bara bæta því við að bollumyndin þarna er frá mér komin. Myndskreytti texta sem ég skrifaði um bolludaginn á IceCan síðunni (http://www.umanitoba.ca/faculties/arts/icelandic/IceCan/islenskir_dagar.htm)

Gott að þú gast notað hana. Verst að súkkulaðið var of þunnt og lak niður um allt. Góð bolla þó, held ég hafi étið hana sjálf. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.2.2007 kl. 22:28

22 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

TAKKKK fyrir þessar upplýsingar og glæsilega og girnilega bollu (sem ég stal af google ... sorrí)

Vá, ég mun sko kalla þetta þetta útvíkkað framvinduhorf í framtíðinni! Algjör snilld.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.2.2007 kl. 22:44

23 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Verði þér að góðu. Og eftir að þú sagðist hafa stolið bollumyndinni af google þá fór ég og skoðaði hvað kæmi upp á google og sá að hlekkurinn er á: http://www.consilium.ca/newsletters/February_05.html og þú hefur líklega tekið  myndina þaðan. Skemmtilegt að bollumyndin mín skuli vera farin að þvælast um heiminn. Ánægð með það. Ég tek sjálf myndir héðan og þaðan af netinu og er bara ánægð  með það. Miklu skemmtilegra að lesa pistla sem eru myndskreyttir.

Takk annars fyrir þennan pistil þinn um málið. Ég þarf einhvern tímann að skrifa meira um þetta sjálf.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.2.2007 kl. 00:31

24 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Já, það líst mér vel á, þú ert greinilega afar vel inni í þessu. Ég hreinlega nenni ekki í íslensku í háskólanum ... langar að meira að verða kjarneðlisfræðingur þegar ég verð stór! 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 21.2.2007 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 25
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 659
  • Frá upphafi: 1506012

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 533
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband