Bæjarferð í laumukulda ...

Sólarlag 6. mars 2007Brá mér í bæjarferð upp úr fimm. Kíkti m.a. í búðir í leit að afmælisgjöf handa erfðaprinsinum, fann hana og eftir lymskufullar símanjósnir ákvað ég að fara á morgun og festa kaup á þessu. Samt er nú rúmur mánuður í afmælið ... en hva. Með í poka hafði ég nýleg tímarit sem ég fór með upp á sjúkrahús. Þegar ég beið þar í ofvæni á dögunum eftir að gefa blóð til læknavísindanna (og þurfti svo ekki því að einhvers staðar í Reykjavík leynist Blóðbanki Guðríðar) tók ég eftir því að tímaritaúrvalið var sorglega lítið, eiginlega sjúklega lítið og lélegt. Talaði um við Sigrúnu, sem er vinkona Höllu vinkonu, að skjótast með bunka af blöðum einhvern daginn. Til að enginn héldi að þetta væri góðverk bað ég sérstaklega um að veikir sjúklingar fengju alls ekki að sjá þessi blöð, bara fólk sem bíður eftir blóðprufu. Nei, djók. Þetta er nefnilega hluti af stærra verkefni ... eða að gera fínna í himnaríki, ég á allt of mikið af tímaritum. Allir græða. Í næstu ferð tek ég bara strætó og þá get ég farið með miklu fleiri tímarit.

Klukkuna vantaði korter í sex þegar ég stóð á horninu hjá sjúkrahúsinu og upplifði mikinn valkvíða ... kaffihúsið, Einarsbúð ... báðir staðir loka kl. 18. Ég valdi Einarsbúð af því að allt er tómt hjá mér. Sá að það hafði safnast upp kaffirjómafjall vegna lítilla innkaupa minna undanfarið og var ekki lengi að smella nokkrum í körfuna. Svo var fullt til af frosnu góðgæti, grænmetisbuffum frá Himneskri hollustu og fleira og fleira. Frystirinn er fullur núna!  

Sigga, gamla góða bekkjarsystir mín síðan í barnaskóla, var í Einarsbúð og sagði að það væri svo laumukalt úti að hún heimtaði að fá að keyra mig heim. Hún mun héðan í frá ganga undir nafninu Sigríður almáttugur! Svo frétti ég að hún kann að flísaleggja, ég pantaði hana samstundis í ráðgjöf og kennslu og hún sagði já!

Ellý og KubburEllý hringdi, búin að vera sárlasin síðan á laugardag, ég var að elda eitthvert fínirí, eiginlega tvöfaldan skammt, og bauð henni samstundis í mat. Hún var búin að gefa börnunum að borða en leist svo vel á matseðilinn hjá mér að hún fann að matarlystin lét á sér kræla.

Smellti mynd af henni með Kubb í fanginu ... kettirnir eru sjúkir í hana! Hún fékk varla matarfrið. Smellti líka mynd af fallegu sólarlagi og sá þá í fyrsta skipti svalirnar hjá karlinum í risinu hinum megin. Isss, mínar eru flottari. Nú hefst kapphlaup, hvort verður á undan að fá svaladyr!!!  

 
Nú þarf ég bara að klára seinni greinina og svo skelli ég í eina lopasápu. Verður Agný ráðþrota þegar hún kemst að lymskufullu plottinu hjá Hólmgeiri eða bjargar Bragi málum með því að lauma armbandinu að Kleópötru?

P.s. Hitti vin minn í gær, hann var staddur í húsinu þar sem ég vinn. Hann faðmaði mig auðvitað og sagði: „Umm, góð lykt af þér .... Ariel?“ Hahhahaha! Já, ég strái þvottaefni yfir mig í stað ilmvatns, best að koma út úr skápnum með það!     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Sæt mynd af Ellý og Kubb svo er útsýnið alveg guðdómlegt!  Eitt góðverk á dag kemur skapinu í lag ........

www.zordis.com, 6.3.2007 kl. 21:01

2 Smámynd: Eydís Rós Eyglóardóttir

Þetta með Ariel er það ekki boð upp á það að einhver bendi manni á að kaupa sér flösushampó... svona ef maður hugsar það dýpra... Liklegast ætti maður að sleppa því þar sem það skemmir djókið! 

Eydís Rós Eyglóardóttir, 6.3.2007 kl. 21:19

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Það er rétt hjá þér, Eydís, maður dreifir ekki "flösu" yfir sig, hafði ekki hugsað þetta svona langt. En þvottaefnislyktin er greinilega góð!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 6.3.2007 kl. 21:25

4 Smámynd: Gerða Kristjáns

Vá !!  Myndin er frábær !  Báðar sko

Gerða Kristjáns, 6.3.2007 kl. 21:35

5 Smámynd: Hugarfluga

Sáldrarðu Ariel yfir þig? Ég ætti nú ekki annað eftir. Ariel er það sem heldur húðsjúkdómalæknum gangandi. Húðin á mér brennur sem í vítislogum væri, þegar ég nota þetta þvottaefni á larfana mína. Þú ert væntanlega bara með þykkari skráp en ég, Gurrí mín.

Hugarfluga, 6.3.2007 kl. 21:37

6 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Sko ... held reyndar að góða lyktin sé af einhverju bréfsnifsi sem ég set í þurrkarann til að losna við rafmagn úr fötunum. Ariel-sagan er miklu betri ... og Hugarfluga, ég nota það en reyndar í fljótandi formi og húðin kveinkar sér ekkert!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 6.3.2007 kl. 21:42

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Gæti ég fengið afnot af Siggu almáttugri? Vantar eimitt svona konu

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.3.2007 kl. 21:51

8 Smámynd: bara Maja...

Rosalega fallegar myndir  Ég á einmitt gommu af tímaritum, enda afskaplega sjúk kona þegar kemur að kaupum á tímaritum, verð helst að kaupa þau öll... ég ætti að vera heiðursgestur á öllum hátíðum hjá Birtingi... maður ætti kannski að fara að gefa þau svona !  einhverjar hugmyndir ?

bara Maja..., 6.3.2007 kl. 21:56

9 Smámynd: Ólafur fannberg

innlitskvittun

Ólafur fannberg, 6.3.2007 kl. 22:01

10 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Heilsugæslustöðvar, Maja!!! Leiðinlegustu staðir í heimi að bíða á! Kannski slysavarðstofan, þar þarf fólk að bíða í marga, marga klukkutíma eftir afgreiðslu.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 6.3.2007 kl. 22:07

11 Smámynd: Gunna-Polly

já ákkúrat , var á biðstofu umd aginn og las séð og heyrt síðan 2001 eða eldra 

Gunna-Polly, 6.3.2007 kl. 22:36

12 Smámynd: bara Maja...

Set í kassa eins og skot !

bara Maja..., 6.3.2007 kl. 22:47

13 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Þær eru sætar Ellý og Kubbur, og þú bloggdrottningin , eins og ég sagði þér einhvern tíma, efaðist þú???? Nr. 27 og ábyggilega að hækka þig.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.3.2007 kl. 22:50

14 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Rosalega verður hugsað fallega til þín næstu árin á slysó ... ef þú ferð með tímaritin þangað! 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 6.3.2007 kl. 22:51

15 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Hæ Anna mín, þú hafðir ekki birst þegar ég svaraði Maju.  Mikið sakna ég þín, það er orðin ALLT OF LANGT SÍÐAN VIÐ HITTUMST! Ég er ekki að öskra, bara leggja áherslu á þetta, hhahahahha! Náum við hádegismat fljótlega, ég get boðið í mötuneytinu mínu góða eða við hist annars staðar! Þarf endilega að koma til þín smápakka sem þarf seinna að lenda hjá doktor Hönnu! 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 6.3.2007 kl. 23:09

16 identicon

Ég man eftir gamla fjölskyldupabbanum í My Big Fat Greek Wedding sem spreyjaði gluggaþvottaefni á sig til að vera fínn.... - eða var það ekki í þeirri mynd ?

 Annars ertu að gefa mér hugmyndir Gurrí ... (eða þessi vinur þinn réttara sagt) : Mýkingarefni með eplalykt - gæti slegið í gegn (yrði mjúkur líka!) ....

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 23:18

17 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Jú, það var í þeirri mynd ... og hann notaði gluggasprei á allt, frunsur, bólur og hvaðeina, þetta læknaði allt!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 6.3.2007 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 57
  • Sl. viku: 636
  • Frá upphafi: 1505989

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 513
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband