Arrrgggggg!

car_crash_fullÞað hækkaði heldur í mér blóðþrýstingurinn þegar ég "heyrði" hláturinn í bloggheimum yfir stelpukvölinni sem bakkaði yfir tréð á Skólavörðustígnum. Þetta er auðvitað vatn á myllu þeirra sem vilja viðhalda einhverju óskilgreindu stríði á milli kynjanna. "Stelpur eiga ekki að hafa bílpróf, stelpur kunna ekki að bakka osfrv." Ef okkur er sagt nógu oft að við séum léleg í einhverju þá verðum við það, það er ekkert flóknara og þetta heitir innræting. "Æ, heldurðu að þú getir keypt svona dýra íbúð?" "Úps, ég held að þú sért ekki efni í lækni!" "Þú ert nú strákur og þeir eru nú svo klaufskir við að þurrka af."

Ég ólst upp á sjöunda áratugnum og "VISSI" að strákar væru betri bílstjórar, þeir þyrðu alla vega að taka meiri áhættu og stelpur, vissi líka að þeir væru betri í stærðfræði og ótal mörgu öðru. Þegar ég varð efst í algebruprófi í landsprófi trúði ég því varla, þetta hlaut að vera heppni. 

Brandari, karlar keyra ekki á tré!Í hjónabandinu keyrði eiginmaðurinn alltaf bílinn, enda var hann betri bílstjóri en ég vegna þess að ég trúði því. Mér tókst meira að segja að bakka á ljósastaur einu sinni og heyrði þá í milljónasta skiptið að konur væru lélegir bílstjórar. Ég var eiginlega alveg sammála, ég var óvön og óörugg. Aldrei fékk maðurinn minn fyrrverandi að heyra neitt þótt hann keyrði á, þá var bara talað um fjandans óheppni. 

Á seinni árum hef ég sífellt orðið pirraðri á þessu, þetta er svo lítilsvirðandi og þetta er svo rangt. Kynið skiptir ekki máli, alla vega ekki í sambandi við akstur. Besti bílstjóri sem ég þekki er kona, gömul vinkona mín, eitthvað um fimmtugt. Hún er ein af þremur systrum og pabbi þeirra heimtaði að þær tækju allar bílpróf strax 17 ára. Svo lánaði hann þeim bílinn þegar þær vildu, mamman var ekki með próf. Þessi vinkona mín sagðist vera eilíflega þakklát pabba sínum fyrir að hafa alið hana upp eins og strák að þessu leyti. Annað var upp á teningnum hjá flestum vinkonum hennar sem fengu ekki lánaðan fjölskyldubílinn, bara bræðurinir. Þessi vinkona mín er snillingur í að bakka í þröng stæði, leggja við erfiðar aðstæður, aka í hálku ... ekkert skrýtið, það hefur enginn sagt henni frá blautu barnsbeini að hún sé slæmur bílstjóri! Pabbi hennar lagði grunninn. Minn pabbi bjó í Reykjavík og mamma átti ekki bíl.

Ég verð líka ansi pirruð þegar ég heyri eitthvað svona rugl gagnvart karlmönnum, já, ég held sko með þeim líka! Það eru ekkert rosalega mörg ár síðan hlegið var að körlum sem sýndu áhuga á eldamennsku en nú hlær enginn! Það mótmælir heldur enginn ákafar en ég þegar talað er um karlmenn sem drykkfellda svola sem njóta sín best með fótboltaleik á hæsta í sjónvarpinu, bjór í annarri og klámblað í hinni. Það hefur síast inn í okkur margar konurnar að við eigum að vera með fýlusvip á meðan við ryksugum þegar karlinn skemmtir sér yfir fótboltanum á laugardögum. Aumingja karlarnir sem þola ekki fótbolta en eiga að gera það samkvæmt staðalímyndinni! Aumingja ég að hafa ekki farið að horfa á fótbolta fyrr! 

Dýrin í skóginumSérstök kvennaáhugamál sem reynt hefur verið að troða inn á okkur stelpur höfða ekki til mín, a.m.k. ekki ansi mörg þeirra. Ég horfi ekki á Opruh, ég hata búðaráp og vildi frekar eiga jeppa en "konubíl" og ég er sko ekki ein um þetta. Mér finnst mjög gaman að baka og hekla! Einu sinni voru sex konur í viðtali hjá mér í Vikunni þar sem spurt var um áhugamál, uppáhalds ... og annað. Fjórar þeirra nefndu jeppa eða jeppling sem óskabílinn sinn ... hinar tvær nefndu sportbíl! Flestar voru virðulegar frúr, giftar með börn, og á aldrinum 35-50 ára. Bílaumboðin ættu kannski aðeins að breyta því sem þau ota að konum!  

Mikið vildi ég að við hættum að gera svona lítið hvert úr öðru. Ég hef ekki treyst mér út í skítkastið hérna á blogginu ... ekki af heigulsskap. Hef lært af Katrínu minni Snæhólm að maður eigi ekki að eyða orku sinni í að vera á móti hlutunum ... samt er ég kannski að gera það núna ... upp að vissu marki. 

 


mbl.is Bakkað yfir tré á Skólavörðustíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Þetta með að konur kunni ekki að bakka í stæði er bara einhver mýta eins og t.d. það að karlmenn geti ekki þvegið hvítan þvott án þess að rauður sokkur slæðist með og liti þvottinn bleikan.

Annars minnir mig að ég hafi einhvern tímann heyrt vitnað í rannsóknir sem sýna að karlar valda mun alvarlegri umferðarslysum en konur á meðan þær lenda frekar í minniháttaróhöppum eins og að rekast utan í dauða hluti þannig að það er alveg spurning hvort konur séu þá ekki bara betri bílstjórar ef eitthvað er, allavega ef litið er til þessarar staðreyndar.

Svo held ég að stelpur í dag standi alls ekki í þeirri trú að kynferðið setji þeim einhverjar skorður varðandi getu í akstri eða stærðfræði. Það hefur margt breyst í viðhorfum til meintra hlutverka kynjanna á síðustu áratugum og allavega vona ég það að stelpur láti ekki einhverjar eldgamlar staðalmyndir hafa áhrif á sig.

Björg K. Sigurðardóttir, 11.3.2007 kl. 02:17

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Segi það með þér, vona það líka, ... en sífelldar endurtekningar hafa samt áhrif. Vona að þessi "fyndnu" komment um kynin fari að hætta! Þau eru ekkert fyndin.

Lestu bloggfærslur um þetta, sjáðu alla karlana og konurnar sem gera lítið úr stelpunni ... og tala um "konur undir stýri". Líklega er þetta bara skrifað til að æsa mig og fleiri upp! Það hefur þá heppnast!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 11.3.2007 kl. 02:21

3 identicon

Smá innlegg, þar sem þetta var einmitt umræðuefnið í mínum hópi hér í Ameríkunni: Skv. tölum frá tryggingafélögunum þá valda konur færri slysum en karlmenn.  Tölulegar staðreyndir um málið.

Auðvitað er þetta innprentun, fólk trúir því sem stöðugt er verið að hamra á við það.  Það var t.d. einu sinni gerð tilraun með tvær bekkjardeildir sem samsettar voru eins líkar hver annarri og mögulegt var.  Tveir kennarar voru fengnir og öðrum sagt að hann væri að fara að kenna afburðarnemendum, hinum var sagt að nemendurnir sem hann fengi væru óalandi og óferjandi.  Hvað kom í ljós?  Jú einmitt það, að kennarinn fór að haga sér gagnvart nemendum m.v. það sem honum hafði sagt.  Aukaverkunin var að "afburðarnemendurnir" fóru að skara fram úr en hinum fór aftur!

geggjun (IP-tala skráð) 11.3.2007 kl. 05:05

4 Smámynd: Guðrún Eggertsdóttir

Hvor annarri vildi ég sagt hafa hér fyrir ofan.

Guðrún Eggertsdóttir, 11.3.2007 kl. 05:06

5 Smámynd: Ólafur fannberg

kvitt á sunnudagsvakt

Ólafur fannberg, 11.3.2007 kl. 09:14

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Segi það sama og GURRÍ...Æ mér finnst þetta svo krúttlegt og minnir á stórustelpurnar mína þegar þær voru litlar. Karen sú eldri var spekingurinn og talaði fyrir öllu og Sunneva kom alltaf í kjölfarið og sagði.."Segi það sama og Karen"

En já þessara fnajdnas mýtur og staðhæfingar og rugl sem vellur upp úr öllum við als konar tækifæri. Hafiði spá í hversu mikið af svoleiðis rusli við erum að burðast með í gegnum lífið sem litar það alls konar litum sem eru bara svindl og eiga ekki við nein rök að styðast eða staðreyndir? Við getum verið svo viljug að taka alls konar hugmyndir um borð sem einhver ropaði út úr sér einhverntímann sem eru bara prump. Afsakið orðbragðið..og hugsum ekkert meira um ferlið. Tökum það bara til okkar og höldum áfram að drusla því yfir allt og alla og láta það þvælast fyrir okkur. Ég er MEÐ því að við skoðum aðeins betur hvað er hvað og sorterum svo vel hvað er uppbyggjandi og gott og hreinlega hendum hinu. Alveg eins og maður gerir þegar maður flytur. Hendir dralsinu og hirðir verðmætin.

Hey..frábær sunnudagur!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 11.3.2007 kl. 09:52

7 Smámynd: www.zordis.com

Hollt að mynda sér skoðun á því sem snertir mann.  Það er með ólíkindum að smá óhapp á Skólavörðustíg valdi svona miklum bloggusla!  Ég er "ógisslega" góður bakkari og hef fengið hrós frá latnesku goði yfir ökuhæfni mín ..... Ökur-þór-dís ....... en það er nú alltaf þannig að þeir sem hrópa hæst hafa mest að fela og er minnst að marka!  Við getum allt sem við ætlum okkur, viljum og leggjum rækt við að geta!  Eiguð geggjaðan sunnudag!

www.zordis.com, 11.3.2007 kl. 11:34

8 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Verð að taka það á mig að hafa skrifað um stúlkuna og rallgírinn hennar. Hinsvegar er ég alveg sammála að konur eru samkvæmt könnunum öruggari bílstjórar en karlar. Þeir eru allavega alltaf gjarnari á að aka hraðar en aðstæður leyfa og lenda þar af leiðandi oftar í óhöppum og það alvarlegum. Mér finnst nú samt allt í lagi að fólk geri góðlátlegt grín af þessum stöðluðu kynjaímyndum því ekki viljum við lifa í púrítanasamfélagi þar sem allt sem fólk lætur út úr sér verður að vera pólitískt rétt.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 11.3.2007 kl. 12:12

9 Smámynd: bara Maja...

Ég las þetta fyrst hjá þér Gurrí mín og er svo hjartanlega sammála þér, vá hvað það eru margir sem hafa skrifað um þetta atvik, auðvitað er í lagi að brosa að svona óhappi, sérstaklega þar sem enginn slasaðist og heldur ekki tréð, en að klína þessu á að stelpur geti ekki þetta og hitt er bara pirrandi ! kallinn minn eldar mat, ryksugar og þrífur klósettið og gerir það vel,,, þá heyrist að ég hafi alið hann vel upp... BULL ! En þetta er góður dagur !!

bara Maja..., 11.3.2007 kl. 12:42

10 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Guðmundur Ragnar. Auðvitað má gera grín að klaufskum bílstjórum ... þetta vakti bara upp hjá mér þessar pælingar. Ég var reyndar helst til alvarleg í þessu . Auðvitað eru ekki næstum allir sem láta svona út úr sér og stelpur geti ekki þetta og strákar ekki hitt. Það er bara svo fáránlega stutt síðan þetta var lenska ... og er enn hjá sumum. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 11.3.2007 kl. 12:53

11 Smámynd: Eydís Rós Eyglóardóttir

Verandi kona í umferðinni veit ég að við, konur, getum gert allt sem við viljum gera. Atvikið á Skólavörðustíg er engu að síður eitthvað sem fær mann til að brosa, að minnsta kosti út í annað. Verandi löghlýðin manneskja er ég á því að ég sé betri ökumaður en t.d. maðurinn minn. EN lögreglan hefur stoppað mig oftar að tilefnislausu en manninn minn (þar sem ástæða væri til að gripa inni). Lögreglan að minu mati ýtir undir þennan "rógburð" að konur kunni ekki að keyra.

Eydís Rós Eyglóardóttir, 11.3.2007 kl. 13:01

12 Smámynd: Hugarfluga

Æ, ég tek þetta ekki svona inn á mig. En skil þó pælinguna hjá þér.

Hugarfluga, 11.3.2007 kl. 13:06

13 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég hef mikla trú á yngri konunum. Þær hlusta ekki jafnmikið á svona búllsjitt og eru margar svo öruggar með sig, vita að þær geti allt! I love it!!! Ligg á bæn, frú Hugarfluga, að þú sért akkúrat þannig kvendi! 

Mér finnst þetta rosalega fyndið að geta bakkað YFIR tré, hahahahah, og gott að hvorki tré né bíll skemmdust. Vona bara að stelpugreyið æfi sig betur við aksturinn.  

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 11.3.2007 kl. 13:15

14 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

JÁ það er næstum eins og að bakka yfir efstu hæð í blokk Mér finnst allt í lagi að draga fram gamlar mýtur og sýna að maður sé alveg meðvitaður um að fólk burðist með alls konar skrítnar hugmyndir um eitt og annað í lífinu...og enn fremur er ég á því að vera með því sem er fyndið og skemmtilegt og finnst Gurrí einmitt hafa gert svo mikið af því á blogginu sínu að draga það fram sem er broshæft.

Og já..það er eitthvað voða einstakt við þennan sunnudag finnst mér. Sólin skín og veðrið er bara frábært.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 11.3.2007 kl. 13:34

15 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Já, já. Það er enginn munur á konum og körlum undir stýri. Hér í viðbótunum er hinsvegar sagt að karlar valdi alvarlegu slysunum. Er það rétt. Ef allt er skoðað? Já skýrslur benda til þess, en þær skýrslur segja ekkert um hlutfalla kynja. Ekkert um hlutfall ekinna kílómetra. Það flugfélag sem flýgur eina flugferð á dag er ólíklegrar til að verða fyrir óhappi en það flugfélag sem flýgur 500 flugferðir á hverjum degi, er það ekki. Konur taka þátt í akstursíþróttakeppnum, meðal annars í karti. Þær hafa verið í slagnum um fyrsta sætið aftur og aftur, þegar þær hafa verið með. Það sem ég hef séð um æfina er að konur eru jafn góðar og karlar undir stýri. Gott væri að kynin hættu bæði að benda á hitt.

Birgir Þór Bragason, 13.3.2007 kl. 07:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 828
  • Frá upphafi: 1515923

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 701
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband