Æskuheimilisbaðherbergisóþekktarminningabrot

Arnarholt 3Hitti stórskemmtileg hjón á stjórnmálafundinum í dag. Svo skemmtilega vill til að þau búa á gamla æskuheimilinu mínu fyrir aftan Einarsbúð. Ég rifjaði upp skipulag íbúðarinnar en komst að því að búið er að breyta heilmiklu. Meira að segja er óafmáanlega krotið eftir mig á í baðherberginu horfið.

Forsagan: Mamma hafði skipað mér að vera inn á baði þar til ég gæti hagað mér skikkanlega en þetta var ekki meiri betrunarvist en það að ég tók lítil skæri úr baðskápnum og skar út í hurðargerektið: Mamma asni. Þar sem enginn á heimilinu kunni á sandpappír voru þessi orð lengi þarna til minningar um óþekkt mína.

BaðherbergiBaðherbergið var uppspretta mikilla ævintýra en eitt sinn fyllti ég baðvaskinn af vatni og setti allt saltið úr bauknum út í til að búa til öldur. Minnir að ég hafi verið með handklæði til að taka á móti mesta vatnsflaumnum. Sjór er saltur, þess vegna koma öldur. Hvílík vonbrigði. Akkúrat inni á þessu sama baði benti ég á pakka og spurði mömmu: „Hvað er þetta?“

Fékk langan, svolítið þvingaðan fyrirlestur þar sem nokkur orð voru mikið notuð: mánaðarlega, dömubindi, túr, eignast börn. Gleymi ekki hvað mér þótti ógnvænlegt að þurfa að fara í reiðtúr einu sinni í mánuði með bindi um hálsinn. Allt til að geta eignast börn. Kveið því eiginlega mjög að verða fullorðin. Þarna hefði nægt að segja bara grisjur! Eina orðið sem ég þekkti sem tengdist orðinu túr var reiðtúr og ég var hálfhrædd við hesta!  

Minnir á brandarann þegar strákarnir komu hlaupandi til mömmu sinnar og spurðu:

„Mamma, hvað heitir það þarna þegar fólk sefur hvort ofan á öðru?“
„Uuuu, eigið þið við að elskast, hafa samfarir, sofa hjá?“ spurði móðirin vandræðalega, enda strákarnir ansi ungir. „Ohhh, nei,“ kveinuðu strákarnir. Mamman taldi upp nokkur fleiri atriði innan siðsamlegra marka en strákarnir hristu hausana, alveg gáttaðir. Að lokum kallaði annar þeirra til vinar bræðranna sem beið frammi á gangi:
„Jói, hvað heitir þetta aftur sem þú varst að tala um, þegar fólk sefur hvort ofan á öðru?“
„Sofa í koju!“ svaraði Jói.

Borat

Jæja, nú á aldeilis að hafa það gott í kvöld.

 

Ég ætla að horfa á James Bond og Borat og lesa Predikarann, nýja kilju sem lofar góðu! Eftir hana þarna Camillu ... eitthvað. Æ, bókin er í suðausturhorni íbúðarinnar og ég fyrir vestan.  Meira um hana síðar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

heheheheh þú hefur svo sannarlegar verið óþekk stúlka.

Það er einhvern veginn þannig að allar bækur eru bragðlausar síðan ég las Flugdrekahauparann og Á ég að gæta systur minnnar?

Ætli ég þurfi að fara að skrifa?

Æ vonder....... ;)

Hrönn Sigurðardóttir, 24.3.2007 kl. 21:58

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Er svo gjörsamlega búin áþví eftir að hafa verið með tvö barnabörn hér til næturgistingar. Oliver frá London og hana Jenny Unu.  Gaman en við "gömlu hjónin" alveg örþreytt.  Nú verður tjillað smá og farið að lúlla.

Hefði aldrei sett á prent hvað mér fannst um foreldra mína þegar ég reiddist þeim, stóð út við húsvegg og blótaði þeim fram og til baka.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.3.2007 kl. 22:26

3 Smámynd: Saumakonan

aj aj aj...óþekktarangi hefurðu verið!   hmm.. minnir mig á minn eigin skæruliða sem gerir allt sem hann má ekki þessa dagana *dæs*

Saumakonan, 24.3.2007 kl. 23:06

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Já, þetta var nú ekki fallegt. Réttlætiskennd minni var eitthvað misboðið, minnir mig!

Hmm, þessi börn. Ef ég var óþekk við son minn hótaði hann mér því að ég fengi ekki að koma í afmælið hans. Þetta var það versta sem hann hélt að hann gæti gert mér. Hahahahhaha! Ég sem trúði ekki á líf eftir barnaafmæli lengi vel ... 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 24.3.2007 kl. 23:17

5 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Þú hefur verið dásamlega skemmtilegur óþekktarormur! Mamma asni er dásamleg tjáning krakka sem er reiður útí mömmu sína. Ég hefði aldrei týmt að taka þetta í burtu!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 25.3.2007 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 34
  • Sl. sólarhring: 47
  • Sl. viku: 1283
  • Frá upphafi: 1513021

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 1089
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Straujárn
  • Stráksi
  • Hnetusmjör

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband