Leyfi til barnahalds!

WordsearchLosnaði snemma og sýndi snilldartakta við að leysa þrælþunga wordsearch-gátu í strætó á heimleiðinni. Á ensku, auðvitað. Svo dimmdi í vagninum þegar við ókum niður í göngin, fattaði ekki að biðja bílstjórann um að fara fyrir Hvalfjörðinn svo að ég gæti haldið áfram.

Eftir stutta kaffihússferð hélt ég heim á leið í heimilisverkina ... en hef ekki nennt neinu enn. Skyldan fyrst ... eða Boldið, ég rétt mundi eftir því. Ekkert nýtt gerst í rauninni. Aumingja Brooke var kastað á dyr og núna er hún í faðmlögum við fyrrverandi kærasta, núverandi tilvonandi tengdason, allt í mestu vináttu þó.

Þriðja augað er svo virkt hjá mér að ég veit að akkúrat núna í þáttunum í USA er hún að velta fyrir sér að skilja við Ridge og taka saman við Nick. Nick huggar hana innilega á Íslandstíma og einmitt þá kemur Bridget í dyrnar og heyrir hann segja að tilvonandi tengdó, ásamt litlu börnunum hennar tveimur, sem hún á með Ridge og fyrrum eiginmanni Bridget, sé þungamiðja lífs hans núna!

 -    -    -    -    -    -    -    -    -    
Held að Skagamenn séu orðnir vitlausir. Hér á Skaga býr kona sem hefur megna óbeit á kindum, kisum og krökkum. Hún kaupir ábyggilega aldrei neitt í Einarsbúð sem byrjar á K-i. Bændur eru argir út í hana fyrir kindahatrið ... heit, neikvæð blaðaskrif um þessar dúllur, hún hefur líka ráðist að köttum fyrir að koma inn í garðinn hennar. Hún hefur greinilega óbeit á krökkum líka en í næstöftustu opnunni í Póstinum, einu uppáhaldsblaðinu mínu, má nefnilega lesa eftirfarandi:

Barnasamþykkt á AkranesiBarnafólk á Akranesi
Akraneskaupstaður og Heilbrigðiseftirlit Vesturlands vilja benda íbúum Akraneskaupstaðar á nýja barnasamþykkt frá 12. september 2006.
Þar kemur skýrt fram að sækja þarf um leyfi til barnahalds á Akranesi og að ekki sé leyfilegt að hafa fleiri en tvö börn eldri en þriggja mánaða á sama heimili.

Árlega ber leyfishafa að framvísa vottorði barnalæknis um að barnið hafi verið bólusett. Akraneskaupstaður ábyrgðartryggir öll skráð börn sem greitt er leyfisgjald af hjá viðurkenndu tryggingafélagi.

Skylt er leyfishafa að láta barnið ávallt bera lambhúshettu með bjöllu, auk plötu sem skráningarnúmer og símanúmer hans er letrað á. Leyfishafa ber að sjá svo um að barn hans valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði, né raski ró manna. O.s.frv.

 -   -   -   -   -   -   -   -

KettirÞetta er nú meira ruglið, nema ég misskilji eitthvað. Vissi ekki að ein kona hefði svona mikil áhrif á bæjarstjórnina. Ég hélt að æskilegt væri að börn stunduðu útileiki. Ég hef iðulega vaknað af værum blundi við læti í börnum, þau hafa tvisvar gert bjölluat hjá mér, börn (fyrrum íbúa) krössuðu með litum á gluggakistuna mína í stigaganginum, börn stytta sér leið yfir garða, skemma blóm og valda kannski einhverjum skaða ... en hvað með það, þetta eru sæt kvikindi sem ættu að hafa sama tilverurétt og fullorðna fólkið.

Hvað næst? Kettir kannski?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sorry, síðan hvenær hefur barnahald verið leyft á Akranesi?????? Ná ekki barnaverndarlög yfir illa meðferð á börnum????

Jónsi (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 18:23

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Hingað til höfum vér Skagamenn ekki þurft barnaleyfi ... bara hlaðið niður sætum krökkum, svona eins og kanínur. Nú á að stoppa þetta ... svo hægt sé að rækta blóm, alla vega í einum garði á Akranesi. Veit fólk ekki að álpappír og appelsínubörkur eru mögnuð vopn á barnakvikindin? 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 4.4.2007 kl. 18:27

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Iss hvað á það að þýða að vera að hlaða niður ómegð þarna á Skaganum.  Þið öll komin af Jóni Hreggviðssyni frá Rein, þeim auma fanti og fóli.  Gott hjá bæjarstjórninni.  Ætli það verði ekki ráðiðist að köttunum næst frú Guðríður, þessum mönnum er ekkert heilagt.

Jenný Anna Baldursdóttir, 4.4.2007 kl. 18:49

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Mig grunar það ... það hefur verið ansi ríkjandi hjá þessari þjóð okkar að amast við dýrum. Fólk segir enn að dýr eigi bara að vera í sveit! Hundarnir í sveitinni í gamla daga hlupu ekki um allt "frjálsir", heldur voru þeir kúgaðir, fengu vondan mat og biðu undirgefnir í þvottahúsinu eftir húsbóndanum! (alla vega í tveimur "sveitum" af fjórum). 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 4.4.2007 kl. 19:11

5 identicon

Skítt með krakkakvikindin, verra með málleysingjana ef taka á þau fyrir næst. Þá ættir þú að hafa samband við Dýraverndarsamtökin, Hundavinafélagið, Kynjaketti og Kattavinafélagið og bjóða þeim öllum í Normalbrauðssamloku í ónefndum garði hjá ónefndri áhrifamikilli konu  Ættum að taka Tjallana til fyrirmyndar; ef barni og hundi semur ekki á heimilinu þá gefa þeir barnið til ættleiðingar, sjáðu bara Betu gömlu; hvor eru betur alin upp? Börnin eða hundarnir?

Jónsi (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 19:36

6 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Æ litlu kisurnar vonadi verða þær látnar í friði.

Kristín Katla Árnadóttir, 4.4.2007 kl. 20:09

7 Smámynd: Ólafur fannberg

kvittós i þetta sinnið hehe

Ólafur fannberg, 4.4.2007 kl. 22:13

8 identicon

Fór að horfa á boldið, bara til að sjá það sem þú ert búin að vera að skrifa um. Þetta hefurðu nú á samviskunni góða :) nema hvað... í hvert skipti sem eitthvað gerðist heyrði ég í undirmeðvitundinni rödd yðar frú mín góð lýsa atburðarásinni... og þá hló ég eins og vitleysingur

Sigga www.kvika.net (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 23:25

9 identicon

Og hmmm... já. Kannski ekki alveg rétta færslan til að setja þessa athugasemd við, en smá plögg fyrir barnið mitt. Drengurinn og hljómsveitin hans eru að fara að spila í Tjarnarbíói föstudaginn 13. ásamt Leaves. Er ekki orðið of seint fyrir tilkynningu? Myspacið þeirra er www.myspace.com/spellthesound 

Sigga www.kvika.net (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 23:28

10 Smámynd: Svava S. Steinars

Finnst það vera skylda bæjarfélagsins að bjóða fólki upp á sérstök svæði þar sem hægt er að fara og viðra börnin, þau verða helmingi verri ef þau fá ekki að hlaupa smávegis.  Hvað er btw. gert við þá sem brjóta gegn samþykktinni góðu ?  Eru þeir skotnir á færi ?

Svava S. Steinars, 5.4.2007 kl. 12:04

11 identicon

Jamm... nema komist hafi upp um kellu og Fr. Guðríður kannski haldið börn án leyfis   Anna, þú ættir kannski að renna þér í gegnum rörið á þeim kattarþvegna og beila dömuna út

P.s. Nema frökenin hafi verið á ferð með lyklakippuna sína í nótt og sé svefnþurfi......

Jónsi (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 14:38

12 identicon

Heitir tad ekki 111. medferd a dyrum?

GEggjun (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 49
  • Sl. viku: 488
  • Frá upphafi: 1526882

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 412
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Magpie Murders

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband