Aðgát skal höfð ...

Ég fleygði út tæplega tveggja mánaða gamalli færslu og það hef ég ekki gert áður. Hef verið döpur í nokkra daga eftir að ég frétti viðbrögð við henni. Hélt að það væri kannski ekkert sniðugt að rifja þetta upp en mig langar að gera það og biðjast afsökunar í leiðinni.

Rauði bolurinnÞað var þegar ég horfði á fallegasta djúprauða bol í heimi í búðinni hennar Nínu hérna á Skaganum og gat ekki keypt mér hann því hann var bara allt of lítill á mig. Ég fékk kurteislega athugasemd frá ungri stúlku sem leysir stöku sinnum af í búðinni, eitthvað um að bolurinn tilheyrði unglingadeild, væri fyrir yngri, eitthvað svoleiðis. Það sem ég heyrði var: „Þetta er ekki fyrir þig, gamla, ljóta geit!“ Slíkt hefði þessi stúlka auðvitað aldrei látið út úr sér, enda var hún búin að snúast í kringum mig og var mjög fín í afgreiðslunni.

Ef ég hefði heyrt eitthvað svona í annarri búð þá hefði ég líklega hváð og spurt betur út í þetta en af því að stúlkan hafði verið svo indæl þagði ég og klagaði í Ellýju þegar við vorum komnar út í bíl. Svo skrifaði ég um þetta á blogginu mínu og fékk smyrsl á sárin frá elsku bloggvinunum og gleymdi þessu svo bara.

Þótt Skaginn sé stór er hann engin stórborg og fyrir nokkrum dögum frétti ég að bloggfærslan mín hefði sært ungu stúlkuna og hún líklega fengið athugasemdir ... Svo voru engin nöfn nefnd þannig að flest starfsfólkið í búðinni kom til greina sem ... dónar! Og það var sko ekki meiningin. Þetta er nefnilega ekki spurning um hvað er sagt við mann ... heldur hvernig maður tekur því. Nína hefur sagt mér að allt í búðinni hennar henti öllum, óháð aldri, hún, langamman sjálf, gengur í öllu, enda mikil skvísa. Þannig að ég er farin að hallast að því að unga stúlkan (sem ég veit ekki hvað heitir) hafi talað um unglingastærð á bolnum ... og það er eitthvað sem brjóstgóðar konur reyna ekki að troða sér í. Af því að ég fæ alltaf svo góða þjónustu í Nínu frá öllum, ekki síst ungu stelpunni þennan dag, lét ég ekki á neinu bera og grínaðist bara þótt ég væri kannski ekki mjög kát. Segir kannski meira um mig ...

Mig langar að biðja ungu stúlkuna, sem var bara hjálpleg og góð, innilega afsökunar á þessu og vona að hún lendi ekki oftar í svona kerlingaherfum eins og mér ... og ég mun sjálf passa mig í framtíðinni, ekki þegja og setja svo allt á bloggið. Ég vil líka biðja alla hina hjá Nínu afsökunar. Þetta er frábær búð, eins og ég hef alltaf sagt hér á blogginu og ég vil ekki að þetta sverti ástkært samband mitt við uppáhaldsbúðina mína sem ég hef verslað við í mörg ár.

Þegar ég bjó í bænum kom ég stundum upp á Skaga til að kaupa mér jólafötin hjá Nínu ... þetta er þannig búð sem tískubúðahatara, eins og mér, líður samt vel í. Ég ætla að fara í búðina eftir helgi og reyna að hitta stúlkuna og tala við hana í eigin persónu. Það versta sem ég veit er ef ég særi einhvern með vanhugsuðum orðum.

 -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -  

Einu sinni kommentaði ég hjá bloggvinkonu sem var að skammast út í Gunnar í Krossinum yfir einhverju sem hann lét út úr sér í Kastljósi. Ég er sannarlega ekki alltaf sammála honum Gunnari en ég held að hann sé góður maður sem vill vel og hann hefur fullan rétt á skoðunum sínum ... en ég sagði á kommentinu að „svona fólki eins og Gunnari ætti ekki að hleypa í sjónvarp,” eða eitthvað slíkt. Svo um leið og ég var búin að ýta á SEND dauðsá ég eftir þessum orðum sem voru sögð í hita augnabliksins. Orð hafa ábyrgð. Einhver óskráður sá reyndar ástæðu til að skamma mig nokkru síðar fyrir þetta í gestabókinni minni en ég kaus að svara því ekki, enda finnst mér gestabókin ekki vera umræðuvettvangur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Mér finnst nú stúlkan hefði getað sagð: Því miður, hann er bara til í svo litlum númerum að það er hálf fáránlegt!

Margrét St Hafsteinsdóttir, 27.4.2007 kl. 19:54

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Önnur stúlka var að afgreiða mig, þessi stóð bara við hliðina á mér. Það er bara hræðilegt að finna fallegasta bol í heimi ... og allt búið í medium og large! Myndin nær ekki einu sinni litnum á bolnum, vona heitt og innilega að það komi fleira í þessum lit.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 27.4.2007 kl. 19:59

3 Smámynd: Heiða B. Heiðars

...ertu að segja að maður þurfi að hugsa áður en maður talar/skrifar?   Sæt og einlæg afsökunarbeiðni Gurrí pæja! Og trúðu mér.. ég er sérfræðingur í afsökunarbeiðnum... munnurinn á mér er miklu hressari en heilinn

Heiða B. Heiðars, 27.4.2007 kl. 20:02

4 Smámynd: www.zordis.com

Það er eitt að móðga án þess að gera sér grein .... (let me know .... get verið ömurleg) Já, að vera orðhvass og óhlífinn á orðavalið þegar hitagolan skellur á!  Ég hef farið og beðið afsökunar á framferði mínu og mér leið betur en samt ekki!  Gangi þér vel

www.zordis.com, 27.4.2007 kl. 20:10

5 Smámynd: Hugarfluga

Sætt af þér, Gurrí mín. Þú þarft heldur engan fagurrauðan bol til að lúkka vel ... þú ert áreiðanlega sæt í öllu.

Hugarfluga, 27.4.2007 kl. 20:37

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Hæ krúttó, ég trúi þér þegar þú segir að stelpan hafi ekki átt þetta skilið. Kannski varstu að taka hana sem dæmi um raunverulegt tillitsleysi annars afgreiðslufólks, sem er vissulega til í dæminu. En mér finnst þú sæt að taka málið upp og senda þeim svona sæta kveðju. Og þótt lítil samfélög hafi vissulega sína kosti, þá finnst mér í rauninni það sem þú ert að segja draga fram það besta í smærri samfélögum, samkennd og að láta sig varða um tilfinningar fólksins í kringum þig. Frábært!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 27.4.2007 kl. 21:15

7 Smámynd: SigrúnSveitó

SigrúnSveitó, 27.4.2007 kl. 21:35

8 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Veistu það það  þú ert stórkvendi!!!!!Alltaf merki um það þegar fók kann að biðjast afsökunar og leiðrétta það sem fór úrskeiðis. Getur bjargað mörgum mannslífum og sálarheill. Flott mín undurfagra elskaða vinkona.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 27.4.2007 kl. 21:40

9 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Þú ert stór kona - og þá á ég ekki við að þú sért feit......

smjúts

Hrönn Sigurðardóttir, 27.4.2007 kl. 22:14

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú ert stór kona (ekki að segja að þú sért feit) að geta beðið afsökunar og meint það.  Ég er samt handviss um að þú hefur ekki lagt upp með að særa neinn.  Hvernig er bakið??

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.4.2007 kl. 22:14

11 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

hahahahah Jenný - erum við tvíburar?

Hrönn Sigurðardóttir, 27.4.2007 kl. 22:20

12 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Hahahahha, þið rokkið FEITT!!! Bakið er miklu betra!!!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 27.4.2007 kl. 22:22

13 identicon

Þa bara sona!!! Baráttuandinn blásinn burt. Hvað borgaði Nína þér fyrir "greiðann" ?? Pantaði kannski rauða bolinn í Super Extra Large fyrir þig svo þú yrðir ánægð!! Það er sko framsóknarfnykur af svona greiðasemi!

P.s. Ég er ekkert að gefa í skyn að þú ættir að versla í "Stórum Stelpum"

Jónsi (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 22:30

14 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Jónsi minn, vera stilltur!!! Baráttuandinn er auðvitað enn til staðar! Bíddu bara eftir næstu bíómynd!  

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 27.4.2007 kl. 23:02

15 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Ég man vel eftir þessari skemmtilegu færslu um anorexiu-gínuna í rauða bolnum. Samvkæmt minni upplifur varst þú nú bara að gera nett grín að sjálfri þér eins og einatt áður - og augljóst var að þú ætlaðir ekki að særa einn né neinn. Það er nefnilega kórrétt, að spurningin er oft hvernig maður upplifir orðin sem sögð eru, ekki endilega orðin sjálf per se. Eða þannig. - Góðan áframbata í bakinu!

PS: Ég ætla pottþétt að kíkja við hjá Nínu einhvern tímann!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 27.4.2007 kl. 23:23

16 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Pant vera lóðsinn! Síðan gott kaffi í Skrúðgarðinum við hliðina ... og aftur gott kaffi í himnaríki!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 27.4.2007 kl. 23:27

17 Smámynd: Ragnheiður

Frábært hjá þér...enda greinilega alvörukona á ferð. Og ég sagði ekki F... frekar en jenný

Ragnheiður , 27.4.2007 kl. 23:37

18 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Við Hrönn erum andlegir tvíburar, eineggja í þokkabót.  Skrifuðum eins orðaða færslu á sömu mínútunni.  How brilliant can women be???

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.4.2007 kl. 23:59

19 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Mér finnst þetta stórmerkilegt og leyfi mér að trúa því að þið hafið ekki verið í símasambandi þegar þetta var skrifað. Þetta er frábært!!! Þið rokkið!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 28.4.2007 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 626
  • Frá upphafi: 1506025

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 512
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband